Starfssvið umboðsmanns o.fl. Málskot til æðra stjórnvalds út af húsnæðisbótum.

(Mál nr. 24/1988)

Máli lokið með bréfi, dags. 9. ágúst 1988.

A og B var synjað um greiðslu húsnæðisbóta skv. c-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 92/1987. Í bréfi til A og B og bréfi til fjármálaráðuneytis, dags. 9. ágúst 1988, lýsti ég þeirri skoðun minni að nefndri synjun skattstjóra yrði skotið til fjármálaráðuneytisins til úrskurðar og benti ég A og B á að senda ráðuneytinu greinargerð fyrir sjónarmiðum sínum. Jafnframt óskaði ég eftir því að ráðuneytið léti mig vita, hvaða ákvörðun það tæki í máli þessu. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 22. ágúst 1988, til A og B kom fram, að það teldi eðlilegast, í samræmi við auglýsingu um álagningu opinberra gjalda á árinu 1988, að þau snéru sér til skattstjóra með athugasemdir sínar. Síðar hefur verið upplýst, að ríkisskattanefnd telur sig bæra til að fjalla um þessi mál.