Lagareglur um gjafsókn. Ábending um breytingar á lagareglum um gjafsókn.

(Mál nr. 35/1988)

Máli lokið með bréfi, dags. 20. september 1988.Með tilvísun til 11. gr. laga nr.13/1987, um umboðsmann Alþingis, ritaði umboðsmaður dómsmálaráðherra bréf hinn 20. september 1988 og lagði til að lagareglum um gjafsókn í Xl. kafla laga nr. 85/1936 yrði breytt til samræmis við 3. tl.10. gr. í reglum nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, og heimilt yrði að veita gjafsókn að tillögu umboðsmanns og með rýmri skilyrðum en nú gilda um gjafsókn.Bréf mitt til dómsmálaráðherra, dags. 20. september 1988, fer hér á eftir:

„I.

Í reglum þeim, sem Alþingi setti með ályktun í sameinuðu þingi 2. maí 1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, segir svo, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 10. gr.:

„3. Varði kvörtun réttarágreining, sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr, getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Honum er heimilt að leggja til við dómsmálaráðuneyti að það veiti gjafsókn í því skyni.“

Í áliti allsherjarnefndar (þskj. 947) frá 27. apríl 1988 segir meðal annars, að nefndin leggi mikla áherslu á, að umboðsmaður Alþingis fái heimild til að veita gjafsókn, þar sem um nýtt embætti sé að ræða, sem ætlað sé að stuðla að réttarbótum í þjóðfélaginu og treysta rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum. Gerði nefndin að tillögu sinni, að næsta reglulegt Alþingi tæki til sérstakrar athugunar ákvæði I. kafla laga nr. 85/1936, um gjafsókn. Allsherjarnefnd fjallaði í þessu áliti um tillögu til þingsályktunar um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.

Í lögum nr. 85/1936 eru ekki sérstök ákvæði um gjafsókn að tillögu umboðsmanns Alþingis. Ég tel hins vegar rétt, eins og kemur fram í umræddu áliti allsherjarnefndar sameinaðs þings, að tekið verði til athugunar, hvort ekki sé rétt að setja slík ákvæði. Tel ég raunar ekki fullnægjandi, að slík ákvæði séu einungis í starfsreglum umboðsmanns. Það er skoðun mín, að eðlilegt geti reynst að ágreiningur um mikilvæg réttaratriði á sviði stjórnarfars verði leystur fyrir dómstólum og að slíkur málarekstur verði kostaður af almannafé. Tel ég jafnframt, að í slíkum tilvikum gæti verið rétt að rýmka skilyrði gjafsóknar frá því, sem er í núgildandi lögum.

II.

Bæði í Danmörku og Noregi eru í lögum ákvæði um gjafsókn að tillögu umboðsmanns.

I. Danmörk.

Í starfsreglum umboðsmanns danska þjóðþingsins (Instruks for folketingets ombudsmand) nr. 48/1962 eru ákvæði um gjafsókn. Þar segir, að umboðsmaður geti beint því til aðila, sem til hans kvartar, að hann geti leitað úrlausnar dómstóla um kvörtunarefni, ef umboðsmaður telur rétt, að dómstólar leysi úr því. Er síðan tekið fram í umræddu ákvæði, að umboðsmaður geti lagt til, að fullnægðum skilyrðum réttarfarslaga, að gjafsókn verði veitt, ef aðili hyggst höfða mál á hendur stjórnvöldum ríkis eða sveitarfélaga vegna atvika, sem starfssvið umboðsmanns nær til. Sama máli gegnir um fyrirhugaða málsókn á hendur aðila, sem rækir eða hefur rækt starf í þjónustu ríkis eða sveitarfélaga.

Umboðsmaður danska þjóðþingsins hefur oft notfært sér ofangreinda heimild. Í framkvæmd hefur alltaf verið farið að tillögum umboðsmanns um veitingu gjafsóknar.

II. Noregur.

Í 19. gr. laga nr. 35/1980, um lögfræðiaðstoð án endurgjalds, er mælt fyrir um skyldu dómstóla til að veita einkaaðilum gjafsókn í málum, sem umboðsmaður norska Stórþingsins hefur mælt með að yrðu útkljáð af dómstólum. Gjafsókn er hér veitt án tillits til efnahags aðila.

Ofangreint gjafsóknarákvæði er nýtt af nálinni í norskum lögum. Í Noregi hefur verið lögð áhersla á, að dómstólar leysi úr ágreiningi, ef stjórnvöld hafa ekki farið eftir áliti umboðsmanns. Í slíkum tilvikum sé rétt að veita gjafsókn að tillögu umboðsmanns án tillits til efnahags málsaðila (Odelstings proposisjon nr. 35/1979-1980, bls. 78). Hefur verið talið, að fyrst og fremst reyni á þessar reglur, þegar mikill vafi ríkir um gildandi lög. Gjafsókn hefur, enn sem komið er, sjaldan verið veitt samkvæmt umræddri heimild og stafar það fyrst og fremst af því, að stjórnvöld hlíta yfirleitt áliti umboðsmanns.

III.

Með tilvísun til þess, sem að framan hefur verið rakið, og 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er það tillaga mín að samið verði frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum XI. kafla laga nr. 85/1936, um gjafsókn, og það síðan lagt fyrir Alþingi. Frumvarp þetta miði að því að heimila gjafsókn að tillögu umboðsmanns Alþingis og með rýmri skilyrðum en nú gilda um gjafsókn. Ég vænti þess, að ég verði látinn vita um framvindu máls þessa.“

Í árslok höfðu mér ekki borist upplýsingar um hver hefði orðið framvinda þessa máls hjá dómsmálaráðuneytinu.

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 19. desember 1990, óskaði ég upplýsinga dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í máli þessu í tilefni af bréfi mínu, dags. 20. september 1988. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 30. janúar 1991, hljóðar þannig:

„Vísað er til bréfa yðar herra umboðsmaður, dags. 20. september 1988, 24. janúar 1990 og 19 desember 1990, þar sem þér lýsið þeirri skoðun yðar að rétt væri að breyta ákvæðum XI. kafla laga nr. 85/1936 um gjafsókn til samræmis við 3. tl. 10. gr. í reglum nr. 82/1988 um störf og starfshætti um¬boðsmanns Alþingis.

Af ofangreindu tilefni sendist yður frumvarp til laga um opinbera réttaraðstoð sem lagt hefur verið fram á Alþingi en frumvarpið var samið af nefnd sem dómsmálaráðherra skipaði til þess í maímánuði 1988.

Í V. kafla frumvarpsins sem fjallar um gjafsókn og gjaf¬vörn er í 14. gr. gert ráð fyrir að sérstök nefnd, gjafsókn¬arnefnd, fjalli um gjafsóknarbeiðnir. Ekki er sérstaklega vikið að því hvernig nefndin skuli fara með gjafsóknarbeiðnir þar sem umboðsmaður Alþingis mælir með því að gjafsókn verði veitt, en í 16. gr. frumvarpsins segir að ráðherra geti, ef sérstaklega standi á, veitt gjafsókn, enda þótt skilyrðum 15. gr., þ.e. skilyrðum er varða efnahag umsækjenda, sé ekki fullnægt. Til álita komi einkum mál, þar sem tekist er á um grundvallaratriði við lagatúlkun, fjallað um mikilvæga hagsmuni almennings eða málið hefur verulega þýðingu fyrir atvinnu og félagslega stöðu umsækjanda. Gjafsóknarleyfi verði þó ekki veitt á grundvelli þessa nema gjafsóknarnefnd hafi fjallað um umsókn og mælt með því að gjafsókn verði veitt.

Við mat á því hvort veita beri gjafsókn á grundvelli ofannefnds ákvæðis og með hliðsjón af 3. tl. 10. gr. reglna um störf og starfsháttu umboðsmanns Alþingis, sem settar voru með þingsályktun, hlýtur álit umboðsmanns að ráða úrslitum, þannig að ef umboðsmaður mælir með gjafsókn, yrði hún væntanlega jafnan veitt.

Ráðuneytið telur rétt að benda á að í III. kafla frumvarps til laga um opinbera réttaraðstoð er fjallað um réttaraðstoð í einstökum málum. Er í 5. gr. lagt til að menn geti notið aðstoðar vegna kvörtunar til umboðsmanns Alþingis.“