Atvinnuréttindi leigubifreiðastjóra. Svipting leyfis til aksturs leigubifreiða vegna ákvæða reglugerðar um hámarksaldur leigubifreiðastjóra.

(Mál nr. 20/1988)

Máli lokið með áliti, dags. 27. febrúar 1988.

Samkvæmt l. mgr. l6. gr. reglugerðar nr. 293/1985, um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík, var leigubifreiðastjórum gert að leggja inn atvinnuleyfi sín fyrir l. júlí næsta ár eftir að þeir urðu 75 ára. Gildistöku þessa ákvæðis var þó frestað til l. júlí 1988. Þrír leigubifreiðastjórar, sem gert var að leggja inn atvinnuleyfi síu í samræmi við þessa reglu, töldu ákvæðið andstætt lögum. Umboðsmaður taldi að umrætt reglugerðarákvæði hefði ekki nægilega lagastoð og tók fram að undirritun undir umsókn, þar sem umsækjandi skuldbatt sig til að hlíta ákvæðum reglugerðar um leigubifreiðaakstur, eins og hún yrði á hverjum tíma, viki ekki burt grundvallarreglum um nauðsyn lagaheimildar og lögbundna stjórnsýslu.

Ég tók til meðferðar þrjú mál af ofangreindu tilefni. Álit mín í þessum þremur málum eru að mestu samhljóða. Fer fyrsta álitið, dags. 13. október 1988, hér á eftir, lítillega stytt, en þar á eftir verður gerð grein fyrir málsatvikum og niðurstöðum í hinum tveimur málunum, að því marki sem þær víkja frá fyrsta álitinu.

A lagði fram kvörtun 4. júlí 1988 af sama tilefni og um er fjallað í máli nr. 22/1988. A er fæddur ... og fékk fyrst ökuskírteini í nóvember 1931. Hann öðlaðist leyfi til þess að stjórna leigubifreið til mannflutninga 11. nóvember 1946 og sótti um leyfi til reksturs leigubifreiðar til mannflutninga samkvæmt reglugerð nr. 13/1956, um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík og ráðstöfun atvinnuleyfa, að því er ætla verður, en þá hafði A afgreiðslu fyrir bifreið sína hjá Hreyfli s.f. í Reykjavík. A mun sennilega hafa verið úthlutað atvinnuleyfi á árinu 1956. Hann hætti leigubifreiðaakstri fyrir um það bil þremur árum vegna heilsubrests. Frá þeim tíma mun hann hafa notið undanþágu til þess að láta annan mann annast aksturinn fyrir sig.

Ég óskaði með bréfi, dags. 16. nóvember 1988, eftir því að samgönguráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Ráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 23. nóvember 1988, og vísaði til bréfs þess frá 5. september 1988, sem gerð er grein fyrir í máli nr. 22/1988 hér að framan. Jafnframt sagði í bréfi ráðuneytisins frá 23. nóvember 1988:

“Á það er fallist með yður, hr. umboðsmaður Alþingis, að ástæða er til að

endurskoða lög um leigubifreiðar í heild. Sú endurskoðun er á byrjunarstigi og er að því stefnt að frumvarp til laga um leigubifreiðar verði tilbúið fljótlega eftir næstu áramót. Þar verður að öllum líkindum lagt til, að atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs falli niður þegar leyfishafi verður 75 ára.

Ráðuneytið mun ekki hlutast til um, að þeir leyfishafar, sem gert var að leggja inn atvinnuleyfi sín fyrir 1. júlí 1988, fái atvinnuleyfi sín á ný og vísar þar til rökstuðnings í bréfi sínu til yðar, dags. 5. september s.l.“

Ég lauk máli þessu með áliti hinn 30. desember 1988 og var niðurstaða þess samhljóða áliti í máli nr. 22/1988, sem rakið er hér að fram, að viðbættu eftirfarandi:

„Samkvæmt bréfi samgönguráðuneytisins frá 23. nóvember 1988 mun ráðuneytið á grundvelli þeirra ástæðna, sem fram koma í bréfi þess, dags. 5. september 1988, og ég hef hér tekið afstöðu til, ekki hlutast til um að A fái atvinnuleyfi sitt aftur, né aðrir þeir sem gert hefur verið að leggja inn atvinnuleyfi sín fyrir 1. júlí 1988. Með vísan til þess, sem á undan er sagt, tel ég þessa ákvörðun ráðuneytisins óviðunandi, þar sem ég tel, að lög hafi verið brotin á A.“