Stjórnun fiskveiða. Skilyrði leyfis til hörpudiskveiða. Rannsóknarregla.

(Mál nr. 659/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 30. ágúst 1993.

Hlutafélagið A kvartaði yfir synjun sjávarútvegsráðuneytisins á því að gefa út leyfi til hörpudiskveiða í firðinum Y fyrir bátinn P. Báturinn hafði haft leyfi til hörpudiskveiða árið 1989, en árið 1990 var leyfi ekki úthlutað til bátsins, öndvert við aðra báta í Y. Umsókn um veiðileyfi, sem A kvaðst hafa sent með símskeyti 9. nóvember 1990, og ítrekunum í janúar og mars 1991, var synjað af sjávarútvegsráðuneytinu 8. apríl 1991. Byggðist synjunin á því að bát A hefði ekki verið veitt veiðileyfi fyrir árið 1990 og ætti því, samkvæmt IV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, ekki rétt á leyfi til hörpudiskveiða árið 1991. Í skýringum sjávarútvegsráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að ekki hefði verið tekin afstaða til umsóknar A um veiðileyfi fyrir árið 1990 fyrir árslok það ár, líklega vegna þess að umsókn A hefði misfarist. Hefðu ítrekanir A verið afgreiddar sem umsóknir vegna ársins 1991. Þá kom fram að á árinu 1990 hefðu legið fyrir ráðuneytinu upplýsingar um sölu P til annars útgerðaraðila, og hefði því ekki komið til að P ætti rétt á veiðileyfi árið 1990, þar sem hann uppfyllti ekki það skilyrði fyrir veitingu slíkra leyfa, að vera skráður á C og gerður út frá C.

Í áliti umboðsmanns kom fram að skilyrði um skráningu, útgerð og lögheimili eigenda hefðu verið sett á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 78/1978 um skelfiskveiðar og 12. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990. Taldi umboðsmaður að ekki yrði séð að skilyrðin hefðu gengið lengra en lög eða efni stóðu til. Ganga yrði út frá því, að A hefði sótt um veiðileyfið í nóvember 1990. Af umsókninni yrði á hinn bóginn ekki ráðið, hvort hún hefði fullnægt skilyrðunum. Þrátt fyrir það hefði sjávarútvegsráðuneytinu borið að taka afstöðu til umsóknarinnar, að undangenginni öflun nauðsynlegra gagna. Mæltist umboðsmaður til þess að ráðuneytið tæki málið upp að nýju, yrði eftir því leitað af hálfu A. Yrði þá aflað tiltækra gagna og afstaða tekin á ný til réttar A til umrædds veiðileyfis og um slíkt leyfi fyrir síðari veiðitímabil, eftir því sem efni stæðu til.

I. Kvörtun.

Hinn 24. ágúst 1992 bar B, hæstaréttarlögmaður, fram kvörtun fyrir hönd A h.f., til heimilis að C, í tilefni af synjun sjávarútvegsráðuneytisins frá 2. október 1991 um útgáfu leyfis til hörpudiskveiða í Y-firði, fyrir bátinn P.

Í bréfi A h.f. 19. ágúst 1992, til lögmannsins, er málavöxtum lýst á þann veg, að bátur félagsins P hafi í mörg ár verið gerður út á rækju- og hörpudiskveiðar í Y-firði. Á árinu 1989 hafi báturinn verið annar af tveimur bátum, er stunduðu hörpudiskveiðar í firðinum. Sumarið 1990 hefði báturinn verið gerður út á línuveiðar frá X-firði, en vegna bilunar í spili hans ekki reynst unnt að hefja hörpudiskveiðarnar í upphafi vertíðar, en fyrirhugað hafi verið að hefja þær strax að loknum viðgerðum. Síðan segir svo bréfi A h.f.:

"Hörpudiskveiðar byrjuðu í september þetta haust. Engir bátar frá [C] sóttu um veiðileyfi til ráðuneytisins, en 9 bátar fengu óbeðið póstsend hörpudiskveiðileyfi. Af einhverjum dularfullum ástæðum fékk v/s [P] hins vegar ekki sent hörpudiskveiðileyfi.

Þegar spilviðgerðinni var lokið og farið að síga á seinni hluta hörpudiskvertíðarinnar í byrjun nóvember 1990, var formlega óskað eftir veiðileyfi með skeyti til sjávarútvegsráðuneytisins þann 9/11 1990. Mikilvægt var að fá veiðileyfi útgefið á árinu 1990 vegna lagaákvæða um leyfaútgáfu eftir 1/1 1991, sem byggjast átti á leyfaútgáfu ársins á undan. Enda þótt hörpudiskveiðum hinna bátanna lyki í byrjun nóvember 1990, þegar þeir hættu veiðum löngu áður en hörpudiskkvótanum væri náð, var ætlunin að v/s [P] veiddi sinn kvóta eftir að leyfi hefði borist.

Þetta haust stunduðu aðeins 7 bátar hörpudiskveiðar í [Y]-firði og veiddu 262 tonn af 400 tonna kvóta.

Allir 9 bátarnir, sem fengu óbeðið send hörpudiskveiðileyfi haustið 1990, fengu sína hörpudiskveiðikvóta í [Y]-firði árið 1991, enda þótt aðeins 7 þeirra hefðu stundað veiðar í september-nóvember 1990. Aðeins v/s [P] fékk ekki sitt veiðileyfi útgefið á árinu 1990 og því ekki heldur hörpudiskveiðikvóta í [Y]-firði 1991 né síðan.

Reynt var að fá hörpudiskveiðileyfið útgefið með munnlegum ítrekunum í desember 1990 en án árangurs.

Enn var beiðnin ítrekuð með bréfum 21. janúar og 27. mars 1991. Með skriflegu svari dags. 8/4 1991 var synjað um leyfisútgáfu á þeim forsendum, að skipinu hefði aldrei verið veitt leyfi til hörpudiskveiða á [Y]-firði almanaksárið 1990.

Loks var reynt til þrautar að fá sjávarútvegsráðuneytið til að leiðrétta handvömm sína með bréfi 11/7 1991.

Þeirri málaleitan svaraði ráðuneytið 2/10 1991 og hafnaði leiðréttingu."

II. Málavextir.

Hinn 24. október 1989 gaf sjávarútvegsráðuneytið út leyfi til skipstjórans á P til hörpudiskveiða í Y-firði 1989. Í leyfinu er vísað til 3. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990 og til reglugerðar nr. 78/1978 um skelfiskveiðar. Tekið er fram, að leyfið gildi frá útgáfudegi þar til því aflahámarki hafi verið náð, sem ráðuneytið kynni að ákveða, "en þó ekki lengur en til 31. desember 1989".

Með símskeyti 9. nóvember 1990 óskaði A h.f. eftir því, að sjávarútvegsráðuneytið sendi félaginu "leyfi til rækju og skelveiða á [Y]-firði 1990-1991" fyrir bát félagsins P. A h.f. ítrekaði umsókn sína með bréfi 21. janúar 1991 og aftur með bréfi 27. mars 1991. Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins 8. apríl 1991, sagði svo:

"Með vísan til bréfa yðar dags. 21. janúar 1991 og 27. mars 1991 vill ráðuneytið taka fram að við úthlutun aflahlutdeildar til hörpudisksbáta var byggt á ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 þar sem segir að úthlutað skuli í samræmi við hlutdeild viðkomandi skips í heildarúthlutun á viðkomandi veiðisvæði á því tímabili, sem síðast lauk áður en lögin komu til framkvæmda.

M.b. [P] var aldrei veitt leyfi til hörpudiskveiða á [Y]-firði almanaksárið 1990, sem er það veiðitímabil sem síðast lauk áður en tilvitnuð lög komu til framkvæmda. Af þeim ástæðum eignaðist báturinn aldrei hlut í heildarúthlutun á hörpudiski veiddum í [Y]-firði.

Af þeirri ástæðu synjar ráðuneytið erindi yðar."

Með bréfi 11. júlí 1991 mótmælti A h.f. synjun sjávarútvegsráðuneytisins og óskaði eftir því á ný, að P yrði veitt leyfi til veiða í Y-firði. Í bréfi A h.f. segir meðal annars:

"3. Vertíðir í [Y]-firði hafa yfirleitt verið frá hausti til vors. Á síðustu hörpudiskvertíð 1989-1990 stunduðu aðeins tveir bátar hörpudiskveiðar í [Y]-firði, þeir [P] og [S]. Reyndar er veiðileyfi þeirra haustið 1989 aðeins til áramóta, þar sem rækjuvertíð tók þá við af hörpudiskvertíðinni um haustið, en áður fyrr var oft haldið áfram hörpudiskveiðum í janúar. Og rækjuvertíð er frá hausti til vors nú sem fyrr.

4. Ef fylgt hefði verið réttum reglum ættu aðeins þessir tveir bátar að hafa hörpudiskveiðirétt í [Y]-firði.

5. Synjun ráðuneytisins á útgáfu hörpudiskveiðileyfis fyrir v/s [P] í [Y]-firði virðist byggð á þeirri handvömm ráðuneytisins sjálfs að gefa ekki út hörpudiskveiðileyfi strax að móttekinni umsókn 9/11 1990.

[...]

Væntum við þess að ráðuneytið leiðrétti strax þessi mistök og gefi nú þegar út hörpudiskveiðileyfi fyrir skipið."

Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 2. október 1991 sagði:

"Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, dags. 11. f.m., varðandi hörpudiskveiðiheimildir í [Y]-firði fyrir v/s [P].

Í tilefni af bréfinu vill ráðuneytið taka fram að veiðitímabil við hörpudiskveiðar miðuðust fram að gildistöku l. nr. 38/1990 ávallt við almanaksárið. Fiskveiðiráðgjöf var miðuð við það tímabil sem og ákvarðanir um heildarafla og voru leyfisbréf til þeirra veiða ávallt gefin út með gildistíma miðað við áramót. Fullyrðingar í bréfi fyrirtækisins um að veiðitímabil hafi verið miðuð við aðrar dagsetningar eru því úr lausu lofti gripnar. Það veiðitímabil sem síðast lauk áður en l. nr. 38/1990 komu til framkvæmda í skilningi IV. ákvæðis til bráðabirgða í þeim lögum var því almanaksárið 1990.

Á almanaksárinu 1990 var [P] ekki veitt leyfi til hörpudiskveiða á [Y]-firði eins og rakið er í bréfi ráðuneytisins, dags. 8. apríl s.l. Haustið 1990 var til afgreiðslu í ráðuneytinu beiðni [Þ], um framsal rækjukvóta skipsins til [...] og vitneskja lá fyrir í ráðuneytinu um að báturinn var gerður út á línu frá [X] af [Þ] h.f. fram yfir mánaðamótin október/nóvember 1990. Veiðum á hörpudisk í [Y]-firði lauk í nóvemberbyrjun og mun síðasti löndunardagur bátanna hafa verið 2. nóvember. Á því tímabili sem hörpudiskveiðar voru í raun stundaðar í [Y]-firði árið 1990 hafði útgerð bátsins því ekki þau tengsl við [C] sem jafnan hafa verið forsenda fyrir útgáfu veiðileyfa til rækju og hörpudiskveiða í [Y]-firði sbr. 12. gr. l. nr. 3/1988.

Þegar umsókn um veiðileyfi, dags. 9. nóvember 1990, barst ráðuneytinu var komið nærri áramótum og hörpudiskveiðum í raun lokið í [Y]-firði sem og móttöku hörpudisks hjá [A] h.f. og því ekki tilefni til að verða við beiðninni.

Með vísan til framanritaðs ítrekar ráðuneytið þá afstöðu sem fram kom í bréfi þess til [A] h.f., dags. 8. apríl s.l."

III. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi 22. september 1992 óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að sjávarútvegsráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A h.f. og léti mér í té gögn málsins. Í skýringum sjávarútvegsráðuneytisins 4. nóvember 1992 sagði meðal annars:

"Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða við lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, bar að úthluta á árinu 1991 aflahlutdeild í hörpuskelfiski í samræmi við hlutdeild skips í heildarúthlutun á viðkomandi veiðisvæði, á því veiðitímabili sem síðast lauk áður en lögin komu til framkvæmda. Lögin komu til framkvæmda 1. janúar 1991 sbr. 23. gr. laganna, en síðasta veiðitímabil í skelveiðum í [Y]-firði, áður en lögin komu til framkvæmda, lauk 2. nóvember 1990 er [A] h.f. hætti móttöku á skel til vinnslu. [A] hf., [C], hefur eitt fyrirtækja heimild til vinnslu á hörpuskel úr [Y]-firði.

Á skelveiðitímabili því, sem lauk 2. nóvember 1990, fékk m/b [P] ekki leyfi til skelveiða í [Y]-firði og var ráðuneytinu því óheimilt að veita bátnum rækjuveiðileyfi og þar með aflahlutdeild í skelveiðum á [Y]-firði á árinu 1991, skv. 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða við lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða."

Með bréfi 16. nóvember 1992 gaf ég lögmanni A h.f. kost á að senda mér athugasemdir sínar við framangreint bréf sjávarútvegsráðuneytisins. Athugasemdir lögmannsins bárust mér með bréfi hans 27. nóvember 1992 og kom þar meðal annars fram:

"Í tilefni af bréfi ráðuneytisins leyfi ég mér að vekja athygli yðar á, að þar er talið að síðasta veiðitímabili í skelveiðum á [Y]-firði, áður en lög nr. 38/1990 komu til framkvæmda, hafi lokið 2. nóvember 1990, "er [A] hf. hætti móttöku á skel til vinnslu". Hér virðist vera á ferðinni ný afstaða um þetta af hálfu ráðuneytisins. Þannig sagði í bréfi þess 8. apríl 1991, að almanaksárið 1990 hafi verið það veiðitímabil, sem síðast hafi lokið, áður en l. nr. 38/1990 hafi komið til framkvæmda. Og í bréfi ráðuneytisins 2. október 1991 segir svo: "Það veiðitímabil sem síðast lauk áður en l. nr. 38/1990 komu til framkvæmda í skilningi IV. ákvæðis til bráðabirgða í þeim lögum var því almanaksárið 1990."

Vitaskuld er það rétt, að þetta veiðitímabil stóð til ársloka. Skal tekið fram að [A] hf. (kærandi) hefði tekið á móti skel til vinnslu úr báti sínum mb [P] allan þann tíma.

Athygli vekur að í bréfi ráðuneytisins er ekki vikið einu orði að því, hvers vegna mb. [P] fékk ekki sent hörpudiskveiðileyfi haustið 1990 eins og 9 aðrir bátar. Þar var um að ræða handvömm ráðuneytisins rétt eins og það var handvömm að afgreiða ekki umbeðið veiðileyfi þegar í stað við móttöku skeytisins 9. nóvember 1990. Þessi réttarbrot geta aldrei réttlætt synjun á útgáfu veiðileyfis til bátsins 1991 og síðar."

IV.

Hinn 26. janúar 1993 ritaði ég sjávarútvegsráðuneytinu á ný bréf, þar sem ég tók meðal annars fram, að ég liti svo á, að kvörtun A h.f. lyti fyrst og fremst að því, hvort A h.f. hafi átt rétt á leyfi til hörpudiskveiða í Y-firði fyrir bátinn P í samræmi við umsókn félagsins 9. nóvember 1990. Vísaði ég því til 7. gr. laga nr. 13/1987 og óskaði upplýsinga um eftirtalin atriði:

"1) Hvaða reglur eða skilyrði sjávarútvegsráðuneytið hafi sett um veitingu leyfa til hörpudiskveiða í [Y]-firði á árunum 1989 og 1990 og hvernig hafi verið staðið að útgáfu veiðileyfanna.

2) Hvernig tímabil hörpudiskveiða í [Y]-firði hafi verið ákveðin. Óska ég eftir því, að mér verði látin í té í ljósriti öll leyfisbréf, er gefin voru út til hörpudiskveiða í [Y]-firði árin 1989 og 1990.

3) Hvort framangreindar reglur eða skilyrði og veiðitímabil, sem vísað er til í 1) og 2) hér á undan, hafi verið auglýst eða tilkynnt hlutaðeigendum með einhverjum hætti."

Með bréfi mínu til ráðuneytisins fylgdu í ljósriti athugasemdir lögmanns A h.f. við bréf sjávarútvegsráðuneytisins frá 4. nóvember 1992. Óskaði ég eftir því, að ráðuneytið sendi mér þær athugasemdir, sem það teldi ástæðu til að gera í tilefni af bréfi lögmannsins. Umbeðnar upplýsingar og athugasemdir bárust mér síðan með bréfi sjávarútvegsráðuneytisins 16. mars 1993. Í bréfi ráðuneytisins sagði:

"Í bréfi yðar óskið þér eftir að ráðuneytið veiti upplýsingar um tilgreind atriði er lúta að veitingu leyfa til hörpudiskveiða í [Y]-firði og verður leitast við að svara þeim hér á eftir:

1. Á árunum 1989 og 1990 voru skilyrði fyrir veitingu leyfa til skelveiða í [Y]-firði þessi:

A. Hlutaðeigandi bátur væri skráður frá [C] og gerður út frá þeirri verstöð.

B. Eigandi bátsins ætti lögheimili við [Y]-fjörð væri um einstakling að ræða. Væri félag skráð sem eigandi bátsins var það skilyrði, að meirihluti eignar væri í höndum aðila með lögheimili við [Y]-fjörð og félagið skráð við [Y]-fjörð.

Ofangreindar reglur hafa verið óbreyttar um langt árabil en auk þeirra skilyrða sem tilgreind eru hér að ofan skal þess getið að ákveðnar reglur hafa verið um stærðir þeirra báta sem veiðileyfi fá til innfjarðaveiða. Þær reglur hafa hins vegar tekið breytingum en þar sem þessar reglur skipta ekki máli varðandi mál þetta verða þær ekki raktar hér nánar.

2. Varðandi veiðitímabil í hörpudiski á [Y]-firði skal það haft í huga að aðeins einn vinnsluaðili, [A] hf., hefur einkarétt á vinnslu, bæði á rækju og hörpudiski úr [Y]-firði. Ennfremur að yfirleitt eru það sömu bátarnir sem stunda veiðar á hörpudiski og rækju. Vegna þessa fara veiðar á rækju og hörpudiski ekki fram á sama tíma. Hörpudiskveiðar hafa verið stundaðar óreglulega og í raun fallið að mestu niður sum ár ef verð á hörpudiski er lágt, t.d. 1989. Rækjuveiðarnar eru miklu þýðingarmeiri, bæði fyrir veiðar og vinnslu. Rækjuvertíð hefst venjulega á haustin og upp úr miðjum október eða í byrjun nóvember og stendur fram í apríl. Veiðar á hörpudiski hafa helst farið fram fyrir rækjuvertíð á haustin eða eftir vertíð á vorin. Á árunum 1989 og 1990 fóru hörpudiskveiðarnar eingöngu fram á haustin fyrir rækjuvertíð.

Til ársloka 1990 miðaðist fiskveiðiráðgjöf almennt við almanaksárið og ákvarðanir um heildarafla í hörpudiski sömuleiðis. Leyfi til hörpudiskveiða voru hins vegar á þessum árum gefin út þegar bátarnir sóttu um þau og oft hafði áður verið staðfest af hálfu vinnsluaðila að vinnsla stæði til. Hins vegar er varla hægt að segja að nein föst regla hafi verið á framkvæmd við leyfisútgáfu. Þegar leyfi til hörpudiskveiða hafa verið gefin út hefur gildistími þeirra að jafnaði verið til næstu áramóta eða uns því aflamarki er náð sem tilgreint er í leyfinu væri það fyrr. Þá getur skelvertíð í raun lokið fyrr, t.d. ef bátar hætta veiðum eða fyrirtækið hættir móttöku á hörpudiski til vinnslu t.d. vegna þess að það hyggst snúa sér að vinnslu á rækju. Hjálögð eru ljósrit af leyfum þeim sem gefin voru út á árunum 1989 og 1990 [...].

Varðandi veiðar og vinnslu á skel og rækju úr [Y]-firði er rétt að það komi fram, að allmikill ágreiningur hefur tíðum verið milli vinnsluleyfishafa og sjómanna á [C], einkum varðandi veiðitímabil á skel og rækju. Hefur iðulega komið upp sú staða, að sjómenn hafa viljað fara til rækjuveiða en vinnsluaðilar aftur á móti ekki viljað hefja vinnslu strax eða viljað fá skel til vinnslu. Ráðuneytið hefur forðast að hafa afskipti af þessum ágreiningi og gefið út leyfi, bæði til veiða á rækju og skel þegar umsækjandi fullnægir settum skilyrðum enda hafi Hafrannsóknastofnun lagt til að veiðar megi hefjast.

3. Reglur um úthlutun veiðileyfa til hörpudiskveiða á [Y]-firði sbr. lið 1. hafa verið óbreyttar um nokkurt árabil. Ekki hafa þær verið auglýstar eða kynntar hlutaðeigandi með formlegum hætti.

Hér er um að ræða efnislega sömu reglur, sem giltu um úthlutun leyfa til allra innfjarðaveiða á skel og rækju þ.m.t. á [Y]-firði til ársloka 1990. Hafa þessar reglur verið í gildi lengi og voru þær á sínum tíma ákveðnar í samræmi við hagsmunaaðila við hlutaðeigandi veiðisvæði. Má segja, að allar þessar reglur séu fyrst og fremst til komnar vegna krafna sjómanna og útgerðarmanna við viðkomandi veiðisvæði og hafa þær verið öllum hlutaðeigandi kunnar.

Vegna umsóknar um veiðileyfi til hörpudiskveiða fyrir m/b [P], sem ráðuneytinu mun hafa verið sent í skeyti 9. nóvember 1990, vill ráðuneytið láta fram koma, að því höfðu borist upplýsingar um að [Þ] hf. á [X] hefði keypt m/b [P] og hafði ráðuneytinu m.a. borist kaupsamningur ásamt tilkynningu dags. 25.10.1990 þar sem [G] á [X] ráðstafaði veiðiheimildum af bátnum [...]. Ennfremur var ljóst, að [G] sendi inn aflaskýrslur fyrir bátinn frá því í maí 1990 til ársloka 1990. Undirritaði ýmist [G] eða [H] aflaskýrslurnar sem skipstjóri eða útgerðarmaður bátsins [...]. Jafnframt kemur fram á aflaskýrslum, að útgerðarstaður bátsins er [X]. Þessar breytingar í rekstri bátsins hefðu einar út af fyrir sig nægt til þess að bátnum hefði verið synjað um veiðileyfi til hörpudiskveiða þar sem báturinn var ekki gerður út frá [C].

Á þetta atriði reyndi hins vegar ekki þar sem ekki var tekin afstaða til umsóknarinnar um skelveiðileyfi frá 9. nóvember 1990 fyrir árslok það ár. Ekki er mögulegt að segja með fullri vissu af hvaða orsökum það var ekki gert, en trúlegasta skýringin er sú, að umsóknin hafi misfarist og ekki komist í réttar hendur. Því til stuðnings vill ráðuneytið benda á að í byrjun árs 1991 sendi [A] hf. ráðuneytinu ljósrit af umsókninni frá 9. nóvember. [A] ítrekaði ekki umsókn sína fyrr en með bréfi dags. 21. janúar 1991 [...] og þá beindist umsóknin að veiðileyfi fyrir árið 1991. Þeirri umsókn var síðan hafnað eftir aðra ítrekun frá [A] dags. 27. mars 1991 [...] með bréfi ráðuneytisins dags. 8. apríl 1991 [...]. Enn sendi [A] hf. bréf varðandi þetta mál dags. 11. júlí 1991 [...] sem ráðuneytið svaraði með bréfi dags. 2. október 1991 [...]. Þann drátt sem varð á svörum ráðuneytisins við afgreiðslu þessa máls vill ráðuneytið skýra þannig að jafnhliða bréfaskiftunum fóru fram á tímabilinu tíðar viðræður milli aðila vegna þessa máls.

Eins og áður hefur verið rakið fóru veiðar á hörpudiski á árinu 1990 fram um haustið og voru leyfi til veiða öll gefin út 12. september, að einu undanskildu, sem gefið var út 2. nóvember, sem var síðasti dagurinn sem [A] hf. tók á móti skel til vinnslu það ár.

Leyfi til rækjuveiða voru síðan gefin út 26. október 1990 og þá send umsækjendum frá [C], sem fullnægðu settum skilyrðum til veitingar rækjuveiðileyfis [...]. Samkvæmt framansögðu taldi ráðuneyti að m/b [P] fullnægði ekki settum skilyrðum til þess að fá rækjuveiðileyfi þar sem báturinn væri gerður út frá [X] og eigandi hans búsettur þar samanber það sem áður er rakið. [A] hf. hélt því hins vegar fram að sala bátsins hefði gengið til baka og báturinn væri aftur kominn í eigu [A] hf. Féllst ráðuneytið á að veita bátnum rækjuveiðileyfi 19. desember 1990 [...].

Varðandi umsókn um leyfi til hörpudiskveiða fyrir m/b [P] frá 9. nóvember vill ráðuneytið árétta að engin gögn eru í ráðuneytinu um þá umsókn. Umsóknin er fyrst ítrekuð með bréfi dags. 21. janúar 1991 og er því ljóst að þá verður bátnum ekki veitt leyfi til hörpudiskveiða á árinu 1990. Ráðuneytið varð því að taka afstöðu til þess bréfs eins og um umsókn um leyfi til veiða á árinu 1991 væri að ræða.

Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis IV. til bráðabirgða við lög nr. 38/1990 var aðeins heimilt að veita þeim bátum aflahlutdeild í hörpudiski á [Y]-firði sem aflahlutdeild höfðu á því veiðisvæði á því tímabili sem síðast lauk áður en lögin komu til framkvæmda 1. janúar 1991.

Enda þótt formlegur gildistími leyfa til skelveiða útgefnum á árinu 1990 hafi verið til 31. desember 1990 verður að líta svo á að skelvertíð á árinu 1990 hafi í raun lokið 2. nóvember 1990. En það sem hér skiptir fyrst og fremst máli er, að samkvæmt þeim reglum, sem í gildi voru á þessum tíma átti báturinn ekki kost á leyfi. Ráðuneytið hefði synjað m/b [P] um leyfi til skelveiða á [Y]-firði á árinu 1990 hefði afstaða verið tekin til umsóknarinnar frá 9. nóvember 1990. Sú afstaða ráðuneytisins hefði mótast af því fyrst og fremst að báturinn var ekki gerður út frá [C] á því tímabili, sem skelveiðar voru stundaðar á [Y]-firði, sbr. aflaskýrslu fyrir bátinn fyrir október og nóvember 1990. Ennfremur hefði ráðuneytið synjað bátnum um leyfi til skelveiða þar sem umsókn barst eftir að þeim veiðum var lokið og sýnt að þær yrðu ekki stundaðar til áramóta þar sem móttöku á skel til vinnslu hjá [A] hf. var lokið.

Ráðuneytið gat ekki litið öðruvísi á en að ítrekunin frá 21. janúar beindist að leyfi til skelveiða á árinu 1991. Þar sem m.b. [P] hafði ekki fengið leyfi til skelveiða á árinu 1990 og ekki átt rétt á slíku leyfi hafnaði ráðuneytið beiðninni, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í l. nr. 38/1990. Jafnframt vill ráðuneytið árétta, að umsóknin frá 9. nóvember 1990 er ekki ítrekuð fyrr en 21. janúar 1991 þrátt fyrir að á sama tíma hafi aðilar átt í viðræðum vegna rækjuveiðileyfis fyrir sama bát."

Með bréfi 17. mars 1993 gaf ég lögmanni A h.f. kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af bréfi sjávarútvegsráðuneytisins. Í svarbréfi lögmannsins 29. apríl 1993 vísaði hann til athugasemda A h.f. í bréfi félagsins frá 20. apríl 1993 og yfirlýsingar frá Þ h.f. 5. apríl 1993 um að ekkert hefði orðið úr áformuðum viðskiptum á árinu 1990 um kaup á P og rækjuveiðiheimildum bátsins.

Með bréfi, dags. 25. júní 1993, óskaði ég, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, eftir upplýsingum frá Póst- og símamálastofnuninni um reglur þær, sem giltu um varðveislu símskeyta og kvittana fyrir móttöku þeirra. Lét ég fylgja ljósrit af símskeyti því, sem fylgdi kvörtun A h.f. og sent var sjávarútvegsráðuneytinu 9. nóvember 1990. Óskaði ég eftir því, að mér yrðu sérstaklega látin í té þau gögn, sem stofnunin kynni að hafa um sendingu og móttöku þess.

Í svari Póst- og símamálastofnunarinnar frá 5. júlí s.l. kom fram að ekki væri hægt að verða við þessari beiðni, þar sem þegar væri búið að brenna umrædd gögn, en bréfinu fylgdi ljósrit af ákvæðum Póst- og símamálastjórnar um ritsíma og talsímaafgreiðslu.

V. Álit umboðsmanns Alþings.

Niðurstaða álits míns, dags. 30. ágúst 1993, var svohljóðandi:

"Samkvæmt 2. mgr. IV. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sem komu til framkvæmda 1. janúar 1991, skal úthluta aflahlutdeild í svæðisbundnum veiðum hörpuskelfisks í samræmi við hlutdeild viðkomandi skips í heildarúthlutun á því veiðisvæði, sem í hlut á, á því veiðitímabili, sem síðast lauk, áður en lögin komu til framkvæmda. Réttur A h.f. til að halda bátnum P til hörpudiskveiða á Y-firði, eftir að lög nr. 38/1990 komu til framkvæmda, réðst þannig af því, hvort bátnum fylgdi aflahlutdeild í þessum veiðum á árinu 1990.

Miðað við þau leyfi, sem gefin voru út til hörpudiskveiða á Y-firði á árinu 1990, skyldu leyfin gilda "frá 3. september þar til samanlagður afli úr Y-firði hefur náð 400 lestum en þó ekki lengur en til 31. desember 1990". Samkvæmt upplýsingum sjávarútvegsráðuneytisins voru þau skilyrði sett fyrir veitingu slíkra veiðileyfa á árinu 1990, að hlutaðeigandi bátur væri skráður frá C og væri gerður út þaðan. Auk þess voru gerðar ákveðnar kröfur um lögheimili eiganda. Skilyrði þessi voru sett á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 78/1978 um skelfiskveiðar og 12. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990. Verður ekki séð, að þessi skilyrði hafi gengið lengra en lög eða efni stóðu til.

Miðað við þau gögn, sem fyrir mig hafa verið lögð, verður að ganga út frá því, að 9. nóvember 1990 hafi A h.f. sótt til sjávarútvegsráðuneytisins um leyfi til hörpudiskveiða á Y-firði, en ekki verður séð að sú umsókn hafi verið studd fullnægjandi gögnum, að því er tekur til skilyrða þeirra, sem þá giltu og áður er lýst. Engu að síður bar sjávarútvegsráðuneytinu að taka afstöðu til þessarar umsóknar, að undangenginni öflun nauðsynlegra gagna. Liggja enn ekki fyrir í málinu óræk gögn um það, hvort báturinn uppfyllti umrædd skilyrði, þegar um leyfið var sótt.

Ætla má, að enn sé unnt að afla gagna um það, hvort fullnægt var áðurnefndum skilyrðum um veitingu leyfis til slíkra veiða, þegar umsókn um það barst. Tel ég því rétt að mælast til þess, að sjávarútvegsráðuneytið taki málið upp að nýju, ef eftir því verður leitað af hálfu A h.f. Verði aflað tiltækra gagna um þetta efni og afstaða tekin á ný til réttar A h.f. til leyfis til handa P til veiða á Y-firði 1990. Í framhaldi af því taki ráðuneytið ákvörðun um slíkt leyfi fyrir síðari veiðitímabil, eftir því sem efni standa til."

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi, dags. 5. nóvember 1993, óskaði ég eftir upplýsingum frá sjávarútvegsráðherra um það, hvort ósk hefði komið fram frá A h.f. um það, að sjávarútvegsráðuneytið tæki mál sitt til meðferðar á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 10. nóvember 1993, vísaði ráðuneytið til bréfaskipta, sem hefðu átt sér stað í framhaldi af framangreindu áliti. Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til A h.f. 1. nóvember 1993, kom fram sú afstaða ráðuneytisins, að A h.f. teldist hafa haft rétt til leyfis til handa P til hörpudiskveiða á Y-firði 1990 og var bátnum úthlutað fastri aflahlutdeild í hörpudiskveiðunum á Y-firði samkvæmt 2. mgr. IV. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 38/1990.