Mannanöfn. Skylda til töku íslensks eiginnafns við veitingu ríkisfangs.

(Mál nr. 236/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 27. maí 1991.

I.

A kvartaði yfir því að sonur hennar fengi ekki að halda nafninu Ývan/Ívan óbreyttu við töku íslensks ríkisborgararéttar. A kvartaði einnig yfir því, að heimspekideild Háskóla Íslands skyldi hafa vald til að banna notkun tiltekinna mannanafna, ef þau væru ekki talin falla nægilega vel að íslenskri tungu. Væru með þessu skert sjálfsögð mannréttindi. Í bréfi mínu til A, dags. 27. maí 1991, sagði m.a. svo:

"1) Syni yðar var veittur íslenskur ríkisborgararéttur skv. 33. tl. 1. gr. laga nr. 35/1989 um veitingu ríkisborgararéttar. Í 2. gr. þeirra laga segir:

"Nú fær maður, sem heitir erlendu nafni íslenskt ríkisfang með lögum, og skulu þá börn hans, fædd síðan, heita íslenskum nöfnum samkvæmt lögum um mannanöfn, en hann skal, þá er hann hlýtur íslenskt ríkisfang, taka sér íslenskt eiginnafn - ásamt því sem hann ber fyrir - er börn hans taka sem kenningarnafn. Honum skal þó heimilt ef hann kýs heldur, að breyta svo eiginnafni sínu að það fullnægi kröfum laga um mannanöfn."

Í samræmi við þetta ákvæði laganna ritaði dómsmálaráðuneytið bréf, dags. 23. maí 1989, þar sem fram kom að yfirlýsing um íslenskt ríkisfang væri bundin því skilyrði, að sonur yðar tæki sér íslenskt eiginnafn. Þá kom einnig fram, að þess yrði að gæta að nafnið væri íslenskt eða fylgdi íslenskri málvenju, sbr. 4. gr. laga nr. 54/1925 um mannanöfn, sem voru í gildi, þegar málið var til meðferðar í ráðuneytinu. Þá var bent á, að yður væri heimilt að óska eftir því, að nafni sonar yðar yrði breytt að öllu leyti til samræmis við íslenska nafnalöggjöf. Þar sem ekki kom fram ósk um annað nafn en Ývan [...], fór dómsmálaráðuneytið þess á leit við heimspekideild Háskóla Íslands samkvæmt 4. gr. laga nr. 54/1925, að deildin léti í té umsögn sína um það, hvort nafnið Ývan teldist rétt að lögum íslenskrar tungu. Niðurstaða heimspekideildar var sú, að Ývan teldist ekki íslenskt nafn og að Ývan/Ívan ætti sér enga hefð í íslensku máli. Á grundvelli þessa var beiðni um að sonur yðar fengi að halda nafninu Ývan/Ívan hafnað með bréfi dómsmálaráðuneytisins 18. janúar 1990.

Í 68. gr. stjórnarskrárinnar segir meðal annars, að enginn útlendingur geti fengið ríkisborgararétt nema með lögum. Í samræmi við þetta segir í 6. gr. laga nr. 100/1952 um íslenskan ríkisborgararétt, að ríkisborgararétt megi veita með lögum samkvæmt stjórnarskránni. Hefur þetta verið framkvæmt með þeim hætti, að á hverju þingi eru afgreidd sérstök lög, þar sem tilgreindum einstaklingum er veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Með lögum nr. 25/1952 um veitingu ríkisborgararéttar var í fyrsta skipti sett það skilyrði, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli áður en þeir öðlast íslenskt ríkisfang, hafa fengið íslensk nöfn samkvæmt lögum nr. 54/1925. Nánast samhljóða skilyrði var sett í lög um veitingu ríkisborgararéttar á hverju ári, þar til lög nr. 57/1981 voru sett. Í 2. gr. þeirra laga var ákvæðið fært í það horf, sem kemur fram í 2. gr. laga 35/1989 og tekið er upp hér að framan. Með því er í reynd slakað nokkuð á þessu skilyrði, sem áður hafði verið sett. Samkvæmt fyrri málslið 2. gr. geta þeir, sem bera erlent nafn haldið sínu nafni, en verða að taka sér annað íslenskt eiginnafn, sem börn þeirra, fædd síðar, skulu taka sem kenningarnafn. Í samræmi við 1. gr. laga nr. 54/1925 er eðlilegt að túlka þetta svo, að viðkomandi geti þó aldrei borið fleiri en eitt erlent eiginnafn ásamt hinu íslenska. Samkvæmt síðari málslið 2. gr. geta menn þó breytt eiginnafni sínu svo, að það fullnægi kröfum laga um mannanöfn. Samkvæmt þessu var það skilyrði sett, að sonur yðar tæki íslenskt nafn eða breytti svo nafni sínu, að það félli að íslenskri tungu.

Í 4. gr. laga um mannanöfn nr. 54/1925 segir:

"Ekki mega menn bera önnur nöfn en þau sem rétt eru að lögum íslenskrar tungu. Prestar skulu hafa eftirlit með, að þessum ákvæðum sé fylgt. Rísi ágreiningur um nafn, sker heimspekideild háskólans úr."

Sem fyrr segir, var beiðni yðar um að sonur yðar fengi að halda nafni sínu Ývan/Ívan [...] hafnað, þar sem það var ekki talið falla að lögum íslenskrar tungu. Þetta var í samræmi við þá niðurstöðu heimspekideildar Háskóla Íslands, að nafnið Ývan/Ívan fullnægði ekki þessu skilyrði laganna og ætti sér enga hefð í íslensku máli. Ég tel að þau sjónarmið, sem dómsmálaráðuneytið hefur lagt til grundvallar þeirri ákvörðun, að synja beiðni yðar um að sonur yðar haldi nafninu Ývan/Ívan, sé í samræmi við þau lagafyrirmæli, sem ég hef hér rakið. Þá gefur athugun mín ekki tilefni til að vefengja það mat heimspekideildar Háskóla Íslands að nafnið Ývan/Ívan falli ekki að lögum íslenskrar tungu og eigi sér enga hefð í málinu. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt nafnið sé ekki með öllu óþekkt hér á landi.

2) Í bréfi yðar, dags. 13. mars. 1990, kvartið þér einnig yfir því að heimspekideild Háskóla Íslands skulu hafa vald til að ákveða hvaða nöfn verði notuð sem íslensk mannanöfn. Varðandi þessa kvörtun tel ég rétt að benda á, að samkvæmt 4. gr. laga nr. 54/1925 er heimspekideild Háskóla Íslands falið að úrskurða í ágreiningi, sem kanna að rísa milli ráðuneytis og umsækjanda um það, hvort nafn fellur að lögum íslenskrar tungu. Með þessu er leitast við að tryggja að ágreiningsmál af þessu tagi verði ekki til lykta leidd, nema að undangenginni umfjöllun sérfræðinga um íslenskt mál. Þetta fyrirkomulag gefur ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu."

Ég tjáði því A að samkvæmt framansögðu væri það niðurstaða mín, að eigi hefði verið brotið gegn íslenskum lögum, er synjað var um að sonur hennar fengi að halda óbreyttu nafni sínu. Taldi ég því ekki vera grundvöll fyrir frekari afskiptum mínum af málinu. Þar sem A taldi synjun þessa mannréttindabrot, tók ég fram í bréfi mínu að ég fengi ekki séð að hún færi í bága við nein mannréttindaákvæði í íslensku stjórnarskránni. Að því er varðar mannréttindasáttmála, sem Ísland er aðili að, upplýsti ég, að skrifstofa mín gæti gefið henni upplýsingar um Mannréttindasáttmála Evrópu og um kærur til Mannréttindanefndar Evrópu, en ég treysti mér hins vegar ekki til að fullyrða neitt um árangur af slíkri kæru.

II.

Hinn 1. nóvember 1991 tóku gildi ný lög um mannanöfn nr. 37/1991. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skal mannanafnanefnd semja skrá um þau eiginnöfn sem heimil teljast. Í mannanafnaskrá, sem mannanafnanefndin gaf út í október 1991, er nafnið Ívan tekið á skrá.