Stjórnun fiskveiða. Undanþágur frá skilyrði um haffærisskírteini. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 622/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 5. október 1993.

A taldi að sjávarútvegsráðuneytið og Siglingamálastofnun ríkisins hefðu brotið á sér, er báti hans R var synjað um veiðileyfi á þeim grundvelli að báturinn hefði ekki haft haffærisskírteini 18. ágúst 1990 eins og áskilið var um nýja báta undir 6 brl. samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Byggði A á því, að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu við veitingu veiðileyfa, þar sem aðrir bátar, sambærilegir við R, hefðu fengið veiðileyfi, án þess að þeir hefðu fengið haffærisskírteini fyrir tilskilinn tíma. Fram kom að allmargir nýsmíðaðir bátar höfðu ekki fengið fullnaðarúttekt Siglingamálastofnunar og haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990. Á grundvelli umsagnar frá Siglingamálastofnun fjallaði sjávarútvegsráðuneytið sérstaklega um málefni 21 báts. Gerði ráðuneytið greinarmun á fjórum flokkum þessara báta: A. bátar, sem voru fullsmíðaðir og skoðaðir fyrir 18. ágúst, en ekki hafði unnist tími til að yfirfara gögn um lokaúttekt og stöðugleika fyrir greint tímamark; B. bátar, sem voru fullsmíðaðir og skoðaðir fyrir greint tímamark, en öryggisbúnaður ekki kominn um borð; C. bátar sem ekki voru fullsmíðaðir fyrir 18. ágúst og lokaskoðun hafði ekki farið fram og loks D. bátar sem ekki voru fullsmíðaðir fyrir 18. ágúst, stærri en 6 brl. og höfðu ekki sérstakt smíðaleyfi. Var bátum í flokki A og B veitt veiðileyfi til jafns við þá báta sem veiðileyfi hlutu fyrir 18. ágúst 1990. Bátur A, R, var settur í flokk C. Umboðsmaður tók fram að með þessari ákvörðun hefði sjávarútvegsráðuneytið skýrt rúmt skilyrði 5. gr. laga nr. 38/1990. Gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við þá lögskýringu, en samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu fyrir umboðsmanni um ástand báta, sem skipað var í B-flokk, var það niðurstaða hans að reglna um jafnræði og samræmi í ákvörðunum hefði ekki verið gætt er synjað var um veiðileyfi fyrir R. Virtist vafasamt að frágangi báta í B-flokki hefði verið lengra komið en R hinn 18. ágúst 1990, þegar lagðar voru til grundvallar upphaflegar skoðunarskýrslur Siglingamálastofnunar um bátana. Yrði því ráðið, að ófullkomnar upplýsingar hefðu verið lagðar til grundvallar ákvörðun ráðuneytisins. Mæltist umboðsmaður til þess, að sjávarútvegsráðuneytið tæki til athugunar á ný hvort veita ætti A leyfi til veiða fyrir R á grundvelli lokamálsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990.

I. Kvörtun.

Hinn 26. júní 1992 leitaði til mín A, og kvartaði yfir því að samgönguráðuneytið og Siglingamálastofnun ríkisins hefðu synjað vélbáti hans R um haffærisskírteini 18. ágúst 1990. Hefði þessi niðurstaða leitt til þess, að sjávarútvegsráðuneytið gerði það að skilyrði fyrir veitingu veiðileyfis, á árinu 1990, að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri. Í kvörtun sinni heldur A því fram, að með afgreiðslu samgönguráðuneytisins og Siglingamálastofnunar ríkisins hafi verið brotinn á honum réttur, þar sem sambærilegir bátar, sem ekki voru fullbúnir 18. ágúst 1990, hafi fengið haffærisskírteini til skamms tíma og þar með verið veittur frestur til þess að ljúka frágangi þeirra.

Kvörtun A beinist ennfremur að þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins, að synja umsókn hans um veiðileyfi fyrir R. Telur hann, að bátar, sambærilegir við R, hafi á grundvelli laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða fengið veiðileyfi, án þess að sambærilegir bátar hafi horfið úr rekstri í þeirra stað, þó svo að þeir hafi ekki haft haffærisskírteini 18. ágúst 1990. Til samanburðar bendir A sérstaklega á bátana L, S og Þ auk bátanna E, R og K.

II. Málavextir.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 skyldi gefa nýjum bátum undir 6 brl. kost á veiðileyfi, ef smíði þeirra hefði hafist fyrir gildistöku laganna, þ.e. 18. maí 1990, og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma, þ.e. fyrir 18. ágúst 1990.

Bátinn R, 5,72 brl. að stærð, eignaðist A með afsali 21. desember 1989. Með skriflegri beiðni 21. maí 1990 var óskað eftir skráningu bátsins á aðalskipaskrá. Samkvæmt skoðunarskýrslu Siglingamálastofnunar ríkisins var R skoðað 18. ágúst 1990. Siglingamálastofnun ríkisins tilkynnti A 24. ágúst 1990, að ekki hefði verið talið fært að gefa út haffærisskírteini fyrir bátinn 18. ágúst 1990, "... í ljósi þess að vélbúnaður var ekki að öllu leyti fullfrágenginn og nokkrir hlutir í öryggisbúnaði ófáanlegir og þeir ekki um borð". Haffærisskírteini fyrir R var síðan gefið út 16. október 1990 með gildistíma til 1. desember 1990. Samkvæmt gögnum málsins leitaði A til sjávarútvegsráðuneytisins og óskaði eftir því, að litið yrði til sérstakra aðstæðna hans á framangreindum tíma. Í bréfi A til ráðuneytisins 24. ágúst 1990 segir:

"Meðfylgjandi vottorð sanna þá staðreynd að ég gat ekki fullklárað bát minn [R] á tímabilinu 18. maí til 18. ágúst.

Ég pantaði vél í bátinn 12. maí en vegna sumarleyfa kom hún ekki í mínar hendur fyrr en 13. ágúst. Þá kom í ljós að vegna mistaka hafði skrúfubúnaður orðið eftir úti. Skrúfubúnaðurinn kom í mínar hendur föstudaginn 24. ágúst. Vöntun á raflagnaefni tafði mig í 3 vikur, sinaskeiðabólga af völdum of mikillar vinnu tafði mig í 5 daga."

Með bréfi sjávarútvegsráðuneytisins 19. febrúar 1991 var A tilkynnt, að báti hans yrði veitt veiðileyfi með því skilyrði, að úreltur yrði bátur er væri sambærilegur báti hans og haft hefði haffærisskírteini eftir 15. maí 1990.

III.

Í bréfi til A 18. nóvember 1991, gerði ég honum grein fyrir athugunum mínum í tilefni af kvörtun hans yfir þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins, að setja það skilyrði fyrir veitingu veiðileyfis fyrir R, að úreltur yrði bátur með haffærisskírteini. Við þá athugun mína hafði mér borist bréf sjávarútvegsráðuneytisins frá 21. júní 1991. Þar sagði meðal annars:

"Samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar ríkisins fékk vélbáturinn [R] ekki útgefið haffærisskírteini fyrr en 16. 10. 1990 [...] og uppfyllti því ekki skilyrði áðurgreindra ákvæða laga og reglugerðar um veitingu veiðileyfa [1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 og 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990 um veiðar í atvinnuskyni].

Með hliðsjón af þessu var [A] tjáð að v.b. [R] fengi ekki veiðileyfi í atvinnuskyni nema sambærilegur bátur, sem veiðileyfi hefði, hyrfi varanlega úr rekstri sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða."

Í bréfi mínu til A tók ég fram, að afgreiðsla sjávarútvegsráðuneytisins á máli hans hefði verið í samræmi við skilyrði 3. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, þegar litið hafi verið til þess, að R hefði ekki fengið haffærisskírteini fyrr en 16. október 1990. Síðan sagði í bréfi mínu:

"Þér haldið því hins vegar jafnframt fram, að Siglingamálastofnun ríkisins hafi verið skylt að veita [R] haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990, meðal annars með hliðsjón af veitingu haffærisskírteina í öðrum tilvikum. Að mínum dómi eru kröfur yðar um veiðileyfi þannig undir því komnar, hvort þér eigið rétt á leiðréttingu mála yðar varðandi útgáfu haffærisskírteinis. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 51/1987 um eftirlit með skipum, annast Siglingamálastofnun eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum gildandi laga og reglugerða um öryggi skipa. Í 1. gr. laga nr. 19/1986 um Siglingamálastofnun ríkisins segir að stofnunin starfi undir yfirstjórn samgönguráðherra. Að framansögðu athuguðu er það álit mitt, að unnt sé að skjóta ákvörðunum Siglingamálastofnunar til samgönguráðuneytisins til úrskurðar."

Ég greindi A því frá þeirri niðurstöðu minni, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis brysti skilyrði til þess, að unnt væri að fjalla um þennan þátt máls hans, þar sem synjun um útgáfu haffærisskírteinis til R hefði ekki verið skotið til samgönguráðuneytisins.

IV.

Með bréfi 7. janúar 1992 óskaði A eftir því, að samgönguráðuneytið úrskurðaði, að Siglingamálastofnun ríkisins hefði verið "... skylt að veita vélbátnum [R] haffærisskírteini eftir skoðun hinn 18. ágúst 1990, í ljósi þess í hvaða ástandi báturinn var réttilega og sannanlega í, og miðað við sannanlegt ástand annarra báta er slíkt skírteini fengu". Ennfremur óskaði A eftir því, að samgönguráðuneytið felldi úrskurð sinn um það, hvort honum hefði ekki borið "... samskonar undanþága frá tímamörkum, og aðrir bátaeigendur sannanlega fengu, sbr. það sem fram kemur í meðsendum gögnum um vélbátinn [L], og etv. fleiri". Í svarbréfi samgönguráðuneytisins 4. maí 1992 segir meðal annars:

"Í V. kafla laga um eftirlit með skipum nr. 51/1987 er að finna fyrirmæli um gerð og búnað skipa. Eru þar talin upp ýmis skilyrði sem skip þarf að fullnægja m.a. hvað varðar bol, reiði og vélar, björgunar- og öryggisbúnað og eldvarnir. Samkvæmt 18. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um gerð og búnað skipa. Í samræmi við greint lagaákvæði hafa m.a. verið settar reglur um smíði og búnað íslenskra skipa nr. 521/1984, sbr. nr. 48/1986, og reglur um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa nr. 325/1985, með síðari breytingum.

Í 4. gr. laganna er að finna ákvæði um, hvenær skip skuli telja óhaffært. Er það m.a. í þeim tilvikum er bol þess, búnaði, vélum eða tækjum er áfátt.

Í gögnum málsins kemur fram, að umrætt skip fullnægði hinn 18. ágúst 1990 ekki skilyrðum framangreindra laga og reglna um gerð og búnað skipa. Þannig liggur m.a. fyrir, að aðalvél skipsins og skrúfubúnaður voru ófrágengin, og að skipið var ekki búið björgunarvestum eins og kveðið er á um í 4.1. gr. reglna nr. 325/1985. Eins og fram kemur í bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins til umboðsmanns Alþingis dags. 4. september 1991, sem fylgdi bréfi yðar til ráðuneytisins, er ekki talið verjandi að gefa út haffærisskírteini í þeim tilvikum er vél eða skrúfubúnaður er ófrágenginn. Sama gildir um björgunarvesti. Hvert og eitt þessara atriða nægir til þess að ekki má gefa út haffærisskírteini fyrir skipið, hvorki til bráðabirgða né eins árs.

Þessi skilyrði fyrir útgáfu haffærisskírteinis eru afdráttarlaus. Er því ljóst, að skipið hefði ekki fengið útgefið haffærisskírteini 18. ágúst 1990 enda þótt öðrum skilyrðum fyrir útgáfu haffærisskírteinis væri fullnægt.

Af gefnu tilefni vill ráðuneytið benda á, að í athugasemdum Siglingamálastofnunar um ástand skipsins 18. ágúst 1990 kemur fram, að björgunarbátur hafi verið ófrágenginn við skoðun þann dag, en staðfest hefur verið að hann hafi verið kominn á smíðastað skipsins umræddan dag.

Hvað varðar fullyrðingar í bréfi yðar um misræmi hjá Siglingamálastofnun ríkisins við veitingu haffærisskírteina vill ráðuneytið taka fram, að þó svo að mistök kunni að hafa orðið eða ósamræmis gætt hjá stofnuninni í einhverjum tilvikum við útgáfu á haffærisskírteinum, breytir það ekki þeirri niðurstöðu, að [R] uppfyllti ekki nauðsynleg skilyrði laga og reglna til þess að teljast haffært 18. ágúst 1990. Ráðuneytið mun þó að sjálfsögðu taka þessar fullyrðingar til nánari athugunar.

Með vísun til framanritaðs getur ráðuneytið ekki fallist á að fella úr gildi ákvörðun Siglingamálastofnunar ríkisins um að veita ekki umræddu skipi haffærisskírteini hinn 18. ágúst 1990."

V. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með bréfi 3. júlí 1992, óskaði ég eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að samgönguráðuneytið léti mér í té gögn málsins. Ennfremur óskaði ég eftir upplýsingum um, hvaða nýir bátar, sem ekki var lokið smíði á fyrir 18. ágúst 1990, hefðu fengið frest með endurbætur, og þar með tímabundið haffærisskírteini, og hvert hafi verið ástand þeirra. Gögn málsins bárust mér með bréfi samgönguráðuneytisins 20. júlí 1992. Meðal þeirra gagna var bréf Siglingamálastofnunar ríkisins frá 15. júlí 1992 ásamt skoðunarskýrslum um 12 skip, sem fengið höfðu haffærisskírteini síðustu dagana fyrir 18. ágúst 1990, og einnig um 11 skip, er skoðuð höfðu verið, en ekki fengið haffærisskírteini fyrr en eftir 18. ágúst 1990. Síðan sagði svo í bréfi stofnunarinnar:

"Til viðbótar þeim skipum sem að framan greinir, voru mörg sem ekki fengu haffærisskírteini voru á misjöfnu byggingarstigi og má þar nefna:

[B] fékk haffærisskírteini 31.08.1990

[K] fékk haffærisskírteini 20.08.1990

[S] fékk haffærisskírteini 18.11.1990

[S] fékk haffærisskírteini 02.04.1991

Nokkuð á annað hundrað skip undir 10 brl. voru til skoðunar og skráningar í júlí og ágúst 1990 og meirihluti þeirra fékk haffæri fyrir þann 18. ágúst."

Hinn 13. október 1992 ritaði ég Siglingamálastofnun bréf, þar sem ég óskaði eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987, að mér yrðu látin í té eftirfarandi gögn og upplýsingar:

"1) Skoðunarskýrslu fyrir [R], ásamt fylgigögnum, þar sem niðurstöður heimila útgáfu haffærisskírteinis með dagsetningu 16. október 1990 og gildistíma til 1. desember 1990.

"2) Í niðurlagi skoðunarskýrslna Siglingamálastofnunar ríkisins er gert ráð fyrir því, að fram komi, hvenær "búnaðarskoðun, vélskoðun og bolskoðun" hafi farið fram og til hvers tíma þær gildi. Af þessu tilefni [óska ég] upplýsinga um, hvar komi fram á skoðunarskýrslu, að útgáfa haffærisskírteinis sé heimil og hver skuli vera gildistími þess. Loks [óska ég] upplýsinga um, hvaða þýðingu það hafi, ef ekki er um það getið, hvenær umræddar skoðanir hafi farið fram eða til hvers tíma þær gildi."

Upplýsingar Siglingamálastofnunar ríkisins bárust mér með bréfi stofnunarinnar 20. október 1992. Þar segir:

"Með bréfi þessu fylgir ljósrit af skýrslu vegna skoðana á vélbátnum [R], á tímabilinu 26. ágúst til 15. október 1990.

Hvað varðar útgáfu haffærisskírteina, ákveða umdæmisstjórar stofnunarinnar hvenær þau skuli gefin út og til hve langs tíma haffærisskírteinin skuli gilda hverju sinni. Við ákvörðun sína leggja umdæmisstjórarnir skýrslur skoðunarmanna til grundvallar og þá einkum tillögur þeirra í lok skýrslunnar, þar sem ætlast er til að skoðunarmennirnir tilgreini dagsetningu síðustu skoðunar á öryggisbúnaði, vélbúnaði og bol, ásamt gildistíma hverrar skoðunar. Þó er skoðunarmönnum heimilt að gefa út haffærisskírteini fyrir báta styttri en 8 metrar.

Tilgreini skoðunarmenn ekki gildistíma skoðunar í lok skýrslu sinnar, bendir það til þess að þeir hafi ekki talið búnaðinn/bolinn uppfylla ákvæði reglna. Ef búnaði eða bol er mikið áfátt við skoðun, geta skoðunarmenn litið svo á að skoðun sé ekki lokið og tilgreina þar af leiðandi aðeins dagsetningu skoðunarinnar á fyrstu síðu skoðunareyðublaðsins.

Hjálagt er ljósrit af haffærisskírteini til handa [R] fyrir umrætt tímabil sem gefið var út af skoðunarmanni umdæmisstjóra á grundvelli skýrslu skoðunarmanns."

VI.

Hinn 29. desember 1992 ritaði ég Siglingamálastofnun ríkisins á ný bréf. Í bréfi mínu vísaði ég til þess, að með bréfi samgönguráðuneytisins 20. júlí 1992 hefðu mér meðal annars borist gögn um 12 tilgreinda báta, er fengið hefðu haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990. Hefðu sex þeirra verið smíðaðir af Selfa Båt í Noregi og skoðaðir þar 13. og 14. ágúst 1990. Yrði ráðið, að athugasemdir hefðu verið gerðar við alla bátana. Í skýrslum skoðunarmanns 17. ágúst 1990 hefði verið tekið fram, að bátarnir hefðu "... endanlega verið [teknir] út af skoðunarmanni Det norske Veritas í Þrándheimi. Sjá athugasemdalista". Á listanum, dags. 14. ágúst 1990, væri merkt með "Ok" og dagsetningunni "17.08.90." Tók ég fram í bréfi mínu, að gögn þessi bæru ekki með sér staðfestingu af hálfu Det norske Veritas, að bætt hafi verið úr göllunum. Síðan sagði svo í bréfi mínu til Siglingamálastofnunar ríkisins:

"Því næst eru gögn um fjóra báta, sem skoðaðir voru 10.-12. ágúst 1990 hjá Sortland Boat A/S í Noregi. Ýmsar athugasemdir eru gerðar við báta þessa, án þess að séð verði, hvort úr þeim hafi verið bætt fyrir útgáfu haffærisskírteinis fyrir 18. ágúst 1990.

Loks eru gögn um tvo báta, sem smíðaðir voru hér á landi, v/b [K] og v/b [L]. Í athugasemdum skoðunarmanns við fyrrnefnda bátinn kemur fram: "Skoða talstöð vantar varahluti." Í skýrslu skoðunarmannsins er þess ekki getið, að báturinn hafi björgunarbát eða eldvarnir í vélarrúmi og vistarverum. Fram kemur að búnaðarskoðun er dagsett 14. ágúst 1990 og gildi til 30. september 1990. Um síðari bátinn er tekið fram í skýrslu um rafmagnsskoðun, dags. 15. ágúst 1990, að allmikið sé "eftir við frágang á rafkerfi". Í skýrslu vegna aðalskoðunar bátsins, dags. 14. ágúst 1990, segir einnig að vanti skálkbúnað á lúgur, björgunarstiga, loftræstingu fyrir lúkar og brunaviðvörunarkerfi í bátinn.

Af því, sem rakið hefur verið hér að framan, verður ráðið, að fyrstnefndum 6 bátum hafi verið veitt haffærisskírteini með gildistíma frá 17. ágúst til 15. september 1990, næstu fjórum bátum með gildistíma frá 12. ágúst til 12. september 1990 og síðastnefndum tveimur bátum með gildistíma 14. ágúst til 30. september 1990.

Með tilvísun til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er þess óskað, að Siglingamálastofnun ríkisins láti mér í té nánari upplýsingar og gögn um skoðun framangreindra báta. Ég óska sérstaklega eftirfarandi upplýsinga:

1) Hvort Siglingamálastofnun ríkisins hafi sett sér vinnureglur um skoðun nýrra smábáta fyrir 18. ágúst 1990. Ef svo er, óska ég eftir að fá þær reglur.

2) Hverjar hafi verið ástæður til þess, að gildistími haffærisskírteina fyrir umrædda báta var einungis einn til einn og hálfur mánuður.

3) Hvort líta beri svo á, að framangreindir bátar, einkum [L] og [K], hafi fengið frest til 30. september 1990 til þess að ljúka smíði á bátum sínum.

4) Hvort umræddir 12 bátar hafi uppfyllt skilyrði laga nr. 51/1987 um eftirlit með skipum og reglna samkvæmt þeim lögum til þess að fá útgefin haffærisskírteini á þeim tíma, sem hér um ræðir.

5) Hvort [A] hafi óskað eftir því að fá útgefið haffærisskírteini til skamms tíma, til þess að ljúka smíði [R], og jafnframt hvort [A] hafi átt rétt á haffærisskírteini með gildistíma í einn mánuð.

Mér hafa borist upplýsingar frá sjávarútvegsráðuneytinu um það, að Siglingamálastofnun ríkisins hafi sent ráðuneytinu greinargerð varðandi þá báta, sem ekki fengu fullnaðarskoðun og haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990, en alls mun þar hafa verið um 22 báta að ræða. Ég óska eftir því, að mér verði látin í té þessi greinargerð og bréf stofnunarinnar til ráðuneytisins frá 17.-24. október 1990. Loks óska ég ennfremur eftir því, að mér verði látnar í té skoðunarskýrslur um nefnda 22 báta, sem ég hef ekki þegar fengið."

Umbeðnar upplýsingar bárust mér síðan með bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins 12. janúar 1993. Þar kom meðal annars fram:

"Með vísun til fyrirspurnar yðar í bréfi 29. desember 1992 vegna vélbátsins [R], sendi ég með bréfi þessu lista yfir báta sem skoðaðir voru á síðustu dögum fyrir 18. ágúst 1990, en fengu ekki haffærisskírteini fyrir umræddan dag. Einnig fylgja ljósrit af skýrslum um skoðun á þeim bátum listans sem þér hafið ekki þegar fengið, það er skýrslur um báta með skráningarnúmerin [...]

Hvað varðar þá báta sem skoðaðir voru í Noregi, fylgir bréfi þessu ljósrit af símbréfi frá Det norske Veritas dagsett 18. ágúst 1990, sem fylgdi athugasemdalistum um bátana sem skoðaðir voru hjá Selfa Båt A.S í Þrándheimi. Listana skrifaði [M], skoðunarmaður Det norske Veritas, upp eftir [Ó], skoðunarmanni Siglingamálastofnunarinnar, sem var þar til skoðunar á bátunum 13. og 14. ágúst 1990. [...]

Í Sortland hins vegar hefur Det norske Veritas enga starfsmenn. Þar af leiðandi var engin leið að fá skoðunarmann frá hlutlausri stofnun til að taka út þær athugasemdir, sem gerðar voru við ástand bátanna til að sigla mætti þeim til Íslands.

Með tilliti til eðlis athugasemdanna, það er að um sjálfsagða hluti var að ræða fyrir báta sem til stóð að sigla frá Noregi til Íslands, var framkvæmdastjóra bátasmíðastöðvarinnar, [P], falið að geyma haffærisskírteinin í trausti þess, að þau yrðu ekki afhent eigendum bátanna fyrr en bátarnir uppfylltu þær kröfur sem gerðar voru til heimsiglingar. [...]

Varðandi aðrar fyrirspurnir yðar eru eftirfarandi upplýsingar númeraðar með hliðsjón af númerum fyrirspurnanna:

1. Þegar drögin að lögunum um stjórn fiskveiða voru til umræðu, bárust Siglingamálastofnun fjöldi tilkynninga um nýsmíði báta og varð fljótt ljóst að margir myndu verða seinir fyrir við að fullgera báta sína, einkum þegar í ljós kom hve stuttur tími var til stefnu. Þar af leiðandi setti þáverandi siglingamálastjóri upp leiðbeiningar fyrir umdæmisstjóra stofnunarinnar, fyrst og fremst til að samræma störf skoðunarmanna. [...]

Algengt er að skipum sé veitt haffærisskírteini í stuttan tíma þó bol eða búnaði sé í einhverju áfátt. 3. mgr. 13. [gr.] laga um eftirlit með skipum, nr. 51/1987, hefur verið túlkuð þannig að siglingamálastjóra sé heimilt að veita frest með lagfæringar, að því tilskildu að skipin séu talin haffær og skipverjum ekki stefnt í hættu.

2. Ástæður þess að haffærisskírteini voru aðeins veitt í einn til einn og hálfan mánuð voru vegna athugasemda við ástand bátanna, sem voru þess eðlis að mati um- dæmisstjóra stofnunarinnar að nota mætti bátana til sjósóknar, án þess að skipverjar væru í hættu. Enda var eigendum bátanna gerð grein fyrir í hverju ástand bátanna væri áfátt.

3. Eiganda [K], var veittur frestur til 30. september 1990 til að útvega varahluti fyrir vél og láta skoða talstöð, en talstöðvar í skipum eru skoðaðar af skoðunarmönnum Pósts og síma, jafnvel þó skoðunarmenn Siglingamálastofnunarinnar geti fullvissað sig um að talstöðvarnar virki.

[K] er styttri en 8 metrar og þarf þar af leiðandi ekki að hafa gúmbjörgunarbát á tímabilinu 1. apríl til 30. september. Í bátnum er enginn hitari eða eldavél þannig að engin þörf er á eldvörnum í vistarverum. Báturinn er opinn bátur, eins og skráningarnúmerið gefur til kynna, og vélarúmið aðeins kassi í opnu rými og því ekki merkt við spurninguna um eldvarnir í vélarúmi.

Eiganda [L], var einnig veittur frestur til 30. september 1990 til að bæta úr þeim athugasemdum sem fram koma á skoðunarskýrslunni vegna skoðunar á bátnum 14. ágúst 1990.

Hvað varðar athugasemdir við rafkerfi bátsins var það rafbúnaður "neyslu" sem var ófrágenginn, það er lýsing og þess háttar, en rafbúnaður vélar sem varðar siglingu bátsins var talinn fullnægjandi til að veita mætti haffærisskírteini til septemberloka. [...]

4. Með hliðsjón af þeirri túlkun á lögunum um eftirlit með skipum, sem frá segir í svari við fyrstu fyrirspurn hér að framan, er það mat stofnunarinnar að umræddir bátar hafi uppfyllt ákvæði laganna, þó þeir hafi ekki að öllu leyti uppfyllt ákvæði reglna, sem kveða nánar á um smíði og búnað skipa en lögin.

5. [A] óskaði ekki eftir haffærisskírteini til skamms tíma til að ljúka smíði [R], enda athugasemdir við ástand bátsins það margar og þess eðlis að hann gerði sér fulla grein fyrir því að báturinn var ekki í því ástandi að nota mætti hann til sjósóknar.

Eins og sjá má á skýrslu um skoðun á bátunum 18. ágúst 1990, [...], var aðalvél ónothæf, vélin stóð aftur í lest, skrúfubúnaður ófrágenginn, sem eðlilegt er þar sem vélin var ekki komin á sinn stað því undirstöður vantaði, stýrisbúnaður ófrágenginn, m.a. var stýrisblaðið ekki á bátnum vegna þess að skrúfubúnað vantaði, og botn- og síðulokar ófrágengnir, þannig að útilokað var að sjósetja bátinn því þá hefði hann sokkið. Hver og ein þessara athugasemda nægir til að báturinn geti ekki talist haffær.

Þessu til viðbótar vantaði austurop á bátinn, brunaviðvörunarkerfi, halon slökkvikerfi, handslökkvitæki, björgunarbelti, varpakkeri, leiðréttingu á áttavita og loftrás í lúkar, auk þess sem vélarúmið var ekki vatnsþétt aðskilið frá lestinni vegna þess að vélbúnaður var ófrágenginn. Þessi atriði gera einnig að báturinn uppfyllir ekki ákvæði reglna, þó sjálfsagt hefði verið fallist á að veita frest með endurbætur á einhverjum þessara hluta, ef ekki hefði annað komið til. Til dæmis voru fyrirmæli siglingamálastjóra á þann veg að óheimilt væri að veita haffærisskírteini ef björgunarbelti og/eða handslökkvitæki vantaði. [...]

Aðeins tvö bréf er að finna frá Siglingamálastofnuninni til sjávarútvegsráðuneytisins á tímabilinu 17. til 24. október 1990 í skjalasafni stofnunarinnar og fylgja ljósrit af þeim bréfi þessu, [...]. Yfirlitið sem nefnt er í bréfinu sem dagsett er 17. október fylgir einnig."

Þær leiðbeiningar, sem vísað er til í bréfi Siglingamálastofnunar að siglingamálastjóri hafi gefið umdæmisstjórum stofnunarinnar, koma fram í bréfi stofnunarinnar frá 5. apríl 1990, en þar segir meðal annars:

"1. Ekki skal gefa út haffærisskírteini við eftirfarandi aðstæður:

- Leiki vafi á stöðugleika skipsins til þeirra sjóferða sem ætlað er, svo sem vegna nýsmíði eða breytinga.

- Einhvern eftirtalinn björgunar- eða öryggisbúnað vanti um borð skv. reglum, gúmmíbjörgunarbáta, björgunarvesti, björgunarbúninga, neyðarblys, flugelda, handslökkvitæki eða talstöð.

- Vanti öryggisbúnað við vindur og spil skv. reglum.

2. Ekki skal gefa út haffærisskírteini til lengri tíma en þriggja mánaða, ef athugasemdir, aðrar en þær sem taldar eru upp í lið 1, er fram koma við aðalskoðun búnaðar skv. skoðunarskýrslum eru fjórar eða fleiri. Áður en haffærisskírteini er framlengt á ný skal skoðunarmaður fullvissa sig um að lagfæringar hafi verið gerðar skv. veittum fresti.

3. Haffærisskírteini er heimilt að gefa út til 12 mánaða séu athugasemdir við aðalskoðun búnaðar færri en fjórar og ekki séu önnur atriði svo sem framkvæmd bolskoðunar eða vélskoðunar sem takmarka haffæri skipsins frekar."

Á ódagsettu minnisblaði, sem stimplað er af Siglingamálastofnun ríkisins, segir ennfremur:

"VEGNA AFGREIÐSLU HAFFÆRISSKÍRTEINA VEGNA NÝSMÍÐI BÁTA

FYRIR 18. ÁGÚST 1990

1. Fullbúin, þ.e. öryggisbúnaður, vélbúnaður, rafmagn, hallaprófun, prufusigling, mælingabréf, skráningarbeiðni + eignarheimild, (skráning) haffærisskírteini (12 mán.)

2. Fullbúin, þ.e. öryggisbúnaður, vélbúnaður, rafmagn, hallaprófun frá systurskipi.

Eftir er að gera prufusiglingu og lokaúttekt á rafmagni.

Mælingabréf, skráningarbeiðni + eignarheimild (skráning) Báturinn má vera á landi en í þessu ástandi.

Haffærisskírteini í einn mánuð."

Með bréfi 13. janúar 1993 gaf ég A kost á senda mér athugasemdir sínar í tilefni af bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins frá 12. janúar 1993. Athugasemdir A bárust mér með bréfum hans 14. og 26. janúar 1993.

VII.

Í VI. kafla hér að framan er rakið bréf Siglingamálastofnunar ríkisins frá 12. janúar 1993. Með því fylgdi meðal annars yfirlit, dags. 29. september 1990, yfir 22 báta, er ekki höfðu fengið haffærisskírteini 18. ágúst 1990. Kemur fram á yfirlitinu, að 29. september 1990 hafi verið búið að gefa út haffærisskírteini til 14 af þessum 22 bátum. Með bréfi stofnunarinnar til sjávarútvegsráðuneytisins 17. október 1990 fylgdi yfirlit yfir nýja báta, er fengið höfðu haffæriskírteini "síðustu daga". Kemur þar fram, að þann dag hafi framangreindir 22 bátar verið búnir að fá haffærisskírteini.

Siglingamálastofnun ríkisins ritaði sjávarútvegsráðuneytinu bréf 24. október 1990. Í bréfinu eru sjö af ofangreindum 22 bátum tilgreindir. Þar segir:

"Hér staðfestist að eftirtalin skip

[..] [B]

[..] [S]

[..] [K]

[..] [S]

[..] [Ó]

[..] [S]

[..] [F]

voru skoðuð og úttekin sem fullsmíðuð fyrir og þann 18. ágúst 1990. Ástæða þess að þeim var ekki gefið haffærisskírteini þá var að ekki hafði unnist tími til að yfirfara innkomin gögn um lokaúttekt og stöðugleika.

Að yfirferð gagna lokinni var þessum skipum gefið haffærisskírteini án breytinga á skipi eða búnaði þeirra."

Í gögnum málsins er ennfremur bréf Siglingamálastofnunar ríkisins frá 25. október 1990 til samgönguráðuneytisins, þar sem tilgreindir voru fjórir bátar til viðbótar áðurgreindum 22 bátum. Er bréfið svohljóðandi:

"Hér staðfestist að skipin

[..] [J]

[..] [P]

[..] [J]

voru skoðuð í G-Dansk í Póllandi 14. ágúst 1990. Voru skipin þá að fullu frágengin nema að í þau vantaði hluta búnaðar (gúmmíbát, talstöð, aðvörunark.) sem eigendur höfðu sýnt að þeir ættu fyrir þann tíma í Reykjavík og var það sett í skipin við komu þangað.

Báturinn "[Þ]" var úttekinn með öllum búnaði fyrir þann 18 ágúst 1990 nema að beðið var eftir "flans" sem tengir vél og skrúfubúnað, þurfti að fá það tengi frá verksmiðju."

Í bréfi, er Siglingamálastofnun ríkisins ritaði sjávarútvegsráðuneytinu 25. október 1990 um ástand R, segir:

"Með vísun til fyrirspurnar um ástand á ofangreindum báti þann 18. ágúst s.l., í ljósi þess að haffærisskírteini hafði ekki verið gefið út fyrir bátinn þann dag, voru ástæður þess þær sem hér greinir:

- Öryggisbúnaður var ekki að öllu leyti kominn um borð.

- Brunaboða og halon-slökkvikerfi vantaði.

- Vinna við austurbúnað var ekki að fullu lokið.

- Vél- og skrúfubúnaður ófrágenginn.

..."

Með bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til mín, dags. 2. desember 1992, fylgdi meðal annars minnisblað starfsmanns ráðuneytisins frá 25. október 1990, er bar yfirskriftina: "Smábátar sem ekki hlutu haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990." Í minnisblaðinu segir:

"Nú er lokið greinargerð Siglingamálastofnunar ríkisins varðandi þá báta sem ekki hlutu fullnaðarúttekt stofnunarinnar og haffærisskírteini fyrir þann 18. ágúst s.l. Alls voru það 22 bátar sem ekki fengu fullnaðarafgreiðslu stofnunarinnar. Staða hvers báts á lokadegi þann 18. ágúst var ærið misjöfn og má flokka á eftirfarandi hátt eftir þeirri umsögn sem Siglingamálastofnun hefur gefið:

A. Bátar skoðaðir og fullsmíðaðir fyrir þann 18. ágúst 1990.

Í þessum flokki eru bátar sem að öllu leyti voru fullfrágengnir þann 18. ágúst en ekki hafði unnist tími til að yfirfara innkomin gögn um lokaúttekt og stöðugleika. Engar breytingar þurfti að gera á bátunum eftir úttektina samkvæmt meðfylgjandi bréfi SR frá 24/10/1990 og hafa því verið fullbúnir þann 18. ágúst. Bátar þessir eru:

Sk.skr.nr. Nafn:

[..] [B]

[..] [S]

[...]

B. Bátar sem skoðaðir voru og fullsmíðaðir fyrir 18. ágúst en öryggisbúnaður ekki kominn um borð.

Í þessum flokki voru þrír bátar sem skoðaðir voru í Póllandi og fullbúnir að því frátöldu að öryggisbúnaður og talstöðvar biðu þeirra hér. Að auki hefur S.R. talið einn bát í þessum flokki sem úttekinn var með öllum búnaði en eitt stykki sem tengir vél og skrúfu ekki komið. Bátar þeir sem til þessa flokks teljast eru:

Sk.skr.nr. Nafn:

[..] [J]

[..] [P]

[..] [J]

[..] [Þ]

C. Bátar sem ekki voru fullsmíðaðir þann 18. ágúst og lokaskoðun hafði ekki farið fram.

Í þessum flokki eru fyrst og fremst bátar sem ýmis frágangur við raf- og öryggisbúnað var eftir svo og ýmislegt annað einkum tengt frágangi á lúgum, austursopum og stýri, svo eitthvað sé nefnt. Í þessum flokki eru eftirtaldir bátar:

Sk.skr.nr. Nafn:

[..] [H]

[..] [K]

[..] [R]

[..] [J]

[..] [Ý]

Auk þessara báta geta talist eftirfarandi tveir bátar að auki til hans en þeir voru þó enn skemur á veg komnir en þessir fimm sem þegar eru taldir í þessum flokki. Bátarnir sem hér um ræðir eru:

...

D. Bátar sem ekki voru fullkláraðir þann 18. ágúst en auk þess yfir 6 brl. og höfðu ekki svokallað sérstakt smíðaleyfi.

...

Samtals eru þetta 21 bátur sem skiptast þannig

Flokkur A 7 bátar

Flokkur B 4 bátar

Flokkur C 5 bátar

Flokkur D 5 bátar

Samtals 21 bátur

Frá síðustu skýrslu Siglingamálastofnunar þann 17. október s.l. hefur þessum "framyfirbátum" fækkað um einn....

NIÐURSTÖÐUR:

Að þessari greinargerð lokinni virðist ljóst að hægt er að réttlæta með gildum rökum að bátar í flokki A og B fái veiðileyfi til jafns á við þá báta sem haffærisskírteini hlutu fyrir þann 18. ágúst. Hinir bátarnir í flokkum C og D kom aðeins til greina gegn úreldingu báta með veiðileyfi en gætu líklega fallið undir b-lið 3. mgr. 7. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni og þannig fengið úthlutað meðalaflamarki síns stærðarflokks að undangenginni úreldingu sambærilegs báts sem veiðileyfi hefur nú.

Rétt er að vekja athygli á því að hugsanlegt er að þeir aðilar sem í þessum hópi eru og byggt hafa báta undir 6 brl. geti krafist veiðileyfis út þetta ár eða jafnvel hafið veiðar eftir banndagafyrirkomulaginu á grundvelli laganna frá 1988.

Meðfylgjandi þessu minnisblaði eru bréf Siglingamálastofnunar frá 17. og 24. október 1990."

VIII.

Í bréfi, er ég ritaði Siglingamálastofnun ríkisins 29. apríl 1993, vísaði ég til þess að í bréfi stofnunarinnar frá 24. október 1990 til sjávarútvegsráðuneytisins kæmi meðal annars fram, að báturinn S hefði verið skoðaður og tekinn út sem fullsmíðaður 18. ágúst 1990 og að "ástæða þess að [bátnum] var ekki gefið haffærisskírteini þá, var að ekki hafi unnist tími til að yfirfara innkomin gögn um lokaúttekt og stöðugleika". Í lok bréfsins væri síðan tekið fram, að eftir að gögn hefðu verið yfirfarin, hefði S ásamt öðrum tilgreindum bátum verið "... gefið haffærisskírteini án breytinga á skipi eða búnaði þeirra". Tók ég fram, að ráðið yrði af skoðunarskýrslum stofnunarinnar fyrir S, sem hefðu borist mér með bréfi samgönguráðuneytisins 20. júlí 1992, að Siglingamálastofnun ríkisins hefði skoðað bátinn 12. september 1990 og þá hefðu verið gerðar sjö athugasemdir við ástand hans. Hinn 25. september 1990 hefði verið merkt við, að fjögur þessara atriða hefðu þá verið komin í lag. Síðan sagði svo í bréfi mínu:

"Með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óska ég eftir því, að Siglingamálastofnun ríkisins láti mér í té nánari skýringar á skoðun stofnunarinnar á bátnum [S]. Í því sambandi óska ég sérstaklega eftirfarandi skýringa:

1. Hvenær báturinn hafi fyrst verið skoðaður og hvenær hann hafi fengið haffærisskírteini.

2. Hvernig hafi verið hagað skoðun stofnunarinnar á [S].

3. Á hvaða gögnum og upplýsingum sú niðurstaða stofnunarinnar hafi verið byggð, að [S] hafi verið skoðuð og tekin út sem fullsmíðaður bátur fyrir 18. ágúst 1990.

4. Hvað nánar sé átt við með þeim orðum, er fram koma í áðurgreindu bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins 24. október 1990, að umrædd skip hafi verið "... skoðuð og úttekin sem full smíðuð fyrir þann 18. ágúst 1990."

Með bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins 5. maí 1993 bárust mér síðan umbeðnar skýringar. Í bréfi stofnunarinnar segir:

"Hvað varðar skoðanir og útgáfu fyrsta haffærisskírteinis til handa vélbátnum [S], er ljóst að mistök hafa átt sér stað þegar tekinn var saman listinn yfir báta sem skoðaðir höfðu verið 18.08.1990, en ekki fengið haffærisskírteini fyrr en síðar, sbr. bréf okkar til sjávarútvegsráðuneytisins dagsett 24.10.1990. [S] átti ekki að vera á þeim lista.

Samþykkt á vélbátnum [S] gekk fyrir sig á þann veg sem hér greinir, og er númeraröð með hliðsjón af fyrirspurnum yðar í bréfi dagsettu 29.04. 1993:

1. Báturinn var fyrst skoðaður 17.07.1990, en ekki veitt haffærisskírteini fyrr en 25.09.1990.

2. Við fyrstu skoðunina þann 17.07.1990, voru gerðar ýmsar athugasemdir við smíði bátsins.

Næst var báturinn skoðaður 18.08.1990 og þá enn gerðar athugasemdir við ástand hans.

Báturinn er enn skoðaður 12.09.1990 án þess að hann teldist uppfylla kröfur, en við skoðun 25.09.1990 er talið fært að veita haffærisskírteini í stuttan tíma.

3. Eins og áður segir hafa orðið mistök þegar [S] var sett á lista yfir báta sem voru fullsmíðaðir 18.08.1990, en fengu ekki haffærisskírteini fyrr en síðar vegna anna hjá starfsmönnum Siglingamálastofnunar ríkisins.

4. Búið var að skoða bátana 18.08.1990, en ekki unnist tími til að yfirfara innsendar upplýsingar, einkum stöðugleikagögn, sem sýndu, þegar búið var að vinna úr upplýsingunum, að bátarnir höfðu uppfyllt ákvæði reglna við skoðun."

IX.

Hinn 29. apríl 1993 ritaði ég sjávarútvegsráðherra bréf. Tók ég fram, að kvörtun A snerti skoðun Siglingamálastofnunar ríkisins á báti hans R, en ennfremur lyti kvörtun hans að þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins, að synja umsókn hans um veiðileyfi fyrir R. Í bréfi mínu sagði síðan:

"Fram kemur í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til mín 21. júní 1991, að ástæður synjunarinnar hafi verið þær, að báturinn hafi ekki haft gilt haffærisskírteini fyrr en 16. október 1990. Við athugun mína á kvörtun A hef ég meðal annars aflað gagna frá Siglingamálastofnun ríkisins, þ. á m. bréfa stofnunarinnar til sjávarútvegsráðuneytisins frá 17. október og 24. október 1990 ásamt fylgigögnum. Ennfremur bárust mér með bréfi sjávarútvegsráðuneytisins 2. desember 1992 gögn, sem snertu mál þetta, þ. á m. minnisblað [...] til sjávarútvegsráðherra frá 25. október 1990. Í minnisblaðinu er fjallað um 22 báta, sem ekki höfðu fengið haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990 og er bátunum raðað í fjóra flokka. Í flokki B voru eftirtaldir bátar:

Skipaskrárnúmer: Nafn:

[..] [J]

[..] [P]

[..] [J]

[..] [Þ]

Í minnisblaðinu segir, að framangreindir bátar hafi verið skoðaðir og fullsmíðaðir fyrir 18. ágúst 1990, en öryggisbúnaður hafi ekki verið kominn um borð. Í lok minnisblaðsins segir:

"Að þessi greinargerð lokinni virðist ljóst að hægt er að réttlæta með gildum gögnum, að bátar í flokki A og B fái veiðileyfi til jafns við þá báta sem haffærisskírteini hlutu fyrir þann 18. ágúst."

Með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óska ég eftir því, að sjávarútvegsráðuneytið láti mér í té skýringar á útgáfu veiðileyfa til framangreindra báta. Í því sambandi óska ég sérstaklega eftirfarandi skýringa og upplýsinga:

1 Á hvaða lagagrundvelli veiðileyfi til báta í flokkum A og B samkvæmt áðurgreindu minnisblaði hafi byggst, þótt þeir hafi ekki haft haffærisskírteini 18. ágúst 1990.

2 Nánari upplýsinga um, hvað hafi verið lagt til grundvallar við flokkun umræddra báta samkvæmt áðurgreindu minnisblaði.

3 Hvað hafi ráðið því, að [R] hafi ekki getað talist sambærilegt þeim bátum, sem settir voru í flokk B, og hvort ráðuneytið hafi þar byggt á skoðunarskýrslum frá Siglingamálastofnun ríkisins um ástand bátanna.

Með bréfi þessu fylgja í ljósriti skýrslur Siglingamálastofnunar ríkisins um skoðun ofangreindra báta."

Umbeðnar skýringar og upplýsingar bárust mér með bréfi sjávarútvegsráðuneytisins 15. maí 1993. Þar sagði:

"Í erindi umboðsmanns er vitnað í minnisblað [...] til sjávarútvegsráðherra frá 25. október 1990 þar sem hann gerir ráðherra grein fyrir stöðu 22 nýrra báta sem ekki höfðu fengið útgefið haffærisskírteini fyrir þann 18. ágúst 1990. Í tilvitnaðri greinargerð [...] var bátunum skipt í fjóra flokka, A-D og var sú flokkun byggð á upplýsingum frá Siglingamálastofnun ríkisins.

Í flokki A voru sjö bátar voru að öllu leyti fullfrágengnir 18. ágúst 1990 en ekki hafði unnist tími til að yfirfara innkomin gögn varðandi bátana hjá Siglingamálastofnun ríkisins, sbr. meðfylgjandi bréf stofnunarinnar dags. 24. október 1990....

Í flokk B voru fjórir bátar. Í þrjá þessara báta sem allir voru skoðaðir fyrir þann 18. ágúst 1990, erlendis þar sem þeir voru smíðaðir, vantaði öryggisbúnað. Eigendur þeirra höfðu hins vegar sýnt fram á að þeir ættu þennan búnað á Íslandi og var hann settur í skipin við komu þeirra til landsins. Hvað varðar fjórða bátinn þá mun hann hafa verið tilbúinn að öllu leyti þann 18. ágúst nema hvað "flans" vantaði og beið eigandi bátsins eftir að fá hann frá verksmiðju. Varðandi þessa báta vísast til bréfs Siglingamálastofnunar ríkisins dags. 25. október 1990,...

Í flokk C og D voru alls 10 bátar sem ekki fengu útgefið haffærisskírteini fyrir þann 18. ágúst 1990. Hvað varðar bátinn [R] fylgja skýringar Siglingamálastofnunar í bréfi til ráðuneytisins dags. 25. október 1990, merkt sem fylgiskjal III. Fram kemur að auk öryggisbúnaðar var vinnu við austursbúnað ólokið og vél- og skrúfubúnaður ófrágenginn.

Á grundvelli framangreindra upplýsinga frá Siglingamálastofnun ríkisins ákvað ráðuneytið að veita bátum í flokki A og B leyfi til veiða í atvinnuskyni í samræmi við 3. ml. 1. mgr. 5. gr. l. nr. 38/1990. Veiðileyfi til báta í flokki C og D voru hins vegar gefin út í grundvelli 2. mgr. 5. gr. l. nr. 38/1990."

Með bréfi 19. maí 1993 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af skýringum sjávarútvegsráðuneytisins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi hans 23. maí 1993.

X. Álit umboðsmanns Alþingis.

Niðurstaða álits míns, dags. 5. október 1993, var svohljóðandi:

"Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 skyldi gefa nýjum bátum undir 6 brl. kost á veiðileyfi, ef smíði þeirra hefði hafist fyrir gildistöku laganna, þ.e. 18. maí 1990, og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma, með öðrum orðum fyrir 18. ágúst 1990.

Eins og fram kemur í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 15. maí 1993, var ákveðið að veita veiðileyfi tilteknum bátum, sem ekki höfðu fengið útgefið haffærisskírteini fyrir 18. ágúst 1990, en höfðu verið skoðaðir og fullsmíðaðir fyrir þann tíma. Það sama gilti um ákveðna báta, sem höfðu verið skoðaðir og fullsmíðaðir fyrir 18. ágúst 1990, en öryggisbúnaður var ekki kominn um borð. Þessar leyfisveitingar voru byggðar á upplýsingum frá Siglingamálastofnun og minnisblaði starfsmanns sjávarútvegsráðuneytisins frá 25. október 1990. Á nefndu minnisblaði var þessum bátum skipað í tvo flokka, A og B-flokk, eins og nánar hefur verið lýst í VII. kafla hér að framan. Því var hins vegar hafnað, að bátur A, R, ætti heima í öðrum hvorum þessara flokka.

Kvörtun A lýtur að því, að stjórnvöld, Siglingamálastofnun ríkisins og sjávarútvegsráðuneytið, hafi ekki við meðferð máls hans gætt þeirrar grundvallarreglu stjórnsýsluréttar, að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í úrlausnum sínum, þegar þau hafa til úrlausnar sambærileg mál. Í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur þessi óskráða grundvallarregla verið tekin í sett lög, en lögin öðlast gildi 1. janúar 1994.

Við athugun á því, hvort jafnræðisreglna stjórnsýsluréttar hafi verið nægilega gætt af hálfu stjórnvalda í þessu tilviki, koma einkum til álita til samanburðar þeir bátar, er samkvæmt framansögðu var skipað í A- og B-flokk á minnisblaði starfsmanns sjávarútvegsráðuneytisins og síðan var veitt veiðileyfi á grundvelli nefnds lagaákvæðis. Fyrir liggja skýrslur Siglingamálastofnunar ríkisins um skoðun þessara báta, en ekki verður séð að sjávarútvegsráðuneytið hafi haft þær undir höndum þegar umræddar ákvarðanir um veiðileyfi voru teknar.

Að því er tekur til þeirra báta, sem skipað var í A-flokk, þá verður ekki séð að hallað hafi verið á A miðað við ásigkomulag R á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Þar er þó veiting veiðileyfis til bátsins S undantekning, en af hálfu Siglingamálastofnunar ríkisins hefur verið tekið fram, að um hrein mistök hafi verið að ræða.

Um báta þá, sem skipað var í B-flokk á nefndu minnisblaði og einnig fengu veiðileyfi samkvæmt umræddu lagaákvæði, liggja fyrir upplýsingar í nefndum skoðunarskýrslum Siglingamálastofnunar. Miðað við þær upplýsingar, sem skýrslur þessar geyma um ásigkomulag þessara báta 17. ágúst 1990, þá virðist mjög vafasamt að smíði og frágangi þessara báta hafi þá verið lengra komið en R.

Samkvæmt skýrslu Siglingamálastofnunar, dags. 17. ágúst 1990, var búnaði og frágangi Þ áfátt að því leyti, að gúmmíbjörgunarbát, bjargvesti, áttavita, hallonslökkvikerfi og brunaviðvörunarkerfi vantaði. Þá var eftir að ganga frá austurs- og olíulögnum, stefnisröri og rafkerfi. Þess er þó að gæta, að bátur þessi var stærri en 6 brl.

Við athugun á skoðunarskýrslum bátanna þriggja, sem smíðaðir voru í Póllandi, kemur í ljós, að bátarnir voru misjafnlega langt komnir, þegar skýrslurnar voru samdar, en þær eru dagsettar 14. ágúst 1990. Samkvæmt skýrslu um skoðun J vantaði þannig gúmmíbát, talstöð og brunaaðvörunarkerfi og ekki var búið að ganga frá vélbúnaði, vélarrúmsþili eða rafkerfi.

Með ákvörðun sinni um að veita veiðileyfi þeim bátum, sem taldir voru í A- eða B-flokki á umræddu minnisblaði, skýrði sjávarútvegsráðuneytið rúmt það skilyrði 3. málsl. 5. gr. laga nr. 38/1990, að haffærisskírteini skyldi hafa verið gefið út fyrir 18. ágúst 1990, svo að bátur ætti kost á veiðileyfi. Hef ég ekki við þá lögskýringu að athuga. Á hinn bóginn verður ekki séð, að jafnræðis og samræmis hafi verið gætt, er synjað var um veiðileyfi fyrir R, þegar borið er saman annars vegar ásigkomulag þeirra báta, sem skipað var í B-flokk, samkvæmt lýsingu í fyrrgreindum skoðunarskýrslum Siglingamálastofnunar og hins vegar það ástand, sem R var í á sama tíma. Virðist bátum þeim, sem skipað var í B-flokk á nefndu minnisblaði, hafa verið mun meira áfátt en bréf Siglingamálastofnunar ríkisins til sjávarútvegsráðuneytisins gefur til kynna, en bréfið er dagsett 25. október 1990. Er svo að sjá, að ófullkomnar upplýsingar í síðastgreindu bréfi hafi verið lagðar til grundvallar ákvörðunum ráðuneytisins.

Með tilliti til þeirra atriða, sem að framan hafa verið rakin, tel ég ástæðu til að mælast til þess við sjávarútvegsráðuneytið, að það taki til athugunar á ný, hvort veita eigi A leyfi til veiða fyrir R á grundvelli lokamálsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990.

Ég tek fram, að ég tel ekki ástæðu til, á meðan ný ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins liggur ekki fyrir, að fjalla frekar um þá kvörtun A, sem beint er að Siglingamálastofnun ríkisins og samgönguráðuneytinu."

XI. Viðbrögð stjórnvalda.

Hinn 8. nóvember 1993 barst mér frá sjávarútvegsráðuneytinu afrit bréfs, er ráðuneytið hafði sent A í tilefni af áliti mínu. Í bréfi sínu lýsir ráðuneytið þeim rannsóknum, er það hafi látið framkvæma og að það hafi "... ákveðið að taka fyrri ákvörðun til endurskoðunar og veita [R] leyfi til veiða í atvinnuskyni, skv. lokamálslið 1. mgr. 5. gr. l. nr. 38/1990". Með bréfum 10. nóvember 1993, gerði ég samgönguráðherra og Siglingamálastofnun ríkisins grein fyrir því að ég teldi, að A hefði fengið leiðréttingu á máli sínu hjá sjávarútvegsráðuneytinu og því hefði ég lokið máli hans. Jafnframt tilkynnti ég A sama dag, að ég teldi ekki ástæðu til að fjalla frekar um kvörtun hans, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.