Skattar og gjöld. Gjald vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru. Lögmætisreglan. Lagastoð reglugerðar. Þjónustugjöld. Stjórnvaldsfyrirmæli. Undirbúningur að setningu stjórnvaldsfyrirmæla.

(Mál nr. 2219/1997)

Verslunarráð Íslands kvartaði yfir gjaldtöku skv. reglugerð nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, með síðari breytingum. Beindist kvörtunin að því að gjaldtaka samkvæmt reglugerðinni ætti sér ekki fullnægjandi stoð í lögum auk þess sem ákvörðun um gjaldtöku hefði ekki byggst á traustum útreikningum á kostnaði vegna þeirrar þjónustu sem um væri að ræða. Umboðsmaður tók þá ákvörðun, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að takmarka athugun sína við þann þátt kvörtunar Verslunarráðsins sem laut að gjaldtöku vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru.

Í áliti sínu gerði umboðsmaður fyrst grein fyrir ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 og þeim ákvæðum tollalaga nr. 55/1987 sem einkum reyndi á í málinu. Þá fjallaði umboðsmaður um mun á þjónustugjöldum og sköttum og gat þess að af hálfu fjármálaráðuneytisins væri byggt á því að gjaldtaka skv. fyrrnefndu reglugerðarákvæði fæli í sér töku þjónustugjalda en ekki skattlagningu. Þá vék umboðsmaður sérstaklega að ákvæði í 2. mgr. 145. gr. tollalaga sem kveður á um heimild ráðherra til að ákveða með reglugerð hvaða gjald skuli innheimta fyrir þau störf tollstarfsmanna „sem ekki teljast liður í almennu tolleftirliti“. Kom fram að hvergi í tollalögum væri skilgreint hvað teldist vera „almennt“ eða „sérstakt“ tolleftirlit og slíka skilgreiningu væri ekki heldur að finna í eldri lögum um tolla. Umboðsmaður benti á að samkvæmt þeirri grundvallarreglu að stjórnsýslan væri lögbundin þyrfti skýra lagaheimild til þess að heimta mætti úr hendi almennings endurgjald á kostnaði af ákveðnum þáttum í tollheimtu eða tolleftirliti ríkisins. Gera yrði því þá kröfu að gjaldtaka fyrir verk sem tollyfirvöldum væri ætlað að sinna samkvæmt ákvæðum tollalaga eða annarra laga, styddist við skýra lagaheimild. Þá tók umboðsmaður fram að í störfum sínum færu tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir með lögregluvald á sínu starfssviði en í meðförum Alþingis á frumvarpi til tollalaga hefði einmitt af hálfu þeirrar þingnefndar sem fjallað hefði um málið verið lögð á það áhersla að ríkissjóður stæði straum af almennum störfum tollstarfsmanna eins og löggæslumanna. Var niðurstaða umboðsmanns sú að þar sem hvorki tollalög eða önnur lög né lögskýringargögn skilgreindu mörk „almenns tolleftirlits“ og annars konar tolleftirlits væri verulegur vafi á því hvort og þá í hvaða mæli 2. mgr. 145. gr. tollalaga ein og sér teldist fullnægjandi lagaheimild fyrir gjaldtöku í þeim tilvikum þegar tollalög eða önnur lög gerðu beinlínis ráð fyrir því að tollstarfsmenn inntu tiltekin störf eða verkefni af hendi.

Því næst vék umboðsmaður að lagastoð gjaldtöku samkvæmt einstökum töluliðum 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 og fjallaði fyrst um töku gjalds vegna bráðabirgðatollafgreiðslu samkvæmt 1. tölul. greinarinnar. Fjallaði umboðsmaður í því sambandi um ákvæði er heimilaði töku sérstaks afgreiðslugjalds fyrir bráðabirgðatollafgreiðslu í 4. mgr. 21. gr. tollalaga og taldi með hliðsjón af lögskýringargögnum og stöðu ákvæðisins innan 21. gr. tollalaga rétt að skýra það með þeim hætti að það fæli einungis í sér heimild fyrir ráðherra til að kveða á um töku þjónustugjalds til að standa straum af kostnaði vegna tollskoðunar sem væri nauðsynlegur liður í að bráðabirgðatollafgreiðsla gæti farið fram en ekki öðrum kostnaði tollyfirvalda vegna bráðabirgðatollafgreiðslu. Tók umboðsmaður fram að ákvæði 2. mgr. 145. gr. tollalaga yrði ekki talið geta rýmkað heimildir 21. gr. tollalaga til töku þjónustugjalds vegna bráðabirgðatollafgreiðslu enda kæmi ekki fram í 21. gr. eða öðrum ákvæðum tollalaga að störf tollstarfsmanna í tengslum við bráðabirgðatollafgreiðslu teldust ekki liður í „almennu tolleftirliti.“

Vegna þess ákvæðis 2. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, að endurútflutningur og endursending vöru teldist til sérstakrar tollmeðferðar í skilningi þeirrar greinar reglugerðarinnar, taldi umboðsmaður ljóst að tollalög gerðu greinarmun á annars vegar „endursendingu“ vöru og hins vegar „endurútflutningi“ eða „endursölu“ hennar og að gjaldtöku samkvæmt 2. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 væri ætlað að taka til beggja þessara tilvika. Niðurstaða umboðsmanns var sú að lagaheimild skorti fyrir gjaldtöku vegna starfa tollstarfsmanna við endurútflutning vöru enda væri hvergi í tollalögum að finna sérstaka heimild til gjaldtöku vegna þeirra starfa og 2. mgr. 145. gr. laganna yrði ekki talin fela í sér fullnægjandi lagaheimild í því sambandi. Umboðsmaður taldi umrætt ákvæði aftur á móti veita ráðherra heimild til að innheimta þjónustugjald fyrir útgáfu vottorða um endursendingar á vörum. Öðru máli gegndi þó um kostnað tollyfirvalda af eiginlegri tollskoðun vöru sem endursend væri til útlanda enda yrði að telja að, verkefni tollstarfsmanna við könnun þeirrar vöru sem beiðni um endursendingu lyti að leiddu beinlínis af lögákveðnum skyldum tollyfirvalda til tolleftirlits með inn- og útflutningi vara og umflutningi þeirra. Tók umboðsmaður fram að gera yrði ríkar kröfur til skýrleika lagaheimildar til töku þjónustugjalda þegar um væri að ræða störf tollstarfsmanna við tollskoðun vöru sem yrði að telja eitt af frumverkefnum við tolleftirlit. Sama niðurstaða varð uppi á teningnum að því er varðaði töku gjalds vegna starfa tollstarfsmanna við niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af endursendri vöru, þ.e. umboðsmaður taldi 2. mgr. 145. gr. ekki veita þeirri gjaldtöku fullnægjandi lagastoð.

Umboðsmaður fjallaði næst um gjaldtöku samkvæmt 3. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 og taldi ljóst að því ákvæði væri ætlað að taka til þjónustu tollstarfsmanna tengdri veitingu undanþágu- og lækkunarheimilda vegna tímabundins innflutnings í 6. gr. tollalaga. Umboðsmaður benti á að tollalög gerðu ráð fyrir umræddum undantekningarheimildum og taldi ljóst að framkvæmd þeirra gæti út af fyrir sig talist liður í almennum störfum tollstarfsmanna. Að því virtu og þar sem hvergi kæmi fram í 6. gr. tollalaga eða öðrum greinum þeirra laga að störf tollstarfsmanna í tengslum við veitingu heimilda til tímabundins innflutnings bæri ekki að telja lið í „almennu tolleftirliti“, yrði 2. mgr. 145. gr. tollalaga ekki talin fela í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir töku gjalds vegna starfa tollstarfsmanna í þessu tilliti. Var niðurstaða umboðsmanns því sú að lagaheimild skorti til gjaldtöku samkvæmt 3. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Í áliti sínu vék umboðsmaður að gjaldtöku vegna eyðileggingar á vöru skv. 5. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Rakti umboðsmaður ákvæði í tollalögum er heimiluðu tollyfirvöldum að farga vöru við tilteknar aðstæður og komst að þeirri niðurstöðu að gjaldtöku skv. ofangreindu reglugerðarákvæði væri einvörðungu ætlað að taka til tilvika þegar vöru væri fargað á grundvelli 9. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Var skoðun umboðsmanns sú að af tilgreindum ákvæðum tollalaga, er heimiluðu töku gjalds vegna vinnu tollstarfsmanna við eyðileggingu á vöru í tilteknum tilvikum, yrði ekki dregin ályktun um almenna heimild ráðherra til að heimta þjónustugjald vegna förgunar vöru sem fram færi í öðrum tilvikum svo sem umboðsmaður rökstuddi nánar. Var niðurstaða umboðsmanns sú að lagaheimild skorti til gjaldtöku skv. 5. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Gjaldtökuákvæði 6. tölul. 3. gr. ofannefndrar reglugerðar laut að mati á skemmdri vöru. Umboðsmaður vék að ákvæðum tollalaga um þetta efni og tók fram að störf tollstarfsmanna við mat á skemmdri vöru, sem fram færi að ósk innflytjanda eða viðtakanda vörunnar, um að beitt yrði sérstakri undantekningarheimild í 6. gr. tollalaga, væru eðlisólík störfum sem einungis lytu að venjulegri afgreiðslu á beiðni um tollmeðferð skv. umræddri grein laganna. Með hliðsjón af því, lögskýringargögnum og ákvæði í 8. mgr. 64. gr. tollalaga, taldi umboðsmaður verða að líta svo á að störf tollstarfsmanna við mat á skemmdri vöru sem fram færi að ósk innflytjanda eða viðtakanda hennar, gæti ekki talist þáttur í „almennu tolleftirliti“ í skilningi 2. mgr. 145. gr. tollalaga. Var niðurstaða umboðsmanns því sú að síðastnefnt ákvæði veitti ráðherra heimild til að kveða á um töku þjónustugjalds vegna þessara starfa tollstarfsmanna. Umboðsmaður lagði þó áherslu á að heimildin væri bundin við störf þeirra við matið sem slíkt og tæki ekki til annarra starfa sem tengdust veitingu undantekningarheimildarinnar í 6. gr. tollalaganna svo sem eiginlegra afgreiðslustarfa.

Umboðsmaður taldi að innheimta þjónustugjalda vegna kostnaðar tollyfirvalda af tolleftirliti með ótollafgreiddum vörum í geymslum sem fengið hefðu sérstakt leyfi, sbr. 8. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, styddist við fullnægjandi lagaheimild í 65. gr. tollalaga.

Loks fjallaði umboðsmaður um afmörkun þeirra kostnaðarliða sem heimilt væri að fella undir gjaldtöku skv. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Tók umboðsmaður fram að verulegir annmarkar væru á umræddri grein reglugerðarinnar. Taldi hann að þess hefði ekki verið gætt af hálfu fjármálaráðuneytisins við setningu reglugerðar nr. 107/1997 að fullnægjandi lagaheimildir væru fyrir gjaldtökum á grundvelli 3. gr. hennar né að þær gjaldtökuheimildir sem þó væru fyrir hendi í tollalögum, hefðu sætt nákvæmri og vandaðri athugun af hálfu ráðuneytisins með tilliti til þeirra kostnaðarliða sem felldir yrðu undir gjaldtöku skv. þeim.

Loks vék umboðsmaður að þeim þætti kvörtunar Verslunarráðs Íslands er laut að útreikningi kostnaðar vegna þeirrar þjónustu tollyfirvalda sem um er fjallað í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Gerði umboðsmaður í því sambandi grein fyrir reglum og sjónarmiðum um ákvörðun á fjárhæð þjónustugjalda. Taldi umboðsmaður að af svörum fjármálaráðuneytisins í málinu yrði ekki önnur ályktun dregin en að misbrestur hefði verið á því að gjöldin hefðu verið ákvörðuð á nægilega traustum grunni. Ekki hefði þess verið nægjanlega gætt við setningu reglugerðarinnar að gjaldtökur skv. 3. gr. hennar hefðu verið undirbúnar á viðhlítandi hátt á grundvelli traustra útreikninga á kostnaði við þá þjónustu sem viðkomandi gjaldtökuheimildir tollalaga næðu til, í samræmi við almennar reglur sem giltu um ákvörðun þjónustugjalda. Umboðsmaður taldi af þeim sökum ekki unnt að fullyrða hvort umrædd gjöld hefðu verið ákvörðuð of há í umræddri grein reglugerðarinnar og ef svo væri hversu mikið hefði verið oftekið.

Niðurstaða umboðsmanns var sú að nauðsyn bæri til að ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 yrðu tekin til endurskoðunar og þeim komið á lögmætan grundvöll. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til fjármálaráðuneytisins að ráðuneytið gengist fyrir slíkri endurskoðun og tæki m.a. mið af framangreindum athugasemdum við einstök atriði í núgildandi tilhögun gjaldtöku. Jafnframt lagði umboðsmaður áherslu á að tilefni væri til að eyða vafa um gjaldtökuheimildir tollyfirvalda, þannig að tilgreint yrði í lögum fyrir hvaða þjónustu tollyfirvöldum væri heimilt að krefjast gjalds og þá afmarkað á hverju fjárhæð gjaldanna ætti að byggjast.

I.

Hinn 28. ágúst 1997 lagði Verslunarráð Íslands fram kvörtun við umboðsmann Alþingis varðandi lögmæti gjaldtöku samkvæmt reglugerð nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, sbr. reglugerð nr. 301/1997, um breyting á hinni fyrrnefndu reglugerð.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 7. júlí 1999.

II.

Í kvörtun Verslunarráðsins kemur fram að með reglugerð nr. 107/1997 hafi verið kveðið á um töku þjónustugjalda vegna ýmissa verkefna starfsmanna tollþjónustunnar. Er vakin athygli á því í kvörtuninni að í lögum sé ekki afmarkað nægilega hvað teljist vera annars vegar „almennt tolleftirlit“ sem framkvæmt sé án sérstaks endurgjalds og hins vegar „sérstök tollmeðferð vöru“ sem gjald þurfi að greiða fyrir samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Sé því ógerningur fyrir gjaldanda að gera sér grein fyrir hvenær hann njóti þjónustu sem sé hluti af almennri tollinnheimtu og hvenær um sé að ræða „sérstaka tollmeðferð“. Það sé grundvallarkrafa við töku þjónustugjalda að fyrir liggi á skýran hátt afmörkun kostnaðar við þá þjónustu sem gjaldi er ætlað að standa straum af. Draga megi í efa að ýmis sú þjónusta sem greind sé í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, teljist ekki til almenns tolleftirlits og megi í því sambandi einkum nefna 2. og 3. tölulið ákvæðisins, um endurútflutning og endursending vöru annars vegar og veitingu heimildar til tímabundins innflutnings á vörum hins vegar. Þá sé vafasamt að lagastoð sé fyrir innheimtu þjónustugjalda fyrir umrædda þjónustu samkvæmt 2. og 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Að því er snertir kostnað vegna þeirrar þjónustu sem tilgreind er í reglugerð nr. 107/1997 er á það bent í kvörtun Verslunarráðs að engir eiginlegir útreikningar á þeim kostnaði liggi til grundvallar ákvörðun gjalda samkvæmt reglugerðinni. Þannig sé ekki til staðar útreikningur á raunkostnaði sem innheimta eigi tollafgreiðslugjöld fyrir samkvæmt 1. mgr. 1. gr., 1. mgr. 2. gr., 3. gr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Í kvörtuninni er tekið fram að af ákvæðum reglugerðar nr. 107/1997 megi ráða að gjaldtaka samkvæmt henni sé fremur hugsuð sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð, til að standa undir almennum rekstrarkostnaði embættis tollstjóra, heldur en sem endurgreiðsla á nauðsynlegum og eðlilegum kostnaði við að veita tiltekna þjónustu. Ekki sé á því byggt í reglugerðinni að greiðsla fyrir þjónustu endurspegli raunkostnað vegna þjónustunnar heldur sé gert ráð fyrir fastri krónutölu fyrir mismunandi verk sama tollafgreiðslumanns án þess að fjárhæðir séu rökstuddar frekar. Þá liggi ekkert fyrir um þá eftirlitsþörf sem greiðendum þjónustugjalda samkvæmt reglugerðinni beri að greiða fyrir.

III.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ákvað umboðsmaður Alþingis að takmarka athugun sína við þann þátt kvörtunar Verslunarráðsins sem lýtur að gjaldtöku vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 301/1997. Var Verslunarráði Íslands tilkynnt um þessa afmörkun á athugun umboðsmanns með bréfi hans, dags. 30. september 1997.

Með bréfi, dags. 30. september 1997, sbr. ítrekun í bréfi, dags. 5. desember 1997, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir því við fjármálaráðuneytið, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til áðurnefnds hluta kvörtunar Verslunarráðs og léti honum í té þau gögn er málið vörðuðu. Sérstaklega óskaði hann þess að ráðuneytið veitti upplýsingar og gögn um eftirtalin atriði:

„1. Á grundvelli hvaða lagaheimilda byggist gjaldtaka fyrir þjónustu skv. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, með síðari breytingum, þ.á m. í 3., 4., 5. og 6. tölul. 1. mgr.

2. Hvaða kostnaðarliðum ráðuneytið telji vera heimilt að standa straum af með gjaldtöku skv. 3. gr. nefndrar reglugerðar.

3. Hvaða útreikningar liggi að baki þeim gjöldum, sem ákveðin eru í 2. mgr. 3. gr.“

Svar fjármálaráðuneytisins barst umboðsmanni Alþingis með bréfi, dags. 22. desember 1997. Í bréfinu er lýst þeirri skoðun ráðuneytisins að þörf sé á að skýr mörk séu sett um gjaldfrelsi og gjaldskyldu vegna þjónustu sem tollyfirvöld veiti. Er tekið fram að setning reglugerðar nr. 107/1997 hafi verið liður í að skýra betur hvaða verkefnum ætlast væri til að tollyfirvöld sinntu og hvernig kostnaður vegna slíkra verkefna skyldi greiddur. Að því er varðar gjaldtöku samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar segir m.a. svo í bréfi ráðuneytisins:

„Hvað varðar gjaldtöku þá sem tilgreind er í 3. gr. reglugerðarinnar vegna ýmissar sérstakrar tollmeðferðar vöru, skal tekið fram að um langt árabil hefur tíðkast að tollstjórar innheimti gjald vegna ýmiss konar þjónustu er þeir veita og ekki getur talist liður í almennri tollmeðferð vöru, þ.á m. vegna flestra þeirra þjónustuliða sem tilgreindir eru í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Fullyrðing í bréfi Verslunarráðs um að gjaldtaka hafi hafist með setningu reglugerðarinnar er því ekki rétt. Tilgangurinn með reglugerðinni var ekki síst sá að kveða með skýrum hætti á um fyrir hvaða þjónustu tollstjórum væri heimilt að taka gjald og þar með setja gjaldtöku tollstjóra tiltekin mörk og tryggja hóflega gjaldtöku miðað við þann kostnað sem af henni hlýst. Ábendingar og kvartanir frá einstökum innflytjendum sem ráðuneytinu höfðu borist vegna gjaldtöku tollstjóra þrýstu á að settar yrðu skýrar reglur í þessum efnum. Ráðuneytið telur að umrædd reglugerð skýri línur varðandi gjaldtökuheimildir, geri gjaldtökuna gagnsærri og auki réttaröryggi þeirra sem njóta þjónustu tollsins.

Ráðuneytið tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið í bréfum Verslunarráðs að skýr lagaheimild þurfi að vera fyrir hendi til töku þjónustugjalda. Í tollalögum nr. 55/1987 er að finna ýmis ákvæði er kveða á um gjaldtöku í tilteknum tilvikum. Víðtækast þeirra er ákvæði 2. mgr. 145. gr. laganna, en þar segir að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða gjald skuli innheimta fyrir störf tollstarfsmanna sem ekki teljist liður í almennu tolleftirliti. Í ákvæðinu er því beinlínis gerður áskilnaður um að gjald skuli innheimt fyrir þau störf tolleftirlitsmanna sem ekki falla undir almennt tolleftirlit. Ráðuneytið telur að sú gjaldtaka sem kveðið er á um í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 falli að öllu leyti innan þeirra marka sem ákvæði 2. mgr. 145. gr. [tollalaga] setur um gjaldtöku. Í bréfum Verslunarráðs hefur sú túlkun verið dregin í efa, án þess þó að bent hafi verið á einstaka þjónustuliði sem ekki eigi heima í reglugerðinni.“

Til svars við 1. tölulið í bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 30. september 1997, segir svo í bréfi fjármálaráðuneytisins:

„Lagaheimildir fyrir gjaldtöku skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar eru sem hér segir:

a. 1. tölul.: 4. mgr. 21. gr., sbr. 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

b. 2. tölul.: 8. mgr. 64. gr., sbr. 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

c. 3. tölul.: 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

d. 4. tölul.: 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

e. 5. tölul.: 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

f. 6. tölul.: 8. mgr. 64. gr., sbr. 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

g. 7. tölul.: Þessi liður er fallinn brott, sbr. a-liður 2. gr. reglugerðar nr. 301/1997.

h. 8. tölul.: 65. gr., sbr. 2. mgr. 145. gr. tollalaga.”

Í bréfi fjármálaráðuneytisins kemur ennfremur fram að ráðuneytið telji heimilt að taka gjald samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 til að standa undir beinum kostnaði tollstjóra vegna veittrar þjónustu, sbr. 2. tölulið í bréfi umboðsmanns, dags. 30. september 1997, en þar sé fyrst og fremst um að ræða launakostnað vegna vinnu þeirra tollstarfsmanna sem þjónustuna veiti. Þó telji ráðuneytið einnig heimilt að taka gjald vegna aksturs í þeim tilvikum þar sem um slíkt sé að ræða.

Til svars við 3. tölulið í nefndu bréfi umboðsmanns vísar fjármálaráðuneytið til bréfs tollstjórans í Reykjavík til ráðuneytisins, dags. 20. nóvember 1997, „varðandi þjónustugjöld hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík fyrir gildistöku reglugerðar nr. 107/1997“. Er bent á í bréfi ráðuneytisins að setning reglugerðar nr. 107/1997 hafi haft í för með sér umtalsverða lækkun gjalda frá því sem verið hafi. Þar sem fjárhæðir gjalda samkvæmt reglugerðinni væru að miklum mun lægri en þau gjöld sem áður hafi verið innheimt vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru hafi þótt sýnt að fjárhæðir væru vel innan þeirra marka sem unnt væri að krefja vegna umræddrar þjónustu. Hafi því ekki verið talin þörf á sérstökum útreikningum samkvæmt reglugerðinni.

Afrit af fyrrgreindu bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 20. nóvember 1997, fylgdi bréfi fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns. Er bréf þetta svohljóðandi:

„Vegna fyrirspurnar í bréfi yðar dags. 16. október sl., [...], varðandi þjónustugjöld hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík fyrir gildistöku reglugerðar nr. 107/1997 upplýsist eftirfarandi:

1. Fast gjald var tekið fyrir einfaldari þjónustugerðir vöruskoðunardeildar tollgæslunnar. Fjárhæð gjaldsins var ákveðin af tollgæslustjóra og breytt í tímans rás, síðast með bréfi dags. 02.12.87 sem kvað á um að tollskoðunargjald skyldi vera kr. 2000,00 frá og með 1. janúar 1988. Var gjald þetta óbreytt fram að gildistöku framangreindrar reglugerðar.

2. Önnur útseld vinna tollgæslunnar var samkvæmt taxta yfirvinnukaups yfirtollvarðar launafl. 515-075-8 að viðbættu 25% álagi vegna launatengdra gjalda og nam kr. 1.514,00 á klst. næst á undan gildistöku framangreindrar reglugerðar. Gjaldtaka á þessum grunni mun hafa tíðkast hjá tollgæslu Íslands um áratuga skeið og minnast eldri tollverðir þess að upphaflega hafi verið miðað við yfirvinnukaup varðstjóra í tollgæslunni. Þá rekur þessa aðila minni til þess að upphaflega muni gjaldtaka þessi hafa tekið mið af reglum sem dómsmálaráðuneytið setti um greiðslur vegna útseldrar vinnu lögreglumanna.

3. Vegna útkalla utan dagvinnutíma var innheimt fyrir þann tímafjölda sem greiða þurfti viðkomandi starfsmanni laun fyrir samkvæmt kjarasamningi.

4. Fjárhæð gjalds vegna aksturs hefur um alllangt skeið verið kr. 500,00. Bifreiðar tollgæslunnar eru eftir því sem tök eru á notaðar til slíks aksturs, en stundum er um eigin bifreiðar tollgæslumanna að ræða skv. aksturssamningum eða leigubifreiðar ef ekki er annarra kostur. Gjaldið hefur tekið mið af þeim töxtum sem fyrirtæki á almennum markaði hafa tekið fyrir akstur (t.d. þegar viðgerðarmenn eru sendir á vettvang eða vörupöntunum dreift) svo og startgjaldi leigubifreiða, en alltaf verið í lægri kantinum miðað við markaðinn. Þannig taka fyrirtæki nú oft 700,00-800,00 kr. fyrir akstur á Reykjavíkursvæðinu og startgjald leigubifreiða er kr. 750. Æskilegt væri að fá um þetta fastar reglur, því gjald fyrir akstur er mismunandi eftir tollumdæmum, þannig að í Vestmannaeyjum nemur gjaldið t.d. kr. 600 fyrir hverja ferð.“

Með bréfi, dags. 22. desember 1997, gaf umboðsmaður Alþingis Verslunarráði Íslands kost á að gera athugasemdir við bréf fjármálaráðuneytisins. Athugasemdir ráðsins bárust með bréfi, dags. 28. janúar 1998. Er þar ítrekað það sjónarmið Verslunarráðsins að fullnægjandi lagastoð bresti til gjaldtöku samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 í ýmsum tilvikum svo sem nánar er rakið í bréfinu. Þá kemur fram að af bréfi fjármálaráðuneytisins frá 22. desember 1997 verði ráðið að gjaldtaka samkvæmt reglugerð nr. 107/1997 byggi ekki á neinum eiginlegum útreikningum né afmörkun á því hvaða kostnaðarliðum sé heimilt að standa straum af með gjaldtöku. Einu gögnin sem ráðuneytið leggi fram um kostnað sé bréf tollstjórans í Reykjavík sem dagsett sé 20. nóvember 1997 eða níu mánuðum eftir að hin umþrætta reglugerð tók gildi og í því bréfi sé eingöngu að finna fortíðarupplýsingar um það hvernig tollyfirvöld hafi ákvarðað gjaldtöku áður en reglugerðin hafi verið sett.

Með bréfi, dags. 25. mars 1998, sbr. ítrekun í bréfum, dags. 14. maí og 16. júní s.á., óskaði umboðsmaður eftir því að fjármálaráðuneytið lýsti viðhorfi sínu til þeirra athugasemdasem fram koma í fyrrnefndu bréfi Verslunarráðs, dags. 28. janúar 1998. Þá óskaði hann jafnframt eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið léti honum í té nánari skýringar varðandi eftirgreind atriði:

„1) Hvaða forsendur ráðuneytið hafi lagt til grundvallar við afmörkun á því, hvaða þjónusta falli utan „almenns tolleftirlits“ og sé því gjaldskyld skv. 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

2) Í hverju sú þjónusta felist, sem gjald er áskilið fyrir skv. 2. og 4. tl. 1. mgr. 3. gr. rgl. nr. 107/1997.

3) Hvort ráðuneytið telji, að 8. mgr. 64. gr. tollalaga veiti heimild til gjaldtöku vegna endurútflutnings og endursendingar vöru og vegna mats á skemmdri vöru, óháð því hvort þjónustan fer fram innan eða utan vörugeymslna „geymsluhafa“ skv. 64. gr. tollalaga. Ef svo er, er þess óskað að ráðuneytið skýri, á hverju það byggi þá lagatúlkun.

4) Hverjir þeir kostnaðarliðir séu, sem gjöldum skv. 1. og 3. tl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er ætlað að standa straum af. Upplýsinga um þetta er óskað, þar sem fram kemur í 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 64/1991, um bráðabirgðatollafgreiðslur, sem og í 8. gr. reglna nr. 487/1994, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning ökutækja til sýningar, að innflytjandi skuli greiða allan kostnað, sem leiða kunni af vinnu tollstarfsmanna í tengslum við þá þjónustu, sem um er fjallað í reglum þessum, til viðbótar gjöldum skv. rgl. nr. 107/1997.

5) Hvaða upplýsingar hafi legið fyrir um raunverulegan kostnað tollyfirvalda vegna einstakra þjónustuliða, sem taldir eru upp í 3. gr. rgl. nr. 107/1997, þegar gjaldfjárhæðir skv. reglugerðinni voru ákvarðaðar.

Þess er sérstaklega óskað, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti yðar gangi úr skugga um það, að mér hafi verið send öll tiltæk gögn, sem lágu til grundvallar setningu umræddrar reglugerðar.“

Athugasemdir fjármálaráðuneytisins bárust umboðsmanni með bréfi, dags. 23. júní 1998.

Að því er varðar forsendur sem af hálfu ráðuneytisins hafi verið lagðar til grundvallar við afmörkun á því hvaða þjónusta félli utan „almenns tolleftirlits“ og væri því gjaldskyld samkvæmt 2. mgr. 145. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 1. tölulið í bréfi umboðsmanns, dags. 25. mars 1998, kemur fram í bréfi ráðuneytisins að lagt hafi verið til grundvallar að þjónusta væri ekki þáttur í venjulegri eða hefðbundinni tollmeðferð vöru eða tolleftirliti. Sú þjónusta sem heimilt sé að krefjast gjalds fyrir samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 feli í sér frávik frá venjulegri eða hefðbundinni tollmeðferð. Sú þjónusta fari fram að ósk innflytjanda sjálfs og kalli á sérstaka vinnu tollstarfsmanna til viðbótar þeirri vinnu sem innt sé af hendi við venjulega tollafgreiðslu. Þetta eigi þó e.t.v. ekki við um gjaldtökuheimild 8. töluliðar 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar en sú heimild eigi sér lagastoð í 65. gr. tollalaga nr. 55/1987.

Til svars við 2. tölulið í nefndu bréfi umboðsmanns segir svo í bréfi fjármálaráðuneytisins:

„a) 2. tölul: Endurútflutningur og endursending vöru: Hér er um að ræða verkefni tollstarfsmanna sem innt eru af hendi í þeim tilvikum er vara, sem flutt hefur verið hingað til lands, er send úr landi á ný. Hér getur verið um að ræða vöru sem aldrei hefur hlotið tollafgreiðslu heldur verið í vörslu farmflytjanda eða sett í tollvörugeymslu, tollafgreidda vöru sem send er ónotuð aftur úr landi, vöru sem reynist haldin galla eða hefur skemmst við flutning eða geymslu og er af þeim sökum send úr landi á ný og loks vöru sem endurseld er til útlanda. Í reglugerð nr. 545/1990, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, eyðileggingar, rýrnunar, skemmda, vöntunar eða endursölu til útlanda o.fl., er framkvæmd endurútflutnings eða endursendingar lýst. Eins og þar kemur fram er framkvæmdin nokkuð mismunandi eftir því hvert tilefni endurútflutnings eða endursendingar er. Þó má almennt segja að meginverkefni tollstarfsmanna felist í að kanna umrædda vöru og ganga úr skugga um að um sé að ræða sömu vöru, í óbreyttu ástandi og magni, og upphaflega var flutt til landsins. Jafnframt að annast niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörunni ef því er að skipta. Að öðru leyti vísast til reglugerðar nr. 545/1990 um verkefni tollstarfsmanna við umrædda þjónustu.

b) 4. tölul: Heimild til að taka vörur við uppskipun eða við flutningsfar eða í beinu framhaldi af uppskipun eða skipa vöru beint um borð í flutningsfar: Hér er einkum um að ræða eftirlit með vöru sem send er hingað til lands og flutt í framhaldsflutningi (transit). Um er að ræða sambærilega heimild og var að finna til gjaldtöku í auglýsingu nr. 220/1968, um niðurfellingu gjalda af vörum í framhaldsflutningi. Með auglýsingu nr. 214/1998 var auglýsing nr. 220/1968 felld úr gildi. Í bréfi ráðuneytisins til ríkistollstjóra, dags. 22. janúar 1998, kemur fram að rökin að baki þeirri ákvörðun voru að ekki hefði komið fram með nægilega skýrum hætti að eftirlit með umflutningi fæli í sér starfsemi af hálfu tollyfirvalda sem kallaði á sérstaka gjaldtöku. Að athuguðu máli hefði ráðuneytinu verið rétt að fella samtímis úr gildi gjaldtökuheimild 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Ráðuneytið hefur því ákveðið að fella þá heimild úr gildi nú.“

Í fyrrgreindu bréfi ráðuneytisins er á það bent, sbr. 3. tölulið í bréfi umboðsmanns, dags. 25. mars 1998, að í 8. mgr. 64. gr. tollalaga nr. 55/1987 sé kveðið á um skyldu geymsluhafa til að greiða ríkissjóði kostnað við tolleftirlit í vörugeymslum sínum sem ekki geti talist þáttur í almennu tolleftirliti. Ákvæðið veiti því ekki heimild til gjaldtöku vegna neinna verkefna sem tollstarfsmenn inni af hendi utan vörugeymslna. Hins vegar telji ráðuneytið þau verkefni sem tilgreind séu í 3. tölulið í nefndu bréfi umboðsmanns ekki vera lið í almennri eða hefðbundinni tollmeðferð vöru eða tolleftirliti. Gjaldtaka vegna þeirra geti samkvæmt því byggst á heimild í 2. mgr. 145. gr. tollalaga, ekki síst ef þjónustan fer fram utan vörugeymslna.

Til svars við 4. tölulið í bréfi umboðsmanns frá 25. mars 1998 er tekið fram í svari ráðuneytisins að með reglugerð nr. 724/1997 hafi verið sett ný reglugerð um bráðabirgðatollafgreiðslur og reglugerð nr. 64/1991 jafnframt verið felld úr gildi. Í 8. gr. hinnar nýju reglugerðar sé kveðið á um að um greiðslu kostnaðar vegna bráðabirgðatollafgreiðslu fari eftir ákvæðum reglugerðar nr. 107/1997. Hvað varði gjaldtöku samkvæmt reglum nr. 487/1994 þá hafi með auglýsingu nr. 308/1997 verið felld brott 2. mgr. 8. gr. reglnanna sem kveðið hafi á um greiðslu sérstaks afgreiðslugjalds vegna tollmeðferðar ökutækja samkvæmt reglunum. Tilgangurinn með þeirri breytingu hafi verið að hætta gjaldtöku á grundvelli þeirra reglna og að um gjaldtöku færi þá eftir reglugerð nr. 107/1997 til samræmis við það markmið að þar yrði á einum stað afmarkað með skýrum hætti fyrir hvaða þjónustu tollyfirvöldum væri heimilt að innheimta gjald og fjárhæð gjalds hverju sinni. Að nánar athuguðu máli telji ráðuneytið að nákvæmara hefði verið, til að tryggja að gjaldtaka tollstjóra yrði eingöngu á grundvelli reglugerðar nr. 107/1997, að fella brott í heild sinni ákvæði 8. gr. auglýsingar nr. 487/1994. Hafi ráðuneytið því ákveðið að fella þá grein brott í heild.

Í bréfi fjármálaráðuneytisins er frá því greint, sbr. 5. tölulið í bréfi umboðsmanns frá 25. mars 1998, að mjög erfitt sé að reikna út eða meta með nákvæmum hætti kostnað vegna einstakra þjónustuliða sem taldir eru upp í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Geti kostnaðurinn verið mismunandi í einstökum tilvikum og m.a. ráðist af því hversu langan tíma taki að vinna verkið, hvort einn eða fleiri tollstarfsmenn þurfi til að sinna verkinu og hvar þjónustan sé innt af hendi. Ekki hafi verið talið heppilegt að eftirláta tollstjórum að reikna út kostnaðinn í hverju tilviki fyrir sig heldur hafi þótt æskilegra í því skyni að tryggja samræmi í gjaldtökunni og til að gjaldtakan yrði gagnsærri að hafa ákveðnar reglur um fjárhæð gjalds í hverju tilviki fyrir sig. Reynt hafi verið að meta hóflega líklegan kostnað og hafi það mat byggst á upplýsingum um kostnað vegna launa og launatengdra gjalda svo og kostnað vegna aksturs. Upplýsingar sem fyrir hafi legið um þau atriði hafi verið upplýsingar um gjaldtöku tollstjórans í Reykjavík vegna tiltekinnar þjónustu, bæði vegna vinnu og vegna aksturs. Auk þess hafi verið hafðar til hliðsjónar upplýsingar um laun tollvarða. Hafi tilgangur með gjaldtökunni einungis verið sá að standa undir áætluðum kostnaði við að veita umrædda þjónustu en ekki að afla ríkissjóði tekna.

Í niðurlagi bréfs fjármálaráðuneytisins segir svo:

„Í bréfi ráðuneytisins til yðar, dags. 22. desember sl., kemur fram að æskilegt kynni að vera, til að eyða öllum hugsanlegum vafa um gjaldtökuheimildir tollyfirvalda, að leggja til breytingar á gjaldtökuheimildum tollalaga, þannig að tilgreint verði í lögunum fyrir hvaða þjónustu tollyfirvöldum sé heimilt að krefjast gjalds, svo og kveðið á um fjárhæð gjalds. Til skoðunar er í ráðuneytinu að leggja fram frumvarp til slíkra breytinga á tollalögum, en endanleg ákvörðun um slíkt verður tekin að fenginni niðurstöðu yðar í máli þessu.“

Með bréfi, dags. 26. júní 1998, sbr. ítrekun í bréfum, dags. 22. september og 5. nóvember s.á., var Verslunarráði Íslands gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf fjármálaráðuneytisins. Athugasemdir ráðsins bárust með bréfi, dags. 18. nóvember 1998. Er þar vísað til fyrri bréfa Verslunarráðsins um málið og farið fram á að umboðsmaður Alþingis láti í ljós álit sitt á lögmæti gjaldtöku samkvæmt reglugerð nr. 107/1997, sbr. reglugerðir nr. 301/1997 og 368/1998, á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

IV.

Kvörtun Verslunarráðs Íslands lýtur að því að gjaldtaka samkvæmt reglugerð nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, með síðari breytingum, eigi sér ekki fullnægjandi stoð í lögum. Er á það bent í kvörtuninni að í skráðum lögum sé hvergi að finna skilgreiningu á hugtökunum „almennt tolleftirlit“ og „sérstök tollmeðferð vöru“ en í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 sé gert ráð fyrir að gjald þurfi að greiða fyrir tiltekna þjónustu tollyfirvalda sem teljist til „sérstakrar tollmeðferðar“ samkvæmt reglugerðarákvæðinu. Sé af þessum sökum vafasamt að lagastoð sé fyrir gjaldtöku á grundvelli 3. gr. reglugerðarinnar. Þá gerir Verslunarráðið að öðru leyti athugasemdir við efni reglugerðarinnar og telur að ákvörðun um gjaldtöku hafi ekki byggst á traustum útreikningum á kostnaði við viðkomandi þjónustu og tilgreindur kostnaður við þjónustuna sé ofreiknaður í reglugerðinni.

Eins og áður er rakið tók umboðsmaður Alþingis þá ákvörðun, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að takmarka athugun sína við þann þátt kvörtunar Verslunarráðsins sem lýtur að gjaldtöku vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 301/1997. Þess ber að geta að með reglugerð nr. 368/1998, um breyting á reglugerð nr. 107/1997, voru gerðar tilteknar breytingar á 1. mgr. 3. gr. hinnar síðastnefndu reglugerðar. Var annars vegar gerð viðbót við ákvæði 1. töluliðar málsgreinarinnar sem gerð verður grein fyrir hér síðar og hins vegar var ákvæði 4. töluliðar málsgreinarinnar fellt úr gildi. Að þessum breytingum verður vikið hér síðar.

1.

Um tolla og tollamálefni gilda nú tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum. Með setningu laga þessara var steypt saman í einn lagabálk reglum um tollheimtu og tollmeðferð sem áður var að finna í þrennum lögum, þ.e. í lögum nr. 120/1976, um tollskrá o.fl., lögum nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, og lögum nr. 47/1960, um tollvörugeymslur o.fl. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 55/1987, kemur fram að megintilgangur með framlagningu frumvarpsins hafi m.a. verið sá, „að setja heildarlöggjöf um tollheimtu og tolleftirlit þannig að jafnt viðskiptavinir tollyfirvalda sem þau sjálf séu vitandi um réttindi og skyldur varðandi innflutning og útflutning á vörum“. (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 1283.)

Um tollyfirvöld og helstu verkefni þeirra er fjallað í VI. kafla tollalaga. Tollyfirvöld í skilningi tollalaga eru tollstjórar og ríkistollstjóri, sbr. 1. gr. laganna, en samkvæmt 30. gr. þeirra er fjármálaráðherra æðsti yfirmaður tollamála samkvæmt lögunum og hefur eftirlit með því að ríkistollstjóri, ríkistollanefnd og tollstjórar ræki skyldur sínar. Um tollstjóra eru ákvæði í 36. og 37. gr. laganna. Verkefni tollstjóra samkvæmt tollalögum eru í meginatriðum tvíþætt, þ.e. annars vegar að annast álagningu og innheimtu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu samkvæmt tollalögum eða öðrum lögum (tollheimta) og hins vegar að annast eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu og ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu svo og flutningi á ótollafgreiddum varningi innan lands auk annars eftirlits lögum samkvæmt (tolleftirlit), sbr. 3. mgr. 36. gr. tollalaga. Um ríkistollstjóra er fjallað í 31. - 35. gr. laganna en samkvæmt 32. gr. þeirra fer ríkistollstjóri í umboði ráðherra með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits hvarvetna á tollsvæði ríkisins. Tollyfirvöld, þ.e. ríkistollstjóri og tollstjórar, annast rannsókn brota á tollalögum að svo miklu leyti sem slík rannsókn er ekki í höndum lögreglu, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna.

Í XV. kafla tollalaga, sem ber fyrirsögnina ýmis ákvæði, er í 1. mgr. 145. gr. mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja reglur um almennan tollafgreiðslutíma. Tekið er fram að tollyfirvöld geti heimilað að afgreiðsla fari fram á öðrum tímum „enda greiði viðkomandi þann kostnað sem af því leiði“. Í 2. mgr. 145. gr. tollalaga er síðan svohljóðandi ákvæði:

„Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða gjald skuli innheimta fyrir störf tollstarfsmanna sem ekki teljast liður í almennu tolleftirliti. Krafa þessi nýtur lögtaksréttar.“

Í frumvarpi til tollalaga, sem lagt var fyrir Alþingi á 109. löggjafarþingi 1986-87, var samsvarandi ákvæði orðað svo:

„Ráðherra ákveður fyrir hvaða störf tollstarfsmanna skuli tekin greiðsla, fjárhæð hennar og lögvernd. Krafa þessi nýtur lögtaksréttar.“

Endanlegt orðalag ákvæðisins kom fram með breytingartillögu meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar. Í nefndaráliti, sem fylgdi breytingartillögunni, segir m.a.:

„Enn fremur er með brtt. við 2. mgr. 145. gr. gert ráð fyrir að í reglugerð skuli ákveða hvaða gjald verði innheimt fyrir störf tollstarfsmanna, „sem ekki teljast liður í almennu tolleftirliti“. Með því er lögð áhersla á að ríkissjóður standi straum af almennum störfum tollstarfsmanna eins og löggæslumanna.“ (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 3558-3559.)

Í eldri lögum um tollheimtu og tolleftirlit nr. 59/1969 var í 2. mgr. 8. gr. að finna heimild fyrir ráðherra til að ákveða „fyrir hvaða störf tollstarfsmanna skuli tekin greiðsla, upphæð hennar og lögvernd“. Í athugasemdum við þá grein í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 59/1969, var tekið fram að greinin samsvaraði 3. mgr. 14. gr. þágildandi laga, þ.e. laga nr. 68/1956, um tollheimtu og tolleftirlit. (Alþt. 1968, A-deild, bls. 592.) Í umræddu ákvæði laga nr. 68/1956 var mælt fyrir um að ákveða skyldi í reglugerð „hvenær hin ýmsu störf tollgæzlunnar [skyldu] unnin án endurgjalds, svo og um greiðslu fyrir störf, sem unnin [væru] á öðrum tímum“. Þetta ákvæði kom inn í tollalöggjöfina með lögum nr. 47/1956 sem breyttu þágildandi lögum nr. 63/1937, um tollheimtu og tolleftirlit, sem síðan voru endurútgefin sem lög nr. 68/1956, um tollheimtu og tolleftirlit. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 47/1956, er ekki að finna aðrar skýringar við ákvæði þetta en þær, að ákvæðið sé „í samræmi við gildandi reglur í nágrannalöndunum“. (Alþt. 1955, A-deild, bls. 572.)

Reglugerð nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, var sett af fjármálaráðherra hinn 13. febrúar 1997 og birt í B-deild Stjórnartíðinda sem út kom 14. febrúar 1997. Samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar er hún sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 21. gr., 2. mgr. 25. gr., 4. mgr. 61. gr., 63. gr., 8. mgr. 64. gr., 2. mgr. 132. gr., 145. gr. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Í 3. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um svonefnda sérstaka tollmeðferð vöru. Eftir breytingu með 2. gr. reglugerðar nr. 301/1997 er 1. mgr. þessarar greinar reglugerðarinnar svohljóðandi:

„Þegar eftirfarandi þjónusta er veitt við tollmeðferð vöru, skal sá er þjónustunnar óskar greiða kostnað vegna hennar:

1. Bráðabirgðatollafgreiðsla.

2. Endurútflutningur og endursending vöru.

3. Veiting heimildar til tímabundins innflutnings á vörum, þó ekki á ökutækjum eða öðrum farartækjum sem ferðamenn mega flytja tollfrjálst til landsins.

4. Heimild til að taka vörur við uppskipun eða við flutningsfar eða í beinu framhaldi af uppskipun eða skipa vöru beint um borð í flutningsfar.

5. Eyðilegging á vöru.

6. Mat á vöru sem orðið hefur fyrir skemmdum. Þó skal ekki greiða kostnað vegna matsins, ef fob-verðmæti þeirrar vöru sem hefur orðið fyrir skemmdum er undir 10.000 kr.

[...]

8. Eftirlit með ótollafgreiddum vörum í geymslum sem fengið hafa sérstakt leyfi, sbr. 65. gr. tollalaga.“

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir svo um fjárhæð kostnaðar fyrir þjónustu samkvæmt fyrri málsgreininni:

„Kostnaður vegna þjónustu skv. 1.-4. tölul. 1. mgr. skal vera 1.000 kr. Kostnaður vegna þjónustu skv. 5.-8. tölul. 1. mgr. skal vera 1.000 kr. vegna hverrar byrjaðrar vinnustundar tollstarfsmanns. Ef þjónusta skv. 1. mgr. er veitt utan almenns afgreiðslutíma fer um greiðslu kostnaðar eftir 3. mgr. 2. gr.“

Í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 er gengið út frá því að tollyfirvöld veiti tiltekna „þjónustu” við tollmeðferð vöru, sem skilgreind er sem „sérstök tollmeðferð vöru “ og er sú þjónusta nánar tilgreind í einstökum töluliðum 1. mgr. greinarinnar. Í bréfum fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 22. desember 1997 og 23. júní 1998 er vikið að þeim lagagrundvelli sem ráðuneytið telur vera fyrir gjaldtöku þeirri er 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 fjallar um. Í hinu fyrrnefnda bréfi er lýst þeirri skoðun ráðuneytisins að gjaldtaka samkvæmt umræddri grein reglugerðarinnar „falli að öllu leyti innan þeirra marka sem ákvæði 2. mgr. 145. gr.“ tollalaga nr. 55/1987 setji um gjaldtöku. Í hinu síðarnefnda bréfi kemur m.a. fram það sjónarmið ráðuneytisins að sú þjónusta tollyfirvalda sem tilgreind sé í 3. gr. reglugerðarinnar feli í öllum tilvikum í sér „frávik frá venjulegri eða hefðbundinni tollmeðferð“. Er þó tekið fram að e.t.v. eigi það ekki við um gjaldtökuheimild 8. töluliðar nefndrar greinar reglugerðarinnar en hún eigi sér hins vegar skýra lagastoð í 65. gr. tollalaga. Þá hefur fjármálaráðuneytið vísað til 4. mgr. 21. gr. og 8. mgr. 64. gr. laganna um lagastoð gjaldtöku samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 en eins og fram er komið eru tilvísanir ráðuneytisins til lagaákvæða mismunandi eftir því hvaða töluliður umræddrar greinar reglugerðarinnar á í hlut. Eins og ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar eru úr garði gerð samkvæmt framansögðu er nauðsynlegt við könnun á lagastoð gjaldtöku samkvæmt þeim að fjalla um hvern tölulið greinarinnar fyrir sig. Ég tel þó tilefni til þess, eins og málið liggur fyrir samkvæmt því sem að framan er rakið og lagaheimildum er háttað, að fjalla sérstaklega um heimild þá til gjaldtöku sem greinir í 2. mgr. 145. gr. tollalaga. Í upphafi er þó rétt að gera stuttlega grein fyrir helstu meginreglum um skatta annars vegar og þjónustugjöld hins vegar.

2.

Um tekjuöflun opinberra aðila gildir sú meginregla að hún verður að byggjast á heimild í lögum, óháð því hvort um er að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu sem látin er í té.

Að því er skatta snertir eru gerðar sérstakar kröfur til lagaheimilda fyrir þeim. Felast þessar kröfur í 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, um breytingu á stjórnarskránni, er breytti 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og þau hafa verið skýrð í dómaframkvæmd, leiða til þess að í lagaheimildum um skatta (skattlagningarheimildum) verður meðal annars að kveða skýrlega á um skattskyldu, skattstofn og gjaldstig eða fjárhæð skatts að öðru leyti, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar Íslands frá 5. nóvember 1998 í málinu nr. 50/1998.

Um heimild til töku svonefndra þjónustugjalda verður í samræmi við þá grundvallarreglu að stjórnsýslan sé lögbundin að ganga almennt út frá því að slík gjöld verði ekki innheimt án heimildar í lögum og þá eingöngu til að standa straum af þeim kostnaði sem lagaheimildin mælir fyrir um.

Eins og áður greinir hefur fjármálaráðuneytið um lagaheimild fyrir gjaldtöku samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 vísað til tilgreindra ákvæða í tollalögunum og er skilningur ráðuneytisins sá að nefnd ákvæði laganna heimili töku þjónustugjalda en kveði ekki á um skattheimtu. Er og gengið út frá þessu í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 sem gerir ráð fyrir að tollyfirvöld veiti „þjónustu“ við sérstaka tollmeðferð vöru í skilningi greinarinnar.

Þegar ekki liggur fyrir skattlagningarheimild í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, er óheimilt að byggja fjárhæð gjalds á sjónarmiðum um almenna tekjuöflun. Einföld lagaheimild til töku þjónustugjalds felur í sér að gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu er gjaldtökuheimildin nær til. Þegar um þjónustugjöld er að ræða hefur því grundvallarþýðingu að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir viðkomandi gjaldtöku. Þá leiðir af eðli þjónustugjalda að ráðstöfun þeirra er bundin með lögum þannig að einungis er heimilt að verja slíkum gjöldum til að greiða þá kostnaðarliði sem heimilt er að leggja til grundvallar við útreikning á fjárhæð gjaldanna.

3.

Samkvæmt 2. mgr. 145. gr. tollalaga nr. 55/1987 ákveður ráðherra með reglugerð hvaða gjald skuli innheimta fyrir þau störf tollstarfsmanna „sem ekki teljast liður í almennu tolleftirliti“. Eins og áður hefur verið rakið á ákvæði þetta rót sína að rekja til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, þar sem kveðið var á um heimild fjármálaráðherra til að ákveða „fyrir hvaða störf tollstarfsmanna skuli tekin greiðsla, upphæð hennar og lögvernd“. Hliðstætt ákvæði enn eldri laga nr. 63/1937, um tollheimtu og tolleftirlit, sbr. 7. gr. laga nr. 47/1956, um breyting á þeim lögum, veitti samkvæmt hljóðan sinni ráðherra heimild til að afmarka almennan afgreiðslutíma tollgæslunnar og til að taka gjald fyrir þjónustu sem veitt væri utan þess tíma, sbr. nú 1. mgr. 145. gr. tollalaga nr. 55/1987. Ekki var hins vegar vikið sérstaklega að störfum sem teldust sem slík utan hefðbundins tolleftirlits.

Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 55/1987 var upphaflega gert ráð fyrir gjaldtökuheimild samhljóða 2. mgr. 8. gr. laga nr. 59/1969 í 2. mgr. 145. gr. frumvarpsins. Ákvæðið sætti hins vegar þeirri þrengingu í meðförum Alþingis, sbr. 24. tölulið í breytingartillögum meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar, að það var einungis látið taka til ákvörðunar um hvaða gjald skyldi innheimta fyrir þau störf tollstarfsmanna sem ekki teldust liður í „almennu tolleftirliti“. Í nefndaráliti var sú grein gerð fyrir ástæðu umræddrar breytingar að með henni væri lögð áhersla á að ríkissjóður stæði straum af almennum störfum tollstarfsmanna eins og löggæslumanna. (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 3558-3559.)

Ákvæði 2. mgr. 8. gr. eldri laga nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, fól í sér heimild fyrir ráðherra til að ákveða fyrir hvaða störf tollstarfsmanna skyldi tekin greiðsla, upphæð hennar og lögvernd. Skýra verður hins vegar 2. mgr. 145. gr. laga nr. 55/1987 svo, í ljósi orðalags ákvæðisins, að ráðherra sé nú einungis heimilt að kveða á um gjaldtöku vegna þeirra starfa tollstarfsmanna sem ekki geta talist „liður í almennu tolleftirliti“. Síðastnefnd takmörkun bindur m.ö.o. hendur ráðherra við ákvörðun um gjaldtöku. Er þessi skilningur einnig í samræmi við þau ummæli í nefndaráliti meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar Alþingis sem að ofan eru rakin.

Við skýringu 2. mgr. 145. gr. tollalaga hefur samkvæmt framansögðu sérstaka þýðingu að afmarka, hver störf tollstarfsmanna geti ekki talist liður í „almennu tolleftirliti“ enda felur ákvæðið aðeins í sér heimild til töku gjalds vegna þeirra starfa en ekki annarra. Hvorki í 1. gr. tollalaga nr. 55/1987 þar sem er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem notuð eru í lögunum og reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra né í öðrum ákvæðum þeirra laga er skilgreint hvað teljist vera „almennt tolleftirlit“. Slíka skilgreiningu er ekki heldur að finna í eldri lögum um tolla. Þá er engar vísbendingar um þetta atriði að fá í lögskýringargögnum utan þeirra ummæla í nefndaráliti meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar Alþingis sem fyrr eru rakin. Hugtakið „sérstök tollmeðferð vöru“ sem notað er í reglugerð nr. 107/1997, kemur hvergi fyrir í tollalögunum.

Á hinn bóginn ber að geta þess að hugtakið „almennt tolleftirlit“ kemur fyrir í 8. mgr. 64. gr. tollalaga. Í 64. gr. er kveðið á um skyldu eigenda og umráðamanna farartækja sem flytja vörur frá útlöndum eða ótollafgreiddar vörur milli tollhafna innanlands, til að hafa til umráða eða eiga aðgang að nægum geymslu- og afgreiðslustöðum fyrir slíkar vörur og skulu slíkir geymslu- og afgreiðslustaðir viðurkenndir af viðkomandi tollstjóra, sbr. 1. og 2. mgr. þessarar greinar tollalaga. Tilvitnað ákvæði 8. mgr. greinarinnar er svohljóðandi:

„Geymsluhöfum ber að greiða ríkissjóði kostnað við tolleftirlit í vörugeymslum sínum sem ekki getur talist þáttur í almennu tolleftirliti, svo sem fyrir útgáfu vottorða um endursendingar á vörum, gegnumflutning, aðstoð við mat á vörum til ákvörðunar tollverðs og aðra þjónustu eftir nánari ákvörðun ráðherra.“

Í frumvarpi til tollalaga sem lagt var fyrir Alþingi á 109. löggjafarþingi 1986-87, var samsvarandi ákvæði orðað með öðrum hætti. Var þá kveðið á um að geymsluhöfum bæri að greiða ríkissjóði kostnað við tolleftirlit í vörugeymslum sínum eftir því sem ráðherra tæki ákvörðun um með reglugerð. Endanlegt orðalag ákvæðisins kom fram með breytingartillögu meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar. Í nefndaráliti, sem fylgdi breytingartillögunni, er ekki sérstaklega vikið að breytingu á 8. mgr. 64. gr. frumvarpsins en tekið er fram að breytingartillögur nefndarinnar séu flestar minni háttar lagfæringar á frumvarpinu. (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 3558.) Eins og áður greinir kemur hins vegar fram í nefndarálitinu að því er varðar hliðstæða breytingu á 2. mgr. 145. gr. frumvarpsins, að með henni sé lögð áhersla á að ríkissjóður standi straum af almennum störfum tollstarfsmanna eins og löggæslumanna. (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 3558-3559.)

Með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dags. 25. mars 1998, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir að ráðuneytið gerði grein fyrir þeim forsendum sem af ráðuneytisins hálfu hefðu verið lagðar til grundvallar við afmörkun á því hvaða þjónusta félli utan „almenns tolleftirlits“ og væri því gjaldskyld samkvæmt 2. mgr. 145. gr. tollalaga. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 23. júní 1998, segir svo um þetta atriði:

„Til grundvallar var lagt að verkefnið væri ekki þáttur í venjulegri eða hefðbundinni tollmeðferð vöru eða tolleftirliti. Sú þjónusta sem heimilt er að krefjast gjalds fyrir skv. 3. gr. [reglugerðar nr. 107/1997] felur í sér frávik frá venjulegri eða hefðbundinni tollmeðferð. Hún fer fram að ósk innflytjanda sjálfs og kallar á sérstaka vinnu tollstarfsmanna til viðbótar þeirri vinnu sem innt er af hendi við venjulega tollafgreiðslu. Þetta á þó e.t.v. ekki [við] um gjaldtökuheimild 8. tölul. 1. mgr. 3. gr., en hún á sér lagastoð í 65. gr. tollalaga.“

Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að við afmörkun á því, í tilefni af setningu reglugerðar nr. 107/1997, hvaða störf tollstarfsmanna féllu utan „almenns tolleftirlits“ í skilningi 2. mgr. 145. gr. tollalaga, hafi fjármálaráðuneytið lagt til grundvallar að umrædd störf fari fram að ósk innflytjanda sjálfs og kalli á „sérstaka vinnu“ tollstarfsmanna til viðbótar þeirri vinnu sem innt sé af hendi við „venjulega tollafgreiðslu“. Þá verður að ætla samkvæmt þessu svari ráðuneytisins að af þess hálfu sé litið svo á að ofangreind skilyrði þurfi bæði að vera til staðar til þess að „þjónusta“ geti talist falla utan „almenns tolleftirlits“.

Samkvæmt 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal skattamálum skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Í tollalögum hefur löggjafinn m.a. mælt fyrir um hvaða tolla og aðra skatta beri að greiða við innflutning vöru og hvernig haga skuli málsmeðferð við tollheimtu og tolleftirlit. Verkefni tollyfirvalda samkvæmt tollalögum eru fyrst og fremst að annast um tolleftirlit á tollsvæði ríkisins og álagningu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu samkvæmt lögunum eða öðrum lögum, sbr. m.a. 32. og 36. gr. tollalaga. Hafa tollalögin m.a. að geyma ítarleg fyrirmæli um rannsóknarheimildir tollyfirvalda í þágu tolleftirlits og kveða á um margvíslegar skyldur manna til upplýsingagjafar vegna þess eftirlits og vegna ákvörðunar tollverðs sem er grundvöllur við álagningu tolla og annarra skatta, sbr. einkum VII. kafla laganna um tolleftirlit og V. kafla um skýrslugjafir. Brot manna eða lögaðila á ákvæðum tollalaga geta haft í för með sér refsiábyrgð þeim til handa, sbr. refsiákvæði í XIV. kafla laganna, og tollyfirvöld annast rannsókn brota á tollalögum að svo miklu leyti sem slík rannsókn er ekki í höndum lögreglu, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna.

Samkvæmt þeirri grundvallarreglu að stjórnsýslan er lögbundin, þarf skýra lagaheimild til þess að heimta megi úr hendi almennings endurgjald á kostnaði af ákveðnum þáttum í tollheimtu eða tolleftirliti ríkisins. Gera verður því þá kröfu að gjaldtaka fyrir þau verk sem tollyfirvöldum er ætlað að sinna, samkvæmt ákvæðum tollalaga eða annarra laga styðjist við skýra lagaheimild. Má í þessu sambandi sérstaklega vísa til sjónarmiða í áliti umboðsmanns Alþingis frá 30. desember 1992 í málinu nr. 610/1992 (SUA 1992:220) þar sem umboðsmaður fjallaði um lagaskilyrði til töku gjalds fyrir tollskýrslueyðublöð sem tollyfirvöld létu í té og skylt var að nota við lögboðna upplýsingagjöf í tengslum við heimtu skatta og gjalda af innfluttum vörum. Að því er tekur til starfa tollstarfsmanna í tengslum við tolleftirlit og rannsókn brota á tollalögum er og ástæða til að minna á áðurgreind ummæli í nefndaráliti meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar Alþingis varðandi tengsl almennra starfa tollstarfsmanna og eiginlegra löggæslustarfa, sbr. og nú 4. tölulið 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, þar sem fram kemur að ríkistollstjóri, tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir fara með lögregluvald á sínu starfssviði.

Eins og umboðsmaður Alþingis benti á í áliti sínu frá 20. febrúar 1997 í málinu nr. 1659/1996 (SUA 1997:355) eru viðfangsefni á sviði opinbers eftirlits almennt þess eðlis að innheimta þjónustugjalda fyrir þau er vandmeðfarin. Í tilviki tollstarfsmanna kemur og til það sem áður greindi um að í störfum sínum fara tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir með lögregluvald á sínu starfssviði og í meðförum Alþingis á frumvarpi til núgildandi tollalaga var einmitt af hálfu þeirrar þingnefndar sem fjallaði um málið lögð á það áhersla að ríkissjóður stæði straum af almennum störfum tollstarfsmanna eins og löggæslumanna. Rétt er hér einnig að minna á nauðsyn þess að lagaheimildir til töku þjónustugjalda séu skýrar og glöggar og þá meðal annars með tilliti til þess að þeir sem gjaldtakan beinist að geti á grundvelli lagaheimildarinnar gert sér grein fyrir því í hvaða mæli heimild standi til þess að þeim sé gert að greiða fyrir þá þjónustu sem þeir njóta af hálfu ríkisins.

Með hliðsjón af því sem hér að framan er rakið og þar sem hvorki tollalög eða önnur lög né lögskýringargögn skilgreina mörk „almenns tolleftirlits“ og annars konar tolleftirlits, er það skoðun mín að í þeim tilvikum þegar tollalög eða önnur lög gera beinlínis ráð fyrir því að tollstarfsmenn inni tiltekin störf eða verkefni af hendi, sé verulegur vafi á því hvort og þá í hvaða mæli 2. mgr. 145. gr. tollalaga ein og sér telst fullnægjandi lagaheimild fyrir gjaldtöku nema sérstaklega sé tekið fram í viðkomandi lagaákvæðum að um störf sé að ræða sem ekki geti talist þáttur í almennu tolleftirliti. Ég tel jafnframt að afmörkun á gjaldtökuheimildinni að öðru leyti verði ekki alfarið byggð á þeim sjónarmiðum sem fram koma í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 23. júní 1998, þ.e. að um sé að ræða verk sem unnin eru að ósk innflytjanda sjálfs og krefjast „sérstakrar vinnu“ tollstarfsmanna til viðbótar þeirri vinnu sem innt er af hendi við „venjulega tollafgreiðslu“. Ég minni á að gjaldtökuheimildin tekur samkvæmt orðalagi sínu til starfa tollstarfsmanna sem ekki teljast liður í „almennu tolleftirliti“. Eins og viðfangsefni þessa álits hefur verið markað tel ég ekki rétt að taka nánar afstöðu til þess í hvaða öðrum tilvikum heimild kann almennt að standa til gjaldtöku á grundvelli 2. mgr. 145. gr. tollalaga nema samkvæmt einstökum töluliðum 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 eins og nánar verður fjallað um hér á eftir. Ég tel hins vegar ástæðu til að taka undir ummæli í bréfum fjármálaráðuneytisins, dags. 22. desember 1997 og 23. júní 1998, til umboðsmanns Alþingis og leggja áherslu á að fullt tilefni er til að hugsanlegum vafa um gjaldtökuheimildir tollyfirvalda verði eytt, þannig að tilgreint verði í lögum fyrir hvaða þjónustu tollyfirvöldum sé heimilt að krefjast gjalds og þá afmarkað á hverju fjárhæð gjaldanna á að byggjast.

Að þessu sögðu skal nú vikið að lagastoð gjaldtöku samkvæmt einstökum töluliðum 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Í því sambandi er nauðsynlegt að kanna í hverju sú „þjónusta“ felist sem gjald er áskilið fyrir samkvæmt einstökum töluliðum og afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir viðkomandi gjaldtöku. Við eftirfarandi umfjöllun verður fylgt röð einstakra töluliða í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

1. Um 1. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 telst bráðabirgðatollafgreiðsla til sérstakrar tollmeðferðar vöru í skilningi greinarinnar og skal sá er óskar eftir slíkri þjónustu greiða kostnað vegna hennar, sbr. upphaf þessarar greinar reglugerðarinnar. Skal sá kostnaður vera 1.000 kr., sbr. upphaf 2. mgr. sömu greinar. Með 1. gr. reglugerðar nr. 368/1998, um breytingu á reglugerð nr. 107/1997, var gerð sú breyting á ákvæði 1. töluliðar 3. gr. hinnar síðarnefndu reglugerðar að það skyldi ekki taka til bráðabirgðatollafgreiðslu í tengslum við útflutning.

Um bráðabirgðatollafgreiðslu eru ákvæði í 21. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Umrædd grein er í V. kafla tollalaganna þar sem fjallað er um skýrslugjafir og aðra upplýsingagjöf innflytjenda til tollyfirvalda vegna innflutnings á vörum til landsins. Í 18. og 19. gr. tollalaga er mælt fyrir um skyldu innflytjanda til að afhenda tollyfirvaldi nánar tilgreind gögn og skjöl varðandi innflutta vöru eða sendingu og í 20. gr. laganna eru sérstakar reglur um tollafgreiðslu farangurs ferðamanna og farmanna. Í 1. mgr. 21. gr. tollalaga kemur fram að geri innflytjandi vöru það sennilegt að hann hafi ekki fengið þau gögn sem 18. - 20. gr. laganna taka til eða þau eru ekki fullnægjandi, megi tollyfirvald afhenda honum eða leyfa að afhenda honum vöru gegn því að hann greiði allan kostnað af tollskoðun og setji fjártryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda og kostnaðar sem tollyfirvald ákveður og afhendi eða leiðrétti gögn sem misfellur eru á innan hæfilegs tíma sem tollyfirvald tiltekur. Verði vanefndir á því má tollyfirvald ákveða gjöldin og taka fjártryggingu upp í þau. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að heimila megi farmflytjendum eða öðrum aðilum, sem geyma ótollafgreiddar vörur, að afhenda á eigin ábyrgð vörusendingar án fullnaðartollafgreiðslu enda sé afhending þeirra brýn og farmflytjandi taki tryggingu er nægi til greiðslu hins erlenda kaupverðs og allra ríkissjóðsgjalda og sé ábyrgur fyrir greiðslu þeirra ef innflytjandi stendur ekki sjálfur í skilum. Þá er í 3. mgr. 21. gr. tollalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 69/1996, um breyting á þeim, mælt fyrir um heimild innflytjanda til að leysa til sín vöru að vissum skilyrðum uppfylltum í þeim tilvikum þegar reynst hefur nauðsynlegt við tollafgreiðslu að fresta lokaákvörðun um tollverð vöru. Í 4. mgr. 21. gr. tollalaga er svofellt ákvæði:

„Ráðherra setur nánari reglur um bráðabirgðatollafgreiðslu og má þar ákveða að innheimta skuli sérstakt afgreiðslugjald.“

Í athugasemdum með 21. gr. í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 55/1987 kemur fram að greinin samsvari 21. gr. tollskrárlaga nr. 120/1976. (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 1303.) Í þeirri grein var þó ekki sérstakt ákvæði um innheimtu afgreiðslugjalds vegna bráðabirgðatollafgreiðslu. Ákvæði 4. mgr. 21. gr. laga nr. 55/1987 var því nýmæli með þeim lögum að því er varðar innheimtu sérstaks afgreiðslugjalds. Í tollalöggjöf hefur á hinn bóginn löngum verið mælt fyrir um heimild til bráðabirgðatollafgreiðslu. Þannig hefur ákvæði 1. mgr. 21. gr. laga nr. 55/1987 staðið nánast óbreytt í tollalögum frá árinu 1939, sbr. 15. gr. laga nr. 62/1939, um tollskrá o.fl. Fyrirmynd 2. mgr. greinarinnar er að finna í 2. mgr. 21. gr. tollskrárlaga nr. 120/1976 þar sem fram kom að heimila mætti farmflytjendum að afhenda neyðarsendingar án fullnaðartollafgreiðslu að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 120/1976 kemur fram að heimildarákvæði þessu sé stefnt að því að auðvelda tollmeðferð viðkvæmra vörutegunda svo sem lyfja, grænmetis, lifandi blóma o.þ.h. hliðstæðra sendinga svo og varahluta í skip, flugvélar og verksmiðjuvélar. (Alþt. 1976-77, A-deild, bls. 1096.) Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 69/1996 og skaut nýrri málsgrein inn í 21. gr. tollalaga sem varð 3. mgr. þeirrar greinar, segir að með frumvarpsgreininni sé lagt til að tekið verði upp skýrt lagaákvæði sem tryggi rétt innflytjanda til þess að leysa vöru til sín þrátt fyrir að upplýsingar skorti um einhver atriði sem snerta tollverð vöru eða annað, t.d. tollflokkun, gegn fullnægjandi tryggingu að mati tollstjóra. (Alþt. 1995-96, A-deild, bls. 3653.)

Á grundvelli heimildar í 4. mgr. 21. gr. tollalaga hefur verið sett reglugerð nr. 724/1997, um bráðabirgðatollafgreiðslur, sbr. áður reglugerð nr. 64/1991, um sama efni. Í I. kafla þessarar reglugerðar er fjallað um bráðabirgðatollafgreiðslu tollstjóra en í II. kafla hennar um afhendingu farmflytjanda í neyðartilvikum, sbr. 2. mgr. 21. gr. tollalaga. Í III. kafla reglugerðarinnar eru almenn ákvæði og er 8. gr. hennar svohljóðandi:

„Um greiðslu kostnaðar vegna bráðabirgðatollafgreiðslu svo og vegna vinnu tollstarfsmanna við nauðsynlegt tolleftirlit og tollskoðun vegna tollmeðferðar vöru fer eftir ákvæðum reglugerðar nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru.“

Í hinni eldri reglugerð um bráðabirgðatollafgreiðslur nr. 64/1991 var hliðstætt gjaldtökuákvæði hins vegar svohljóðandi:

„Fyrir tollmeðferð vöru samkvæmt reglum þessum skal greiða til viðkomandi tollstjóra sérstakt afgreiðslugjald, 1000 kr. sem greiðist við fullnaðartollafgreiðslu vöru og rennur í ríkissjóð.

Innflytjandi skal jafnframt greiða allan kostnað sem leiða kann af vinnu tollstarfsmanna við nauðsynlegt tolleftirlit og tollskoðun vegna tollmeðferðar vöru samkvæmt reglum þessum.“

Í lögskýringargögnum er ekki að finna ummæli um þá kostnaðarliði sem felldir verða undir hið sérstaka afgreiðslugjald sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 21. gr. tollalaga. Samkvæmt 1. mgr. sömu greinar er hins vegar gert að skilyrði bráðabirgðatollafgreiðslu að sá sem óski eftir slíkri tollmeðferð skuli greiða allan kostnað „af tollskoðun“. Í 15. gr. eldri laga nr. 62/1939, um tollskrá o.fl., var umrætt skilyrði orðað svo að viðtakandi vöru skyldi greiða „gjald fyrir tollskoðun“. Með hliðsjón af því og stöðu ákvæðisins um innheimtu sérstaks afgreiðslugjalds innan 21. gr. tollalaganna er það skoðun mín að rétt sé að skýra ákvæðið með þeim hætti að það feli einungis í sér heimild fyrir ráðherra til að kveða á um töku sérstaks gjalds til að standa straum af kostnaði vegna tollskoðunar sem er nauðsynlegur liður í að bráðabirgðatollafgreiðsla geti farið fram, sbr. 1. mgr. greinarinnar, en ekki öðrum kostnaði tollyfirvalda vegna bráðabirgðatollafgreiðslu enda verður ekki ráðið af lögskýringargögnum að með upptöku ákvæðisins hafi verið ætlunin að rýmka heimild ráðherra til að krefja innflytjanda sem óskar eftir bráðabirgðatollafgreiðslu vöru um greiðslu kostnaðar vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við slíka tollmeðferð. Í þessu sambandi tel ég og ástæðu til að taka fram að ég tel ljóst af gjaldtökuheimild þeirri sem ráðherra er veitt í 4. mgr. 21. gr. tollalaga að um einfalda lagaheimild er að ræða og að tilgangur löggjafans hafi verið að heimila töku þjónustugjalds en ekki að kveða á um skattheimtu enda eru engin ákvæði um fjárhæð gjaldsins eða hvernig það skuli ákvarðað í einstökum tilvikum.

Vegna tilvísunar fjármálaráðuneytisins til 2. mgr. 145. gr. tollalaga í tengslum við gjaldtöku samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 skal tekið fram að ekki verður talið að það ákvæði geti rýmkað heimildir 21. gr. tollalaga til töku þjónustugjalds vegna bráðabirgðatollafgreiðslu. Eins og m.a. verður ráðið af athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 69/1996, um breyting á tollalögum, er heimildum til bráðabirgðatollafgreiðslu í vissum tilvikum ætlað að tryggja rétt innflytjenda til að leysa til sín vöru við ákveðnar aðstæður. Hvorki í 21. gr. tollalaga né í öðrum ákvæðum þeirra laga kemur fram að störf tollstarfsmanna í tengslum við bráðabirgðatollafgreiðslu teljist ekki liður í „almennu tolleftirliti”.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að 4. mgr. 21. gr. tollalaga, sbr. 1. mgr. sömu greinar laganna, feli í sér fullnægjandi lagaheimild til töku þjónustugjalds vegna starfa tollstarfsmanna við tollskoðun sem er nauðsynlegur liður í að bráðabirgðatollafgreiðsla vöru geti farið fram. Verður því að vera um að ræða kostnað umfram það sem leiddi af almennu tolleftirliti með hlutaðeigandi vörusendingu. Á hinn bóginn tel ég að lagaheimildin taki einungis til kostnaðar af störfum tollstarfsmanna við tollskoðun viðkomandi vöru en ekki til kostnaðar af öðrum störfum þeirra í tengslum við bráðabirgðatollafgreiðsluna.

2. Um 2. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Í 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 er mælt fyrir um að endurútflutningur og endursending vöru teljist til sérstakrar tollmeðferðar vöru í skilningi greinarinnar. Skal sá, sem óskar eftir slíkri þjónustu greiða kostnað vegna hennar og telst sá kostnaður vera 1.000 kr., sbr. 2. mgr. þessarar greinar reglugerðarinnar.

Að því er varðar lagagrundvöll gjaldtöku samkvæmt ofagreindum tölulið hefur fjármálaráðuneytið vísað til hins almenna ákvæðis 2. mgr. 145. gr. tollalaga annars vegar og 8. mgr. 64. gr. sömu laga hins vegar. Samkvæmt hinu síðarnefnda ákvæði ber „geymsluhöfum“ að greiða ríkissjóði kostnað við tolleftirlit í vörugeymslum sínum „sem ekki getur talist þáttur í almennu tolleftirliti, svo sem fyrir útgáfu vottorða um endursendingar á vörum, gegnumflutning, aðstoð við mat á vörum til ákvörðunar tollverðs og aðra þjónustu eftir nánari ákvörðun ráðherra“. Eins og hér að framan hefur verið rakið var umrætt ákvæði 8. mgr. 64. gr. orðað með nokkuð öðrum hætti í upphaflegu frumvarpi til laga nr. 55/1987 en sætti breytingu til samræmis við breytingar þær sem gerðar voru á 2. mgr. 145. gr. frumvarpsins við meðferð þess á Alþingi. Vísast um þessi efni til umfjöllunar hér að framan.

Með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dags. 25. mars 1998, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir að ráðuneytið gerði grein fyrir því hvort ráðuneytið teldi að 8. mgr. 64. gr. tollalaga veitti heimild til gjaldtöku vegna endurútflutnings og endursendingar vöru, óháð því hvort þjónustan færi fram innan eða utan vörugeymslna „geymsluhafa“ samkvæmt 64. gr. tollalaga. Í svarbréfi ráðuneytisins til umboðsmanns frá 23. júní 1998 er á það bent að í 8. mgr. 64. gr. sé kveðið á um skyldu geymsluhafa til að greiða ríkissjóði kostnað við tolleftirlit í vörugeymslum sínum sem ekki geti talist þáttur í almennu tolleftirliti, og ákvæðið veiti því ekki heimild til gjaldtöku vegna neinna verkefna sem tollstarfsmenn inni af hendi utan vörugeymslna. Hins vegar er í bréfinu lýst þeirri skoðun ráðuneytisins að verkefni tollstarfsmanna vegna endurútflutnings og endursendingar vöru geti ekki talist liður í almennri eða hefðbundinni tollmeðferð vöru eða tolleftirliti. Gjaldtaka vegna þeirra verkefna geti samkvæmt því byggst á heimild í 2. mgr. 145. gr. tollalaga, „ekki síst ef þjónustan fer fram utan vörugeymslna“, eins og segir í bréfi ráðuneytisins.

Af heimild 8. mgr. 64. gr. tollalaga til gjaldtöku verður ráðið að heimildin sætir þrenns konar takmörkunum samkvæmt orðalagi sínu. Í fyrsta lagi heimilar ákvæðið einungis að gjald sé tekið af „geymsluhafa“ í skilningi þess. Þá er heimildin í öðru lagi bundin við kostnað við „tolleftirlit í vörugeymslum“ geymsluhafa samkvæmt 64. gr. og tekur því ekki til kostnaðar af tolleftirliti sem fram fer utan umræddra vörugeymslna. Í þriðja lagi er gjaldtaka aðeins heimil vegna þess tolleftirlits í vörugeymslunum „sem ekki getur talist þáttur í almennu tolleftirliti“. Ég tel ljóst af bréfi fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 23. júní 1998 að skilningur ráðuneytisins á gildissviði 8. mgr. 64. gr. tollalaga sé í samræmi við ofangreint. Með hliðsjón af því verður að telja að ráðuneytið styðji gjaldtöku samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 fyrst og fremst við 2. mgr. 145. gr. tollalaga enda telur ráðuneytið að verkefni tollstarfsmanna við endurútflutning og endursölu vöru geti ekki talist liður í „almennu tolleftirliti”.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðuneytisins frá 25. mars 1998 óskaði hann eftir upplýsingum ráðuneytisins um í hverju sú þjónusta fælist sem gjald væri áskilið fyrir samkvæmt ofangreindum tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Svar ráðuneytisins er rakið í kafla III hér að framan. Eins og þar kemur fram kveður ráðuneytið um að ræða „verkefni tollstarfsmanna sem innt eru af hendi í þeim tilvikum er vara, sem flutt hefur verið hingað til lands, er send úr landi á ný“. Kemur fram að hér geti verið um að ræða vöru sem aldrei hafi hlotið tollafgreiðslu heldur verið í vörslu farmflytjanda eða sett í tollvörugeymslu, tollafgreidda vöru sem send sé ónotuð aftur úr landi, vöru sem reynist haldin galla eða hafi skemmst við flutning eða geymslu og sé af þeim sökum send úr landi á ný og loks vöru sem endurseld sé til útlanda. Um nánari framkvæmd endurútflutnings og endursendingar vöru er í bréfi ráðuneytisins vísað til reglugerðar nr. 545/1990, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, eyðileggingar, rýrnunar, skemmda, vöntunar eða endursölu til útlanda o.fl. Þá segir svo í bréfi ráðuneytisins:

„Þó má almennt segja að meginverkefni tollstarfsmanna felist í að kanna umrædda vöru og ganga úr skugga um að um sé að ræða sömu vöru, í óbreyttu ástandi og magni, og upphaflega var flutt til landsins. Jafnframt að annast niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörunni ef því er að skipta.“

Hugtökin „endurútflutningur“ og „endursending vöru“ eru ekki skilgreind í tollalögum. Á hinn bóginn er í lögunum að finna nokkur ákvæði er lúta að endurútflutningi, endursendingu og „endursölu“ vöru auk 8. mgr. 64. gr. laganna sem fyrr er getið.

Í 113. gr. tollalaga eru ákvæði um „endursendingu“ vöru. Samkvæmt þeirri grein er heimilt, samkvæmt nánari skilyrðum sem sett verða í reglugerð eða með öðrum fyrirmælum, að annars vegar endurgreiða eða fella niður aðflutningsgjöld af vöru sem send er ónotuð aftur til útlanda gegn endurgreiðslu kaupverðs, sbr. 1. tölulið greinarinnar, og hins vegar að endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem reynist gölluð og endursend er til útlanda enda viðurkenni seljandi að hann taki vöruna aftur vegna gallans, sbr. 2. tölulið greinarinnar. Þá er í 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga heimild fyrir ráðherra til að fella niður eða endurgreiða toll af vöru sem „endurseld“ er til útlanda. Auk framangreindra ákvæða má hér geta 7. töluliðar 1. mgr. 6. gr. og 77. gr. tollalaga. Í hinu fyrrnefnda ákvæði er sérstök heimild fyrir tollstjóra til að hlutast til um „endurútflutning“ ökutækis, sem tollur hefur ekki verið heimtur af samkvæmt heimild þessa töluliðar 6. gr. tollalaga, á kostnað innflytjanda þess ef skilyrði undanþágunnar eru rofin eða forsendur fyrir undanþágu frá greiðslu gjalda falla niður að dómi toll- eða lögreglustjóra. Í síðarnefnda ákvæðinu kemur fram heimild fyrir ráðherra til að leyfa sölu birgða og annars forða úr tollfrjálsri forðageymslu í innlend farartæki sem að staðaldri eru í utanlandsferðum eða erlend farartæki sem hér hafa skamma viðdvöl „svo og endurútflutning eða endursendingu á þessum vörum“ eins og þar segir.

Um endursendingu og endursölu vöru til útlanda eru frekari ákvæði í reglugerð nr. 545/1990 sem vísað er til í áðurnefndu bréfi fjármálaráðuneytisins frá 23. júní 1998. Er reglugerð þessi sett samkvæmt heimildum í 6., 112., 113., sbr. 148. gr. tollalaga, og 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 18. gr. hennar. Í I. kafla reglugerðarinnar er fjallað um „endursending vöru o.fl.“ Samkvæmt 1. gr. hennar er tollstjóra heimilt að falla frá innheimtu aðflutningsgjalda af ótollafgreiddri vöru sem er í vörslu farmflytjanda og ekki hefur verið vitjað, viðtakandi hefur ekki fundist að eða neitað hefur verið um viðtöku á og endursend er til útlanda til sama aðila og hún var send frá hingað til lands. Sama á við um vöru sem sett hefur verið í tollvörugeymslu og endursend er til útlanda af sömu ástæðum. Eru frekari skilyrði niðurfellingar aðflutningsgjalda samkvæmt greininni rakin í 2. og 3. mgr. hennar. Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að tollstjóra sé heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af tollafgreiddri vöru sem send er aftur til útlanda til sama aðila og hún var send frá hingað til lands enda sé varan ónotuð og tilgreindum skilyrðum 1. gr. reglugerðarinnar fullnægt. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skulu ákvæði 1. og 2. gr. gilda, eftir því sem við getur átt, þegar vara hefur verið send ranglega til landsins og hún er endursend viðkomandi. Þá er í 4. gr. reglugerðinnar heimild fyrir tollstjóra til að lækka, falla frá innheimtu eða endurgreiða aðflutningsgjöld af ónotaðri vöru sem reynist haldin galla og send er aftur til útlanda eða fargað er undir tolleftirliti enda sé lögð fram staðfesting hins erlenda seljanda á því að hann annað hvort taki vöruna aftur vegna gallans eða hann af sömu ástæðu óski eftir förgun hennar í stað endursendingar. Í 6. gr. umræddrar reglugerðar er sérstaklega tekið fram að auk skilyrða I. kafla reglugerðarinnar um endursendingar vöru til útlanda skuli, eftir því sem við getur átt, fullnægt almennum skilyrðum um útflutning vöru samkvæmt ákvæðum tollalaga.

Um „endursölu“ vöru til útlanda er fjallað í 11. gr. reglugerðar nr. 545/1990 sem er í IV. kafla hennar. Er tollstjóra heimilt samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar að falla frá innheimtu eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem endurseld er til útlanda. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er tollmeðferð vöru samkvæmt henni bundin því skilyrði að sýnt sé fram á með fullnægjandi hætti að mati tollstjóra að varan hafi verið seld til útlanda auk þess sem fullnægt sé skilyrðum 1. - 2. gr. reglugerðarinnar eftir því sem við getur átt.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að tollalög gera greinarmun á annars vegar „endursendingu“ vöru og hins vegar „endurútflutningi“ eða „endursölu“ hennar. Er og gerður greinarmunur á þessu tvennu í reglugerð nr. 545/1990. Þá er ljóst að gjaldtöku samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 er ætlað að taka til beggja þessara tilvika, þ.e. þegar tollstarfsmenn veita þjónustu í tengslum við endursendingu vöru annars vegar og endurútflutning hennar hins vegar, sbr. m.a. fyrrgreint bréf fjármálaráðuneytisins frá 23. júní 1998. Í reglugerðarákvæðinu er hins vegar rætt um „endurútflutning“ í stað „endursölu“, en hið síðarnefnda hugtak er notað í 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga og reglugerð nr. 545/1990 eins og að framan greinir.

Heimild til niðurfellingar eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum sem endursendar eru til útlanda er ekki bundin við ótollafgreiddar vörur, sbr. 113. gr. tollalaga og I. kafla reglugerðar nr. 545/1990. Tekur 1. gr. umræddrar reglugerðar einungis til þeirra tilvika þegar fallið er frá innheimtu aðflutningsgjalda af ótollafgreiddri vöru en 2. - 4. gr. hennar taka ýmist til bæði ótollafgreiddra og tollafgreiddra vara eða einvörðungu til hinna síðarnefndu. Eins og ákvæði þessi bera með sér og raunar kemur fram í bréfi fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 23. júní 1998, kann tilefni endursendingar vöru að vera misjafnt hverju sinni. Þannig varðar 1. gr. reglugerðar nr. 545/1990 þau tilvik þegar ótollafgreiddrar vöru í vörslum farmflytjanda er ekki vitjað, viðtakandi vörunnar finnst ekki eða hann neitar um viðtöku hennar. Þá er í 3. og 4. gr. reglugerðarinnar fjallað um þau raunhæfu tilvik þegar vara er ranglega send hingað til lands og því endursend viðkomandi og þegar gölluð vara er endursend. Að því er varðar almenn rök að baki heimild til að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vörum sem endursendar eru til útlanda má hér vísa til athugasemda með 113. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 55/1987 en þar er frá því greint að samkvæmt eldri lögum um tollheimtu og tolleftirlit nr. 59/1969 hafi verið óheimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af endursendri vöru, hafi hún verið boðin fram til sölu. Kemur fram í athugasemdunum að telja verði óskynsamlegt að útiloka endurgreiðslu aðflutningsgjalda þegar svo standi á og hindra með þeim hætti endursendingu eða letja menn til slíks. Gera verði ráð fyrir að almennt séu hagsmunir ríkis og einstaklinga meiri með tilliti til þess að fá þann gjaldeyri til baka sem greiddur hafi verið fyrir vöru „en láta hana daga hér uppi engum til gagns. (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 1315.)

Samkvæmt 2. mgr. 145. gr. tollalaga ákveður ráðherra með reglugerð hvaða gjald skuli innheimta fyrir störf tollstarfsmanna „sem ekki teljast liður í almennu tolleftirliti“. Í 8. mgr. 64. gr. sömu laga er tekið fram að greiða beri ríkissjóði kostnað við tolleftirlit í vörugeymslum „sem ekki getur talist þáttur í almennu tolleftirliti“ og tilgreinir ákvæðið í dæmaskyni m.a. „útgáfu vottorða um endursendingar á vörum“. Samkvæmt þessu er ljóst að ráðherra er heimilt á grundvelli 8. mgr. 64. gr. tollalaga að innheimta gjald vegna útgáfu vottorða um endursendingar á vörum sem geymdar eru í vörugeymslum geymsluhafa samkvæmt 64. gr. tollalaga enda samrýmist slík gjaldtaka að öðru leyti almennum reglum um þjónustugjöld. Það er skoðun mín að skýra verði 2. mgr. 145. gr. og 8. mgr. 64. gr. tollalaga til samræmis að þessu leyti, þannig að með lögum hafi verið ákveðið að störf tollstarfsmanna við útgáfu vottorða um endursendingar á vörum teljist ekki liður í „almennu tolleftirliti“. Breytingar þær á umræddum ákvæðum tollalaganna sem áttu sér stað við meðferð frumvarps til tollalaga á 109. löggjafarþingi 1986-87 og fyrr eru raktar, eru til stuðnings þessari túlkun að mínu áliti. Ég tel því að ráðherra sé heimilt samkvæmt 2. mgr. 145. gr. tollalaga að innheimta gjald fyrir útgáfu vottorða um endursendingar á vörum að gættum almennum reglum um þjónustugjöld.

Í margnefndu bréfi fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 23. júní 1998 kemur fram að meginverkefni tollstarfsmanna vegna endurútflutnings og endursendingar vöru felist í því „að kanna umrædda vöru og ganga úr skugga um að um sé að ræða sömu vöru, í óbreyttu ástandi og magni, og upphaflega var flutt til landsins“ og jafnframt „að annast niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörunni ef því er að skipta“. Eins og rakið er hér að framan tel ég að tollyfirvöldum sé heimilt samkvæmt 2. mgr. 145. gr. tollalaga að innheimta sérstakt gjald til að standa straum af kostnaði vegna útgáfu vottorða um endursendingar á vörum. Ég tel hins vegar öðru máli gegna um kostnað tollyfirvalda af eiginlegri tollskoðun vöru sem endursend er til útlanda en samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 545/1990, sbr. og 2. - 4. gr. reglugerðarinnar, er það skilyrði niðurfellingar eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vöru sem endursend er til útlanda að lögð sé fram hjá viðkomandi tollstjóra skrifleg beiðni um tollskoðun þeirrar vöru sem beiðni um endursendingu lýtur að. Þau verkefni tollstarfsmanna við könnun þeirrar vöru sem beiðni um endursendingu lýtur að, í því skyni að ganga úr skugga um að um sé að ræða sömu vöru, í óbreyttu ástandi og magni, og upphaflega var flutt til landsins, tel ég að beinlínis leiði af lögákveðnum skyldum tollyfirvalda til tolleftirlits með inn- og útflutningi vara og umflutningi þeirra, sbr. einkum 3. mgr. 36. gr. tollalaga, þar sem fram kemur að tollstjórar, hver í sínu tollumdæmi, annist eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu. Í þessu sambandi tel ég og sérstaka ástæðu til að benda á 6. gr. reglugerðar nr. 545/1990 þar sem tiltekið er að auk skilyrða I. kafla reglugerðarinnar um endursendingar vöru til útlanda skuli, eftir því sem við getur átt, fullnægt almennum skilyrðum um útflutning vöru samkvæmt ákvæðum tollalaga. Fæ ég ekki séð að tollskoðun vöru sem endursend er til útlanda, þjóni út af fyrir sig öðrum markmiðum en almenn tollskoðun vöru við útflutning hennar, sbr. m.a. 1. mgr. 121. gr. tollalaga varðandi lögbundna upplýsingagjöf útflytjenda til tollyfirvalda í tilefni af útflutningi á vörum. Eins og ég hef áður rakið þarf skýra lagaheimild til þess að heimta megi úr hendi almennings endurgjald á kostnaði af ákveðnum þáttum í tolleftirliti ríkisins. Gera verður því þá kröfu að gjaldtaka fyrir þau verk, sem tollyfirvöldum er ætlað að sinna samkæmt ákvæðum tollalaga eða annarra laga, styðjist við skýra lagaheimild. Er það skoðun mín að gera verði ríkar kröfur í þessu efni þegar um er að ræða störf tollstarfsmanna við tollskoðun vöru sem verður að telja eitt af frumverkefnum við tolleftirlit.

Með hliðsjón af framangreindu er það álit mitt að 2. mgr. 145. gr. tollalaga veiti ekki lagaheimild til gjaldtöku vegna starfa tollstarfsmanna við tollskoðun vöru sem endursend er til útlanda. Kemur enda hvergi fram í tollalögum að tollskoðun við slíkar aðstæður beri ekki að telja til „almenns tolleftirlits“, og mæla rök því raunar í móti eins og að framan greinir. Ég tek fram að út af fyrir sig tel ég ekki hafa þýðingu í þessu sambandi hvort vara sú sem endursend er, hefur áður hlotið tollafgreiðslu eða ekki eða hvert tilefni endursendingar er hverju sinni enda hafa engin rök verið færð fram fyrir því af hálfu fjármálaráðuneytisins að efni séu til að gera greinarmun í því tilliti að því er varðar lagastoð gjaldtöku samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Að því er tekur til starfa tollstarfsmanna við niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af endursendri vöru bendi ég á að telja verður slíka endurgreiðslu lið í innheimtu ríkisins á tollum og öðrum gjöldum af innfluttum vörum, sbr. 113. gr. tollalaga. Þarf því skýra heimild í lögum ef ætlunin er að innheimta gjald fyrir slíka afgreiðslu, sbr. hér að framan. Það er skoðun mín að 2. mgr. 145. gr. uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika sem gera verður í þessu tilliti enda kemur hvergi fram í tollalögum að störf tollstarfsmanna tengd endurgreiðslu aðflutningsgjalda af endursendum vörum beri ekki að telja lið í „almennu tolleftirliti“.

Hér að framan hefur verið rætt um endursendingu vöru, sbr. 113. gr. tollalaga og I. kafla reglugerðar nr. 545/1990. Um endursölu vöru til útlanda, þ.e. endurútflutning vöru, er eins og áður segir ákvæði í 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga en samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 skal taka gjald fyrir störf tollstarfsmanna við endurútflutning vöru. Hvorki í 6. gr. tollalaga né í öðrum ákvæðum laganna er að finna sérstaka heimild til gjaldtöku vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við endurútflutning vöru. Í 8. mgr. 64. gr. tollalaga er einungis tiltekin, í dæmaskyni um tolleftirlit í vörugeymslum geymsluhafa sem ekki getur talist þáttur í almennu tolleftirliti, útgáfa vottorða um endursendingar á vörum en ekki er minnst á endursölu vöru eða endurútflutning hennar, sbr. hins vegar til hliðsjónar 77. gr. laganna og ákvæði reglugerðar nr. 545/1990. Þegar þetta er virt og með vísan til þeirra sjónarmiða sem fyrr eru rakin um endursendingu vöru, er það skoðun mín að 2. mgr. 145. gr. tollalaga feli ekki í sér fullnægjandi lagaheimild til töku gjalds vegna verkefna tollstarfsmanna í tengslum við endurútflutning vöru. Þar sem ekki verður séð að önnur ákvæði tollalaga komi til álita í þessu sambandi tel ég að lagaheimild skorti til töku þjónustugjalda vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við endurútflutning vöru.

Það er niðurstaða mín samkvæmt því sem hér hefur verið rakið að lagaheimild skorti fyrir gjaldtöku vegna starfa tollstarfsmanna við endurútflutning vöru, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Þá tel ég að því er varðar gjaldtöku samkvæmt umræddu reglugerðarákvæði vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við endursendingu vöru, að lög heimili einungis töku þjónustugjalda vegna útgáfu vottorða um endursendinguna. Skortir því lagaheimild til töku þjónustugjalda vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við endursendingu vöru að öðru leyti, svo sem starfa þeirra við tollskoðun þeirrar vöru sem endursend er og starfa við niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörunni.

3. Um 3. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 skal sá er óskar eftir heimild til tímabundins innflutnings á vörum, greiða kostnað vegna veitingar slíkrar heimildar þó ekki vegna heimildar til tímabundins innflutnings á ökutækjum og öðrum farartækjum sem ferðamenn mega flytja tollfrjálst til landsins. Kostnaður vegna þessarar þjónustu skal vera 1.000 kr., sbr. upphaf 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í tollalögum nr. 55/1987 er ekki að finna almenn ákvæði um tímabundinn innflutning á vörum. Í 6. gr. laganna þar sem fjallað er um undanþágu-, lækkunar- og samræmingarheimildir, eru á hinn bóginn ákvæði um tollfrjálsan innflutning tiltekinna vara og sendinga sem ætlaðar eru til tímabundinna nota hér á landi, sbr. 4. - 7. tölulið 1. mgr. þessarar greinar laganna. Þá er ákvæði í 18. tölulið greinarinnar um tímabundna afhendingu vara án greiðslu tolls til þess að fram geti farið á vörum þessum á ábyrgð innflytjanda eða viðkomandi vinnsluaðila nægileg aðvinnsla til að forða þeim frá rýrnun eða öðrum skemmdum. Samkvæmt því ákvæði má binda heimild þessa skilyrðum um vörslu og meðferð vörunnar svo og að fullnægjandi tryggingar séu settar fyrir greiðslu áfallins tolls „og annars kostnaðar sem leiða kann af leyfisveitingunni“.

Á grundvelli heimildar í 4. tölulið 1. mgr. 6. gr. og 148. gr. tollalaga hefur ráðherra sett reglur nr. 487/1994, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning ökutækja til sýningar. Eins og fram kemur í bréfi umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðuneytisins frá 25. mars 1998 þar sem hann óskaði m.a. eftir upplýsingum um þá kostnaðarliði sem gjöldum samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 væri ætlað að standa straum af, var sérstakt ákvæði um gjaldtöku vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við tímabundinn tollfrjálsan innflutning ökutækja til sýningar í 8. gr. fyrrgreindra reglna nr. 487/1994. Umrædd grein reglnanna var svohljóðandi:

„Umboðsaðili skal greiða kostnað við eftirlit sem nauðsynlegt er að mati tollstjóra samkvæmt reglum þessum.

Fyrir tollmeðferð ökutækja samkvæmt reglum þessum skal greiða til viðkomandi tollstjóra sérstakt afgreiðslugjald, 1.000 kr., sem greiðist við fullnaðartollafgreiðslu vöru og rennur í ríkissjóð.

Innflytjandi skal jafnframt greiða allan kostnað sem leiða kann af vinnu tollstarfsmanna við nauðsynlegt tolleftirlit og tollskoðun vegna tollmeðferðar ökutækja samkvæmt reglum þessum.“

Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 23. júní 1998, við framangreindu bréfi umboðsmanns frá 25. mars s.á. kemur fram að með auglýsingu nr. 308/1997 hafi 2. mgr. 8. gr. reglna nr. 487/1994 verið felld úr gildi. Er frá því greint að tilgangur umræddrar breytingar hafi verið sá að hætta gjaldtöku á grundvelli reglna nr. 487/1994 og að um gjaldtöku færi þá eingöngu eftir reglugerð nr. 107/1997 í samræmi við það markmið að í þeirri reglugerð yrði á einum stað afmarkað með skýrum hætti fyrir hvaða þjónustu tollyfirvöldum væri heimilt að innheimta gjald og fjárhæð gjalds hverju sinni. Þá segir svo í bréfi ráðuneytisins:

„Að nánar athuguðu máli telur ráðuneytið að nákvæmara hefði verið, til að tryggja að gjaldtaka tollstjóra yrði eingöngu á grundvelli reglugerðar nr. 107/1997, að fella á brott í heild sinni ákvæði 8. gr. auglýsingar nr. 487/1994. Ráðuneytið hefur því ákveðið að fella þá grein brott í heild.“

Með auglýsingu nr. 370/1998 var 8. gr. reglna nr. 487/1994 felld brott.

Í ákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, varðandi veitingu heimildar til tímabundins innflutnings á vörum, er ekki vísað til viðeigandi ákvæða í tollalögum svo sem t.d. er gert í 8. tölulið sömu greinar reglugerðarinnar varðandi eftirlit með ótollafgreiddum vörum í geymslum, sbr. 65. gr. tollalaga. Ljóst er þó, m.a. af undanþágu reglugerðarákvæðisins um tollfrjálsan innflutning ferðamanna á ökutækjum og öðrum farartækjum og upplýsingum í bréfi fjármálaráðuneytisins frá 23. júní 1998 að ákvæðinu er ætlað að taka til þjónustu tengdri veitingu undanþágu- og lækkunarheimilda þeirra vegna tímabundins innflutnings sem greinir í 6. gr. tollalaga. Þótt ekki hafi komið fram af hálfu fjármálaráðuneytisins til hvaða undanþáguheimilda 6. gr. tollalaga umrætt reglugerðarákvæði tekur nákvæmlega, að frátaldri heimild 4. töluliðar greinarinnar um tollfrjálsan innflutning á vörum til sýningar eða flutnings um stundarsakir eða til reynslu um stuttan tíma, virðist ljóst að samkvæmt orðalagi ákvæðisins getur það a.m.k. tekið til heimilda þeirra sem um er fjallað í 5., 6. og 8. tölulið þessarar greinar tollalaganna og lúta að innflutningi tiltekinna vara og verðmæta til tímabundinna nota hér á landi.

Í 6. gr. tollalaga eru engin fyrirmæli um gjaldtöku vegna veitingar þeirra heimilda sem þar greinir, að frátaldri ráðagerð í 18. tölulið greinarinnar, þar sem fram kemur að binda megi heimild þess töluliðar því skilyrði m.a. að fullnægjandi trygging sé sett fyrir greiðslu kostnaðar sem leiða kunni af leyfisveitingunni. Að því er varðar lagaheimild fyrir gjaldtöku samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 hefur fjármálaráðuneytið einvörðungu vísað til 2. mgr. 145. gr. tollalaga. Er þannig litið svo á af hálfu ráðuneytisins að störf tollstarfsmanna í tengslum við veitingu undanþáguheimilda til tímabundins innflutnings samkvæmt 6. gr. tollalaga geti ekki talist liður í „almennu tolleftirliti“ í skilningi 2. mgr. 145. gr. sömu laga.

Meginregla tollalaga er sú að greiða skal toll af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með tollalögum sem hefur lagagildi, sbr. 1. mgr. 4. gr. tollalaga. Þau ákvæði 6. gr. tollalaga sem varða innflutning á vörum eða sendingum til tímabundinna nota hér á landi og að framan eru rakin, fela í sér undantekningar frá fyrrgreindri meginreglu. Á hinn bóginn er til þess að líta að tollalög gera ráð fyrir umræddum undantekningarheimildum og ljóst að framkvæmd þeirra getur út af fyrir sig talist liður í almennum störfum tollstarfsmanna. Að því virtu og þar sem hvergi kemur fram í 6. gr. tollalaga eða öðrum greinum þeirra laga að störf tollstarfsmanna í tengslum við veitingu heimilda til tímabundins innflutnings beri ekki að telja lið í „almennu tolleftirliti“ er það skoðun mín að 2. mgr. 145. gr. tollalaga feli ekki í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir töku gjalds vegna starfa tollstarfsmanna í þessu tilliti. Vísa ég jafnframt í þessu sambandi til þeirra krafna sem gera verður til skýrleika lagaheimilda sem mæla fyrir um töku þjónustugjalda og fyrri umfjöllunar um skýringu 2. mgr. 145. gr. tollalaga.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður séð að önnur ákvæði tollalaga geti skotið lagastoð undir gjaldtöku vegna veitingar heimildar til tímabundins innflutnings á vörum, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, er það niðurstaða mín að lagaheimild skorti til gjaldtöku samkvæmt umræddu reglugerðarákvæði.

4. Um 4. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Með 1. gr. reglugerðar nr. 368/1998, um breyting á reglugerð nr. 107/1997, var 4. töluliður 1. mgr. 3. gr. hinnar síðarnefndu reglugerðar felldur brott. Um ástæður þeirrar niðurfellingar er fjallað í bréfi fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 23. júní 1998. Kemur fram í bréfinu að umrætt gjaldtökuákvæði 4. töluliðar hafi verið sambærilegt við ákvæði um gjaldtöku í auglýsingu nr. 220/1968, um niðurfellingu aðflutningsgjalda af vörum í framhaldsflutningi. Sú auglýsing hafi hins vegar verið felld úr gildi með auglýsingu nr. 214/1998, um brottfall hinnar fyrrnefndu auglýsingar. Um þá niðurfellingu segir svo í bréfi ráðuneytisins:

„Í bréfi ráðuneytisins til ríkistollstjóra, dags. 22. janúar 1998, kemur fram að rökin að baki þeirri ákvörðun voru að ekki hefði komið fram með nægilega skýrum hætti að eftirlit með umflutningi fæli í sér starfsemi af hálfu tollyfirvalda sem kallaði á sérstaka gjaldtöku. Að athuguðu máli hefði ráðuneytinu verið rétt að fella samtímis úr gildi gjaldtökuheimild 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Ráðuneytið hefur því ákveðið að fella þá heimild úr gildi nú.“

Með vísan til framanritaðs og í ljósi þess að kvörtun Verslunarráðs Íslands varðar almennt gjaldtöku samkvæmt reglugerð nr. 107/1997 en snýr ekki að nánar tilteknum lögskiptum stjórnvalda við ákveðna aðila, tel ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um hið brottfellda gjaldtökuákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Í því felst að af minni hálfu er engin afstaða tekin til þess álitaefnis hvort gjaldtaka á grundvelli umrædds reglugerðarákvæðis hafi farið fram án heimildar í lögum.

5. Um 5. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Ákvæði 5. töluliðar 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 lýtur að eyðileggingu á vöru og kveður á um að sá sem óski eftir slíkri þjónustu við tollmeðferð vöru skuli greiða kostnað vegna hennar. Skal kostnaður vegna þessarar þjónustu vera 1.000 kr. vegna hverrar byrjaðrar vinnustundar tollstarfsmanns, sbr. 2. málslið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í tollalögum nr. 55/1987 er að finna ákvæði sem heimila tollyfirvöldum að farga vöru við tilteknar aðstæður. Slíkt ákvæði er m.a. í 50. gr. A laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni en þar er fjallað um innflutning á vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum og heimild tollstjóra til að fresta tollafgreiðslu vöru við slíkar aðstæður á meðan rétthafi leitar bráðabirgðaaðgerða hjá þar til bærum yfirvöldum og hefur í framhaldi af þeim málarekstur fyrir dómstólum, sbr. 1. mgr. þessarar greinar. Sé með dómi kveðið á um að um brot á hugverkarétti sé að ræða og í dóminum er ekki mælt fyrir um ráðstöfun viðkomandi vöru, er tollyfirvaldi heimilt samkvæmt 4. mgr. 50. gr. A að farga vörunni eða að ráðstafa henni á annan þann hátt sem ekki brýtur á rétti rétthafa. Samkvæmt 6. mgr. sömu greinar skal ráðherra með reglugerð kveða nánar á um frestun tollafgreiðslu. Hann getur jafnframt gert rétthafa að greiða geymslukostnað og þann kostnað sem tollyfirvöld hafa af ráðstöfunum þeim sem mælt er fyrir um í greininni, sbr. 2. málslið 6. mgr. hennar.

Um eyðileggingu á vöru er einnig ákvæði í 111. gr. tollalaga. Í 4. mgr. þessarar greinar, sbr. 91. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, sem breytti henni, kemur fram að tollstjórar mega krefjast nauðungarsölu á ótollafgreiddum vörum án undanfarins fjárnáms eða áskorunar til eiganda til lúkningar aðflutningsgjöldum, dráttarvöxtum, sektum og kostnaði. Telji tollstjóri ekki ástæðu til að selja vöru við nauðungarsölu vegna ástands hennar er honum heimilt að láta eyðileggja hana á kostnað innflytjanda, sbr. 7. mgr. 111. gr. tollalaga.

Þá er ákvæði um förgun vöru í 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Í nefndum tölulið er fjallað um heimild ráðherra til að lækka eða fella niður toll af vöru sem reynist gölluð eða hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, við affermingu, í vörslu tollyfirvalda, viðurkenndum geymslum farmflytjanda eða tollvörugeymslum eða í flutningi milli tollhafna innanlands áður en varan er afhent viðtakanda. Samkvæmt 2. mgr. þessa töluliðar er niðurfelling tolls þó bundin því skilyrði að varan sé eyðilögð undir tolleftirliti eða afhent ríkissjóði endurgjaldslaust til ráðstöfunar. Frekari ákvæði um niðurfellingu tolls við þessar aðstæður er að finna í II. kafla reglugerðar nr. 545/1990, um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, eyðileggingar, rýrnunar, skemmda, vöntunar eða endursölu til útlanda o.fl., með síðari breytingum. Í 4. mgr. 7. gr. umræddrar reglugerðar kemur fram að sé fallið frá innheimtu aðflutningsgjalda eða þau endurgreidd vegna algerrar eyðileggingar vöru skuli henni fargað undir tolleftirliti eða, ef tollstjóri kveður svo á, skuli hún afhent ríkissjóði endurgjaldslaust til ráðstöfunar.

Eins og að framan greinir er í 6. mgr. 50. gr. A tollalaga sérstaklega kveðið á um að ráðherra geti gert rétthafa hugverkaréttar að greiða geymslukostnað og þann kostnað sem tollyfirvöld hafa af ráðstöfunum þeim, sem greinin mælir fyrir um. Verður að skilja ákvæðið svo að ráðherra sé á grundvelli þess m.a. heimilt að krefja rétthafa um greiðslu kostnaðar sem tollyfirvöld hafa af förgun vöru sem brýtur gegn réttindum rétthafans. Þá er skýrt tekið fram í 7. mgr. 111. gr. laganna að sú eyðilegging vöru, sem þar greinir, fari fram á kostnað innflytjanda hennar. Á hinn bóginn kemur ekki fram í 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga, varðandi það skilyrði lækkunar eða niðurfellingar tolls af skemmdri vöru að varan sé eyðilögð undir tolleftirliti eða afhent ríkissjóði endurgjaldslaust til ráðstöfunar, að innflytjanda beri að standa undir kostnaði af eyðileggingu vöru sem fram fer í þeim tilvikum eða að honum beri að greiða sérstakt gjald fyrir eyðilegginguna.

Að því er síðastgreint tilvik varðar tel ég sérstaka ástæðu til að vekja athygli á ummælum í athugasemdum við 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 55/1987 en þar segir að gert sé ráð fyrir „að settar verði nánari reglur um heimild þessa þar sem m.a. verði kveðið á um greiðslu kostnaðar vegna nauðsynlegs eftirlits og mats á tjóni ef slíkt verður talið nauðsynlegt vegna ákvörðunar tolla.“ (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 1294.) Í 2. mgr. 6. gr. tollalaga er almenn heimild fyrir ráðherra til að setja nánari reglur um undanþágu-, lækkunar- og samræmingarheimildir samkvæmt greininni og hefur sú heimild verið notuð í fjölmörgum tilvikum, sbr. t.d. fyrrnefnda reglugerð nr. 545/1990. Ég vil af þessu tilefni taka fram að almenn heimild í lögum fyrir ráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga verður ekki talin fela í sér nægilega heimild til að mæla fyrir um töku þjónustugjalda í reglugerð. Eins og ákvæði 2. mgr. 6. gr. tollalaga er orðað tel ég því að það geti ekki talist nægjanlegur lagagrundvöllur fyrir töku gjalds vegna förgunar vöru sem fram fer á grundvelli 9. töluliðar 1. mgr. sömu greinar. Má hér og vísa til sjónarmiða í álitum umboðsmanns Alþingis frá 30. desember 1992 í máli nr. 610/1992 (SUA 1992:220) og 28. mars 1996 í máli nr. 1249/1994 (SUA 1996:474).

Í 5. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 varðandi eyðileggingu vöru er ekki vísað til viðeigandi ákvæða í tollalögum svo sem t.d. er gert í 8. tölulið sömu greinar reglugerðarinnar varðandi eftirlit með ótollafgreiddum vörum í geymslum, sbr. 65. gr. tollalaga. Ljóst er þó að samkvæmt orðalagi sínu getur ákvæðið tekið til allra þeirra tilvika þar sem vöru er fargað undir tolleftirliti. Getur ákvæðið því út af fyrir sig átt við í öllum þeim tilvikum sem hér að ofan eru rakin, þ.e. þegar vara er eyðilögð samkvæmt 6. mgr. 50. gr. A, 7. mgr. 111. gr. eða 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Um lagaheimild gjaldtöku samkvæmt umræddum tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 hefur fjármálaráðuneytið á hinn bóginn einungis vísað til 2. mgr. 145. gr. tollalaga varðandi störf tollstarfsmanna „sem ekki teljast liður í almennu tolleftirliti“. Hefur ráðuneytið þannig ekki skírskotað til 6. mgr. 50. gr. A og 7. mgr. 111. gr. í þessu sambandi. Er sú afstaða í samræmi við það sjónarmið ráðuneytisins sem fram kemur í bréfi til umboðsmanns Alþingis frá 23. júní 1998 að sú þjónusta tollstarfsmanna sem ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 kveði á um gjaldtöku fyrir, fari fram að ósk innflytjanda sjálfs. Ljóst er að sú förgun vöru sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 50. gr. A og 7. mgr. 111. gr. tollalaga fer almennt ekki fram að ósk innflytjanda heldur samkvæmt sérstakri ákvörðun tollstjóra þar um. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að gjaldtöku samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 sé einvörðungu ætlað að taka til þeirra tilvika þegar vöru er fargað á grundvelli 9. töluliðar 1. mgr. 6. gr. tollalaga.

Það er skoðun mín að ákvæði 6. mgr. 50. gr. A og 7. mgr. 111. gr. tollalaga feli í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir töku gjalds vegna vinnu tollstarfsmanna við eyðileggingu vöru í þeim tilvikum sem um er rætt í nefndum greinum tollalaga, þ.e. annars vegar vegna vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum og hins vegar vegna ráðstöfunar á ótollafgreiddri vöru í tilefni af vangreiðslu aðflutningsgjalda af henni. Á hinn bóginn tel ég að af þessum ákvæðum verði ekki dregin ályktun um almenna heimild ráðherra til að heimta þjónustugjald vegna förgunar vöru sem fram fer í öðrum tilvikum. Vísa ég í því sambandi til þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér framar varðandi skýringu 2. mgr. 145. gr. tollalaga en eins og þar kemur fram verður að gera þá kröfu að gjaldtaka fyrir verk sem tollyfirvöldum er ætlað að sinna samkvæmt ákvæðum tollalaga eða annarra laga styðjist við skýra lagaheimild. Þá ber að hafa í huga að umrædd ákvæði tollalaganna hafa á sér blæ sérákvæða andspænis 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. sömu laga að því er tekur til förgunar vöru á grundvelli þessara ákvæða. Þannig snýr gjaldtaka samkvæmt 6. mgr. 50. gr. A tollalaganna ekki að innflytjanda viðkomandi vöru heldur að rétthafa hugverkaréttinda sem innflutningur vörunnar fer í bága við og eyðilegging vöru á grundvelli 7. mgr. 111. gr. laganna er valkvætt úrræði tollstjóra við innheimtu aðflutningsgjalda af ótollafgreiddri vöru. Ákvæði 9. töluliðar 1. mgr. 6. gr. tollalaganna varða hins vegar nærtæk og að því er ætla verður nokkuð tíð tilvik í vöruflutningum milli landa, þ.e. gallaðar eða skemmdar vörusendingar.

Með vísan til þess sem að framan greinir, get ég ekki fallist á með fjármálaráðuneytinu að 2. mgr. 145. gr. tollalaga feli í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir töku gjalds vegna vinnu tollstarfsmanna við förgun vöru í þeim tilvikum sem um er rætt í 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga. Samkvæmt því og þar sem ekki verður séð að önnur ákvæði tollalaga geti skotið lagastoð undir gjaldtöku vegna förgunar vöru sem fram fer á þeim grundvelli, er það niðurstaða mín að lagaheimild skorti til gjaldtöku samkvæmt 5. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

6. Um 6. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Samkvæmt 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 telst mat á vöru, sem orðið hefur fyrir skemmdum, til sérstakrar tollmeðferðar vöru í skilningi greinarinnar og skal sá sem óskar eftir slíkri þjónustu greiða kostnað vegna hennar. Telst sá kostnaður vera 1.000 kr. vegna hverrar byrjaðrar vinnustundar tollstarfsmanns, sbr. 2. málslið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Með reglugerð nr. 301/1997, um breyting á reglugerð nr. 107/1997, var þeirri viðbót skotið við 6. tölulið 3. gr. hinnar síðarnefndu reglugerðar að ekki skal greiða kostnað vegna matsins ef fob-verðmæti þeirrar vöru sem orðið hefur fyrir skemmdum er undir 10.000 kr.

Í tollalögum eru ekki almenn ákvæði um mat á skemmdum vörum. Samkvæmt 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. laganna, sem um var rætt hér að framan undir lið 5, er ráðherra hins vegar heimilt að lækka eða fella niður toll af vöru sem reynist gölluð eða hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, við affermingu, í vörslu tollyfirvalda, viðurkenndum geymslum farmflytjanda eða tollvörugeymslum eða í flutningi milli tollhafna innanlands áður en hún er afhent viðtakanda. Er niðurfelling tolls bundin því skilyrði að varan sé eyðilögð undir tolleftirliti eða afhent ríkissjóði endurgjaldslaust til ráðstöfunar. Þá er í 60. gr. tollalaga kveðið á um skyldu stjórnanda fars frá útlöndum, þegar lokið er á hverri höfn affermingu þess, til að afhenda tollyfirvaldi skrá um alla sýnilega vöntun og skemmdir á vörum sem komið hafa í ljós við afferminguna. Tekið er fram að tollyfirvald geti látið fara fram rannsókn á vöruvöntun og skemmdum eftir því sem við verður komið. Þá kemur fram í 4. mgr. 61. gr. tollalaga að ef stjórnandi fars, afgreiðslumaður eða útgerð fullnægja ekki skyldum sínum samkvæmt ákvæðum VII. kafla laganna ber þeim að greiða tollgæslunni allan kostnað sem leiðir af þeim ráðstöfunum sem hún telur nauðsynlegar vegna vanrækslunnar. Kostnaði þessum fylgir lögveð í förunum.

Um lækkun og niðurfellingu tolls af skemmdum vörum eru frekari ákvæði í II. kafla reglugerðar nr. 545/1990 sem fyrr er getið. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er tollstjóra heimilt að lækka, falla frá innheimtu eða endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum á leið hingað til lands, í vörslu tollyfirvalda, í vörugeymslu farmflytjanda, í tollvörugeymslu eða í flutningi á milli viðurkenndra geymslustaða ótollafgreidds varnings. Skilyrði tollmeðferðar samkvæmt 1. mgr. er, sbr. 2. mgr. greinarinnar, að vöru sé framvísað fyrir tollgæslunni og gerð sé grein fyrir eyðileggingu, rýrnun eða skemmdum áður en hún er flutt úr nefndum geymslum. Sé um að ræða vöru sem verulegum vandkvæðum er bundið að skoða í framangreindum geymslum má skoðun fara fram annars staðar að höfðu samráði við tollgæsluna enda sé varan flutt þangað undir tolleftirliti eða tollinnsigli. Í 4. mgr. greinarinnar kemur fram að sé fallið frá innheimtu aðflutningsgjalda eða þau endurgreidd vegna algerrar eyðileggingar vöru skuli henni fargað undir tolleftirliti eða, ef tollstjóri kveður svo á, afhent ríkissjóði endurgjaldslaust til ráðstöfunar. Beiðni um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 545/1990 skal fylgja skýrsla tollgæslunnar um skoðun vörunnar svo og matsgerð vátryggjanda eða umboðsmanns hans ef um hana er að ræða eða tjónsmat frá viðurkenndum aðila ef vara er óvátryggð, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar.

Heimild ráðherra samkvæmt 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga er í því fólgin að lækka eða fella niður toll af vöru sem hefur eyðilagst, rýrnað eða orðið fyrir skemmdum. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laga um tollskrá o.fl. nr. 120/1976 var tollyfirvaldi hins vegar heimilt að lækka tollverð vöru sem næmi bótum er innflytjandi fengi vegna rýrnunar eða skemmda sem orðið hefðu á vöru á leið hingað til lands, við affermingu, í vörslu tollyfirvalda eða í viðurkenndum geymslum farmflytjanda áður en hún hefði verið afhent honum enda ætti hann eða aðrir ekki sök á rýrnuninni eða skemmdunum. Í athugasemdum með 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 55/1987, segir m.a. svo um breytingu frá hinni eldri reglu:

„Heimildarákvæði þetta [4. mgr. 10. gr. laga nr. 120/1976] er ekki samrýmanlegt reglum þeim sem lagt er til að teknar verði upp um ákvörðun tollverðs vöru, sbr. 8. gr. frumvarps þessa. Atvik þau sem um ræðir hér að framan hafa í flestum tilvikum engin áhrif á viðskiptaverð viðkomandi vöru, þ.e. það verð sem kaupandi greiðir eða honum ber að greiða seljanda, nema seljandi hafi tekið ábyrgð á vörunni. Er því lagt til að nefndri heimild verði breytt þannig að um verði að ræða ákvæði er feli í sér heimild til að lækka toll á vöru undir þeim kringumstæðum sem að framan greinir.“ (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 1294.)

Að því er varðar gjaldtöku segir svo í athugasemdum við umræddan tölulið 6. gr. frumvarpsins:

„Gert er ráð fyrir að settar verði nánari reglur um heimild þessa þar sem m.a. verði kveðið á um greiðslu kostnaðar vegna nauðsynlegs eftirlits og mats á tjóni ef slíkt verður talið nauðsynlegt vegna ákvörðunar tolla.“ (Alþt. 1986-87, A-deild, bls. 1294.)

Um tollverð og tollverðsákvörðun eru ákvæði í 8. - 12. gr. tollalaga. Samkvæmt 8. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 69/1996, um breyting á þeim, er tollverð innfluttra vara viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 9. gr. laganna, að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem rakin eru í fjórum stafliðum 8. gr. Samkvæmt reglum tollalaga um tollverð og tollverðsákvörðun, sbr. 8. - 12. gr. þeirra, hafa skemmdir á vöru almennt ekki áhrif á tollverð hennar, sbr. einnig athugasemdir þær í frumvarpi til tollalaga sem raktar eru að ofan. Á hinn bóginn hafa ákvæði 9. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laganna í för með sér að óski innflytjandi vöru eftir lækkun eða niðurfellingu tolls af henni vegna skemmda sem á henni eru, er þörf á því að fram fari mat á skemmdunum, sbr. og fyrrnefnd ákvæði 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 545/1990.

Um lagaheimild fyrir gjaldtöku samkvæmt 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 hefur fjármálaráðuneytið vísað til 8. mgr. 64. gr. og 2. mgr. 145. gr. tollalaga. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu ber geymsluhöfum að greiða ríkissjóði kostnað við tolleftirlit í vörugeymslum sínum „sem ekki getur talist þáttur í almennu tolleftirliti“ og tilgreinir ákvæðið í dæmaskyni um slíkt tolleftirlit m.a. „mat á skemmdri vöru til ákvörðunar tollverðs“. Eins og rakið hefur verið hér framar í umfjöllun um gjaldtöku samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 er gjaldtökuheimild 8. mgr. 64. gr. tollalaga bundin við tolleftirlit í vörugeymslum geymsluhafa samkvæmt þeirri grein og tekur því ekki til tolleftirlits sem fram fer utan slíkra vörugeymslna. Tekur ákvæðið þannig ekki til aðstoðar tollstarfsmanna við mat á vörum til ákvörðunar tollverðs þegar slík aðstoð fer fram utan vörugeymslna geymsluhafa samkvæmt 64. gr. tollalaga.

Þegar tollyfirvald framkvæmir mat á skemmdri vöru í tilefni af fram kominni beiðni innflytjanda eða viðtakanda um lækkun eða niðurfellingu tolls af vörunni, sbr. 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga og II. kafla reglugerðar nr. 545/1990, er út af fyrir sig ekki um að ræða mat á vörunni til ákvörðunar tollverðs enda hafa skemmdir á vöru almennt ekki áhrif á tollverð hennar samkvæmt reglum IV. kafla tollalaga um tollverð og tollverðsákvörðun, sbr. hér að framan. Mat á skemmdri vöru fer þá fram í tilefni af ósk innflytjanda eða viðtakanda um að beitt verði sérstakri heimild í tollalögum sem felur í sér undantekningu frá meginreglu tollalaga um að greiða skuli toll af öllum vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Er og ljóst að störf tollstarfsmanna við slíkt mat, sem hér um ræðir, eru eðlisólík störfum sem einungis lúta að venjulegri afgreiðslu á beiðni um tollmeðferð samkvæmt 6. gr. tollalaga, sbr. til hliðsjónar hér að framan um gjaldtöku samkvæmt 3. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 vegna veitingar heimildar til tímabundins innflutnings á vörum. Í athugasemdum við 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga í frumvarpi því sem varð að tollalögum nr. 55/1987 er sérstaklega tekið fram að gert sé ráð fyrir því að settar verði nánari reglur um heimild þessa töluliðar „þar sem m.a. verði kveðið á um greiðslu kostnaðar vegna nauðsynlegs eftirlits og mats á tjóni ef slíkt verður talið nauðsynlegt vegna ákvörðunar tolla“. Með hliðsjón af framansögðu og þegar jafnframt er litið til þess að í 8. mgr. 64. gr. tollalaga kemur fram að aðstoð tollyfirvalda við mat á vörum til ákvörðunar tollverðs geti ekki talist þáttur í „almennu tolleftirliti“ samkvæmt greininni, þá er það skoðun mín að líta verði svo á að störf tollstarfsmanna við mat á vöru, sem orðið hefur fyrir skemmdum, sem fram fer að ósk innflytjanda eða viðtakanda vörunnar, geti ekki talist „liður í almennu tolleftirliti“ í skilningi 2. mgr. 145. gr. tollalaga. Tel ég því, að síðastnefnt ákvæði veiti ráðherra heimild til að kveða á um töku þjónustugjalds vegna þessara starfa tollstarfsmanna. Á hinn bóginn tel ég ástæðu til að taka fram að ég tel að heimild til gjaldtöku vegna mats á skemmdum vörum samkvæmt umræddu ákvæði sé bundin við þau tilvik þegar mat fer fram samkvæmt sérstakri ósk innflytjanda eða viðtakanda vöru. Þá verður að telja að heimild til gjaldtöku vegna mats á skemmdri vöru sé bundin við störf tollstarfsmanna við matið sem slíkt og taki ekki til annarra starfa sem tengjast veitingu lækkunar- og niðurfellingarheimildar þeirrar er greinir í 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga svo sem eiginlegra afgreiðslustarfa. Má í því sambandi vísa til sjónarmiða sem rakin eru hér framar varðandi heimild 3. töluliðar 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 til töku gjalds vegna veitingar heimildar til tímabundins innflutnings á vörum.

Hér verður ekki sérstaklega fjallað um gjaldtökuheimild 4. mgr. 61. gr. tollalaga, sem fyrr er getið, enda hefur ekki verið til hennar vísað af hálfu fjármálaráðuneytisins. Ég tel einungis ástæðu til að benda á að sú heimild er samkvæmt orðalagi sínu bundin við þau tilvik þegar tollyfirvald hefur haft kostnað af sérstökum ráðstöfunum sem reynst hafa nauðsynlegar vegna vanrækslu stjórnanda fars, afgreiðslumanns eða útgerðar á að fullnægja skyldum sínum samkvæmt VII. kafla tollalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, er það álit mitt að 2. mgr. 145. gr. tollalaga feli í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir töku þjónustugjalda vegna kostnaðar tollyfirvalda af störfum tollstarfsmanna við mat á skemmdri vöru sem fram fer að ósk innflytjanda eða viðtakanda viðkomandi vöru. Á hinn bóginn tel ég að lagaheimildin taki einungis til kostnaðar af umræddum matsstörfum tollstarfsmanna en ekki til annarra starfa þeirra í tengslum við veitingu undanþáguheimildar þeirrar er greinir í 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga, svo sem beinna afgreiðslustarfa.

7. Um 8. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997.

Samkvæmt 8. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 telst eftirlit með ótollafgreiddum vörum í geymslum sem fengið hafa sérstakt leyfi, sbr. 65. gr. tollalaga, til sérstakrar tollmeðferðar vöru, í skilningi reglugerðarákvæðisins. Þegar sú þjónusta er veitt við tollmeðferð vöru skal sá er þjónustunnar óskar greiða kostnað vegna hennar. Er sá kostnaður 1.000 kr. vegna hverrar byrjaðrar vinnustundar tollstarfsmanns, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 65. gr. tollalaga kemur fram að utan þeirra húsa eða geymslusvæða, sem tollgæslan rekur eða viðurkennd hafa verið samkvæmt 64. gr. laganna, sé óheimilt að geyma ótollafgreidda vöru nema að fengnu sérstöku leyfi viðkomandi tollstjóra. Þeim er slíkt leyfi fær er skylt að hlíta þeim skilyrðum sem tollstjórinn setur fyrir leyfinu „og greiða allan kostnað við eftirlit með vörunni“. Er þannig beinlínis tekið fram í lagagreininni að þeim sem fær sérstakt leyfi tollstjóra til að geyma ótollafgreidda vöru utan þeirra húsa eða geymslusvæða sem tollgæslan rekur eða viðurkennd hafa verið af tollstjóra samkvæmt 64. gr. laganna, beri að greiða allan kostnað við eftirlit með vörunni. Ég tel því að innheimta þjónustugjalda vegna kostnaðar tollyfirvalda af tolleftirliti með ótollafgreiddum vörum við þessar aðstæður eigi sér fullnægjandi lagastoð í 65. gr. tollalaga.

4.

Hér að framan hef ég fjallað um lagaheimildir fyrir gjaldtöku vegna svonefndrar sérstakrar tollmeðferðar vöru samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 eins og sú grein hljóðar eftir breytingu með 2. gr. reglugerðar nr. 301/1997. Eins og þar er rakið er niðurstaða mín sú að lagaheimild skorti til gjaldtöku samkvæmt ákvæðum 3. og 5. töluliðar 1. mgr. 3. gr. nefndrar reglugerðar. Þá er það skoðun mín samkvæmt því sem rakið er í umfjöllun um innheimtu gjalds samkvæmt 2. tölulið þessarar greinar reglugerðarinnar að sú gjaldtaka sem þar er mælt fyrir um eigi sér ekki lagastoð nema að takmörkuðu leyti. Að því er varðar gjaldtöku samkvæmt 1., 6. og 8. tölulið umrædds reglugerðarákvæðis er það niðurstaða mín að lagaheimild sé fyrir töku þjónustugjalda vegna tiltekinna starfa tollstarfsmanna í tengslum við þá tollmeðferð sem í nefndum töluliðum reglugerðarinnar greinir, svo sem frekar er rakið í umfjöllun um þessa töluliði reglugerðarinnar.

Eins og ég hef áður bent á felur einföld lagaheimild til töku þjónustugjalds í sér að gjaldið má ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin nær til. Þegar um þjónustugjöld er að ræða hefur því grundvallarþýðingu að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir viðkomandi gjaldtöku. Að því leyti sem innheimta þjónustugjalda samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 styðst við fullnægjandi lagaheimild er því nauðsynlegt að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir viðkomandi gjaldtökuheimildir með skýringu á þeim.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðuneytisins, dags. 30. september 1997, óskaði hann eftir því að ráðuneytið gerði grein fyrir þeim kostnaðarliðum sem ráðuneytið teldi heimilt að standa straum af með gjaldtöku samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 22. desember s.á., kom fram að ráðuneytið teldi heimilt að taka gjald „til að standa undir beinum kostnaði tollstjóra vegna veittrar þjónustu“ og kvað ráðuneytið þar fyrst og fremst um að ræða launakostnað vegna vinnu þeirra tollstarfsmanna sem viðkomandi þjónustu veittu. Þá kom fram í bréfi ráðuneytisins að ráðuneytið teldi einnig heimilt að taka gjald vegna aksturs í þeim tilvikum þar sem um slíkt væri að ræða.

Af þessu tilefni skulu niðurstöður mínar varðandi gjaldtöku samkvæmt 1., 2., 6. og 8. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 áréttaðar.

Ákvæði 4. mgr. 21. gr. tollalaga um sérstakt afgreiðslugjald vegna bráðabirgðatollafgreiðslu, sbr. 1. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, verður að skýra svo að það heimili ekki töku þjónustugjalda vegna annarra starfa tollstarfsmanna í tengslum við bráðabirgðatollafgreiðslu en starfa við tollskoðun sem er nauðsynlegur liður í að bráðabirgðatollafgreiðsla geti farið fram. Verður því að vera um að ræða kostnað umfram það sem leiddi af almennu tolleftirliti með hlutaðeigandi vöru. Samkvæmt því verður að telja að á meðal kostnaðarliða sem heimilt er að taka tillit til við útreikning á fjárhæð gjalds vegna tollskoðunar, sé kostnaður vegna aksturs tollstarfsmanna í tengslum við tollskoðun, t.d. til vörugeymslu þar sem ótollafgreidd vara sem óskað hefur verið bráðabirgðatollafgreiðslu á, er geymd.

Að því er snertir gjaldtöku samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 er það niðurstaða mín að lög heimili einungis töku þjónustugjalds vegna útgáfu vottorða um endursendingu vöru. Við ákvörðun fjárhæðar þess gjalds er því einungis heimilt að líta til beins kostnaðar tollyfirvalda af útgáfu umræddra vottorða. Getur aksturskostnaður ekki komið til álita í því sambandi.

Vegna innheimtu gjalds samkvæmt 6. tölulið 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 145. gr. tollalaga verður einungis talið heimilt að miða fjárhæð gjaldsins við beinan kostnað af störfum tollstarfsmanna við mat á skemmdri vöru sem fram fer að ósk innflytjanda eða viðtakanda vörunnar. Verður samkvæmt því að telja að á meðal kostnaðarliða sem heimilt er að taka tillit til við útreikning á fjárhæð gjaldsins, sé kostnaður vegna aksturs tollstarfsmanna í tengslum við mat á skemmdri vöru, t.d. til vörugeymslu eða hafnar þar sem hina skemmdu vöru er að finna. Á hinn bóginn tel ég að lagaheimildin taki einungis til kostnaðar af umræddum matsstörfum tollstarfsmanna en ekki til annarra starfa þeirra í tengslum við veitingu undanþáguheimildar þeirrar er greinir í 9. tölulið 1. mgr. 6. gr. tollalaga.

Við afmörkun á því hvaða kostnaðarliðir lagðir verða til grundvallar útreikningi á fjárhæð gjalds samkvæmt 65. gr. tollalaga, sbr. 8. tölulið 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, verður að hafa í huga að lagaákvæðið heimilar einungis gjaldtöku til að standa straum af kostnaði tollyfirvalda af „eftirliti“ með viðkomandi vöru. Við ákvörðun á fjárhæð gjaldsins verður því að afmarka kostnaðarliðina með skýringu á texta gjaldtökuheimildarinnar með því að ákvarða hvað fallið geti undir hugtakið „eftirlit“. Verður að telja að þar sé fyrst og fremst um bein eftirlitsstörf tollstarfsmanna að ræða. Þá tel ég ljóst að kostnaður vegna aksturs í tengslum við tolleftirlit geti fallið þarna undir.

Með hliðsjón af því sem hér að framan hefur verið rakið er ljóst að verulegir annmarkar eru á 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Er það skoðun mín að þess hafi ekki verið gætt af hálfu fjármálaráðuneytisins við setningu umræddrar reglugerðar að fullnægjandi lagaheimildir væru fyrir gjaldtökum á grundvelli 3. gr. hennar né að þær gjaldtökuheimildir sem þó voru fyrir hendi í tollalögum, hafi sætt nákvæmri og vandaðri athugun af hálfu ráðuneytisins í tilefni af setningu umræddrar reglugerðar með tilliti til þeirra kostnaðarliða sem felldir yrðu undir gjaldtöku samkvæmt þeim. Í þessu sambandi er sérstök ástæða til að benda á að því er snertir ákvæði 2. mgr. 145. gr. tollalaga sem fjármálaráðuneytið hefur einkum vísað til um lagastoð gjaldtöku, að sú lagaheimild er afar óskýr og tekur enga afstöðu til þess erfiða álitaefnis, hvaða kostnaðarliðir verði felldir undir þjónustugjaldið við útreikning á fjárhæð þess. Ekki er heldur tekin afstaða til neinna af þeim fjölmörgu álitaefnum sem hér að framan hafa verið rakin.

5.

Í kvörtun Verslunarráðs Íslands er sérstaklega vikið að kostnaði vegna þeirrar þjónustu tollyfirvalda sem um er fjallað í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Er á það bent í kvörtun Verslunarráðsins að engir eiginlegir útreikningar á þeim kostnaði hafi legið til grundvallar ákvörðun gjalda samkvæmt reglugerðinni. Ég tel rétt að fjalla sérstaklega um þennan þátt kvörtunar Verslunarráðsins. Sú umfjöllun hefur þó eðli máls samkvæmt einvörðungu þýðingu að því leyti sem ég hef talið innheimtu þjónustugjalda samkvæmt 3. gr. hinnar umdeildu reglugerðar styðjast við viðhlítandi lagagrundvöll samkvæmt því sem áður greinir.

Við ákvörðun á fjárhæð þjónustugjalda verður ávallt að gæta þess að þau séu ekki hærri en sem nemur þeim kostnaði sem almennt stafar af því að veita þá þjónustu sem í hlut á. Sá sem greiðir þjónustugjald getur yfirleitt ekki vænst þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita honum þjónustu sé nákvæmlega reiknaður út og honum gert að greiða gjald sem honum nemur. Verða gjaldendur oftast að sæta því að greiða þjónustugjald sem nemur þeirri fjárhæð sem almennt kostar að veita viðkomandi þjónustu. Hins vegar er nauðsynlegt að þess sé gætt við ákvörðun þjónustugjalda að gjaldendur sem gert er að greiða þjónustugjöld samkvæmt reiknuðu meðaltali, eigi nægjanlega samstöðu að því leyti að kostnaður vegna þjónustu við hvern og einn sé svipaður. Að öðrum kosti greiðir ákveðinn gjaldendahópur mun hærra þjónustugjald en almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu og greiðir þannig þjónustuna fyrir annan gjaldendahóp. Til slíks þarf almennt sérstaka lagaheimild.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 eru fjárhæðir gjalda vegna þeirrar þjónustu sem greinir í 1. mgr. sömu greinar ákvarðaðar með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða fast gjald vegna þjónustu samkvæmt 1.-4. tölulið 1. mgr. greinarinnar að fjárhæð 1.000 kr. Hins vegar er kveðið á um fast tímagjald sömu fjárhæðar vegna hverrar byrjaðrar vinnustundar tollstarfsmanns í þeim tilvikum þegar um þjónustu er að ræða samkvæmt 5.-8. töluliðar reglugerðarinnar. Í niðurlagi 2. mgr. 3. gr. kemur fram að sé þjónusta samkvæmt 1. mgr. greinarinnar veitt utan almenns afgreiðslutíma fari um greiðslu kostnaðar eftir 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Með bréfi umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðuneytisins, dags. 30. september 1997, var óskað eftir upplýsingum ráðuneytisins um útreikninga sem lægju að baki þeim gjöldum, sem ákveðin væru í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Svar ráðuneytisins við þessari fyrirspurn var rakið hér framar undir III. Eins og þar greinir kemur fram af hálfu ráðuneytisins að ekki hafi verið talin þörf á sérstökum útreikningum vegna gjaldtöku samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 þar sem fjárhæðir gjalda samkvæmt reglugerðinni séu miklum mun lægri en þau gjöld sem áður hafi verið innheimt af tollstjórum vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru. Hafi þótt sýnt við setningu reglugerðarinnar að fjárhæðir „væru vel innan þeirra marka sem unnt væri að krefja vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru“ eins og segir í bréfi ráðuneytisins. Í þessu sambandi má einnig vísa til bréfs fjármálaráðuneytisins til Verslunarráðsins frá 3. apríl 1997 sem liggur fyrir í málinu en þar kemur fram, sbr. tölulið 2 í bréfinu, að ekki liggi fyrir útreikningar vegna fjárhæðar gjalda í einstökum tilvikum. Þá skal getið bréfs ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis frá 23. júní 1998 í tilefni af bréfi umboðsmanns, dags. 25. mars s.á., en í hinu síðarnefnda bréfi óskaði umboðsmaður m.a. sérstaklega eftir því að ráðuneytið gengi úr skugga um að umboðsmanni hefðu verið send öll tiltæk gögn sem legið hefðu til grundvallar setningu reglugerðar nr. 107/1997. Segir m.a. svo um þetta atriði í bréfi ráðuneytisins:

„Í bréfi yðar er þess sérstaklega óskað að gengið verði úr skugga um það, að yður hafi verið send öll tiltæk gögn sem lágu til grundvallar setningu reglugerðar þessarar. Í tilefni af því vill ráðuneytið taka fram að ekki lágu fyrir önnur gögn en reikningar tollstjóra vegna gjaldtöku fyrir setningu reglugerðar þessarar.“

Samkvæmt framansögðu verður að telja ljóst að gjöld samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 hafi ekki verið ákveðin að undangenginni reikningslegri úttekt á þeim kostnaðarliðum sem heimilt er að leggja til grundvallar við útreikning gjaldanna. Að mínum dómi verður því ekki hjá því komist að draga þá ályktun að misbrestur hafi verið á því að gjöldin hafi verið ákvörðuð á nægilega traustum grunni enda verður ekki talið að sú staðreynd ein að um einhverja lækkun gjaldfjárhæða hafi verið að ræða frá fyrri framkvæmd tollyfirvalda hafi í för með sér að unnt hafi verið að ákvarða gjöldin án þess að byggja í því efni á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem heimilt er að standa straum af með töku gjaldanna.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997 er gengið út frá því að gjöld samkvæmt greininni séu greiðsla fyrir „þjónustu” sem greiðanda er látin í té. Er þannig gert ráð fyrir því að greiðslur samkvæmt 2. mgr. 3. gr. séu endurgjald fyrir þjónustuna og að baki greiðslunum sé kostnaður við þessa tilteknu þjónustu sem tollyfirvöld geti skilgreint og reiknað út. Með sama hætti á sá sem gjald greiðir og aðrir sem í hlut eiga að geta sannreynt að svo sé. Eins og hér að framan hefur verið rakið liggur ekki fyrir traustur útreikningur á þeim kostnaðarliðum sem heimilt er að leggja til grundvallar útreikningi á fjárhæð þeirra gjalda sem mælt er fyrir um í 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997. Ekki verður því fullyrt hvort umrædd gjöld hafi verið ákvörðuð of há í 2. mgr. þessarar greinar reglugerðarinnar og ef svo var hversu mikið oftekið hafi verið.

Með hliðsjón af framansögðu er það skoðun mín að þess hafi ekki verið nægjanlega gætt við setningu reglugerðar nr. 107/1997 að gjaldtökur þær sem kveðið er á um í 3. gr. reglugerðarinnar hafi verið undirbúnar á viðhlítandi hátt á grundvelli traustra útreikninga á kostnaði við þá þjónustu sem viðkomandi gjaldtökuheimildir tollalaga ná til í samræmi við þær reglur sem gilda um ákvörðun þjónustugjalda, sbr. hér að framan.

V.

Í samræmi við framanritað er það niðurstaða mín að nauðsyn beri til að ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, verði tekin til endurskoðunar og þeim komið á lögmætan grundvöll, þannig að gjaldtaka fyrir störf tollstarfsmanna standist þær kröfur sem gerðar eru til þjónustugjalda og sé innan þeirra marka sem gjaldtökuheimildir tollalaga setja eins og skýra verður þær heimildir samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið. Verði þess meðal annars gætt að ákvarðanir um fjárhæð gjalda byggist á nægilega traustum útreikningi og gjaldfjárhæðir verði ekki hærri en sá kostnaður sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem viðkomandi gjaldtökuheimildir taka til. Það eru því tilmæli mín til fjármálaráðuneytisins að það gangist fyrir slíkri endurskoðun og taki meðal annars mið af þeim athugasemdum sem ég hef hér að framan gert við einstök atriði í núgildandi tilhögun gjaldtöku. Þá tel ég ástæðu til að taka undir ummæli í bréfum fjármálaráðuneytisins, dags. 22. desember 1997 og 23. júní 1998, til umboðsmanns Alþingis, og leggja áherslu á að fullt tilefni er til að hugsanlegum vafa um gjaldtökuheimildir tollyfirvalda verði eytt, þannig að tilgreint verði í lögum fyrir hvaða þjónustu tollyfirvöldum sé heimilt að krefjast gjalds og þá afmarkað á hverju fjárhæð gjaldanna á að byggjast.

VI.

Með bréfi til fjármálaráðuneytisins, dags. 6. apríl 2000, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði eftir viðtöku álitsins unnið að endurskoðun reglugerðarákvæðanna í samræmi við tilmæli í því.

Í svari fjármálaráðuneytisins, dags. 4. maí 2000, segir:

„Ráðuneytið vill í upphafi svars við bréfi yðar taka fram að í kjölfar álits yðar í ofangreindu máli var hafin endurskoðun á ákvæðum umræddrar reglugerðar og þeim ákvæðum tollalaga sem hún byggir á, með það að markmiði að tryggja að gjaldtaka tollyfirvalda vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru stæðist fyllilega þær kröfur sem gerðar eru til töku þjónustugjalda. Meðal þeirra atriða sem ákveðið var að skoða nánar voru annars vegar hvort afmarka mætti kostnað tollyfirvalda vegna þeirrar þjónustu sem tollyfirvöldum er að yðar áliti heimilt að krefjast gjalds fyrir og hins vegar hvort hugsanlegar breytingar á ákvæðum tollalaga er heimila gjaldtöku tollyfirvalda vegna þjónustu þeirra, á þann veg að kveðið yrði með skýrum hætti á um þau verkefni er tollyfirvöldum væri heimilt að krefjast gjalds fyrir. Vegna mikilla anna í ráðuneytinu, einkum í tengslum við undirbúning og gerð þeirra lagafrumvarpa sem lögð hafa verið fram á yfirstandandi löggjafarþingi, dróst hins vegar úr hömlu að ljúka þeirri endurskoðun.

Eins og fram hefur komið í fyrri bréfum ráðuneytisins til yðar var markmiðið með setningu reglugerðar nr. 102/1997 að setja gjaldtöku tollyfirvalda tiltekin mörk og tryggja að slík gjaldtaka væri hófleg miðað við þann kostnað sem af henni hlýst. Það var niðurstaða ráðuneytisins, að undangenginni skoðun á þeim ákvæðum tollalaga sem heimila innheimtu gjalds fyrir þjónustu tollyfirvalda, að gjaldtökuheimildir tollalaga, sbr. einkum 2. mgr. 145. gr. laganna, tækju til þeirra verkefna sem heimilað er að krefjast gjalds fyrir skv. 3. gr. umræddrar reglugerðar. Niðurstaða yðar var í veigamiklum atriðum á annan veg. Ráðuneytið hefur því ákveðið að breyta greininni þannig að einungis verði kveðið á um innheimtu gjalds vegna þeirra verkefna sem heimilt er að krefjast gjalds fyrir samkvæmt áliti yðar. Þá verður kveðið nánar á um það, fyrir hvaða kostnaðarliði heimilt sé að krefjast gjalds fyrir í einstökum tilvikum. Gert er ráð fyrir að tollstjórar reikni út slíkan kostnað í einstökum tilvikum. Hjálagt fylgir reglugerð um breyting á reglugerð nr. 107/1997, þar sem umræddar breytingar eru gerðar á 3. gr. reglugerðar nr. 107/1997, en reglugerð þessi hefur nú verið send til birtingar í Stjórnartíðindum.

Eftirfarandi er að finna yfirlit yfir niðurstöðu yðar varðandi lagastoð fyrir gjaldtöku skv. 3. gr. reglugerðarinnar, svo og viðbrögð ráðuneytisins [við] áliti yðar í einstökum tilvikum:

1. Bráðabirgðatollafgreiðsla, 1. tölul. 1. mgr.:

Álit umboðsmanns: Að 4. mgr. 21. gr. tollalaga feli í sér fullnægjandi lagastoð til töku þjónustugjalda vegna kostnaðar af störfum tollstarfsmanna við tollskoðun sem er nauðsynlegur liður í að bráðabirgðatollafgreiðsla geti farið fram, þ.m.t. aksturskostnaður í tengslum við tollskoðun. Hins vegar taki lagaheimildin ekki til kostnaðar af öðrum störfum tollstarfsmanna en tollskoðun í tengslum við bráðabirgðatollafgreiðslu.

Viðbrögð ráðuneytis: Gert er ráð fyrir að gjald verð innheimt vegna bráðabirgðatollafgreiðslu, þó einungis vegna launakostnaðar tollstarfsmanna vegna tollskoðunar sem er nauðsynlegur liður í að bráðabirgðatollafgreiðsla vöru geti farið fram svo og aksturskostnaður í tengslum við þá skoðun.

2. Endurútflutningur og endursending vöru, 2. tölul. 1. mgr.:

Álit umboðsmanns: Að lagaheimild skorti fyrir gjaldtöku vegna starfa tollstarfsmanna við endurútflutning vöru. Jafnframt, að því er varðar gjaldtöku vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við endursendingu vöru, að lög heimili aðeins töku þjónustugjalda vegna útgáfu vottorða um endursendinguna og því skorti lagaheimild til töku þjónustugjalda vegna starfa tollstarfsmanna í tengslum við endursendingu vöru að öðru leyti, s.s. við tollskoðun vöru.

Viðbrögð ráðuneytis: Innheimtu gjalds vegna endurútflutnings og endursendingar vöru verður hætt.

3. Veiting heimildar til tímabundins innflutnings á vörum, 3. tölul. 1. mgr.:

Álit umboðsmanns: Að lagaheimild skorti til gjaldtökunnar.

Viðbrögð ráðuneytis: Innheimtu gjalds vegna tímabundins innflutnings á vörum verður hætt.

4. Eyðilegging á vöru, 5. tölul. 1. mgr.:

Álit umboðsmanns: Að lagaheimild skorti til gjaldtökunnar.

Viðbrögð ráðuneytis: Innheimtu gjalds vegna eyðileggingar á vöru verður hætt.

5. Mat á vöru sem orðið hefur fyrir skemmdum, 6. tölul. 1. mgr.:

Álit umboðsmanns: Að 2. mgr. 145. tollalaga feli í sér fullnægjandi lagaheimild til töku þjónustugjalda vegna kostnaðar tollyfirvalda af störfum tollstarfsmanna við mat á skemmdri vöru sem fram fer að ósk innflytjanda eða viðtakanda viðkomandi vöru, þm.t. aksturskostnaðar í tengslum við matið. Á hinn bóginn taki lagaheimildin ekki til annarra starfa tollstarfsmanna en mat á skemmdri vöru í tengslum við veitingu undanþáguheimildar 9. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, svo sem beinna afgreiðslustarfa.

Viðbrögð ráðuneytis: Gert er ráð fyrir að gjald verði innheimt vegna mats á vöru sem orðið hefur fyrir skemmdum, þó einungis gjald sem svarar til launakostnaðar tollstarfsmanna fyrir þann tíma sem matið tekur svo og aksturskostnaðar í tengslum við matið.

6. Eftirlit með ótollafgreiddum vörum í geymslum sem fengið hafa sérstakt leyfi, sbr. 65. gr. tollalaga:

Álit umboðsmanns: Að innheimta þjónustugjalda vegna kostnaðar tollyfirvalda af tolleftirliti með ótollafgreiddum vörum eigi sér fullnægjandi lagastoð í 65. gr. tollalaga. Það nái þó fyrst til beinna eftirlitsstarfa, svo og aksturskostnaðar í tengslum við tolleftirlit.

Viðbrögð ráðuneytis: Gert er ráð fyrir að gjald verði innheimt vegna eftirlits með ótollafgreiddum vörum í geymslum sem fengið hafa sérstakt leyfi, sbr. 65. gr. tollalaga, þó einungis vegna launakostnaðar fyrir þann tíma sem eftirlitið tekur, svo og aksturs tollstarfsmanna í tengslum við eftirlitið.

Gert er ráð fyrir að tollstjóri ákvarði gjald vegna þjónustu í samræmi við kostnað við veitta þjónustu hverju sinni og kveðið er á um að á reikningi skuli koma fram sundurliðun á skiptingu kostnaðar. Þannig muni gjaldtaka hverju sinni svar til raunverulegs kostnaðar viðkomandi tollstjóra við þjónustuna hverju sinni.“