I.
Hinn 5. október 1999 leitaði til mín A. Beindist kvörtun hans að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 14. júlí 1999 á umsókn hans um íslenskan ríkisborgararétt.
Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 25. febrúar 2000.
II.
Samkvæmt kvörtuninni og gögnum málsins eru málavextir þeir að A kvæntist íslenskri konu 9. október 1987. Hefur hann verið skráður með lögheimili hér á landi frá þeim degi fyrir utan tímabilið 17. nóvember 1992 til 1. janúar 1997 er hann var skráður í Bandaríkjunum. Gögn málsins bera með sér að á fyrra tímabilinu sem hann átti hér lögheimili dvaldi hann með eiginkonu sinni í Þýskalandi til ársins 1989 og síðan í Bandaríkjunum þar sem hún stundaði nám. Lögheimili hans á Íslandi féll hins vegar niður 17. nóvember 1992 en þann dag var leyfi til skilnaðar hjónanna að borði og sæng gefið út af sýslumanninum í Reykjavík.
Meðal gagna málsins er bréf frá útlendingaeftirlitinu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 18. júní 1999, þar sem gerð er grein fyrir stöðu A sem flóttamanns. Þar kemur fram að þegar hann kom fyrst til Íslands hafi hann ferðast á þýsku flóttamannavegabréfi sem gefið hafði verið út samkvæmt samningi um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951. Hann hafi þá fengið almennt dvalar- og atvinnuleyfi útgefið hér á landi en 25. ágúst 1992 hafi hann fengið útgefið íslenskt ferðaskilríki fyrir flóttamenn samkvæmt 11. gr. fylgiskjals með samningi um réttarstöðu flóttamanna, sbr. 28. gr. þess samnings. Þá kemur fram í bréfinu að almennt hafi verið litið svo á að útgáfa ferðaskilríkja fyrir flóttamenn jafngildi viðurkenningu á stöðu viðkomandi sem flóttamanns og að útlendingaeftirlitið líti svo á að A hafi með útgáfu flóttamannaskilríkjanna fengið viðurkennda stöðu flóttamanns hér á landi.
Samkvæmt gögnum málsins hefur A átt lögheimili og búið á Íslandi frá 1. janúar 1997. Hann á hér tvær dætur.
III.
Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 14. júlí 1999, þar sem umsókn A var hafnað segir:
„Með vísun til bréfs yðar, dags. 1. maí sl., varðandi umsókn yðar um íslenskan ríkisborgararétt vill ráðuneytið hér með tjá yður að samkvæmt þjóðskrá voruð þér fyrst skráðir búsettir hér á landi 9. október 1987. Þér fluttuð úr landi 17. nóvember 1992 og fluttuð til landsins að nýju miðað við 1. janúar 1997.
Miðast því upphaf þess tíma sem dvöl til öflunar íslensks ríkisfangs er miðuð við frá 1. janúar 1997.
Þar sem þér eruð nú skilinn að borði og sæng við íslenskan maka yðar miðast dvalartími yðar við 5 ár sem flóttamaður, þannig að þér munuð, miðað við óbreyttar aðstæður, fullnægja skilyrðum 5. gr. a laga um íslenskan ríkisborgararétt hinn 1. janúar 2002.
Nokkru fyrir þann tíma þurfið þér að endurnýja umsókn yðar.“
Í kvörtun A vísar hann til ferðaheimildar þeirrar sem honum hafi verið veitt á grundvelli 28. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951. Telur hann það skjóta skökku við að það að hann hafi nýtt sér þá heimild komi í veg fyrir að hann uppfylli skilyrði til að öðlast ríkisfang hér á landi. Þá vísar hann til 34. gr. framangreinds alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna þar sem segir meðal annars að ríki skuli gera allt sem í þeirra valdi standi til þess að flýta fyrir veitingu ríkisborgararéttar.
IV.
Í tilefni kvörtunar A ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf 12. október 1999 og óskaði eftir því að ráðuneytið gerði mér grein fyrir viðhorfi sínu til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Með vísan til ákvæða 6. og 7. tölul. 5. gr. a. og 6. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, eins og þeim var breytt með lögum nr. 62/1998, óskaði ég sérstaklega eftir því að ráðuneytið gerði grein fyrir afstöðu sinni til skráðrar dvalar A hér á landi á tímabilinu 9. október 1987 til 17. nóvember 1992 með tilliti til reglu 6. tölul. 5. gr. laga nr. 100/1952 um að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi í fimm ár. Með vísan til 34. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna óskaði ég jafnframt upplýsinga um leiðbeiningar af hálfu ráðuneytisins í málinu um öflun ríkisborgararéttar samkvæmt 6. gr. laganna.
Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags 17. nóvember 1999, gerir ráðuneytið fyrst grein fyrir forsögu málsins og fyrri umsóknum A um íslenskan ríkisborgararétt. Um síðarnefnda atriðið segir svo:
„[...] [A] sótti um íslenskan ríkisborgararétt með umsókn dagsettri 29. apríl 1997. Umsókn hans var send allsherjarnefnd Alþingis með bréfi dags. 9. maí 1997. Með bréfi dags. 27. maí 1997 endursendi Alþingi ráðuneytinu umsókn hans ásamt umsóknum þeirra sjötíu og tveggja einstaklinga sem ekki hlutu ríkisborgararétt á 121. löggjafarþingi. Með bréfi dags 20. nóvember 1997 óskaði [A] eftir því að umsókn hans um íslenskan ríkisborgararétt frá maí 1997 verði endurupptekin. Var umsókn hans send allsherjarnefnd Alþingis með bréfi dags. 27. nóvember 1997. Með bréfi, dags. 15. apríl 1998, endursendi Alþingi ráðuneytinu umsóknir þeirra fimmtíu og sjö einstaklinga sem ekki hlutu ríkisborgararétt á 122. löggjafarþingi. Var umsókn [A] þar á meðal. Með bréfi, dags. 1. maí 1999 endurnýjaði [A] umsókn sína um íslenskan ríkisborgararétt.“
Síðan segir í bréfi ráðuneytisins:
„Hinn 1. október 1998 tóku gildi lög um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt nr. 62/1998. Samkvæmt 6. gr. þeirra laga, sem tekin er upp í lög nr. 100/1952 sem 5. gr. a laga nr. 100/1952 er dómsmálaráðherra veitt heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt þeim sem uppfyllir nánar tiltekin skilyrði.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga, A-lið, 6. tl., eru búsetuskilyrði að því [er] varðar flóttamenn sem fullnægja skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951 að flóttamaðurinn hafi átt hér á landi lögheimili sem slíkur í fimm ár.
Samkvæmt 7. tl. sömu greinar eru búsetureglurnar miðaðar við lögheimili og samfellda dvöl hér á landi. Nánari ákvæði eru um undanþágur frá þessu dvalar-tímaákvæði vegna sérstakra ástæðna, svo sem atvinnu erlendis í allt að eitt ár eða námsdvöl í allt að þrjú ár.
Umsókn [A] kom til skoðunar í ráðuneytinu eftir móttöku bréfs hans frá 1. maí 1999. Til að staðfesta flóttamannastöðu hans leitaði ráðuneytið eftir afstöðu útlendingaeftirlitsins. Með bréfi, dags. 18. júní 1999, staðfesti Útlendingaeftirlitið stöðu [A] sem flóttamanns.
Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja metur ráðuneytið stöðu umsóknar [A] um íslenskan ríkisborgararétt svo að hún falli undir ákvæðið um flóttamenn og að hann þurfi því að hafa haft hér samfellda dvöl og lögheimili í fimm ár frá 1. janúar 1997. Undanþáguákvæði greinarinnar eiga ekki við þar sem hann átti ekki lögheimili hér á landi tímabilið 17. nóvember 1992 til 1. janúar 1997 eða í rúm fjögur ár.
Með bréfi, dags. 14. júlí 1999, var [A] tjáð að hann uppfyllti ekki skilyrði til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt 5. gr. a. laga um íslenskan ríkisborgararétt fyrr en 1. janúar 2002.
Þess skal getið að reglur 5. gr. a laga varðandi búsetuskilyrði eru, að því er flóttamenn varðar, þær sömu og Alþingi hafði sem vinnureglur við veitingu ríkisborgararéttar, […].
Þegar umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt uppfylla ekki skilyrði 5. gr. a laga er þeim í flestum tilvikum tjáð að þeir geti óskað eftir að umsókn þeirra verði framsend Alþingi til meðferðar, sbr. meðfylgjandi sýnishorn af bréfi. Í ofangreindu bréfi, dags. 14. júlí 1999, var [A] ekki sérstaklega bent á að óska eftir að umsókn hans verði lögð fyrir Alþingi. Hún er hins vegar meðal þeirra umsókna sem ráðuneytið mun taka til athugunar þegar Alþingi verða sendar til athugunar þær umsóknir sem ekki uppfylla þau skilyrði sem heimila dómsmálaráðherra að veita ríkisborgararétt. […].“
V.
Eins og fram kemur í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 17. nóvember 1999, tóku hinn 1. október 1998 gildi lög nr. 62/1998, um breytingu á lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt 5. gr. a. laga nr. 100/1952, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1998, er dómsmálaráðherra nú heimilt, að fenginni umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og útlendinga-eftirlits, að veita umsækjanda íslenskan ríkisborgararétt að uppfylltum skilyrðum A- og B- liða ákvæðisins. Alþingi er hins vegar áfram heimilt að veita ríkisborgararétt með lögum, sbr. 6. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 62/1998. Í athugasemdum við 6. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 62/1998 segir að með tillögu þeirri sem gerð sé í 5. gr. sé tekinn kúfurinn af umsóknum um ríkisborgararétt. Þannig muni einungis koma til Alþingis þær umsóknir sem ekki uppfylli skilyrði þau sem talin séu í 5. gr. (Alþt. 1997-98, A-deild, bls. 2076.)
Skilyrði 5. gr. a. fyrir heimild dómsmálaráðherra til að veita íslenskan ríkisborgararétt eru annars vegar búsetuskilyrði, sbr. 1.-7. tölul. A-liðar, og hins vegar önnur skilyrði samkvæmt 1. - 3. tölul. B-liðar.
Samkvæmt 1. tölul. A-liðar er meginreglan sú að umsækjandi skuli hafa átt hér lögheimili í sjö ár. Í ákveðnum tilvikum, sem greinir í tölul. 2-7, eru heimilar undantekningar frá þeirri reglu. Þannig er t.d. umsækjanda sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara gert kleift að öðlast ríkisborgararétt hafi hann átt hér lögheimili í þrjú ár frá giftingu, sbr. 2. tölul. Sérstakt ákvæði er um flóttamenn í 6. tölul. Þar segir:
„Flóttamaður, sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951, hafi átt hér lögheimili sem slíkur í fimm ár.“
Í 7. tölul. segir að reglur um búsetuskilyrði miðist við lögheimili og samfellda dvöl hér á landi. Síðan segir:
„Heimilt er að víkja frá því skilyrði þótt dvöl umsækjanda hér hafi verið rofin allt að einu ári vegna tímabundinnar atvinnu eða af óviðráðanlegum ástæðum, svo sem vegna veikinda nákomins ættingja, en þó allt að þremur árum vegna náms erlendis. Sá tími, sem umsækjandi hefur átt hér lögheimili og dvöl, verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem hann verður samkvæmt áðurgreindum reglum að uppfylla.“
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Sá sem dvelst erlendis við nám getur þó, sbr. 9. gr. sömu laga, áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis. Þetta gildir einnig um skyldulið námsmanna sem dveljast með þeim erlendis, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um lögheimili.
Í V. kafla alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951 eru ákvæði um ráðstafanir framkvæmdavalds til aðstoðar flóttamönnum. Í 34. gr. samningsins er fjallað um veitingu ríkisborgararéttar. Þar segir:
„Aðildarríkin skulu, eftir því sem mögulegt er, greiða fyrir því, að flóttamenn geti samlagazt aðstæðunum í landinu og öðlazt þar þegnrétt. Einkum skulu þau gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að flýta fyrir veitingu ríkisborgararéttar og lækka svo sem frekast er unnt öll gjöld og kostnað, sem henni eru samfara.“
Samkvæmt 28. gr. samningsins skulu aðildarríki láta flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, í té ferðaskírteini til ferða utan landa þeirra nema ríkar ástæður vegna öryggis landsins eða allsherjarreglu séu því til fyrirstöðu og skulu ákvæði fylgiskjals samningsins gilda um slík skírteini. Í 7. gr. tilvitnaðs fylgiskjals segir að aðildarríkin skuli viðurkenna gildi skírteina sem gefin séu út í samræmi við ákvæði 28. gr. samningsins. Með útgáfu slíks skírteinis undirgangist ríki að eigandi þess megi koma inn í land þess hvenær sem er meðan það sé í gildi, sbr. 13. gr. Í 15. gr. fylgiskjalsins segir að hvorki útgáfa skírteinis né komur til landsins samkvæmt því ákveði eða hafi áhrif á stöðu eiganda þess, sér í lagi að því er varðar ríkisfang.
VI.
1.
Ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í málinu er eins og fyrr segir á því byggð að búsetuskilyrðum 5. gr. a. laga nr. 100/1952, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1998, sé ekki fullnægt. Ráðuneytið telur að upphaf fimm ára tímabils samkvæmt 6. tölul. ákvæðisins miðist við 1. janúar 1997 og vísar til þess að skráning lögheimilis A hafi fallið niður 17. nóvember 1992 og flutningur hans til landsins að nýju miðist við 1. janúar 1997.
Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 17. nóvember 1999, við bréfi mínu frá 12. október s.á. gerir ráðuneytið ekki sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni til umsóknar A með tilliti til lögheimilis hans á Íslandi í rúmlega fimm ár á tímabilinu 9. október 1987 til 17. nóvember 1992. Af svari ráðuneytisins þar sem ítrekað er að miða skuli við 1. janúar 1997 verður þó ráðið að ráðuneytið líti svo á að umrætt tímabil komi ekki til álita í málinu. Sjónarmið ráðuneytisins að baki þeirri afstöðu liggja hins vegar ekki fyrir í málinu.
Í máli þessu reynir á hvernig beri að skýra það skilyrði 6. tölul. 5. gr. a laga nr. 100/1952, sbr. lög nr. 62/1998, að flóttamaður hafi átt hér lögheimili sem slíkur í fimm ár og þá meðal annars með hliðsjón af skýringarreglum 7. tölul. greinarinnar.
Samkvæmt lögum nr. 21/1990, um lögheimili, er lögheimili manns þar sem hann hefur fasta búsetu. Námsmenn njóta hins vegar undantekningar. Þeir geta átt lögheimili á Íslandi þrátt fyrir búsetu erlendis. Hið sama gildir um maka námsmanns. Skráning A með lögheimili á Íslandi á tímabilinu 9. október 1987 til 17. nóvember 1992 þrátt fyrir samfellda dvöl hans erlendis á þeim tíma byggðist á því að hann var þá kvæntur íslenskri konu sem átti lögheimili hér á landi en hún var erlendis í námi. Skráð lögheimili hans hér á landi féll hins vegar niður við skilnað hjónanna að borði og sæng 17. nóvember 1992. Frá þeim tíma og til 1. janúar 1997 var hann skráður í Bandaríkjunum samkvæmt heimildum þjóðskrár eins og segir í vottorði Hagstofu Íslands, dags. 14. apríl 1999.
Í upphafi 7. tölul. 5. gr. a laga nr. 100/1952, sbr. lög nr. 62/1998, kemur fram að reglur 1. til 6. tölul. greinarinnar miðist „við lögheimili og samfellda dvöl hér á landi“ en efni 7. tölul. að öðru leyti er tekið upp í álitið í kafla V hér að framan. Í samræmi við ákvæði 7. tölul. verður að skýra ákvæði 1. til 6. tölul. um lögheimili svo að tilgreindur lögheimilistími sé ekki uppfylltur nema viðkomandi hafi jafnframt dvalið þann tíma á Íslandi eða undantekningarheimildir 7. tölul. frá dvalarskilyrðinu séu uppfylltar. Samkvæmt 7. tölul. 5. gr. a. er heimilt að víkja frá framangreindum skilyrðum um lögheimili og samfellda dvöl hér á landi vegna allt að þriggja ára náms erlendis. Rjúfa má því dvöl vegna náms umsækjanda eða maka hans að því tilskyldu að ekki sé um lengri tíma en þrjú ár að ræða. Samanlagður tími verður þó að vera að minnsta kosti jafnlangur þeim tíma sem reglurnar að öðru leyti krefjast. Ljóst er að dvöl A erlendis vegna náms þáverandi maka á umræddu tímabili var lengri en undantekningarheimild 7. tölul. kveður á um. Verður því að líta svo á að A hafi, þrátt fyrir skráð lögheimili, ekki áunnið sér rétt til íslensks ríkisborgararéttar. Er það því niðurstaða mín að þau fimm ár sem A átti skráð lögheimili hér á landi veiti honum ekki rétt til þess að öðlast ríkisborgararétt samkvæmt 6. tölul. 5. gr. a. laga nr. 100/1952, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1998.
Ég tel tilefni til að taka fram að reglur sem Alþingi hafði sem vinnureglur við veitingu ríkisborgararéttar fyrir gildistöku laga nr. 62/1998 og birtar voru í nefndarálitum allsherjarnefndar 2. maí 1978 (Alþt. 1978, bls. 3211-12) og 9. apríl 1990 (Alþt. 1990, bls. 3982-83) höfðu ekki að geyma sérreglu vegna flóttamanna. Útlendingar, aðrir en norðurlandabúar, þurftu að hafa átt lögheimili á Íslandi í 10 ár. Mökum íslenskra ríkisborgara nægði þó búseta hér í 3 ár eftir giftingu. Í þessu sambandi bendi ég á að allsherjarnefnd Alþingis synjaði umsókn A 2. júní 1992 með vísan til þágildandi 3. tölul. reglna um ríkisborgararétt, um þriggja ára búsetu maka íslensks ríkisborgara.
2.
Samkvæmt 34. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 ber aðilarríki að gera allt sem í þess valdi stendur til þess að flýta fyrir veitingu ríkisborgararéttar.
Meginregla 5. gr. a. laga nr. 100/1952, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1998, um íslenskan ríkisborgararétt, er sú að umsækjandi hafi átt lögheimili á Íslandi í sjö ár. Í 6. tölul. er gerð undantekning frá þeirri reglu vegna flóttamanna. Hafi þeir átt hér lögheimili sem slíkir í fimm ár má veita þeim íslenskan ríkisborgararétt. Löggjafinn hefur því gert sérstakar tilslakanir á þeim skilyrðum sem sett eru til dvalar hér á landi þegar um flóttamenn er að ræða. Að öðru leyti tek ég fram að starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Það er því almennt ekki í mínum verkahring að leggja dóm á það hvernig til hafi tekist um löggjöf.
Lagaheimild dómsmálaráðuneytisins til að veita íslenskan ríkisborgararétt er háð því að umsækjandi uppfylli tiltekin skilyrði. Ráðuneytinu hefur þannig ekki verið veitt heimild til að meta einstakar umsóknir á grundvelli upplýsinga sem fram kunna að koma í umsóknum, t.d. um fjölskyldutengsl umsækjanda á Íslandi og tengsl við landið til lengri tíma óháð búsetu, eða á grundvelli annarra sjónarmiða en lögin heimila. Alþingi sem veitti ríkisstjórninni með þingsályktun frá 9. febrúar 1955 heimild til að fullgilda fyrrnefndan alþjóðasamning um stöðu flóttamanna, sem meðal annars felur í sér skuldbindingar um viðleitni ríkis að því er snertir ríkisborgararétt flóttamanna, er hins vegar óháð þröngum skilyrðum 5. gr. a. laganna þegar það á grundvelli 6. gr. fjallar um umsóknir í einstökum málum sem ekki uppfylla umrædd skilyrði.
3.
Eins og getið er í kafla III hér að framan kemur fram í kvörtun A að hann telur að synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins verði ekki byggð á því að hann hafi farið úr landi þar sem honum hafi verið veitt leyfi til ferða utan Íslands með útgáfu sérstaks ferðaskírteinis á grundvelli 28. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna.
Ákvæða fylgiskjals með framangreindum alþjóðasamningi um slík ferðaskírteini er getið í kafla V. Með vísan til 15. gr. fylgiskjalsins þar sem segir að hvorki útgáfa slíks skírteinis né komur til landsins samkvæmt því ákveði eða hafi áhrif á stöðu eiganda þess, sér í lagi að því er varðar ríkisfang, verður ekki séð að útgáfa þess hafi áhrif á búsetuskilyrði laga um ríkisborgararétt.
4.
Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 14. júlí 1999, er A greint frá því að miðað við óbreyttar aðstæður muni hann fullnægja skilyrðum 5. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt hinn 1. janúar 2002 og honum bent á að endurnýja umsókn sína nokkru fyrir þann tíma.
Í svarbréfi ráðuneytisins frá 17. nóvember 1999 við bréfi mínu frá 12. október s.á. kemur fram að þegar umsækjendur uppfylla ekki skilyrði 5. gr. a. laga um ríkisborgararétt sé þeim í flestum tilvikum tjáð að þeir geti óskað eftir að umsókn þeirra verði framsend Alþingi til meðferðar. A hafi ekki verið sérstaklega bent á að óska eftir að umsókn hans verði lögð fyrir Alþingi. Umsókn hans sé hins vegar meðal þeirra umsókna sem ráðuneytið muni taka til athugunar þegar Alþingi verði sendar til athugunar þær umsóknir sem ekki uppfylli þau skilyrði sem heimili dómsmálaráðherra að veita ríkisborgararétt.
Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 24. janúar 2000, skýrði ráðuneytið mér frá því að umsókn A hafi verið send allsherjarnefnd Alþingis til meðferðar með bréfi, dags. 2. desember 1999.
Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Þannig ber stjórnvaldi að veita þær leiðbeiningar sem umsækjanda eru nauðsynlegar svo að hann geti gætt hagsmuna sinna á sem bestan hátt. Afgreiðsla dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli A var á því byggð að lagaskilyrði væru ekki uppfyllt. Eins og fram hefur komið hér að framan verður ríkisborgararéttur jafnframt veittur með lögum og er Alþingi unnt að fjalla um umsóknir sem ekki fullnægja þeim skilyrðum sem heimila ráðherra að veita ríkisborgararétt. Til þess að umsækjandi geti gætt hagsmuna sinna að þessu leyti er mikilvægt að honum sé leiðbeint um þann möguleika að bera umsókn sína undir Alþingi. Tel ég að ráðuneytinu hafi borið að gæta þessa í máli A eins og það mun samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins gera í flestum öðrum tilvikum. Ákveði ráðuneytið án óskar umsækjanda að senda Alþingi umsóknina tel ég jafnframt eðlilegt að ráðuneytið tilkynni umsækjanda um þá ákvörðun þar sem vitneskja um stöðu málsins getur haft áhrif á ákvarðanir hans um framhald þess.
VII.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að A hafi ekki uppfyllt búsetuskilyrði 5. gr. a. laga nr. 100/1952, sbr. 6. gr. laga nr. 62/1998, um ríkisborgararétt, sem veitir dómsmálaráðherra heimild til að veita ríkisborgararétt. Hins vegar er það skoðun mín að ráðuneytinu hafi borið að leiðbeina honum um þann möguleika að bera umsókn hans undir Alþingi á grundvelli 6. gr. fyrrgreindra laga eða að öðrum kosti tilkynna honum að umsókn yrði send Alþingi án sérstakrar óskar hans þar að lútandi.