Stjórnun fiskveiða. Dráttur á skoðun báts. Skilyrði um skráningu á skipaskrá.

(Mál nr. 704/1992)

A kvartaði yfir synjun sjávarútvegsráðuneytis á umsókn um leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990 skyldu bátar undir 6 brl. eiga kost á veiðileyfi hefði beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá borist innan mánaðar frá gildistöku laganna þann 18. maí 1990. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990 var það skilyrði síðan sett fyrir veitingu veiðileyfis að haffærisskírteini hefði verið gefið út fyrir 1. maí 1991. A hafði óskað eftir skráningu innan tilskilinna tímamarka, en haffærisskírteini fyrir bát hans, X, var fyrst gefið út þann 12. maí 1992. Niðurstaða umboðsmanns var að dráttur á útgáfu haffærisskírteinis fram yfir 1. maí 1991 hefði ekki gert að engu rétt A til veiðileyfis, enda hefði skoðun sú, sem var nauðsynlegt skilyrði skráningar, dregist vegna atvika sem vörðuðu Siglingamálastofnun ríkisins.

I. Kvörtun
Hinn 28. október 1992 bar A, fram kvörtun yfir þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins, að synja umsókn hans um leyfi fyrir bátinn X til fiskveiða í atvinnuskyni.



II. Málavextir
Með skriflegri beiðni, sem rituð var á eyðublað Siglingamálastofnunar ríkisins og dagsett 15. júní 1990, óskaði A eftir skráningu X á aðalskipaskrá. Afhenti A beiðnina á umdæmisskrifstofu Siglingamálastofnunar ríkisins á R. Smíðalýsingu fyrir bátinn afhenti A stofnuninni á sérstöku eyðublaði, dagsettu 5. júlí 1990. Í bréfi, er Siglingamálastofnun ritaði A 30. júlí 1990, er vísað til umsóknar hans frá 15. júní 1990. Í bréfinu segir:



"Með vísun til umsóknar um samþykkt á báti þínum, er ekki hægt að leggja mat á smíði hans fyrr en þykktin á trefjaplasti í bolnum hefur verið mæld af skoðunarmanni Siglingamálastofnunarinnar.
Í ljósi þess er ekki ástæða til að fara nánar í kröfur um búnað að sinni, heldur láta hann bíða þar til skoðunarmaðurinn hefur litið á bátinn.
Hvað varðar skoðun á bátnum vísast til umdæmisskrifstofu okkar á [S]."



Vegna afskipta Siglingamálastofnunar ríkisins af skoðun X sendi skoðunarmaður umdæmis IV sjávarútvegsráðuneytinu yfirlýsingu, dagsetta 30. mars 1992. Þar segir:



"Það vottast hér með að [X], eigandi [A], var ekki hægt að þykktarmæla fyrr en 13.08.1991 þar sem þykktarmælir var bilaður á þeim tíma sem ferðir voru á þetta svæði og ekki þótti fært að gera sérstaka ferð vegna mikils kostnaðar fyrir eiganda. Þá var einnig framkvæmd stærðarmæling á bátnum sem einhverra hluta vegna hefur ekki skilað sér þá. Vænti ég þess að tekið verði fullt tillit til þessa."



Með bréfi til sjávarútvegsráðuneytisins 2. apríl 1992 óskaði A eftir leyfi til línu- og handfæraveiða fyrir X. Í svarbréfi ráðuneytisins 23. júní 1992 segir meðal annars:



"Samkvæmt upplýsingum Siglingamálastofnunar ríkisins fékk [X] ekki útgefið haffærisskírteini fyrr en 12. maí 1992. Samkvæmt gildandi reglum sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni var aðeins heimilt að veita bátum undir 6 brl. veiðileyfi að þeir hefðu fengið útgefið haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991.
Með vísan til ofangreinds hafnar ráðuneytið að veita [X] veiðileyfi í atvinnuskyni."



Í bréfi, sem Siglingamálastofnun ríkisins ritaði A 20. júlí 1992, er vísað til framangreindra málsatvika. Síðan segir í bréfinu:



"Síðarihluta árs 1990 var mikill fjöldi smábáta til skoðunar og þykktarmælingar. Eini þykktarmælirinn sem Siglingamálastofnun hefur fyrir plast, bilaði og var sendur til viðgerðar erlendis um 3 mánaða skeið. Greinargerð skoðunarmanns á [S] fór þykktarmæling ekki fram fyrr en 13.08.1991.
Síðar þurfti að fara til úttektar á bát og búnaði eftir að búið var að fara yfir þykktarmælingu og fl. sem var þess valdandi að báturinn var ekki skráður né gefið haffærisskírteini fyrr en 19.03.1992.
Hér er um einstakt tilfelli að ræða, og harmar Siglingamálastofnun þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu þessa máls. Eigandi greiddi skráningargjöld og skoðun."



Með bréfi 27. júlí 1992 óskaði A eftir því, að sjávarútvegsráðuneytið tæki mál sitt til meðferðar á ný. Í bréfi A segir meðal annars:



"Eins og sjá má á meðfylgjandi gögnum, þá er það alfarið á ábyrgð Siglingamálastofnunar, að báturinn fékk ekki haffærisskírteini fyrir 1. maí '91 og að ekki var hægt að þykktarmæla hann fyrr en 13. ágúst '91."



Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins 4. september 1992 segir meðal annars:



"Svo virðist sem óeðlilegur dráttur hafi orðið á skráningu og úttekt á [X] af hálfu Siglingamálastofnunar ríkisins. Þrátt fyrir það getur ráðuneytið ekki vikið frá ótvíræðu ákvæði reglugerðar nr. 465/1990, um að aðeins megi veita bátum undir 6 brl. veiðileyfi að þeir hafi fengið útgefið haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991.
Fyrir liggur staðfest af Siglingamálastofnun ríkisins að báturinn fékk ekki útgefið haffærisskírteini fyrir 12. maí 1992 sem er rétt um það bil einu ári of seint miðað við skilyrði reglugerðar nr. 465/1990 og er því umsókn yðar um krókaleyfi í atvinnuskyni hafnað."



III. Samskipti umbosðmanns Alþingis og stjórnvalda.
Með bréfi 17. nóvember 1992 óskaði ég eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að Siglingamálastofnun ríkisins léti mér í té tiltæk gögn um málið. Sérstaklega óskaði ég upplýsinga um ástæður þess, að ekki tókst að ljúka skoðun X fyrir 1. maí 1991. Einnig óskaði ég eftir því, að upplýst yrði, hvort Siglingamálastofnun ríkisins hefði með einhverjum hætti gert sjávarútvegsráðuneytinu grein fyrir því, hvaða báta stofnunin hefði byrjað skoðun á, en ekki lokið 1. maí 1991, og hvort X hefði þá verið þar á meðal. Umbeðnar upplýsingar bárust mér með bréfi Siglingamálastofnunar 27. nóvember 1992. Þar segir:



"Með vísan til fyrirspurnar um samþykkt og skráningu á vélbátnum [X], voru afskipti starfsmanna Siglingamálastofnunarinnar af máli þessu sem hér segir:



1. [A] sækir um skráningu á bátnum 15.06.1990, en afsalið sem fylgir skráningarbeiðninni er ekki rétt útfyllt. Meðal annars vantar undirskrift [A] sem kaupanda. [A] fær sent eyðublað fyrir smíðalýsingu.
2. Smíðalýsing af bátnum undirrituð af [A] er dagsett 05.07.1990.
3. [A] er endursent afsalið 16.07.1990 og athygli hans vakin á því að ekki sé hægt að taka það gilt.
4. 30.07.1990 er [A] tilkynnt að mæla þurfi þykkt á bol bátsins, áður en hægt sé að taka afstöðu til samþykktar og honum vísað til umdæmisskrifstofu stofnunarinnar á [S] í því sambandi.
5. Skoðunarmenn Siglingamálastofnunar koma til að skoða bátinn 09.04.1991, en þá er báturinn á floti og auk þess nánast fullur af netum, þannig að engin leið var að skoða bol bátsins eða þykktarmæla. Fullgilt afsal hafði ekki enn borist Siglingamálastofnun. Í ljósi þessa var [X] ekki sett á lista yfir báta sem ekki náðist að skoða fyrir 01.05.1991.
6. Bolur bátsins er þykktarmældur 13.08.1991.
7. 16.08.1991 er [A] tilkynnt að stofnunin geti samþykkt bátinn í svokallaðan 98-flokk, það er bátar með takmarkað farsvið vegna ágalla. Einnig var ítrekuð ósk frá 16.07.1990 um afsal sem taka mætti gilt og vakin athygli á því að stærðarmælingu á bátnum vantaði.
8. Gilt afsal barst stofnuninni 10.10.1991 og var þá haft samband við skoðunarmann stofnunarinnar á [S] vegna stærðarmælingarinnar. Hann var þá búinn að mæla bátinn og senda niðurstöðuna til aðalskrifstofu í Reykjavík, en bréfið annað hvort ekki komist alla leið eða glatast eftir að barst. Skoðunarmaðurinn fann ekki heldur afrit hjá sér, þannig að mæla þurfti bátinn aftur.
9. Skoðunarmaðurinn fer síðan 03.02.1992 til að skoða bátinn og mæla. Um langan veg var að fara, 01.05.1991 löngu liðinn og því ekki talin ástæða að valda kostnaði með sérstakri ferð í bát [A].
10. Báturinn er skráður 19.03.1992 og skipaskoðunarvottorð gefið út 12.05.1992 með gildistíma til 30.09.1992. Báta í 98-flokki er aðeins heimilt að nota til sjósóknar á tímabilinu 01.04. til 30.09 að undangenginni skoðun hverju sinni.
Eins og kunnugt er var mikið álag á skoðunarmönnum Siglingamálastofnunar frá því að lögin um stjórn fiskveiða öðluðust gildi vorið 1990 og fram til 1. maí 1991, þegar allir fiskibátar áttu að vera komnir með haffærisskírteini, þó var álagið einkum mikið frá gildistöku laganna til 18. ágúst 1990.
[A] var einn af um 300 umsækjendum um samþykkt á gömlum bátum vítt og breitt um landið, sem skapaði mikla vinnu umfram venjubundin störf skoðunarmanna. Þar af leiðandi var í mörg horn að líta á þessu tímabili og ekki hægt að sinna öllum þegar þeim hentaði."




Með bréfi 1. desember 1992 gaf ég fyrirsvarsmanni A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af framangreindu bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins. Þær athugasemdir bárust mér með bréfi 9. desember 1992. Þar segir meðal annars:



"Ég undirrituð hef eftirfarandi athugasemdir að gera við þá lýsingu, sem eru settar saman í samráði við þann sem málið varðar, [A].
Við 5. tölulið:
Það er rétt að skoðunarmenn Siglingamálastofnunar komu til að skoða bátinn 09.04.'91 og báturinn var á floti, þar sem gráslepppuvertíð stóð yfir. [A] bauðst hins vegar til að kippa bátnum upp og sagði að það tæki engan tíma þar sem hann var með dráttarvél á staðnum. Skoðunarmennirnir sögðu að það væri mesti óþarfi þar sem að þeir mundu halda áfram að skoða báta og kæmu bara aftur.
Við 9. tölulið:
Þessi töluliður er réttur að því leyti að skoðunarmaðurinn kom 03.02.1992 til þess að skoða bátinn og mæla. Skýringin sem gefin er á því hvers vegna þetta var ekki gert fyrr er hins vegar óásættanleg. [A] var aldrei spurður um það hvort hann vildi leggja út í aukakostnað til þess að fá bátinn skoðaðan enda hefur hann aldrei sett fyrir sig kostnað í þessu sambandi.
Við 10. tölulið:
Það er rétt að skipaskoðunarvottorð er gefið út 12.05.1992. Það hefði hins vegar átt að vera gert eftir að skoðunarmaður skoðaði bátinn 03.02.1992, en gögn skoðunarmanns týndust. Þegar [A] fór að grennslast um málið snemma vors 1992 og spyrja símleiðis eftir því hvort skipaskoðunarvottorð hefði ekki verið gefið út fékk hann þau svör að gögnin hefðu "gleymst".
Það er fyrst eftir 12.05.1992 sem sjávarútvegsráðuneytið getur tekið málið fyrir. Þá er rétt að það komi fram, að fljótlega eftir að [A] keypti bátinn [X], sem var í nóv. '87 sótti hann um skráningu á bátnum. Hann hringdi fyrst í Siglingamálastofnun ríkisins. Þaðan var honum vísað á skráningarembættið í Reykjavík og þaðan á sýsluskrifstofuna á [...].
Þar fékk hann þau svör að það ætti ekki að skrá báta undir 6 m. og að þeir kærðu sig ekki um að skrá bátinn."



IV.
Hinn 17. nóvember 1992 óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að sjávarútvegsráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Einnig óskaði ég eftir upplýsingum um, hvort sjávarútvegsráðuneytið hefði með einhverjum hætti aflað upplýsinga hjá Siglingamálastofnun ríkisins um þá báta, sem skoðun hafði verið hafin á en ekki lokið 1. maí 1991. Í skýringum ráðuneytisins, er mér bárust með bréfi þess 20. desember 1992, segir:



"Ráðuneytið vísar til erindis umboðsmanns dags. 17. nóvember sl. varðandi kvörtun [A] vegna synjunar sjávarútvegsráðuneytisins á beiðni hans um leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir bátinn [X]. Kvörtun [A] beinist að því að ekki hafi verið tekið tillit til þess að Siglingamálastofnun ríkisins hafi ekki komið við skoðun á bátnum vorið 1991, þar sem stofnunin hafði ekki haft yfir að ráða búnaði á þeim tíma til að mæla þykkt bátsins. Þessi vöntun á búnaði stofnunarinnar hefði síðan leitt til þess að báturinn var ekki skrásettur fyrr en í mars 1992 og haffærisskírteini gefið út þann 12. maí 1992 eða rúmu ári eftir að frestur til að gera bátinn haffæran rann út, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 465/1990.
Í byrjun aprílmánaðar árið 1991 áttu fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins og Siglingamálastofnunar fund vegna framkvæmdar við útgáfu haffærisskírteina til báta minni en 6 brl. í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 465/1990. Til fundarins var boðað þar sem ljóst þótti að fjölmargir eigendur slíkra báta myndu óska eftir úttekt á bátum sínum með skömmum fyrirvara fyrir þann frest sem settur var í umræddri reglugerð, þ.e.a.s. 1. maí 1991. Á fundinum var ákveðið að þeir bátar, sem óskað hafði verið eftir úttekt á fyrir 1. maí, en stofnunin kæmist ekki yfir að taka út fyrr en á fyrstu dögum maímánaðar, skyldu eiga kost á leyfi til veiða í atvinnuskyni, enda stæðust þeir fyrstu skoðun og sú skoðun færi fram fyrstu dagana í maí. Það var jafnframt skilyrði að hálfu ráðuneytisins að Siglingamálastofnun léti því í té lista yfir alla þá báta, sem óskað hafði verið eftir úttekt á fyrir 1. maí, en úttekt ekki við komið vegna anna Siglingamálastofnunar. Ráðuneytinu barst aldrei tilkynning, hvorki frá Siglingamálastofnun ríkisins né frá eiganda bátsins, að úttekt á [X] yrði ekki við komið í tæka tíð. Það er ekki fyrr en með bréfi, dags. 2. apríl 1992, sem ráðuneytinu verður kunnugt um málið eða næstum heilu ári síðar, en báturinn hefði þurft að öðlast fullgilt haffærisskírteini til að fá útgefið leyfi til veiða í atvinnuskyni. Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að ráðuneytið gat ekki orðið við beiðni um útgáfu leyfis til veiða í atvinnuskyni til [X]."



Hinn 29. desember 1992 gaf ég umboðsmanni A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af ofangreindu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins. Þær athugasemdir bárust mér með bréfi 8. janúar 1993. Þar segir meðal annars:



"Eins og fram kom í bréfi mínu frá 9. des. 1992, sem athugasemd við bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins, þá kom skoðunarmaður Siglingamálastofnunar á bryggjuna í [T], þar sem [X] var við bryggju 9. apríl 1991 og báturinn var á floti, þar sem grásleppuvertíð stóð yfir. [A] bauðst hins vegar til að kippa bátnum upp og sagði að það tæki engan tíma þar sem hann var með dráttarvél á staðnum. Skoðunarmennirnir afþökkuðu það og sögðust bara koma aftur.
[A] treystir sér ekki til þess að fullyrða neitt um það hvort skoðunarmennirnir voru með útbúnað til þess að skoða bátinn í þessari ferð.
Það er athyglisvert að þegar þetta gerist eru aðeins 3 vikur í það að frestur rennur út til skoðunar á bátnum."



V.
Hinn 29. mars 1993 ritaði ég Siglingamálastofnun ríkisins bréf. Þar vísaði ég til bréfs Siglingamálastofnunar ríkisins frá 27. nóvember 1992, þar sem rakin væru afskipti starfsmanna stofnunarinnar af málinu. Ennfremur tók ég fram, að í yfirlýsingum skoðunarmanns í umdæmi VI frá 30. mars 1992 og í bréfi stofnunarinnar frá 20. júlí 1992 til sjávarútvegsráðuneytisins væri gerð nokkur grein fyrir ástæðum þessa dráttar, sem varð á skoðun bátsins. Með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987 taldi ég rétt, að Siglingamálastofnun ríkisins skýrði afstöðu sína til kvörtunar A yfir meðferð stofnunarinnar á málinu. Sérstaklega óskaði ég skýringa á eftirtöldum atriðum:



"1. Rúmt ár leið frá því að Siglingamálastofnun ríkisins tilkynnti [A] 30. júlí 1990, að mæla þyrfti þykkt á bol bátsins, og þar til hann var mældur 13. ágúst 1991. Óska ég nánari skýringa á því, að ekki reyndist unnt að mæla bátinn og veita honum haffærisskírteini fyrir 1. maí 1991.
2. Af gögnum málsins verður ráðið, að skoðunarmenn Siglingamálastofnunar ríkisins hafi á tímabilinu 30. júlí 1990 til 1. maí 1991 ætlað að skoða [X]. Hinn 9. apríl 1991 hafi það ekki verið fært, þar sem báturinn hafi verið floti og fullur af netum. Ég óska eftir því að fram komi, hve oft á síðastgreindu tímabili skoðunarmenn Siglingamálastofnunar ríkisins hafi skoðað báta á því svæði, sem hér um ræðir, og hvort hlutaðeigendum, þ. á m. [A], hafi áður verið tilkynnt um fyrirhugaða skoðun. Ennfremur óska ég eftir því að fram komi, hvort þeir skoðunarmenn Siglingamálastofnunar ríkisins, er hugðust skoða bát [A], hafi haft meðferðis nefndan þykktarmæli og hvað hafi þá verið því til fyrirstöðu, að báturinn yrði tekinn á land, eins og [A] kveðst hafa boðist til að gera og nánar kemur fram í athugasemdum umboðsmanns hans frá 9. desember 1992 við bréf Siglingamálastofnunar frá 27. nóvember 1992.
3. Hvort Siglingamálastofnun hafi á tímabilinu 30. júní 1990 til 1. maí 1991 átt viðræður við [A] um skoðun bátsins eða gert honum með einhverjum öðrum hætti grein fyrir því, að dráttur kynni að verða á skoðun bátsins og þá af hvaða ástæðum."



Í lok bréfs míns óskaði ég upplýsinga og gagna um það, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987, í hvaða tilvikum bátar hefðu verið settir á umræddan lista yfir þá báta, sem ekki náðist að skoða fyrir 1. maí 1991. Umbeðnar skýringar og upplýsingar bárust mér með bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins 6. apríl 1993. Þar segir:



"Hvað varðar samþykkt og skráningu á vélbátnum [X], var ekki hægt að meta bátinn til samþykktar fyrr en Siglingamálastofnuninni höfðu borist upplýsingar um smíði og búnað hans, né skrá bátinn fyrr en stærð hans hafði verið mæld og [A] staðfest með afsali að hann væri réttur eigandi að bátnum.
Þegar smíðalýsing hafði verið yfirfarin 30. júlí 1990 og ljóst var að skoða þyrfti bátinn, mæla stærð hans og þykkt á bol, mun [A] eiganda bátsins og [...] skoðunarmanni Siglingamálastofnunarinnar á [S] hafa komið saman um að [skoðunarmaðurinn] gerði sér ekki sérstaka ferð til skoðunar á bátnum og mælinga vegna kostnaðar, heldur notaði tækifærið þegar ferð gæfist annarra erinda á svæðið.
Þeir höfðu öðru hvoru samband í síma, en fáar ferðir eru almennt á umrætt svæði á þeim árstíma sem hér um ræðir og ekki ljóst hvort [skoðunarmaðurinn] gerði boð á undan sér, enda fyrirvari oft stuttur og í mörg horn að líta. Hins vegar var eini þykktarmælirinn, sem stofnunin hefur til mælinga á trefjaplasti, í viðgerð í Þýskalandi frá því í janúarlok þar til um miðjan apríl, en hann var leystur úr tolli 12. apríl 1991. [Skoðunarmaðurinn] gat að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir biluninni í mælinum, né vitað að viðgerð tæki jafn langan tíma og raun bar vitni, þannig að hann taldi sig hafa góðan tíma til stefnu þegar mælirinn bilaði.
Skoðunarmaðurinn sem skoðaði bátinn 9. apríl 1991 var ekki með þykktarmælinn, því eins og áður segir var hann ekki enn kominn til landsins þann dag. Ekki mældi skoðunarmaðurinn heldur stærð bátsins, þar sem ljóst var að fara þyrfti aðra ferð til að mæla þykkt á bol hvort sem var. Skoðunarmaður þessi var ekki frá umdæmisskrifstofu stofnunarinnar á [S], þó skoðunarmaðurinn þaðan væri með í för.
Listar þeir sem gerðir voru yfir báta sem ekki náðist að skoða fyrir 1. maí 1991 og umdæmisskrifstofu stofnunarinnar tóku saman hver fyrir sitt umdæmi, voru gerðir að ósk sjávarútvegsráðuneytisins, þegar fyrirsjáanlegt var að skoðunarmenn Siglingamálastofnunarinnar myndu engan veginn komast yfir að skoða þann fjölda báta sem óskoðaður var fyrir umræddan dag. Auk þess voru bátar jafnvel enn undir snjó á þessum tíma og engin leið að skoða þá, eins og til dæmis norðarlega í Strandasýslu og víðar. Sennilega hefur bátur [A] ekki verið settur á listann sem tekinn var saman hjá umdæmisskrifstofunni á [S], þar sem hann hafði verið skoðaður 9. apríl og því ekki talist gjaldgengur, þó sjálfsagt megi deila um það ef bilunin á þykktarmælinum er höfð í huga.
Að lokum er rétt að geta þess að ekki var talin ástæða að flýta afgreiðslu báta eftir 1. maí 1991, vegna ákvæða í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni nr. 465/1990, þar sem veiðileyfi var háð haffærisskírteini eigi síðar en þann dag."



Með bréfi 15. apríl 1993 gaf ég talsmanni A kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum í tilefni af ofangreindu bréfi. Athugasemdirnar bárust mér með bréfi 19. maí 1993. Þar segir:



"Það mikilvægasta, sem kemur fram í bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins er að þar er það staðfest að eini þykktarmælirinn, sem stofnunin hefur til mælinga á trefjaplasti var í viðgerð í Þýskalandi frá því í janúarlok þar til um miðjan apríl 1991, en hann var leystur úr tolli 12. apríl 1991.
Það er því ljóst að þegar skoðunarmenn Siglingamálastofnunar komu "til að skoða bátinn" 9. apríl 1991 voru þeir ekki með margnefndan þykktarmæli í farteskinu. Þær skýringar sem Siglingamálastofnun gefur í bréfi sínu frá 27. nóv. 1992, á því hvers vegna báturinn var ekki skoðaður í þessari ferð skoðunarmanna eru því rangar. Það var sem sagt ekki vegna þess að "báturinn var á floti og auk þess nánast fullur af netum" eins og segir í áðurnefndu bréfi, heldur vegna þess að það var enginn þykktarmælir til staðar.
Vakin er athygli á því að skoðunarmenn Siglingamálastofnunar höfðu tímann frá 12. apríl 1991 til 1. maí 1991 til þess að þykktarmæla bátinn en það var ekki gert. Þrátt fyrir það er báturinn ekki settur á lista yfir þá báta, sem óskað hafði verið eftir úttekt á fyrir 1. maí 1991 en úttekt ekki verið við komið vegna anna Siglingamálastofnunar.
Siglingamálastofnun ber því við að [X] hafi ekki verið sett á áðurnefndan lista vegna þess að "báturinn hafi verið skoðaður 9. apríl og því ekki talist gjaldgengur, þó sjálfsagt megi deila um það ef bilunin á þykktarmælinum er höfð í huga"
Fyrr í sama bréfi (frá 06.04.1993) kemur hins vegar fram að skoðunarmaður hafi í þeirri ferð "ekki heldur mælt stærð bátsins, þar sem ljóst var að fara þyrfti aðra ferð til að mæla þykkt á bol hvort sem var".
Það fór því engin skoðun fram þann 9. apríl 1991.
Að síðustu er rétt að það komi fram að [A] kannast ekki við að hafa gert neitt samkomulag við [...] skoðunarmann um það "að hann gerði sér ekki sérstaka ferð til skoðunar á bátnum og mælinga vegna kostnaðar, heldur notaði hann tækifærið þegar ferð gæfist annarra erinda á svæðið"."



VI.
Hinn 4. júní 1993 ritaði ég sjávarútvegsráðuneytinu bréf. Í bréfi mínu gerði ég ráðuneytinu grein fyrir bréfaskiptum mínum við Siglingamálastofnun ríkisins og athugasemdum umboðsmanns A í ofangreindu bréfi frá 19. maí 1993. Óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að sjávarútvegsráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar A. Sérstaklega óskaði ég eftir því, að ráðuneytið tæki afstöðu til þess, hvort upplýsingar í bréfi Siglingamálastofnunar ríkisins frá 6. apríl 1993 gæfu tilefni til að endurskoða synjun sjávarútvegsráðuneytisins um veiðileyfi fyrir bátinn X. Skýringar sjávarútvegsráðuneytisins bárust mér með bréfi þess 29. júní 1993. Þar segir:



"Ráðuneytið vísar til bréfs umboðsmanns, dags. 4. júní sl., vegna kvörtunar [A] yfir því að ráðuneytið hafi synjað beiðni hans um leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir [X].
Þann 15. júní árið 1990 óskaði [A] eftir skráningu á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins fyrir 18 ára gamlan bát, sem hann hafði fest kaup á frá Noregi. Þann 5. júlí sama ár sendi hann stofnuninni smíðalýsingu fyrir bátinn. Í lok sama mánaðar tilkynnti Siglingamálastofnun [A] að það þyrfti að þykktarmæla bátinn. Ekkert virðist gerast í málinu síðari hluta árs 1990 en í upphafi árs 1991 mun eini þykktarmælir stofnunarinnar hafa bilað og mun mælirinn hafa komið úr viðgerð um miðjan aprílmánuð sama ár.
Niðurstaðan varð sú að báturinn var ekki þykktarmældur fyrr en 13. ágúst 1991, en eiganda bátsins mun hafa verið tilkynnt þann 16. ágúst 1991 að báturinn stæðist ekki fullar kröfur en uppfyllti hins vegar kröfur sem gerðar eru til báta með takmarkað farsvið og einungis eru nýttir yfir sumarmánuðina. Af einhverjum ástæðum fór almenn úttekt á bátnum, m.a. stærðarmæling, ekki fram þegar hann var þykktarmældur þann 13. ágúst 1991, heldur dróst hún fram í marsmánuð 1992 og haffærisskírteini var ekki gefið út fyrr en um miðjan maímánuð árið 1992 eða rúmu ári eftir að frestur, sbr. reglugerð nr. 465/1990, til útgáfu haffærisskírteina til sambærilegra báta var liðinn.
Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að ráðuneytið getur ekki veitt bátunum leyfi til veiða í atvinnuskyni. Bréf Siglingamálastofnunar til umboðsmanns, dags. 6. apríl sl., gefur ekki tilefni til endurskoðunar á fyrri afstöðu ráðuneytisins."



Með bréfi 5. júlí 1993 gaf ég umboðsmanni A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af ofangreindu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins. Athugasemdirnar bárust mér með bréfi 23. júlí 1993.



VII. Niðurstaða.
Niðurstaða álits míns, dags. 5. október 1993, var svohljóðandi:



"Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða skyldi gefa bátum undir 6 brl. kost á veiðileyfi, hefði beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir sex metrum borist stofnuninni, ásamt fullnægjandi gögnum, innan mánaðar frá gildistöku laganna. Lög nr. 38/1990 öðluðust gildi við birtingu þeirra 18. maí 1990. Beiðni A um skráningu X barst Siglingamálastofnun ríkisins 15. júní 1990 eða innan nefnds tímamarks. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990 var síðan ákveðið, að framangreindir bátar yrðu að hafa haffærisskírteini "... eigi síðar en 1. maí 1991..." Í áliti mínu frá 9. október 1992 (mál nr. 505/1991) taldi ég að sjávarútvegsráðuneytinu hefði verið heimilt á grundvelli 13. gr. laga nr. 38/1990 að setja þetta skilyrði í reglugerð. Á bls. 270 í skýrslu minni til Alþingis fyrir árið 1992 er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu.
Af gögnum málsins er ljóst, að mæling á þykkt bols X fór ekki fram fyrr en 13. ágúst 1991. Þar sem Siglingamálastofnun ríkisins hafði þá ekki lokið skoðun bátsins, dróst að hann fengi haffærisskírteini þar til í maímánuði 1992. Samkvæmt þessu uppfyllti X ekki þann áskilnað 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990, að hafa fengið haffærisskírteini í síðasta lagi 1. maí 1991. Kemur þá til úrlausnar, hvort þau atvik hafi valdið drætti á skoðun bátsins og útgáfu haffærisskírteinis, að sjávarútvegsráðuneytið hafi engu að síður átt að verða við umsókn A í apríl og september 1992 um veiðileyfi.
Það er álit mitt, að dráttur á útgáfu haffærisskírteinis fram yfir 1. maí 1991, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 465/1990, hafi ekki gert að engu rétt til veiðileyfis skv. 2. málsl. 5. gr. laga nr. 38/1990, ef sá dráttur hefur stafað af því, að Siglingamálastofnun hefur ekki, vegna atvika sem sjálfa stofnunina varða, framkvæmt þá skoðun fiskiskips, sem var nauðsynlegt skilyrði útgáfu haffærisskírteinis til þess.
Eins og áður segir, óskaði A eftir skráningu X fyrir 15. júní 1990, svo sem áskilið var í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990. Ekki kemur fram af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, að nauðsynleg skoðun X af hálfu Siglingamálastofnunar hafi nokkurn tímann strandað á því, að báturinn væri ekki tiltækur. Óumdeilt virðist, að vegna skoðunar hafi verið óhjákvæmilegt að mæla þykkt bátsins. Eina tæki Siglingamálastofnunar til mælinga af þessu tagi var í viðgerð frá því í janúarlok 1991 og fram til miðs apríl sama ár. Mælingu og skoðun 9. apríl 1991, sem áætluð hafði verið, var því frestað. Í bréfi Siglingamálastofnunar til mín frá 6. apríl 1993 er því síðan lýst, að ekki hafi verið "talin ástæða til að flýta afgreiðslu báta eftir 1. maí 1991, vegna ákvæða í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni nr. 465/1990, þar sem veiðileyfi var háð haffærisskírteini eigi síðar en þann dag".
Ekki er komið fram í máli þessu, að önnur atvik en að framan greinir hafi komið í veg fyrir útgáfu haffærisskírteinis fyrir 1. maí 1991. Þá er það skoðun mín, að ekki skipti máli, hver bið varð á því, að Siglingamálastofnun ríkisins eða A sjálfur tilkynntu um drátt á skoðun X og hverjar voru ástæður til hans. A hafði með réttum hætti óskað eftir skráningu X og innan þeirra fresta, sem tilskildir voru. Það var því á færi Siglingamálastofnunar ríkisins að gera sjávarútvegsráðuneytinu grein fyrir stöðu mála varðandi afgreiðslu á beiðninni.
Samkvæmt framansögðu eru það tilmæli mín, að sjávarútvegsráðuneytið taki umsókn um veiðileyfi fyrir X til athugunar á ný, ef um það kemur ósk frá eiganda bátsins, og hagi þá afgreiðslu þeirrar umsóknar í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef gert grein fyrir í áliti þessu."



VIII. Viðbrögð stjórnvalda
Með bréfi, dags. 1. febrúar 1994, óskaði ég eftir upplýsingum frá sjávarútvegsráðherra um það, hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni. Svar sjávarútvegsráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 7. febrúar 1994. Þar kom fram að A hefði leitað til ráðuneytisins á ný 7. október 1993. Hefði ráðuneytið svarað erindi hans með bréfi, dags. 14. október 1993, og fylgdi það í ljósriti, og hljóðar svo:
"Með vísan til bréfs yðar frá 7. október 1993 og niðurstöðu umboðsmanns Alþingis frá 5. október 1993 hefur ráðuneytið falið Fiskistofu að gefa út krókaveiðileyfi fyrir m/b [X]."