Eftirlit stjórnsýsluaðila. Eftirlit viðskiptaráðuneytisins og bankaeftirlits Seðlabanka Íslands með starfsemi verðbréfamiðlunarfyrirtækis og verðbréfasjóða tengdum fyrirtækinu.

(Mál nr. 101/1989, 113/1989 og 152/1989)

Sjö einstaklingar kvörtuðu yfir því að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og viðskiptaráðuneytið hefðu ekki rækt skyldur sínar til eftirlits með starfsemi verðbréfamiðlunar A s.f. og tveggja verðbréfasjóða, sem starfræktir voru í tengslum við fyrirtækið. Umboðsmaður taldi ótvírætt, að samkvæmt lögum nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun hefði verðbréfamiðlun og verðbréfasjóðir verið háðir opinberu eftirliti bankaeftirlitsins frá gildistöku þeirra laga hinn 1. júní 1986. Bar bankaeftirlitinu því að hafa eftirlit með því, að slík starfsemi ætti sér ekki stað án tilskilinna leyfa og að verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóðir hefðu góðar reiður á fjármálum sínum, fylgdu vönduðum viðskiptaháttum og færu að öðru leyti að settum lögum, reglum og samþykktum, sem um þá giltu. Að lögum hvíldi því rík skylda á bankaeftirlitinu til sjálfstæðis og frumkvæðis í umræddu eftirlitsstarfi þess, óháð viðhorfum og viðbrögðum annarra stjórnvalda. Umboðsmaður taldi, að nauðsynlegt hefði verið og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að koma á fastari tilhögun eftirlitsins í einstökum atriðum. Umboðsmaður tók fram, að bankaeftirlitinu hefði verið vandi á höndum, þegar því var falið eftirlit með verðbréfamiðlurum og verðbréfasjóðum. Fyrirvaralítið hefðu hafist á peningamarkaði frjáls viðskipti, sem ekki var reynsla af, og skýrar og rækilegar lagareglur um eftirlitið hefði skort. Umboðsmaður taldi engu að síður, að ástæða væri til athugasemda við tilhögun eftirlitsins frá gildistöku laga nr. 27/1986 til þess tíma, er rækileg rannsókn hófst á fjárhag og viðskiptaháttum A s.f. og verðbréfasjóðanna 22. ágúst 1988. Jafnframt taldi umboðsmaður, að vegna ýmissa upplýsinga og vísbendinga, sem fyrir hefðu legið og smám saman farið fjölgandi, hefði verið brýnt tilefni til þess, að bankaeftirlitið hefði fyrr en raun bæri vitni beitt sér fyrir rækilegri úttekt á fjárreiðum og viðskiptaháttum A s.f. og verðbréfasjóðanna, en í um það bil 18 mánuði hefðu t.d. ekki verið farnar ferðir til eftirlits og könnunar í starfsstofur umræddra fyrirtækja.

I.

Kvartanir.

Á tímabilinu 21. febrúar til 19. júní 1989 bárust mér kvartanir frá sjö einstaklingum um, að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og viðskiptaráðuneytið hefðu ekki rækt skyldur sínar til eftirlits með starfsemi Ávöxtunar s.f. og tveggja sjóða, er starfræktir voru í tengslum við fyrirtækið, Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f. Þeir menn, sem báru fram kvartanirnar, höfðu allir lagt inn fé til ávöxtunar hjá Ávöxtun s.f. og verðbréfasjóðunum, og töldu sig tapa því að verulegu leyti vegna gjaldþrots Ávöxtunar s.f. og slita á þeim hlutafélögum, sem höfðu með höndum rekstur verðbréfasjóðanna. Í kvörtununum var m.a. bent á, að af hálfu umræddra fyrirtækja hefði verið lögð áhersla á, að fyrirtækin störfuðu undir eftirliti bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og hið sama hefði viðskiptaráðherra gert í ágústmánuði 1988, þegar formaður tiltekins stjórnmálaflokks hefði sagt opinberlega, að eitt verðbréfafyrirtækjanna væri að komast í þrot. Töldu þau, sem kvartanirnar báru fram, að hluta þess tjóns, sem eigendur fjármuna í vörslu umræddra verðbréfasjóða yrðu fyrir, mætti beinlínis rekja til vanrækslu á eftirlitsstarfi af hálfu viðskiptaráðuneytisins og bankaeftirlits Seðlabanka.

II.

Skýrsla bankaeftirlits Seðlabanka Íslands samin í ágústmánuði 1988.

Í áliti mínu gerði ég grein fyrir skýrslu, sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands samdi, en athugun bankaeftirlitsins á rekstri Ávöxtunar s.f. og verðbréfasjóða þess fyrirtækis hófst 22. ágúst 1988. Leiddi sú athugun til þess, að rekstur fyrirtækjanna var stöðvaður. Niðurstöður athugunarinnar voru teknar saman í skýrslu, sem bankaeftirlitið sendi frá sér í ágúst 1988 undir heitinu „Sérstök athugun á starfsemi Ávöxtunar s.f., Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f.“. Í lokaorðum fyrrgreindrar skýrslu bankaeftirlitsins segir svo:

„Með hliðsjón af framansögðu telur bankaeftirlit Seðlabanka Íslands ljóst, að rekstri framangreindra fyrirtækja verði ekki haldið áfram við óbreyttar aðstæður. Með tilliti til hagsmuna þeirra aðila sem eiga kröfur á fyrirtækin leggur bankaeftirlitið áherslu á, að rekstur fyrirtækjanna verði tafarlaust stöðvaður og gripið til viðeigandi aðgerða til að tryggja eins og unnt er hagsmuni almennings.“

Hér á eftir verður getið helstu atriða úr skýrslu bankaeftirlitsins frá því í ágúst 1988.

1. Um Ávöxtun s.f.

Í skýrslu bankaeftirlitsins segir, að við athugun á rekstri Ávöxtunar s.f. hafi ekki legið fyrir nýlegt efnahagsyfirlit, en hins vegar efnahagsreikningur félagsins fyrir árið 1987, sem hafi borist bankaeftirlitinu 8. ágúst 1988. Meðal þess, sem fram komi í efnahagsreikningi pr. 31.12.1987, sé það, að eignir félagsins í veltufjármunum hafi verið kr. 70.131.000.-, þar af peningar í sjóði og bankainnstæður kr. 5.000.-. Skuldabréfaeign og kröfur á eigendur Ávöxtunar s.f. og tengd félög hafi verið kr. 11.250.000.-, en skuldabréfaeign og kröfur á aðra kr. 58.876.000.-. Af skammtímaskuldum félagsins, sem hafi verið kr. 130.985.000.-, hafi kr. 81.509.000.- verið vegna svokallaðra ávöxtunarreikninga, en skuld við Verðbréfasjóð Ávöxtunar h.f. verið kr.16.800.000.-.

Hvað varði skuld Ávöxtunar s.f. við Verðbréfasjóð Ávöxtunar h.f. segir í skýrslunni, að skuldin hafi verið um áramót 1987/1988 kr. 16.800.000.-, en verið komin í kr. 68.689.000.- í lok júlí 1988. Annars vegar hafi verið um að ræða skuldabréf að fjárhæð kr. 7.900.000.- með ábyrgð beggja eigenda Ávöxtunar s.f., sem báðir hafi setið í stjórn Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. Hins vegar hafi verið um að ræða kr. 60.800.000.- á viðskiptareikningi án sérstakrar tryggingar, annarrar en þeirrar ábyrgðar, sem sameigendur Ávöxtunar s.f. hafi borið á skuldbindingum félagsins. Segir í skýrslu bankaeftirlitsins, að almennt megi segja, að hér sé um óeðlileg viðskipti að ræða með tilliti til þeirra verulegu tengsla, sem séu á milli þeirra aðila, sem að þeim standi, auk þess sem vafi kunni að leika á því, hvort þessar kröfur fáist greiddar, ef á reyni. Þá kemur fram í skýrslunni, að bankaeftirlitið telji viðskipti þessi brot á ákvæðum 8. gr. laga nr. 27/1986. Eigi það ekki síst við um fyrrgreint skuldabréfalán verðbréfasjóðsins til Ávöxtunar s.f., sem sé með sjálfskuldarábyrgð eigenda fyrirtækjanna.

Í skýrslunni segir, að um ármótin 1987/1988 hafi verið á ávöxtunarreikningunum kr. 81.509.000.-, en kr. 58.600.000.- hinn 26. ágúst 1988. Um þennan þátt í starfsemi félagsins segir í skýrslu bankaeftirlitsins, að ótvírætt sé, að hann feli í sér móttöku á innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar og sé brot á tilvitnuðum ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

2. Um Verðbréfasjóð Ávöxtunar h.f.

Í skýrslu bankaeftirlitsins um Verðbréfasjóð Ávöxtunar h.f. segir m.a., að af þeim upplýsingum, sem bankaeftirlitið hafi aflað sér, virðist almennt mega ráða, að oft og tíðum hafi lítið tillit verið tekið til ýmissa ákvæða í samþykktum sjóðsins í daglegum rekstri hans.

Heildareignir sjóðsins í lok júlí 1988 hafi verið kr. 411.400.000.-. Þar af séu um 308.800.000.- vegna 50 stærstu skuldaranna eða 75% af heildareign. Þar af séu 57.200.000.gjaldfallnar, en þá sé ekki litið á skuldir á viðskiptareikningum sem gjaldfallnar. Skuldir á viðskiptareikningum nemi nálægt 100.000.000.-, sem að nær öllu leyti séu vegna Ávöxtunar s.f. og tengdra aðila. Skuldir Ávöxtunar s.f. við verðbréfasjóðinn séu samtals 68.700.000. Í heildarniðurstöðum skýrslunnar um starfsemi verðbréfasjóðsins segir það sama og um starfsemi Ávöxtunar s.f., að viðskiptin verði að teljast óeðlileg með tilliti til hinna nánu tengsla þeirra aðila, sem að þeim standi. Þá verði viðskiptin heldur ekki talin í samræmi við tilgang verðbréfasjóðsins, eins og honum sé lýst í samþykktum hans.

Þá er í skýrslunni frá því skýrt, að lánsviðskipti verðbréfasjóðsins við [...], annan aðaleiganda sjóðsins, í formi víxla, sem útgefnir voru og samþykktir af [...] sjálfum og notaðir til vörukaupa einkafyrirtækis hans, telji bankaeftirlitið brot á ákvæðum 8. gr. laga nr. 27/ 1986.

Samkvæmt athugun á 3/4 af heildarkröfum verðbréfasjóðsins virðist verulega vanta á, að tryggingar séu fullnægjandi með hliðsjón af veikri fjárhagsstöðu margra skuldara. Samkvæmt því séu verulegar líkur á því, að skráð gengi ávöxtunarbréfa sjóðsins sé of hátt skráð og að innlausn bréfa á því gengi kunni að mismuna eigendum hlutdeildarbréfa sjóðsins.

Í skýrslunni segir, að þrátt fyrir ákvæði í samþykktunum um mótun fjárfestingarstefnu fyrir verðbréfasjóðinn séu engar slíkar skriflegar reglur til og eftirlit með fjárfestingum og ráðstöfun fjármuna sjóðsins hafi verið tilviljunarkenndar. Virðist því sem stjórnendur sjóðsins hafi að einhverju leyti brugðist skyldum sínum samkvæmt samþykktum sjóðsins, m.a. að því er tekur til dreifingar áhættu.

III.

Upphaf athugunar málsins.

Hinn 8. mars 1989 ritaði ég viðskiptaráðherra og bankaeftirliti Seðlabanka Íslands bréf og skýrði þeim frá því, að mér hefðu borist kvartanir af því tagi, sem að framan greinir. Jafnframt óskaði ég eftir því, að mér yrðu látin í té bréf og önnur gögn ráðuneytisins og bankaeftirlitsins um afskipti þessara stofnana af starfsemi Ávöxtunar s.f. og þeirra verðbréfasjóða, sem starfræktir voru í tengslum við fyrirtækið.

Með bréfi viðskiptaráðuneytisins, dags. 20. mars 1989, og bréfi bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, dags. 6. apríl s.á., bárust mér umbeðin gögn.

Að lokinni athugun þeirra gagna, sem ég fékk frá viðskiptaráðuneytinu og bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, ákvað ég að óska eftir því, að viðskiptaráðuneytið og stjórn Seðlabanka Íslands skýrðu viðhorf sín til umræddra kvartana, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987.

Í bréfi mínu, dags. 3. maí 1989, til viðskiptaráðuneytisins tók ég meðal annars fram, að ég óskaði eftir upplýsingum ráðuneytisins um, hvort ráðuneytið hefði fengið tilkynningar frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands eða upplýsingar samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun vegna starfsemi Ávöxtunar s.f. og verðbréfasjóða, tengdum fyrirtækinu, áður en ráðuneytinu hafði borist bréf bankaeftirlitsins, dags. 5. september 1988.

Í bréfi mínu til bankastjórnar Seðlabanka Íslands, en það var einnig dagsett 3. maí 1989, segir meðal annars:

„Jafnframt óska ég sérstaklega eftir upplýsingum bankastjórnar Seðlabanka Íslands um eftirfarandi atriði:

l. Hvort ákvæði 10. gr. laga nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands hafi í framkvæmd verið látin taka til starfsemi verðbréfamiðlara og sambærilegrar starfsemi við þá,

sem Ávöxtun s.f. hafði með höndum frá stofnun þess 22. janúar 1983 og fram að gildistöku laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun hinn 1. júní 1986. Ef svo er, óska ég eftir upplýsingum um, hvernig bankaeftirlitið hafi almennt rækt slíkt eftirlit og einnig sérstaklega gagnvart Ávöxtun s.f.

2. Í skjölum þeim, er bankaeftirlitið afhenti mér 6. apríl s.1., kemur fram, að í framhaldi af athugasemdum bankaeftirlitsins á árinu 1986 fór fram opinber rannsókn á ætluðum brotum forráðamanna Ávöxtunar s.f. á lögum nr. 86/1985 um viðskiptabanka og lögum nr. 87/1985 um sparisjóði vegna svonefndra „ávöxtunarreikninga“. Í bréfi ríkissaksóknara, dags. 11. september 1986, kemur fram, að forráðamenn Ávöxtunar s.f. „hafi ákveðið að laga starfsemi félagsins að því er varðar viðtöku á peningum til ávöxtunar, ... að þeim óskum og ábendingum sem bankaeftirlitið hafi látið frá sér fara.“ Taldi ákæruvaldið m.a. af þessum sökum ekki efni til útgáfu ákæru af þessu tilefni. Hinn 16. september 1986 var [...], einum forráðamanna Ávöxtunar s.f., veitt leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum nr. 27/1986. Af þessu tilefni óska ég eftir upplýsingum, hvað hafi verið gert af hálfu bankaeftirlits Seðlabanka Íslands til að fylgjast með því að forráðamenn Ávöxtunar s.f. stæðu við yfirlýsingu þá, sem tekin var upp í bréf ríkissaksóknara frá 11. september 1986.

3. Hvernig bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi almennt hagað eftirliti samkvæmt 15. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun, m.a. gagnvart öðrum verðbréfamiðlurum og verðbréfasjóðum en framangreindar kvartanir taka til.

4. Með bréfi, dags. 22. maí 1987, óskaði bankaeftirlit Seðlabanka Íslands eftir því að fá sendan ársreikning Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. fyrir árið 1986. Umræddur ársreikningur var ekki í þeim gögnum, sem mér bárust 6. apríl s.l., og ég óska því eftir upplýsingum um, hvort hann hafi borist bankaeftirlitinu og þá hvenær, og ef hann hefur borist, þá óska ég eftir ljósriti af honum.

5. Í gögnum þeim, er mér bárust með bréfi bankaeftirlits, dags. 6. apríl s.l., er ársreikningur Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. fyrir árið 1987 stimplaður um móttöku af hálfu bankaeftirlits hinn 31. maí 1988. Af því tilefni óska ég eftir upplýsingum um, hvort bréf [löggiltur endurskoðandi félagsins] til stjórnar Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f., dags. 20. mars 1988, hafi fylgt ársreikningnum til bankaeftirlitsins, og ef svo var ekki, þá hvenær bankaeftirlitið hafi fengið afhent afrit af bréfinu. Hver voru viðbrögð bankaeftirlits í tilefni af upplýsingum, sem fram komu í ársreikningnum m.a. um lánsviðskipti verðbréfasjóðsins við Ávöxtun s.f. og fleiri fyrirtæki í eigu aðaleigenda sjóðsins?

6. Hvenær barst bankaeftirlitinu ársreikningur Ávöxtunar s.f. fyrir árið 1987 og bréf [...], löggilts endurskoðanda, dags.1. júlí 1988?

7. Í gögnum þeim, er mér bárust frá bankaeftirlitinu 6. apríl s.l., kemur fram, að hinn 24. febrúar 1987 könnuðu starfsmenn bankaeftirlitsins starfsemi Ávöxtunar s.f. og Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. Þá kemur fram í gögnum að starfsmenn bankaeftirlitsins fóru hinn 23. ágúst 1988 til eftirlits hjá Ávöxtun s.f., Verðbréfasjóði Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóði Ávöxtunar h.f. Ég óska eftir upplýsingum um, hvort starfsmenn bankaeftirlitsins hafi farið til eftirlits hjá nefndum fyrirtækjum á tímabilinu 25. febrúar 1987 til 22. ágúst 1988.

8. Í skýrslu bankaeftirlitsins um sérstaka athugun á starfsemi Ávöxtunar s.f., Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f., og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f., dags. í ágúst 1988, kemur fram, að bankaeftirlitið telur, að tilteknir þættir í starfsemi þessara fyrirtækja séu meint brot á ákvæðum 8. gr. laga nr. 27/1986. Af þessu tilefni óska ég eftir upplýsingum um, hvenær fyrst hafi vaknað grunur hjá starfsmönnum

bankaeftirlitsins um að slík brot ættu sér stað hjá fyrirtækjunum.

9. Hvernig bankaeftirlitið hefur hagað eftirliti sínu samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 og sérstaklega hvernig hagað var eftirliti með auglýsingu Ávöxtunar s.f. og sjóða tengdum fyrirtækinu vegna ákvæða 6. gr. laga nr. 27/1986.

10. Yfirliti í tímaröð yfir aðgerðir bankaeftirlitsins, sem hafa verið liður í eftirliti þess með starfsemi Ávöxtunar s.f. og sjóða tengdum fyrirtækinu.“

IV.

Greinargerð og svör bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Greinargerð bankastjórnar Seðlabanka Íslands og svör við fyrrgreindum spurningum mínum bárust mér með bréfi, dags 17. maí 1989, og fylgiskjölum bréfsins. Bréfið og fylgiskjölin eru svohljóðandi:

„Bankastjórn Seðlabanka Íslands vísar til bréfs yðar, dags. 3. maí s.l., þar sem þér mælist til þess, með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987, að bankastjórnin skýri viðhorf sitt til nánar tilvitnaðra kvartana sem embætti yðar hafa borist, að því er varðar starfsemi bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum bankastjórnarinnar um atriði sem talin eru upp í bréfinu nr. 1-10.

Bankastjórnin telur að kvartanir þær sem vitnað er til eigi ekki við rök að styðjast. Bankaeftirlitið hafi sinnt eftirlitsskyldu sinni með Ávöxtun S/F, Verðbréfasjóði Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóði Ávöxtunar H/F, á þann hátt sem lög kveða á um.

Til frekari áréttingar þessari skoðun bankastjórnarinnar, sendist embætti yðar hjálagt sem fskj. nr. 1, „Greinargerð bankaeftirlit Seðlabanka Íslands um afskipti þess að starfsemi Ávöxtunar S/F, Verðbréfasjóði Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóði Ávöxtunar H/F“ dags. l0. maí 1989. Greinargerðina ber jafnframt að skoða sem svar við spurningu nr. 10 í bréfi yðar frá 3. maí s.l.

Svör bankastjórnarinnar við spurningum nr. 1-9 í áðurgreindu bréfi yðar fylgja hjálagt sem fskj, nr. 2.“

GREINARGERÐ BANKAEFTIRLITS SEÐLABANKA ÍSLANDS UM AFSKIPTI ÞESS AF STARFSEMI ÁVÖXTUNAR S/F, VERÐBRÉFASJÓÐS ÁVÖXTUNAR H/F OG REKSTRARSJÓÐS ÁVÖXTUNAR H/F.

„I. INNGANGUR.

Hinn 5. september 1988, sendi bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skýrslu til ríkissaksóknara um athugun þess á rekstri og starfsemi Ávöxtunar S/F, Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F. Skýrslan var jafnframt send til viðskiptaráðherra með tilvísun til ákvæða í lögum um verðbréfamiðlun, nr. 27/1986. Sama dag svipti viðskiptaráðherra [...] leyfi til verðbréfamiðlunar en á grundvelli þess leyfis var Ávöxtun S/F starfrækt svo og áðurgreindir verðbréfasjóðir, sbr. ákv. 4. gr. laga um verðbréfamiðlun.

Hinn 7. september 1988 ákváðu hluthafafundir í Verðbréfasjóði Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóði Ávöxtunar H/F að þeim yrði slitið og kosin var skilanefnd til þess að koma eigum sjóðanna í verð og úthluta fjármunum til kröfuhafa.

Hinn 14. október 1988 var bú Ávöxtunar S/F og sameigenda félagsins, þeirra [annar eigandi félagsins] og [annar eigandi félagsins], tekið til gjaldþrotameðferðar, skv. úrskurði skiptaréttar Reykjavíkur.

Slitum verðbréfasjóðanna er enn ekki lokið. Töluverðan tíma tekur að sannreyna eignir sjóðanna, koma þeim í verð eða innheimta greiðslur af verðbréfum og greiða til eigenda hlutdeildarskírteina. Auk þess hafa komið upp deilur á milli þrotabús Ávöxtunar S/F og skilanefndar sjóðanna um ráðstafanir, sem gerðar voru með ýmsar eignir fyrir gjaldþrot og ekki endanlega útkljáðar nema með málaferlum. Þau taka væntanlega talsverðan tíma. Ljóst er þó, að kröfuhafar geta ekki vænst þess að fá fjármuni sína til baka á því gengi, sem síðast var auglýst fyrir hluti í sjóðunum. Skilanefnd, sem starfar fyrir báða sjóðina, hefur upplýst bankaeftirlitið um það, að eigendur hlutdeildarskírteina geti ekki vænst þess að fá í sinn hlut nema lítinn hluta fjármuna sinna endurgreiddan á síðast auglýstu gengi hlutdeildarskírteinanna.

Skv. 15. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun var bankaeftirliti Seðlabanka Íslands falið það hlutverk að hafa eftirlit með því að ekki sé starfrækt verðbréfamiðlun eða verðbréfasjóður nema að fengnu leyfi viðskiptaráðherra og gæta þess að slík starfsemi fullnægi ætíð að öðru leyti skilyrðum laganna. Lögin tóku gildi 1. júní 1986 og giltu til 4. apríl 1989 er þau voru felld úr gildi með lögum nr. 20/1989.

Í greinargerð þessari er gerð grein fyrir afskiptum bankaeftirlitsins af málefnum Ávöxtunar S/F og verðbréfasjóðanna frá upphafi og þar til [...] var sviptur leyfi til verðbréfamiðlunar og skilanefndir voru kosnar til að annast málefni verðbréfasjóðanna. Eru afskipti bankaeftirlitsins rakin í tímaröð í kafla II. Í kafla III. eru aðgerðir bankaeftirlitsins skýrðar nánar með hliðsjón af lögum um verðbréfamiðlun nr. 27/1986, sem þó giltu ekki nema hluta af því tímabili sem afskipti bankaeftirlitsins ná yfir.

I. AFSKIPTI BANKAEFTIRLITSINS AF ÁVÖXTUN S/F Á ÁRUNUM 1983 -1988.

Ávöxtun S/F var skráð í firmaskrá Borgarfógetaembættisins í Reykjavík, þann 26. janúar1983. Upphaflegir stofnendur og eigendur fyrirtækisins voru [annar eigandi félagsins], [X] og [annar eigandi félagsins]. Í ársbyrjun 1984, gekk [X] úr fyrirtækinu og voru þeir [annar eigandi félagsins] og [annar eigandi félagsins] einir eigendur þess eftir það. Tilgangur félagsins var, samkvæmt skráningu, kaup og sala verðbréfa, fjárvarsla, almenn ávöxtunarþjónusta og ráðgjöf. Eigendur þess báru persónulega og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Prókúruhafi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins var skráður [annar eigandi félagsins].

Að gefnu tilefni m.a. vegna framkominna upplýsinga í fjölmiðlum um það með hvaða hætti þetta nýstofnaða fyrirtæki hygðist starfa á íslenskum fjármagnsmarkaði, hafði forstöðumaður bankaeftirlitsins samband við framkvæmdastjóra fyrirtækisins fljótlega eftir að það var stofnað og kynnti sér fyrirhugaða starfsemi. Gerði hann fyrirsvarsmanni þess, [annar eigandi félagsins], skýra grein fyrir því, að án lagaheimildar væri fyrirtækinu óheimilt að taka við innlánum frá almenningi til ávöxtunar.

Hinn 8. júní 1984 áttu tveir starfsmenn bankaeftirlitsins, viðtal við annan eiganda Ávöxtunar S/F [annar eigandi félagsins], framkvæmdastjóra. Viðræðurnar fór fram á skrifstofu Ávöxtunar S/F og var tilgangur þeirra sá að fá upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins og athuga jafnframt hvort starfsemi þess væri að einhverju leyti sambærileg starfsemi innlánsstofnana, sbr. 1. málsgrein 10. gr. laga nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands, eða hvort starfsemin kynni að brjóta í bága við ákvæði laga um innlánsstofnanir, sbr. einkum 1. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði.

Bankaeftirlitið tók saman greinargerð um starfsemi Ávöxtunar S/F í kjölfar áðurgreindrar athugunar og er hún dagsett 13. júní 1984. Meðal þess sem þar kemur fram, er að ýmis atriði í starfsemi fyrirtækisins gefa tilefni til athugasemda. M.a. fengust ekki allar þær upplýsingar, sem um var beðið sem stafaði af því, að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins, að bókhaldskerfi þess var ófullkomið en upplýst var jafnframt, að það væri í mótun og á starfsvettvangi löggilts endurskoðanda fyrirtækisins, [...], að koma því í tilskilið horf. Niðurstaða bankaeftirlitsins var hins vegar sú, að það taldi að meginstarfsemi Ávöxtunar S/F færi fram að verulegu leyti þannig, að einstaklingar og fyrirtæki afhentu því peninga gegn kvittun, gegn því að þeim væru tryggð fyrirfram umsamin vaxtakjör og endurgreiðslutími væri fyrirfram ákveðinn. Þessa starfsemi auglýsti fyrirtækið á opinberum vettvangi, svo sem í dagblöðum og með öðrum hætti. Væri þessi þáttur í starfsemi Ávöxtunar S/F skýlaust brot á ákvæðum laga nr. 69/1941 um sparisjóði. Skv. 1. gr. þeirra laga er sparisjóðum og öðrum stofnunum, sem heimild hafa til þess að reka sparisjóðastarfsemi skv. sérstakri lagaheimild, veittur einkaréttur á því að taka við innlánsfé og geyma það og ávaxta á sem tryggastan hátt. Auk þess benti bankaeftirlitið á 1. mgr. og upphaf 2. mgr. 10. gr. laga nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands en skv. þeirri grein hafði Seðlabankinn með höndum eftirlit með starfsemi banka, sparisjóða, innlánsdeilda samvinnufélaga, Söfnunarsjóðs Íslands og hverrar þeirrar stofnunar annarrar, sem tekur við innstæðum frá almenningi eða rekur sambærilega starfsemi að mati hans.

Í niðurlagi greinargerðar bankaeftirlitsins er tekið fram, að starfsemi Ávöxtunar S/F sé að mati bankaeftirlitsins brot á áðurgreindu ákvæði laga um sparisjóði að því er lýtur að móttöku sparifjár til ávöxtunar frá almenningi með þeim skilmálum sem að framan er lýst. Stöðva bæri framangreinda starfsemi án tafar. Yrði það ekki gert, mætti búast við að innlánsstofnunum fjölgaði ört án tilskilinna leyfa til óöryggis fyrir sparifjáreigendur og þjóðfélagið í heild.

Með bréfi, dagsettu 18. júní 1984, var greinargerð bankaeftirlitsins um athugun á starfsemi Ávöxtunar S/F frá 13. sama mánaðar, send til viðskiptaráðuneytisins og er niðurlag bréfsins eftirfarandi:

„...Samkvæmt 1. gr. laga um sparisjóði nr. 69/1941 er þeim einum eða öðrum stofnunum, sem fengið hafa til þess sérstaka lagaheimild, heimilt að taka við innlánsfé til ávöxtunar. Ávöxtun S/F hefur enga lagaheimild fengið til slíkrar starfsemi. Að mati bankaeftirlitsins ber því að stöðva þá starfsemi fyrirtækisins, sem er í andstöðu við greind lagaákvæði án tafar. Óskað er eftir umsögn ráðuneytisins um framangreinda niðurstöðu.“

Viðskiptaráðuneytið svaraði erindi bankaeftirlitsins með bréfi dagsettu 24. ágúst 1984. Niðurlag bréfs ráðuneytisins hljóðar svo:

„...Eftir athugun á greinargerð yðar um málið, er ráðuneytið þeirrar skoðunar, að niðurstaða yðar sé á rökum reist. Ráðuneytið telur því rétt, að þér hefjið þegar í stað viðræður við forsvarsmenn Ávöxtunar S/F er miði að því að fyrirtækið hagi starfsemi sinni framvegis þannig, að ekki sé brotið gegn 1. gr. laga nr. 69/1941. Beri þessar viðræður ekki árangur innan skamms, sýnist ekki annað fært en að fara með málið skv. ákvæðum 2. mgr. 29. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði.“

Áðurgreindu bréfi viðskiptaráðuneytisins fylgdu hins vegar munnleg skilaboð [...], deildarstjóra í ráðuneytinu til forstöðumanns bankaeftirlitsins þess efnis, að ráðuneytið teldi nægjanlegt, að krefjast þess að Ávöxtun S/F hætti að auglýsa opinberlega að það tæki á móti innlánum til ávöxtunar með þessum hætti. Sjónarmið talsmanns ráðuneytisins til þessa atriðis komu einnig fram í viðtali við dagblaðið NT hinn 27. ágúst 1984.

Hinn 29. ágúst 1984 var haldinn fundur á skrifstofu bankaeftirlitsins með forráðamönnum Ávöxtunar S/F, þeim [annar eigandi félagsins] og [annar eigandi félagsins] auk lögfræðings fyrirtækisins, [...], hdl. Á þeim fundi var þeim afhent bréf frá bankaeftirlitinu, dagsett þann sama dag, þar sem þess var krafist, að þeim þætti í starfsemi fyrirtækisins, sem lyti að móttöku sparifjár frá ótilteknum hópi sparifjáreigenda og væri í andstöðu við 1. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði, verði tafarlaust hætt. Þá var forráðamönnum fyrirtækisins afhent greinargerð bankaeftirlitsins frá 13. júní 1984.

Af hálfu forráðamanna Ávöxtunar S/F á fundinum var þess óskað, að þeir fengju frest til þess að kynna sér efni greinargerðar bankaeftirlitsins og kanna réttarstöðu sína með tilliti til þeirrar kröfu bankaeftirlitsins og ráðuneytisins, að starfseminni yrði breytt í löglegt horf. Með hliðsjón af aðstæðum var fallist á að veittur yrði frestur til 19. september 1984 gegn því að á þeim tíma færi ekki fram móttaka á innlánsfé. Engin fyrirheit voru gefin af hálfu forráðamanna Ávöxtunar S/F um stöðvun á móttöku innlánsfjár en tekið fram að opinberum auglýsingum um slíka starfsemi hefði þá þegar verið hætt. Þann 20. september 1984 barst bankaeftirlitinu greinargerð frá lögmanni fyrirtækisins, sem ber yfir skriftina „Yfirlit yfir nokkur atriði í réttarstöðu Ávöxtunar S/F“ og er dagsett 12. september 1984.

Með hliðsjón af afstöðu viðskiptaráðuneytisins til þessa máls og hvað það teldi nægjanlegt, skv. munnlegum skilaboðum til bankaeftirlitsins, til þess að starfsemi Ávöxtunar S/F teldist ekki vera í andstöðu við sett lög, var málið af hálfu bankaeftirlitsins lagt til hliðar með svofelldri áritun:

„Ekki verða að svo stöddu gerðar frekari athugasemdir við starfsemi Ávöxtunar S/F svo framarlega sem það fyrirtæki tekur ekki upp á því að auglýsa móttöku innlánsfjár að nýju.“

Frá því í septembermánuði 1984 og þar til í septembermánuði 1985 bera gögn bankaeftirlitsins ekki með sér, að það hafi haft afskipti af málefnum Ávöxtunar S/F. Þess ber einnig að geta að á því tímabili og reyndar allt til 1. júní 1986, er lög nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun, tóku gildi hafði bankaeftirlitið enga lögsögu yfir fyrirtækinu nema ef að vera kynni að túlkun þess á ákvæðum laga um sparisjóði frá árinu 1941 og ákvæði 10. gr. laga nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands hefði átt við eins og rakið er hér að framan. Um þá túlkun voru skiptar skoðanir meðal yfirstjórnenda peningamála.

Hinn 28. júní 1985 voru staðfestar reglur nr. 268 um Verðbréfaþing Íslands. Hinn 27. september 1985 barst bankaeftirliti Seðlabankans bréf frá stjórn Verðbréfaþings Íslands, þar sem segir m. a.:

„...Í sambandi við umsóknir neðangreindra aðila um stofnaðild að Verðbréfaþingi Íslands, óskar stjórn þingsins með tilvísun til e-liðar 2. gr. reglna um þingið nr. 268/1985 eftir því að bankaeftirlitið láti fara fram skoðun í samvinnu við endurskoðendur þeirra ef við á, á verðbréfaviðskiptum þeirra...“

Í bréfinu eru tilgreindir þeir aðilar, sem Verðbréfaþingið óskaði eftir að bankaeftirlitið athugaði og var Ávöxtun S/F meðal þeirra. Í samræmi við áðurgreindar reglur um Verðbréfaþing Íslands og með tilvísun til óska stjórnar þess, kannaði bankaeftirlitið starfsemi fyrirtækjanna. Var stjórn Verðbréfaþings Íslands gerð grein fyrir niðurstöðum bankaeftirlitsins með bréfi, dagsettu 22. október 1985. Umsögn bankaeftirlitsins tekur til allra aðilanna nema Ávöxtunar S/F en í bréfi bankaeftirlitsins til stjórnar Verðbréfaþings Íslands segir svo um það atriði:

„...Gerðar voru ítrekaðar tilraunir til þess að fá viðræður við framkvæmdastjóra Ávöxtunar S/F. Þær tilraunir báru engan árangur...“

Forstöðumaður bankaeftirlitsins tók saman minnisblað um tilraunir bankaeftirlitsins til þess að framkvæma athugun á verðbréfaviðskiptum Ávöxtunar S/F í tengslum við umsókn þess sem stofnaðila að Verðbréfaþingi Íslands. Minnisblaðið er dagsett 22. október 1985 og er eftirfarandi:

„...Með bréfi frá stjórn Verðbréfaþings Íslands, sem sem dagsett er 27. september 1985, var þess óskað, að bankaeftirlitið léti fara fram skoðun á verðbréfaviðskiptum nánar tiltekinna aðila, sem óskað höfðu stofnaðildar að Verðbréfaþingi Íslands. Meðal þeirra fyrirtækja, sem óskað var eftir að bankaeftirlitið skoðaði var Ávöxtun S/F, Laugavegi 97 í Reykjavík. Þann 15. október s.l. gerði forstöðumaður bankaeftirlitsins tilraun til þess aðná símasambandi við forstöðumann Ávöxtunar S/F, [annar eigandi félagsins]. Stúlkan sem svaraði í símann, kvað [...] vera upptekinn en var beðin að taka skilaboð til hans þess efnis, að hann væri beðinn að hafa samband við [forstöðumaður bankaeftirlitsins] í Seðlabanka Íslands sem fyrst. Þar sem [...] hafði ekki gert tilraun til að ná sambandi við mig, þá reyndi ég eftir u.þ.b. eina og hálfa klukkustund að ná sambandi við hann aftur. Stúlkan sem svaraði í símann kvaðst hafa komið skilaboðunum áleiðis til [...] en hefði verið beðin um að skila til mín, ef ég hringdi aftur, að [...] vildi ekkert við mig tala en ég væri vinsamlegast beðinn að hafa samband við lögmann fyrirtækisins, sem væri [...] og var mér gefið upp tilgreint símanúmer. Ég setti mig þegar í stað í samband við [lögmanninn] og kannaðist hann ekki við málið. Ég tjáði honum ástæðu þess að ég væri að reyna að ná sambandi við [...] og kvaðst hann vita til þess að Ávöxtun S/F hefði sótt um stofnaðild að Verðbréfaþingi Íslands. Hann kvaðst hins vegar ekki vilja hafa nein afskipti af málinu. Að fengnum þessum upplýsingum sendi ég Ávöxtun S/F símskeyti og stílaði það á [...]. Í símskeytinu er vísað til þess að stjórn Verðbréfaþings Íslands hafi óskað eftir því, að bankaeftirlitið léti fara fram skoðun á verðbréfaviðskiptum Ávöxtunar S/F í tengslum við umsókn þess sem stofnaðili að verðbréfaþinginu. Jafnframt var óskað eftir því, að bankaeftirlitið fengi að eiga fund með [annar eigandi félagsins] og endurskoðanda fyrirtækisins á starfsstöð Ávöxtunar S/F, fimmtudaginn 17. október kl.14.00. Þá var tekið fram, að ef framangreindur tími hentaði ekki, þá var [...] vinsamlegast beðinn að hafa samband við forstöðumann bankaeftirlitsins, [...], hið fyrsta.

Daginn eftir, eða miðvikudaginn 16. október, var hringt í bankaeftirlitið og stúlka í Ávöxtun S/F bar þau skilaboð til mín frá [annar eigandi félagsins], að hann væri uppbókaður þessa viku en hann myndi hafa samband við rétta aðila í næstu viku.

Að fengnum þessum skilaboðum dró ég þá ályktun, að [...] væri ekki tilbúinn til þess að eiga viðræður við bankaeftirlitið. Tók ég þá ákvörðun að hafa ekki frekari afskipti af fyrirtækinu. [...] ritara stjórnar Verðbréfaþings Íslands var greint frá þessum afskiptum í símtali. Jafnframt var [...], formanni stjórnar Verðbréfaþings Íslands greint frá þessu í símtali þriðjudaginn 22. október.“

Hinn 4. nóvember 1985 barst bankaeftirliti Seðlabanka Íslands svohljóðandi bréfi frá stjórn Verðbréfaþings Íslands:

„Vér vísum til bréfs yðar frá 22. fyrra mánaðar. Þar sem [...] framkvæmdastjóri Ávöxtunar S/F hefur tilkynnt formanni stjórnar Verðbréfaþingsins, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að bankaeftirlitið skoði mál fyrirtækisins, sbr. bréf vort frá 27. september 1985, óskum vér eftir því að slík skoðun fari fram.“

Hinn 26. nóvember 1985 var Ávöxtun S/F ritað bréf þess efnis, að með tilvísun til bréfs frá stjórn Verðbréfaþings Íslands, þá hefði bankaeftirlitið ákveðið, að athugun þess á málefnum fyrirtækisins fari fram þriðjudaginn 3. desember kl. 10.00 fyrir hádegi og jafnframt var þess óskað, að framkvæmdastjóri Ávöxtunar S/F ásamt endurskoðanda fyrirtækisins yrði þá til staðar, til þess að veita þær upplýsingar sem fulltrúar bankaeftirlitsins óskuðu eftir. Hinn 3. desember 1985 fór athugun bankaeftirlitsins fram að viðstöddum fulltrúum Ávöxtunar S/F, [...] framkvæmdastjóra, [...] löggiltum endurskoðanda og [...] tölvunarfræðingi.

Niðurstöður athugunar bankaeftirlitsins á starfsemi Ávöxtunar S/F þann 3. desember 1985, er að finna greinargerð dagsettri 13. janúar 1986. Þar er ítarlega rakinn aðdragandi athugunarinnar og jafnframt vikið að fyrri afskiptum bankaeftirlitsins af málefnum fyrirtækisins. Auk þess er gerð ítarleg grein fyrir þeim athugunum, sem gerðar voru við skoðun eftirlitsins og meginniðurstöðum. Sá kafli skýrslunnar sem fjallar um meginniðurstöður hljóðar svo:

„... Í kafla 2 hér að framan, er gerð grein fyrir meginstarfsemi Ávöxtunar S/F. Þar kemur m.a. fram, að verðbréfamiðlun hefur verið og var enn á skoðunardegi tiltölulega lítill hluti af starfsemi fyrirtækisins. Innan fyrirtækisins hafa ekki enn verið fullmótaðar reglur eða skráningarkerfi, sem að mati bankaeftirlitsins eru nauðsynlegar til þess að sá þáttur í starfseminni fullnægði þeim öryggiskröfum sem gera verður. Hins vegar kom fram, að unnið væri að úrbótum á þeim þætti og að fullur vilji væri af hálfu forráðamanna Ávöxtunar S/F að aðlaga sig að kröfum Verðbréfaþings Íslands og/eða bankaeftirlitsins í þeim efnum.

Að mati bankaeftirlitsins er meginstarfsemi Ávöxtunar S/F sem lýtur að móttöku innlánsfjár til geymslu og ávöxtunar rekin í andstöðu við gildandi ákvæði laga nr. 86/1985 um viðskiptabanka, 26. gr., og lög nr. 87/1985 um sparisjóði, 30. gr. Um frekari málsmeðferð vegna meintra brota á tilgreindum lögum, skal vísað til 52. gr. laga nr. 86/1985 og 66. gr. laga nr. 87/1985.

Þá telur bankaeftirlitið, að full ástæða sé til þess að skoða nánar framkvæmd vaxtareiknings á mótteknu fé hjá fyrirtækinu með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 58/1960 um bann við okri, dráttarvexti o.fl. Komi það í ljós, að vaxtagreiðslur séu í andstöðu við greind lagaákvæði þurfa yfirvöld að taka afstöðu til málsmeðferðar.

Með vísan til þessa, getur bankaeftirlitið ekki að svo stöddu mælt með því að Ávöxtun S/F gerist aðili að Verðbréfaþingi Íslands, sbr. reglur nr. 268/1985.“

Hinn 1. janúar 1986 tóku gildi ný lög um viðskiptabanka nr. 86/1985 og lög nr. 87/1985 um sparisjóði og er hér vísað til þeirra í stað fyrri tilvitnana í lög nr. 69/1941, sem féllu úr gildi frá sama tíma.

Hinn 29. janúar 1986 var greinargerð bankaeftirlitsins send viðskiptaráðuneytinu með ósk um umsögn og tillögur þess um frekari málsmeðferð. Svar ráðuneytisins barst Seðlabankanum með bréfi, dags. 11. febrúar 1986. Þar segir meðal annars:

„...Að lokinni athugun á greinargerðinni, er það skoðun ráðuneytisins að fjárvörslu- og ávöxtunarþjónusta Ávöxtunar S/F feli í sér móttöku innlána frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Þessi starfsemi fyrirtækisins brýtur að mati ráðuneytisins í bága við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 86/1985 um viðskiptabanka og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 87/1985 um sparisjóði, enda skortir Ávöxtun S/F lagaheimild til þess að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.

Með vísan til þessa svo og bréfs ráðuneytisins til yðar dagsett 24. ágúst 1984, þykir rétt að farið sé með mál þetta skv. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 86/1985 og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 87/1985.

Jafnframt óskar ráðuneytið eftir, að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands kanni, ef sérstök ástæða þykir til, hvort verið geti að önnur fyrirtæki brjóti í bága við ákvæði 2. mgr. 62. gr. og 2. mgr. nefndra laga. Samrit af bréfi þessu er sent bankaeftirlitinu.“

Með bréfi, dags. 21. febrúar 1986 tilkynnti Seðlabanki Íslands forráðamönnum Ávöxtunar S/F, niðurstöður bankaeftirlitsins og umsögn viðskiptaráðuneytisins. Með tilvísun til þessa var skorað á Ávöxtun S/F að láta þegar í stað af tilvitnaðri starfsemi. Jafnframt, að rétt þætti að farið yrði með mál Ávöxtunar S/F skv. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 86/1985 og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 87/1985 og væri málið því jafnhliða sent saksóknara ríkisins til fyrirsagnar eins og tekið er fram í bréfinu. Sama dag voru saksóknara ríkisins send gögn er varða málefni Ávöxtunar S/F til ákvörðunar um opinbera rannsókn og meðferð að hætti opinberra mála.

Að beiðni lögmanns Ávöxtunar S/F, [...], hdl., voru honum í aprílmánuði 1986 afhent gögn sem vörðuðu málefni Ávöxtunar S/F og afskipti bankaeftirlitsins af þeim. Í gögnum bankaeftirlitsins er ennfremur greinargerð dagsett 25. apríl 1986 frá lögmanni Ávöxtunar S/F til ríkissaksóknara varðandi málefni Ávöxtunar S/F, þar sem lögmaðurinn færir fram ýmis rök fyrir því, að afskipti bankaeftirlitsins hafi verið með öllu tilhæfulaus, málsmeðferðinni ábótavant og engin efnisrök væru fyrir kæru af hálfu Seðlabanka Íslands vegna starfsemi Ávöxtunar S/F.

Bankaeftirliti Seðlabankans barst afrit af bréfi ríkissaksóknara, dags. 6. maí 1986 til rannsóknarlögreglu ríkisins þar sem þess var óskað, að rannsókn færi fram á tilteknum þáttum í starfsemi Ávöxtunar S/F á grundvelli gagna sem embætti ríkissaksóknara hefði m.a. borist frá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Hinn 11. september 1986 ritaði ríkissaksóknari svohljóðandi bréf til rannsóknarlögreglu ríkisins og sendi jafnframt afrit af því til Seðlabanka Íslands, bankaeftirlits og viðskiptaráðuneytisins:

„Með bréfi rannsóknarlögreglu ríkisins, dagsettu 13. ágúst s.1., bárust embættinu rannsóknargögn varðandi ætluð brot forráðamanna Ávöxtunar S/F, Laugavegi 97, Reykjavík á lögum nr. 86/1985 um viðskiptabanka og lögum nr. 87/1985 um sparisjóði einkum að því er varðar þann þátt í starfsemi félagsins sem lýtur að viðtöku félagsins á peningum frá almenningi til ávöxtunar, sbr. rannsóknarfyrirmæli embættisins í bréfi dags. 6. maí s.l.

Meðal rannsóknargagna er bréf lögmanns Ávöxtunar S/F, [...], hdl., dagsett 12. ágúst s.l. þar sem hann skýrir m.a. frá þeirri ákvörðun forráðamanna félagsins að þeir hafi ákveðið að laga starfsemi félagsins við því er varðar viðtöku á peningum til Ávöxtunar „... að þeim óskum og ábendingum sem bankaeftirlitið hefur látið frá sér fara ...“ svo vitnað sé til bréfsins. Þá er í bréfinu ennfremur upplýst, að annar forsvarsmanna félagsins, [...], viðskiptafræðingur, hafi sótt um leyfi við viðskiptaráðuneytisins til að mega reka verðbréfamiðlun í nafni félagsins, sbr. lög nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og að athuguðum rannsóknargögnum, þá þykir eftir atvikum eigi efni til þess af ákæruvaldsins hálfu að láta á það reyna með útgáfu ákæru á hendur greindum forráðamönnum hvort greindur þáttur í starfsemi félagsins hafi verið ólögmætur og forráðamönnum refsiverður. Af þessum ástæðum verður því eigi af ákæruvaldsins hálfu krafist frekari aðgerða í máli þessu.“

Bankaeftirlitið var ekki sátt við niðurstöðu ríkissaksóknara og sendi bankastjórn Seðlabankans minnisblað, sem dagsett er 15. september 1986, þar sem segir meðal annars:

„... Ríkissaksóknara er fengið ákvörðunarvald um það, hvort höfða skuli opinbert mál á hendur aðila eður ei. Ákvörðunum embættisins í þeim efnum verður ekki breytt af öðrum aðilum. Svo fer einnig varðandi málefni Ávöxtunar S/F. Engu að síður er bankaeftirlitið ósammála niðurstöðu ríkissaksóknara um málsmeðferð í þessu máli og telur rökstuðning fyrir henni sérkennilegan. Niðurstaða ríkissaksóknara verður með öðrum orðum ekki skilin á aðra lund en að embættið telji Ávöxtun S/F hafa gerst brotlegt við lög um viðskiptabanka í raun en yfirlýsingar forsvarsmanna fyrirtækisins, eftir að rannsókn málsins hófst, leiðir til þess að þeir skuli ekki látnir sæta ábyrgð vegna þess lögbrots þótt fullframið brot sé. Heildarniðurstaðan eftir lestur bréfs ríkissaksóknara verður því sú, að embættið sé í raun sammálabankaeftirlitinu um að lög hafi verið brotin. Ábendingar og aðgerðir bankaeftirlitsins vegna þessa máls hafi því verið réttmætar og átt við rök að styðjast. Hins vegar virðast önnur sjónarmið sem bankaeftirlitið getur ekki látið ráða gerðum sínum hafa orðið til þess að málið er nú látið niður falla ...“

Rétt er að taka fram, að þegar þeir atburðir urðu, sem hér hefur verið greint frá, höfðu tiltölulega nýlega tekið gildi lög nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun. Þau tóku gildi hinn 1. júní 1986 en gert var ráð fyrir vissum aðlögunartíma fyrir starfandi verðbréfamiðlara til 1. ágúst það sama ár.

Með bréfi, dagsettu 3. október 1986, tilkynnir [...], hdl., fyrir hönd umbjóðanda málflutningsskrifstofu sinnar og fleiri, að [annar eigandi félagsins] hafi fengið leyfi viðskiptaráðuneytisins til reksturs verðbréfamiðlunar. Leyfi yrði nýtt í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1986 til að reka verðbréfamiðlun í nafni Ávöxtunar S/F að Laugavegi 97 í Reykjavík. Á grundvelli 5. gr. laganna hafi umbjóðandi sinn ákveðið að stofna verðbréfasjóð með svipuðu sniði og starfað hefðu hér á landi um nokkurt skeið. Verðbréfasjóður þessi yrði sérstakt hlutafélag sem gæfi út skuldabréf til sölu og andvirði seldra bréfa yrði notað til kaupa á verðbréfum og öðrum skilríkjum fyrir peningakröfum. Þannig yrði myndaður samvalssjóður og verðmæti hans réði verðmæti seldra hlutdeildarbréfa. Að öðru leyti var meginefni bréfs lögmannsins fyrirspurn til Seðlabankans um það hvort skylt væri að skrá hlutdeildarbréf í umræddum samvalssjóði á nafn eða hvort nægilegt væri að þau væru gefin út til handhafa.

Hinn 22. desember 1986 barst bankaeftirliti Seðlabankans tilkynning frá [...] hdl., fyrir hönd Ávöxtunar S/F um það, að á stofnfundi, sem haldinn hafi verið hinn 12. nóvember 1986 og framhaldsstofnfundi, sem haldinn hafi verið þann 15. desember 1986, hafi verið samþykkt að stofna hlutafélagið „Verðbréfasjóður Ávöxtunar H/F.“ Tilgangur félagsins sé í meginatriðum sá að reka verðbréfasjóð. Jafnframt var bankaeftirlitinu tilkynnt að stjórn félagsins skipuðu [...Z], [annar eigandi félagsins] og [annar eigandi félagsins]. Með framkvæmdastjórn færi Ávöxtun S/F en því fyrirtæki veittu forstöðu [annar eigandi félagsins] og [annar eigandi félagsins]. Verðbréfasjóðurinn væri rekinn á grundvelli leyfis skv. 4. gr. laga nr. 27/1986, sem veitt hafi verið [annar eigandi félagsins].

Hinn 24. febrúar 1987 fór tveir starfsmenn bankaeftirlitsins til skoðunar á starfsemi Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F sem þá var nýstofnaður. Í umsögn um þá athugun segir m.a.:

„... Starfsemi fyrirtækisins hófst ekki að ráði fyrr en í janúar 1987 og liggur því enginn ársreikningur fyrir. Fyrirtækið hefur nýlega hafið starfsemi og eru ýmis atriði á sviði bókhalds og innra eftirlits enn í mótun. T.d. er tölvukerfi (hugbúnaður) til að halda utan um viðskipti verðbréfasjóðsins í smíðum á vegum verkfræðistofu. Fyrirhugað er, að athugun á gengisútreikningi og tilvist verðbréfa fari fram mánaðarlega af hálfu löggilts endurskoðanda, í fyrsta skipti fyrri hluta mars 1987. Eignir þær sem verðbréfasjóðurinn fjárfestir í eru einkum viðskiptavíxlar, óverðtryggð og verðtryggð skuldabréf, ýmist veðtryggð eða með sjálfskuldarábyrgð, VISA og Eurocardnótur og kröfukaup. Skv. því er ávöxtunarkrafan og þar með áhættan í hærri kanti verðbréfamarkaðarins. Varðandi lán til eins aðila eða fjárhagslega tengdra aðila er hugmynd forráðamanna Verðbréfasjóðsins að setja reglu um hæst 10% af eignum til eins aðila. Nú eru útistandandi hæst 3 milljónir króna á einn samþykkjanda eða rúmlega 6% af eignum...“

Sama dag var starfsemi Ávöxtunar S/F einnig skoðuð. Í skýrslu um þá athugun segir m.a.:

„... Í árslok 1985 var bókfært eigið fé Ávöxtunar S/F 1 milljón kr. og niðurstöðutala efnahagsreiknings 45,8 millj. kr, en þar af voru 43,7 millj. kr. á svonefndum Ávöxtunarreikningi. Ársreikningur 1985 var ekki endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda. Ársreikningur fyrir 1986 liggur ekki fyrir. Innra eftirlit og

efnahagsreiknings 45,8 millj. kr. en þar af voru 43,7 millj. kr. á svonefndum Ávöxtunarreikningi. Ársreikningur 1985 var ekki endurskoðaður af löggiltum endurskoðenda. Ársreikningur 1986 liggur ekki fyrir.

Innra eftirlit og framkvæmd endurskoðunar: Ekki er tilefni til sérstakra athugasemda varðandi þennan þátt en þó má benda á, að hvorki þjófavarnarkerfi né brunaviðvörunarkerfi er fyrir hendi í húsnæði fyrirtækisins en þess ber þó jafnframt að geta að verðbréf fara jafnóðum í banka til innheimtu. Athygli vekur, að ársreikningur Ávöxtunar S/F fyrir árið 1985 var ekki endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda fyrirtækisins en væntanlega verður ársreikningur ársins 1986 endurskoðaður. Þá kom fram að bæta þarf framkvæmd á nafnskráningu verðbréfa viðskiptamanna í vörslu fyrirtækisins til samræmis við ákvæði 7. gr. laga nr. 27/ 1986. Önnur atriði: Ávöxtunarsamningar þeir sem bankaeftirlitið hefur áður gert athugasemdir við eru ekki enn útrunnir að fullu en nákvæm tala lá ekki fyrir um stöðu þeirra samninga um s.l. áramót, þar sem ársreikningur fyrir 1986 var ekki tilbúinn. Verðbréfasjóður Ávöxtunar H/F mun eiga að leysa ávöxtunarsamningana af hólmi...“

Framangreindum athugasemdum var komið á framfæri við forráðamenn fyrirtækjanna og endurskoðanda þegar athugunin fór fram.

Samkvæmt ákvæðum í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun, er bankaeftirliti Seðlabanka Íslands gert skylt að taka saman álitsgerð um efni viðskiptaauglýsinga, verðbréfamiðlara og verðbréfasjóða, sem beint er til almennings, og senda til viðskiptaráðuneytisins. Skal þetta gert árlega. Með bréfi, dagsettu 21. maí 1987, sendir bankaeftirlitið viðskiptaráðuneytinu álitsgerð um efni viðskiptaauglýsinga í samræmi við áðurgreint ákvæði. Í greinargerð bankaeftirlitsins er tekið fram eftirfarandi um Ávöxtun S/F:

„... Eins og kunnugt er, gerði bankaeftirlit Seðlabanka Íslands athugasemdir við tiltekna þætti í starfsemi Ávöxtunar S/F, sem bankaeftirlitið taldi stríða gegn lögum. Var málinu vísað til ríkissaksóknara, sem taldi ekki ástæðu til aðgerða af ákæruvaldsins hálfu, sérstaklega þar sem lýst var yfir af hálfu fyrirtækisins, að starfsemi þess yrði löguð að þeim tilmælum sem borist hefðu frá bankaeftirlitinu. Engin slík breyting var, svo kunnugt sé, gerð á starfsemi Ávöxtunar S/F á þeim tíma sem álitsgerð þessi tekur til. Hins vegar urðu breytingar um s.l. áramót er Verðbréfasjóður Ávöxtunar H/F var stofnaður.

Vegna framanritaðs þykir ekki ástæða til þess nú að gera sérstaka grein fyrir auglýsingum Ávöxtunar S/F á greindu tímabili. Þrátt fyrir það skal tekið fram, að engar sérstakar ábendingar hafa komið fram, sem gefa tilefni til að ætla að auglýsingar fyrirtækisins uppfylli ekki þær kröfur sem gera verður til þeirra.“

Rétt er að hér komi fram, að álitsgerð bankaeftirlitsins um efni viðskiptaauglýsinga verðbréfamiðlara og verðbréfasjóða, sem beint var til almennings að þessu sinni, tók einungis til þess tímabils sem lögin um verðbréfamiðlun giltu á árinu 1986, þ.e.a.s. frá 1. júní það ár.

Áður hefur komið fram, að Verðbréfasjóður Ávöxtunar H/F hóf ekki starfsemi fyrr en 1. janúar 1987 og var því ekki tilefni til þess að óska eftir sérstökum ársreikningi fyrir félagið. Hins vegar hafði bankaeftirlitið ítrekað óskað eftir því munnlega við forráðamenn Ávöxtunar S/F og löggiltan endurskoðanda að fá í hendur ársreikning Ávöxtunar S/F fyrir árið 1986. Hinn 22. maí 1987 var Ávöxtun S/F skrifað bréf, þar sem óskað var sérstaklega eftir því að bankaeftirlit Seðlabankans fái sendan ársreikning fyrirtækisins fyrir 1986. Hinn 26. maí 1987 barst bankaeftirliti Seðlabanka Íslands bréf frá Ávöxtun S/F, þar sem tekið er fram, að ársreikningur Ávöxtunar S/F sé ókominn frá endurskoðanda. Reikningurinn verði sendur bankaeftirlitinu um leið og hann berist.

Bankaeftirlitið ítrekaði óskir sínar munnlega við forráðamenn Ávöxtunar S/F sumarið 1987 um að fá í hendur ársreikning fyrir Ávöxtun S/F. Hinn 3. september 1987 barst ársreikningur Ávöxtunar S/F fyrir árið 1986. Hinn 7. september 1987 ritaði bankaeftirlit Seðlabankans svohljóðandi bréf til Ávöxtunar S/F og sendi jafnframt afrit þess til Endurskoðunarskrifstofu [...] og [löggiltur endurskoðandi félagsins] :

„... Bankaeftirliti Seðlabanka Íslands hefur borist ársreikningur Ávöxtunar S/F fyrir árið 1986. Í áritun löggiltra endurskoðenda Ávöxtunar S/F á ársreikning segir, að ekki hafi verið framkvæmd endurskoðun ársreikningsins.

Bankaeftirlitið litur svo á, að ársreikningur Ávöxtunar S/F eins og hann hefur verið lagður fram, fullnægi ekki þeim kröfum, sem gerðar eru í þessu sambandi, skv. lögum nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun. Skal einkum vísað til 3. mgr. 4. gr. laganna, sem þar er sérstaklega tekið fram að löggiltur endurskoðandi skuli annast endurskoðun hjá verðbréfamiðlun. Skv. beinni yfirlýsingu löggilts endurskoðanda fyrirtækisins hefur þessa ekki verið gætt.

Með vísan til þess er að framan greinir, svo og samanber 1. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986, óskar bankaeftirlit Seðlabanka Íslands eftir því við yður, að fram fari endurskoðun ársreiknings Ávöxtunar S/F í samræmi við lög nr. 27/1986, sem nái að lágmarki yfir það tímabil sem lögin giltu á árinu 1986 en þau tóku gildi hinn 1.6. 1986. Þess er jafnframt óskað, að þessu starfi verði hraðað og nýr og endurskoðaður ársreikningur berist bankaeftirlitinu sem fyrst...“

Með bréfi, sem dagsett er 29. október 1987 og stílað er á Ávöxtun S/F, og jafnframt var sent Endurskoðunarskrifstofu [...] og [löggiltur endurskoðandi félagsins] er efni bréfs bankaeftirlitsins frá 7. september ítrekað, þar sem enginn ársreikningur hafði þá borist bankaeftirlitinu. Ósk bankaeftirlitsins til framangreindra aðila var ítrekuð með bréfi dags. 8. desember 1987. Þar er m.a. vísað til fyrrgreindra tveggja bréfa og tekið fram, að endurskoðaður ársreikningur fyrir það ár hafi enn ekki borist bankaeftirlitinu. Ennfremur segir í bréfinu:

„Með tilvísun til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun sbr. 1. mgr. 15. gr. sömu laga, er Ávöxtun S/F veittur lokafrestur til 15. desember n.k. til þess að leggja fyrir bankaeftirlitið endurskoðaðan ársreikning fyrir árið 1986. Hafi ársreikningurinn ekki borist innan frestsins mun bankaeftirlitið í samræmi við 3. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 tilkynna það viðskiptaráðuneytinu.“

Hinn 9. desember 1987 barst bankaeftirlitinu ársreikningur Ávöxtunar S/F fyrir árið 1986 ásamt fylgibréfi frá endurskoðanda fyrirtækisins til eigenda þess þar sem gerð er grein fyrir nokkrum atriðum, sem endurskoðandinn telur að mættu betur fara í starfsemi Ávöxtunar S/F. Hins vegar er áritun endurskoðandans fyrirvaralaus og er það álit hans að ársreikningurinn sýni sanngjarna mynd af rekstri félagsins á árinu 1986 og stöðu þess í árslok 1986 miðað við venjulegar reikningsskilaaðferðir. Jafnframt er tekið fram, að reikningurinn hafi verið saminn á skrifstofu endurskoðandans eftir bókhaldi félagsins að aflokinni endurskoðun. Við endurskoðunina hafi verið framkvæmdar þær kannanir á bókhaldi og bókhaldsgögnum, sem taldir voru nauðsynlegar.

Hinn 31. janúar 1988 sendi bankaeftirlitið bréf til viðskiptaráðuneytisins ásamt skýrslu um efni viðskiptaauglýsingu verðbréfamiðlara og verðbréfasjóða, með tilvísun til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun. Viðskiptaauglýsingar sem þar um ræðir, eru fyrir árið 1987. Afrit skýrslunnar ásamt afriti af bréfi eftirlitsins til ráðuneytisins var jafnframt sent til verðlagsstjóra. Að því er varðar Ávöxtun S/F og Verðbréfasjóð Ávöxtunar H/F segir eftirfarandi í greinargerð bankaeftirlitsins:

„Ástæða þykir til að gera þær athugasemdir við auglýsingar Ávöxtunar S/F á svokölluðum ávöxtunarbréfum Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F, að a.m.k. einu sinni var auglýst að engin bindiskylda væri á bréfum þessum. Ekki er fullljóst hvað við er átt, en orðalagið virðist gefa til kynna að viðkomandi bréf séu ávallt laus til útborgunar en svo er þó ekki sbr. orðalag bréfanna sjálfra. Orðalag þetta er því a.m.k. villandi en geta ber þess, að það virðist einungis hafa verið notað einu sinni.“

Hinn 19. febrúar 1988 skrifaði bankaeftirlit Seðlabankans bréf til Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F, þar sem óskað var eftir því að forráðamenn Verðbréfasjóðsins kæmu til viðræðna við bankaeftirlitið varðandi ýmis ákvæði hlutdeildarbréfa Verðbréfasjóðsins á grundvelli eftirlitshlutverks bankaeftirlitsins skv. lögum nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun. Í framhaldi af þessu bréfi bankaeftirlitsins var fundur ákveðinn með forráðamönnum Ávöxtunar S/F, Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F hinn 7. mars 1988.

Þann 7. mars 1988 var síðan haldinn fundur á skrifstofu bankaeftirlitsins með fulltrúum Ávöxtunar S/F, þeim [...], lögmanni félaganna og sem jafnframt var stjórnarformaður Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F, sem stofnaður var í janúarmánuði 1988, [...], framkvæmdastjóra og [...Z], stjórnarformanni í Verðbréfasjóði Ávöxtunar H/F. Á fundinum gerðu fulltrúar bankaeftirlitsins athugasemdir við eftirfarandi atriði: Fulltrúum Ávöxtunar S/F var bent á að gerðar hefðu verið athugasemdir við það orðalag auglýsinga um Ávöxtunarbréf að á þeim væri engin bindiskylda og sú skoðun bankaeftirlitsins var ítrekuð að þetta orðalag væri beinlínis villandi og segði of mikið miðað við texta bréfanna sjálfra. Þá var m.a. rætt um heimild stjórnar sjóðsins, skv. ákvæðum í bréfunum til að fresta innlausn einhliða allt fram að endanlegum gjalddaga árið 2000. Bankaeftirlitið kynnti þá skoðun sína að hugsanlegt væri að ákvæði þetta yrði metið ógilt fyrir dómi ef á það reyndi. Nokkrar umræður urðu um þetta atriði en aðilar voru sammála um að ákvæðið væri óljóst. Fulltrúum Ávöxtunar S/F var bent á, að meginhluta ársins 1987 hafði verið auglýst sama ávöxtunarprósenta (14% umfram verðbólgu) á ávöxtunarbréfum. Var óskað skýringar á þessu enda hlyti ætíð að vera um sveiflur að ræða að þessu leyti. [Annar eigandi félagsins] upplýsti að sér væri ekki kunnugt um hvaðan þessi prósentutala væri fengin en engar athugasemdir um þessar auglýsingar hefðu verið gerðar gagnvart fjölmiðlum af hálfu Ávöxtunar S/F. Jafnframt upplýsti [...] að hér væri um að ræða prósentutölu sem stefnt væri að en ekki raunverulega ávöxtun. Bankaeftirlitið gerði mjög ákveðnar athugasemdir við þessa framkvæmd af hálfu Ávöxtunar S/F, ef rétt væri og krafðist þess að úr yrði bætt. Tók [...] undir að þessu atriði auglýsinganna þyrfti að breyta. Í þessu sambandi kom fram, að gengi ávöxtunarbréfa væri reiknað út vikulega en ekki daglega eins og þó væri sagt í texta bréfanna. Töldu fulltrtúar bankaeftirlitsins að samræmi yrði að vera á milli skilmála bréfanna og auglýsinga fyrirtækisins að þessu leyti.

Þá var óskað eftir skýringum á ýmsum atriðum varðandi auglýsingar um Rekstrarbréf, sem birst höfðu 24. janúar 1988. Jafnframt urðu nokkrar umræður um eðli hins nýstofnaða Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F. Var m.a. vikið að því, af hálfu fulltrúa bankaeftirlitsins, hvort nægileg kynning hefði farið fram gagnvart almenningi á því af hálfu félagsins, að hér væri farið inn á nýtt svið og mun áhættumeira en aðrir verðbréfasjóðir stunduðu. Í þessu sambandi kom fram að engar takmarkanir voru á fjárfestingum sjóðsins í einstökum fyrirtækjum.

Í framhaldi af fundinum og að gefnu tilefni, vegna auglýsingar sem birtist í einu dagblaðanna þann 13. mars 1988, ritaði bankaeftirlitið bréf til Ávöxtunar S/F, sem dagsett er þann 14. mars 1988, þar sem það ítrekaði fyrri athugasemdir sínar varðandi það atriði, að ávöxtunarbréfin væru sögð óbundin. Síðan segir í niðurlagi bréfsins:

„Er þeim tilmælum því enn beint til yðar, að auglýsingar Ávöxtunar S/F, verði lagfærðar í samræmi við áður framkomnar óskir bankaeftirlitsins.“

Hinn 17. maí 1988 skrifaði bankaeftirlit Seðlabanka Íslands Verðbréfasjóði Ávöxtunar H/F bréf, með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986, og óskaði eftir því að fá sendan endurskoðaðan ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 1987. Samhljóða bréf var sent til Ávöxtunar S/F sama dag. Hinn 1. júní 1988 barst bankaeftirlitinu ársreikningur Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F fyrir árið 1987. Að fengnum ársreikningi Verðbréfasjóðsins, óskaði bankaeftirlitið eftir viðræðum við forráðamenn Ávöxtunar S/F. Var sá fundur haldinn 12. júlí 1988 á skrifstofu bankaeftirlitsins. Þá hafði bankaeftirlitinu borist bréf frá stjórnarformanni Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F, [...Z], dags. 29. júní, þar sem hann tilkynnir afsögn sína sem formaður stjórnar sjóðsins. Í bréfinu komu ekki fram ástæður afsagnarinnar. Í símtali við forstöðumann bankaeftirlitsins vísaði stjórnarformaðurinn fyrrverandi til „samstarfsörðugleika“ í þessu sambandi. Á fyrrnefndum fundi voru viðstaddir af hálfu Ávöxtunar S/F [...] framkvæmdastjóri og [...], löggiltur endurskoðandi. Ársreikningur fyrir Verðbréfasjóð Ávöxtunar H/F fyrir árið 1987 var áritaður af hinum löggilta endurskoðanda með svofelldri áritun:

„... Ársreikning þennan fyrir Verðbréfasjóð Ávöxtunar H/F hef ég endurskoðað. Ársreikningurinn sem er 10 blaðsíður hefur að geyma skýrslu stjórnar, rekstrarreikning ársins 1987, efnahagsreikning hinn 31.12.1987 og skýringar. Við endurskoðunina voru gerðar þær kannanir á bókhaldi og bókhaldsgögnum sem þóttu nauðsynlegar. Það er álit mitt að ársreikningurinn sé gerður skv. lögum og góðri reikningsskilavenju og hann sýni rétta mynd af stöðu hans í árslok.“

Á fundinum var farið yfir ýmis atriði sem bankaeftirlitinu þótti ástæða til að fá nánari skýringar á úr ársreikningi Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F. Af hálfu forráðamanna

fyrirtækisins kom ekkert það fram, sem dró úr áreiðanleika ársreikningsins. Af þeirra hálfu var m.a. tekið fram, að eignatalning á vegum endurskoðandans hafi farið fram um s.l. áramót og að þá hafi verið stuðst við ákveðnar og fastar starfsreglur um mat á verðmæti eigna verðbréfasjóðsins í samræmi við 15. gr. samþykkta hans, sem þó væru ekki til skriflegar. Var forráðamönnum Ávöxtunar bent á, að nauðsynlegt væri að þessar reglur væru skriflegar. Á fundinum kom m.a. fram að uppgjör á ársreikningi Ávöxtunar S/F fyrir árið 1987 væri á lokastigi og yrði fljótlega sent bankaeftirlitinu.

Að loknum þessum fundi vöknuðu vissar grunsemdir um það að ýmsir þættir í starfsemi Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og viðskipti á milli skyldra aðila innan þessara fyrirtækja og fyrirtækja í eigu [...], [...] og Ávöxtunar S/F væru með þeim hætti að ekki gæti talist eðlilegt. Hins vegar voru þær skýringar sem fram komu af hálfu forráðamanna fyrirtækisins á fundinum ekki þess eðlis, að það gæfi tilefni til þess að grípa til sérstakra aðgerða þá þegar en lögð áhersla á, að ársreikningur fyrir Ávöxtun S/F bærist bankaeftirlitinu um leið og hann lægi fyrir. Enda hafði bankaeftirlitið þegar hinn 14. júní ítrekað með bréfi óskir um að fá endurskoðaðan ársreikning fyrir árið 1987. Hinn 8. ágúst 1988 barst bankaeftirlitinu ársreikningur fyrir Ávöxtun S/F fyrir árið 1987. Í áritun löggilts endurskoðanda í kemur fram m.a.:

„... Í bréfi okkar til eigenda félagsins í dag lýsum við framkvæmd endurskoðunarinnar og því sem betur mætti fara. Þrátt fyrir þessa galla er það álit okkar að ársreikningurinn sýni þá mynd af rekstri félagsins á árinu 1987 og stöðu þess í árslok 1987 miðað við venjulegar reikningsskilaaðferðir og meta megi stöðu þess í árslok...“

Við frekari skoðun á ársreikningi Ávöxtunar S/F og með hliðsjón af þeirri staðreynd að eigið fé Ávöxtunar S/F var neikvætt um rúmlega 4 milljónir króna skv. ársreikningi í árslok 1987, tók bankaeftirlitið ákvörðun um það að skoðun af hálfu þess á starfsemi fyrirtækjanna mætti ekki dragast.

Vegna fjarveru leyfishafa, [...], um miðjan ágúst mánuð, ákváðu starfsmenn bankaeftirlitsins í samræmi við starfsaðferðir þess að hefja ekki skoðunina að leyfishafa fjarstöddum. Af þessum sökum reyndist ekki unnt að hefja skoðunina fyrr en hinn 22. ágúst. Athugun bankaeftirlitsins fór fram að meginhluta til á starfsstöð Ávöxtunar S/F og þeirra verðbréfasjóða sem reknir voru á vegum þess fyrirtækis að Laugavegi 97 í Reykjavík. Bankaeftirlitið kannaði nauðsynleg gögn og átti viðræður við forráðamenn fyrirtækjanna, löggiltan endurskoðanda og lögfræðing þeirra. Hinn 23. ágúst áttu fulltrúar bankaeftirlitsins fund með löggiltum endurskoðanda Ávöxtunar S/F og sjóðanna, [...]. Á þeim fundi var bankaeftirlitinu afhent bréf endurskoðandans til stjórnar Ávöxtunar S/F og Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F, sem fylgdu ársreikningi þeirra fyrir árið 1988. Bréfið til stjórnar Ávöxtunar S/F er dagsett 1. júlí 1988. Hinn 5. september 1988 hafði bankaeftirlitið lokið við að taka saman meginniðurstöður sínar varðandi áðurgreinda athugun á starfsemi Ávöxtunar S/F, Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F og gert um það ítarlega skýrslu. Þann sama dag sendi bankaeftirlitið viðskiptaráðherra eintak skýrslunnar með vísan til 5. mgr. 17. gr. laga nr. 36/1986, sbr. 5. mgr. 33. gr. reglugerðar nr. 470/1986 svo og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 sbr. 2. mgr. 36. gr. reglugerðar nr. 470/1986.“

Þennan sama dag, 5. september 1988, sendi bankaeftirlitið ríkissaksóknara skýrslu um athugun þess á rekstri og starfsemi greindra fyrirtækja. Í fylgibréfi með skýrslunni segir:

„... Bankaeftirlitið telur að tilteknir þættir í starfsemi ofangreindra fyrirtækja feli í sér meint brot gegn ákvæðum laga nr. 85/1986 um viðskiptabanka, laga nr. 87/1985 um sparisjóði og laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun auk þess sem um kann að vera að ræða meint brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af framansögðu og með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga nr. 86/1985 1. mgr. 66. gr. laga nr. 87/1985 og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 27/1986 sendist yður skýrsla um niðurstöður athugana bankaeftirlitsins til nánari ákvörðunar á málsmeðferð. Jafnframt lýsir bankaeftirlit Seðlabanka Íslands sig reiðubúið til nánari upplýsingagjafar óski embætti ríkissaksóknara eftir því...“

Sama dag sendi Seðlabanki Íslands frá sér fréttatilkynningu nr. 17/1988 sem hljóðar

svo:

„... Bankaeftirlit Seðlabanka Ísland hefur að undanförnu unnið að víðtækri athugun á rekstri og starfsemi Ávöxtunar S/F Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/ F. Niðurstöður þeirrar athugunar liggja nú fyrir og hafa þær verið sendar viðskiptaráðherra í samræmi við ákvæði gildandi laga um verðbréfamiðlun. Eigendur Ávöxtunar S/F, stjórn Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og stjórn Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F hafa sent bankaeftirlitinu bréf dags. 4. september 1988 þar sem þess er farið á leit við bankaeftirlitið að það hlutist til um að finna nýjan rekstraraðila fyrir verðbréfasjóði í vörslu Ávöxtunar S/ F. Beiðnin er sett fram vegna óvenjumargra innlausnarbeiðna í sjóðina að undanförnu.

Bankaeftirlitið hefur fallist á að taka við vörslu fjármuna fyrirtækjanna til að unnt reynist að vinna að uppgjöri þeirra. Í þessu felst hins vegar engin ákvörðun Seðlabankans um áframhaldandi rekstur fyrirtækjanna. Hefur bankaeftirlitið ráðið [...], hrl. til þess að vinna að málinu. Forsvarsmenn Ávöxtunar S/F hafa lýst því yfir við bankaeftirlitið að þeir muni afsala sér öllum afskiptarétti af fyrrgreindum sjóðum og starfsemi Ávöxtunar S/F. Ákveðið hefur verið að fyrst um sinn fari engin starfsemi fram á vegum þessara fyrirtækja. Mun verða unnið að frekari athugun á málefnum fyrirtækjanna og í framhaldi af þeim niðurstöðum verður tekin ákvörðun um endurgreiðslu þeirra skuldbindinga sem á þeim hvíla á grundvelli hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðanna. Tekið skal fram, að á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir, telur bankaeftirlitið ekki ástæðu til að ætla annað en að fjárhags- og rekstrarstaða annara verðbréfasjóða sé með þeim hætti, að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptamönnum sínum með eðlilegum hætti...“

Hinn 7. september 1988 ritaði bankaeftirlit Seðlabanka Íslands stjórn Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F og stjórn Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F svofellt bréf samhljóða:

„... Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft til athugunar bréf [annar eigandi félagsins] og [annar eigandi félagsins], dagsett 4. september s.l., þar sem þess er farið á leit við bankaeftirlitið að það hlutist til um að finna nýja rekstraraðila fyrir verðbréfasjóði þá sem Ávöxtun S/F hefur annast rekstur á. Jafnframt hefur bankaeftirlitið haft til athugunar erindi stjórnar Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F sama efnis. Að lokinni ítarlegri athugun á ofangreindri beiðni, telur bankaeftirlitið hagsmuni innstæðueigenda í sjóðnum best borgið með því að hluthafafundur í Verðbréfasjóði Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóði Ávöxtunar H/F taki ákvörðun um slit félaganna skv. ákvæðum hlutafélagalaga með það fyrir augum að skilanefnd sjái um að koma eignum sjóðanna í verð og úthluta fjármunum til innstæðueigenda. Með hliðsjón af framansögðu leggur bankaeftirlit Seðlabanka Íslands til, að hluthafafundir taki ákvörðun um félagsslit og kjósi eftirtalda aðila í skilanefnd er annist uppgjör beggja sjóðanna: [...], hrl., [...], hrl., og [...], löggiltur endurskoðandi...“

Þennan sama dag sendir Seðlabanki Íslands frá sér fréttatilkynningu nr. 18/1988 sem er svohljóðandi:

„Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur haft til athugunar beiðni eigenda Ávöxtunar S/F og stjórnar Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F um að bankaeftirlitið hlutaðist til um að finna nýja rekstraraðila fyrir verðbréfasjóði í vörslu Ávöxtunar S/F. Að lokinni ítarlegri athugun taldi bankaeftirlitið hagsmuni eigenda fjármuna í sjóðnum best borgið með því að hluthafafundir Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F taki ákvörðun um slit félaganna, skv. ákvæðum hlutafélagalaga. Á grundvelli þessarar niðurstöðu bankaeftirlitsins ákvað hluthafafundur beggja sjóðanna að slíta félögunum og kusu skilanefnd til að koma eignum sjóðanna í verð og úthluta fjármunum til kröfuhafa. Voru eftirtaldir aðilar kosnir í skilanefnd: [...], hrl., [...], hrl., [...], löggiltur endurskoðandi. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 116. gr. hlutafélagalaga hefur viðskiptaráðherra löggilt ofangreinda skilanefndarmenn til starfans og hefur skilanefndin tekið við hlutverki stjórnar Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F og mun annast málefni þeirra frá deginum í dag að telja.“

[Annar eigandi félagsins] var sviptur leyfi til verðbréfamiðlunar af viðskiptaráðherra hinn 5. september 1988.

Með kosningu skilanefndar fyrir verðbréfasjóðina og löggildingu þeirra lauk formlegum afskiptum bankaeftirlitsins af málefnum sjóðanna.

Bú Ávöxtunar S/F og eigenda þess [...] og [...] persónulega voru tekin til gjaldþrotaskipta með úrskurði skiptaréttar Reykjavíkur hinn 14. október 1988.

III.AÐGERÐIR BANKAEFTIRLITSINS GAGNVART ÁVÖXTUN S/F, VERÐBRÉFASJÓÐI ÁVÖXTUNAR H/F OG REKSTRARSJÓÐI ÁVÖXTUNAR H/F MEÐ HLIÐSJÓN AF LÖGUM NR. 27/1986 UM VERÐBRÉFAMIÐLUN.

Lög um verðbréfamiðlun voru samþykkt á Alþingi hinn 18. apríl 1986 og eru nr. 27/1986. Þau tóku gildi hinn 1. júní 1986 en starfandi verðbréfamiðlurum var þó heimilt að halda áfram starfi sínu án leyfis viðskiptaráðherra til 1. ágúst 1986.

Við gildistöku laganna voru málefni Ávöxtunar S/F til meðferðar hjá embætti ríkissaksóknara. Hinn 1. ágúst 1986 rann út heimild starfandi verðbréfamiðlara til þess að halda áfram starfi sínu án leyfis viðskiptaráðherra þ.á m. Ávöxtunar S/F. Bankaeftirlitinu var kunnugt um að annar af eigendum Ávöxtunar S/F hafði sótt um leyfi til verðbréfamiðlunar til ráðuneytisins og að ráðuneytið fylgdist með rannsókn málsins og afgreiðslu ákæruvaldsins á því.

Hinn 11. september 1986 lá niðurstaða ákæruvaldsins fyrir og þann 16. september gaf viðskiptaráðherra út leyfi til [...], viðskiptafræðings við verðbréfamiðlunar, skv. 4. gr. laganna.

Í kafla II. hér að framan er greint frá viðbrögðum bankaeftirlitsins við niðurstöðum ríkissaksóknara og m.a. vitnað til minnisblaðs bankaeftirlitsins til bankastjórnar Seðlabankans af því tilefni. Bankaeftirlitið taldi þá og telur enn að svo virðist sem önnur sjónarmið en fagleg hafi orðið til þess að málið var látið niður falla. Bankaeftirlitið hefur ætíð talið þessa niðurstöðu ákæruvaldsins orka verulega tvímælis.

Þar sem leyfi var fengið og öðrum formskilyrðum fullnægt að mati viðskiptaráðuneytisins, taldi bankaeftirlitið engin sérstök rök fyrir því að kanna starfsemi fyrirtækisins frekar að svo stöddu. Það var hins vegar skilningur bankaeftirlitsins sem staðfestur var ítrekað af forráðamönnum Ávöxtunar S/F, að hinum umdeilda þætti í starfsemi fyrirtækisins yrði þegar hætt og þeim fjármunum sem fyrirtækið hafði þegar veitt móttöku yrði smám saman komið í hendur réttra eigenda eða ráðstafað með öðrum hætti í samráði við þá. Fylgst var með stofnun Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F í árslok 1986 en honum var m.a. ætlað að taka

við hinum umdeildu „ávöxtunarreikningum“ og var liður í því að laga starfsemina „að þeim óskum og ábendingum sem bankaeftirlitið hefur látið frá sér fara“.

Auk eigenda Ávöxtunar S/F var þriðji maður í stjórn Verðbréfasjóðs Ávöxtunar H/F,

[...Z] prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og var hann formaður stjórnarinnar. Til hans bar bankaeftirlitið fyllsta traust. Viðskiptaráðherra hafði þegar veitt [...] leyfi til verðbréfamiðlunar á grundvelli embættisprófs hans í viðskiptafræði. Af honum hafði bankaeftirlitið engin fyrri kynni. Til þriðja stjórnarmannsins, [...], bar bankaeftirlitið ekkert traust enda ljóst frá upphafi að hann bar ekkert skynbragð á eðli verðbréfaviðskipta eða rekstur verðbréfasjóða. Hins vegar veittu lögin um verðbréfamiðlun bankaeftirlitinu ekki afskiptarétt af öðrum forsvarsmönnum fyrirtækisins en skráðum leyfishafa. Bankaeftirlitið hafði enga ástæðu til að efast um faglega hæfni hins löggilta endurskoðanda, [...].

[Annar eigandi félagsins] og [annar eigandi félagsins] skipuðu einnig stjórn Rekstrarsjóðs Ávöxtunar H/F, sem stofnaður var í ársbyrjun 1988 auk [...], héraðsdómslögmanns sem starfað hafði um hríð að lögfræðilegum verkefnum fyrir Ávöxtun S/F. [Héraðsdómslögmaðurinn] var formaður stjórnarinnar. Af honum hafði bankaeftirlitið engin fyrri kynni. Endurskoðandi var [...]. Hinn 5. júlí 1988 tók [héraðsdómslögmaður] einnig við formennsku í Verðbréfasjóði Ávöxtunar H/F af [...], sem sagt hafði af sér stjórnarformennsku 29. júní sama ár.

Lögin um verðbréfamiðlun nr. 27/1986 eru fátækleg af efnisatriðum um verðbréfasjóði, en meginstarfsemi Ávöxtunar S/F var rekstur verðbréfasjóðanna eins og fram kemur í kafla II. Á verðbréfasjóði er minnst í 3., 5.,15. og 16. gr. laganna.

Athuganir bankaeftirlitsins á Ávöxtun S/F og verðbréfasjóðum voru fyrst og fremst athugun á því, að formskilyrðum um stofnun þeirra væri fullnægt, þ.á m. athugun á samþykktum fyrir félögin. Ennfremur var mikil áhersla lögð á að hinn löggilti endurskoðandi skilaði endurskoðuðu og árituðum ársreikningum. Viðræður fóru fram við forráðamenn félaganna og löggiltan endurskoðanda. Skv. framansögðum gögnum og vitnisburði stjórnenda fyrirtækjanna kom ekkert það fram fyrr en á fundi hinn 12. júlí 1988, sem bent gæti til þess að skráð gengi hlutdeildarskírteina í sjóðunum væri ekki í samræmi við uppgefið auglýst gengi, eða að viðskipti á milli skyldra aðila væri að ræða í því umfangi sem síðar kom í ljós. Af þeirri ástæðu m.a. taldi bankaeftirlitið ekki nauðsynlegt að gera sérstaka athugun á eignastofni sjóðanna fyrr en í ágúst 1988, þegar ársreikningur fyrir Ávöxtun S/F vegna ársins 1987 hafði borist eftirlitinu. Í heildarniðurstöðukafla skýrslu um þá athugun, telur bankaeftirlitið að um hafi verið að ræða meint brot á 8. gr. laga nr. 27/1986 í nokkrum tilvikum. Auk þess hafi verið brotin lög um viðskiptabanka nr. 86/1985 og sparisjóði nr. 87/1985 svo og meint brot á ýmsum ákvæðum alm. hgl. nr. 19/1940.

V. kafli laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun, sem er ein grein, 15. gr., veitir bankaeftirlitinu víðtækar heimildir til aðgangs að gögnum og upplýsingum hjá verðbréfamiðlurum og verðbréfasjóðum sem varðar starfsemina og eru nauðsynlegar við framkvæmd eftirlitsins. Skyldur bankaeftirlitsins skv. greininni voru fyrst og fremst þær, að hafa eftirlit með því að ekki sé starfrækt verðbréfamiðlun og verðbréfasjóður án tilskilinna leyfa viðskiptaráðherra. Ennfremur að starfsemin fullnægi ætíð að öðru leyti skilyrðum laganna um verðbréfamiðlun. Auk þess er kveðið á um að bankaeftirlitið skuli semja álitsgerð um efni viðskiptaauglýsinga sem verðbréfamiðlarar og verðbréfasjóðir beina til almennings.

Í kafla II. hér að framan er nákvæmlega gerð grein fyrir því hvernig bankaeftirlitið rækti eftirlitshlutverk sitt með Ávöxtun S/F og þeim verðbréfasjóðum sem reknir voru í tengslum við það fyrirtæki. Það er álit bankaeftirlitsins að framkvæmd eftirlitsins hafi verið í samræmi við margnefnd lög um verðbréfamiðlun nr. 27/1986.“

SVÖR BANKASTJÓRNAR SEÐLABANKA ÍSLANDS VIÐ BRÉFI UMBOÐSMANNS ALÞINGIS DAGS. 3. MAÍ 1989.

„1.

Á tímabilinu frá 22. janúar 1983 fram að gildistöku laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun, sem tóku gildi þann 1. júní 1986, var 10. gr. laga nr. 10/1961 ekki „látin , taka til“ starfsemi verðbréfamiðlara eða sambærilegrar starfsemi við þá, sem Ávöxtun s.f. hafði með höndum á þeim tíma, sem fyrirspurn yðar lýtur að. Á þeim tíma voru ekki í gildi nein lagaákvæði er beinlínis snertu verðbréfamiðlun eða verðbréfaviðskipti og hvergi var í lögum að finna skilgreiningar, almennar eða sérstakar, á grundvallarhugtökum verðbréfaviðskipta sem lögfest voru með lögum nr. 27/1986 og hafa síðan verið endurbætt, að fenginni reynslu, með lögum nr. 20 frá 4. apríl 1989 um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 10/1961 skyldi Seðlabankinn hafa með höndum eftirlit með starfsemi banka, sparisjóða, innlánsdeilda samvinnufélaga, Söfnunarsjóðs Íslands og hverrar þeirrar stofnunar annarrar, sem tæki við innstæðum frá almenningi eða ræki sambærilega starfsemi að mati Seðlabankans. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skyldi bankaeftirlitið fylgjast með því að innlánsstofnanir fylgdu lögum og reglum sem hverju sinni giltu um starfsemi þeirra. Af þessum ákvæðum taldi bankaeftirlitið að þær stofnanir sem um gat í 1. mgr. tilvitnaðra laga væru innlánsstofnanir sbr. 2. mgr. sömu laga og að innlánsstarfsemi væri í því fólgin, að veita viðtöku fé til ávöxtunar frá ótilgreindum hópi einstaklinga með skipulögðum og auglýstum hætti. Jafnframt taldi bankaeftirlitið að lagaheimild þyrfti til þeirrar starfsemi og vísaði um það m.a. til 1. gr. laga nr. 69/1941 um sparisjóði.

Á þessum tíma var ekki talið óyggjandi að Ávöxtun s.f. teldist innlánsstofnun eða starfsemi fyrirtækisins félli undir innlánsstarfsemi í skilningi þágildandi laga, enda var hér um að ræða nokkurt nýmæli á fjármagnsmarkaðnum. Bankaeftirlitið taldi sér því ekki fært að kveða uppúr með það þá þegar að starfsemi fyrirtækisins félli undir eftirlit Seðlabankans með innlánsstofnunum samkvæmt áðurgreindum lagaákvæðum. Hins vegar hafði forstöðumaður bankaeftirlits samband við einn eigenda Ávöxtunar s.f. og tók skýrt fram við hann að án lagaheimildar væri fyrirtæki hans óheimilt að taka við innlánum frá almenningi til ávöxtunar. 1. júní 1984 áttu starfsmenn bankaeftirlitsins síðan viðræður við forráðamenn Ávöxtunar s.f. til að fræðast nánar um starfsemi fyrirtækisins og kanna hvort hún væri á einhvern hátt sambærileg við starfsemi innlánsstofnana. Þær viðræður fór ekki fram á grundvelli ákvæða 10. gr. 1. nr. 10/1961. Niðurstaða þeirrar könnunar bankaeftirlitsins var hins vegar sú, að Ávöxtun s.f. hefði í vissum þáttum starfsemi sinnar farið inn á svið innlánsstofnana án lagaheimildar og að stöðva bæri þann þátt starfseminnar án tafar sbr. nánar greinargerð bankaeftirlitsins frá 13. júní 1984.

2.

Að því er varðar niðurstöðu ákæruvaldsins að lokinni opinberri rannsókn á meintum brotum forráðamanna Ávöxtunar s.f. á lögum nr. 86/1985 um viðskiptabanka og lögum nr. 87/1985 um sparisjóði, sbr. bréf ríkissaksóknara dags. 11. september 1986 er það helst að segja, að bankaeftirlitið taldi þá og telur enn að önnur sjónarmið en fagleg hafi ráðið miklu um þá niðurstöðu. Hefur bankaeftirlitið ætíð talið þessa niðurstöðu orka verulega tvímælis. Þar sem [annar eigandi félagsins], einum forráðamanna Ávöxtunar s.f., var veitt leyfi til verðbréfamiðlunar að uppfylltum formskilyrðum að mati viðskiptaráðuneytis, þann 16. september eða aðeins fimm dögum eftir að niðurstaða ríkissaksóknara lá fyrir, taldi bankaeftirlitið engin rök fyrir því af þess hálfu að hafa frekari afskipti af starfsemi fyrirtækisins að svo stöddu. Það var hins vegar skilningur bankaeftirlitsins, sem ítrekað var staðfestur af forráðamönnum Ávöxtunar s.f., að þeim þætti í starfsemi fyrirtækisins sem orðið hafði tilefni opinberrar rannsóknar yrði þegar hætt og þeim fjármunum sem fyrirtækið hafði þegar veitt móttöku yrði smám saman komið í hendur réttra eigenda eða ráðstafað með öðrum hætti í samráði við þá. Á þann hátt hefði því verið heitið af forráðamönnum fyrirtækisins „að laga starfsemi félagsins að því er varðar viðtöku á peningum til ávöxtunar.... að þeim óskum og ábendingum sem bankaeftirlitið hafi látið frá sér fara.“ Fylgst var með stofnun Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. í árslok 1986, en honum var m.a. ætlað að taka við fjármunum sem varðveittir voru á hinum umdeildu „ávöxtunarreikningum“. Einnig þetta skyldi vera liður í að fara að óskum og ábendingum bankaeftirlitsins varðandi starfsemi fyrirtækisins. Þær fjárhæðir, sem voru á margnefndum ávöxtunarreikningum samkvæmt ársreikningi Ávöxtunar s.f. fyrir árið 1986 skyldu færast yfir í hinn nýstofnaða verðbréfasjóð, enda var því ávallt haldið fram af hálfu forsvarsmanna Ávöxtunar s.f. að stöðugt drægi úr þessum þætti starfseminnar eins og ráð hafði verið fyrir gert. Jafnvel í upphafi athugunar bankaeftirlitsins í ágúst 1989, sem leiddi til lokunar fyrirtækisins, héldu forráðamenn Ávöxtunar því fram, aðspurðir um þáverandi stöðu þessara reikninga, að það sem inn á þeim væri væri „eitthvað lítið og persónulegt“ eins og [annar eigandi félagsins] orðaði það og [annar eigandi félagsins] hélt því fram í viðræðum við starfsmenn bankaeftirlits að umfang þessara reikninga færi stöðugt minnkandi og vart tæki að minnast á þá.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið telur bankaeftirlitið að af þess hálfu hafi verið þrýst á um að farið yrði eftir niðurstöðum ríkissaksóknara varðandi „ávöxtunarreikninga“ Ávöxtunar s.f. Sérstaklega ber að hafa í huga að ekkert samkomulag varð milli fyrirtækisins og bankaeftirlits um lok þessa deiluefnis. Hins vegar leit bankaeftirlitið svo á, að forráðamenn fyrirtækisins hefðu gert slíkt samkomulag við embætti ríkissaksóknara þar sem engin tímamörk voru sett fyrirtækinu í þessu sambandi og engin fyrirmæli um hvernig staðið skyldi að breytingum á starfsháttum þess. Auk þess varð öðrum forráðamanni fyrirtækisins veitt leyfi viðskiptaráðuneytis til verðbréfamiðlunar örfáum dögum eftir að niðurstaða ríkissaksóknara lá fyrir. Af þessum sökum taldi bankaeftirlitið að hendur þess væru verulega bundnar að því er varðaði bein fyrirmæli um hvernig staðið skyldi að breytingum á starfsháttum fyrirtækisins að þessu leyti að öðru leyti en því, að ítreka reglulega að þessir reikningar skyldu lagðir af.

3.

Lög nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun tóku gildi 1. júní 1986. Starfandi verðbréfamiðlurum við gildistöku laganna var þó heimilt að halda áfram starfi sínu án leyfis viðskiptaráðherra til 1. ágúst 1986. Haustið 1986 var unnið að því af hálfu bankaeftirlitsins að hafa uppi á þeim aðilum, sem hugsanlega stunduðu verðbréfamiðlun andstætt ákvæðum laga nr. 27/1986. Hér var um að ræða aðila þar sem ýmist firmanafn og/eða auglýsingar höfðu gefið til kynna að á þeirra vegum væri stunduð verðbréfamiðlun. Öllum þessum aðilum var sent bréf og viðkomandi gerð grein fyrir nýjum lögum á þessu sviði og skilyrðum sem þau settu fyrir slíkri starfsemi.

Leyfi viðskiptaráðuneytisins til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum nr. 27/1986 voru veitt einstaklingum eingöngu en í flestum tilfellum er viðkomandi verðbréfamiðlunarstarfsemi rekin af félögum eða stofnunum. Þannig hefur mátt skipta leyfishöfum í eftirfarandi flokka:

1. Leyfishafar sem starfa á vegum viðskiptabanka, sparisjóða og Pósts og síma.

2. Leyfishafar sem starfa á vegum annarra félaga.

3. Leyfishafar sem starfa á eigin vegum.

Þeir aðilar sem stunda eiginlega verðbréfastarfsemi og auglýsa sig sem slíkir falla nær eingöngu undir flokk nr. 2 hér að framan. Leyfishafar sem starfa á eigin vegum virðast hafa nýtt sér leyfi til verðbréfamiðlunar fyrst og fremst sem söluaðilar að spariskírteinum ríkissjóðs og á það reyndar einnig við um marga leyfishafa á vegum viðskiptabanka og sparisjóða. Athygli bankaeftirlitsins hefur því fyrst og fremst beinst að þeim aðilum sem falla undir flokk nr. 2 hér að framan.

Í febrúar og mars 1987 framkvæmdi bankaeftirlitið athugun á starfsemi nær allra þeirra aðila sem féllu undir flokk 2. Athugunin beindist fyrst og fremst að innra eftirliti og framkvæmd endurskoðunar. Ennfremur var starfsemi viðkomandi aðila sérstaklega athuguð með tilliti til III. kafla laga nr. 27/1986, en sá kafli fjallað um réttindi og skyldur verðbréfamiðlara. Í nær öllum tilfellum var löggiltur endurskoðandi viðkomandi aðila viðstaddur umrædda athugun bankaeftirlitsins. Á meðfylgjandi fylgiskjali nr. 1 er sýnishorn af þeim atriðum, sem bankaeftirlitið taldi nauðsynlegt að fá upplýsingar um. Sambærileg heildarathugun á starfsemi þeirra aðila sem falla undir flokk 2 fór síðan fram í ágúst og september 1988, en þá voru tvö verðbréfamiðlunarfyrirtæki og þrír verðbréfasjóðir athugaðir. Í sambandi við eftirlit með þeim aðilum sem falla undir flokk 2 hér að framan hefur bankaeftirlitið lagt ríka áherslu á að innheimta endurskoðaða ársreikninga viðkomandi félaga, en samkvæmt 4. gr. laga nr. 27/1986 skyldi löggiltur endurskoðandi annast endurskoðun hjá verðbréfamiðlara. Um löggilta endurskoðendur gilda sérstök lög nr. 67/1976 með síðari breytingum. Um framkvæmd endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga gildir sérstakur staðall, „Leiðbeinandi reglur um grundvallaratriði endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga“, sem staðfestur var á aðalfundi Félags löggiltra endurskoðenda í mars 1979, sem fylgir hér með sem fylgiskjal nr. 2.

Þeir aðilar sem sótt hafa um aðild að Verðbréfaþingi Íslands frá því að lög nr. 27/1986 tóku gildi hafa ennfremur verið athugaðir af bankaeftirlitinu með sama hætti og lýst hefur verið í næstu málsgrein hér á undan. Í öllum tilfellum hefur verið um að ræða leyfishafa á vegum viðskiptabanka og sparisjóða.

Til viðbótar framanskráðu aflar Seðlabankinn mánaðarlegra upplýsinga úr efnahagsreikningum verðbréfasjóða, en þar er m.a. óskað eftir ákveðinni sundurliðun á verðbréfaeign sjóðanna sbr. meðfylgjandi fylgiskjal nr. 3. Ennfremur hefur Seðlabankinn reglulega safnað upplýsingum frá öllum verðbréfamiðlurum um verðbréfaútgáfu og verðbréfaþjónustu, sem unnið hefur verið að á vegum þeirra sbr. meðfylgjandi fylgiskjal nr. 4.

Um þann hátt eftirlits bankaeftirlitsins sem lýtur að auglýsingum verðbréfamiðlara vísast til svars við 9. tölulið fyrirspurnarbréfs yðar.

4.

Bréf það, sem vitnað er til í þessum tölulið fyrirspurnar yðar var almennt, staðlað bréf

sem sent var 9 aðilum að meðtöldum Verðbréfasjóði Ávöxtunar h.f. Í raun hefði slíkt bréf ekki átt að sendast síðasttalda aðilanum, enda var Verðbréfasjóður Ávöxtunar h.f. ekki stofnaður fyrr en á stofnfundi 12. nóvember og framhaldsstofnfundi 15. desember 1986 sbr. bréf [...] hdl., dags. 22. desember 1986. Eiginleg starfsemi verðbréfasjóðsins hófst hins vegar ekki fyrr en í ársbyrjun 1987. Því var ekki um ársreikning þess félags fyrir árið 1986 að ræða.

5.

Bréf [...] löggilts endurskoðanda Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. til stjórnar sjóðsins, dags. 20.03.1988, fylgdi ekki ársreikningi félagsins sem barst bankaeftirlitinu 31. maí 1988. Á þeim tíma var bankaeftirlitinu ekki kunnugt um tilvist þessa bréfs. Sérstaklega skal bent á, að í áritun hins löggilta endurskoðanda er ekki á nokkurn hátt gefið til kynna að hann hafi bréflega eða á annan hátt gert athugasemdir varðandi rekstur félagsins, líkt og sami löggilti endurskoðandi sá ástæðu til að gera í áritun sinni á ársreikning Ávöxtunar s.f. fyrir árið 1987, sem barst bankaeftirlitinu 8. ágúst sama ár. Bankaeftirlitið fékk ekki vitneskju um tilvist tilvitnaðs bréfs löggilts endurskoðanda Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. fyrr en við upphaf athugunar á starfsemi Ávöxtunar s.f., Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f. í lok ágústmánaðar 1988 er starfsmenn bankaeftirlits fóru til fundar við löggiltan endurskoðanda viðkomandi fyrirtækja til upplýsingaöflunar í tengslum við þá athugun sem hafin var á starfsemi fyrirtækjanna.

Að því er varðar viðbrögð bankaeftirlits í tilefni af upplýsingum sem fram komu í ársreikningi Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. fyrir árið 1987, um lánsviðskipti sjóðsins við Ávöxtun s.f. og fleiri fyrirtæki í eigu aðaleigenda sjóðsins, þá taldi bankaeftirlitið ástæðu til að kanna þau atriði nánar. Hins vegar var jafnframt talið nauðsynlegt að ársreikningur Ávöxtunar s.f. lægi einnig fyrir þegar slík athugun færi fram þannig að heildstæð mynd fengist af umræddum viðskiptum þegar í upphafi. Voru því ítrekaðar fyrri óskir bankaeftirlits um að fá sendan endurskoðaðan ársreikning Ávöxtunar s.f. fyrir árið 1987, sbr. bréf dags. 14. júní 1988, auk þess sem þær óskir voru jafnframt ítrekaðar munnlega. Hins vegar var haldinn fundur með fulltrúum Ávöxtunar s.f., vegna Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f., þann 12. júlí 1988 en þá hafði umbeðinn ársreikningur Ávöxtunar s.f. enn ekki borist bankaeftirlitinu. Á þessum fundi var óskað skýringa á útistandandi kröfum verðbréfasjóðsins, m.a. 17 milljón króna skuld Ávöxtunar s.f. við hann. Með hliðsjón af þeim svörum sem þá fengust var enn ítrekað að ársreikningur Ávöxtunar s.f. bærist bankaeftirlitinu og var þá sagt að uppgjör væri á lokastigi og ársreikningurinn yrði sendur bankaeftirlitinu fljótlega. Margnefndur ársreikningur barst loks 8. ágúst 1988. Auk þeirra upplýsinga sem fyrir lágu úr ársreikningi Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. kom nú í ljós, að eigið fé Ávöxtunar s.f. var neikvætt um rúmlega 4 milljónir króna. Strax sama dag og ársreikningur Ávöxtunar s.f. barst bankaeftirlitinu var tekin ákvörðun um að skoða starfsemi fyrirtækisins nánar, sbr. minnisblað forstöðumanns bankaeftirlits til [bankastjóra Seðlabanka Íslands], dags. 08. ágúst 1988. Vegna aðstæðna innan bankaeftirlitsins reyndist ekki unnt að hefja skoðun fyrr en 17. ágúst. Vegna fjarveru [...], leyfishafa til verðbréfamiðlunar vegna Ávöxtunar s.f., Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f., dróst hins vegar að hefja umrædda skoðun til 22. ágúst 1988, enda var talið nauðsynlegt að hann yrði viðstaddur þegar frá upphafi.

6.

Eins og fram kemur í svari við spurningum yðar í tölulið nr. 5 hér að framan barst bankaeftirlitinu ársreikningur Ávöxtunar s.f. fyrir árið 1987 þann 8. ágúst 1988. Hins vegar fékk bankaeftirlitið ekki afrit af bréfi löggilts endurskoðanda félagsins, dags. 1. júlí 1988, fyrr en 23. ágúst sama ár í tengslum við þá skoðun á starfsemi fyrirtækisins sem þá var hafin. Sérstaklega skal tekið fram, að þrátt fyrir að bréfs þess væri getið í áritun endurskoðandans á ársreikning félagsins var tilvitnun til þess svo orðuð, að talið var að um minni háttar athugasemdir væri að ræða enda var sagt í árituninni að þrátt fyrir þær athugasemdir sem gerðar hefðu verið sýndi ársreikningurinn þá mynd af rekstri félagsins á árinu 1987 og stöðu þess í árslok 1987 miðað við venjulegar reikningsskilaaðferðir, að meta mætti stöðu þess í árslok. Varð ekki annað af þessari áritun ráðið en að nægilegt myndi vera að fá afrit tilvitnaðs bréfs í tengslum við fyrirhugaða skoðun fyrirtækisins.

7.

Á því tímabili, sem fyrirspurn yðar lýtur að, mun ekki hafa verið farið sérstaklega til eftirlits með þeim fyrirtækjum sem um ræðir í þeim skilningi, að farið hafi verið á staðinn og sérstök nákvæm könnun gerð þar. Hins vegar fylgdist bankaeftirlitið að sjálfsögðu með starfsemi þessara aðila á þessu tímabili, eftir því sem ástæða þótti til og aðstæður leyfðu. Til frekari skýringar skal vísað til greinargerðar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands um afskipti þess af starfsemi Ávöxtunar s.f., Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f., sem dagsett er 10. maí 1989, bls. 10 -16. Greinargerð þessi fylgir hjálögð.

8.

Að því er varðar tímasetningu fyrstu grunsemda bankaeftirlits um að rekstur þeirra fyrirtækja sem um ræðir hafi á einhvern hátt verið í andstöðu við lög má almennt segja, að þó ekki hafi verið um beinar grunsemdir um lögbrot að ræða þá hafi bankaeftirlitið allt frá upphafi talið verulegan vafa leika á því, að aðaleigendur fyrirtækjanna væru hæfir til að stunda þann rekstur sem um ræðir, þrátt fyrir að viðskiptaráðuneytið hafi veitt þeim leyfi til verðbréfamiðlunar á grundvelli þess, að annar eigendanna uppfyllti formkröfur þágildandi laga. Hins vegar bar bankaeftirlitið fyllsta traust til stjórnarformanns Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. á þessum tíma, [...], auk þess sem engin ástæða var til að efast um hæfni löggilts endurskoðanda fyrirtækjanna. Um nánari tímasetningu sérstakra grunsemda bankaeftirlitsins, um meint brot gegn lögum nr. 27/1986, má vísa til svars við spurningu yðar í tölulið nr. 5, þar sem lýst er viðbrögðum bankaeftirlitsins við upplýsingum sem fram komu í ársreikningi Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. fyrir árið 1987.

9.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 var bankaeftirlitinu gert að semja álitsgerð um efni viðskiptaauglýsinga sem verðbréfamiðlarar og verðbréfasjóðir beina til almennings. Vegna þessa ákvæðis hefur bankaeftirlitið fengið sérstaklega saman tekin hefti frá fyrirtækinu Miðlun. Þar var safnað saman öllum auglýsingum sem verðbréfamiðlarar eða verðbréfasjóðir birtu á prenti. Á grundvelli þessara saman teknu gagna svo og öðrum auglýsingum sem bankaeftirlitinu barst vitneskja um, á einn eða annan hátt, var samin álitsgerð í samræmi við fyrrnefnt lagaákvæði. Auk þess var fylgst með auglýsingum þessara aðila eftir því sem föng voru á og gerðar athugasemdir við þá jafnóðum ef ástæða þótti til, að mati bankaeftirlitsins. Þessi háttur var einnig hafður á varðandi eftirlit með starfsemi Ávöxtunar s.f. og sjóða tengdum því fyrirtæki að þessu leyti. Má um þetta atriði benda á skýrslu bankaeftirlitsins um þessi efni vegna ársins 1986 sem send var viðskiptaráðuneytinu með bréfi, dagsettu 21. maí 1987 og sams konar bréf til ráðuneytisins, dags. 31. janúar 1988, vegna ársins 1987. Auk þess var haldinn fundur með fulltrúum Ávöxtunar s.f. þann 7. mars 1988, þar sem þeim var m.a. gerð grein fyrir athugasemdum sem bankaeftirlitið hefði séð ástæðu til að gera varðandi auglýsingar fyrirtækisins, m.a. að því er varðaði auglýsta ávöxtunarprósentu. Í framhaldi af þessum fundi og í tilefni af auglýsingu Ávöxtunar s.f. í dagblöðum, þann 13. mars 1988, ritaði bankaeftirlitið fyrirtækinu enn bréf og ítrekaði athugasemdir varðandi auglýsingar þess sbr. bréf dags. 14. mars 1988.

10.

Að því er varðar 10. tölulið fyrirspurnar yðar vísast til hjálagðrar Greinargerðar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands um afskipti þess af starfsemi Ávöxtunar s.f., Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f., sem dagsett er 10. maí 1989, og sendist yður hjálögð.“

V.

Greinargerð viðskiptaráðuneytisins.

Greinargerð viðskiptaráðuneytisins barst mér í bréfi, dags. 11. maí 1989. Það er svohljóðandi:

„Ráðuneytið vísar til bréfs yðar, dags. 3. maí s.l., varðandi kvartanir, sem yður hafa borist um vanrækslu á eftirliti með starfsemi Ávöxtunar s.f. og verðbréfasjóða, er starfrækt voru af fyrirtækinu. Spurt er í fyrsta lagi um viðhorf ráðuneytisins til þeirra kvartana.

Ráðuneytið vill af því tilefni taka fram, að það telur að eftirlit með framangreindri starfsemi hafi verið í samræmi við lög og reglur. Er ráðuneytinu kunnugt um, að bankaeftirlit Seðlabanka Íslands fylgdist með starfseminni á grundvelli ákvæða laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun. Eftir greiðsluþrot umræddra aðila kom í ljós að innsendir reikningar og aðrar upplýsingar endurskoðanda hafa ekki reynst réttar, en reikningarnir og áritun endurskoðanda á þá, höfðu að mati bankaeftirlitsins ekki gefið tilefni til sérstakrar skoðunar á verðbréfaeign sjóðanna. Fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits með starfseminni verður væntanlega nánar skýrt í svari bankastjórnar Seðlabankans við bréfi því, er þér rituðuð henni 3. maí s.l.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið, telur það að eftirlit með starfseminni hafi verið í því horfi, sem lagaákvæði mæltu fyrir um.

Ráðuneytið taldi hins vegar þörf á að setja ítarlegri lagaákvæði um rekstur verðbréfasjóða og var því komið á fót nefnd í febrúarmánuði 1988, sem m.a. átti að semja frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Hefur það frumvarp nú verið lögfest og birt sem lög nr. 20/1989, sem leysa lögin frá 1986 af hólmi.

Í öðru lagi er spurt um, hvort ráðuneytið hafi fengið tilkynningar frá bankaeftirlitinu eða upplýsingar skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun vegna starfsemi Ávöxtunar h.f. og verðbréfasjóða, er starfræktir voru í tengslum við fyrirtækið áður en ráðuneytinu barst bréf bankaeftirlitsins, dags. 5. september 1988. Ráðuneytinu bárust ekki slíkar tilkynningar.“

VI.

Bréf fyrrum formanns stjórnar Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f.

Með bréfum, dags. 22. maí 1989, gaf ég þeim, sem borið höfðu fram kvartanir, kost á að koma að athugasemdum við greinargerðir viðskiptaráðuneytisins og bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem að framan (í kafla IV og V) eru raktar. Athugasemdir þeirra bárust í bréfi, dags. 30. maí 1989, og bréfi 6. júní 1989.

C, einn þeirra, sem bar fram kvörtun, sendi mér jafnframt bréf frá [...Z], en bréf þetta, sem dagsett er l. júlí 1989, geymir svör [...Z] við spurningum frá C. Í bréfi [...Z] segir meðal annars:

„Eftir beiðni yðar um svör við tilteknum spurningum, er varða afskipti mín af stjórn Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f., skal eftirfarandi tekið fram:

.... 2. Á stjórnarfundi 29. júní 1988 sagði ég mig formlega og einhliða úr stjórn

Verðbréfasjóðsins og lagði þar fram bréf, dagsett sama dag, þar sem hinar helstu ástæður afsagnarinnar voru raktar. Er það bréf birt, orðrétt, í greinargerð um mál þetta, er ég birti í Morgunblaðinu 9. september sama ár. Sama dag tilkynnti ég einnig viðkomandi yfirvöldum, þ.á m. Bankaeftirliti, um afsögn mína með stuttorðu bréfi. Mátti yfirvöldum vera ljóst, að um einhliða afsögn væri að ræða, án þess að nýr stjórnarmaður hefði samstundis komið í minn stað. Var ég þess fullviss, að Bankaeftirlit myndi fljótlega hafa samband við mig af þessu tilefni og spyrjast fyrir um ástæður afsagnar minnar. Það brást heldur ekki, því að snemma í júlímánuði hringdi [...], forstöðumaður Bankaeftirlitsins, í mig, þar sem ég var staddur á heimili mínu, hóf mál sitt á því að óska mér til hamingju með að vera hættur í stjórninni en spurði síðan um ástæður afsagnar minnar. Í símtali þessu, sem var mjög vinsamlegt af beggja hálfu, skýrði ég [forstöðumanni bankaeftirlitsins] frá ástæðum þess að ég treysti mér ekki til að starfa lengur í stjórninni. Komu þar frá minni hálfu skýrt fram ölI þau atriði, sem rakin voru í uppsagnarbréfi mínu frá 29. júní, þ.á m. um skuldastöðu fyrirtækja, sem tengdust meðstjórnarmönnum mínum, við sjóðinn (fjárhæðin 72 milljónir var m.a. sérstaklega nefnd). Tók ég skýrt fram við [forstöðumann bankaeftirlitsins], að afsagnarbréfið, sem einnig hefði að geyma upplýsingar um þessar ástæður, hefði verið lagt fram á stjórnarfundinum og þar hefði því verið heitið, að það yrði límt inn í fundargerðabókina (sem og gert var). Þar gæti Bankaeftirlit kynnt sér bréfið sem og öll önnur gögn, sem það átti aðgang að lögum samkvæmt. Í símtalinu tók ég fram við [forstöðumann bankaeftirlitsins], að ég gæti ekki að svo stöddu og miðað við þær upplýsingar sem ég þá hafði lagt neitt endanlegt mat á lögmæti eða ólögmæti þeirra atriða, sem knúðu mig til afsagnar, heldur byggðist afstaða mín og ákvörðun um afsögn fyrst og fremst á siðferðislegu mati mínu. Upplýsingar þessar taldi ég mér skylt að gefa forstöðumanni Bankaeftirlits, sökum þess að hann leitaði eftir þeim með þessum hætti. [Forstöðumaður bankaeftirlitsins] tók fram, að þessar upplýsingar nægðu sér að sinni, en ekki kvaddi hann mig til fundar við sig um þetta mál eða frekari upplýsingagjafar. Í lok samtalsins sagði [forstöðumaður bankaeftirlitsins], að hann myndi gera viðeigandi ráðstafanir vegna þessa. Efa ég ekki að svo hafi verið gert.

Mér er ógerlegt að muna nú hvaða mánaðardag viðtal þetta fór fram, en man þó glögglega að það var mjög snemma í júlímánuði, einhvern tíma á miðjum degi. Minnist ég þess, að mér þótti [forstöðumaður bankaeftirlitsins] einmitt bregðast fljótt við afsagnarbréfi mínu með fyrrgreindum hætti. Við hjónin vorum utanbæjar frá miðjum degi 3. júlí til 8. og þykir mér því líklegt að símtalið hafi farið fram mjög skömmu eftir að við komum aftur til Reykjavíkur.

Það, sem hér hefur verið sagt, er ég reiðubúinn að staðfesta hvenær sem er, þ.á m. með eiðstaf fyrir dómi ef nauðsyn bæri til, en jafnframt dreg ég ekki í efa, að [forstöðumaður bankaeftirlitsins] myndi einnig staðfesta frásögn mína af umræddu símtali, ef til kæmi.

Þess skal sérstaklega getið, að eiginkona mín, [...], var stödd í sama herbergi og ég, er umrætt símtal fór fram og heyrði hvert orð, er ég sagði. Er hún reiðubúin til að staðfesta ofangreinda frásögn mína.

Að lokum vil ég taka fram, að með ofanritaðri frásögn vil ég ekki á neinn hátt varpa rýrð á forstöðumenn eða starfsmenn Bankaeftirlits eða Seðlabanka, sem eru valinkunnir sómamenn, enda tel ég að viðbrögð [forstöðumanns bankaeftirlitsins], er hann hringdi til mín svo fljótt sem raun bar vitni, beri vott um árverkni hans í starfi.“

Með bréfum, dags. 15. júní 1989, bar ég framangreindar athugasemdir og bréf [...Z] undir viðskiptaráðuneytið og bankastjórn Seðlabanka Íslands. Jafnframt gaf ég bankastjórn Seðlabanka Íslands og viðskiptaráðuneytinu hvoru um sig kost á að tjá sig um áðurraktar greinargerðir hins.

Í svari viðskiptaráðuneytisins, dags. 12. júlí 1989, kemur fram, að ráðuneytið telji ekki ástæðu til frekari athugasemda af sinni hálfu.

Í svarbréfi bankastjórnar Seðlabanka Íslands, dags. 4. júlí 1989, segir meðal annars:

„.... Staðfest skal, að forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands átti símtal við fyrrum stjórnarformann Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h/f í tilefni af afsögn þess síðarnefnda. Ekki skal fjallað um efni bréfs [...Z] frá 1. júní 1989, þar sem greinir frá einstökum efnisatriðum símtalsins og siðferðilegum ástæðum afsagnarinnar. Einungis skal vísað til greinargerðar bankaeftirlitsins frá 10. maí 1989, bls. 15.“

VII.

Viðbótarskýringar frá Seðlabanka Íslands og viðskiptaráðuneytinu.

Að lokinni frekari athugun á gögnum málsins og greinargerðum, taldi ég rétt að afla, tiltekinna upplýsinga frá stjórn Seðlabanka Íslands og viðskiptaráðuneytinu. Var það gert með bréfum, dags. 27. október 1989.

1.

Í bréfi mínu til stjórnar Seðlabanka Íslands sagði meðal annars:

„Með tilvísun til gagna, sem mér hafa borist frá bankastjórn Seðlabanka Íslands leyfi ég mér að óska eftir upplýsingum bankastjórnarinnar um eftirfarandi atriði:

l. Ákvað bankaeftirlit Seðlabanka Íslands fyrirfram, hvaða skipulag skyldi hafa á eftirliti með verðbréfamiðlurum og verðbréfasjóðum, t.d. hve oft slík fyrirtæki skyldu heimsótt í þágu eftirlits og hvaða skýrslur skyldu heimtar af þeim og á hvaða fresti?

2. Á bls. 4 í svörum bankastjórnar Seðlabanka Íslands til mín frá 10. maí 1989 er þess getið, að Seðlabankinn afli mánaðarlegra upplýsinga úr efnahagsreikningum verðbréfasjóða, en þar sé m.a. óskað eftir ákveðinni sundurliðun á verðbréfaeign sjóðanna. Mánaðarskýrslur vegna Ávöxtunar s.f. og verðbréfasjóða, er starfræktir voru á vegum þess fyrirtækis, eru ekki meðal þeirra gagna, sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands afhenti mér, ef frá er talin mánaðarskýrsla Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f. frá júlí 1988. Í framhaldi af þessu er spurt, hvort slíkra mánaðarskýrslna hafi verið aflað, að því er varðar Ávöxtun s.f. og verðbréfasjóði þess fyrirtækis, frá gildistöku laga nr. 27/1986 (1. júní 1986) og til þess tíma, er fyrirtækið og verðbréfasjóðir þess hættu starfsemi. Ef svo er, óska ég eftir að fá send ljósrit af mánaðarskýrslum þessum.

3. Ef svar við 2. spurningu er á þann veg, að slíkra mánaðarskýrslna hafi ekki verið aflað, að því er varðar ofangreint fyrirtæki og verðbréfasjóði þess, er þess óskað, að ástæður þess verði skýrðar og þá jafnframt, hvaða ráðstafanir bankaeftirlitið gerði af því tilefni. Hver voru skil mánaðarskýrslna af hálfu annarra slíkra fyrirtækja og sjóða?

4. Á bls. 6 í svarbréfi bankastjórnar Seðlabanka Íslands til mín kemur fram í 7. tl., að á tímabilinu 24. febrúar 1987 til 22. ágúst 1988 hafi ekki verið farið sérstaklega til eftirlits hjá Ávöxtun s.f. og verðbréfasjóðum þess í þeim skilningi, að farið hafi verið á staðinn og sérstök nákvæm könnun gerð þar. Á bls. 3 í skýrslu bankaeftirlitsins frá því í ágúst1988, sem ber heitið: „Sérstök athugun á starfsemi Ávöxtunar s.f., Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f. og Rekstrarsjóðs Ávöxtunar h.f.“, eru raktar helstu stærðir úr efnahagsreikningi Ávöxtunar pr. 31.12.1987. Þar kemur m.a. fram, að skuld Ávöxtunar s.f. við Verðbréfasjóð Ávöxtunar h.f. nam kr. 16.800.000.-, en var í lok júlí 1988 kr. 68.689.000.-. Á bls. 32 í skýrslunni kemur fram, að af þessum kr. 68.689.000 hafi kr. 7.900.000.- verið með ábyrgð beggja eigenda Ávöxtunar s.f., sem báðir sátu í stjórn Verðbréfasjóðs Ávöxtunar h.f., en kr. 60.800.000.- hafi verið án trygginga. Er sú ályktun dregin í skýrslunni, að almennt megi segja, að hér sé um óeðlileg viðskipti að ræða með tilliti til þeirra verulegu tengsla, sem séu á milli þeirra aðila, sem að þeim standi, og þetta talið brot á 8. gr. laga nr. 27/1986. Í framhaldi af þessu er spurt, hvort bankastjórn Seðlabanka Íslands sé þeirrar skoðunar, að umrædd atriði hefðu á framangreindu tímabili komið í ljós, ef bankaeftirlitið hefði farið „á staðinn og sérstök nákvæm könnun gerð þar“. Jafnframt er spurt, hver hefðu orðið viðbrögð bankaeftirlitsins, ef slíkar upplýsingar hefðu komið í ljós í eftirlitsferðum.

5. Í starfsreglum forstöðumanns og Samstarfsnefndar við bankaeftirlit Seðlabanka Íslands frá 8. maí 1987 kemur fram í 9. gr., að í upphafi leggi bankastjórnin fram starfsáætlun fyrir bankaeftirlitið, sem gildi til næstu 6 mánaða. Skal starfsáætlunin lögð fyrir samstarfsnefndina til staðfestingar. Starfsáætlun fyrir þar næstu 6 mánuði skal kynnt samstarfsnefnd í maímánuði til staðfestingar í júnímánuði. Er í framhaldi af þessu spurt, hvort slíkar starfsáætlanir hafi verið gerðar á tímabilinu frá maí 1987 til loka ágústs 1988. Jafnframt óska ég þess, að mér verði sendar slíkar áætlanir, ef til eru. Þá segir í 10. gr., að fundi samstarfsnefndarinnar skuli halda reglulega og forstöðumaður þar gera nefndinni grein fyrir framvindu einstakra verkefna og meginniðurstöðum eftirlits hjá þeim aðilum, sem bankaeftirlitinu er falið eftirlit með. Ennfremur segir, að allar meiri háttar athugasemdir bankaeftirlitsins, er varði rekstur og óheilbrigða starfsemi innlánsstofnana eða annarra aðila, sem eftirlit er framkvæmt hjá, skuli kynntar samstarfsnefndinni. Í framhaldi af þessu er spurt, hversu oft slíkir fundir voru haldnir frá setningu reglnanna og fram til 5. september 1988. Einnig er spurt, hvort málefni Ávöxtunar s.f. og verðbréfasjóða þess fyrirtækis hafi verið kynnt á þessum fundum og þá með hvaða hætti.“

Svarbréf Seðlabanka Íslands við ofangreindu bréfi mínu er dagsett 9. nóvember 1989. Þar segir:

„1. Ákvörðun um skipulag eftirlits með verðbréfamiðlurum og verðbréfasjóðum var tekin hverju sinni af forstöðumanni bankaeftirlitsins og á hans ábyrgð þ.m.t. hversu oft slík fyrirtæki skyldu heimsótt í þágu eftirlitsins. Nánari lýsing á þáverandi framkvæmd eftirlitsins í aðalatriðum hefur verið send embætti yðar, sjá „Svör bankastjórnar Seðlabankans við bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 3. maí 1989“, dags. 10. maí 1989 tl. 3 á bls. 3-4.

2. Skv. VI. kafla laga nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands, sem tóku gildi hinn 1. nóvember 1986, sbr. VI. kafla eldri laga um Seðlabanka Íslands nr. l0/1961, sem giltu til 1. nóvember 1986, safnar bankinn skýrslum um „greiðslujöfnuð, gjaldeyris- og peningamál og annað sem hlutverk hans varðar og skal hann birta opinberlega sem rækilegastar upplýsingar um þau efni.“ Vegna hagskýrslugerðar hefur bankinn aflað upplýsinga frá ýmsum aðilum um nýjungar á fjármagnsmarkaði og þróun hans. Hafa hagfræðideildir Seðlabankans að langmestu leyti annast þetta hlutverk. Tilgangurinn með söfnum mánaðarlegra upplýsinga frá verðbréfasjóðum í því formi sem var ákveðið, var fyrst og fremst sá að afla upplýsinga um umfang þessa markaðar, sem þá var í örum vexti, í því skyni að nauðsynleg vitneskja væri til staðar um hann í Seðlabankanum, m.a. með tilvísun í framangreint ákvæði úr lögum um bankann.

Engin lagaákvæði skylduðu bankaeftirlitið, á því tímabili, sem hér um ræðir, til þess að afla skýrslna frá verðbréfamiðlurum eða verðbréfasjóðum hvorki með reglulegu millibili né í ákveðnu formi. Megináhersla var á það lögð af hálfu bankaeftirlitsins að ársreikningar verðbréfamiðlara og verðbréfasjóða bærust því áritaðir af löggiltum endurskoðendum, sbr. 3. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 27/1986 um verðbréfamiðlun, og að ákvæði laganna að því leyti væru uppfyllt.

Hinn 15. desember 1987 var öllum starfandi verðbréfasjóðum sent bréf ásamt eyðublaði, þar sem óskað var eftir því að gefnar væru upplýsingar um efnahag þeirra á nánar tilgreindum tímamörkum fyrir liðinn tíma frá og með 31.12.1986. Hinn 1. febrúar 1988 var sömu aðilum sent bréf, þar sem farið var fram á að framvegis skiluðu þeir mánaðarlegri skýrslu um efnahag sinn, í fyrsta sinn hinn 31.12.1987. Verðbréfasjóðum Ávöxtunar h.f. var meðal þeirra verðbréfasjóða sem óskað var eftir að sendi fyrrgreindar upplýsingar til Seðlabankans.

Bréf Seðlabankans voru undirrituð af forstöðumanni bankaeftirlitsins og forstöðumanni peningamáladeildar sameiginlega. Náin samvinna hefur verið um langa hríð með peningamáladeild Seðlabankans og bankaeftirlitinu um gerð eyðublaða og efnisinnihald þeirra skýrslna, sem óskað er eftir frá hinum ýmsu aðilum í þessu tilliti. Upplýsingarnar skyldu sendast til peningamáladeildar, sem jafnframt gaf frekari upplýsingar ef óskað var eftir. Úrvinnsla innsendra skýrslna var á vegum peningamáladeildar, sem jafnframt sá um innheimtu þeirra.

Mánaðarskýrslna fyrir Ávöxtun sf. var ekki aflað á fyrrgreindu tímabili, né heldur fyrir önnur starfandi verðbréfafyrirtæki eða verðbréfamiðlara.

Nokkur vanhöld voru á að skýrslum væri skilað á umbeðnum tíma, og var jafnan gengið eftir þeim í símtölum starfsmanna peningamáladeildar og fyrirsvarsmanna hlutaðeigandi umsjónaraðila verðbréfasjóðs. Ennfremur voru ítrekunarbréf send.

Eftirfarandi sendist embætti yðar til upplýsingar um þennan lið fyrirspurnarinnar:

Fskj. nr. 0l. Bréf Seðlabankans til verðbréfasjóða, dags. 15. desember 1987, ásamt fylgiskjölum.

Fskj. nr. 02. Efnahagsyfirlit fyrir Verðbréfasjóð Ávöxtunar hf. pr. 31.03.; og 30.09.-1987, dags. 10. desember 1987.

Fskj. nr. 03. Bréf Seðlabankans til verðbréfasjóða, dags. l. febrúar 1988, ásamt fylgiskjölum.

Fskj. nr. 04. Mánaðarskýrslur Verðbréfasjóðs Ávöxtunar hf. í lok des. '87; apríl (tekin niður í síma af starfm. peningamáladeildar Seðlabankans), maí (ásamt bréfi frá starfsm. Ávöxtunar sf. til Seðlabankans), júní og júlí 1988.

Fskj. nr. 05. Mánaðarskýrslur Rekstrarsjóðs Ávöxtunar hf. í lok apríl (tekin niður í síma af starfsmanni peningamáladeildar Seðlabankans), júní og júlí 1988.

Fskj. nr. 06. Bréf peningamáladeildar Seðlabankans til Verðbréfasjóðs Ávöxtunar hf., dags. 7. apríl 1988.

Fskj. nr. 07. Bréf peningamáladeildar Seðlabankans til Ávöxtunar sf., dags. 31. ágúst 1988.

3. Vegna niðurlags fyrirspurnar yðar skv. þessum tölulið sendist embætti yðar bréf peningamáladeildar Seðlabankans til Fjárfestingarfélags Íslands hf.; Hávöxtunarfélagsins hf.; Verðbréfamarkaðar Iðnaðarbanka Íslands hf. vegna verðbréfasjóða, sem reknir voru í tengslum við þau fyrirtæki svo og bréf til Verðbréfasjóðs Hagskipta hf., öll dagsett 8. apríl 1988. Bréfin eru merkt sem fskj. nr. 08 og efni þeirra skýrir sig sjálft.

4. Vegna fyrirspurnar yðar undir þessum tölulið skal tekið fram, að svör við „hefði“ og „ef“ spurningum eru að öðru jöfnu háð óvissu, sem taka mið af atburðum og kringumstæðum liðins tíma.

Umrætt skuldabréf, sem var að eftirstöðvum hinn 31. júlí 1988 kr. 7.899 þús., var útgefið hinn 15. júlí 1987. Bankaeftirlitið hefur ekki upplýsingar um hvenær skuldabréfið var keypt inní Verðbréfasjóð Ávöxtunar hf. Hafi það verið til staðar við