Umhverfismál. Starfsleyfi fyrir mengandi atvinnurekstur. Álitsumleitan. Stjórnsýslukæra. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Málshraði.

(Mál nr. 2299/1997)

Veiðifélag Kjósarhrepps kvartaði yfir ýmsum atriðum er snertu veitingu starfsleyfis fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga. Kvartaði það m.a. yfir misvísandi svörum frá stjórnvöldum um það hvort kæra mætti afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sem veiðifélagið bar fram við tillögur að starfsleyfi álvers á Grundartanga. Þá kvartaði félagið yfir að frávísun sérstakrar úrskurðarnefndar samkvæmt 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, á kæru félagsins á tillögum Hollustuverndar ríkisins. Ennfremur kvartaði það yfir því að umhverfisráðherra hefði gefið út starfsleyfi enda þótt frestur sem gefinn var til að kæra tillögur Hollustuverndar ríkisins hafi ekki verið runninn út.

Settur umboðsmaður Alþingis rakti ákvæði 1. gr., 4. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og taldi að heimilt hefði verið af ráðherra en ekki skylt að mæla fyrir um það í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 að tillögur stjórnar Hollustuverndar ríkisins og álit hennar á athugasemdum við slíkar tillögur ættu að vera kæranlegar til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar. Þá rakti hann breytingar á ákvæðum 2. mgr. 72. gr. og 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 frá því hún var sett þar til reglugerð nr. 26/1997, um breytingu á mengunarvarnareglugerð, var sett. Með tilliti til orðalags þeirra ákvæða eins og þau hljóðuðu eftir þá breytingu féllst settur umboðsmaður á að heimilt hafi verið að kæra álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins til hinnar sérstöku kærunefndar. Þá dró hann þá ályktun af eðli þess stjórnsýslugernings sem endurskoðun úrskurðarnefndar laut að, þ.e. að óbindandi áliti, svo og af stöðu ráðherra að íslenskri stjórnskipan, sbr. 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar að líta hafi átt á niðurstöðu hinnar sérstöku úrskurðarnefndar í slíkum málum sem lið í undirbúningi að ákvörðun ráðuneytisins um útgáfu á starfsleyfinu.

Settur umboðsmaður taldi sérstaka ástæðu til athugasemda við þær tíðu breytingar er urðu frá 1994 til 1997 á reglum mengunarvarnareglugerðar um málsmeðferð og kæruheimildir. Þá var á tímabili innra ósamræmi í þessum ákvæðum reglugerðarinnar sem vandskýrt hlaut að vera. Loks komu fram misvísandi skýringar stjórnvalda á því hvaða stöðu niðurstaða stjórnar Hollustuverndar um innsendar athugasemdir hefði að lögum og hvort heimilt væri að kæra þá niðurstöðu til hinnar sérstöku kærunefndar. Taldi hann þessa stjórnarframkvæmd ekki vera í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti enda til þess fallin að draga úr réttaröryggi þeirra sem áttu lögvarðra hagsmuna að gæta og töldu þörf á að tillögur stjórnarinnar yrðu endurskoðaðar. Gaf þetta sérstakt tilefni til að árétta við umhverfisráðuneytið hversu þýðingarmikið það væri fyrir réttaröryggi borgaranna að réttarreglur væru í senn aðgengilegar, einfaldar og skýrar, og ekki undirorpnar stöðugum breytingum.

Samkvæmt gögnum málsins var það afstaða umhverfisráðuneytisins að frestur til að bera álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins undir hina sérstöku úrskurðarnefnd stæði til 7. júní 1997. Þrátt fyrir það gaf ráðuneytið út starfsleyfi til Norðuráls hf. á Grundartanga hinn 26. mars 1997. Til skýringar þessu vísaði ráðuneytið til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rakti settur umboðsmaður sjónarmið sem hafa bæri í huga við túlkun á 9. gr. stjórnsýslulaga. Taldi hann að eins og ákvæði mengunarvarnareglugerðar voru úr garði gerð hafi verið við því að búast að útgáfa á starfsleyfi til reksturs álvers tæki öðru jöfnu langan tíma. Að hans mati voru því engar réttlætanlegar ástæður fyrir hendi til að ljúka ekki þeirri málsmeðferð sem mælt væri fyrir um í mengunarvarnarreglugerð til undirbúnings að útgáfu starfsleyfisins áður en það var gefið út. Með útgáfu þess voru þeir sem hagsmuna áttu að gæta einnig sviptir þeim rétti að fá afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sínum endurskoðaða af hinni sérstöku úrskurðarnefnd. Þrátt fyrir framangreinda annmarka á málsmeðferð ráðuneytisins taldi settur umboðsmaður fremur litlar líkur á að þeir annmarkar yrðu taldir leiða til ógildingar starfsleyfisins í ljósi hinna veigamiklu hagsmuna starfsleyfishafa, aðkomu hans að málinu og eðli þeirra annmarka.

Þar sem umhverfisráðherra hafði þegar gefið út starfsleyfi til álversins að Grundartanga, sem umfjöllun úrskurðarnefndarinnar var ætlað að vera undirbúningur að, taldi settur umboðsmaður ekki ástæðu til athugasemda við að úrskurðarnefndin vísaði málinu frá sér eins og málum var þá komið.

I.

Hinn 20. október 1997 leitaði A formaður Veiðifélags Kjósarhrepps til umboðsmanns Alþingis og kvartaði f.h. veiðifélagsins yfir ýmsum atriðum er snertu veitingu starfsleyfis fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tel ég tilefni til að fjalla um eftirtalda þætti kvörtunar félagsins:

Í fyrsta lagi að fyrirsvarsmenn Veiðifélags Kjósarhrepps hafi fengið misvísandi svör við því frá stjórnvöldum hvort kæra mætti afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sem Veiðifélag Kjósarhrepps bar fram við tillögur að starfsleyfi álvers á Grundartanga.

Í öðru lagi að sérstök úrskurðarnefnd skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, hafi vísað frá kæru Veiðifélags Kjósarhrepps yfir tillögum Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga.

Loks að umhverfisráðherra hefði gefið út starfsleyfi hinn 26. mars 1997, enda þótt frestur sem gefinn var til að kæra tillögur Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi hefði ekki runnið út fyrr en 7. júní 1997.

Máli þessu var lokið með áliti, dags. 22. mars 2000.

II.

Gauki Jörundssyni, umboðsmanni Alþingis, var veitt tímabundið leyfi frá störfum frá 1. nóvember 1998. Frá sama tíma var Tryggvi Gunnarsson settur umboðsmaður Alþingis. Með bréfi til forseta Alþingis, dags. 20. nóvember 1998, vék Tryggvi Gunnarsson sæti í máli þessu. Með bréfi, dags. 7. janúar 1999, setti forseti Alþingis Pál Hreinsson til þess að fara með og leysa úr máli þessu, með vísan til 14. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.

III.

Hinn 6. nóvember 1996 birti Hollustuvernd ríkisins auglýsingu um starfsleyfistillögur fyrir Álverksmiðju Columbia Ventures Company, Grundartanga. Í auglýsingunni sagði m.a. svo:

„Í samræmi við ákvæði 63. gr. í 8. kafla mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sem valdið getur mengun, liggja frammi á afgreiðslutíma á hreppsskrifstofum Skilmannahrepps, Hagamel 16, Skilmannahreppi, og Hvalfjarðarstrandahrepps, Félagsheimilinu Hlöðum, Hvalfjarðarstrandahreppi, til kynningar frá 11. nóvember 1996, til 23. desember 1996, starfsleyfistillögur fyrir Álverksmiðju Columbia Ventures Company, Grundartanga. Tillögurnar verða einnig til sýnis í afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Akranessvæðis, Stillholti 16-18, Akranesi.

Skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögurnar skulu hafa borist Hollustuvernd ríkisins fyrir 23. desember 1996.

Rétt til að gera athugasemdir við starfsleyfistillögurnar hafa eftirtaldir aðilar:

1.Sá sem sótt hefur um starfsleyfi, svo og forsvarsmenn og starfsmenn tengdrar og nálægrar starfsemi.

2.Íbúar þess svæðis sem ætla má að geti orðið fyrir óþægindum vegna mengunar.

3.Opinberir aðilar, félög og aðrir þeir, sem málið varðar.“

Frestur til að skila athugasemdum vegna starfsleyfistillagna fyrir álverksmiðjuna var framlengdur með auglýsingu, sem birt var í Lögbirtingablaðinu hinn 20. desember 1996.

A bar fram athugasemdir f.h. Veiðifélags Kjósarhrepps við fyrrnefndar starfsleyfistillögur með bréfi til Hollustuverndar ríkisins, dags. 12. janúar 1997. Í athugasemdum A segir meðal annars svo:

„Stjórn Veiðifélagsins er sammála og tekur undir mótmæli hreppsnefndar Kjósarhrepps um staðsetningu fyrirhugaðs álvers á Grundartanga og vísar í þann kafla athugasemda hreppsnefndarinnar sem er á undan athugasemdum við almenn ákvæði.

Þá mótmælir stjórn Veiðifélagsins atriðum í umsögn markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar sem fram kemur í úrskurði umhverfisráðuneytisins dagsettum 21. júní 1996 um kæru hreppsnefndar Kjósarhrepps „Útlitsleg og tilfinningaleg mengun“ þar sem segir að í ljósi reynslu frá öðrum iðnaðarsvæðum sem rekin eru samkvæmt nútímakröfum verði ekki séð að svæðið sunnan Hvalfjarðar geti orðið fyrir mengunaráhrifum. Þessi fullyrðing markaðsskrifstofunnar er fráleit og staðlausir stafir því það er fleira mengun en eiturmengun. Sjónmengun er ein tegund mengunar og tilvist Járnblendiverksmiðjunnar hefur áþreifanlega valdið skaða við markaðsetningu Laxár í Kjós nú þegar, hvað þá ef komin væri álverksmiðja til viðbótar svo ekki sé nú talað um aðrar fimm verksmiðjur eins og áform eru uppi um í framtíðinni.

Varðandi að ekki verði séð nein rök eða tilefni til lækkunar á laxveiðihlunnindum eigenda Laxár skal bent á þá staðreynd að arðgreiðsla vegna veiðiréttar Laxár og Bugðu hefur lækkað um ca. 30% á síðastliðnum sjö árum og má rekja verulegan hluta þeirrar lækkunar til sjónmengunar og ótta um aðra mengun frá Járnblendiverksmiðjunni. Í ljósi þess sem að framan greinir áskilur Veiðifélagið sér rétt til skaðabóta fyrir hönd allra eigenda veiðiréttar á vatnasvæði Laxár og Bugðu bæði varðandi hugsanlega efnamengun og einnig sjónmengunar, þá áskilur veiðifélagið sér einnig rétt til skaðabóta ef mengunarslys verða á sjó eða annarri starfsemi sem fram fer á vegum hvort heldur sem er Járnblendiverksmiðjunnar eða væntanlegrar Álverksmiðju Columbia ...“

Á fundi stjórnar Hollustuverndar ríkisins hinn 21. febrúar 1997 var samþykkt tillaga að starfsleyfi fyrir álver Colombia Ventures Corporation á Grundartanga. Í fundargerð frá fundinum segir meðal annars svo:

„Lögð voru fram ný drög að starfsleyfi með breytingum sem gerðar höfðu verið miðað við athugasemdir frá síðasta fundi. Farið var yfir breytingar sem gerðar hafa verið á greinum 1.2, 1.4, 2.1.4, 2.1.6 og 2.1.10. ... Að loknum nokkrum umræðum um þessi atriði bar stjórnarformaður drög að starfsleyfi með áorðnum breytingum upp sem tillögu HVR að starfsleyfi til umhverfisráðherra. ... Niðurstaða stjórnar var sú: að allir stjórnarmenn nema [Y] lýstu yfir samþykki við afgreiðslu málsins samkvæmt framsetningu stjórnarformanns. ...“

Með bréfi, dags. 6. mars 1997, gerði Hollustuvernd ríkisins umhverfisráðherra grein fyrir afgreiðslu sinni á málinu. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Hjálagt sendist yður tillaga meirihluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir Norðurál á Grundartanga, ásamt greinargerð og fylgiskjölum. Tillagan og afgreiðslur á innsendum athugasemdum voru samþykktar á stjórnarfundi, haldinn þann 21. febrúar síðastliðinn, með fjórum atkvæðum gegn einu. Einnig var á ofangreindum fundi samþykkt bókun, með fjórum atkvæðum gegn einu, um brennisteinsdíoxíð og áskorun til umhverfisráðuneytisins að það beiti sér fyrir því að Íslendingar gerist aðilar að bókun frá árinu 1994 um takmörkun á losun brennisteins, samanber samning ECE um loftmengun sem berst á milli landa.“

Hinn 7. mars 1997 sendi Hollustuvernd ríkisins bréf til allra þeirra, sem gerðu athugasemdir við starfsleyfistillögur álvers á Grundartanga. Í bréfi til Veiðifélags Kjósarhrepps sagði meðal annars svo:

„Meðfylgjandi eru tillögur að starfsleyfi fyrir álver á Grundartanga samþykktar af meirihluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins, ásamt séráliti eins stjórnarmanns. Tillögurnar hafa verið endurskoðaðar og breytt í ljósi þeirra athugasemda sem bárust til Hollustuverndar ríkisins á kynningartíma starfsleyfistillagnanna.

Meðfylgjandi er einnig eftirfarandi:

1. Yfirlit Hollustuverndar ríkisins yfir athugasemdir við einstakar greinar og stutt svör við hverri athugasemd.

2. Yfirlit Hollustuverndar ríkisins yfir athugasemdir án tilvísunar í einstakar greinar og stutt svör við hverri athugasemd.

3. Afrit af auglýstum starfsleyfistillögum frá 11.11.1996.

4. Greinargerð með almennu yfirliti.

Allar athugasemdir eru númeraðar. Athugasemdir yðar eru nr. 14. Í ofangreindum yfirlitum eru athugasemdir flokkaðar eftir innihaldi og eftir tilvísun í einstakar greinar starfsleyfistillagnanna. Einnig er gefið tilvísunarnúmer við hverja athugasemd.

Afrit af öllum athugasemdum verða send til umhverfisráðherra.

Hver sá sem gerði athugasemdir við starfsleyfistillögur á meðan þær lágu frammi til kynningar og er ósáttur við afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sínum á rétt á því að kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar, samanber 2. grein reglugerðar nr. 26/1997 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994. Úrskurðarnefnd starfar skv. 26. grein laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.“

Í bréfi Hollustuverndar ríkisins til þeirra, sem borið höfðu fram athugasemdir við tillögur að skarfsleyfi álvers á Grundartanga, og hér að framan var rakið, var aðilum leiðbeint sérstaklega um rétt þeirra til að kæra tillögur stofnunarinnar að starfsleyfi álvers að Grundartanga til sérstakrar úrskurðarnefndar. Af þessu tilefni ritaði umhverfisráðuneytið Hollustuvernd ríkisins bréf, dags. 21. mars 1997, og hljóðar það svo:

„Í tilefni erindis yðar frá 6. þ.m. þar sem fylgir með tillaga meirihluta stjórnar stofnunarinnar um starfsleyfi fyrir Norðurál á Grundartanga tekur ráðuneytið fram að afgreiðsla stjórnar stofnunarinnar er úrskurður sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með áorðnum breytingum.

Í tilefni erinda stofnunarinnar frá 7. þ.m. til þeirra aðila, sem gerðu athugasemdir við starfsleyfisdrög, tekur ráðuneytið fram að frestur til þess að vísa málinu til úrskurðarnefndar, sbr. ofangreinda lagagrein, er til og með 7. júní n.k. sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Hinn 26. mars 1997 gaf umhverfisráðherra út starfsleyfi til Norðuráls hf. á Grundartanga. Umhverfisráðuneytið tilkynnti Norðuráli hf. um veitingu leyfisins með bréfi sama dag og hljóðar það svo:

„Hér með sendist yður starfsleyfi fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga gefið út í dag. Vakin er athygli á að heimilt er samkvæmt 26. gr. laga nr. 28/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, að vísa ákvörðun stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 21. febrúar 1997, sbr. bréf stofnunarinnar til ráðuneytisins, dags. 6. mars sl. til sérstakrar úrskurðarnefndar er starfar samkvæmt þeim lögum, sbr. 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. breytingu nr. 26/1997, með síðari breytingum. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar rennur út 7. júní 1997.

Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi sameiginlega yfirlýsingar fundar umhverfisráðuneytisins og Norðuráls hf. sem haldinn var í dag, þegar starfsleyfið var formlega afhent Norðuráli hf.

Norðuráli hf. ber að greiða Hollustuvernd ríkisins kr. 490.000,- vegna útgáfu og kynningu á skarfsleyfinu sbr., grein 6.1. í starfsleyfinu.“

Í framangreindu bréfi umhverfisráðuneytisins er vísað til „sameiginlegrar yfirlýsingar fundar umhverfisráðuneytisins og Norðuráls hf.“ frá fundi sem haldin var 26. mars 1997. Í yfirlýsingunni segir meðal annars svo:

„Á fundinum gerði ráðuneytið grein fyrir eftirfarandi:

1. Starfsleyfið er útgefið á grundvelli afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 21. febrúar 1997 með breytingum sem leyfið ber með sér og kynntar hafa verið fulltrúa Norðuráls hf.

2. Heimilt er samkvæmt 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, að vísa ákvörðun stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 21. febrúar 1997, sbr. bréf stofnunarinnar til ráðuneytisins dags. 6. mars sl., til sérstakrar úrskurðarnefndar er starfar samkvæmt þeim lögum, sbr. 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. breytingu nr. 26/1997, með síðari breytingum. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar rennur út 7. júní 1997. Ef fyrrgreindri ákvörðun er vísað til úrskurðarnefndar gæti ráðuneytið þurft að taka tillit til niðurstöðu nefndarinnar í samræmi við íslensk lög og stjórnsýsluhætti.

3. Starfsleyfið verður að sjálfsögðu borið undir íslenska dómstóla samkvæmt 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994.“

Hinn 6. júní 1997 bar A fram kæru f.h. Veiðifélags Kjósarhrepps við sérstaka úrskurðarnefnd skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, yfir tillögu Hollustuverndar ríkisins að skilmálum starfsleyfis Norðuráls hf. á Grundartanga. A bar einnig fram kæru sama dag við umhverfisráðuneytið, sem framsendi hana hinni sérstöku úrskurðarnefnd með bréfi, dags. 13. júní 1997.

Úrskurðarnefndin vísaði kæru Veiðifélags Kjósarhrepps frá nefndinni með úrskurði, dags. 11. júlí 1997. Í forsendum úrskurðarins segir meðal annars svo:

„Í 26. gr. l. 81/1988 er tekið fram að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, heilbrigðisreglugerðar, mengunarvarnareglugerðar, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga og ákvarðana heilbrigðisyfirvalda, sé heimilt að vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar. Séu aðilar ekki sáttir við úrskurð stjórnarinnar er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 26/1997, sem er breyting á 65. gr. reglugerðar nr. 48/1994, er m.a. nefnt að skriflegar athugasemdir skuli senda Hollustuvernd ríkisins. Stjórn stofnunarinnar skuli kanna málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og gera aðilum málsins grein fyrir áliti sínu innan tilskilins frests. Sætti aðilar sig ekki við það álit og náist ekki málamiðlun, er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar. Reglugerðarákvæðið er í 8. kafla reglugerðar nr. 48/1994, sem fjallar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur er getur haft í för með sér mengun, og á við í máli þessu. Samsvarandi ákvæði eldri reglugerðar eru frábrugðin að því leyti að ekki var gert ráð fyrir sérstökum úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins, heldur áliti ef í hlut áttu opinberar eftirlitsstofnanir, sveitarstjórnir eða umsækjandi sjálfur. Ef aðrir áttu í hlut komi stjórn Hollustuverndar ríkisins að málinu og kvað upp sérstakan úrskurð. Sættu aðilar sig ekki við úrskurðinn var heimilt skv. reglugerðarákvæðum að vísa málinu áfram til úrskurðarnefndar.

Eins og rakið er í 26. gr. l. 81/1988 er heimilt að skjóta ágreiningsmálum sem þar greinir til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar og síðan, að fengnum úrskurði hennar, til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar kjósi menn svo. Úrskurðarstigin eru samkvæmt þessu tvö og ljóst að ef hin sérstaka úrskurðarnefnd á að fjalla um málið verður fyrst að liggja fyrir úrskurður stjórnar Hollustuverndar ríkisins.

Reglugerð nr. 26/1997, sbr. eldri reglugerð nr. 48/1994 65. gr., gerir ráð fyrir annarri málsmeðferð og sú eldri raunar fyrir mismunandi aðferðum eftir því hver í hlut átti. Í nýrri reglugerðinni er gert ráð fyrir sérstöku áliti stjórnar Hollustuverndar ríkisins og síðar, ef ekki er á það fallist, málamiðlunartilraun, áður en ágreiningi er vísað til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar.

Draga verður í efa hvort reglugerð nr. 26/1997 hefur stoð í lögum, sbr. skýr fyrirmæli 26. gr. l. 81/1988. Það er þó ljóst af gögnum málsins að stjórn Hollustuverndar ríkisins hefur ekki kveðið upp úrskurð sbr. 26. gr. l. nr. 81/1988 né gefið Veiðifélagi Kjósarhrepps álit á andmælum hans. Ekki hefur heldur verið gerð tilraun til að miðla málum og þannig reynt að sætta þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum heilbrigðisnefndarinnar og eru andstæð tillögum að starfsleyfi fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga sbr. ákvæði reglugerðar nr. 26/1997. Er máli þannig í öllum tilvikum ekki réttilega afgreitt af stjórn Hollustuverndar ríkisins.

Við þetta bætist að framhald atburða hefur verið á þann veg að ráðherra umhverfismála hefur með bréfi, dags. 26.3.1997, gefið út starfsleyfi fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga á grundvelli afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 21.2.1997. Starfsleyfið er gefið út skv. ákvæðum 72. gr. reglug. nr. 48/1994 sem væntanleg á sér stoð í 4. mgr. 16. gr. l. 81/1988.

Við útgáfu starfsleyfisins er Norðurál hf. aðili að öllum þeim málum, þar sem mótmælt er, eða gerðar eru aðrar og þá væntanlega auknar kröfur til tillagna þeirra, sem Hollustuvernd ríkisins gerði og urðu grundvöllur starfsleyfis þess sem gefið var út af ráðherra umhverfismála þann 26.3.1997.

Ákvæði 26. gr. l. 81/1988 fela í sér að verkefni úrskurðarnefndar skv. greininni eru þau ein að taka til endurskoðunar úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Slíkur úrskurður liggur ekki fyrir í máli þessu. Þá er hvergi til þess ætlast að nefndin taki til endurskoðunar ákvarðanir ráðherra umhverfismála, enda fer hann með yfirstjórn mála l. 81/1988 skv. 4. gr. laganna og er raunar æðsti handhafi framkvæmdavaldsins að þessu leyti skv. l. 33/1944. Eins og máli þessu er nú komið hefur ráðherra þegar tekið ákvörðun og gefið út starfsleyfi til Norðuráls hf. til reksturs álvers á Grundartanga. Nefnd skv. 26. gr. l. 81/1988 getur ekki breytt eða hnekkt þeirri ákvörðun og skiptir þá heldur ekki máli að heimilt hafi verið, ef réttra aðferða hefði verið gætt, að vísa ákvörðun stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 21. 2. 1997 og tillögum hennar að starfsleyfi, til úrskurðarnefndarinnar en starfsleyfi Norðuráls hf. dags. 26.3. 1997 tekur til nánast allra atriða óbreyttra í tillögum stjórnar Hollustuverndar ríkisins.

Í samræmi við framansagt verður að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Máli [A] f.h. Veiðifélags Kjósarhrepps er vísað frá úrskurðarnefnd skv. 26. gr. l. nr. 81/1988.„

Hinn 6. júní 1997 ritaði Veiðifélag Kjósarhrepps stjórn Hollustuvernd ríkisins bréf og „kærði“ afgreiðslu hennar á athugasemdum félagsins.

Hinn 9. júlí 1997 svaraði Hollustuvernd ríkisins bréfi Veiðifélagi Kjósarhrepps og segir þar meðal annars svo:

„Vísað er til bréfs yðar, dags. 06.06.1997 til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, þar sem kærð er meðferð á athugasemdum við starfsleyfistillögur fyrir álver Norðuráls h.f. að Grundartanga. Stjórn Hollustuverndar ríkisins álítur að afgreiðsla hennar á starfsleyfistillögum til umhverfisráðherra að lokinni úrvinnslu innkominna athugasemda sé úrskurður í skilningi 26. gr. laga nr. 81/1988, um þá efnisþætti sem til umfjöllunar eru í erindi yðar. Málsmeðferð stjórnar Hollustuverndar ríkisins byggist ennfremur á 65. gr. mengunarvarnareglugerðar (nr. 48/1994 með breytingum skv. reglugerð 26/1997) og túlkun Umhverfisráðuneytisins skv. bréfi dags. 21.03.1997. Afgreiðsla stjórnar var því endanleg afgreiðsla stofnunarinnar.

Í ljósi framangreinds vísar stjórn Hollustuverndar ríkisins erindi yðar frá.“

IV.

Hinn 10. nóvember 1997 ritaði umboðsmaður Alþingis Hollustuvernd ríkisins bréf og óskaði eftir því að stofnunin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar Veiðifélags Kjósarhrepps, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þess var sérstaklega óskað að upplýst yrði, hvort stjórnin teldi álit sitt á athugasemdum veiðifélagsins hafa verið úrskurð í skilningi 26. gr. laga nr. 81/1988 og hvort stjórnin teldi málsmeðferð við umfjöllun um athugasemdir hans hafa verið í samræmi við 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 með síðari breytingum.

Svör Hollustuverndar ríkisins bárust með bréfi, dags. 16. desember 1997, og segir þar meðal annars svo:

„Stjórn Hollustuverndar ríkisins gerði tillögu til umhverfisráðherra um starfsleyfi fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga í samræmi við mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum. Stjórnin taldi að sér bæri að fara að ákvæðum mengunarvarnareglugerðar þótt einstakir stjórnarmenn settu fram efasemdir um að breyting á reglugerðinni nr. 26/1997 stæðist lög, sbr. hjálagða bókun [X] og [Y]. Í bréfi umhverfisráðuneytisins til stjórnar Hollustuverndar ríkisins dags. 21.03.1997, sem hjálagt fylgir, er tekið fram m.a. að „afgreiðsla stjórnar stofnunarinnar er úrskurður sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með áorðunum breytingum.“ Samkvæmt þessu sendi stjórn Hollustuverndar ríkisins tillögu að starfsleyfi til umhverfisráðherra og treysti því að það væri ígildi úrskurðar í skilningi 26. gr. laga nr. 81/1988 sem hægt væri að kæra til úrskurðarnefndar.

Stjórn Hollustuverndar ríkisins fól starfsmönnum stofnunarinnar að fara yfir þær athugasemdir sem bárust eftir að starfsleyfistillögurnar voru auglýstar. Haldnir voru fjölmargir fundir með aðilum á umsagnartímanum til að fá fram athugasemdir og reyna að ná málamiðlun. Sömu atriði komu fram í innsendum athugasemdum og var tekið tillit til fjölmargra þeirra við gerð endanlegrar tillögu að starfsleyfi, sem send var umhverfisráðherra. Athugasemdir bárust frá 54 aðilum og ákvað stjórnin að hverjum og einum yrði sent sams konar bréf þar sem fram kæmu svör við athugasemdum allra þar sem tilgreint var frá hverjum athugasemdin var. Með þessu móti taldi stjórnin að ákvæðum mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 með síðari breytingum um málsmeðferð væri fullnægt.“

Hinn 10. nóvember 1997 ritaði umboðsmaður Alþingis úrskurðarnefnd skv. 26. gr. laga nr. 81/1988 bréf og óskaði eftir því að hún skýrði viðhorf sín og léti honum í té gögn málsins, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þess var sérstaklega óskað að nefndin upplýsti, hvort hún teldi sig bæra til að úrskurða í ágreiningsmálum varðandi tillögur að starfsleyfum, sem umhverfisráðherra gæfi út.

Svör úrskurðarnefndarinnar bárust með bréfi, dags. 8. janúar 1998, og segir þar meðal annars svo:

„Úrskurðarnefndinni bárust níu erindi vegna starfsleyfis álvers Norðuráls h.f. á Grundartanga, Hvalfirði. Niðurstaða nefndarinnar vegna þeirra allra er efnislega hin sama og fram kemur í úrskurðum er varða [...] og Veiðifélag Kjósarhrepps. Í einu erindanna, þ.e. kærumáli nr. 14:1997, [...] gegn stjórn Hollustuverndar ríkisins, eru röksemdir og framsetning að nokkru ítarlegri. Nefndin leyfir sér að láta þann úrskurð fylgja í ljósriti og til áréttingar er vísað til forsendna hans.

Hvað síðari hluta bréfa yðar varðar þá hafa erindi, er varða ágreining um tillögur að starfsleyfum sem umhverfisráðherra gefur út, ekki borist til nefndarinnar og nefndin hefur því ekki tekið afstöðu til þess hvort hún sé bær til að úrskurða í slíkum málum. Nefndin er þó þeirrar skoðunar að á því hljóti að vera ýmsir annmarkar en hvorki lög nr. 81/1988 né reglugerðir settar með stoð í þeim lögum eru skýr að þessu leyti. Hins vegar er ekki fyrirfram hægt að útiloka að mál geti borið að með þeim hætti að eðlilegt sé að nefnd skv. 26. gr. l. 81/1988 geti verið bær til að úrskurða í ágreiningsmálum vegna tillagna að starfsleyfum sem gefin eru út skv. 72. gr. reglug. nr. 48/1994.“

Með bréfi, dags. 2. september 1997, óskaði umboðsmaður Alþingis eftir gögnum frá Hollustuvernd ríkisins vegna meðferðar annars máls er einnig laut að starfsleyfi álvers á Grundartanga. Umbeðin gögn bárust með bréfi, dags. 29. september 1997. Í bréfinu segir meðal annar svo:

„Tekið skal fram að gætt hefur verulegs mismunar milli aðila innan stjórnar Hollustuverndar annars vegar og umhverfisráðuneytisins hins vegar að því er lýtur að túlkun á stöðu og hlutverki stjórnarinnar við afgreiðslu starfsleyfa og þætti hennar varðandi athugasemdir og aðkomu að kærum og úrskurðum í því sambandi. Ennfremur hefur komið í ljós að túlkun sérstakrar úrskurðarnefndar skv. lögum nr. 81/1988 á ofangreindum atriðum samræmist ekki túlkun umhverfisráðuneytisins, sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins dags. 21.03.1997.“

Hinn 14. febrúar 1999 ritaði ég umhverfisráðherra bréf og óskaði þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti hans skýrði viðhorf sitt til kvörtunar Veiðifélags Kjósarhrepps. Ég óskaði þess sérstaklega að mér yrðu látin í té svör við eftirgreindum spurningum:

„1. Með 2. gr. reglugerðar nr. 26/1997, var gerð breyting á 65. gr. mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994. Þess er óskað að ráðuneytið skýri viðhorf sitt til þess, hvort það telji að skilja beri ákvæði 3. málsl. 65. gr. reglugerðar nr. 48/1994, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 26/1997, svo að aðila hafi verið heimilt að skjóta áliti stjórnar Hollustuverndar ríkisins á framkomnum athugasemdum hans við starfsleyfistillögur til úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988 og fá úrlausn nefndarinnar.

2. Þess er óskað að ráðuneytið skýri viðhorf sitt til þess, hvort líta hafi borið á slíkan „úrskurð“ úrskurðarnefndar, svo og álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins samkvæmt fyrrnefndu ákvæði, sem þátt í undirbúningi að ákvörðun ráðuneytisins um útgáfu á starfsleyfi.

3. Í bréfi umhverfisráðuneytisins, dags. 21. mars 1997, til Hollustuverndar ríkisins, kemur fram sú afstaða ráðuneytisins, að frestur til þess að vísa áliti stjórnar Hollustuverndar ríkisins, dags. 6. mars 1997, til úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, sé til og með 7. júní 1997, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með hliðsjón af þessu svo og ákvæðum 65. gr. fyrrnefndrar reglugerðar, er þess óskað, að umhverfisráðuneytið upplýsi af hvaða ástæðu og á grundvelli hvaða lagasjónarmiða ákveðið hafi verið að gefa út starfsleyfið hinn 26. mars 1997, þ.e. áður en nefndur kærufrestur svo og hinn þriggja vikna langi afgreiðslufrestur kærunefndarinnar skv. 4. málsl. 65. gr. var á enda runninn.“

Svör umhverfisráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 7. júní 1999, og segir þar meðal annars svo:

„I.

Áður en spurningum þeim, sem fram koma í bréfi yðar, verður svarað er rétt að taka fram eftirfarandi:

Í 1. mgr. 72. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. 30. gr. reglugerðar nr. 378/1994, var svo fyrir mælt að umhverfisráðherra gæfi út starfsleyfi fyrir starfsemi ef fjárfesting framkvæmda næði tiltekinni fjárhæð. Í þessum tilvikum skyldi Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna afgreiða starfsleyfistillögur til ráðuneytis, sbr. 2. og 3. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar. Skv. 71. gr. hennar var ráð fyrir því gert að Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna gæfu út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur í öðrum tilvikum en þeim þar sem krafist væri mats á umhverfisröskun.

Fyrrgreind fyrirmæli í 1. mgr. 72. gr. mengunarvarnareglugerðar áttu sér ekki beina stoð í lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Hins vegar hafði um árabil verið gengið út frá því að ráðherra gæfi út starfsleyfi fyrir stóriðjuver og sambærilega atvinnustarfsemi á grundvelli starfsleyfistillagna frá Hollustuvernd ríkisins eða heilbrigðisnefnd. Lítur ráðuneytið svo á að þessi skipan hafi stuðst við 4. mgr. 16. gr. laga nr. 81/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 70/1995, svo og við 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 81/1988 þar sem mælt var fyrir um yfirstjórn umhverfisráðuneytisins á sviði hollustuverndar og heilbrigðiseftirlits og yfirstjórn umhverfisráðherra yfir Hollustuvernd ríkisins.

Í lögum nr. 81/1988 var, sem fyrr segir, ekki beinlínis gert ráð fyrir því að ráðherra, sem fer með æðsta vald á sviði umhverfismála, gæfi út starfsleyfi fyrir stóriðjuver og sambærilega atvinnustarfsemi. Þannig hljóðaði 1. mgr. 26. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 70/1995: „Rísi upp ágreiningur um framkvæmd laga þessara, heilbrigðisreglugerðar, mengunarvarnareglugerðar, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga og ákvarðana heilbrigðisyfirvalda, annar en skv. 1.-2. tölul. 29. gr. og 31. gr., er heimilt að vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til úrskurðar. Séu aðilar ekki sáttir við úrskurð stjórnarinnar er heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskurðarnefndar, er starfar samkvæmt lögum þessum, sbr. 2. tölul. 30. gr.“

Hið tilvitnaða ákvæði var fyrst lögtekið með lögum nr. 50/1981. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 50/1981, er m.a. svo til orða tekið: „Gert er ráð fyrir því að vísa megi til Hollustuverndar ríkisins ágreiningi um framkvæmd laganna, hollustuverndarreglugerðar, mengunarvarnareglugerðar, hollustusamþykkta sveitarfélaga og ákvarðana hollustuyfirvalda ... Ennfremur er gert ráð fyrir því að vísa megi úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins til sérstakrar úrskurðarnefndar sem starfar skv. lögunum. Úrskurðar nefndin í öllum málum, nema skv. 29. gr. 1. og 2. töl. og skv. 31. gr., en þar hefur ráðherra fullnaðarúrskurðarvald. Ákvæðin um úrskurðarnefnd þessa eru nýmæli og kemur nefndin á margan hátt í stað ráðherra, og mun því létta af honum óvinsælum ákvarðanatökum.“ (Alþt. 1980-1981 A, þskj. 148, bls. 858.) Um síðastnefnt atriði segir svo nánar í athugasemdum með 30. gr. frumvarpsins, síðar 26. gr. laga nr. 81/1988: „Nefnd þessari, sem hér er lagt til að komið verði á fót, er ekki ætlað að kveða upp fullnaðarúrskurð í einu einasta máli. Á þann hátt verða mál ekki tekin undan almennum dómstólum. Hins vegar hefur reynslan sýnt að mörg mál koma upp vegna hins ríka afskiptaréttar heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna, sem leysa þarf á faglegan hátt og helst án afskipta pólitískra aðila, þ.e.a.s. ráðherra. Mætti hér nefna mál, sem mörg hafa hlotið úrlausn innan sveitarfélaganna sjálfra eða hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, en sum hver hafa gengið til ráðuneytisins og jafnvel dómstóla.“ (Alþt. 1980-1981 A, þskj. 148, bls. 872.)

Eins og áður segir var út frá því gengið að umhverfisráðherra hefði heimild til þess að gefa út starfsleyfi fyrir stóriðjuver og sambærilegan atvinnurekstur, svo sem fyrir var mælt um í 1. mgr 72. gr. mengunarvarnareglugerðar. Í 13. gr. stjórnarskrárinnar segir að ráðherrar framkvæmi vald forseta Íslands sem honum er fengið í 2. gr. hennar. Í 14. gr. stjórnarskrárinnar er ennfremur kveðið á um að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Þessi stjórnarskrárákvæði hafa verið skýrð svo að ráðherrar fari almennt með yfirstjórn hvers konar opinberrar sýslu, hver á sinu sviði, nema hún sé sérstaklega undanskilin í lögum, sbr. t.d. Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, 1. útg. bls. 131. Þetta hefur það í för með sér að ákvarðanir ráðherra verða því aðeins bornar undir önnur stjórnvöld, þ.m.t. sérstakar úrskurðarnefndir á sviði stjórnsýslunnar, að skýrt sé mælt fyrir um það í lögum. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 81/1988 sagði að væru aðilar ekki sáttir við úrskurð stjórnar Hollustuverndar ríkisins væri þeim heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar sem starfaði á grundvelli 2. mgr. 26. gr. laganna. Í 1. mgr. 26. gr. var ekki berum orðum kveðið á um það að unnt væri að bera ákvarðanir ráðherra, t.d. um að veita starfsleyfi, undir úrskurðarnefndina vegna fyrrgreindra ákvæða í stjórnarskránni um valdsvið ráðherra, verður að líta svo á að það hafi ekki verið mögulegt, sbr. niðurlag í úrskurði, uppkveðnum af hinni sérstöku úrskurðarnefnd 26. apríl 1997.

Í ljósi þessa væri eðlilegt að álykta svo sem að úr því að ákvörðun ráðherra um að gefa út starfsleyfi varð ekki borin undir hina sérstöku úrskurðarnefnd ætti heldur ekki að hafa verið unnt að bera undir nefndina afgreiðslu Hollustuverndar ríkisins á starfsleyfistillögum til ráðherra, sbr. 2. mgr. 72. gr. mengunarvarnareglugerðar. Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 81/1988 var hins vegar kveðið á um að almennt væri heimilt að vísa ágreiningsmálum um framkvæmd laganna og mengunarvarnareglugerðar til úrskurðarnefndarinnar. Frá þeirri reglu voru einungis gerðar tvær undantekningar í greininni, sbr. fyrrgreindar athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/1981.

Með reglugerð nr. 394/1996 var m.a. gerð sú breyting á 65. gr. mengunarvarnareglugerðar að ekki var gert ráð fyrir að afgreiðsla Hollustuverndar ríkisins á starfsleyfistillögum til ráðherra yrði borin undir hina sérstöku úrskurðarnefnd. Þessi breyting á reglugerðinni sætti harðri gagnrýni á Alþingi. (Alþt. 1996, umr., d. 2008 - 2011.) Í kjölfar þess og með hliðsjón af hinu fortakslausa ákvæði í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 81/1988 ákvað ráðherra að breyta 65. gr. mengunarvarnareglugerðar að þessu leyti í fyrra horf með reglugerð nr. 26/1997.

Þeirri réttaróvissu, sem skapaðist vegna misvísandi ákvæða í lögum nr. 81/1988 og reglugerð nr. 48/1994, hefur nú verð eytt með lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 6., 31. og 32. gr. laganna.

II.

Að teknu tilliti til þess, sem að framan segir, fylgja hér á eftir svör við spurningum yðar:

1. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að aðila máls hafi verið heimilt að bera starfsleyfistillögur Hollustuverndar ríkisins til ráðherra undir hina sérstöku úrskurðarnefnd, þ. á m. hafi Veiðifélagi Kjósarhrepps verið heimilt að skjóta áliti stjórnar Hollustuverndar á framkomnum athugasemdum þess við starfsleyfistillögur stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar. Með tilliti til stjórnskipulegrar stöðu ráðherra sem æðsta framkvæmdarvaldshafa á sviði umhverfismála lítur ráðuneytið svo á að úrlausn úrskurðarnefndar hefði, á sama hátt og tillögur Hollustuverndar, aðeins orðið ráðgefandi, en ekki skuldbindandi fyrir ráðherra.

2. Með vísun til þess, sem að framan segir, telur ráðuneytið að umfjöllun Hollustuverndar ríkisins, þ. á m. stjórnar stofnunarinnar, um umsókn um starfsleyfi, þ.m.t. gerð starfsleyfistillagna, hafi verið óhjákvæmilegur þáttur í undirbúningi að þeirri ákvörðun ráðherra að gefa út slíkt leyfi. Málskot til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar var ekki á sama hátt þáttur í undirbúningi að ákvörðuninni, eins og gerð verður grein fyrir hér á eftir.

3. Þegar endanlegar tillögur Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi lágu fyrir ákvað ráðherra að gefa út leyfið eftir að hafa kynnt sér tillögurnar og gert nokkrar breytingar á þeim. Ástæðan fyrir því að ekki var beðið niðurstöðu hinnar sérstöku úrskurðarnefndar var sú að sótt hafði verið um starfsleyfi fyrir Norðurál hf. í byrjun desembermánaðar [1995] og var því, þegar hér var komið [við] sögu, liðið eitt ár og rúmir þrír mánuðir frá því að það var gert. Eins og gefur að skilja voru miklir hagsmunir í húfi fyrir fyrirtækið, er átti sem umsækjandi beina aðild að málinu, að fá sem fyrst vitneskju um þau skilyrði, sem sett kynnu að verða fyrir veitingu starfsleyfis, vegna þess að þau gátu ráðið úrslitum um það hvort grundvöllur væri til rekstrar álvers á Grundartanga.

Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga 37/1993 segir orðrétt: „Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.“ Í samræmi við þessa meginreglu og í ljósi þess að niðurstaða úrskurðarnefndar yrði, sem fyrr segir, einungis ráðgefandi, en ekki skuldbindandi fyrir ráðherra, ákvað hann að gefa leyfið út áður en niðurstaða nefndarinnar lægi fyrir. Þess má geta að frestun málsins af þeim sökum hefði getað seinkað útgáfu leyfisins um allt að þrjá mánuði til viðbótar.

Þegar starfsleyfi var gefið út til handa Norðuráli hf. var sérstaklega tekið fram, af hálfu ráðherra, að skilmálar fyrir starfsleyfinu kynnu að taka breytingum að fenginni niðurstöðu hinnar sérstöku úrskurðarnefndar. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá fundi ráðuneytisins og Norðuráls hf. sem haldinn var 26. mars. 1997, segir þannig orðrétt: „Heimilt er samkvæmt 26. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, að vísa ákvörðun stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 21. febrúar 1997, sbr. bréf stofnunarinnar til ráðuneytisins dags. 6. mars sl., til sérstakrar úrskurðarnefndar er starfar samkvæmt þeim lögum, sbr. 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. breytingu nr. 26/1997, með síðari breytingum. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar rennur út 7. júní 1997. [Ef] fyrrgreindri ákvörðun er vísað til úrskurðarnefndar gæti ráðuneytið þurft að taka tillit til niðurstöðu nefndarinnar í samræmi við íslensk lög og stjórnsýsluhætti.“ Hjálagt fylgir umrædd yfirlýsing í heild sinni.

Að lokum er beðist velvirðingar á því hve lengi hefur dregist að svara bréfi yðar.“

A voru kynnt framangreind bréfaskipti og gerði hann athugasemdir við svör stjórnvalda f.h. Veiðifélags Kjósarhrepps með bréfum, dags. 10. mars 1998 og 28. júní 1999.

V.

Forsendur.

1. Kæruheimild til sérstakrar úrskurðarnefndar.

Í kvörtun Veiðifélags Kjósarhrepps kemur fram að fyrirsvarsmenn félagsins hafi fengið misvísandi svör við því frá stjórnvöldum hvort kæra mætti afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sem Veiðifélag Kjósarhrepps bar fram við tillögur að starfsleyfi álvers á Grundartanga til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum.

Í 1. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, var kveðið m.a. svo á að þeim lögum væri ætlað að tryggja landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði sem á hverjum tíma væru tök á. Með markvissum aðgerðum skyldi vinna að þessu með því að vernda þau lífsskilyrði, sem fælust í ómenguðu umhverfi, hreinu lofti, úti og inni og ómenguðu vatni. Í 4. mgr. 1. gr. laganna var sérstaklega tekið fram að með mengun væri átt við þegar örverur, efni og efnasamband ylli óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tæki einnig til óþæginda vegna ólyktar, hvers konar hávaða og titrings og varmaflæðis.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 81/1988 var það hlutverk Hollustuverndar ríkisins að gera tillögur um starfsleyfi og úrvinnslu gagna hvað snerti mengunarvarnir og gefa út starfsleyfi eftir því sem kveðið væri á um í mengunarvarnareglugerð. Af þessu ákvæði verður ráðið að löggjafinn hafi framselt ráðherra vald til þess að ákveða í mengunarvarnareglugerð til hvaða atvinnurekstrar Hollustuvernd ríkisins gerði tillögur um starfsleyfi annars vegar og gæfi út starfsleyfi hins vegar.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 81/1988 var m.a. tekið fram að til þess að stuðla sem best að framkvæmd mengunarvarna setti ráðherra mengunarvarnareglugerð. Í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna var tekið fram að í mengunarvarnareglugerð eða öðrum reglum skyldu vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft gæti í för með sér mengun. Í reglugerð skyldu m.a. vera ákvæði um staðarval, mengunarvarnir í einstökum atvinnugreinum og um rekstur og viðhald mengunarvarnaútbúnaðar.

Samkvæmt framansögðu hafði umhverfisráðherra lagaheimild til þess að mæla fyrir um málsmeðferð og undirbúning að útgáfu starfsleyfis fyrir atvinnurekstur sem haft gæti í för með sér mengun í mengunarvarnareglugerð. Rétt er hins vegar að taka fram að engin ákvæði í lögum nr. 81/1988 skylduðu ráðherra til þess að mæla svo fyrir að tillögur stjórnar Hollustuverndar ríkisins til ráðherra að starfsleyfi, svo og álit stjórnarinnar á athugasemdum við slíkar tillögur, ættu að vera kæranlegar til úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, enda verður að ganga út frá því að það hafi verið stjórnvaldsákvarðanir og aðrar endanlegar ákvarðanir sem kæranlegar voru til nefndarinnar skv. 26. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þótt ráðherra væri ekki skylt að mæla fyrir um slíka kæruheimild var honum það heimilt eins og nánar verður að komið hér á eftir, enda ráð fyrir því gert að stjórnsýslulög geymi lágmarksreglur sem ekki komi í veg fyrir að önnur lög og reglugerðir veiti borgurunum aukið réttaröryggi.

Þegar mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 var gefin út hinn 27. janúar 1994 hljóðaði 72. gr. hennar svo:

„Umhverfisráðherra gefur út starfsleyfi fyrir starfsemi þar sem krafist er mats á umhverfisröskun, sbr. 57. gr.

Hollustuvernd ríkisins afgreiðir endanlegar starfsleyfistillögur fyrir slíkan rekstur, sem upp er talinn í viðauka 7, til ráðuneytisins í samræmi við kynntar tillögur, úrskurð og/eða samkomulag vegna framkominna athugasemda, sbr. 62.-65. gr.

Heilbrigðisnefnd afgreiðir endanlegar starfsleyfistillögur fyrir atvinnurekstur, sem upp er talinn í viðauka 8 og fellur undir ákvæði 57. gr., til ráðuneytisins í samræmi við kynntar tillögur, úrskurð og/eða samkomulag vegna framkominna athugasemda, sbr. 69. og 70. gr.“

Í viðauka 7 var talinn upp sá atvinnurekstur sem Hollustuvernd ríkisins skyldi undirbúa starfsleyfi fyrir. Undir 2. tölul. viðauka 7 falla álver. Um málsmeðferð til undirbúnings útgáfu starfsleyfis álvers fór því samkvæmt 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar.

Ákvæði 65. gr. megnunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994, sem til var vísað í 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar hljóðaði svo:

„Skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skal senda Hollustuvernd ríkisins. Stofnunin kannar málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og lætur í ljós álit sitt. Sætt[i] aðilar málsins sig ekki við það álit og náist ekki málamiðlun, úrskurðar úrskurðarnefnd samkvæmt 30. gr. laga nr. 81/1988 ef í hlut eiga opinberar eftirlitsstofnanir, sveitarstjórnir eða umsækjandi. Eigi aðrir í hlut er heimilt að vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, og sætt[i] aðilar sig ekki við úrskurð hennar er heimilt að vísa áfram til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 81/1988.“

Með reglugerð nr. 378/1994, um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, var ákvæði 2. mgr. 72. gr. breytt og hljóðaði þá svo:

„Hollustuvernd ríkisins afgreiðir endanlegar starfsleyfistillögur fyrir atvinnurekstur sem fellur undir 1. mgr. og upp er talinn í viðauka 7, til ráðuneytisins í samræmi við kynntar tillögur, úrskurð og/eða samkomulag vegna framkominna athugasemda, sbr. 62. - 65. gr.“

Með reglugerð nr. 394/1996 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, var ákvæði 2. mgr. 72. gr. breytt og hljóðaði þá svo:

„Skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skal senda hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd. Heilbrigðisnefnd kannar málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og gefur álit sitt. Sætti aðilar máls sig ekki við álit heilbrigðisnefndar er heimilt að vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins og sætti aðilar sig ekki við álit hennar, áfram til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt lögum nr. 81/1988. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.“

Með reglugerð nr. 394/1996 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, var ákvæðum 65. gr. reglugerðarinnar einnig breytt og hljóðuðu þau svo eftir breytingarnar:

„65.1. Skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skal senda Hollustuvernd ríkisins. Stofnunin kannar málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og lætur í ljós álit sitt. Sætti aðilar málsins sig ekki við það álit og náist ekki málamiðlun, úrskurðar úrskurðarnefnd samkvæmt lögum nr. 81/1988 í málinu, enda sé um að ræða starfsleyfi sem Hollustuvernd ríkisins gefur út. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

65.2. Þar sem ráðherra gefur út starfsleyfi, sbr. 1. mgr. 72. gr., að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins, skal stofnunin gera nákvæma grein fyrir skriflegum athugasemdum við starfsleyfistillögur og hvernig stofnunin tekur á þeim hverri fyrir sig. Skal stofnunin sérstaklega tiltaka þær athugasemdir sem hún tekur ekki tillit til og færa rök fyrir því.“

Með reglugerð nr. 26/1997 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, voru enn á ný gerðar breytingar á 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar. Eftir breytingarnar hljóðaði málsgreinin svo:

„Stjórn Hollustuverndar ríkisins afgreiðir starfsleyfistillögur fyrir atvinnurekstur sem fellur undir 1. mgr. og upp er talinn í viðauka 7, til umhverfisráðherra, sbr. 62.-65. gr. innan fimm vikna frá því að frestur til að skila inn skriflegum athugasemdum við auglýsta starfsleyfistillögu rann út. Skal stjórn Hollustuverndar ríkisins gera grein fyrir skriflegum athugasemdum við starfsleyfistillögur og hvernig tekið er á þeim hverri fyrir sig. Skal sérstaklega tiltaka þær athugasemdir sem ekki er tekið tillit til og færa rök fyrir því.“

Með reglugerð nr. 26/1997 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, voru einnig gerðar breytingar á 65. gr. reglugerðarinnar. Eftir breytingarnar hljóðaði greinin svo:

„Skriflegar athugasemdir við starfsleyfistillögur skal senda Hollustuvernd ríkisins. Stjórn stofnunarinnar kannar málið í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafa komið og gerir aðilum málsins grein fyrir áliti sínu innan fimm vikna frá því frestur til að skila inn athugasemdum rann út. Sætti aðilar málsins sig ekki við það álit og náist ekki málamiðlun er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar sem starfar samkvæmt 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Skal nefndin kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur vikum eftir að málið barst til hennar. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.“

Þegar mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 var gefin út var gert ráð fyrir því að Hollustuvernd ríkisins afgreiddi starfsleyfistillögur, sem taldar voru í viðauka 7, til ráðuneytis, sbr. 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar. Af 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar er ljóst að Hollustuvernd ríkisins átti ekki að afgreiða frá sér endanlegar tillögur fyrr en náðst hefði samkomulag vegna framkominna athugasemda eða úrskurðir fallið um þær. Í 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar var vísað til 65. gr. reglugerðarinnar, þar sem svo var fyrir mælt að þegar aðrir ættu í hlut en opinberar eftirlitsstofnanir, sveitarstjórnir eða umsækjandi, mætti vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins og sætti aðili sig ekki við úrskurð hennar væri heimilt að vísa málinu áfram til úrskurðarnefndar.

Með reglugerð nr. 378/1994 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 var gerð breyting á 2. mgr. 72. gr. sem fól í sér áréttingu á að málsmeðferð samkvæmt málsgreininni ætti við þau starfsleyfi, sem um var fjallað í 1. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar.

Með reglugerð nr. 394/1996 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, var málsmeðferð breytt. Samkvæmt 2. mgr. 72. gr. reglugerðarinnar skyldi skriflegum athugasemdum nú komið á framfæri við heilbrigðisnefnd. Álit heilbrigðisnefndar mátti bera undir stjórn Hollustuverndar ríkisins og álit stjórnar mátti bera undir hina sérstöku úrskurðarnefnd. Með reglugerð nr. 394/1996 var jafnframt gerð breyting á 65. gr. reglugerðarinnar og var þar gerður greinarmunur á leyfum sem ráðherra gaf út og öðrum starfsleyfum. Með gagnályktun frá 2. mgr. 65. gr. reglugerðarinnar virðist hafa verið lagt til grundvallar að ekki væri hægt að kæra tillögu Hollustuverndar ríkisins til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar, sbr. bréf umhverfisráðuneytisins, dags. 7. júní 1999, sem rakið er í kafla IV hér að framan. Vandséð er hvernig sú skýring á ákvæðinu kemur heim og saman við ótvírætt ákvæði 2. mgr. 72. gr. reglugerðar nr. 48/1994, eins og henni var breytt með 11. gr. reglugerðar nr. 394/1996, en þar er tekið fram, eins og áður segir, að hægt sé að bera álit Hollustuverndar ríkisins á fram komnum athugasemdum undir hina sérstöku úrskurðarnefnd. Ber þar að hafa í huga að um leið og úrskurðarnefndin hóf efnislega umfjöllun um álit Hollustuverndar ríkisins á einstökum athugasemdum hlaut úrskurðarnefndin jafnframt að taka beint eða óbeint afstöðu til þeirra þátta starfsleyfistillagna Hollustuverndar ríkisins, sem athugasemdirnar vörðuðu.

Samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru á mengunarvarnareglugerðinni með reglugerð nr. 26/1997 skyldi skriflegum athugasemdum við starfsleyfistillögur nú beint til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, sem átti að láta álit sitt í ljós um þær. Áliti stjórnar Hollustuverndar ríkisins mátti síðan skjóta til hinnar sérstöku kærunefndar.

Með tilliti til orðalags ákvæða 2. mgr. 72. gr. og 65. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. reglugerð nr. 26/1997, þar sem rætt er um málskot á álitum en ekki stjórnvaldsákvörðunum, þykir mega fallast á það viðhorf umhverfisráðuneytisins að heimilt hafi verið að kæra álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins til hinnar sérstöku kærunefndar. Með tilliti til eðlis þess stjórnsýslugernings sem endurskoðun úrskurðarnefndarinnar laut að, þ.e. að óbindandi áliti, svo og stöðu ráðherra að íslenskri stjórnskipan, sbr. 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar, verður einnig að telja, að líta hafi átt á niðurstöðu hinnar sérstöku úrskurðarnefndar í slíkum málum sem lið í undirbúningi að ákvörðun ráðuneytisins um útgáfu á starfsleyfinu.

Í gögnum málsins kemur fram að stjórn Hollustuverndar ríkisins, umhverfisráðuneytið og hin sérstaka úrskurðarnefnd hafi haft ólík viðhorf til þess hvort telja bæri afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum Veiðifélags Kjósarhrepps álit eða úrskurð og hvort niðurstaða stjórnar Hollustuverndar ríkisins væri kæranleg til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar.

Eins og rakið hefur verið hér að framan voru breytingar á reglum um málsmeðferð og kæruheimildir í mengunarvarnareglugerð fremur tíðar og var síðasta breytingin gerð eftir að umfjöllun Hollustuverndar ríkisins um innsendar athugasemdir við starfsleyfistillögur um álver á Grundartanga var hafin. Þá var á tímabili innra ósamræmi í þessum ákvæðum mengunarvarnareglugerðarinnar sem vandskýrt hlaut að vera. Loks komu fram misvísandi skýringar stjórnvalda á því hvaða stöðu niðurstaða stjórnar Hollustuverndar ríkisins um innsendar athugasemdir hefði að lögum og hvort sú niðurstaða stjórnarinnar væri kæranleg til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar. Þessi stjórnarframkvæmd var ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, enda til þess fallin að draga úr réttaröryggi þeirra, sem áttu lögvarðra hagsmuna að gæta og töldu þörf á að tillögur að hlutaðeigandi starfsleyfi yrðu endurskoðaðar. Verður að harma að svo hafi til tekist. Gefur þetta að mínum dómi sérstakt tilefni til þess að árétta við umhverfisráðuneytið hversu þýðingarmikið það er fyrir réttaröryggi borgaranna að réttarreglur séu í senn aðgengilegar, einfaldar og skýrar, og ekki undirorpnar stöðugum breytingum.

Í bréfi umhverfisráðuneytisins til mín, dags. 7. júní 1999, er tekið fram, að þeirri réttaróvissu, sem skapast hafi vegna misvísandi ákvæða í lögum og mengunarvarnareglugerð hafi nú verið eytt með lögum nr 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en málsmeðferð við útgáfu starfsleyfa fyrir atvinnurekstur, sem haft getur í för með sér mengun, hefur nú verið breytt með þeim lögum. Tekið skal fram að í áliti þessu hefur engin afstaða verið tekin til þeirra laga.

2. Starfsleyfi fyrir álver var gefið út áður en kærufrestur til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar var liðinn.

Þá kvartar Veiðifélag Kjósarhrepps yfir því, að umhverfisráðherra hafi gefið út starfsleyfi fyrir álver á Grundartanga hinn 26. mars 1997, enda þótt frestur sem gefinn var til að kæra tillögur Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi hefði ekki runnið út fyrr en 7. júní 1997.

Hinn 7. mars 1997 sendi Hollustuvernd ríkisins bréf til allra þeirra, sem gerðu athugasemdir við starfsleyfistillögur álvers á Grundartanga. Í bréfi til Veiðifélags Kjósarhrepps sagði meðal annars svo:

„Hver sá sem gerði athugasemdir við starfsleyfistillögur á meðan þær lágu frammi til kynningar og er ósáttur við afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sínum á rétt á því að kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar, samanber 2. grein reglugerðar nr. 26/1997 um breytingu á mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994. Úrskurðarnefnd starfar skv. 26. grein laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.“

Hinn 21. mars 1997 ritaði umhverfisráðuneytið Hollustuvernd ríkisins bréf og sagði þar m.a. svo:

„Í tilefni erinda stofnunarinnar frá 7. þ.m. til þeirra aðila, sem gerðu athugasemdir við starfsleyfisdrög, tekur ráðuneytið fram að frestur til þess að vísa málinu til úrskurðarnefndar, sbr. ofangreinda lagagrein, er til og með 7. júní n.k. sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Umhverfisráðuneytið tók þannig afdráttarlaust af skarið um að frestur til þess að bera álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins á innsendum athugasemdum undir hina sérstöku úrskurðarnefnd stæði til 7. júní 1997. Eins og áður segir var bréf þetta ritað hinn 21. mars 1997. Einungis 5 dögum síðar, hinn 26. mars 1997, gaf umhverfisráðherra út starfsleyfi til Norðuráls hf. á Grundartanga.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 1999, óskaði ég þess að umhverfisráðuneytið upplýsti af hvaða ástæðu og á grundvelli hvaða lagasjónarmiða ákveðið hefði verið að gefa út starfsleyfið hinn 26. mars 1997, áður en nefndur kærufrestur svo og hinn þriggja vikna langi afgreiðslufrestur kærunefndarinnar skv. 4. málsl. 65. gr. mengunarvarnareglugerðarinnar var á enda runninn.

Svör umhverfisráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 7. júní 1999, og er bréfið rakið í heild í kafla IV hér að framan. Af hálfu ráðuneytisins er aðallega á því byggt að í marsmánuði 1997 hefði eitt ár og rúmir þrír mánuðir verið liðnir frá því að sótt hafði verið um starfsleyfið. Miklir hagsmunir hefðu verið í húfi fyrir umsækjanda og ef niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hefði verið beðið hefði mátt búast við allt að þriggja mánaða seinkun til viðbótar. Í ljósi þess að niðurstaða hinnar sérstöku úrskurðarnefndar hefði einungis orðið ráðgefandi fyrir ráðherra en ekki bindandi hefði verið ákveðið í samræmi við meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga að gefa starfsleyfið út áður en úrskurðarnefndin lyki umfjöllun sinni um málið. Á hinn bóginn hefði verið settur fyrirvari í starfsleyfið um að ráðuneytið kynni að þurfa að taka tillit til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í samræmi við íslensk lög og stjórnsýsluhætti.

Ýmsar stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á sviði umhverfisréttar, hafa þá sérstöðu í stjórnsýslurétti að þær snerta ekki einvörðungu umsækjanda um leyfi heldur oft mikilsverða hagsmuni nágranna og stundum íbúa stærri landssvæða. Slíkar ákvarðanir geta verið afdrifaríkar í þeim skilningi að þær eru ekki ávallt að fullu afturkræfar. Af þessum sökum hefur gætt tilhneigingar til þess í lögum og reglugerðum að gefa öðrum en umsækjanda um leyfi færi á að tjá sig um fyrirhugaðar framkvæmdir, sem haft geta áhrif á umhverfið og þannig varðað hagsmuni fleiri en umsækjanda.

Í samræmi við framangreind sjónarmið var svo fyrir mælt í 64. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 að rétt til að gera athugasemdir við starfsleyfistillögur hefðu eftirtaldir aðilar:

„1. Sá sem sótt hefur um starfsleyfi svo og forsvarsmenn og starfsmenn tengdrar eða nálægrar starfsemi.

2. Íbúar þess svæðis sem ætla má að geti orðið fyrir óþægindum vegna mengunar.

3. Opinberir aðilar, félög og aðrir þeir, sem málið varðar.“

Í kafla V-1 hér að framan hefur verið fjallað um þá málsmeðferð sem hafa bar við afgreiðslu á innsendum athugasemdum við starfsleyfistillögu. Eins og áður er vikið að var heimilt að kæra álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins til hinnar sérstöku kærunefndar. Í ljósi þeirra viðhorfa sem fram koma í kafla II.1. í bréfi umhverfisráðuneytisins til mín, dags. 7. júní 1999, er ég sammála umhverfisráðuneytinu um að niðurstöður hinnar sérstöku úrskurðarnefndar í slíkum málum hafi verið liður í undirbúningi að ákvörðun ráðuneytisins við útgáfu á starfsleyfinu. Eins og áður segir var ráðherra ekki skylt að koma þessu fyrirkomulagi á með mengunarvarnareglugerð en augljóst er að því hafi verið ætlað að auka réttaröryggi þeirra sem hagsmuna áttu að gæta við að fá endurskoðun á áliti stjórnar Hollustuverndar ríkisins á fram komnum athugasemdum við starfsleyfistillögur atvinnurekstrar sem haft gæti í för með sér mengun. Þótt þetta fyrirkomulag hafi ekki átt sér beina hliðstæðu og því verið óvenjulegt, er ljóst að umhverfisráðherra hafði næga heimild til að mæla fyrir um slíka endurskoðun á áliti stjórnar Hollustuverndar ríkisins á grundvelli 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Skal hér áréttað að umhverfisráðherra hefði auk þess getað komið upp svipuðu fyrirkomulagi á grundvelli óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttarins um frjálsa álitsumleitan.

Umsækjandi um leyfi á jafnan hagsmuni af því að afgreiðsla á máli hans taki sem skemmstan tíma. Nágrannar og aðrir þeir, sem orðið geta fyrir óþægindum af þeirri starfsemi sem starfsleyfi veitir heimild til, hafa hins vegar að öðru jöfnu einnig mikla hagsmuni af því að mál sé ítarlega rannsakað og að litið sé til allra málefnalegra sjónarmiða sem máli skipta við heildarmat á þeim hagsmunum, sem slík ákvörðun snertir. Vönduð málsmeðferð sem leggur grundvöll að samþættu og flóknu mati tekur að öllu jöfnu langan tíma. Það ræðst af reglum hverju sinni hvaða rétt aðrir en umsækjandi eiga við meðferð máls og hversu mikið aðkoma þeirra að málinu er til þess fallin að lengja þann tíma er málsmeðferð tekur. Þegar sett eru lög eða reglugerð, þar sem öðrum en umsækjanda er ljáður réttur til þátttöku við meðferð máls, fer ávallt fram ákveðið hagsmunamat á grundvelli framangreindra sjónarmiða - þeim mun meira svigrúm og fleiri réttarúrræði sem öðrum en umsækjanda eru fengin við meðferð máls, þeim mun lengri tíma tekur að öðru jöfnu að afgreiða slík mál.

Eins og áður segir var svo mælt fyrir í 2. tölul. 64. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, að íbúar þess svæðis sem ætla mætti að gætu orðið fyrir óþægindum vegna mengunar ættu rétt á að gera athugasemdir við starfsleyfistillögur. Í 65. og 2. mgr. 72. gr. mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. reglugerð nr. 26/1997, var mælt svo fyrir að stjórn Hollustuverndar ríkisins bæri að kanna þær athugasemdir sem fram kæmu og gera aðilum málsins grein fyrir áliti sínu innan fimm vikna frá því að frestur til að skila inn athugasemdum rynni út. Sættu aðilar málsins sig ekki við það álit og næðist ekki málamiðlun var heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Skyldi nefndin kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið væri og eigi síðar en þremur vikum eftir að mál bærist henni.

Þegar umhverfisráðuneytið gaf út starfsleyfi til reksturs álvers á Grundartanga hinn 26. mars 1997 hafði málið verið til meðferðar í eitt ár og rúma þrjá mánuði, sbr. bréf umhverfisráðuneytisins til mín, dags. 7. júní 1999. Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið svo á að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er tekið fram, að þar sem viðfangsefni, sem stjórnvöldum berast, séu mjög margvísleg taki úrlausn þeirra óhjákvæmilega misjafnlega langan tíma. Sum erindi séu þess eðlis að fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla þeirra muni taka nokkurn tíma. Eigi þetta t.d. við um mál þar sem afla þurfi umsagna annarra aðila svo og gagna (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3293). Í ákvæðinu felst í raun áskilnaður um að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Eins og framangreind ákvæði mengunarvarnareglugerðar voru úr garði gerð var við því að búast að útgáfa á starfsleyfi til reksturs álvers tæki að öðru jöfnu langan tíma og þá sér í lagi ef fram kæmu mótmæli við auglýsta tillögu að starfsleyfinu. Ég tel sérstaka ástæðu til að árétta hér, að ekki verður af meðferð málsins ráðið neitt um að stjórnvöld þau, sem undirbúa áttu málið í hendur umhverfisráðherra, hafi skýrlega neitað að rækja það hlutverk sitt eða ráðuneytið þurft að ganga ítrekað eftir því, þegar starfsleyfið var gefið út hinn 26. mars 1997. Engar réttlætanlegar ástæður voru því fyrir hendi til að ljúka ekki þeirri málsmeðferð, sem mælt var fyrir um í mengunarvarnareglugerð, til undirbúnings að útgáfu starfsleyfisins áður en það var gefið út. Með útgáfu starfsleyfisins áður en þessum undirbúningsathöfnum var lokið voru þeir, sem hagsmuna áttu að gæta, einnig sviptir þeim rétti að fá afgreiðslu stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum sínum endurskoðaða af hinni sérstöku úrskurðarnefnd, s.s. mengunarvarnareglugerð mælti fyrir um og nánar verður vikið að í næsta kafla. Þótt ráðuneytið hafi við útgáfu leyfisins gert þann fyrirvara að ráðuneytið gæti „þurft að taka tillit til niðurstöðu [úrskurðar]nefndarinnar í samræmi við íslensk lög og stjórnsýsluhætti“, eins og segir í sameiginlegri yfirlýsingu starfsleyfishafa og ráðuneytisins frá 26. mars 1997, skiptir sá fyrirvari ekki máli hér enda var málsmeðferð hinnar sérstöku úrskurðarnefndar ætlað að vera til undirbúnings að útgáfu leyfisins.

Samkvæmt framansögðu er það aðfinnsluvert að umhverfisráðuneytið skuli ekki hafi beðið afgreiðslu hinnar sérstöku úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, á kærum yfir tillögum Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi áður en starfsleyfi Norðuráls hf. á Grundartanga var gefið út.

Ekki nýtur við dómafordæmis um gildi starfsleyfis fyrir álver, sem gefið hefur verið út að undangenginni málsmeðferð sem haldin er þeim annmörkum, sem lýst hefur verið í áliti þessu. Í ljósi þeirra veigamiklu hagsmuna starfsleyfishafa, aðkomu hans að málinu svo og eðli framangreindra annmarka eru þó að mínum dómi fremur litlar líkur á að þessir annmarkar verði taldir leiða til ógildingar starfsleyfisins, verði málið borið undir dómstóla. Um það eiga þó dómstólar að sjálfsögðu endanlegt úrskurðarvald.

3. Frávísun hinnar sérstöku úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988 á kæru Veiðifélags Kjósarhrepps.

Loks kvartar Veiðifélag Kjósarhrepps yfir því, að sérstök úrskurðarnefnd skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, hafi vísað frá kæru hans á ákveðnum þáttum tillagna Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga.

Hinn 6. júní 1997 bar Veiðifélag Kjósarhrepps fram kæru við hina sérstöku úrskurðarnefnd yfir tillögu Hollustuverndar ríkisins að skilmálum starfsleyfis Norðuráls hf. á Grundartanga. Hin sérstaka úrskurðarnefnd vísaði kæru Veiðifélag Kjósarhrepps frá nefndinni með úrskurði, dags. 11. júlí 1997.

Eins og fyrr er vikið að var heimilt að kæra álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar og verður að líta svo á að niðurstöður hinnar sérstöku úrskurðarnefndar í slíkum málum hafi verið þáttur í undirbúningi að ákvörðun ráðuneytisins um útgáfu á starfsleyfinu. Eins og nánar er að vikið í kafla V-2 hér að framan var það aðfinnsluvert að umhverfisráðuneytið skyldi ekki hafa beðið afgreiðslu hinnar sérstöku úrskurðarnefndar á kærum yfir tillögum Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi álvers á Grundartanga áður en starfsleyfið var gefið út. Þar sem umhverfisráðherra hafði þá þegar gefið út starfsleyfi til álversins að Grundartanga, sem umfjöllun úrskurðarnefndarinnar var ætlað að vera undirbúningur að, verður ekki að því fundið að úrskurðarnefndin hafi vísað málinu frá sér, eins og málum var þá komið, enda ekki á því byggt í stjórnsýslurétti að málsmeðferð til undirbúnings útgáfu leyfis haldi áfram eftir að leyfið hefur verið gefið út.

VI.

Niðurstöður.

Það er niðurstaða mín, í tilefni af þeirri kvörtun, sem hér hefur verið fjallað um, að heimilt hafi verið að kæra álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins á athugasemdum við tillögur að starfsleyfi álvers Norðuráls hf. að Grundartanga til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum.

Í álitinu er rakið að breytingar á mengunarvarnareglugerð um málsmeðferð og kæruheimildir voru fremur tíðar og var síðasta breytingin gerð eftir að umfjöllun Hollustuverndar ríkisins á innsendum athugasemdum við starfsleyfistillögur um álver á Grundartanga var hafin. Þá var á tímabili innra ósamræmi í þessum ákvæðum mengunarvarnareglugerðarinnar sem vandskýrt hlaut að vera. Loks komu fram misvísandi skýringar stjórnvalda á því hvaða stöðu niðurstaða stjórnar Hollustuverndar ríkisins um innsendar athugasemdir hefði að lögum og hvort þessi niðurstaða stjórnarinnar væri kæranleg til hinnar sérstöku úrskurðarnefndar. Þessi stjórnarframkvæmd var ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, enda til þess fallin að draga úr réttaröryggi þeirra, sem áttu lögvarðra hagsmuna að gæta og töldu þörf á að tillögur að hlutaðeigandi starfsleyfi yrðu endurskoðaðar. Verður að harma að svo hafi til tekist. Gefur þetta að mínum dómi sérstakt tilefni til þess að árétta við umhverfisráðuneytið hversu þýðingarmikið það er fyrir réttaröryggi borgaranna að réttarreglur séu í senn aðgengilegar, einfaldar og skýrar, og ekki undirorpnar stöðugum breytingum.

Í bréfi umhverfisráðuneytisins til mín, dags. 7. júní 1999, er tekið fram, að þeirri réttaróvissu, sem skapast hafi vegna misvísandi ákvæða í lögum og mengunarvarnareglugerð, hafi nú verið eytt með lögum nr 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, en málsmeðferð við útgáfu starfsleyfa fyrir atvinnurekstur, sem haft getur í för með sér mengun, hefur nú verið breytt með þeim lögum. Tekið skal fram að í áliti þessu hefur engin afstaða verið tekin til þeirra laga.

Í álitinu er komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið aðfinnsluvert að umhverfisráðherra skyldi ekki hafi beðið afgreiðslu hinnar sérstöku úrskurðarnefndar skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, á kærum yfir tillögum Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi áður en starfsleyfi Norðuráls hf. á Grundartanga var gefið út.

Á hinn bóginn tel ég ekki efni til athugasemda við að hin sérstaka úrskurðarnefnd skv. 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, hafi vísað frá kæru Veiðifélags Kjósarhrepps á ákveðnum þáttum tillagna Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi fyrir álver Norðuráls hf. á Grundartanga, þar sem umhverfisráðherra hafði þá gefið út starfsleyfi til álversins að Grundartanga, sem umfjöllun úrskurðarnefndarinnar var ætlað að vera undirbúningur að.