Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Háskólar. Þjónustusamningur.

(Mál nr. 2830/1999)

A kvartaði yfir ráðningu í starf deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Í bréfi umboðsmanns til A voru ákvæði 1. mgr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt framangreindum ákvæðum gat starfssvið umboðsmanns aðeins náð til einkaaðila að því leyti sem þeim hefði að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kom fram í bréfinu að þótt starfssvið umboðsmanns kynni að ná til einkaaðila samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 við þá starfsemi sem teldist til meðferðar á opinberu valdi þá þyrfti það ekki að leiða til þess að ákvörðun slíkra einkaaðila um veitingu starfa fæli í sér meðferð á opinberu valdi. Því þyrfti að taka sérstaklega til athugunar hvort Listaháskóli Íslands væri stjórnvald þannig að ákvörðun um veitingu starfs hjá skólanum teldist til opinberrar stjórnsýslu í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Í bréfi umboðsmanns til A, dags. 29. febrúar 2000, var rakið að Listaháskóli Íslands væri sérstök sjálfseignarstofnun sem fengið hefði starfsleyfi til að veita æðri menntun. Var henni komið á fót með sérstakri skipulagsskrá. Kom fram í bréfi umboðsmanns að almennt teldust sjálfseignarstofnanir, sem komið væri á fót með sérstökum einkaréttarlegum gerningi, ekki vera stjórnvöld á vegum ríkis eða sveitarfélaga í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Á þessu kynnu að vera þröngar undantekningar og einnig kynni þeim að vera falið að fara með opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.

Umboðsmaður dró þá ályktun af gögnum málsins að Listaháskóli Íslands væri að miklu leyti fjármagnaður með framlögum frá ríkinu á grundvelli sérstaks þjónustusamnings. Giltu ákveðnar opinberar réttarreglur um starfsemi skólans og menntamálaráðherra hefði eftirlit með þeirri þjónustu er skólinn veitti á grundvelli laga nr. 136/1997, um háskóla, og framangreinds þjónustusamnings. Þrátt fyrir þetta var það niðurstaða umboðsmanns að við málsmeðferð og ákvörðun Listaháskóla Íslands við ráðningu í starf deildarforseta myndlistardeildar skólans hafi rektor og aðrir sem að þeirri ráðningu komu af hálfu skólans ekki farið með málið sem stjórnvald. Byggðist þessi niðurstaða fyrst og fremst á því að skólanum var komið á fót með einkaréttarlegum gerningi meðal annars með atbeina almenns félags. Mátti af lögum nr. 136/1997 ráða að stefnt hefði verið að auðvelda einkaaðilum að starfrækja menntastofnanir er veittu æðri menntun. Eftirlit menntamálaráðuneytisins gagnvart skólanum byggðist á þeim almennu valdheimildum er ráðuneytinu væri fengið til að hafa eftirlit með gæðum allrar háskólakennslu hvort sem hún væri veitt af einkaaðilum eða opinberum stofnunum. Menntamálaráðuneytið hefði ekki afgerandi áhrif á yfirstjórn eða daglegan rekstur skólans þar sem meirihluti stjórnar skólans væri kjörinn á aðalfundi félags um Listaháskóla Íslands. Þá kom fram í bréfi umboðsmanns að ekki yrði talið að heimild skólans til að ráða til sín starsfsmenn fæli í sér opinbert vald til töku ákvörðunar um réttindi og skyldur manna. Það var því niðurstaða umboðsmanns að ráðning deildarstjóra myndlistardeildar Listaháskóla Íslands félli ekki undir starfssvið hans samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997.