Tollívilnanir farmanna. Lagaheimild reglugerðar. Jafnræði.

(Mál nr. 654/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 23. nóvember 1993.

Launþegafélagið A kvartaði yfir setningu reglugerðar nr. 251/1992, um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum, einkasölugjald o.fl. Beindist kvörtun félagsins einkum að fjórum atriðum í reglugerðinni.

Í fyrsta lagi var því haldið fram af hálfu A, að með 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar væri afnuminn réttur áhafnar fars til tollfrjáls innflutnings samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, þ.e. á venjulegum farangri áhafnar. Í þessu reglugerðarákvæði er tekið fram, að flugliðar, farmenn og ferðamenn njóti ekki tollívilnunar samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum. Umboðsmaður taldi ekki, að fyrstnefnt reglugerðarákvæði, rétt skýrt, takmarkaði tollfrelsi á venjulegum og hóflegum farangri, sem ætlaður væri til eigin notkunar í fari af flugverjum. Með reglugerðinni hefði aftur á móti verið ákveðið, að flugverjar mættu hafa með sér til landsins varning umfram slíka muni, sbr. 20. tl. 6. gr. laga nr. 55/1987.

Í öðru lagi laut kvörtun A að því að með reglugerðinni væri flugverjum mismunað á þann veg, að heimildir þeirra til tollfrjáls innflutnings áfengra drykkja og tóbaksvara væru takmarkaðri en annarra farmanna (skipverja). Fram hafði komið af hálfu fjármálaráðuneytisins, að mismunur þessi byggðist á tíðari ferðum hinna fyrrnefndu. Umboðsmaður tók fram, að um væri að ræða lögleyfðar undanþágur frá almennnri tollskyldu. Við beitingu slíkra undanþáguheimilda bæri að gæta að almennum sjónarmiðum um jafnræði borgaranna og að mismunur þeirra á milli yrði að byggjast á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Hann taldi, að fyrrgreind sjónarmið gætu ekki talist ólögmæt og að þau ákvæði reglugerðar nr. 251/1992, sem byggðust á slíkum sjónarmiðum, ættu sér að þessu leyti næga lagastoð.

Í þriðja lagi var kvartað yfir rangri hugtakanotkun í reglugerðinni. Umboðsmaður taldi, að á það skorti, að um fullkomið samræmi væri að ræða að þessu leyti, og áleit rétt, að fjármálaráðuneytið bætti úr því við næstu endurskoðun reglugerðarinnar.

Í fjórða lagi kvartaði A yfir skyldu til skýrslugjafa um nýtingu á tollfrelsisheimildum. Það var skoðun umboðsmanns, að á grundvelli almennra sjónarmiða um tolleftirlit gætu tollyfirvöld krafist þess, að gerð væri skrifleg grein fyrir nýtingu undanþáguheimilda samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 19. apríl 1992 leitaði til mín launþegafélagið A og kvartaði yfir setningu reglugerðar nr. 251/1992, um tollfrjálsan farangur ferðamanna og farmanna við komu frá útlöndum, einkasölugjald o.fl. Beinist kvörtun félagsins einkum að eftirtöldum fjórum atriðum:

1) Með 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sé afnuminn réttur áhafnar fars til tollfrjáls innflutnings samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987.

2) Með reglugerðinni sé flugverjum og skipverjum mismunað, án þess að til grundvallar liggi málefnaleg sjónarmið.

3) Í reglugerðinni séu notuð röng hugtök. Þar sé hugtakið flugliði notað þeirrar merkingar, sem hugtakið flugverji hafi haft að lögum. Hugtakið flugliði sé á hinn bóginn eingöngu notað um áhafnarliða, sem sé handhafi fullgilds skírteinis og falið starf, sem nauðsynlegt sé við stjórn og starfrækslu loftfars meðan á fartíma stendur. Taki hugtakið því t.d. ekki til flugfreyja.

4) Án nægjanlegrar lagaheimildar sé áhöfn skylduð til þess að gefa upplýsingar um, hvenær tollfrjáls heimild hafi síðast verið nýtt.

A ritaði fjármálaráðherra bréf 9. ágúst 1992 og gerði honum grein fyrir afstöðu sinni til ofangreindra atriða. Svarbréf fjármálaráðuneytisins var dagsett 23. september 1992. Kom þar fram að ráðuneytið teldi ekki tilefni til að endurskoða gildandi reglugerð að sinni á þeim forsendum sem A byggði á.

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 26. janúar 1993 ritaði ég fjármálaráðherra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að fjármálaráðherra skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn þau, er málið snertu. Ég óskaði þess sérstaklega að tilgreind yrðu þau sjónarmið, er ráðuneytið taldi réttlæta þann mismun, sem gerður væri á skipverjum skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 annars vegar og flugáhöfnum skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar hins vegar.

Svar fjármálaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 11. maí 1993, en í því segir:

"Í bréfinu teljið þér kvörtun ofangreinds aðila berast að fjórum atriðum.

1. Afnuminn hafi verið réttur áhafnar fars með reglugerðinni, til tollfrjáls innflutnings skv. 4. tl. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987:

Í tilvitnuðu lagaákvæði segir:

"Auk þeirra vara sem tollfrjálsar eru samkvæmt beinum fyrirmælum í tollskrá skulu eftirtaldar vörur vera tollfrjálsar:

...

4. Venjulegur farangur áhafnar fars sem kemur hingað til lands frá útlöndum, enda sé að mati tollyfirvalds um hæfilegan fatnað og aðrar ferðanauðsynjar til eigin notkunar áhafnar í fari að ræða."

Hinn tilvitnaði töluliður 5. gr. laganna fjallar um heimildir áhafnar fars til að taka með sér nauðsynlegan búnað vegna farar og snertir ekki efni reglugerðarinnar. Reglugerðin er hins vegar sett með heimild í 20. tl. [6. gr.] laganna, sem heimilar ráðherra að víkja frá þeirri meginreglu að greiða skuli aðflutningsgjöld af innflutningi.

2. Með reglugerðinni sé flugliðum og skipverjum mismunað, án þess að til grundvallar liggi málefnaleg sjónarmið:

Eins og hin tilvitnuðu lög bera með sér er hin almenna regla sú að óheimilt er að flytja inn ótollaðan varning til landsins. Heimild sú sem reglugerðin byggir á er frávik frá hinni almennu reglu. Eins og hún er, felur hún í sér meiri ívilnun fyrir farmenn og áhafnir flugvéla en fyrir aðra borgara, sem ekki eru að jafnaði svo oft í förum. Sú breyting, sem gerð var á reglugerðinni, dregur úr þessari mismunun þó í litlu sé, en eykur hana ekki.

3. Röng hugtök notuð í reglugerðinni:

Samkvæmt tollalögum hefur verið litið svo á að reglugerð þessi taki til flugfreyja sem og annarra áhafnarmeðlima flugvéla. Hér virðist því gæta misskilnings.

Jafnframt skal vakin athygli á því að í reglugerðinni eru nú notuð þau sömu hugtök og voru í fyrri reglugerðum um sama efni, sem gilt hafa um langt skeið. Er ekki til þess vitað að notkun þessara hugtaka hafi valdið vafa eða skapað ágreining.

4. Áhöfn hafi verið skylduð til að gefa upplýsingar, án nægjanlegrar lagaheimildar:

Fundið er að því, að áhöfn sé gert að gefa upplýsingar um það hvenær tollfrjáls heimild hafi síðast verið nýtt. Er dregið í efa að tollalög heimili slíkt. Því er til svars, að ekki þarf sérstakra heimilda í lögum til þeirrar framkvæmdar, sem að framan getur. Sú heimild til tollfrjáls innflutnings sem fellst í reglugerðinni er bundin ákveðnum skilyrðum og er það skylda tollyfirvalda að fylgjast með því hvort þau skilyrði eru uppfyllt. Það er jafnframt skylda þeirra sem notfæra sér heimildina að hlíta þessum skilyrðum og að veita yfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar þar að lútandi. Sé það ekki gert er ekki unnt að veita heimild þessa.

Eins og að framan greinir er það mat ráðuneytisins að reglugerð þessi sé í fyllsta samræmi við gildandi lög. Þær breytingar, sem gerðar voru á henni, frá því sem í gildi hefur verið á undanförnum árum eru óverulegar og miða að því að auka jafnræði í þessu efni.

..."

Hinn 13. maí 1993 gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf fjármálaráðuneytisins. Mér var síðan tilkynnt 21. maí 1993 af fyrirsvarsmanni félagsins, að það sæi ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við skýringar ráðuneytisins.

III.

Í bréfi til fjármálaráðherra 15. júní 1993 ítrekaði ég þá beiðni mína frá 26. janúar 1993, að fjármálaráðuneytið tilgreindi sérstaklega þau sjónarmið, sem það teldi réttlæta þann mismun, sem gerður væri á heimildum skipverja samkvæmt 2. og 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 annars vegar og flugáhafna skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar hins vegar. Skýringar fjármálaráðuneytisins bárust mér með bréfi ráðuneytisins 14. júlí 1993. Þar segir:

"Að því er varðar fyrirspurn yðar vill ráðuneytið taka fram að umræddur mismunur á milli skipverja og flugliða er til kominn vegna þess að flugliðar fara að öllu jöfnu oftar til og frá landinu en skipverjar. Eins og áður hefur komið fram er þessi heimild til að flytja inn til landsins vörur án greiðslu aðflutningsgjalda, háð því að um sé að ræða innflutning til einkaneyslu viðkomandi farmanna, en ekki hlunnindi umfram það. Mikið ójafnræði felst hins vegar í því að flugliði sem fer utan og heim aftur t.d. fjórum sinnum á innan við 15 dögum geti tekið með sér tollfrjálst áfengi og tóbak í fjórum sinnum meira magni en skipverji sem siglir utan og heim aftur einu sinni á sama tímabili."

Hinn 19. júlí 1993 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af ofangreindu bréfi fjármálaráðuneytisins. Athugasemdir félagsins bárust mér með bréfi þess 4. ágúst 1993.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í áliti mínu, dags. 23. nóvember 1993, sagði meðal annars svo:

"1. Heimild áhafna loftfara til tollfrjáls innflutnings

Í fyrsta lagi er kvartað yfir því, að með 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 251/1992 hafi réttur áhafnar fars skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 55/1987 til tollfrjáls innflutnings verið afnuminn. Í ákvæðinu er tekið fram, að "flugliðar, farmenn og ferðamenn" njóti ekki tollívilnunar samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar "...oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum."

Í 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 segir:

"Auk þeirra vara sem tollfrjálsar eru samkvæmt beinum fyrirmælum í tollskrá skulu eftirtaldar vörur vera tollfrjálsar:

[...]

4. Venjulegur farangur áhafnar fars sem kemur hingað til lands frá útlöndum, enda sé að mati tollyfirvalds um hæfilegan fatnað og aðrar ferðanauðsynjar til eigin notkunar áhafnar í fari að ræða."

Ákvæði þetta kom fyrst í lög með lögum nr. 62/1939 um tollskrá o.fl. Í 2. gr. laganna voru tilgreindar þær vörur, sem undanþegnar voru aðflutningsgjöldum. Í d-lið greinarinnar sagði:

"Vanalegur farangur starfsmanna á farartækjum, sem koma hingað til lands frá útlöndum, en það gildir sem almenn regla, sem fjármálaráðuneytið getur gert undantekning frá með reglugerðarákvæðum eða fyrirmælum í svipuðu formi, að með vanalegum farangri nefndra starfsmanna er átt við fatnað og aðrar nauðsynjar, sem tilheyra skipverjum á skipum og starfsmönnum á öðrum farartækjum, sem koma hingað til lands frá útlöndum, að svo miklu leyti sem tollstarfsmenn telja farangur þennan til eigin nota skipverjanna sjálfra eða starfsmanna í skipinu eða farartækinu."

Af orðalagi 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 er ljóst, að þar er einungis kveðið á um tollfrelsi venjulegs farangurs, s.s. fatnaðar og annarra ferðanauðsynja, sem ætlaðar eru til eigin notkunar í fari.

Í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 251/1992 er tekið fram, að "flugliðar, farmenn og ferðamenn" njóti ekki tollaívilnunar samkvæmt 1. og 2. gr. reglugerðarinnar oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um það, að auk fatnaðar og ferðabúnaðar, sem "flugliðar" hafi haft með sér héðan til útlanda, sé þeim heimilt að koma með hingað til lands varning fyrir 12.000 kr. án greiðslu aðflutningsgjalda, hafi þeir verið skemur en 15 daga í ferð, en fyrir 24.000 kr. fyrir lengri ferð. Í 2. gr. reglugerðarinnar er síðan kveðið á um það magn af áfengum drykkjum og tóbaksvörum, sem áhöfnum er heimilt að hafa meðferðis án greiðslu aðflutningsgjalda.

Að framansögðu athuguðu verður ekki talið, að rétt skýrð fyrirmæli 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 takmarki tollfrelsi á venjulegum og hóflegum farangri, svo sem fatnaði og öðrum ferðanauðsynjum, sem ætlaðar eru til eigin notkunar í fari af flugverjum. Með reglugerðinni hefur aftur á móti verið ákveðið, að flugverjar megi hafa með sér til landsins varning "umfram þá muni sem greinir í 4. og 5. tölul. 5. gr., enda sé ekki um innflutning í atvinnuskyni að ræða", eins og segir í 20. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987, sem umrædd reglugerð á sér meðal annars stoð í, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar.

2. Mismunun við tollfrjálsan innflutning

Í öðru lagi lýtur kvörtun A að því, að með reglugerð nr. 251/1992 sé flugverjum mismunað með þeim hætti, að heimildir þeirra til tollfrjáls innflutnings séu takmarkaðri en annarra farmanna.

Reglugerð nr. 251/1992 er sett með heimild í 4. og 5. tölul. 5. gr. og 20. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 63/1969 um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Í 20. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 segir:

"Ráðherra er heimilt:

...

20. Að fella niður toll af varningi, allt að ákveðnu hámarki hverju sinni, sem farmenn og ferðamenn hafa meðferðis frá útlöndum, umfram þá muni sem greinir í 4. og 5. tl. 5. gr., enda sé ekki um innflutning í atvinnuskyni að ræða. Undanþágu þessa má takmarka við ákveðna vöruflokka eða hámarksverðmæti tiltekinna vörutegunda. Að öðru leyti gilda ekki aðrar innflutningshömlur um slíkan varning en settar eru vegna sóttvarna eða annarra öryggisráðstafana."

Með lögum nr. 102/1965 um breyting á lögum nr. 7 29. apríl 1963, um tollskrá o.fl. var aukið nýjum lið við 3. gr. laga nr. 7/1965 og var fjármálaráðherra þá í fyrsta sinn heimilt:

"Að fella niður með reglugerð aðflutningsgjöld af varningi, allt að ákveðnu hámarki hverju sinni, sem farmenn og ferðamenn hafa meðferðis frá útlöndum, umfram þá muni, sem greinir í 4. og 5. tölulið 2. gr., enda sé ekki um verzlunarvöru eða annan innflutning í atvinnuskyni að ræða. Undanþágu samkvæmt næstu málsgrein hér á undan má binda skilyrðum varðandi tollmeðferð varningsins, enn fremur um, að hún nái ekki til ákveðinna vöruflokka eða sé takmörkuð við sérstakt hámark vissra vörutegunda. Að öðru leyti gilda ekki innflutningshömlur um slíkan varning aðrar en þær, sem settar eru vegna sóttvarna eða annarra öryggisráðstafana."

Í athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 102/1965, kemur fram, að ekki hafi áður verið í lögum heimild fyrir fjármálaráðherra til þess að heimila tollfrjálsan innflutning. Hafi slíkt verið nauðsynlegt, m.a fyrir tollyfirvöld til þess að tryggja markvissari framkvæmd, en innflutningur þessi hafi í raun verið bannaður. (Alþt. 1965, A-deild, bls. 656.) Í framsöguræðu fjármálaráðherra um frumvarpið er ennfremur lýst þörfinni fyrir lagaheimild til þess að heimila ferðamönnum og farmönnum "á sjó og í lofti" tollfrjálsan innflutning. Tekið er fram, að nauðsynlegt sé að skerða þær heimildir, sem látnar hafa verið átölulausar, og að heimildin sé höfð svo takmörkuð sem frekast sé auðið. (Alþt. 1965, B-deild, dálk. 445 og 446.)

Í 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 er fjallað um heimildir ferðamanna, skipverja á íslenskum skipum og flugáhafna til innflutnings á áfengum drykkjum og tóbaksvörum, án greiðslu aðflutningsgjalda. Í A-lið ákvæðisins er fjallað um áfenga drykki. Í 1. tölul. 1. mgr. A-liðar er fjallað um innflutning ferðamanna. Þá er í 2. tölul. fjallað um skipverja á íslenskum skipum og erlendum skipum í leigu íslenskra aðila og með íslenskum áhöfnum, sem eru 15 daga eða lengur í ferð. Er þeim heimilt að hafa með sér til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda 1,5 lítra af sterku áfengi og 3 lítra af léttu; eða 1,5 af sterku og 24 lítra af erlendu öli eða 32 lítra af innlendu öli. Í 3. tölul. er fjallað um skipverja, sem eru skemur en 15 daga í ferð. Er þeim heimilt að hafa með sér til landsins helming þess magns áfengra drykkja, sem tilgreindir eru í 2. tölul. ákvæðisins. Um flugáhafnir er fjallað í 4. og 5. tölul. 1. mgr. A-liðar 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992. Í 4. tölul. er tekið fram, að flugáhafnir, þ.m.t. aukaáhafnir, er hafi skemmri útivist en 15 daga, sé heimilt að hafa með sér 0,375 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttu; eða 0,375 lítra af sterku og 3 lítra af erlendu öli eða 4 lítra af innlendu öli; eða 0,75 lítra af léttu áfengi og fyrrgreint magn af innlendu eða erlendu öli. Flugáhöfnum, sem hafa 15 daga samfellda útivist eða lengri, er heimilt að hafa með sér til landsins tollfrjálst 1 lítra af sterku áfengi og 0,75 lítra af léttu; eða 1 lítra af sterku og 6 lítra af erlendu öli eða 8 lítra af innlendu; eða 0,75 lítra af léttu og fyrrgreint magn af öli.

Reglugerð nr. 251/1992 leysti af hólmi reglugerð nr. 55/1991 um sama efni. Með reglugerð nr. 251/1992 var sú breyting gerð á ofangreindum innflutningi, að flugáhöfnum, er hefðu skemmri útivist en 15 daga, var heimilað að hafa með sér til landsins helming þess magns af öli, sem heimilt var samkvæmt reglugerð nr. 55/1991. Í B-lið 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 er fjallað um innflutning framangreindra aðila á tóbaki, án þess að þurfa að greiða tolla af því. Eru reglurnar óbreyttar frá fyrri reglugerðum. Þá er ennfremur að finna í 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 heimild fyrir yfirmenn á farþega- og vöruflutningaskipum til að taka aukalega áfengi og tóbak til risnu. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 251/1992 njóta "flugliðar, farmenn og ferðamenn" ekki tollaívilnunar samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum.

Samkvæmt 20. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 er fjármálaráðherra heimilt að "... fella niður toll af varningi, allt að ákveðnu hámarki hverju sinni, sem farmenn og ferðamenn hafa meðferðis frá útlöndum, umfram þá muni sem greinir í 4. og 5. tölul. 5. gr...." Með 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 hefur fjármálaráðherra nýtt þessa heimild. Almennt verður við það að miða, að við beitingu undanþáguheimilda af því tagi, sem hér um ræðir, sé gætt almennra sjónarmiða um jafnræði borgaranna og að mismunur þeirra á milli sé byggður á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Að því er varðar mál það, sem hér er til umfjöllunar, verður að gera ráð fyrir því, að þær starfsstéttir, sem hér eiga hlut að máli, dvelji almennt mislengi í ferðum sínum til og frá landinu. Ennfremur að misoft sé farið í slíkar ferðir og að þessu sé jafnvel hagað með mismunandi hætti innan sömu starfsstéttar. Af bréfi fjármálaráðuneytisins 14. júlí 1993, sem rakið er í III. kafla, verður ráðið, að sá mismunur, sem er á heimildum skipverja og "flugliða" til innflutnings áfengra drykkja og tóbaksvara, án greiðslu aðflutningsgjalda, sé byggður á þeim sjónarmiðum, að "flugliðar" fari "... að öllu jöfnu oftar til og frá landinu en skipverjar". Það er skoðun mín, að framangreind sjónarmið geti ekki talist ólögmæt og að undanþáguheimildir 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 og takmörkun hennar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar eigi sér að þessu leyti nægilega lagastoð. Tel ég ekki ólögmætt, þótt í reglugerðinni sé tekið mið af því, hvernig ferðum starfsmanna í umræddum stéttum sé almennt háttað.

3. Notkun hugtaka.

Í 4. tölul. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 er talað um "áhafnir fars", sem hingað komi til lands frá útlöndum. Þá er í 20. tölul. 6. gr. tollalaganna talað um að fella niður toll af varningi, sem "farmenn" hafi meðferðis frá útlöndum. Eins og rakið er í 1 og 2 hér á undan, hafa framangreind hugtök komið í tollalöggjöf á mismunandi tíma. Almennt verður þó ráðið, að hugtök þessi séu skýrð nokkuð rúmt, þannig að þau taki til stjórnenda og annarra manna í áhöfn fars, hvort sem er "á sjó eða í lofti". Í samræmi við ofangreinda orðanotkun er í 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 fjallað annars vegar um flugáhafnir og hins vegar skipverja, eftir því um hverskonar far er að ræða. Á hinn bóginn er þessari orðanotkun ekki haldið í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 251/1992, þar sem talað er um "flugliða, farmenn og ferðamenn". Það er skoðun mín, að rétt sé að samræma ofangreinda orðanotkun þannig að haldið sé eins nákvæmu orðalagi og unnt er. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um það í áliti þessu, hvort framangreind orðanotkun sé í samræmi við lög nr. 34/1964 um loftferðir eða reglugerðir settar með stoð í þeim lögum.

4. Skylda áhafnar til þess að gefa upplýsingar um, hvenær heimild til tollfrjáls innflutnings hafi síðast verið nýtt.

Loks lýtur kvörtun A að því, að áhöfn í flugfari sé gert að tilgreina á sérstöku eyðublaði ríkistollstjóra þær vörur, sem ætlunin er að flytja til landsins. Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 251/1992 segir meðal annars:

"Við tollafgreiðslu aðkomufars skal sérhver farmaður gera tollgæslunni skriflega grein fyrir öllum varningi sem hann hefur fengið erlendis eða í ferðinni, hvort sem hann er tollskyldur eða ekki og eins þótt sá varningur kunni að vera háður innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni."

Það er skoðun mín, að á það verði að fallast með fjármálaráðuneytinu, að á grundvelli almennra sjónarmiða um tolleftirlit geti tollyfirvöld krafist þess, að gerð sé skrifleg grein fyrir því, hvernig undanþáguheimild 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992 sé nýtt. Er því að mínum dómi ekki tilefni til þess, að ég fjalli frekar um þennan lið kvörtunar A."

V. Niðurstaða.

Niðurstöður álits mins dró ég saman á svofelldan hátt:

"Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að fyrirmæli 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 251/1992 takmarki ekki tollfrelsi á venjulegum og hóflegum farangri flugáhafna, svo sem fatnaði og öðrum ferðanauðsynjum, sem flugverjar ætla til eigin notkunar í fari. Þá er það skoðun mín, að sá mismunur, sem er á heimildum flugáhafna og skipverja til innflutnings vara samkvæmt 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 251/1992, sé ekki byggður á ólögmætum sjónarmiðum. Ennfremur er það skoðun mín, að ekki sé fullkomið samræmi í notkun hugtaka í reglugerð nr. 251/1992 um þær starfsstéttir, er hafi heimild til tollfrjáls innflutnings á grundvelli 4. tölul. 5. gr. og 20. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987. Tel ég rétt, að fjármálaráðuneytið samræmi notkun umræddra orða við næstu endurskoðun reglugerðar nr. 251/1992. Loks er það skoðun mín, að tollyfirvöld geti krafist þess, að gerð sé skrifleg grein fyrir því, hvernig nýtt sé undanþáguheimild 20. tölul. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr 2. gr. reglugerðar nr. 251/1992."