Hæfi. Örorkunefnd. Sérstakt hæfi.

(Mál nr. 2614/1998)

A kvartaði yfir áliti örorkunefndar um miskastig og örorkustig hans og ákvörðunum nefndarinnar um að synja tveimur beiðnum B, héraðsdómslögmanns, fyrir hönd hans um að málið yrði tekið upp að nýju. Í tilefni af kvörtun A ákvað umboðsmaður Alþingis að taka til athugunar hæfi nefndarmanna í örorkunefnd til að fjalla um síðari endurupptökubeiðni B.

Að áliti örorkunefndar og ákvörðunum nefndarinnar um að synja beiðnum B um endurupptöku málsins stóðu C, hæstaréttarlögmaður, og D og E, læknar. Í málinu var upplýst að F, héraðsdómslögmaður, var bróðir D nefndarmanns í örorkunefnd. Lá fyrir að F átti lögmannsstofu í sameignarfélagi með B og hafði tekið að sér að gæta hagsmuna A á meðan B var í sumarleyfi. Aflaði F í fjarveru B gagna um heilsufar A, sem síðar lágu fyrir örorkunefnd og vísað var til í áliti nefndarinnar.

Umboðsmaður tók fram að um hæfi nefndarmanna í örorkunefnd giltu reglur um sérstakt hæfi dómara, sbr. 2. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Um hæfi nefndarmanna færi því eftir 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt e-lið 5. gr. væri dómari vanhæfur til að fara með mál ef hann tengdist eða hefði tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda aðila með þeim hætti sem segði í d-lið sömu greinar, en þar kæmi fram að dómari væri vanhæfur til að fara með mál ef hann væri eða hefði verið maki aðila eða skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðilar með sama hætti vegna ættleiðingar. Taldi umboðsmaður með vísan til ofangreindra reglna að D hefði verið vanhæfur til að standa að ákvörðun um endurupptökubeiðni B fyrir hönd A vegna tengsla F við málið. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til örorkunefndar að nefndin tæki nýja ákvörðun í málinu kæmi fram ósk um það frá A.

I.

Hinn 2. desember 1998 leitaði til mín A, og kvartaði yfir áliti örorkunefndar, dags. 12. maí 1997, um ákvörðun miskastigs og örorkustigs hans. Jafnframt kvartaði A yfir ákvörðunum nefndarinnar, dags. 22. september 1997 og 28. júlí 1998, um að synja beiðnum B, héraðsdómslögmanns, f.h. hans, um að málið yrði tekið upp að nýju.

Með bréfi, dags. 9. apríl 1999, tilkynnti ég A að ég hefði ákveðið að taka til athugunar atriði sem snertu annars vegar hæfi nefndarmanna í örorkunefnd til að fjalla um beiðni B f.h. hans, dags. 25. maí 1998, um að málið yrði tekið upp að nýju og hins vegar undirbúning nefndarinnar á þeirri ákvörðun. Aftur á móti gæti ég ekki tekið til athugunar þann hluta kvörtunarinnar sem beindist að áliti nefndarinnar frá 12. maí 1997, og ákvörðun hennar frá 22. september 1997, af þeirri ástæðu að kvörtunin væri of seint fram borin, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 7. júlí 2000.

II.

Samkvæmt þeim gögnum sem fylgdu kvörtun A slasaðist hann í árekstri tveggja bifreiða 4. nóvember 1993. Í kjölfarið kenndi A sér meins í höfði, hálsi, herðum og mjóbaki. Auk þess fann hann fyrir dofa og kraftleysi í vinstri handlegg og dofa í vinstri fótlegg. Af þessu tilefni leitaði A til B, héraðsdómslögmanns, og veitti honum umboð, dags. 18. maí 1994, til að gæta hagsmuna sinna og semja um bætur vegna slyssins.

Að undangengnum læknisrannsóknum á afleiðingum slyssins gekkst A undir aðgerð á hálshrygg á árinu 1995. Þá gekkst hann undir frekari rannsóknir á árinu 1996, þar á meðal heyrnarrannsókn H, læknis á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, og taugasálfræðilegt mat I, taugasálfræðings.

Að beiðni B mat J, læknir, miska- og örorkustig A á árinu 1996. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar, dags. 17. september 1996, segir eftirfarandi:

„[A] hefur verið heilsuhraustur um ævina. Hann lenti í umferðarslysi á árinu 1992, sem skyldu ekki eftir neinar varanlegar menjar. Starfsgeta var óskert og líkamleg áreynslugeta sömuleiðis og stundaði hann erfiðar íþróttagreinar.

Röntgenmyndir hafa sýnt slitbreytingar í hálsi og baki og er [K], bæklunarskurðlæknir, þeirrar skoðunar að þær hafi líklegast verið til staðar fyrir slys, en einkenni hafist í kjölfar þess.

Við umferðarslysið í nóvember 1993 hlaut [A] tognun á háls og bak með einhverri ertingu á armtaugaflækju til vinstri handar og hugsanlega ertingu á ölnar taug við olnboga vinstra megin. Gerð var hálsspengingaraðgerð frá 5. hálshryggjarliðbol niður á 1. brjósthryggjarliðbol. Spengingin var gróin um hálfu ári eftir aðgerð.

Afleiðingar umferðarslyssins í nóvember 1993 eru því tognun í hálsi og mjóhrygg og spenging á neðri hluta háls með verulegri hreyfiskerðingu, hreyfiverk, álagsverk, augn- og eyrnaeinkennum ásamt ertingu á armflækju til vinstri handar, sem í heild er metið til 25% miska. Við bætast andleg einkenni, sem metin eru 5%, og veruleg hreyfiskerðing í vinstri öxl, sem metin er 10%. Alls er því miski metinn 40%.

Í læknisvottorði [K] dags. 12.02.1996 kemur fram að ákveðið er að spengja mjóhrygg slasaða. Það er sérstök ósk lögmanns [A] að áætla viðbótar miska vegna slíkrar spengingar. Miðað við að spenging gangi eðlilega fyrir sig og ekki komi til sérstakir óvæntir fylgikvillar s.s. sýking eða alvarleg taugaskemmd, er viðbótar miski metinn 10%. Fjárhagsleg örorka hækkar að sama skapi um 10%.

Við mat á fjárhagsskaða er [A] hefur orðið og kann að verða fyrir í framtíðinni er tekið mið af því að hann hefur verið algjörlega óvinnufær frá slysinu og tekjulaus. Skattframtöl tveggja ára þar á undan sýndu um 1,5 millj. árstekjur. Hann hafði nýlega keypt sér einbýlishús sem hann ætlaði að vinna í sjálfur, en hann er menntaður smiður. Sú iðja jafngildir aukavinnu. [A] hefur nú selt húsið og keypt sér íbúð í blokk. Þannig er ljóst að frá slysinu til dagsins í dag hefur [A] ekki aflað vinnutekna og því er óvinnufærni hans alger. Í framtíðinni má reikna með verulega skertum launum. Það stafar fyrst og fremst af verkjum í hálsi og baki og stífun hálsins. Þar við bætast mikil einkenni út í vinstri hönd en hann er rétthentur og sterkur grunur um ertingu á armflækju til handar svo og á ölnartaug við olnboga. Hann notar vinstri höndina sáralítið sem hjálparhönd og hefur í dag að nokkru leyti hafnað henni. Þá má reikna með að þau andlegu óþægindi og einkenni sem fram eru komin í dag verði í einhverju formi varanleg. Hins vegar má gera ráð fyrir í framtíðinni að [A] verði fær til léttari vinnu en ófær til átaksvinnu. Með þetta í huga er varanleg fjárhagsleg örorka metin 50%. Hún hækkar um 10% verði af fyrrnefndri spengingu í mjóhrygg.

[…]

Við mat á varanlegu fjártjóni er tekið mið af því að [A] hefur verið óvinnufær frá slysinu, var sagt upp í starfi í júlí 1994 og hefur síðan verið launalaus. Hann hefur ekki treyst sér til fyrra starfs, sem telst vera létt eða meðalþungt. Gera má ráð fyrir að geta til að afla tekna við slíkar aðstæður sé enn minni en læknisfræðileg örorka gefur tilefni til. Fjárhagsleg örorka er metin 50%.”

Hinn 29. nóvember 1996 fór Vátryggingafélag Íslands hf. fram á að örorkunefnd léti uppi álit á ákvörðun miskastigs og örorkustigs A, sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Álitsbeiðninni fylgdi m.a. áverkavottorð H, læknis, dags. 5. júní 1996, og matsgerð I, taugasálfræðings, dags. 14. júní 1996.

Hinn 12. maí 1997 lét örorkunefnd uppi álit á ákvörðun miskastigs og örorkustigs A. Í nefndinni sátu þeir C, hæstaréttarlögmaður, D, læknir, og E, læknir. Í niðurstöðukafla álitsins segir svo:

„Tjónþoli, [A], hefur í umferðarslysi 4. nóvember 1993 hlotið höfuðhögg, tognunaráverka á háls og bak og vinstri öxl. Röntgenrannsóknir hafa sýnt slitbreytingar bæði í háls- og mjóhrygg, sem hafa verið til staðar fyrir slysið, en tjónþoli kveðst hafa verið einkennalaus frá stoðkerfi fyrir slys. Hann hafði þó tímabundin einkenni eftir, að því er virðist, tiltölulega væga hálstognun í umferðarslysi tæpu ári áður en hann lenti í umræddu slysi. Tjónþoli hefur haft höfuðverk, verki í hálsi, vinstri öxl og griplim, auk mjóbaksverkja og leiddu einkenni frá hálsi og vinstri griplim til þess að framkvæmd var sprengingaraðgerð á hálsi í apríl 1995. Tjónþoli telur einkenni frá hálsi eitthvað hafa minnkað í kjölfar aðgerðarinnar, en hann er áfram með veruleg einkenni þaðan. Þá kveðst hann vera að bíða eftir spengingaraðgerð á mjóbaki vegna verkja, en þar er hann með nokkrar slitbreytingar, eins og áður hefur verið vikið að. Í tengslum við verki í hálsi og höfði kveðst tjónþoli fá suð fyrir vinstra eyra, hann hefur reynst vera með heyrnarskerðingu þar, en auk þess fær hann mikið rennsli úr vinstra auga og telur augnlæknir að rekja megi það til afleiðinga slyssins. Þá hefur tjónþoli búið við nokkra depurð og geðræn einkenni, sem hann kveður þó hafa lagast verulega, en auk þess minnisskerðingu. Skoðun leiðir í ljós hreyfiskerðingu í hálshrygg og vinstri öxl og taugabrottfallseinkenni í vinstri griplim.

Örorkunefnd telur að eftir 1. janúar 1996 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir af afleiðingum umferðarslyssins 4. nóvember 1993 en þá var orðinn. Að öllum gögnum virtum telur nefndin varanlegan miska hans vegna afleiðinga slyssins hæfilega metinn 30% - þrjátíu af hundraði -.

Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins hafi í för með sér verulega skerðingu á getu tjónþola til öflunar vinnutekna í framtíðinni. Nefndin telur hins vegar að hann eigi að geta unnið ýmis léttari störf í framtíðinni, enda fylgi þeim ekki líkamleg áreynsla eða álag. Er varanleg örorka hans vegna afleiðinga slyssins metin 30% - þrjátíu af hundraði -.”

Með bréfi, dags. 30. júní 1997, óskaði B, héraðsdómslögmaður, eftir því að örorkunefnd tæki mál A upp að nýju. Því til stuðnings benti hann á að örorkunefnd hefði ekki haft þýðingarmikil gögn undir höndum þegar hún lét uppi álit sitt 12. maí 1997, og að álitið gæfi tilefni til að ætla að misskilnings gætti hjá nefndinni við mat á gögnum.

Áður en örorkunefnd tók afstöðu til beiðninnar leitaði hún álits L, læknis, á röntgenrannsóknum sem áður höfðu verið gerðar á háls- og brjósthrygg A. Að fengnu áliti L ákvað örorkunefnd á fundi 22. september 1997 að synja hinni fram komnu beiðni.

Með bréfi, dags. 25. maí 1998, fór B þess að nýju á leit við örorkunefnd að mál A yrði endurupptekið. Beiðnin var rökstudd með skírskotun til þess að A hefði gengist undir aðgerð á mjóbaki eftir að örorkunefnd hefði látið uppi álit sitt 12. maí 1997. Í vottorði K, yfirlæknis á bæklunarskurðdeild Landspítalans, dags. 11. mars 1998, kæmi fram að aðgerðin hefði skert hreyfigetu A.

Með bréfi, dags. 1. júlí 1998, óskaði örorkunefnd eftir því að M, læknir, léti nefndinni í ljós álit sitt á tilteknum atriðum í tilefni af hinni fram komnu beiðni. Að fengnum niðurstöðum M ákvað örorkunefnd á fundi 28. júlí 1998 að synja beiðninni.

III.

Með bréfi, dags. 9. apríl 1999, óskaði ég eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að örorkunefnd léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Þá óskaði ég sérstaklega eftir afstöðu örorkunefndar til þess hvort skilyrði þess að nefndin tæki mál upp að nýju væru tæmandi talin í 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með því væri girt fyrir heimild nefndarinnar til að taka mál upp að nýju á grundvelli sambærilegra sjónarmiða og lýst væri í 1. og 2. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfinu segir síðan eftirfarandi:

„Samkvæmt lokaákvæði 2. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fer um hæfi nefndarmanna í örorkunefnd til að fara með mál eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara. Beiðni [A] um endurupptöku málsins var borin fram í bréfi, dags. 28. maí 1998, og var bréf þetta undirritað af [B], hdl., á bréfsefni sameignarfélagsins [X]. Af áletrun á bréfsefni virðist mega ráða að ásamt [B] standi [F], hdl. að sameignarfélaginu. Tekið skal fram að matsbeiðni Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 29. nóvember 1996, var undirrituð fyrir hönd [A] af [B], en [B] bar einnig fram beiðni [A] um endurupptöku málsins hjá örorkunefnd með bréfi, dags. 30. júní 1997. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru þeir [D], læknir, og nefndarmaður í örorkunefnd og [F], hdl., bræður. Af þessu tilefni óska ég eftir samkvæmt 9. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að örorkunefnd skýri viðhorf sitt til þess hvort seta [D] í örorkunefnd við umfjöllun nefndarinnar um […] mál [A] samrýmist reglum e- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1993.”

Mér bárust svör örorkunefndar með bréfi, dags. 3. ágúst 1999. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„Í bréfi yðar er efnislega lýst endurupptökuákvæðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eins og þar kemur fram getur tjónþoli skotið ákvörðun um miskastig og/eða örorkustig aftur til örorkunefndar, ef mál er endurupptekið. Í lagaákvæðinu er gert ráð fyrir að beiðni um slíka endurupptöku komi fyrst fram eftir að bótauppgjör hefur átt sér stað. Endurupptökubeiðnir sem nefndin hefur fengið hafa hins vegar langoftast borist skömmu eftir að álit hefur látið í té og áður en bótauppgjör hefur átt sér stað. Örorkunefnd telur að henni sé tvímælalaust skylt að láta nýtt álit í té ef bótauppgjör sem fram hefur farið er endurupptekið á grundvelli 11. gr., t.d. með samkomulagi milli tjónþola og vátryggingafélags eða samkvæmt ákvörðun dómstóls, ef beiðni kemur fram um það.

Í frumvarpi til skaðabótalaga, sem varð að lögum nr. 50/1993, segir m.a. í athugasemdum við 10. gr.:

Niðurstaða örorkunefndar er ekki bindandi ... Uni aðili eða aðilar ekki niðurstöðunni verður sá sem vill fá henni breytt eða hrundið að leita til dómstóla.

Örorkunefnd hefur haft þann hátt á meðferð endurupptökubeiðna í tilvikum sem bótauppgjör hefur ekki átt sér stað, að farið hefur verið yfir þau gögn sem viðkomandi beiðni fylgdu og það athugað sérstaklega, hvort í þeim komi fram upplýsingar sem nefndarmenn telja að kynnu að hafa haft þýðingu, hefðu þær legið fyrir nefndinni við afgreiðslu málsins. Þetta hefur nefndin talið vera í fullu samræmi við grunnreglu 1. töluliðs 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nefndin hefur hins vegar ávallt hafnað endurupptökubeiðnum, sem eingöngu hafa byggst á því að viðkomandi aðili er ósáttur við niðurstöðurnar, og hefur það verið gert með stuttum bókunum á fundi í nefndinni.”

Um hæfi D, læknis, til setu í örorkunefnd segir meðal annars í svarbréfi nefndarinnar:

„[D], læknir og nefndarmaður í örorkunefnd, og [F], lögmaður, eru bræður. Umboðsmaður [A] í umræddu slysabótamáli fyrir örorkunefnd var [B], lögmaður, sem rekur lögmannsstofu í félagi við [F]. [A] hafði veitt [B] umboð til að fylgja bótakröfum sínum eftir, en ekki öðrum. Engin gögn í málinu bera með sér að [F] hafi með neinum hætti annast hagsmunagæslu fyrir [A]. Örorkunefnd telur útilokað að líta svo á, að umboð veitt lögmanni til persónulegrar þjónustu eins og lögmannsstarfa teljist veitt sameignarfélagi sem lögmaðurinn á aðild að þannig að annar eigandi slíks félags geti annast hagsmunagæsluna á grundvelli umboðsins. Ljósrit af umræddu umboðsskjali fylgir með bréfi þessu.

Örorkunefnd telur að [D] sé ekki vanhæfur til meðferðar máls í örorkunefnd þótt [B], lögmaður, gæti þar hagsmuna tjónþola. Ákvæði e- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 hafa í lagaframkvæmd ekki verið skýrð þannig af dómstólum, að fjölskyldutengsl dómara við tiltekinn lögmann á lögmannsstofu valdi því að sá dómari sé vanhæfur til meðferðar máls sem annar lögmaður á sömu lögmannsstofu flytur. Um þetta má sjá fjölda dóma í dómasöfnum Hæstaréttar, en hér verður látið nægja að benda á dómasafn Hæstaréttar 1997, bls. 157 [...]”.

Í tilefni af framangreindu svarbréfi örorkunefndar bauð ég A að gera athugasemdir við skýringar nefndarinnar.

Mér bárust athugasemdir A með bréfi, dags. 4. október 1999. Kvaðst A hafi samið um bætur vegna slyssins áður en hann fór fram á að örorkunefnd tæki málið upp að nýju. Samkomulagið hafi aftur á móti verið gert með fyrirvara um bótafjárhæð. Bréfinu fylgdi matsgerð dómkvaddra matsmanna um miskastig og örorkustig A, dags. 9. ágúst 1999. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir svo:

„1. Tímabil það, sem matsbeiðandi á rétt á bótum fyrir atvinnutjón telst vera frá slysdegi þann 4. nóvember 1993 og til 20. apríl 1998.

2. Matsbeiðandi telst hafa verið veikur frá slysdegi og fram til 20. apríl 1998, þar af 119 daga rúmliggjandi.

3. Varanlegur miski matsbeiðanda vegna slyssins telst hæfilega metinn 45%.

4. Varanleg örorka matsbeiðanda vegna slyssins telst hæfilega metin 75%.”

Í bréfinu mótmælir A því sem kemur fram í svarbréfi örorkunefndar að gögn málsins hafi ekki borið með sér að F, héraðsdómslögmaður, hafi annast hagsmunagæslu fyrir hann. Í þessu sambandi vísar A til þess að í matsgerð I, taugasálfræðings, sé þess getið að „tilvísunaraðili“ sé F, héraðsdómslögmaður.

Með bréfi, dags. 22. október 1999, óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, að örorkunefnd skýrði viðhorf sitt til fyrrgreindra atriða í bréfi A. Í svarbréfi örorkunefndar, dags. 11. janúar 2000, segir svo:

„Með bréfi yðar […] var óskað eftir athugasemdum nefndarinnar í tilefni af þeirri ábendingu [A] að í taugasálfræðilegu mati sem dr. [I] hefur unnið komi fram á bréfhaus hennar að „tilvísunaraðili“ sé [F], hdl.

Þessi ábending er rétt, svo sem fram kemur í meðfylgjandi ljósriti af skjalinu. Í texta matsins kemur ekkert fram sem skýrir þetta nánar, en við yfirferð yfir skjöl málsins hafði nefndin ekki athugað þetta sérstaklega. Nefndin bendir á það í þessu sambandi, að umboð [A] til lögmanns síns, [B], hdl., er talsvert eldra en þetta taugasálfræðilega mat, sem dagsett er 14. júní 1996.

Í framhaldi af móttöku bréfs yðar hafði formaður nefndarinnar samband við [F] og innti hann munnlega eftir því, hvort hann hefði eitthvað haft með mál [A] að gera sem lögmaður og svaraði hann því neitandi. Var þess óskað að nefndin fengi sent afrit af þeirri „tilvísun“ til dr. [I] sem vísað er til í mati hennar. Í framhaldi af því barst nefndinni samrit bréfs sem [F], hdl., hafði ritað dr. [I] 22. maí 1996, en í niðurlagi þess segir m.a.:

Þar sem undirritaður hefur tekið að sér að gæta hagsmuna [A] gagnvart Vátryggingafélaginu Skandia hf. er þess hér með farið á leit við yður ...

Þetta bréf var ekki kynnt nefndinni við meðferð málsins fyrir örorkunefnd, og ekkert er komið fram sem bendir til þess að þessi staðhæfing hafi stuðst við skriflegt umboð frá [A].

Í bréfi yðar er nefndinni gefinn kostur á að senda frekar athugasemdir í ljósi þess að [A] hafi sent yðar matsgerð dómkvaddra matsmanna. Afskiptum örorkunefndar af máli [A] lauk með bókuninni 28. júlí 1998, þar sem kröfu um endurupptöku málsins var hafnað. Nefndin hefur ekki með neinum hætti komið að meðferð matsmáls sem hann varðar eftir það og hefur ekki fengið matsgerð dómkvaddra matsmanna senda, enda hefur hún ekkert við hana að gera. Nefndin hefur þess vegna ekkert um slíka matsgerð að segja, enda gera réttarfarslög ráð fyrir möguleika til öflunar slíks sönnunargagns í tilvikum þar sem aðilar vilja ekki una niðurstöðum nefndarinnar.“

Í tilefni af síðastnefndu svarbréfi örorkunefndar bauð ég A að gera athugasemdir við skýringar nefndarinnar. Mér bárust athugasemdir A með bréfi, dags. 19. janúar 2000. Í bréfinu bendir A á að fyrir örorkunefnd hafi legið taugasálfræðilegt mat I, taugasálfræðings, og áverkavottorð H, læknis, sem beint var til F, lögfræðings. Til skýringar á því hvernig F kom að málinu segir A að þegar B hafi farið í sumarleyfi á árinu 1996 hafi B spurt sig hvort hann samþykkti að F annaðist málið í fjarveru sinni. Hann hafi fallist á það og í framhaldi af því hitt F á skrifstofu þeirra lögmanna að [...]. Þar hafi þeir farið yfir málið og ákveðið að F óskaði eftir áðurnefndum tveimur vottorðum.

IV.

1.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og hún hljóðaði áður en henni var breytt með 9. gr. laga nr. 37/1999, sem öðluðust gildi 1. maí 1999, gat tjónþoli eða sá sem ber ábyrgð á tjóni leitað álits um ákvörðun miskastigs og örorkustigs hjá örorkunefnd. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að skaðabótalögum nr. 50/1993 kemur fram að niðurstaða nefndarinnar sé ekki bindandi. Uni aðili ekki niðurstöðunni verði sá sem vilji fá henni breytt eða hrundið að leita til dómstóla (Alþt. 1993, A-deild, bls. 3651). Samkvæmt framansögðu eru aðilar óbundnir af áliti nefndarinnar og er þeim frjálst að leggja aðra niðurstöðu til grundvallar ákvörðun um bætur. Hvað sem þessu líður er það engum vafa undirorpið að örorkunefnd telst til stjórnsýslu ríkisins, enda er henni komið á fót með lögum og ráðherra skipar nefndarmenn.

Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er að kröfu tjónþola heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Sé ákveðið að taka mál upp að nýju er heimilt „að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar“, sbr. lokamálslið 11. gr.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. skaðabótalaga er örorkunefnd skipuð þremur mönnum. Eru þeir skipaðir af dómsmálaráðherra til sex ára í senn. Í lokamálslið sömu málsgreinar segir að um hæfi nefndarmanna til að fara með mál fari eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara. Um það gildir nú 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

2.

Beiðni B, héraðsdómslögmanns, f.h. A dags. 25. maí 1998, um að málið yrði tekið upp að nýju var sem fyrr segir á því byggð að A hefði gengist undir aðgerð á mjóhrygg sem hefði skert hreyfigetu hans eftir að örorkunefnd lét uppi álit sitt. Með öðrum orðum að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu A þannig að ætla mætti að miskastig og örorkustig hans væri verulega hærra en áður hefði verið talið.

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins voru þeir B og F héraðsdómslögmenn eigendur sameignarfélagsins X, á þeim tíma sem hér um ræðir. Er fram komið að F gætti hagsmuna A á meðan B var í sumarleyfi á árinu 1996. Í málinu liggur fyrir að F óskaði eftir því að I, taugasálfræðingur, framkvæmdi taugasálfræðilega skoðun á A. Ritaði hún álitsgerð, dags. 14. júní 1996, af því tilefni. Í álitsgerðinni kemur fram að „tilvísunaraðili“ sé F, héraðsdómslögmaður. Þá aflaði F áverkavottorðs H, læknis á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dags. 5. júní 1996. Í áliti örorkunefndar, dags. 12. maí 1997, kemur fram að umrædd gögn hafi fylgt álitsbeiðni Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 29. nóvember 1996. Jafnframt er vísað til ályktana í matsgerð I, taugasálfræðings, án þess að það komi fram með beinum hætti, þegar sagt er að A hafi „búið við nokkra depurð og geðræn einkenni, sem hann [kveði] þó hafa lagast verulega, en auk þess minnisskerðingu“.

Að áliti örorkunefndar 12. maí 1997 stóðu þeir C, hæstaréttarlögmaður, D, læknir, og E, læknir. Þá fjölluðu þeir jafnframt um beiðnir B f.h. A um endurupptöku málsins og tóku afstöðu til þeirra 22. september 1997 og 28. júlí 1998. Samkvæmt framansögðu gætti F hagsmuna A í fjarveru B á árinu 1996. Upplýst er að F og D, læknir, eru bræður. Svo sem áður er rakið fer nú um hæfi nefndarmanna í örorkunefnd til að fara með mál eftir 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt e-lið þeirrar greinar er dómari vanhæfur til að fara með mál ef hann tengist eða hefur tengst fyrirsvarsmanni eða málflytjanda aðila með þeim hætti sem segir í d-lið sömu greinar, en þar kemur fram að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef hann er eða hefur verið maki aðila eða skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar. Samkvæmt þessu og þegar litið er til þess að F gætti á árinu 1996 hagsmuna A í fjarveru B og aflaði þá gagna sem örorkunefnd byggði niðurstöðu sína á tel ég að D hafi verið vanhæfur til setu í örorkunefnd þegar hún fjallaði um mál A á grundvelli beiðni sem studd var gögnum sem F hafði aflað. Tel ég að það skipti ekki máli í þessu sambandi að A veitti F ekki sérstakt umboð til að gæta hagsmuna sinna, heldur ráði það úrslitum hér að F var í reynd umboðsmaður A í fjarveru B. Vegna þessara tengsla F við mál A tel ég ekki þörf á að fjalla í áliti þessu um áhrif þess á hæfi D að F og B ráku á þessum tíma sameignarfélag um lögmannsstofu.

3.

Athugun mín á umfjöllun örorkunefndar um mál A einskorðast svo sem fyrr segir við ákvörðun nefndarinnar frá 28. júlí 1998. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að einn nefndarmanna hafi verið vanhæfur til að standa að þeirri ákvörðun. Með 2. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hefur sú leið verið farin að gera strangari hæfiskröfur til nefndarmanna í örorkunefnd en almennt eru gerðar til þeirra sem hafa stjórnsýslu með höndum. Eru þær hinar sömu og gilda um sérstakt hæfi dómara. Af þessari skipan leiðir að það eru tilmæli mín til örorkunefndar að hún taki beiðni A um endurupptöku á máli hans til meðferðar að nýju komi fram ósk um það frá honum. Í þessu sambandi bendi ég á að stjórnvöldum kann að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds.

Að teknu tilliti til þessarar niðurstöðu hef ég ákveðið að taka ekki afstöðu til málsmeðferðar örorkunefndar að öðru leyti.

V.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú að D, læknir, hafi verið vanhæfur til setu í örorkunefnd þegar hún fjallaði um endurupptökubeiðni B, héraðsdómslögmanns, f.h. A, dags. 25. maí 1998, en umfjöllun nefndarinnar um hana lauk með því að nefndin synjaði beiðninni 28. júlí 1998. Af þessari ástæðu beini ég þeim tilmælum til örorkunefndar að tekin verði ný ákvörðun í málinu komi fram ósk um það frá A.