Opinberir starfsmenn. Starfsveiting lögreglufulltrúa. Leiðbeiningarskylda. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Andmælaréttur. Rannsóknarreglan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 2696/1999)

A kvartaði yfir veitingu á starfi lögreglufulltrúa fíkniefnastofu við embætti ríkislögreglustjóra. Laut kvörtunin að því að búið hafi verið að ganga frá veitingu á hinu lausa starfi áður en umsóknarfrestur var runninn út, að ekki hafi verið gætt leiðbeiningarskyldu, að mat á starfshæfni umsækjenda hafi verið óeðlilegt og að rannsókn og rökstuðningi hafi verið ábótavant.
Umboðsmaður taldi að gögn málsins bentu ekki til þess að búið hafi verið að ráðstafa starfinu áður en umsóknarfrestur rann út. Hins vegar benti umboðsmaður á að í tilkynningu til A um lyktir málsins hefði vantað leiðbeiningar samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rétt A til að fá ákvörðun ríkislögreglustjóra rökstudda.
Umboðsmaður rakti þau sjónarmið sem ákvörðun ríkislögreglustjóra byggðist á og taldi ljóst að sú ákvörðun hefði byggst á heildarmati á ákveðnum atriðum. Þá rakti hann þá meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar að leitast skyldi við að velja þann umsækjanda um laust opinbert starf sem hæfastur yrði talinn til að gegna því. Í þessu fælist meðal annars að ákvörðunin yrði ávallt að byggjast a.m.k. að verulegu leyti á mati á atriðum sem til þess væru fallin að varpa ljósi á væntanlega frammistöðu viðkomandi í því starfi sem um væri að ræða. Með vísan til þessa taldi hann ekki ástæðu til athugasemda við þau sjónarmið sem byggt hafði verið á við úrlausn málsins. Fjallaði hann sérstaklega um það sjónarmið sem fram kom í skýringum ríkislögreglustjóra til hans um að byggt hefði verið á trausti yfirmanna og væntanlegra samstarfsaðila á þeim sem valinn var til starfans. Tók hann fram að nauðsynlegt væri í hverju tilviki að taka til sérstakrar skoðunar á hverju slíkt traust byggðist. Byggðist slíkt traust á framgöngu þess umsækjanda í starfi og persónulegri hæfni hans sem kynni að nýtast í viðkomandi starfi væri ekki ástæða til athugasemda við beitingu þessa sjónarmiðs.
Þá vék umboðsmaður sérstaklega að öðru sjónarmiði er getið var í skýringum ríkislögreglustjóra til hans. Kom þar fram að við töku ákvörðunarinnar hafi verið talið rétt að taka inn í myndina að nauðsynlegt kynni að vera að byggja starfsemi fíkniefnastofu hjá ríkislögreglustjóra upp af öðrum en þeim sem verkstýrðu ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík á ákveðnu tímabili. A hafði verkstýrt þeirri deild á því tímabili. Þetta sjónarmið tók mið af þeim hagsmunum embættis ríkislögreglustjóra að menn tengdu ekki starfsemi fíkniefnastofu við þann fortíðarvanda sem ríkislögreglustjóri taldi að sú deild hefði átt við að glíma. Taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að ólögmætt hafi verið að byggja á þessu sjónarmiði. Beiting sjónarmiðs af þessu tagi mætti þó ekki leiða til þess að önnur þýðingarmikil sjónarmið sem til greina gætu komið yrðu útilokuð við mat á starfshæfni einstakra umsækjenda. Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins og átt fund með ríkislögreglustjóra og starfsmenn hans taldi umboðsmaður þó ekki unnt að fullyrða að svo hafi verið í tilviki A. Þó var ljóst að þetta sjónarmið hafði áhrif á niðurstöðu ríkislögreglustjóra og var þar m.a. vísað til sérstakrar rannsóknar setts ríkislögreglustjóra á misræmi sem hefði komið fram við birgðatalningu og birgðabókhald í fíkniefnageymslum lögreglustjórans í Reykjavík. Ákveðnar ávirðingar á starfsemi fíkniefnadeildarinnar hafi falist í skýrslu setts ríkislögreglustjóra þótt óupplýst væri hver bæri í raun ábyrgð á því sem aflaga fór. Hafi því almennt verið talið óheppilegt að maður er verkstýrt hefði fíkniefnadeildinni á þeim tíma er rannsóknin tók til tæki við starfi lögreglufulltrúa á fíkniefnastofu. Vék umboðsmaður í þessu sambandi að 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt aðila máls og taldi að eðlilegt hefði verið að A hefði verið gefinn kostur á því að tjá sig um þátt hans í verkstjórn á umræddri deild áður en ákvörðun var tekin.
Umboðsmaður gerði athugasemd við rökstuðning ríkislögreglustjóra í málinu þar sem ekki hafði verið gerð grein fyrir því að m.a. hefði verið byggt á því sjónarmiði sem að framan greinir. Að öðru leyti taldi hann ekki ástæðu til athugasemda við rökstuðninginn. Þá rakti umboðsmaður helstu sjónarmið varðandi rannsókn mála af þessu tagi. Taldi hann að eðlilegt hefði verið í ljósi rannsóknarskyldu handhafa veitingarvalds, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að ítarlegri upplýsinga hefði verið aflað um hæfni A til þess að halda yfirsýn í flóknum og umfangsmiklum málum á sviði fíkniefnalöggæslu og þeirrar þekkingar og reynslu er hann hafði aflað sér á því sviði enda byggt á þeim sjónarmiðum við úrlausn málsins. Þá taldi hann aðfinnsluvert að dregin hefði verið ályktun af umsögn væntanlegs samstarfsaðila um hugsanlegt samstarf við A þótt þeir hefðu aldrei starfað saman.
Þrátt fyrir þá annmarka sem umboðsmaður taldi vera á málsmeðferð ríkislögreglustjóra var það álit hans að ólíklegt væri að þeir leiddu til ógildingar á ákvörðun ríkislögreglustjóra. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til embættis ríkislögreglustjóra að það tæki mið af þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu við veitingu opinberra starfa í framtíðinni.

I.

Hinn 12. mars 1999 leitaði til mín A, og kvartaði yfir veitingu á starfi lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu hjá embætti ríkislögreglustjóra. Lýtur kvörtun A að eftirfarandi atriðum:

1) Að búið hafi verið að ganga frá veitingu hins lausa starfs áður en umsóknarfrestur um það var liðinn.

2) Að embætti ríkislögreglustjóra hafi hvorki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni þegar ákvörðun um veitingu starfsins var birt skriflega eða þegar skriflegur rökstuðningur barst honum um veitingu þess.

3) Að mat á starfshæfni umsækjenda hafi verið óeðlilegt. Er þar vísað til þess að ekki hafi verið tekið tillit til meiri menntunar A en þess er skipaður var í starfið, lengri starfsaldurs hans hjá lögreglunni, meiri rannsóknarreynslu og meiri stjórnunarreynslu hans. Ennfremur er kvartað yfir því að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og rökstuðningur handhafa veitingarvalds ófullnægjandi.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 31. júlí 2000.

II.

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 29. desember 1998, voru auglýst laus störf lögreglumanna við embætti ríkislögreglustjóra, þ. á m. starf lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu. A sótti um framangreint starf með umsókn, dags. 30. desember 1998. C, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sá um undirbúning að ákvörðun embættisins og skilaði ríkislögreglustjóra tillögu um að skipa B í embættið. Í þeirri tillögu sagði um A:

„[A] starfaði um árabil í ávana- og fíkniefnadeildinni. Frá 1. júlí 1997 hefur hann starfað við rannsóknir ofbeldisbrota hjá lögreglunni í Reykjavík og staðið sig vel. [A] var á sínum tíma færður úr ávana- og fíkniefnadeildinni inn á almennar vaktirnar. Verulegir samskiptaerfiðleikar voru innan þeirrar deildar á þessum tíma, m.a. milli [A] og [D], sem þá var lögreglufulltrúi deildarinnar.“Með bréfi, dags. 25. janúar 1999, var A tilkynnt um ákvörðun ríkislögreglustjóra. Var sú tilkynning svohljóðandi:

„Um leið og yður er þökkuð umsókn yðar um stöðu lögreglufulltrúa hjá embætti ríkislögreglustjóra, sem auglýst var þann 29. desember s.l., tilkynnist yður hér með að ríkislögreglustjórinn hefur ákveðið að ráða [B] í stöðuna.“

Með bréfi, dags. 2. febrúar 1999, óskaði A eftir skriflegum rökstuðningi vegna starfsveitingarinnar. Ennfremur óskaði hann þess að fá aðgang að öllum þeim gögnum og umsögnum sem aflað hafði verið vegna umsóknar hans. Vísaði hann þar til stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rökstuðningur ríkislögreglustjóra barst A með bréfi, dags. 15. febrúar 1999. Var bréfið svohljóðandi:

„Ríkislögreglustjórinn vísar til bréfs yðar, dags. 2. janúar 1999, þar sem óskað er rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun ríkislögreglustjóra að veita [B] stöðu lögreglufulltrúa við embættið. Þér voruð einnig umsækjandi um stöðuna. Ríkislögreglustjórinn auglýsti stöðuna þann 29. desember 1998. Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigið þér rétt á rökstuðningi fyrir umræddri ákvörðun þar sem hún fól í sér synjun á umsókn yðar um stöðuna.

Hér á eftir verður í fyrstu gerð grein fyrir starfsferli yðar og þess umsækjanda sem hlaut stöðuna og meðal annars stuðst við upplýsingar úr fyrirliggjandi umsóknum. Að því búnu verður fjallað um þær starfsskyldur og starfskröfur sem gerðar eru til lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu ríkislögreglustjórans. Loks verður gerð grein fyrir þeim forsendum sem réðu því að [B] var veitt staðan.

I.

Þér eruð fæddur [...]. Þér lukuð stúdentsprófi frá menntaskólanum í Reykjavík árið 1984 og prófi frá Lögregluskóla ríkisins vorið 1988. Auk þess hafið þér sótt endurmenntunarnámskeið hjá Lögregluskóla ríkisins auk ýmissa námskeiða og ráðstefna, bæði hérlendis og erlendis, aðallega varðandi fíkniefnamálaflokkinn, ofbeldisbrot og stjórnun.

Áður en þér hófuð störf í lögreglunni störfuðuð þér við útkeyrslu hjá Mjólkursamsölunni og við kennarastörf í Fellaskóla og sáuð um námskeið í tölvufræðum fyrir ÍTR bæði í Hólabrekkuskóla og Fellaskóla.

II.

[B] er fæddur [...]. Hann lauk gagnfræðaprófi frá gagnfræðaskólanum í Mosfellsbæ árið 1985 og prófi frá Lögregluskóla ríkisins vorið 1993. Auk þess hefur hann sótt endurmenntun hjá Lögregluskóla ríkisins og námskeið í yfirheyrslutækni í Bretlandi. Þá hefur [B] haft með höndum kennslu varðandi fíkniefnamálaflokkinn hjá Lögregluskóla ríkisins. Þar má m.a. nefna kennslu í framhaldsdeild (SÍM 1 og á svokölluðum fíkniefnadögum, sem var samstarfsverkefni Lögregluskóla ríkisins, ríkislögreglustjórans og lögreglustjórans í Reykjavík árið 1998, samtals 8 námskeið í Reykjavík og 4 á landsbyggðinni. Námskeiðin voru m.a. til að byggja upp og styrkja fíkniefnarannsóknir á landinu, sem ríkislögreglustjórinn er nú að fylgja eftir með því starfi sem [B] er að takast á við. Þá var [B] leiðbeinandi á fræðsludegi um fíkniefni, sem haldinn var fyrir almenna lögreglumenn í Reykjavík árið 1996, sem skilað hefur miklum árangri.

Áður en [B] hóf störf í lögreglunni starfaði hann í verslunardeild SÍS.

III.

Staða lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu markar nokkur tímamót. Starf sem þar fer fram hefur verið í mótun og uppbyggingu og er grundvöllur undir markvissari og heildstæðari aðkomu ríkislögreglustjórans að samræmdum og skilvirkum aðgerðum lögreglunnar í landinu gegn fíkniefnaafbrotum og skipulagðri brotastarfsemi sem tengjast fíkniefnum. Við skipun í stöðuna var m.a. horft til eftirfarandi hæfileika og þekkingar umsækjenda.

· Hafi unnið að fíkniefnamálum og sýnt það og sannað að hann ræður við að halda yfirsýn í flóknari og umfangsmeiri málum.

· Hafi þekkingu, áhuga og frjóa hugsun á skilvirkum úrræðum og nýjungum gegn fíkniefnavandanum og hæfileika og dugnað til að koma þeim í framkvæmd.

· Eigi auðvelt með að virkja aðra með sér í að nálgast þau markmið sem honum og/eða starfseminni eru sett.

· Geti sjálfur tekið þátt í rannsóknum, s.s. til aðstoðar öðrum embættum.

· Tungumálakunnátta og mikil þekking á fíkniefnamálaflokknum.

IV.

Við mat á umsækjendum var ljóst að báðir höfðu mikla reynslu varðandi fíkniefnamálaflokkinn. Þér störfuðuð í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, m.a. við stjórnun, en sú staða var síðan lögð niður og þér færður til fyrra stöðuheitis rannsóknarlögreglumanns. Þér voruð síðan færður úr deildinni yfir í almenna deild lögreglunnar árið 1996, en hófuð störf í hinni nýju rannsóknardeild lögreglustjórans í Reykjavík 1. júlí 1997, við rannsókn á ofbeldisbrotum. Við þau rannsóknarstörf hafið þér reynst vel samkvæmt umsögn yfirlögregluþjóns.

[B] hefur starfað hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík frá því árið 1994 og hafði m.a. með höndum stjórn skyggingarsviðs þeirrar deildar og hefur einnig leyst stjórnandann af. Hann hefur fengið mjög góð ummæli núverandi og fyrrverandi yfirmanns fíkniefnadeildarinnar. Hann starfaði í fíkniefnadeildinni þar til hann kom sem settur lögreglufulltrúi til ríkislögreglustjórans 1. janúar 1999. Vinnubrögð og frágangur [B] á málum hefur verið til fyrirmyndar. Þá hefur hann átt mikinn þátt í uppbyggingu fíkniefnadeildarinnar í Reykjavík frá 1. júlí 1997, þegar skipulagi hennar var breytt og mikið átak var gert í að ljúka eldri málum sem safnast höfðu upp, samhliða því að vinna að mörgum umfangsmiklum og erfiðum málum á vegum deildarinnar. Með kennslu- og uppbyggingarstarfi sínu á vegum Lögregluskóla ríkisins og hjá lögreglunni í Reykjavík, hefur [B] sýnt að hann er mjög vel til lögreglufulltrúastöðunnar fallinn. Það var því mat ríkislögreglustjórans að þeir hæfileikar hans, þekking og góð tengsl við þá sem koma að fíkniefnarannsóknum muni nýtast vel í starfi lögreglufulltrúa fíkniefnastofu.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið var það mat ríkislögreglustjórans að [B] stæði yður framar og hefði hæfi til að gegna stöðu lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu. Svo sem þegar hefur verið rakið var það mat ríkislögreglustjórans byggt á störfum [B] innan fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, reynslu hans af fræðslu í þessum málaflokki og umsögn fyrrverandi og núverandi yfirmanna hans.“

III.

Með bréfi til embættis ríkislögreglugstjóra, dags. 31. mars 1999, óskaði ég eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að hann skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og að mér yrðu látin í té gögn málsins. Sérstaklega óskaði ég eftir upplýsingum um þau verkefni sem féllu undir starf lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu. Ennfremur óskaði ég eftir upplýsingum um það með hvaða hætti rannsókn hefði farið fram á því hver umsækjenda væri hæfastur með tilliti til þeirra sjónarmiða sem getið var í rökstuðningi til A og hvort og að hvaða marki hafi verið tekið mið af þeim sjónarmiðum sem A tiltekur í kvörtun sinni til mín.

Svarbréf ríkislögreglustjóra barst mér hinn 28. apríl 1999. Þar var vísað til greinargerðar C, dags. 26. apríl 1999, vegna málsins. Orðrétt segir síðan í bréfi ríkislögreglustjóra:

„Þar kemur fram mat á hæfi A til að taka þátt í uppbyggingar- og þróunarstarfi sem embættið vinnur að í fíkniefnamálum í landinu. Það var niðurstaða yfirstjórnar ríkislögreglustjórans að [B] væri í þeim efnum hæfastur umsækjenda. Það álit byggist á störfum umsækjenda og hæfileikum þeirra en ekki hvað síst trausti stjórnenda á [B] til að starfa við fíkniefnastofu embættisins.“

Í framangreindri greinargerð C, dags. 26. apríl 1999, kemur fram að ekki hafi verið búið að ráðstafa embættinu áður en umsóknarfrestur var runninn út. Um þetta atriði segir eftirfarandi:

„Í byrjun desember síðastliðinn var farið fram á það við lögreglustjórann í Reykjavík, að [B] yrði lánaður tímabundið til ríkislögreglustjórans. Var það til þess að vinna að tilteknum málum svo sem gerð úttektar á fíkniefnavandanum og fleira.

Varð síðan að samkomulagi að [B] var settur tímabundið í stöðu lögreglufulltrúa hjá ríkislögreglustjóranum þannig að hann gæti unnið að þessu. Kom hann á móti stöðugildi [E] sem fór í ársleyfi frá ríkislögreglustjóranum á sama tíma, þ.e. þann 1. janúar síðastliðinn. [B] sótti síðan um þá stöðu sem hér er um deilt, en þá lá fyrir að þáverandi yfirmaður fíkniefnastofu færi til annarra starfa hjá ríkislögreglustjóranum. Í þá stöðu sem [B] hafði gegnt var settur annar lögreglumaður.“

Í greinargerðinni er á það fallist að A hafi ekki verið leiðbeint um rétt sinn samkvæmt stjórnsýslulögum til að fá ákvörðun ríkislögreglustjóra rökstudda. Er þó bent á að í því sambandi verði að hafa í huga að lögreglumenn þekki vel til stjórnsýslulaganna eins og annarra laga sem varða lögreglustarfið.

Um þriðja þátt kvörtunarinnar er í greinargerð C á það bent að hann hafi sjálfur starfað sem yfirlögregluþjónn í Reykjavík frá 1988 til 1998. Hafi hann því verið vel dómbær á umsækjendurna A og B. Kemur þar fram að C hafi verið í yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík og haft náið samstarf við yfirlögregluþjón rannsóknardeildar en ávana- og fíkniefnadeild heyrði undir þá deild. Hafi atvik og vandamál sem upp hafi komið í deildinni stundum verið rædd við C. Ennfremur hafi sérsveit lögreglunnar heyrt undir C en það hafi komið fyrir að starfsmenn hennar veittu starfsmönnum ávana- og fíkniefnadeildarinnar aðstoð í aðgerðum. Eru svo raktar í nokkru máli tilfærslur A milli deilda innan lögreglunnar í Reykjavík og kemur fram að hann hafi starfað undir yfirstjórn C frá lokum árs 1996 fram í nóvember 1998. Með vísan til þessa er þeim athugasemdum vísað á bug sem fram koma í kvörtun A að ákvörðunin hafi byggst á tillögum starfsmanns ríkislögreglustjóra þegar rétt hafi verið að afla umsagna frá lögreglunni í Reykjavík. Þá segir eftirfarandi í greinargerð C:

„Staða lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu er þess eðlis að mjög mikilvægt er að sá sem hana skipar væri óumdeildur og nyti trausts, ekki síst gagnvart þeim sem starfið krefst mestra samskipta við, þ.e. starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Af þessu tilefni leitaði ég álits [F], lögreglufulltrúa deildarinnar á umsækjendum. [B] fékk fullan stuðning. Hins vegar var lýst yfir efasemdum um samstarf við [A].“

Þá er í greinargerð C sérstaklega fjallað um það að ekki hafi verið leitað umsagnar D, fyrrverandi lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, um störf A. Hafi hann heldur ekki veitt umsögn um B vegna umsóknar hans um það starf sem hér er til umfjöllunar. Hins vegar hafi D veitt umsögn um störf B vorið 1997. Þá segir svo í greinargerðinni:

„[D] taldi [B] mjög hæfan lögreglumann og framtíðarstjórnanda. Þá er rétt að geta þess að [B] fékk mjög góð ummæli núverandi lögreglufulltrúa ávana- og fíkniefnadeildarinnar eins og reyndar má sjá á viðurkenningarskjali er fram kemur undir lið 3 í fylgiskjalamöppu. Ennfremur má benda á þá miklu nálægð sem ég hafði við störf [B] eftir 1. júlí 1997, þegar ávana- og fíkniefnadeildin færðist undir ábyrgðarsvið mitt. Ég tel mig því vel dómbæran á hæfileika og getu [B] til að takast á við stöðu yfirmanns í fíkniefnastofu.

[...]

Rétt er að nefna að þegar ég tók við rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík á miðju ári 1997 lagði ég mikla áherslu á uppbyggingu ávana- og fíkniefnadeildarinnar. Gaf það innsýn í rekstur, vinnubrögð og stjórnun deildarinnar árin á undan.

Á undanförnum árum hefur verið unnið mikið og gott starf hjá lögreglunni í baráttunni gegn fíkniefnavandanum. Það er hins vegar mat mitt að brýnt sé að leita nýrra leiða í þessari erfiðu en mikilvægu baráttu gegn þeirri vá sem fíkniefnin eru jafnframt því að styrkja þau úrræði sem fyrir eru. Það kallar á nýjar áherslur og nýja hugsun.“

Er síðan rakið að C hafi í starfi sínu sem yfirlögregluþjónn falið B að vinna að sérstakri rannsókn á fíkniefnavandanum hér á landi ásamt sænskum lögreglumanni árið 1998. Kemur þar fram að sú rannsókn hafi skilað nokkrum árangri. Ennfremur hafi hann brugðist skjótt við því er C sem yfirmaður ávana- og fíkniefnadeildar lagði fram markmið rannsóknardeildarinnar og skilað honum greinargerðum með áhugaverðum tillögum. Taldi hann ljóst að hér væri um að ræða „áhugasaman og góðan starfsmann, sem virkilega leggur sig fram og hefur frumkvæði og heilbrigðan metnað til góðra verka“. Þótt hann væri ekki langskólagenginn hefði hann haft frumkvæði að því að afla sér þekkingar meðal annars með því að lesa sér til og kynna sér nýjungar hjá erlendum lögregluliðum. Þá segir að lokum í greinargerð C:

„Ákvörðun um skipun í umrædda lögreglufulltrúastöðu var tekin á grundvelli greinargerðar minnar frá 25. janúar 1999, umsókna um stöðuna og gögnum er þeim fylgdu. Þá rökstuddi ég málið einnig munnlega á fundi í yfirstjórn ríkislögreglustjórans.“

Með bréfi, dags. 4. maí 1999, gaf ég A tækifæri á að gera athugasemdir við bréf ríkislögreglustjóra og greinargerð C. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 10. maí 1999.

Með bréfi, dags. 7. september 1999, óskaði ég eftir frekari skýringum ríkislögreglustjóra. Vegna framangreindra ummæla í tillögum C til ríkislögreglustjóra óskaði ég eftir upplýsingum um það að hvaða marki hefði verið byggt á samstarfshæfni umsækjenda við töku ákvörðunarinnar. Ennfremur óskaði ég eftir upplýsingum um hvernig staðið hefði verið að því að upplýsa um það atriði og hvort þær upplýsingar hafi verið skráðar í samræmi við 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Að lokum óskaði ég eftir því að rakið yrði á hvaða sjónarmiðum ákvörðun ríkislögreglustjóra byggðist og hvert vægi sjónarmið um menntun og starfsreynslu umsækjenda höfðu í því sambandi.

Svarbréf ríkislögreglustjóra barst mér hinn 28. september 1999. Þar segir eftirfarandi:

„Yfirlögregluþjónninn C lét í engu getið við yfirstjórn ríkislögreglustjórans að hæfni [A] til samskipta væri ábótavant. Hins vegar gerði yfirlögregluþjónninn grein fyrir tilteknu ástandi í starfsmannamálum og starfsemi ávana- og fíkniefnadeildarinnar, sem ásamt úttektum á störfum hennar á árunum 1997 og 1998 vegna mála fyrir 1. júlí 1997 og neikvæðrar umræðu í þjóðfélaginu í kjölfarið, hafi haft mikil áhrif á fíkniefnalöggæsluna – einkum störf fíkniefnadeildarinnar. Má í þessu sambandi minna á að á sínum tíma var settur sérstakur ríkislögreglustjóri til að rannsaka misræmi sem fram kom við birgðatalningu og birgðabókhald í fíkniefnageymslum embættis lögreglustjórans í Reykjavík. Vandi sá sem svo er nefndur í minnisblaði yfirlögregluþjónsins kemur fram í gögnum þessarar rannsóknar. Að því er varðar spurningu yðar um það hvort skráning samkvæmt 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 hafi farið fram þá er því til að svara að það var ekki gert, enda gerir ákvæðið ekki ráð fyrir því að slíkt sé gert nema svo standi á að um sé að ræða upplýsingar sem hafi verulega þýðingu fyrir úrlausn máls og þær sé ekki að finna í öðrum gögnum þess. Má um þau gögn vísa til rannsóknar sérstaks ríkislögreglustjóra, sem vikið er að hér að framan.

Fíkniefnastofa ríkislögreglustjórans hefur yfirumsjón með fíkniefnalöggæslu lögreglustjóranna. Um er að ræða starf sem verið er að byggja upp og er mikilvægt að fortíðarvandi ávana- og fíkniefnadeildarinnar varpi engum skugga þar á eða geti haft áhrif á samstarf og traust. Því þurfti að taka inn í myndina að nauðsynlegt kynni að vera að byggja starfsemi fíkniefnastofunnar upp af öðrum en þeim sem verkstýrðu ávana- og fíkniefnadeildinni á fyrrnefndu tímabili. Hér var um faglegt mat að ræða en ekki mat á persónum. Í því tilliti er ekki gert upp á milli [A] og [D]. [D] var yfirmaður fíkniefnastofu, en þegar hann kom frá störfum í […] í byrjun þessa árs, færðist hann til annarra starfa innan embættisins. [D] er sá maður sem mesta reynslu og þekkingu hefur á þessu sviði og af þeirri ástæðu stóð hann öðrum framar varðandi hæfni í stöðu yfirmanns fíkniefnastofu við stofnun embættisins 1. júlí 1997.

Vægi menntunar og starfsreynslu skiptir hér miklu. Í umræddu tilviki þurfti þó að horfa til fleiri atriða, eins og að hluta er nefnt að framan. [B] nýtur mikils trausts yfirmanna og einnig skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, sem sóst hefur eftir honum til að mennta lögreglumenn á fíkniefnasviðinu. Þeirri kennslu fylgir [B] einmitt eftir í starfi sínu. Þá hefur hann komið fram með áhugaverðar hugmyndir, sem verið er að fylgja eftir til eflingar fíkniefnalöggæslunni. Það var því mat ríkislögreglustjórans að [B] væri hæfastur umsækjenda í umrædda lögreglufulltrúastöðu og líklegastur til að geta unnið að framgangi fíkniefnalöggæslunnar með árangursríkum hætti og í þjálli samvinnu við aðra.“

Ég gaf A kost á því að gera þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera við framangreint bréf ríkislögreglustjóra með bréfi, dags. 28. september 1999. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 1. október 1999.

IV.

1.

Samkvæmt gögnum málsins var B settur lögreglufulltrúi hjá embætti ríkislögreglustjóra með bréfi, dags. 28. desember 1998. Starf lögreglufulltrúa á fíkniefnastofu hjá ríkislögreglustjóra var auglýst laust til umsóknar með auglýsingu, dags. 29. desember 1998. B sótti um það embætti með umsókn, dags. 6. janúar 1999. Var hann skipaður í embættið 27. janúar 1999 en þá var umsóknarfrestur liðinn. Með vísan til þessa og skýringa ríkislögreglustjóra verður ekki talið að búið hafi verið að ráðstafa embættinu áður en umsóknarfrestur um það rann út.

2.

Ákvörðun um skipun, setningu eða ráðningu í opinbert starf telst ákvörðun um réttindi og skyldur manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir við 1. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283.) Í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um þær leiðbeiningar sem stjórnvaldi ber að veita við birtingu stjórnvaldsákvörðunar. Í 1. tölulið 2. mgr. 20. gr. kemur fram að við birtingu skuli leiðbeina aðila um heimild hans til að fá ákvörðun rökstudda. Í bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 25. janúar 1999, var ekki vikið að rétti A til þess að fá ákvörðun ríkislögreglustjóra rökstudda. Þótt út frá því hafi verið gengið að viðkomandi umsækjandi þekkti til ákvæða stjórnsýslulaga breytir það ekki skýlausri skyldu stjórnvalds samkvæmt ákvæðinu. Ekki verður talið að ríkislögreglustjóri hafi verið skylt að veita frekari leiðbeiningar en hér koma fram.

3.

Ekki hafa verið lögfestar almennar reglur í íslenskum rétti um það hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um veitingu á opinberu starfi þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við ólögfestar meginreglur stjórnsýsluréttar þurfa þau sjónarmið að vera málefnaleg eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem það hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á leiða ekki til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við mat á innbyrðis vægi sjónarmiða gildir sú meginregla að stjórnvaldið ákveði á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þegar fleiri en einn umsækjandi uppfyllir þau almennu hæfisskilyrði sem um starfið gilda ber hlutaðeigandi stjórnvaldi að velja þann umsækjanda sem talinn er hæfastur með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem það hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á. Hefur umboðsmaður Alþingis fjallað um framangreind sjónarmið við veitingu opinberra starfa meðal annars í áliti frá 9. október 1992 í máli nr. 382/1991 (SUA 1992:151) og áliti frá 26. september 1996 í máli nr. 1391/1995 (SUA 1996:451).

Af gögnum málsins og skýringum þeim sem rakin eru í kafla II og III hér að framan verður ráðið að ákvörðun um skipun í embætti lögreglufulltrúa í fíkniefnastofu hjá ríkislögreglustjóra hafi byggst á heildarmati á ákveðnum atriðum. Samkvæmt rökstuðningi og greinargerð B vegna fyrirspurnar umboðsmanns byggðist ákvörðun ríkislögreglustjóra meðal annars á þeirri reynslu sem umsækjendur höfðu aflað við fíkniefnalöggæslu og getu þeirra til að halda yfirsýn í flóknari fíkniefnamálum sem og þeirri þekkingu sem þeir höfðu aflað sér í þessum málaflokki. Var ennfremur tekið tillit til þátttöku umsækjenda í uppbyggingarstarfi á þessu sviði og kennslu við Lögregluskóla ríkisins sem og hugmynda þeirra til að leita nýrra leiða til lausnar fíkniefnavandanum. Að lokum verður sú ályktun dregin af framangreindum gögnum að ákvörðunin hafi byggst á ýmsum atriðum varðandi persónulega hæfni umsækjenda svo sem áhuga, frumkvæði og metnaði þeirra í starfi sem og vinnubrögðum. Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til A kemur að lokum fram að litið hafi verið til hæfileika umsækjenda til að virkja aðra til að nálgast sett markmið og tungumálakunnáttu.

Eins og að framan greinir verður að telja að sú meginregla gildi í íslenskum stjórnsýslurétti að leitast skuli við að velja þann umsækjanda um laust opinbert starf sem hæfastur verður talinn til að gegna því. Í þessu felst meðal annars að ákvörðunin verður ávallt að byggjast a.m.k. að verulegu leyti á mati á atriðum sem til þess eru fallin að varpa ljósi á væntanlega frammistöðu viðkomandi í því starfi sem um ræðir. Með vísan til þessa tel ég að málefnalegt hafi verið að líta til reynslu, getu og þekkingar umsækjenda á sviði fíkniefnalöggæslu við val á umsækjendum um starf lögreglufulltrúa á fíkniefnastofu hjá embætti ríkislögreglustjóra. Ennfremur verður að telja málefnalegt að byggja slíka ákvörðun á þátttöku og reynslu af uppbyggingarstarfi í fíkniefnalöggæslu, kennslureynslu umsækjenda við Lögregluskóla ríkisins sem og hugmyndum þeirra um hvernig leita skuli nýrra leiða í baráttunni gegn fíkniefnavandanum. Að lokum tel ég að málefnalegt sé að líta til persónulegrar hæfni umsækjenda sem nýtist í viðkomandi starfi, svo sem áhuga þeirra, metnaði og frumkvæði í starfi sem og vinnubrögðum.

Í skýringum ríkislögreglustjóra til mín kemur fram að ákvörðun um að veita B starfið hafi meðal annars byggst á trausti yfirmanna á honum sem og því trausti sem væntanlegir samstarfsaðilar bæru til hans. Hér að framan var þess getið að nauðsynlegt væri að ákvörðun um veitingu á opinberu starfi byggðist a.m.k. að verulegu leyti á mati á atriðum sem til þess eru fallin að varpa ljósi á væntanlega frammistöðu í viðkomandi starfi með hliðsjón af eðli þess. Verður að telja að óheimilt sé að byggja slíka ákvörðun á persónulegri óvild handhafa veitingarvalds eða annarra gagnvart ákveðnum umsækjendum eða sérstakri persónulegri velvild í garð einhvers þeirra. Sé fyrirhugað að láta traust handhafa veitingarvalds og annarra aðila, s.s. yfirmanna viðkomandi, væntanlegra samstarfsaðila hans eða umsagnaraðila, hafa áhrif á niðurstöðu handhafa veitingarvalds verður af þessum sökum að taka til sérstakrar skoðunar á hvaða grundvelli það traust byggist. Sé það byggt á framgöngu umsækjanda í fyrri störfum og persónulegri hæfni hans, sem kann að nýtast í því starfi sem sótt er um, tel ég málefnalegt að láta það hafa áhrif á heildarmat á starfshæfni umsækjenda. Í því máli sem hér er til umfjöllunar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og skýringum ríkislögreglustjóra til mín að það traust sem vísað er til hafi byggst á framgöngu B í starfi og hæfni hans til þeirra starfa sem lögreglufulltrúi á fíkniefnastofu átti að gegna. Því tel ég ekki tilefni til athugasemda við beitingu þessa sjónarmiðs við veitingu starfsins.

4.

Í svarbréfi ríkislögreglustjóra, er barst mér hinn 28. september 1999, í tilefni af fyrirspurnarbréfi mínu, dags. 7. s.m., segir að niðurstaða í málinu hafi ekki byggst á þeim samskiptaörðugleikum sem upp komu í starfsemi áfengis- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík á ákveðnu tímabili. Hins vegar hafi verið rétt að taka inn í myndina að nauðsynlegt kynni að vera að byggja starfsemi fíkniefnastofunnar upp af öðrum en þeim sem verkstýrðu ávana- og fíkniefnadeildinni á fyrrnefndu tímabili. Var þar meðal annars vísað til þeirrar neikvæðu umfjöllunar sem skapast hafði um starfsemi hennar. Það virðist hins vegar ekki hafa verið afstaða ríkislögreglustjóra að A eða aðrir umsækjendur bæru að einhverju leyti persónulega ábyrgð á þeim örðugleikum.

Þetta sjónarmið tekur mið af þeim hagsmunum embættis ríkislögreglustjóra að menn tengdu ekki starfsemi fíkniefnastofu við þann fortíðarvanda sem ríkislögreglustjóri taldi að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík hefði átt við að glíma. Ekki verður fullyrt að ólögmætt hafi verið að byggja á þessu sjónarmiði. Beiting sjónarmiðs af þessu tagi má þó ekki leiða til þess að önnur þýðingarmikil sjónarmið sem til greina geta komið verði útilokuð við mat á starfshæfni einstakra umsækjenda. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og samkvæmt þeim viðræðum er ég átti við ríkislögreglustjóra og starfsmenn hans á fundi hinn 13. júní sl. verður þó ekki fullyrt að þetta sjónarmið hafi leitt til þess að önnur veigamikil sjónarmið hafi verið útilokuð við mat á starfshæfni A.

Ég tel hins vegar að af bréfi ríkislögreglustjóra til mín og því sem fram kom á fundi mínum hinn 13. júní sl. auk gagna málsins verði ráðið að þetta sjónarmið hafi haft áhrif á niðurstöðu ríkislögreglustjóra um veitingu þess starfs sem hér er til umfjöllunar. Hefur af hálfu ríkislögreglustjóra í þessu sambandi m.a. verið vísað til sérstakrar rannsóknar setts ríkislögreglustjóra á misræmi sem fram hefði komið við birgðatalningu og birgðabókhald í fíkniefnageymslum embættis lögreglustjórans í Reykjavík. Ákveðnar ávirðingar á starfsemi fíkniefnadeildar embættisins hafi falist í skýrslu setts ríkislögreglustjóra þótt óupplýst hafi verið hver bæri í raun ábyrgð á því sem aflaga fór. Hafi því almennt verið talið óheppilegt að maður er verkstýrt hefði fíkniefnadeildinni á þeim tíma sem rannsóknin tók til tæki við starfi lögreglufulltrúa á fíkniefnastofu.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er mælt fyrir um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í athugasemdum við IV. kafla laganna segir að í reglunni felist að aðili máls skuli eiga þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður er ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Kemur þar ennfremur fram að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila máls heldur sé tilgangur hennar einnig sá að stuðla að því að mál verði betur upplýst og tengist hún þannig rannsóknarreglunni. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3295.) Í athugasemdum við ákvæði það í frumvarpi til stjórnsýslulaga er síðar varð að 13. gr. stjórnsýslulaga segir síðan orðrétt:

„Þegar aðili máls hefur sótt um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum og fyrir liggur afstaða hans í gögnum máls þarf almennt ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um málsefni eins og fyrr segir. Þegar aðila er hins vegar ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3296.)

A var ekki kunnugt um að þáttur hans í verkstjórn ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík yrði metinn með framangreindum hætti er hann lagði fram umsókn um hið lausa starf lögreglufulltrúa við fíkniefnastofu embættis ríkislögreglustjóra þótt honum hafi verið kunnugt um rannsókn setts ríkislögreglustjóra á starfsemi deildarinnar og það umtal sem sú rannsókn fékk í fjölmiðlum. Var honum með öðrum orðum ekki kunnugt um að tekið yrði mið af upplýsingum þar að lútandi þegar ríkislögreglustjóri tók ákvörðun um veitingu á því starfi sem A sótti um. Af bréfi ríkislögreglustjóra verður ráðið að beiting á því sjónarmiði að nauðsynlegt kynni að vera að byggja starfsemi fíkniefnastofunnar upp af öðrum en þeim sem verkstýrðu ávana- og fíkniefnadeildinni á fyrrnefndu tímabili hafi ekki falið í sér mat á persónum. Þrátt fyrir það var með þessu lagt ákveðið mat á hvernig til hefði tekist við verkstjórn ávana- og fíkniefnadeildarinnar á ákveðnu tímabili, þ. á m. á þeim tíma er A bar ábyrgð á henni. Var mat ríkislögreglustjóra að þessu leyti A í óhag. Þá tel ég að í ljósi þeirra viðræðna sem ég hef átt við ríkislögreglustjóra og starfsmenn hans sem og gagna málsins að öðru leyti að upplýsingar um verkstjórn við ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafi haft þá þýðingu við úrlausn málsins að eðlilegt hafi verið, sbr. fyrirmæli 13. gr. stjórnsýslulaga, að A hefði verið gefinn kostur á að tjá sig um þátt hans í þeirri verkstjórn áður en ákvörðun ríkislögreglustjóra var tekin og þýðingu hennar við mat á umsóknum um starfið. Vísa ég þar ennfremur til þess að ákvörðun ríkislögreglustjóra byggðist á heildarmati á grundvelli ýmissa sjónarmiða þar sem ekki verður séð að eitt sjónarmið hafi haft aukið vægi í samanburði við önnur sjónarmið.

5.

Af kvörtun A verður ráðið að hann álíti að mat ríkislögreglustjóra á starfshæfni umsækjenda hafi verið óeðlilegt. Telur hann að ekki hafi verið tekið tillit til meiri menntunar hans en þess er skipaður var í embættið, lengri starfsaldurs hans hjá lögreglunni og meiri rannsóknarreynslu og stjórnunarreynslu hans.

Hér að framan var rakið að af gögnum málsins og skýringum ríkislögreglustjóra verði ekki annað ráðið en að ákvörðun um hvern skyldi skipa í starf lögreglufulltrúa á fíkniefnastofu hafi byggst á heildarmati á ákveðnum atriðum á grundvelli ólíkra sjónarmiða sem telja verði málefnaleg. Af þeim gögnum verður ráðið að sjónarmið um menntun og lengd starfsreynslu umsækjenda höfðu ekki afgerandi vægi um niðurstöðu ríkislögreglustjóra en óumdeilt er að A hafi bæði meiri menntun og lengri starfsreynslu en B. Eins og að framan greinir verður að telja það meginreglu í íslenskum stjórnsýslurétti að handhafi veitingarvalds velji á hvaða sjónarmið hann leggur áherslu leiði þau ekki öll til sömu niðurstöðu. Með hliðsjón af þessu tel ég ekki tilefni til frekari athugasemda við þennan þátt kvörtunarinnar.

6.

Kvörtun A beinist ennfremur að rannsókn málsins og rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Er þar kvartað yfir því að B hafi í rökstuðningi verið hrósað fyrir frábær vinnubrögð og frágang á málum en ekkert hafi komið fram um það að þessir þættir hafi verið skoðaðir hjá honum til samanburðar. Ennfremur er því haldið fram í kvörtuninni að fræðslustörf hans varðandi fíkniefnamál hjá lögreglu, tollgæslu, foreldrafélögum og fleiri aðilum hafi ekki verið skoðuð. Þá kvartar hann yfir því að ekki hafi verið leitað umsagnar varðandi störf hans í lögreglunni fyrir 1. júlí 1997 og að einungis einn yfirlögregluþjónn hafi gefið skriflega umsögn um störf hans hjá lögreglunni frá 1. júlí 1997. Að lokum telur hann ámælisvert að þess hafi ekki verið getið í rökstuðningi eða í umsögn yfirlögregluþjóns að hann hafi verið skipaður í sérstaka nefnd til þess að hrinda af stað átaki í ávana- og fíkniefnavörnum sem hafi skilað af sér skýrslu og tillögu til dómsmálaráðherra.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um efni rökstuðnings. Skal þar vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skal í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Þar sem ástæða er til skal ennfremur í rökstuðningi rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Í athugasemdum við 22. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum segir meðal annars svo:

„Í 22. gr. er ekki kveðið á um það hversu ítarlegur rökstuðningur skuli vera. Að meginstefnu til á rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3303.)

Rökstuðningur ríkislögreglustjóra kom fram í bréfi embættisins til A, dags. 15. febrúar 1999. Þar voru rakin nokkur meginsjónarmið sem ákvörðun um skipun B byggðist á. Í rökstuðningi var þó ekki vikið að því sjónarmiði sem gert er að umtalsefni í kafla IV.4 hér að framan. Tel ég ljóst að þetta sjónarmið hafi haft þá þýðingu við úrlausn málsins, sbr. kafla IV.4 hér að framan, að rétt hafi verið að geta þess í rökstuðningi til A. Er það að mínu áliti annmarki að þessa var ekki gætt. Að öðru leyti tel ég að tilgreining þeirra meginsjónarmiða er ákvörðunin byggðist á hafi verið fullnægjandi.

Ég tel að þær upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins hafi verið nægjanlega rakin í rökstuðningi ríkislögreglustjóra. Vil ég í þessu sambandi taka fram að af 22. gr. stjórnsýslulaga verður ekki dregin sú ályktun að við starfsveitingar skuli krafist frekari rökstuðnings af hálfu handhafa veitingarvalds. Verður þannig almennt ekki talið nauðsynlegt að í rökstuðningi til umsækjanda um opinbert starf sé gerð grein fyrir því hvernig handhafi veitingarvalds hafi metið einstök atriði varðandi þann umsækjanda er æskir rökstuðnings eða að rökstuðningur feli í sér nákvæman samanburð á starfshæfni hans og þess umsækjanda sem fékk starfið.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að stjórnvöld skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þegar um veitingu á opinberu starfi er að tefla verður handhafi veitingarvalds að afla gagna um hverjir umsækjenda uppfylla almenn starfsgengisskilyrði. Rannsókn máls af þessu tagi ber ennfremur að miða að því að upplýsa hver umsækjenda, sem uppfylla almenn hæfisskilyrði, telst hæfastur þeirra með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lögð skulu til grundvallar. Ber því handhafa veitingarvalds að afla nauðsynlegra gagna um alla umsækjendur áður en ákvörðun er tekin. Þau sjónarmið sem stjórnvald leggur til grundvallar ákvörðun afmarka hvaða gagna þurfi að afla til að mál teljist nægjanlega upplýst. Fullnægjandi upplýsingar kunna að koma fram í umsóknum og fylgigögnum þeirra til að mat geti farið fram á starfshæfni umækjenda. Ef umsóknargögn varpa ekki nægu ljósi á starfshæfni umsækjenda getur hins vegar reynst nauðsynlegt að óska eftir viðbótarupplýsingum ýmist frá umsækjendum eða öðrum aðilum sem til þekkja. Ef upplýsinga er í slíkum tilvikum aflað munnlega ber stjórnvaldinu að fylgja 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og skrá þær niður hafi þær verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins.

A telur að ekki hafi verið aflað fullnægjandi gagna um vinnubrögð og frágang hans á málum þeim sem hann hafði haft með höndum hjá lögreglunni í Reykjavík en af rökstuðningi ríkislögreglustjóra verður ráðið að litið hafi verið til þessa atriðis. Í greinargerð C, er fylgdi svarbréfi ríkislögreglustjóra til mín, dags. 28. apríl 1999, er því vísað á bug að rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Er þar bent á að C hafi verið yfirmaður hjá lögreglunni í Reykjavík og þekkt til starfa A. Ennfremur þekkti hann til starfa B hjá lögreglunni í Reykjavík og hafi það verið mat hans að B stæði A framar á þeim sviðum sem talið var að skiptu máli.

Ljóst er af gögnum málsins að C var um tíma yfirmaður bæði A og B. Ég tel ekki ástæðu til að draga sérstaklega í efa að nægar upplýsingar hafi legið fyrir um framangreind atriði svo taka mætti afstöðu til þeirra áður en ákvörðun var tekin um hvern skipa skyldi í starfið. Ennfremur er ljóst að í umsókn A voru veittar fullnægjandi upplýsingar um fræðslustörf hans hjá lögreglu, tollgæslu, foreldrafélögum og fleiri aðilum. Þessi atriði leiða því að mínu áliti ekki til þess að rannsókn málsins verði talin ábótavant. Þá tel ég að það hafi ekki farið í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga að C hafi einn veitt upplýsingar um störf A hjá lögreglunni í Reykjavík frá 1. júlí 1997.

Eins og að framan greinir byggðist ákvörðun ríkislögreglustjóra í málinu á heildarmati á ákveðnum þáttum á grundvelli ólíkra sjónarmiða þar sem sjónarmið um menntun og lengd starfsreynslu virðast ekki hafa haft afgerandi vægi. Var meðal annars litið til hæfni umsækjenda til að halda yfirsýn í flóknum og umfangsmiklum málum á sviði fíkniefnalöggæslu og þeirrar þekkingar og reynslu sem þeir höfðu aflað sér utan hefðbundinnar skólagöngu á málaflokknum. C, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, var ekki yfirmaður A er hann starfaði að fíkniefnalöggæslu við ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Tel ég að eðlilegt hefði verið í ljósi rannsóknarskyldu handhafa veitingarvalds, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að frekari upplýsinga hefði verið aflað um A að þessu leyti.

Ljóst er að við skipun í starfið var að einhverju leyti byggt á trausti samstarfsaðila við fíkniefnastofu ríkislögreglustjóra. Í því skyni að upplýsa um þetta atriði var leitað umsagnar núverandi lögreglufulltrúa ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Samkvæmt greinargerð C lýsti hann yfir fullu trausti til B en efasemdum um samstarf við A. Þótt telja verði heimilt að leita eftir áliti væntanlegra samstarfsaðila með þessum hætti verður að huga vandlega að því hvaða ályktanir verði dregnar af þeim upplýsingum og að hvaða marki þeim verði beitt við úrlausn málsins. Þarf slíkur umsagnaraðili að hafa forsendur til þess að geta lagt mat á hugsanlegt samstarf við viðkomandi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum A við skýringar ríkislögreglustjóra kemur fram að hann hafi aldrei starfað með núverandi lögreglufulltrúa ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík. Verður af þeim sökum ekki séð að unnt hafi verið að leggja afstöðu hans til hugsanlegs samstarfs við A til grundvallar við mat á starfshæfni umsækjenda.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að annmarki hafi verið á skriflegri tilkynningu ríkislögreglustjóra til A um skipun í starf lögreglufulltrúa á fíkniefnastofu embættisins þar sem honum var ekki leiðbeint um rétt sinn til þess að fá ákvörðunina rökstudda. Þá tel ég að eðlilegt hefði verið, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, að A hefði verði gefinn kostur á að tjá sig um þátt sinn í verkstjórn ávana- og fíkniefnadeildar lögregluembættisins í Reykjavík fyrir 1. júlí 1997 áður en ákvörðun var tekin um veitingu starfsins. Ennfremur tel ég að rétt hefði verið að geta þess í rökstuðningi að við úrlausn málsins hefði verið litið til þess sjónarmiðs að nauðsynlegt kynni að vera að byggja starfsemi fíkniefnastofu upp af öðrum en þeim sem verkstýrðu ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík á ákveðnu tímabili. Þá er það niðurstaða mín að eðlilegt hefði verið að afla frekari upplýsinga um þekkingu og reynslu A af fíkniefnalöggæslu og hæfni hans til að halda yfirsýn í flóknum og umfangsmiklum málum á því sviði en gert var. Að lokum tel ég að ekki hafi verið unnt að leggja afstöðu núverandi lögreglufulltrúa ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík til hugsanlegs samstarfs við A til grundvallar við mat á starfshæfni umsækjenda.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á málsmeðferð ríkislögreglustjóra er það álit mitt að ólíklegt sé að þeir annmarkar leiði til ógildingar á ákvörðun hans meðal annars af tilliti til hagsmuna þess umsækjanda er skipaður var til að gegna starfinu.

Ég beini þeim tilmælum til embættis ríkislögreglustjóra að það taki mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í áliti þessu við veitingu opinberra starfa í framtíðinni.