Opinberir starfsmenn. Setning í embætti til reynslu. Skylda til auglýsingar. Málshraði. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 2850/1999)

A kvartaði yfir þeirri ákvörðun utanríkisráðherra að falla frá því að skipa í embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á grundvelli auglýsingar og að framlengja setningu B um eitt ár frá 1. október 1999. Taldi hann að ráðherra hafi borið að meta umsækjendur um hið lausa embætti með hlutlægum hætti og setja þann í embættið sem hæfastur yrði talinn eða hafna öllum umsækjendum og auglýsa embættið á ný.

Umboðsmaður rakti ákvæði 24. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem fjalla um setningu í embætti, og 1. mgr. 7. gr. sömu laga um skyldu til að auglýsa laus embætti eins og þau ákvæði hljóðuðu eftir að lög nr. 150/1996 breyttu þeim lögum. Taldi umboðsmaður ljóst að B hefði frá 1. október 1998 verið settur til reynslu í embættið í skilningi 2. málsl. 24. gr. laganna og því hafi borið að auglýsa embættið laust til umsóknar samkvæmt 1. mgr. 7. gr. þeirra laga. Af skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns mátti ráða að ákvörðun um framlengingu setningar B frá 1. október 1999 í embættið hefði ekki byggst á samanburði á þeim umsækjendum sem sótt höfðu um embættið í kjölfar auglýsingar. Því taldi umboðsmaður að málsmeðferð sú sem viðhöfð var við veitingu embættisins yrði lögð að jöfnu við að sett hefði verið í það til reynslu án þess að það hefði nokkurn tíma verið auglýst laust til umsóknar. Fékkst sú ráðstöfun að hans áliti ekki staðist meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 og vísaði þar til athugasemda við 5. gr. frumvarps til eldri laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Var það niðurstaða hans að ráðuneytið hafi því ekki átt þess kost, eins og atvikum var háttað, að framlengja setningu B í embættið til reynslu án þess að auglýsa embættið laust til umsóknar þar sem efnisleg afstaða yrði tekin til þeirra umsókna sem bærust á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.

Þá rakti umboðsmaður ýmsar skráðar og óskráðar meginreglur sem virða bæri gagnvart umsækjendum við veitingu á opinberu starfi. Taldi hann það aðfinnsluvert að utanríkisráðuneytið hefði ekki tilkynnt þeim sem sótt höfðu um embættið í kjölfar auglýsingar, sem birst hefði í apríl 1999, um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins, ástæður þeirra tafa og hvenær ákvörðunar væri að vænta. Þá vísaði hann til þess að umsókn um opinbert starf vekti í senn væntingar hjá umsækjendum um að hún hlyti meðferð í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttarins um slíkar ákvarðanir og að til þess kunni að koma að hún verði tekin til greina. Taldi hann að í málinu hefði utanríkisráðuneytið ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirra réttmætu væntinga og því hafi þeir stjórnsýsluhættir sem viðhafðir voru ekki verið nægjanlega vandaðir.

Umboðsmaður taldi að það yrði að vera hlutverk dómstóla að skera úr um hvaða áhrif annmarkar af því tagi sem greindi í álitinu ættu að hafa. Beindi hann þeim tilmælum til utanríkisráðuneytisins að það tæki mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við veitingu embætta og annarra opinberra starfa í framtíðinni.

I.

Hinn 7. október 1999 leitaði til mín A og kvartaði yfir þeirri ákvörðun utanríkisráðherra frá 29. september 1999 að falla frá því að skipa í embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á grundvelli auglýsinga í Lögbirtingablaði og Morgunblaðinu um hið lausa embætti og að framlengja setningu B, sem var einn umsækjenda, um eitt ár. A telur að ráðherra hafi borið að meta umsækjendur um hið lausa embætti með hlutlægum hætti og setja þann í embættið sem hæfastur yrði talinn eða hafna öllum umsækjendum og auglýsa embættið á ný.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 5. september 2000.

II.

1.

Málavextir eru þeir að B var settur forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá 1. október 1998 til 1. október 1999 með bréfi, dags. 30. september 1998. Var erindisbréf hans gefið út sama dag. Áður hafði B verið tilkynnt um fyrirhugaða setningu í starfið með bréfi, dags. 8. september 1998, þar sem starfssvið hans var tilgreint og veittar upplýsingar um réttindi og skyldur hans í hinu nýja starfi. Kom þar fram að aðdragandi setningarinnar væri sú ákvörðun utanríkisráðuneytisins að frá og með 1. nóvember 1998 yrði skilið stjórnunarlega á milli rekstrar flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hinn 11. september 1998 óskaði utanríkisráðuneytið eftir afstöðu fjármálaráðuneytisins til þess hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu að hið nýja forstjórastarf yrði talið embætti í skilningi laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fjármálaráðuneytið svaraði erindi utanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. sama dag, þar sem fram kom að ráðuneytið gerði ekki athugasemdir við að litið yrði á starfið sem embætti. B hafði gegnt starfi framkvæmdastjóra hjá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli áður en til setningar í hið nýja starf kom.

2.

Hinn 9. apríl 1999 birtist í Lögbirtingablaði auglýsing er hljóðaði svo:

„Embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er laust til umsóknar. Utanríkisráðherra skipar í embættið til 5 ára, frá og með 15. maí nk., sbr. 23. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl.

Verkefni forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eru m.a.:

· að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar;

· að annast markaðsmál flugvallarins í samráði við aðra hagsmunaaðila;

· að annast útleigu á aðstöðu til auglýsinga í flugstöðinni og á flugstöðvarlóðinni;

· að annast útleigu á verslunar- og þjónusturýmum flugstöðvarinnar og annast framkvæmd samninga þar að lútandi.

Krafist er háskólamenntunar eða staðgóðrar menntunar á sviði viðskipta, ásamt umfangsmikillar þekkingar og reynslu á sviði stjórnunar og viðskipta. Æskilegt er að umsækjendur hafi þekkingu og reynslu í alþjóðlegum samskiptum. Einnig er gerð krafa um að umsækjendur hafi gott vald á ensku og auk þess sem kunnátta í Norðurlandamálum og þýsku eða frönsku er æskileg.

Launakjör eru skv. ákvörðunum kjaranefndar.

Umsóknum skal skilað til varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Rauðarárstíg 25, 150 Reykjavík, fyrir mánudaginn 26. apríl nk.

Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu veitir allar nánari upplýsingar [...]. Umsóknir þar sem óskað er nafnleyndar eru ekki teknar gildar.“

Auglýsing um hið lausa embætti var ennfremur birt í Morgunblaðinu hinn 1. apríl 1999. Þrír sóttu um hið auglýsta embætti, þeir A, B og C.

Hinn 2. september 1999 leitaði A til mín og kvartaði yfir því að dregist hefði að taka ákvörðun um skipun í embættið af hálfu utanríkisráðuneytisins. Ritaði ég utanríkisráðherra bréf, dags. 3. september 1999, þar sem ég óskaði upplýsinga um hvað liði afgreiðslu ráðuneytisins á veitingu embættisins með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ráðgefandi stjórn flugstöðvarinnar, sem utanríkisráðherra hafði komið á fót í ágúst 1999, sendi ráðherra skýrslu, dags. 27. september 1999, um málefni flugstöðvarinnar. Þar sagði eftirfarandi:

„Ráðgefandi stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem utanríkisráðherra skipaði 24. ágúst sl. hefur að undanförnu verið að marka störfum sínum farveg auk þess að hafa til meðferðar umsóknir um stöðu forstjóra Flugstöðvarinnar. Þar sem setning núverandi forstöðumanns embættisins rennur út 1. október nk. telur stjórnin sér skylt að gera grein fyrir stöðu málsins og tillögu sinni um framhald þess.

Núna fara fjögur embætti með vald ráðherra á Keflavíkurflugvelli. Embættin eru Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli, Fríhöfnin og Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Stjórnin telur að afmarka þurfi og skýra verksvið Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar gagnvart öðrum embættum er starfa í umboði ráðherra á flugvallarsvæðinu. Flugstöðin sem embætti er sett á laggirnar með ákvörðun ráðherra og án þess að sett hafi verið sérstök lög eða stjórnvaldsfyrirmæli um starfssvið hennar. Verkefnum Flugstöðvarinnar var áður sinnt af Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli sem lýtur stjórn flugvallarstjóra.

Nauðsynlegt er að setja skýrar reglur um verkaskiptingu milli þessara rekstrareininga og stjórnunarleg tengsl þeirra. Í því sambandi verður að skoða samspil þeirra við Sýslumannsembættið og Fríhöfnina og hafa í þeim efnum samráð við annars vegar sýslumann og hins vegar stjórn Fríhafnarinnar og forstjóra.

Við skoðun þessa verður að hafa í huga að flugvöllurinn þjónar jafnt borgaralegu flugi sem herflugi og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er varavarnarmannvirki.

Stjórnin hefur hug á að gera heildstæðar tillögur til ráðherra um hvernig standa megi að stofnanalegri uppbyggingu á flugvallarsvæðinu. Stjórnin óskar eftir umboði til slíkrar tillögugerðar og heimildar til að leita samráðs við aðra hlutaðeigandi aðila.

Verði fallist á þessa tillögu stjórnarinnar leggur hún til að fallið verði frá því að skipa forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á grunni þeirrar auglýsingar sem birtist sl. vor. Að teknum ákvörðunum um framtíðarfyrirkomulag stofnana utanríkisráðuneytisins á flugvallarsvæðinu verði staðan hins vegar auglýst að nýju eftir því sem við getur átt.

Stjórnin áætlar að geta skilað tillögum sínum til utanríkisráðherra fyrir 1. maí nk. og að úrvinnsla þeirra eigi að geta átt sér [stað] innan tveggja mánaða þaðan í frá. Stjórnin leggur til að Flugstöðinni verði settur forstjóri tímabundið frá 1. október nk. og þar til þessari skoðun er lokið. Að mati stjórnarinnar væri æskilegast ef núverandi forstjóri fengist til að taka það að sér.“

Með bréfi utanríkisráðuneytisins til B, dags. 29. september 1999, var honum tilkynnt að setning hans í embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar væri framlengd um eitt ár til 30. september 2000. Hinn 30. september 1999 gaf ráðuneytið út fréttatilkynningu þar sem fram kom að ákveðið hefði verið að falla frá því að skipa í embættið á grundvelli auglýsingar frá 30. mars 1999 og framlengja setningu B í embættið til eins árs. Var þar vísað til þess er fram kom í framangreindu áliti stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. A var tilkynnt munnlega um ákvörðun utanríkisráðuneytisins og ástæður þeirra málalykta. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. október 1999, var A tilkynnt formlega um niðurstöðu ráðuneytisins.

Með bréfi utanríkisráðuneytisins, er barst mér 7. október 1999, var mér tilkynnt um framangreindar málalyktir. Sama dag ritaði ég A bréf þar sem honum var tilkynnt að þar sem ég liti svo á að erindi það sem kvörtun hans hefði beinst að hefði nú fengið afgreiðslu sæi ég ekki tilefni til frekari umfjöllunar um kvörtun hans frá 2. september 1999. Væri málinu því lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ennfremur tilkynnti ég honum að mér hefði borist kvörtun hans sem rakin var í kafla I hér að framan.

III.

Með bréfi, dags. 22. október 1999, óskaði ég eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að utanríkisráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té öll gögn málsins. Í bréfi mínu sagði ennfremur:

„Meðal þess sem óskað er eftir eru upplýsingar og gögn um upphaflega setningu núverandi forstjóra flugstöðvarinnar, sem framlengd var um eitt ár til 1. október 2000. Jafnframt óskast upplýst á hvaða lagasjónarmiðum 24. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða eftir atvikum á hvaða öðrum lagagrundvelli, sú ákvörðun ráðuneytis yðar byggist að setja núverandi forstjóra í embættið til eins árs en skipa ekki í það á „grundvelli auglýsingar frá 30. mars sl.“, eins og fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytis yðar, dags. 30. september 1999. Jafnframt óskast upplýst hvort ákvörðunin um að setja núverandi forstjóra til eins árs hafi byggst á mati á starfshæfni þeirra er sótt höfðu um hið lausa embætti. Ef svo er óskast upplýst á hvaða sjónarmiðum það mat hafi byggst og hvaða gagna hafi verið aflað til að upplýsa um starfshæfni þeirra með hliðsjón af þeim sjónarmiðum.“

Svarbréf ráðuneytisins var afhent mér á fundi mínum með starfsmönnum utanríkisráðuneytisins hinn 20. desember 1999. Í því segir meðal annars:

„[...]

[B], var settur forstjóri FLE frá 1. október 1998 að telja til 1. október 1999. Í ljósi þess að setningartíma lyki 1. október 1999 var af hálfu utanríkisráðuneytisins þann 30. mars sl. ákveðið að auglýsa embættið laust til umsóknar. Í auglýsingu sem birt var bæði í 38. tbl. Lögbirtingablaðsins og í Morgunblaðinu 1. apríl 1999 kom fram að utanríkisráðherra skipi í embættið til 5 ára frá og með 15. maí 1999, sbr. 23. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl. Umsóknum skyldi skilað til varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins fyrir mánudaginn 26. apríl 1999. Þrjár umsóknir bárust um embættið fyrir tilgreindan tíma, frá [B], [A] og [C]. Umsækjendur voru kallaðir í viðtöl hjá starfsmönnum varnarmálaskrifstofu og jafnframt kannaði varnarmálaskrifstofa hvort umsækjendur uppfylltu bæði form- og efniskröfur auglýsingar. Af hálfu utanríkisráðherra var ekki skipað í stöðuna frá og með 15. maí 1999 eins og upphaflega stóð til. Um þær mundir var komin af stað vinna við skipulag á yfirstjórn fyrirhugaðrar stækkunar flugstöðvarinnar og gat það að mati ráðuneytisins haft áhrif á stjórnskipulag stofnana þess á flugvallarsvæðinu. Að athuguðu máli taldi utanríkisráðherra jafnframt rétt að ekki yrði skipað í stöðuna fyrr en að kosningum loknum og eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Með því yrði málið á forræði nýs utanríkisráðherra ef breytingar yrðu á ríkisstjórn og á hans valdi að marka embættinu framtíðarsess í stjórnskipulagi flugvallarins.

Rekstur FLE heyrði lengi vel undir embætti Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli sem stýrt er af flugvallarstjóra. Á árinu 1998 var rekstur flugumferðarstjórnar og flugstöðvarinnar aðskilinn þannig að flugvallarstjóri fer með rekstur flugvallarins eingöngu og nýtt embætti varð til er annast rekstur flugstöðvarinnar. Jafnhliða skipun byggingarnefndar var síðastliðið sumar ákveðið að gera úttekt á stöðu og stjórnskipulagi stofnana ráðuneytisins á Keflavíkurflugvelli og kanna jafnframt rekstrargrundvöll þeirra almennt. Í þessu skyni skipaði ráðherra sér til ráðgjafar stjórnir fyrir annars vegar FLE og hins vegar Fríhöfnina. Bygginganefnd og stjórnirnar tóku til starfa 24. ágúst sl. Í fréttatilkynningu sem ráðuneytið gaf út sama dag segir m.a. að ráðgefandi stjórn FLE skuli vera ráðherra til ráðgjafar um framtíðarrekstur flugstöðvarinnar og tekjuöflun hennar. Ennfremur kemur fram að stjórninni er ætlað að gera heildstæðar tillögur til ráðherra um rekstur, stjórnun og stofnanalegt fyrirkomulag flugstöðvarinnar á flugvallarsvæðinu. Utanríkisráðherra taldi rétt að gefa ráðgefandi stjórn FLE ráðrúm til að kynna sér nokkuð verkefni sitt áður en hann skipaði í embætti flugstöðvarforstjóra. Í bréfi ráðgefandi stjórnar FLE til utanríkisráðherra, dags. 27. september 1999, segir m.a.:

[...]

Að fengnu ofangreindu viðhorfi og áliti ákvað utanríkisráðherra í lok september 1999 að veita ráðgefandi stjórn FLE heimild til tillögugerðar og frekara samráðs við aðra aðila innan Keflavíkurflugvallar. Stjórninni var tilkynnt um þetta með bréfi dagsettu 5. október sl. Jafnframt ákvað ráðherra með hliðsjón af þeirri endurskoðun sem hafin var, og með hliðsjón af tillögu stjórnarinnar, að framlengja setningu forstjóra flugstöðvarinnar tímabundið um eitt ár eða til 30. september 2000. Öðrum umsækjendum var tilkynnt sú ákvörðun með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. október 1999.

III.

Viðhorf ráðuneytisins

Með vísan til þess er greinir hér að framan er það mat ráðuneytisins að eðlilegast hafi verið miðað við allar aðstæður að setja sama aðila til þess að gegna starfi forstjóra flugstöðvarinnar áfram tímabundið. Afar óeðlilegt hefði verið við þær aðstæður sem hér um ræðir að skipa nýjan forstjóra til 5 ára með sama verksvið og fyrr og leggja síðan starfið niður eða gjörbreyta umfangi þess innan árs. Slíkir starfshættir hefðu hvorki getað talist eðlilegir né sanngjarnir gagnvart þeim umsækjendum sem sóttu um stöðuna í þeirri góðu trú að um vel afmarkað framtíðarstarf væri að ræða. Að þessu virtu sér ráðuneytið ekki ástæðu til þess að tíunda athugasemdir við umkvörtun [A] og samskipti hans við ráðuneytið.

IV.

Lagagrundvöllur

Svo sem greinir hér að framan var í upphafi gert ráð fyrir því að setning [B] í embætti forstjóra FLE rynni út 1. október 1999 og skipað yrði í þá stöðu eins og hún var þá skilgreind til 5 ára áður en setningartíminn rynni út. Embættið var því auglýst laust til umsóknar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 24. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með síðari breytingum segir í 2. málsl. að setja megi mann til reynslu í embætti, áður en hann er skipaður í það, til eins árs í senn, þó aldrei lengur en tvö ár. Ákvæði þetta var ekki upphaflega í 24. gr. starfsmannalaga við gildistöku þeirra 1. júlí 1996, en með 10 gr. laga nr. 150 frá 27. desember 1996, var framangreindum málslið bætt við 24. gr. Í athugasemd við nefnda 10. gr. breytingarlagafrumvarps segir að með 24. gr. starfsmannalaga hafi í fyrsta sinn verið mælt fyrir um skilyrði fyrir setningu í embætti. Þau hafi öll miðast við atvik er varða þann sem skipaður hefur verið til að gegna embættinu, t.d. vegna fráfalls hans eða veikinda. Í athugasemd greinarinnar segir að rétt þyki að gera stjórnvöldum jafnframt kleift að setja í embætti til reynslu, t.d. áður en nýr maður er skipaður í það í fyrsta sinn. Breytingin tók ekki aðeins til rýmri setningarheimildar heldur var hámarks setningartími jafnframt lengdur úr einu ári í tvö ár. Ráðuneytið telur að framangreint ákvæði starfmannalaga heimili ótvírætt að stjórnvald setji tiltekinn mann til reynslu í embætti til eins árs í senn en þó aldrei lengur en í tvö ár.

Þegar ákvörðun var tekin um að skipa ekki í embættið skv. auglýsingu ráðuneytisins frá 30. mars sl., hafði [B] gegnt embætti forstjóra flugstöðvarinnar skv. setningarbréfi um eins árs skeið. Í ljósi þeirrar athugunar sem stofnað var til á stöðu FLE í stofnanalegu skipulagi flugvallarsvæðisins var það mat ráðuneytisins að skynsamlegast og hagkvæmast væri að framlengja setningartíma [B] við þessar aðstæður. Þá lá ekki fyrir hvernig stofnanalegu skipulagi á Keflavíkurflugvelli yrði háttað til næstu ára og er svo reyndar ekki enn. Ráðgert er að niðurstaða um þetta efni liggi fyrir á fyrri hluta næsta árs. Ástæða er jafnframt til þess að vekja athygli á því að embætti forstjóra FLE er mjög ungt og enn í þróun og mótun. Í ljósi alls framangreinds þótti ráðherra ekki rétt að skipa mann til að gegna embættinu til 5 ára skv. 23. gr. starfsmannalaga, heldur var setning framlengd skv. heimild í 24. gr. laganna. Þó að embætti hafi verið auglýst geta almennt séð ýmis atvik leitt til þess að stjórnvald telji það þjóna betur hagsmunum ríkisins og almennings að hætta við skipun í embætti (ráðningu í starf) vegna breyttra forsendna. Verða starfsmannalögin ekki skýrð og túlkuð með þeim hætti að stjórnvaldi sé skylt að skipa í embætti sem auglýst hefur verið.

Með vísan til þess er greinir hér að framan verður ekki annað séð en að gætt hafi verið að þeim lagasjónarmiðum sem hér skipta máli.

V.

Framlenging setningar

Utanríkisráðherra féll frá því að skipa forstjóra flugstöðvarinnar á grundvelli auglýsingarinnar frá 30. mars sl. og ákvað að framlengja setningu starfandi forstjóra flugstöðvarinnar tímabundið á meðan unnið væri að tillögum um framtíðarfyrirkomulag flugstöðvarinnar. Komu umsóknir umsækjenda um embættið því ekki til frekari umfjöllunar af hálfu ráðuneytisins.

Ákvörðun ráðherra um að framlengja setningu [B] byggðist ekki á samanburði á umsækjendum um skipun í embættið. Enginn umsækjenda kom sem slíkur til álita í þessu sambandi, enda hafði enginn þeirra sótt um að gegna starfinu til eins árs skv. setningu. Það að [B] var settur til þess að gegna starfinu áfram, frekar en að setja annan einstakling til að gegna því í eitt ár, byggðist á því að hann var starfandi forstjóri flugstöðvarinnar frá 1998. Við þessar aðstæður lá því beinast við að framlengja fyrri setningu hans. Þá hefði ekki verið heppilegt út frá rekstrarlegum sjónarmiðum að setja í eitt ár mann til að gegna starfinu sem lítið eða ekkert þekkti til þess. Undir slíkum kringumstæðum var því talið bæði eðlilegt og heppilegt að framlengja setningu þess er gegndi starfinu.

Að öllu framangreindu virtu er það álit ráðuneytisins að framlenging setningar starfandi forstjóra í embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafi verið skynsamleg málsmeðferð miðað við þær aðstæður sem uppi voru og hún hafi jafnframt verið lögformleg og í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Með bréfi, dags. 20. desember 1999, gaf ég A kost á því að senda mér þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera í tilefni af skýringum ráðuneytisins. Athugasemdir A bárust mér hinn 8. febrúar sl.

Með bréfi, dags. 17. apríl 2000, fór utanríkisráðuneytið þess á leit við mig að fá að leggja fram frekari rökstuðning vegna málsins. Sá rökstuðningur barst mér hinn 26. sama mánaðar. Þar kom fram að ráðuneytið teldi nauðsynlegt og rétt að skýra nánar frá sjónarmiðum þess og málsástæðum. Þar sagði meðal annars eftirfarandi:

„Eins og greint var frá í ofangreindu bréfi ráðuneytisins frá 17. desember 1999 heyrði rekstur FLE lengi vel undir Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli. Á árinu 1998 var hins vegar ákveðið að skipta rekstrinum upp í tvær einingar og stofna sérstakt embætti forstjóra flugstöðvarinnar. Um var að ræða nýtt embætti sem átti að annast rekstur flugstöðvarinnar, sbr. erindisbréf forstjóra FLE frá 30. september 1998. Aðalástæða aðskilnaðarins var sú að ráðuneytið taldi að rekstur flugstöðvarinnar og flugvallarins ættu ekki saman þó að starfsemi þeirra væri óhjákvæmilega samtvinnuð að mörgu leyti. Þegar ákvörðunin um aðskilnað var tekin var hins vegar ekki búið að fullmóta starfssvið FLE og þar með framtíð embættis forstjóra FLE enda lágu ekki fyrir skýrar afmarkaðar reglur um verksvið FLE, hvorki í formi laga né stjórnvaldsfyrirmæla. Í raun má því segja, að embætti forstjóra FLE hafi í upphafi verið stofnað til reynslu, án þess að framtíð þess væri fullmótuð. Af þeim sökum taldi ráðuneytið hvorki þann möguleika vera fyrir hendi að skipa í embætti forstjóra FLE til 5 ára samkvæmt 23. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (stml.) né auglýsa stöðuna til setningar manns til reynslu í eitt ár áður en hann yrði skipaður í embættið samkvæmt 2. mlsl. 24. gr. s.l. Þar sem ráðuneytið mat það svo að ekkert ákvæði stml. gerði ráð fyrir þeirri stöðu sem upp var komin vegna embættis forstjóra FLE var ákveðið að ráða í starfið án undangenginnar auglýsingar tímabundið og meðan aflað væri reynslu af hinu breytta fyrirkomulagi.“

Aðdragandi að framlengingu setningar B í embættið var síðan rakinn í bréfi utanríkisráðuneytisins. Þar sagði ennfremur eftirfarandi:

„Sú ákvörðun ráðherra að framlengja setningu forstjóra FLE tímabundið í eitt ár frá 1. október 1999 var að mati ráðuneytisins eðlilegasta, skynsamlegasta og hagkvæmasta niðurstaðan við umræddar aðstæður. Var sú niðurstaða og í fullu samræmi við áratuga langa framkvæmd stjórnvalda við setningar í embætti, en í tíð eldri laga myndaðist sú venja, að menn voru settir tímabundið án takmörkunar á setningartíma.

Það sem hér varðar þó mestu er nýmæli 2. mlsl. 24. gr. stml, sbr. 10. gr. laga nr. 150/1996, en þar segir:

„Jafnframt má setja mann til reynslu í embætti, áður en hann er skipaður í það, til eins árs í senn, þó aldrei lengur en tvö ár.“

Tilvitnuðu ákvæði var aukið við 24. gr. stml. skömmu eftir setningu þeirra, m.a. þar sem í ljós kom að tæmandi rannsókn á þeim tilvikum, þar sem tímabundin setning gæti átt sér stað, hafði ekki farið fram við samningu laganna. Þótti rétt að lögfesta heimild stjórnvöldum til handa, til að setja menn í embætti í allt að tvö ár. Setning í embætti forstjóra FLE í eitt ár frá 1. október 1999 var vitaskuld á grundvelli tilvitnaðs heimildarákvæðis, og innan þeirra tímamarka sem þar eru greind.

Til hliðsjónar þykir einnig rétt að nefna hér önnur ákvæði, er málið varða, þó með óbeinum hætti sé. Þrátt fyrir að þau eigi ekki með beinum hætti við það mál, sem hér er til umfjöllunar, verður ekki hjá því komist að líta til þeirra við skýringu stml. og við mat á aðdraganda setningar í embætti forstjóra FLE frá 1. október 1999. Fyrst skal nefnt, að með 24. gr. stml. var lögfest það nýmæli að veita stjórnvöldum heimild til setningar í embætti á vegum ríkisins í tilteknum tilvikum, þ.e. þegar um er að ræða fjarveru embættismanns til lengri tíma vegna veikinda eða annarra ástæðna. Heimildin er þó takmörkuð við eitt ár í senn. Í 1. mlsl. 24. gr. stml. er gert ráð fyrir fjarveru manna í lengri tíma, s.s. vegna veikinda. Vart þarf að taka fram að slík veikindi geta hæglega staðið yfir lengur en eitt ár. Í þeim tilvikum verður að telja óeðlilegt að skýra umrætt ákvæði þannig, að stjórnvöldum sé óheimilt að framlengja tímabundna setningu í viðkomandi embætti að einu ári liðnu, enda verður að telja að hagsmunum bæði ríkis og almennings sé best þjónað með því að sami maður gegni embættinu áfram á meðan á fjarveru hins fyrri stendur. Ekki verður heldur séð af greinargerð með lögunum eða öðrum lögskýringargögnum, að ætlunin hafi verið að breyta þeirri venju sem skapast hafði í framkvæmd, að setja menn tímabundið í embætti án sérstakrar takmörkunar á setningartíma. Takmörkun í þá átt myndi óhjákvæmilega takmarka mjög möguleika stjórnvalda til að bregðast við á skjótan, hagkvæman og raunhæfan hátt þegar þörf er á, s.s. var við setningu í embætti forstjóra FLE. Má auk þess gera kröfu um að ákvæði um slíka takmörkun, og breytingu á fyrri framkvæmd, hefði þurft að koma fram í lögunum með skýrum hætti, ef sú hefði verið ætlun löggjafans. Þá verður ekki séð að niðurstaða þessi rýri að nokkru leyti réttarstöðu þeirra sem sækja um embætti á vegum stjórnvalda.“

Í bréfi utanríkisráðuneytisins er ennfremur bent í þessu sambandi á 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins, 4. gr. laga nr. 88/1995, um þingfarakaup alþingismanna og þingfarakostnað, og 4. gr. fylgiskjals II (Samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um réttarstöðu samnorrænna stofnana og starfsfólks þeirra) með lögum nr. 55/1989. Síðan segir í bréfi ráðuneytisins:

„Í ljósi tilvitnaðra ákvæða, og þeirra aðstæðna sem þau taka til, má sjá að fjöldi aðstæðna gerir kröfu um þann sveigjanleika innan stjórnsýslunnar, að menn verði settir í embætti til allt að tveggja ára, og eins árs í senn. Við þær aðstæður er að sama skapi afar óhagkvæmt að takmarka heimildir stjórnvalda til setningar manna í embætti við eitt ár í heildina. Sömu rök eiga við að þessu leyti að því er varðar setningu í embætti forstjóra FLE frá 1. október 1999, eins og áður er rakið, enda stóðu mikilsverð rök til þeirrar niðurstöðu.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, hlýtur ákvörðun ráðuneytisins um að framlengja setningu starfandi forstjóra FLE að teljast skynsamleg og eðlileg miðað við þær aðstæður sem þá voru uppi. Setningin var í samræmi við lög og þær venjur sem myndast hafa á þessu sviði, en áréttað skal að setningin var til árs í senn og til tveggja ára alls, og þannig innan ramma 24. gr. stml.

Að lokum er rétt að geta þess að snemma þessa árs lagði ráðgefandi stjórn FLE tillögur sínar um framtíðar rekstrarform FLE fyrir ráðherra, sem ákvað að fylgja þeim eftir með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fylgir frumvarpið hér með.“

Með bréfi, dags. 27. apríl sl., gaf ég A kost á því að gera þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera við framangreint bréf utanríkisráðuneytisins. Þær athugasemdir bárust mér 21. ágúst sl.

IV.

1.

Eins og að framan greinir telur A að utanríkisráðherra hafi borið að meta umsækjendur um hið auglýsta embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar með hlutlægum hætti og setja þann í embættið sem hæfastur yrði talinn eða hafna öllum umsækjendum og auglýsa embættið á ný. Af skýringum ráðuneytisins til mín verður ráðið að sú ákvörðun að framlengja setningu B í embættið byggðist ekki á mati á framkomnum umsóknum um embættið í kjölfar auglýsingar. Telur ráðuneytið að þær málalyktir hafi verið í fullu samræmi við lög.

2.

Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, voru birt í Stjórnartíðindum 19. júní 1996 og tóku gildi hinn 1. júlí sama ár. Í 1. mgr. 23. gr. þeirra laga er mælt fyrir um hvernig haga skuli veitingu embætta sem talin eru upp í 22. gr. laganna. Þar segir eftirfarandi:

„Embættismenn skulu skipaðir tímabundið, til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum.“

Í 24. gr. laganna er mælt fyrir um undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 23. gr. þeirra. Við birtingu laga nr. 70/1996 í Stjórnartíðindum 19. júní 1996 hljóðaði greinin svo:

„Nú fellur maður frá sem skipaður hefur verið í embætti, eða er fjarverandi um lengri tíma vegna veikinda eða af öðrum ástæðum, og getur þá það stjórnvald sem veitir embættið sett annan mann til að gegna því um stundarsakir, þó aldrei lengur en í eitt ár. Sá sem settur er í embætti nýtur réttinda og ber skyldur skv. VI. og VII. kafla eftir því sem við á.“

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 70/1996 kom fram að það væri nýmæli og að í eldri lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 hefði ekki verið ákvæði um setningu í embætti. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3152.) Samkvæmt ákvæðinu var því heimilt að setja mann í eitt ár í embætti vegna forfalla skipaðs embættismanns. Var þá ekki þörf á að auglýsa hið lausa embætti samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna en þar kom fram að heimilt væri að skipa mann eða setja í embætti samkvæmt 2. mgr. 23. gr. eða 24. gr. eða flytja hann til í embætti samkvæmt 36. gr. án þess að embættið væri auglýst laust til umsóknar.

Með 10. gr. laga nr. 150/1996, um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, voru gerðar breytingar á 24. gr. laga nr. 70/1996. Eftir þessa lagabreytingu hljóðaði ákvæðið svo:

„Nú fellur maður frá sem skipaður hefur verið í embætti, eða er fjarverandi um lengri tíma vegna veikinda eða af öðrum ástæðum, og getur þá það stjórnvald sem veitir embættið sett annan mann til að gegna því um stundarsakir, þó aldrei lengur en í eitt ár. Jafnframt má setja mann til reynslu í embætti, áður en hann er skipaður í það, til eins árs í senn, þó aldrei lengur en tvö ár. Sá sem settur er í embætti nýtur réttinda og ber skyldur skv. VI. og VII. kafla eftir því sem við á.“

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 150/1996 sagði eftirfarandi:

„Í 24. gr. stml var í fyrsta skipti mælt fyrir um skilyrði fyrir setningu í embætti. Þau miðast hins vegar öll við atvik er varða þann sem skipaður er til að gegna embættinu, svo sem fráfall hans eða fjarveru um lengri tíma vegna veikinda eða af öðrum ástæðum. Rétt þykir að stjórnvöldum verði jafnframt gert kleift að setja í embætti til reynslu, t.d. áður en nýr maður er í það skipaður fyrsta sinni.“ (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2463.)

Við meðferð þingsins á framangreindu frumvarpi var ennfremur lagt til að gerð yrði breyting á 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Var sú breytingartillaga samþykkt og hljóðar 1. mgr. 7. gr. laganna þá svo:

„Laust embætti skal auglýsa í Lögbirtingablaði og skal umsóknarfrestur ekki vera skemmri en tvær vikur frá útgáfudegi blaðsins. Þó er heimilt að skipa mann eða setja í embætti skv. 2. mgr. 23. gr. eða setja í forföllum skv. 1. málsl. 24. gr. eða flytja hann til í embætti skv. 36. gr. án þess að embættið sé auglýst laust til umsóknar.“

Í greinargerð efnahags- og viðskiptanefndar fyrir breytingartillögunni kom fram að með þessu væri lagt til að undanþáguheimild frá skyldu til auglýsingar á embætti næði ekki til reynsluskipunar. (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2615.) Í ræðu framsögumanns efnahags- og viðskiptanefndar sagði jafnframt að þessar breytingatillögur væru fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Þar sagði ennfremur:

„Í a-lið brtt. er gert ráð fyrir því að taka þurfi fram að þegar menn eru settir í embætti án auglýsingar sé það einungis vegna þess að sá sem er í embættinu fyrir geti ekki gegnt því og þess vegna geti menn ekki verið settir í embætti án auglýsingar án þess að um forföll sé að ræða.“ (Alþt. 1996-1997, B-deild, d. 2893.)

Samkvæmt framansögðu skiptir verulegu máli um skyldu stjórnvalds til að auglýsa embætti laust til umsóknar á hvaða lagasjónarmiðum 24. gr. laga nr. 70/1996 setning í embætti byggist. Sé um setningu í forföllum að ræða samkvæmt 1. málslið 24. gr. laganna er stjórnvaldi ekki skylt að auglýsa embættið laust til umsóknar, sbr. 2. málslið 1. mgr. 7. gr. laganna. Sé hins vegar fyrirhugað að setja mann í embætti til reynslu, sbr. 2. málslið 24. gr. laga nr. 70/1996, hvílir sú lagaskylda á stjórnvaldi að auglýsa það laust til umsóknar.

Af gögnum þeim sem fyrir mig hafa verið lögð og skýringum utanríkisráðuneytisins verður ráðið að setning í embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hinn 1. október 1998 byggðist ekki á 1. málsl. 24. gr. laga nr. 70/1996 um setningu í forföllum skipaðs embættismanns enda embættið nýtt. Verður því að leggja til grundvallar að um setningu til reynslu hafi verið að ræða enda verður ekki séð að unnt hefði verið að byggja setningu í viðkomandi embætti á öðrum lagagrundvelli. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna bar því að auglýsa embættið laust til umsóknar áður en til setningar í það kom 1. október 1998. Undantekning 2. málsliðar 2. mgr. 14. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, sbr. 156. gr. laga nr. 83/1997, átti ekki við um veitingu þess embættis er hér um ræðir en þar er veitt undanþága frá skyldu utanríkisráðuneytisins til að auglýsa þar til greind embætti laus til umsóknar. Ekki verður heldur talið að B hafi verið fluttur milli embætta á grundvelli 36. gr. laga nr. 70/1996 enda gegndi hann ekki embætti í skilningi 22. gr. laganna áður en til setningar í embætti forstjóra flugstöðvarinnar kom og ekki á því byggt af hálfu utanríkisráðuneytisins.

Af bréfi utanríkisráðuneytisins til mín, dags. 26. apríl sl., verður ráðið að hið lausa embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafi ekki verið auglýst laust til umsóknar áður en B var settur í það hinn 1. október 1998. Er í skýringum utanríkisráðuneytisins vísað til þess að starfið hafi ekki verið fullmótað er sú ákvörðun var tekin. Þótt ákvæði laga nr. 70/1996 hafi að mati ráðuneytisins ekki gert ráð fyrir þeirri aðstöðu sem þá var uppi fór sú málsmeðferð að setja í embættið án þess að auglýsa það laust til umsóknar í bága við skýlaust ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 7. gr. laga nr. 150/1996.

3.

Eins og fram kemur í kafla II.2 hér að framan var embætti forstjóra flugstöðvarinnar auglýst laust til umsóknar með auglýsingu í Lögbirtingablaði og Morgunblaðinu í apríl 1999. Var þá fyrirhugað að skipa í embættið til fimm ára. Í september sama ár var horfið frá þeim áformum og ákveðið að setja í það til reynslu á ný til eins árs. Var setning B þá framlengd um eitt ár en ella hefði setningartími hans runnið út 1. október 1999.

Í bréfi mínu til utanríkisráðuneytisins, dags. 22. október 1999, óskaði ég eftir upplýsingum um hvort ákvörðun um að setja B til eins árs á ný hefði byggst á mati á starfshæfni þeirra umsækjenda er sótt höfðu um hið lausa embætti. Var þá vísað til auglýsingar um embættið sem birt var í apríl 1999. Í svarbréfi ráðuneytisins til mín kemur fram að utanríkisráðherra hafi fallið frá því að skipa í embættið á grundvelli auglýsingar og að umsóknir umsækjenda hafi því ekki komið til frekari umfjöllunar af hálfu ráðuneytisins. Byggðist ákvörðun ráðherra um að setja B í embættið til reynslu ekki á samanburði á umsækjendum og hafi því enginn þeirra komið til álita á þeim grundvelli. Þar sem enginn umsækjenda hafi sótt um að gegna starfinu til eins árs með setningu hafi legið beinast við að framlengja setningu B til eins árs.

Enda þótt opinbert embætti sé auglýst laust til umsóknar hefur verið talið að viðkomandi stjórnvaldi sé ekki skylt að skipa eða setja í embættið jafnvel þótt umsækjendur uppfylli almenn hæfisskilyrði er um embættið gilda. Því getur handhafi veitingarvalds hafnað öllum framkomnum umsóknum og eftir atvikum auglýst það á ný. Ennfremur verður að telja að honum sé heimilt að setja í viðkomandi embætti til reynslu á grundvelli 2. málsl. 24. gr. laga nr. 70/1996 enda þótt auglýsing hafi gefið til kynna að skipað yrði í það til fimm ára á grundvelli 1. mgr. 23. gr. laganna.

Af framangreindu leiðir þó ekki að heimilt hafi verið í því máli sem hér er til umfjöllunar að hafna öllum framkomnum umsóknum án þess að leggja sérstakt mat á hæfni umsækjenda til að gegna embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en framlengja setningu B í embættið. Vísa ég þar til þess að B hafði þá gegnt embættinu í eitt ár án þess að það hefði verið auglýst. Verður ekki annað séð en að sú málsmeðferð sem viðhöfð var við veitingu embættisins verði lögð að jöfnu við að sett hafi verið í embættið til reynslu án þess að það hafi nokkurn tíma verið auglýst laust til umsóknar. Fær sú ráðstöfun að mínu áliti ekki staðist meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Byggir það ákvæði á sömu sjónarmiðum og rakin voru í athugasemdum við 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar sagði eftirfarandi:

„Það nýmæli felst í þessari grein, að opinberar stöður skuli auglýstar til umsóknar. Er þar réttlætismál og jafnréttis, að öllum þeim, er hugur leikur á tilteknu opinberu starfi, sé veittur þess kostur að sækja um það. Ríkinu ætti þá einnig að vera meiri trygging fyrir því, að hæfir menn veljist í þjónustu þess.“ (Alþt. 1953-1954, A-deild, bls. 421.).

Af 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 leiðir því að ríkisstofnunum er ekki unnt að setja í embætti til reynslu án þess að þeim sem hugur leikur á að sækja um það sé gefinn kostur á því með opinberri auglýsingu að leggja fram umsókn þar um. Því tel ég að ráðuneytið hafi ekki átt þess kost, eins og atvikum var háttað, að framlengja setningu B á grundvelli 2. málsl. 24. gr. laga nr. 70/1996, eins og gert var í málinu samkvæmt skýringum ráðuneytisins, án þess að embættið væri auglýst laust til umsóknar og efnisleg afstaða tekin til þeirra umsókna sem bærust á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Legg ég í því sambandi áherslu á að frá 1. október 1999 var setningartími B liðinn. Var þá unnt að koma á lögmætri skipan í embættið án þess að hagsmunum hans yrði raskað.

Embætti forstjóra flugstöðvarinnar var auglýst laust til umsóknar í apríl 1999 en horfið frá því að byggja á þeim umsóknum sem aflað var með þeirri auglýsingu. Eins og að framan greinir var ráðuneytinu ekki skylt að lögum að skipa eða setja í embættið á grundvelli þeirrar auglýsingar. Ég legg hins vegar áherslu á að ég tel að engar lagalegar hindranir hafi verið því í vegi að taka efnislega afstöðu til þeirra umsókna sem bárust í kjölfar auglýsingarinnar og þá eftir atvikum eftir að umsækjendum hefði verið tilkynnt að fyrirhugað væri að setja í embættið til reynslu í eitt ár í stað þess að skipa í það til fimm ára. En þar sem ráðuneytið taldi ekki rétt að byggja á þeim umsóknum bar að tilkynna umsækjendum um þær málalyktir og auglýsa síðan embættið laust til umsóknar á ný í samræmi við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 eins og að framan greinir. Hefði umsækjendum þar með gefist kostur á að endurnýja umsóknir sínar.

4.

Með auglýsingu á lausu opinberu starfi hefst stjórnsýslumál sem jafnan lýkur með töku stjórnvaldsákvörðunar um veitingu þess, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umsækjendur njóta réttarstöðu aðila að því stjórnsýslumáli samkvæmt stjórnsýslulögum. Um þá ákvörðun gilda ennfremur óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar meðal annars að hún þurfi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og að velja skuli þann umsækjanda sem hæfastur verður talinn til að gegna því starfi með hliðsjón af þeim sjónarmiðum. Með vísan til þeirra atriða sem rakin voru í athugasemd við 5. gr. laga nr. 38/1954 hér að framan tel ég að umsækjendur um opinbert starf eigi almennt að geta treyst því að tekin verði stjórnvaldsákvörðun um veitingu starfsins þar sem efnisleg afstaða sé tekin til þess hver þeirra teljist hæfastur til að gegna viðkomandi starfi eða að horfið sé frá því að taka ákvörðun um veitingu þess. Skal ákvörðun um málalyktir tekin svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar var embættið auglýst laust til umsóknar í byrjun apríl 1999 með umsóknarfresti til 26. apríl 1999. Tekið var fram að skipað yrði í starfið frá og með 15. maí 1999. Hinn 30. september 1999 var umsækjendum öðrum en B tilkynnt um lyktir málsins. Daginn áður hafði B verið tilkynnt að setning hans í embættið yrði framlengd um eitt ár. Voru þá liðnir fjórir og hálfur mánuður frá þeim degi sem umsækjendur máttu í síðasta lagi vænta niðurstöðu samkvæmt auglýsingu. Ég tel að nauðsynlegt hafi verið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að skýra umsækjendum frá þeim töfum á afgreiðslu málsins sem var fyrirsjáanleg, upplýsa þá um ástæður þeirra og hvenær ákvörðunar væri að vænta. Ég minni á að umrædd ákvörðun gat skipt umsækjendur miklu um ákvarðanir þeirra og ráðstafanir vegna atvinnu. Var því sérstök ástæða til að hraða afgreiðslu málsins og að tilkynna umsækjendum um tafirnar og hvenær ákvörðunar væri að vænta.

Umsókn um opinbert starf vekur í senn væntingar hjá umsækjendum um að hún hljóti meðferð í samræmi við þær meginreglur stjórnsýsluréttarins sem að framan greinir og að til þess geti komið að hún verði tekin til greina. Tel ég að í því máli sem til hér hefur verið til umfjöllunar hafi utanríkisráðuneytið ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirra réttmætu væntinga umsækjenda. Var málsmeðferðin því ekki einungis í ósamræmi við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 heldur voru þeir stjórnsýsluhættir sem viðhafðir voru í málinu að mínu áliti ekki nægjanlega vandaðir.

5.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að óheimilt hafi verið að framlengja setningu B í embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til reynslu í eitt ár án þess að auglýsa embættið laust á ný hafi vilji utanríkisráðuneytisins ekki staðið til þess að byggja ákvörðun um veitingu embættisins á umsóknum er bárust í kjölfar auglýsingar í apríl 1999. Ég hef ennfremur bent á að sú málsmeðferð sem viðhöfð var í kjölfar þeirrar auglýsingar hafi ekki verið nægjanlega vönduð gagnvart þeim sem sóttu um embættið. Ekki verður séð að fyrir liggi dómar sem skeri úr um hvaða áhrif annmarkar af því tagi sem að framan greinir geta haft. Þegar gætt er að dómaframkvæmd að öðru leyti og hagsmunum þess sem veitt hefur verið starfið tel ég ekki unnt að fullyrða hvort slíkir annmarkar hefðu þau áhrif að sú ákvörðun að setja B í umrætt starf yrði felld úr gildi. Tel ég að það verði að vera hlutverk dómstóla að skera úr um það. Ég tel þó rétt að taka fram að eins og atvikum er háttað í þessu máli verður ekki séð að úrlausn um það hvort ákvörðun um setningu B yrði talin ógildanleg hafi endanleg áhrif um það hvort umsækjandi eigi tiltæk úrræði að lögum. Hvort og þá í hvaða mæli hagsmunum umsækjenda um opinbert starf telst raskað vegna ofangreindra annmarka á málsmeðferð þannig að hann eigi rétt á bótum verður hins vegar einnig að vera verkefni dómstóla að skera úr um enda þurfa þá að koma til skýrslutökur og mat á öðrum atriðum sem þýðingu kunna að hafa.

V.

Niðurstaða

Niðurstöður athugunar minnar í tilefni af þeirri kvörtun sem hér hefur verið fjallað um eru þær að skylt hafi verið samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að auglýsa embætti forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar áður en B var settur í embættið til reynslu hinn 1. október 1998. Þar sem þess var ekki gætt bar utanríkisráðuneytinu að auglýsa embættið laust til umsóknar áður en setning B var framlengd um eitt ár með bréfi, dags. 29. september 1999. Því tel ég að hafi ráðuneytið litið svo á að ákvörðun um setningu í embættið skyldi ekki byggð á þeim umsóknum er bárust í kjölfar auglýsingar í apríl 1999 hafi því borið að auglýsa embættið laust til umsóknar á ný. Þá tel ég að sú málsmeðferð sem viðhöfð var gagnvart þeim umsækjendum er sótt höfðu um embættið hafi ekki verið nægjanlega vönduð með hliðsjón af 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og réttmætra væntinga þeirra um úrlausn málsins. Beini ég þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í áliti þessu við veitingu embætta og annarra opinberra starfa í framtíðinni.