Opinberir starfsmenn. Dómstólar.

(Mál nr. 9602/2018)

A kvartaði yfir umsögn dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara. Annars vegar beindist kvörtunin að málsmeðferð og niðurstöðu dómnefndar um hver hefði verið hæfastur umsækjenda og hins vegar að mati nefndarinnar og umfjöllun um reynslu A af lögmanns- og dómarastörfum.

Af gögnum málsins og skýringum nefndarinnar til umboðsmanns taldi hann ekki annað séð en nefndin hefði byggt á þeim viðmiðum sem mælt væri fyrir um í lögum og reglum um mat hennar á hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að líta svo á að nefndin hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að mati sínu eða að ómál­efnalegt hafi verið að leggja þau sjónarmið til grundvallar sem byggt var á. Hvað önnur atriði í kvörtuninni snerti taldi umboðsmaður þau ekki gefa til­efni til frekari umfjöllunar eða athugunar af sinni hálfu.

Þrátt fyrir það taldi umboðsmaður þó ástæðu til að rita dómnefndinni bréf og koma tilteknum sjónarmiðum og ábendingum á framfæri. Lutu þær ábendingar annars vegar að mati og samanburði á starfsreynslu umsækjanda og hins vegar að framsetningu nefndarinnar á tilteknum atriðum í umsögn um umsækjandann. Í því sambandi minnti umboðsmaður á að nefndin yrði í ljósi stöðu sinnar að gæta að framsetningu og orðavali í umsögn sinni um umsækjendur á opinberum vettvangi og gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er hverju sinni. Þar þyrfti að hafa í huga að það væri munur á aðstöðu stjórnvalda og borgaranna að þessu leyti þar sem áhrif og ummæli stjórnvalda á opinberum vettvangi hafa almennt meira vægi en ummæli borgaranna sem kunni að gera þeim erfitt um vik telji þeir á sig hallað í þeirri umræðu. Þrátt fyrir að einstök álitaefni eða ágreiningur hafi komið upp í samskiptum við umsækjendur yrði að gæta þess að þau hefðu ekki áhrif á með hvaða hætti nefndin setti fram umsagnir sínar og yfirlýsingar og gæta þyrfti hlutleysis og sanngirnis.