Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Sveitarfélög. Gjafsókn.

(Mál nr. 9771/2018)

A kvartaði yfir stjórnsýslu sveitarfélags vegna tveggja mála. Gerði A athugasemd við hæfi lögmanns sem kom fram fyrir hönd sveitarfélagsins í báðum málunum og að sveitarfélagið hefði ítrekað bent A á að leita til þessa lögmanns með erindi sín vegna málanna. Einnig gerði A athugasemd við að sveitarfélagið hefði ekki svarað kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna deiliskipulags. Þá kvartaði A jafnframt yfir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að synja gjafsóknarbeiðni sinni.

Ekki lá fyrir að umræddur lögmaður hefði sýnt A persónulega óvild eða verið að öðru leyti hlutdrægur við meðferð mála A þannig að ekki samrýmdist lögum. Því taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til þess að taka þennan hluta í kvörtun A til frekari meðferðar. Ekki heldur til að taka til frekari umfjöllunar þann hluta kvörtunarinnar sem sneri að því að sveitarfélagið hefði bent A á að beina erindum vegna málanna til lögmannsins. Enn fremur taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við synjun dómsmálaráðuneytisins á gjafsóknar­beiðni A.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 11. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

I

Ég vísa til kvörtunar yðar 12. júlí sl. og samtala yðar við starfsmenn mína 26. sama mánaðar, 13. september sl. og 11., 17. og 24. janúar sl.

Ég skil kvörtun yðar þannig að hún beinist annars vegar að stjórnsýslu sveitarfélagsins X, þá bæði í tengslum við málefni barna yðar og kröfu yðar um að sveitarfélagið viðurkenni skaðabótaskyldu vegna deiliskipulags. Í þessu sambandi gerið þér í fyrsta lagi athugasemdir við hæfi lögmanns sem hefur komið fram fyrir hönd sveitar­félagsins gagnvart yður í báðum þessum málum. Í öðru lagi lúta athugasemdir yðar að því að þegar þér hafið leitað til sveitarfélagsins vegna framangreindra mála hafi sveitarfélagið ítrekað bent yður á að leita með erindi yðar til umrædds lögmanns. Í þriðja lagi beinast athugasemdir yðar að því að sveitarfélagið hafi ekki svarað fyrrnefndri kröfu yðar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna deiliskipulags frá 7. maí sl.

Kvörtun yðar lýtur hins vegar að þeirri ákvörðun dómsmála­ráðuneytisins, dags. 29. júní 2017, að synja gjafsóknarbeiðni yðar. Í þessu sambandi tek ég fram að þessi hluti kvörtunarinnar barst utan þess ársfrests sem er mælt fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, en í 6. gr. laganna er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis. Í 2. mgr. laga­greinarinnar segir síðan að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Aftur á móti hafið þér upplýst mig um samskipti yðar við starfsmann minn í aðdraganda þess að þér lögðuð fram kvörtun, þ. á m. að þér hafið mætt á skrifstofu mína 20. júní sl. og þá fengið tilteknar skriflegar leiðbeiningar sem liggja fyrir, m.a. um að afla ákvörðunar ráðuneytisins. Að þessum atvikum virtum hef ég litið svo á að framan­greindur hluti kvörtunarinnar, sem lýtur að ákvörðun dómsmála­ráðuneytisins, hafi borist innan ársfrests 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Í tilefni af kvörtun yðar ritaði ég bæði sveitarfélaginu X og dómsmálaráðuneytinu bréf, dags. 27. september sl., sem þér fenguð send afrit af með bréfi frá skrifstofu minni, dags. sama dag. Mér barst svar dómsmálaráðuneytisins 8. október sl., en með því voru mér send öll gögn gjafsóknarmáls yðar. Þá barst mér svar Y fyrir hönd sveitarfélagsins X 4. janúar sl. Í svari þess kemur í fyrsta lagi fram að sveitarfélagið hafi svarað kröfu yðar um viðurkenningu á bótaskyldu með bréfi, dags. 13. september sl. Bréfið hafi verið sent til B, sem hafði upplýst sveitarfélagið 11. júlí sl. um að hann hefði tekið við málinu af C. Í öðru lagi kemur fram í svari sveitarfélagsins að lögmaðurinn, sem hluti kvörtunar yðar lýtur að, hafi komið að barnaverndarmáli, sem þér áttuð aðild að, sem bæjarlögmaður sveitarfélagsins. Aðkoma lögmannsins að málinu hafi hafist á árinu 2015 vegna ákvarðana sem 1. mgr. 11. gr. barna­verndar­laga, nr. 80/2002, áskilji að barnaverndarnefnd kalli til lögfræðing. Aðkomu lögmannsins hafi lokið síðla árs 2017 þegar aðkomu dómstóla vegna málsins hafi lokið og hafi lögmaðurinn ekki haft frekari aðkomu að málinu. Þá segir að málin séu með öllu óskyld og verði ekki séð að aðkoma bæjarlögmanns að barnaverndarmáli valdi vanhæfi hans til að upplýsa um afstöðu sveitarfélagsins til kröfu um viðurkenningu á skaðabóta­skyldu vegna deiliskipulags. Að lokum er upplýst um að sveitar­félagið taki ákvörðun um það í hvert skipti hvaða erindum það feli bæjarlögmanni að svara fyrir sína hönd og skipti þá ekki máli hvaða aðili eigi í hlut.

 

II

1

Athugasemdir yðar við hæfi umrædds lögmanns byggjast einkum á því að hann hafi komið fram fyrir hönd sveitarfélagsins X í tveimur málum gagnvart yður, þ.e. annars vegar barnaverndarmálum og hins vegar máli sem lýtur að kröfu yðar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna deiliskipulags. Teljið þér að lögmaðurinn hafi ekki verið hlutlaus gagnvart yður við meðferð barnaverndarmálsins vegna aðkomu hans að málinu um deiliskipulagið. Þegar þér lögðuð fram kvörtun yðar 12. júlí sl. áttuð þér samtal við starfsmann minn. Í því samtali spurði starfsmaður minn yður nánar af hverju þér telduð að lögmaðurinn hefði verið vanhæfur til að koma að málum yðar fyrir hönd sveitarfélagsins og hvort þér telduð að hann hefði sýnt yður persónulega óvild. Í samtalinu áréttuðuð þér þá afstöðu að vanhæfi lögmannsins væri vegna aðkomu hans að framangreindum málum fyrir hönd sveitarfélagsins. Í öðru samtali við starfsmann minn 13. september sl. nefnduð þér að lögmaðurinn hefði sýnt yður persónulega óvild. Mér eru þó ekki tiltækar upplýsingar um í hverju þér teljið að hin persónulega óvild felist. [...].

Um einstaklinga sem koma að meðferð mála í stjórnsýslunni gilda sérstakar hæfisreglur, en þær mæla fyrir um það hvenær slíkir einstaklingar eru hæfir til meðferðar máls, sbr. t.d. óskráða meginreglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni og 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ef aðstæður eru fyrir hendi sem valda því að einstaklingur sem kemur að meðferð máls er vanhæfur samkvæmt sérstökum hæfisreglum er honum almennt óheimilt að hafa aðkomu að því. Meðal þeirra aðstæðna sem geta valdið vanhæfi er að ef fyrir hendi eru aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni einstaklings, sem kemur að meðferð máls, í efa með réttu, svo sem ef fyrir liggur persónuleg óvild viðkomandi í garð aðila málsins.

Af framangreindu leiðir að feli stjórnvald, eins og sveitarfélagið X, lögmanni að hafa með höndum stjórnsýslu í þess þágu kann hann að vera vanhæfur til að koma að meðferð mála samkvæmt sérstökum hæfisreglum. Aftur á móti veldur það eitt ekki vanhæfi að lögmaður í þessari aðstöðu komi að meðferð tveggja óskyldra mála fyrir hönd sveitar­félagsins, þrátt fyrir að sami einstaklingur eigi aðild að þeim báðum. Þá valda önnur tengsl, sem þér hafið nefnt í samskiptum við starfsmenn mína, ekki vanhæfi lögmannsins, eins og atvik þessa máls liggja fyrir mér. Af þessum sökum og þar sem ekki liggur fyrir samkvæmt þeim upplýsingum sem eru mér tiltækar að umræddur lögmaður hafi sýnt yður persónulega óvild eða verið að öðru leyti hlutdrægur við meðferð mála yðar þannig að ekki samræmist lögum tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að taka þennan hluta í kvörtun yðar til frekari meðferðar. 

2

Sem fyrr segir hef ég skilið kvörtun yðar yfir stjórnsýslu sveitar­félagsins X þannig að hún hafi einnig beinst að því að sveitarfélagið hafi bent yður á að beina erindum yðar vegna barnaverndar­málsins og í tengslum við kröfu yðar um viðurkenningu á skaðabóta­skyldu vegna deiliskipulags til umrædds lögmanns.

Í tilefni af þessum hluta kvörtunar yðar hefur starfsmaður minn leitað eftir því við yður að fá nánari upplýsingar um það hvenær og við hvaða aðstæður sveitarfélagið hefur bent yður á að leita með erindi yðar til lögmannsins, einkum þau sem varða barnaverndarmálið. Hér vísa ég aðallega til símtals yðar 11. janúar sl. og samtals 17. sama mánaðar. Í þessum samtölum kom m.a. fram að þér hefðuð ekki leitast eftir að eiga í samskiptum við starfsmenn sveitarfélagsins vegna málefna barna yðar á árinu 2018 eða síðari hluta árs 2017. Virðist sveitarfélagið einkum hafa bent yður á að eiga í samskiptum við lögmann þess á árunum 2014 eða 2015-2017 og þá helst í tengslum við mál þar sem kom til greina að grípa til úrræða samkvæmt barnaverndarlögum eða þegar til slíkra úrræða hafði þegar verið gripið.

Í ljósi framangreinds tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að taka til frekari meðferðar þann hluta kvörtunarinnar sem lýtur að samskiptum yðar við sveitarfélagið að þessu leyti.

3

Að lokum lýtur kvörtun yðar yfir stjórnsýslu sveitarfélagsins X að því að sveitarfélagið hafi ekki svarað kröfu yðar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, dags. 7. maí sl. Eins og greinir að framan kemur fram í svari sveitarfélagsins sem barst mér 4. janúar sl. að sveitarfélagið hafi svarað kröfunni með bréfi, dags. 13. september sl., sem hafi verið sent á tilgreindan lögmann. Meðfylgjandi svari sveitarfélagsins til mín var afrit af bréfinu. Þar sem þessi hluti kvörtunarinnar beinist að því að kröfu yðar hafi ekki verið svarað og þar sem það hefur nú verið gert tel ég ekki tilefni fyrir mig til þess að aðhafast frekar út af þessum hluta málsins.

4    

Í tilefni af kvörtun yðar yfir stjórnsýslu sveitarfélagsins X, gögnum sem þér létuð fylgja kvörtuninni og samskiptum yðar við starfsmenn mína tel ég tilefni til þess að árétta hlutverk og starfssvið umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um umboðsmann Alþingis er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá er í lögum um umboðsmann Alþingis gengið út frá ákveðinni verkaskiptingu milli hans og dómstóla. Þannig tekur t.d. starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, sbr. b. lið 3. mgr. 3. gr. laganna, en í því felst m.a. að hafi málefni, svo sem ákvörðun stjórnvalds, verið borið undir dómstóla kemur það almennt ekki til kasta umboðsmanns að fjalla um það málefni sem var leitt til lykta fyrir dómstólum. Þá minni ég á að það er meðal skilyrða þess að umboðsmaður Alþingis taki kvörtun til meðferðar að kvörtunin sé borin fram áður en meira en ár er liðið frá því að sá stjórnsýslugerningur, er um ræðir í kvörtuninni, hafi verið til lykta leiddur.

Af framangreindu leiðir m.a. að þær athafnir sveitarfélagsins X, sem koma fram í gögnum sem þér hafið afhent mér og að nokkru rætt við starfsmenn mína, sem hefur annaðhvort verið fjallað um hjá dómstólum eða voru meira en árs gamlar þegar kvörtun yðar var lögð fram, hafa ekki verið hluti af athugun minni.

 

III

Vík ég þá að þeim hluta í kvörtun yðar sem varðar ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 29. júní 2017 um að synja gjafsóknarbeiðni yðar, dags. 18. maí 2017, að fenginni umsögn gjafsóknarnefndar, dags. 21. júní 2017, þar sem ekki var mælt með því að gjafsókn yrði veitt.

Í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, kemur fram að gjafsókn verði aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefur nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftir­farandi skilyrða er að auki fullnægt: a. að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fjárhagslega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé, eða b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda. Í reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, eins og hún var á þeim tíma þegar gjafsóknar­beiðni yðar var afgreidd, kom fram að við mat á því hvort gjafsókn yrði veitt vegna efnahags umsækjenda skyldi miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur næmi ekki hærri fjárhæð en samtals kr. 2.000.000, sbr. 1. mgr. 7. gr. Í 8. gr. reglu­gerðarinnar var svo fjallað nánar um mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og í 8. gr. a. var fjallað um mat á áhrifum á atvinnu, félagslega stöðu og aðra einkahagi.

Í umsögn gjafsóknarnefndar frá 21. júní 2017 var lagt til grundvallar að tekjur yðar væru yfir þeim tekjumörkum sem væru tilgreind í þágildandi 7. gr. reglugerðar um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknar­nefndar. Þá taldi gjafsóknarnefnd að efnahag yðar væri ekki svo háttað að öðru leyti að skilyrði væru til þess að veita yður gjafsókn á grundvelli a-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Þá taldi nefndin að ekki yrði séð að atvik málsins væru með þeim hætti að b. liður 1. mgr. 126. gr. laganna ætti við.

Eftir að hafa kynnt mér þau gögn sem lágu fyrir gjafsóknarnefnd sem og önnur gögn sem þér hafið afhent mér tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við synjun dómsmálaráðuneytisins á gjafsóknar­beiðni yðar.

 

IV

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ég vek athygli á að ef þér þarfnist frekari upplýsinga er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu mína í síma 510-6700 milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing.