Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 9893/2018)

A kvartaði yfir töfum á svörum við erindi til bótanefndar skv. lögum nr. 69/1995, dags. 14. desember 2017, þar sem A óskaði eftir að nefndin endurskoðaði afstöðu sína til endurupptökubeiðni frá 6. apríl sama ár.

Umboðsmanni hafði áður borist kvörtun vegna sama máls í september 2018 og fengið þau svör frá nefndinni þá að til stæði að afgreiða málið. Við ítrekaða eftirgrennslan nú kom í ljós að nefndin hafði afgreitt málið.

Málsmeðferð bótanefndarinnar varð umboðsmanni tilefni til að minna hana á skyldu stjórnvalda að skýra aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls tefjist, upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín frá 12. nóvember sl. sem lýtur að töfum á svörum við erindi yðar til bótanefndar, dags. 14. desember 2017, þar sem þér óskuðuð þess að nefndin endurskoðaði afstöðu sína til endurupptöku­beiðni yðar frá 6. apríl sama ár.

Þér kvörtuðuð til mín af sama tilefni 7. september 2018 (mál nr. 9826/2018). Við meðferð þeirrar kvörtunar bárust mér upplýsingar frá bótanefnd 2. október 2018 þar sem fram kom að stefnt væri að því að taka erindi yðar til afgreiðslu á næsta fundi nefndarinnar sem yrði haldinn á bilinu 12.-17. október nk. Ég taldi þá ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar og lauk málinu með bréfi, dags. 10. október 2018.

Í tilefni af kvörtun yðar 12. nóvember 2018 var bótanefnd ritað bréf 13. nóvember 2018 og óskað eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort yður hefði verið tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beiðni um upplýsingar var ítrekuð með bréfi 12. desember 2018 og 14. janúar 2019. Í bréfi bótanefndar til mín, dags. 14. janúar sl., kom fram að stefnt væri að því að afgreiða málið 22. janúar. Mér hafa nú borist upplýsingar um að bótanefnd hafi afgreitt málið, niðurstaða hafi verið undirrituð 20. febrúar sl. og hún hafi verið send yður 21. febrúar sl.

Þar sem kvörtun yðar laut að töfum á afgreiðslu bótanefndar á erindi yðar og málið hefur nú verið afgreitt tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar. Ég tek þó fram að mál yðar hefur gefið mér tilefni til að rita formanni bótanefndar bréf þar sem ég kem á framfæri tilteknum ábendingum og fylgir hjálagt ljósrit af því.

Með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.


  

Bréf umboðsmanns, dags. 27. febrúar 2019, til bótanefndar skv. lögum nr. 69/1995 hljóðar svo:

 

Ég vísa til fyrri bréfaskipta umboðsmanns Alþingis og bótanefndar vegna kvörtunar A sem lýtur að töfum á svörum við erindi A til bótanefndar, dags. 14. desember 2017, þar sem A óskaði þess að nefndin endurskoðaði afstöðu sína til endurupptökubeiðni A frá 6. apríl sama ár.

Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hér með í ljós­riti, hef ég lokið athugun minni á kvörtun A. Þrátt fyrir það tel ég tilefni til að koma á framfæri eftirfarandi ábendingum við bótanefnd og þá með það í huga að framvegis verði betur gætt að þeim atriðum sem um ræðir.

Í tilefni af kvörtun A frá 12. nóvember 2018 var bótanefnd ritað bréf 13. nóvember 2018. Þar var óskað eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu erindisins. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort A hefði verið tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu málsins, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi bótanefndar til mín, dags. 14. janúar sl., kom fram að stefnt væri að því að afgreiða málið 22. janúar. Síðari spurningunni, um tilkynningar um tafir var hins vegar ekki svarað og hafa mér ekki borist upplýsingar frá bótanefnd um að A hafi verið tilkynnt um tafir þrátt fyrir að fyrirspurnin hafi verið ítrekuð í símtali við starfsmann nefndarinnar 22. febrúar sl.

Af þessu tilefni vil ég minna bótanefnd á skyldu stjórnvalda samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þess efnis að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Að fullnægja þessari skyldu er nauðsynlegt skilyrði eðlilegra samskipta almennings og stjórnvalda og þess trausts sem stjórnvöld verða að njóta hjá almenningi.

Erindi A var sent til bótanefndar 14. nóvember 2017 og samkvæmt upplýsingum frá bótanefnd lá undirrituð niðurstaða nefndarinnar ekki fyrir fyrr en 20. febrúar 2019. Það liggur fyrir að í tvígang upplýsti bótanefnd mig með bréfum um hvenær fyrirhugað væri að ljúka málinu, þ.e. fyrst á fundi 15.-17. október 2018, og síðar 22. janúar sl. en þær fyrirætlanir gengu ekki eftir. Ég vil koma þeirri ábendingu á framfæri við bótanefnd að ef slíkar áætlanir ganga ekki eftir og borgarinn hefur beðið lengi eftir niðurstöðu máls ber nefndinni að upplýsa þann sem væntir niðurstöðu um tafirnar. Ég kem þeirri ábendingu á framfæri við bótanefnd að gæta betur að þessum atriðum framvegis við meðferð mála hjá henni.