Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Rökstuðningur

(Mál nr. 9922/2018)

A kvartaði yfir ákvörðun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um ráðningu í starf og taldi að hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn. Einnig var kvartað yfir drætti á afgreiðslu beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðuninni.

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en að ákvörðun um ráðningu í starfið hefði verið byggð á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og í samræmi við auglýsingu um starfið. Ekki væri því tilefni til að umboðsmaður gerði athugasemdir við ráðninguna. Í ljósi þess að umboðsmaður hafði ekki efnislegar athugasemdir við rökstuðninginn og að ekki lá heldur fyrir að um verulega töf eða vanrækslu hefði verið að ræða, þá taldi hann ekki ástæðu til að fjalla frekar um þann þátt kvörtunarinnar. 

Í bréfi til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kom umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri að samkvæmt stjórnsýslulögum skal stjórnvald svara beiðni um rökstuðning innan 14 daga frá því að hún berst.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til erindis yðar frá 10. desember sl. þar sem þér kvartið yfir ákvörðun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um ráðningu í 50% starf [...] við Heilsugæsluna X þar sem þér voruð meðal umsækjenda. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn. Enn fremur kvartið þér yfir þeim drætti sem varð á að beiðni yðar um rökstuðning ákvörðunarinnar væri afgreidd.

Gögn málsins bárust mér frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 24. janúar sl. samkvæmt beiðni þar um.

 

II

1

Meginefni kvörtunar yðar lýtur að efnislegu mati á því hver var talinn hæfastur til að gegna auglýstu starfi. Af því tilefni tek ég fram að við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og almennum grundvallarreglum í stjórn­sýslurétti um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Í íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu í opinbert starf þegar almennum hæfis­skilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun að því leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa slík sjónarmið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvalds­fyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann umsækjanda sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að það verði að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar ákvörðuninni.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Ég legg á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og stjórnvald sem tekur ákvörðun um ráðningu í opinbert starf. Þannig leiðir af eðli eftirlitsins að það er ekki verkefni mitt að endurmeta sjálfstætt hvern hefði átt að ráða í tiltekið starf heldur að leggja mat á hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög. Þar undir fellur t.d. athugun á því hvort fylgt hafi verið réttum málsmeðferðarreglum, hvort mat stjórnvalds á umsækjendum hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum, hvort málefnaleg og lögmæt sjónarmið hafi verið lögð til grundvallar ákvörðun og mati stjórnvaldsins og ályktanir hafi ekki verið bersýnilega óforsvaranlegar miðað við fyrir­liggjandi gögn málsins. Hafi stjórnvald aflað sér fullnægjandi upplýsinga til þess að geta lagt mat á hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákvörðun byggist á og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram í ljósi þeirra hef ég talið stjórnvaldið njóta töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfinu.

2

Samkvæmt gögnum málsins auglýsti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 50% starf [...] við Heilsugæsluna X í júní 2018. Í auglýsingunni kom m.a. fram að í starfinu fælist [...] Tiltekið var að viðkomandi myndi starfa í teymi með læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki á heilsu­gæslustöðinni og [...]. Gerð var krafa um starfsleyfi frá landlækni, reynslu af [...], þekkingu og reynslu af [...] faglegan metnað og áhuga á [...], sjálfstæði, frumkvæði og lausnarmiðaða nálgun í starfi, reynslu og áhuga á þverfaglegri teymisvinnu, mikla samskiptahæfni, lipurð og sveigjanleika í samskiptum, góða íslenskukunnáttu og góða almenna tölvukunnáttu. Í auglýsingunni voru einnig tilgreind helstu atriði sem koma ættu fram í umsókn um starfið. 

Auk yðar voru þrír umsækjendur um starfið og að ráðningarferli loknu, 31. júlí 2018, tilkynnti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ákvörðun um ráðningu B.

Meðal gagna sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur látið mér í té eru lýsing á verklagi hennar við nýráðningar, upplýsingar um spurningar og svör í viðtölum, minnisblað frá [...], umsagnir um umsækjendur og tafla yfir tölulegt mat á umsækjendum ásamt skýringum. Í gögnunum kemur fram að heildarmat á umsækjendum byggist á þremur meginþáttum sem eru grunnmat, viðtöl og meðmæli. Sundurliðun grunnmats og þær upplýsingar sem aflað var með viðtölum við umsækjendur og í samtölum við umsagnaraðila virðast vera í samræmi við hæfnikröfur sem gerðar voru í auglýsingu. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá hæfniþætti sem ákveðið var að leggja til grundvallar mati og vali milli umsækjenda. Samanburður á stigagjöf fyrir einstaka hæfniþætti leiðir í ljós að þér hafið hlotið jafnmörg stig og B fyrir þrjú atriði en færri í öllum hinum og þar með að töluverðu munar á útreiknuðum heildarstigum. 

Í rökstuðningi til yðar fyrir ákvörðun um ráðningu í starfið er gerð grein fyrir ráðningarferlinu, menntun og reynslu B og hvernig hún falli að þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar mati á umsækjendum. Segir þar meðal annars að í faglegu viðtali hafi komið vel fram „að sérhæfð fagleg reynsla og þekking B á [...]“ falli vel að starfsemi og starfi [...] hjá X. 

Að framangreindu virtu og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins fæ ég ekki annað ráðið en að ákvörðun um ráðningu í starfið sem hér um ræðir hafi verið byggð á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og í samræmi við auglýsingu um starfið. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat Heilsugæslu höfuð­borgar­­svæðisins að B hafi fallið best að þeim sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar við ákvörðun um ráðninguna eða við málsmeðferð við ráðningarferlið. Með hliðsjón af því svigrúmi sem játa verður stjórnvaldi við skipun í opinbert starf er það því niðurstaða mín að kvörtun yðar gefi ekki efni til athugasemda við ákvörðun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um ráðningu í umrætt starf.

3

Í kvörtun yðar er tiltekið að rökstuðningur fyrir ákvörðun um ráðninguna hafi ekki borist yður fyrr en að liðnum hálfum öðrum mánuði eftir að hans var fyrst óskað, 13. ágúst 2018, og þá í kjölfar ítrekunar af hálfu stéttarfélags yðar. Í bréfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem fylgdi gögnum málsins er ekki vikið að þessu atriði. Rökstuðningurinn sjálfur er ekki dagsettur en stutt bréf til yðar þar sem vísað er til þess að þér óskuðuð rökstuðnings með tölvubréfi 13. ágúst 2018 er dagsett 14. september 2018, nokkru áður en stéttarfélagið kom að málinu. Vegna þessa tel ég ekki unnt að slá föstu að afgreiðslan á beiðni yðar um rökstuðning hafi dregist fram undir lok september­mánaðar þótt að svo stöddu liggi ekki fyrir skýring á að bréfið með rökstuðningnum barst yður ekki fyrr en 1. október 2018. Í ljósi þess að ég hef ekki efnislegar athugasemdir við rökstuðninginn og  ekki liggur fyrir að um verulega töf eða vanrækslu hafi verið að ræða tel ég ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunarinnar. Ég hef hins vegar ákveðið að rita Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti þar sem ég kem á framfæri ábendingu um þetta atriði í málinu.

 

III

Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.

 


    

Bréf umboðsmanns til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, dags. 21. febrúar 2019, hljóðar svona:

 

Ég vísa til fyrri bréfaskipta í tilefni af kvörtun A yfir ákvörðun Heilsugæslu höfuðborgar­svæðisins um ráðningu í starf [...] ásamt því að óeðlilegur dráttur hafi orðið á að beiðni hennar um rökstuðning ákvörðunarinnar hafi verið afgreidd.

Eins og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hjálagt í ljósriti, hef ég lokið athugun minni á kvörtun hennar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tel hins vegar ástæðu til að koma þeirri ábendingu á framfæri að samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald svara beiðni um rökstuðning innan 14 daga frá því að hún barst. Rökin að baki því eru að rökstuðningur á að vera skrifleg greinargerð um þau sjónarmið, sem raunverulega voru ráðandi við úrlausn máls, og því ljóst að ekki má líða mjög langur tími frá því að ákvörðun var tekin og þar til rök eru færð fyrir henni. Ég vænti þess að þetta atriði verði framvegis haft í huga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.