Húsnæðismál. Fjöleignarhús. Rökstuðningur.

(Mál nr. 9934/2018)

A kvartaði yfir að niðurstaða kærunefndar húsamála í áliti vegna máls, sem reis af ágreiningi við húsfélag og hann sendi nefndinni, hefði ekki verið nægjanlega rökstudd. Þá taldi A að niðurstaða kærunefndarinnar gengi þvert á dómaframkvæmd í sambærilegum málum.

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en nefndin hefði farið að þeim reglum sem gilda um störf hennar og því ekki tilefni til að umboðsmaður gerði athugasemdir við málsmeðferðina. Aftur á móti var A bent á að á ef hann gæti tilgreint nákvæmlega þær niðurstöður dómstóla sem hann teldi styðja málatilbúnað sinn um skiptingu þess kostnaðar sem ágreiningurinn laut að gæti hann freistað þess að leggja þær upplýsingar fram hjá nefndinni og óska eftir því að málið yrði tekið til nýrrar meðferðar. 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 8. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar, dags. 21. desember 2018, er lýtur að áliti kærunefndar húsamála í máli nr. 59/2018, dags. 31. október 2018, vegna ágreinings yðar við húsfélagið X um vinnubrögð stjórnar húsfélagsins og kostnaðarþátttöku vegna framkvæmda á gluggum í íbúð yðar.

Í álitinu er kröfum yðar um að þér eigið rétt á endurgreiðslu frá húsfélaginu vegna reiknings sem þér greidduð vegna gluggaviðgerða hafnað. Þá hafnar kærunefndin einnig kröfum yðar um að viðurkennt verði að yður beri eingöngu að greiða kostnað vegna glerja sem skipt var um í glugga yðar, en ekki kostnað vegna vinnu við ísetningu glers og glerlista, og að yður beri ekki að greiða kostnað vegna opnanlegs fags. Þér eruð einkum ósáttir við að niðurstaða kærunefndarinnar sé ekki nægjanlega rökstudd. Þér teljið það gefa til kynna að nefndin hafi ekki skoðað mál yðar til hlítar. Þá teljið þér niðurstöðu kærunefndarinnar ganga þvert á dómaframkvæmd í sambærilegum málum. Frekari gögn bárust með tölvupósti yðar 14. janúar sl. samkvæmt beiðni þar um.

 

II

Ágreiningur yðar við húsfélagið X, sem lýst er í kvörtun yðar, er einkaréttarlegur ágreiningur og fellur sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með lögum nr. 26/1994, um fjöl­eignarhús, var farin sú leið að stofna til sjálf­stæðrar kæru­nefndar sem eigendur fjöleignarhúsa geta leitað til með ágreiningsmál sín og fengið rökstutt álit. Í 4. mgr. 80. gr. laganna segir að kæru­nefndin skuli láta í té álit sitt svo fljótt sem kostur sé og jafnan innan tveggja mánaða frá því að erindi barst henni. Ágrein­ings­efnum verði eigi skotið til annars stjórnvalds. Telji kæru­nefndin að lög nr. 26/1994 hafi verið brotin og að á rétt aðila sé hallað beinir hún til­mælum til gagnaðila um úrbætur, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Ekki er því um það að ræða að kæru­nefndin kveði upp úr­skurði sem eru bindandi fyrir aðila og þeim ber skilyrðislaust að fara eftir. Þannig er í lögunum tekið fram að aðilar geti lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti, sbr. 6. mgr. 80. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa eftir­­lit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum. Kæru­nefnd húsamála er sem slík hluti af stjórnsýslu ríkisins en úrlausnir hennar eru ekki stjórnvalds­ákvarðanir og falla ekki undir gildis­­­svið stjórn­sýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Sem hluta af stjórn­­sýslu ríkisins ber nefndinni hins vegar að gæta almennra stjórnsýslureglna í störfum sínum eftir því sem við getur átt. Nánari ákvæði um störf kærunefndarinnar eru í reglugerð nr. 881/2001, um kærunefnd fjöleignarhúsamála, en kærunefnd húsamála tók við hlutverki þeirrar nefndar við sameiningu kæru úrskurðar- og kærunefnda samkvæmt lögum nr. 66/2010. Ég minni á að þarna hefur löggjafinn ákveðið að koma upp nefnd sem býr yfir ákveðinni þekkingu til að veita eigendum fjöleignarhúsa álit um það sem nefndin telur vera skilning á efni laganna og samræmda framkvæmd þeirra.

Í ljósi þess sem að framan segir um stöðu nefndarinnar og eðli þess ágreinings sem hún fjallar um beinist eftirlit umboðsmanns Alþingis með starfi nefndarinnar fyrst og fremst að því hvort nefndin hafi við úrlausn ein­stakra mála gætt þeirra almennu stjórnsýslureglna sem við eiga í hverju tilviki, hinna sérstöku reglna sem settar hafa verið um störf nefndarinnar og að hún hafi að öðru leyti hagað störfum sínum í sam­ræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Að því marki sem úrlausn nefndarinnar í einstöku máli byggist á mati á atvikum er umboðs­maður Alþingis almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar liggi fyrir að nefndin hafi við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem eftirlit umboðsmanns beinist að samkvæmt framansögðu. Þar verður að hafa í huga að lög nr. 85/1997 eru byggð á þeirri forsendu að umboðsmaður og dómstólar skipti með sér verkum með ákveðnum hætti og að mál geti verið þannig vaxin að heppi­legra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Ég nefni í þessu sambandi c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem tekið er fram að starfssvið umboðs­manns taki ekki til ákvarðana og annarra at­hafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leið­réttingar með málskoti til dómstóla, og c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna, þar sem tekið er fram að varði kvörtun réttar­ágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Þetta bendi ég á þar sem tekið er fram í 6. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994, um fjöl­eignar­­hús, að aðilar geti lagt ágreining fyrir dómstóla með venju­legum hætti.

 

III

Ég skil kvörtun yðar svo að hún beinist fyrst og fremst að því hvort nefndin hafi lagt fullnægjandi mat á gögn málsins en þér teljið svo ekki vera í ljósi þess að nefndin hafi ekki rökstutt niðurstöðu sína með fullnægjandi hætti.

Álit nefndarinnar skal rökstutt samhliða veitingu þess, sbr. 4. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 881/2001. Ég fæ ekki annað ráðið af áliti í máli yðar en að nefndin hafi tekið afstöðu í samhengi við þær kröfur sem þér gerðuð í álitsbeiðninni og rökstutt niðurstöðu sína með vísan til þeirra réttarreglna sem álit hennar er byggt á. Í því sambandi tek ég fram að almennt er stjórnvaldi ekki skylt að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hefur fært fram til rökstuddrar úrlausnar heldur er heimilt að vissu marki að líta til þess hvort þær geta haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Í 2. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 er jafnframt að finna sérstakar formkröfur um að í erindi til nefndarinnar skuli m.a. greina skilmerkilega rökstuðning fyrir kröfu álitsbeiðanda og í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 881/2001 kemur fram að kröfur um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni skuli rökstyðja með eins ítarlegum hætti og unnt er. Að þessu virtu, og í ljósi þess að athugasemdir yðar við rökstuðning nefndarinnar virðast einkum lúta að því að nefndin hafi ekki tekið afstöðu til þeirrar almennu fullyrðingar yðar um að til séu niðurstöður dómstóla um að húsfélagi hafi borið að greiða þann kostnað sem ágreiningur í málinu lýtur að, tel ég mig ekki geta gert athugasemd við meðferð málsins að þessu leyti.  Þrátt fyrir að nefndin hefði e.t.v. getað gert ítarlegri grein fyrir þeim málavöxtum sem höfðu þýðingu fyrir niðurstöðu hennar í málinu tel ég mig, eftir að hafa kynnt mér álit nefndarinnar, ekki geta gert athugasemd við meðferð málsins og ályktanir nefndarinnar og fæ ég ekki annað ráðið en að nefndin hafi við úrlausn og rökstuðning á máli yðar farið að þeim reglum sem gilda um störf hennar.

 

IV

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að ekki sé til­efni til athugasemda við málsmeðferð kærunefndar húsamála í máli yðar og lýk ég því umfjöllun minni um málið með vísan til 1. mgr. og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég bendi yður þó á að ef þér getið tilgreint nákvæmlega þær niðurstöður dómstóla sem þér teljið styðja málatilbúnað yðar um skiptingu þess kostnaðar sem ágreiningurinn lýtur að getið þér freistað að leggja þær upplýsingar fram hjá nefndinni og óska eftir því að málið verði tekið til nýrrar meðferðar. Ég tek fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða afgreiðsla slíka beiðni ætti að hljóta hjá nefndinni.