Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Sveitarfélög.

(Mál nr. 9936/2018)

A kvartaði yfir að hafa ekki fengið svar við erindi sem sent var byggðaráði X 12. júlí 2018.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að til stæði að svara erindinu sem og var gert.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 29. desember 2018, yfir því að erindi sem þér senduð byggðarráði X með bréfi, dags. 12. júlí 2018, hafi ekki verið svarað. Í kvörtun yðar til byggðarráðs óskið þér m.a. eftir því að ráðið taki að nýju til afgreiðslu kvartanir yðar frá 22. mars og 22. apríl 2018.

Í tilefni af kvörtun yðar var sveitarfélaginu ritað bréf, dags. 9. janúar sl., sem yður var kynnt með bréfi, dags. sama dag. Í svari sveitar­félagsins til mín, dags. 17. janúar sl., kom fram að byggðarráð hygðist taka fyrir erindi yðar á fundi 24. janúar sl. og að svar yrði sent yður að lokinni afgreiðslu. Í tilefni af framangreindu svari sveitarfélagsins var því ritað annað bréf, dags. 14. febrúar sl., sem yður var kynnt með bréfi, dags. sama dag, og upplýsinga óskað um hvort fyrirætlanir um svör við erindi yðar hafi gengið eftir.

Mér hafa nú borist svör frá sveitarfélaginu, dags. 20. febrúar sl. Í þeim kemur fram að byggðarráð X hafi fjallað um erindi yðar og að yður hafi verið sent svarbréf ráðsins í ábyrgðarpósti 25. janúar sl. Afrit af bréfinu fylgdi svari sveitarfélagsins til mín.

Þar sem byggðarráð hefur nú svarað erindi yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni. Lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.