Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Menntamál.

(Mál nr. 9941/2019)

A kvartaði yfir að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki úrskurðað í máli sem hann kærði til þess 12. mars 2018. Þá hafði A kært aðra ákvörðun til ráðuneytisins, 3. janúar 2019, sem tengdist sama máli. Í kvörtuninni kom fram að A væri ósáttur við hversu langan tíma beðið hefði verið eftir niðurstöðu í málinu.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að niðurstöðu ráðuneytisins væri að vænta innan skamms og því ekki tilefni að svo stöddu til að aðhafast.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 3. janúar sl., yfir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki úrskurðað í máli er varðar brottvísan sonar yðar úr menntaskóla sem þér kærðuð til ráðuneytisins 12. mars 2018. Þá kærðuð þér einnig til ráðuneytisins,  3. janúar sl., ákvörðun menntaskólans um að synja syni yðar um að veita honum skólavist. Þér eruð ósáttir við hversu langan tíma þér hafið beðið eftir niðurstöðu í málinu.

Í tilefni af kvörtun yðar var mennta- og menningarmálaráðuneytinu ritað bréf, dags. 9. janúar sl., sem yður var kynnt með bréfi, dags. sama dag. Mér hafa nú borist svör frá ráðuneytinu, dags. 11. febrúar sl. Í bréfinu kemur m.a. fram að 4. janúar sl. hafið þér verið upplýstir um að málið væri í farvegi. Einnig segir að vinnsla málsins sé á lokastigi í ráðuneytinu og stefnt sé að því að úrskurða í því eins fljótt og kostur sé. Þá kemur jafnframt fram í svari ráðuneytisins til mín að samkomulag hafi tekist milli skólans og sonar yðar um að innrita hann á vorönn 2019 og að hann hafi verið tekinn inn í skólann 21. janúar sl.

Þar sem kvörtun yðar beinist að því að ekki hafi verið úrskurðað í máli sonar yðar hjá ráðneytinu en af svörum ráðuneytisins til mín er niðurstöðu að vænta innan skamms tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar að svo stöddu. Ég tek fram að ef ofangreindar fyrirætlanir ganga ekki eftir er yður að sjálfsögðu heimilt að leita til mín að nýju með kvörtun þar um en ég vænti þess þó að ráðuneytið muni upplýsa yður um ef frekari tafir verða á máli yðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af öllu ofangreindu lýk ég meðferð minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.