A kvartaði yfir að Tryggingastofnun og tilteknir lífeyrissjóðir fari fram á að ellilífeyrisþegar og öryrkjar leggi fram svonefnt lífsvottorð og óskaði eftir að fá að vita hvort lagaheimild væri fyrir slíku.
Starfsemi lífeyrissjóða heyrir ekki undir starfssvið umboðsmanns og því ekki skilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar að því leyti sem hún snéri að þeim. Þá var óskað eftir frekari gögnum frá A sem gætu varpað ljósi á efni kvörtunarinnar gagnvart Tryggingastofnun. Þar sem þau bárust ekki var litið svo á að A hygðist ekki fylgja málinu eftir.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. febrúar 2019, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 8. janúar sl., yfir því að Tryggingastofnun, X lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður Y fari fram á að ellilífeyrisþegar og öryrkjar leggi fram svonefnt lífsvottorð. Þér óskið eftir því að fá að vita hvort lagaheimild sé fyrir þessari kröfu.
Í tilefni af kvörtuninni var yður ritað bréf, dags. 23. janúar sl. Í bréfinu kom m.a. fram að starfsemi einkaaðila, sem hefur ekki að lögum verið falið vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, falli utan við starfssvið umboðsmann Alþingis, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í ljósi þess heyrir starfsemi X lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs Y ekki undir starfssvið umboðsmanns líkt og það hefur verið afmarkað með lögum. Því eru ekki skilyrði til að ég taki kvörtun yðar að því leyti sem hún snýr að þessum aðilum til frekari meðferðar.
Í bréfinu frá 23. janúar sl. var hins vegar tekið fram að Tryggingastofnun [heyrir] undir starfssvið umboðsmanns. Þess var þó óskað að þér legðuð fram gögn eða upplýsingar, s.s. bréfaskipti yðar við Tryggingastofnun, sem gætu varpað frekara ljósi á efni kvörtunarinnar, m.a. með tilliti til þess hvort fyrir lægi tiltekin ákvörðun eða athöfn Tryggingastofnunar í máli yðar. Þess var óskað að umbeðin gögn bærust ekki síðar en 6. febrúar sl. og tekið fram að bærist ekki svar innan þess frests yrði litið svo á að þér hefðuð kosið að fylgja kvörtun yðar ekki eftir.
Þar sem engin svör hafa borist lít ég svo á að þér hyggist ekki fylgja kvörtun yðar eftir. Með vísan til þess og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.