Eftirlit stjórnsýsluaðila. Póst- og fjarskiptamál.

(Mál nr. 9967/2019)

A kvartaði yfir að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafi í úrskurði ekki tekið afstöðu til athugasemda í kæru A til nefndarinnar um að heimasíða Póst- og fjarskiptastofnunar væri óaðgengileg. Úrskurðarnefndin staðfesti með niðurstöðu sinni ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að aðhafast ekki frekar vegna kvörtunar A vegna skemmdra sendinga í flokkunarvél Íslandspósts ohf.

Ekki voru forsendur til að umboðsmaður gerði athugasemdir við mat stofnunarinnar á því hvort tilefni væri til að taka málefnið til athugunar á grundvelli almennra eftirlitsheimilda hennar. Þá taldi umboðsmaður sig ekki geta fullyrt að nefndinni hafi borið að fjalla efnislega um kröfu A um frekari rannsókn Póst- og fjarskiptastofnunar á starfsemi Íslandspósts á grundvelli almennra eftirlitsheimilda stofnunarinnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 27. janúar sl., yfir því að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafi í úrskurði nr. 3/2018, dags. 12. desember 2018, ekki tekið afstöðu til athugasemdar í kæru yðar til nefndarinnar um að heimasíða Póst- og fjarskiptastofnunar sé óaðgengileg. Úrskurðarnefndin staðfesti með niðurstöðu sinni ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að aðhafast ekki frekar vegna kvörtunar yðar vegna skemmdra sendinga í flokkunarvél Íslandspósts ohf.

 

II

Samkvæmt því sem kemur fram í úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli yðar leituðuð þér til Póst- og fjarskipta­stofnunar með kvörtun 12. október 2017 yfir því að sendingar til yðar hefðu tvívegis skemmst í flokkunarvél Íslandspósts og settuð fram þá kröfu að fyrirtækið lagaði eða stillti vélina, þjálfaði betur starfsfólk og byði bætur eða tæki vélina úr notkun. Í svari stofnunarinnar til yðar, dags. 13. febrúar 2018 var vísað til 39. gr. laga nr. 19/2002, um póstþjónustu, þar sem fram kemur að póstrekendum sé ekki skylt að greiða skaðabætur fyrir almennar sendingar, og yður tilkynnt að ekki væri tilefni til frekari aðgerða af hálfu stofnunarinnar. Í tölvupósti, dags. 14. febrúar 2018, í tilefni af athugasemdum yðar við þá niðurstöðu kom jafnframt fram að kvörtun yðar hefði verið komið á framfæri við Íslandspóst til þess að fyrirtækið gæti tekið mið af ábendingum sem komu fram í henni en þar sem ekki hefði verið um ítrekuð tilvik að ræða teldi stofnunin ekki ástæðu til að taka ástæður skemmdanna til sérstakrar athugunar.

Í kæru yðar til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vísuðuð þér til þess að erfitt væri að finna eyðublað á heimasíðu stofnunarinnar svo hægt væri að leggja fram kvörtun. Þá hefði ekki virkað að senda inn eyðublaðið en þér hefðuð þurft að senda kvörtunina með tölvupósti. Ljóst er að þér teljið að ágallar á vefsíðu stofnunarinnar kunni að vera ástæða þess að Póst- og fjarskiptastofnun hafi fengið fáar ábendingar um að bréf hafi opnast í flokkunarvél Íslandspósts ohf. Af þeim sökum geti stofnunin ekki fullyrt að sjaldgæft sé að sendingar skemmist í meðförum Íslandspósts ohf. og því sé ekki tilefni til að hefja sérstaka rannsókn á því hvort um mannleg mistök hafi verið að ræða eða bilun í flokkunar­vélinni.

Í niðurstöðukafla í úrskurði nefndarinnar í málinu er m.a. vísað til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þess að ekki sé ástæða til að rannsaka mál frekar ef ófrávíkjanleg lagaskilyrði eru ekki uppfyllt þannig að ljóst sé að ekki sé hægt að verða við erindi málsaðila. Þá er vísað til 39. og 45. gr. laga nr. 19/2002,sem fjalla um skaðabætur fyrir póstsendingar, og síðan lagt til grundvallar að ekki hafi verið þörf á frekari rannsókn málsins. Um það segir eftirfarandi:

„Úrskurðarnefndin gerir ekki athugasemdir við mat PFS um að málið hafi talist upplýst þegar kæranda var tilkynnt um að stofnunin hygðist loka því, enda lá fyrir að ekki var ágreiningur um að umrædd bréf skemmdust í meðförum Íslandspósts. Þá verður ekki litið fram hjá því að í orðsendingu frá Íslandspósti til kæranda, sem fylgdi hinum skemmdu bréfum kom fram að Íslandspóstur harmaði að bréfin hefðu opnast og að flokkunarvél fyrirtækisins væri um að kenna. Var því ekki þörf á frekari rannsókn á atvikum þessa máls. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar að málsmeðferð PFS við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, hvað þetta varðar.“ 

Kröfu yðar um bætur vegna skemmda á sendingunum er síðan hafnað með vísan til 39. gr. laga nr. 19/2002.

 

III

1

Um Póst- og fjarskiptastofnun gilda lög nr. 69/2003. Samkvæmt 1. gr. laganna er hlutverk stofnunarinnar að hafa umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um stofnunina og öðrum lögum. Í 3. gr. laganna eru tilgreind þau verkefni sem stofnunin hefur með höndum. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. ber Póst- og fjarskiptastofnun m.a. að hafa eftirlit með fjarskiptum og póstþjónustu, svo sem nánar er kveðið á um í lögum um það efni. Skal stofnunin framfylgja lögunum og stuðla að því að markmið þeirra náist. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laganna geta neytendur beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar telji þeir að fjarskiptafyrirtæki eða póstrekendur brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum eða skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. skal stofnunin leita álits viðkomandi fjarskiptafyrirtækis eða póstrekanda á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila á skjótan hátt. Náist ekki samkomulag skal úr ágreiningi skorið með ákvörðun.

Þegar Póst- og fjarskiptastofnun berst erindi sem varðar mögulegt tilefni til athugunar á því hvernig póstrekandi virðir skyldur sínar ber henni, í samræmi við lögbundið eftirlitshlutverk sitt, að leggja mat á erindið og eftir atvikum meta hvort tilefni sé til slíkrar athugunar. Aftur á móti verður að að játa Póst- og fjarskiptastofnun töluvert svigrúm við það mat. Það þarf þó að vera málefnalegt og í eðlilegu samhengi við það markmið sem býr að baki því verkefni sem um er að ræða. Þegar leyst er úr slíkum erindum fer það eftir atvikum máls og viðbrögðum Póst- og fjarskiptastofnunar hvort málið er lagt í farveg stjórnsýslumáls þar sem þeim sem sendi inn erindið er veitt staða aðila og málinu er lokið með formlegri stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 69/2003, sem er þá kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, eða hvort leyst er úr erindinu á grundvelli almenns eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar.

2

Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 69/2003. Um starfshætti nefndarinnar gildir reglugerð nr. 36/2009, sbr. 7. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka til úrskurðar, að kröfu þess sem á sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta, kæranlega ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar, hvort heldur sem kæra lýtur að málsmeðferð eða efni hinnar kærðu ákvörðunar. Í kæru til nefndarinnar skulu koma fram upplýsingar um til hvaða atriði í viðkomandi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar kæran tekur, ásamt kröfum kæranda, málsatvikalýsingu og málsástæðum, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar. Úrskurðir nefndarinnar skulu vera skriflegir og rökstuddir þar sem m.a. er gert grein fyrir því efni sem til úrlausnar er, hver séu atvik að baki máli, hverjar séu helstu málsástæður aðila og hvaða réttarheimildum þeir byggja á, sbr. d., e. og f. liður 14. gr. reglugerðar.

3

Fyrir liggur að með tölvupósti 13. febrúar 2018 hafnaði Póst- og fjarskiptastofnun því að þér ættuð rétt á bótum fyrir skemmdir á póstsendingum yðar með vísan til 39. gr. laga nr. 19/2002. Sú niðurstaða var staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli yðar. Þá verður ekki annað ráðið en að Póst- og fjarskiptastofnun hafi, í tilefni af erindi yðar, lagt mat á hvort tilefni væri til að taka til frekari athugunar hvers vegna skemmdir urðu á sendingunum í flokkunarvél Íslandspósts en komist að þeirri niður­stöðu að svo væri ekki og upplýst yður um það með tölvupósti 14. febrúar 2018. Í ljósi efnis tilkynningarinnar verður að ætla að sú afstaða sem þar kom fram hafi ekki eingöngu falið í sér það mat stofnunarinnar að ekki þyrfti að rannsaka málsatvik nánar til að unnt væri að taka afstöðu til kröfu yðar um skaðabætur heldur jafnframt að ekki væri tilefni til að hefja athugun á grundvelli almennra eftirlitsheimilda stofnunarinnar. Umfjöllun úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála virðist hins vegar hafa verið afmörkuð við fyrrnefnda atriðið, þ.e. að kanna hvort rannsókn í máli yðar hafi verið fullnægjandi með tilliti til þeirra ákvæða laga nr. 19/2002 sem bótakrafa yðar gat eftir atvikum verið reist á, og niðurstaða hennar var sú að sú rannsókn sem þér fóruð fram á væri ekki nauðsynleg til að leysa úr málinu. 

Í samræmi við það sem rakið er hér að framan verður að játa Póst- og fjarskiptastofnun töluvert svigrúm við mat á því hvort tilefni sé til að taka málefni til athugunar á grundvelli almennra eftirlits­heimilda sinna. Meðal annars að því virtu, með tilliti til þess í hverju ábending yðar fólst, í ljósi þess að kvörtun yðar var komið á framfæri við Íslandspóst sem ætti þá að hafa færi á að grípa til viðeigandi ráðstafana og eftir að hafa kynnt mér vefsíðu Póst- og fjarskipta­stofnunar tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við mat stofnunarinnar í þessu tilviki.

Hvað varðar úrskurð úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli yðar, þá verður ekki annað séð en að nefndin hafi tekið afstöðu í samhengi við þær kröfur sem þér gerðuð um skaðabætur í kæru yðar á ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar og að nefndin hafi rökstutt niðurstöðu sína m.a. með vísan til þeirra réttarreglna sem niðurstaða hennar um það atriði er byggð á. Í ljósi þess hvernig hlutverk úrskurðar­nefndarinnar er afmarkað í lögum og reglugerð, einkum 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 36/2009, þar sem fram kemur að nefndin taki til úrskurðar kæranlegar ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar að kröfu þess sem á sérstakra, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta, tel ég mig ekki geta fullyrt að nefndinni hafi jafnframt borið að fjalla efnislega um kröfu yðar um frekari rannsókn Póst- og fjarskiptastofnunar á starfsemi Íslandspósts á grundvelli almennra eftirlitsheimilda stofnunarinnar. Eftir að hafa kynnt mér úrskurð nefndarinnar í máli yðar get hins vegar ég fallist á að nefndin hefði mátt gera skýrari grein fyrir því í umfjöllun sinni hvers vegna hún taldi málsástæðu yðar um meintan ágalla á heimasíðu stofnunarinnar ekki leiða til þess að Póst- og fjarskipta­stofnun bæri að aðhafast frekar gagnvart Íslandspósti í tilefni af máli yðar. Í því sambandi vil ég þó taka fram að almennt er stjórnvaldi ekki skylt að taka sérhverja málsástæðu eða athugasemd sem aðili hefur fært fram til rökstuddrar úrlausnar heldur er heimilt að vissu marki að líta til þess hvort þær geta haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Í ljósi þess að Póst- og fjarskiptastofnun sá ekki ástæðu til þess að kanna ábendingu yðar nánar, m.a. fyrir þeirra hluta sakir að stofnunin hefði ekki fengið kvartanir vegna skemmda á póstsendingum hjá Íslandspósti ohf. á undanförnum árum, hefði það verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti ef úrskurðarnefndin hefði útskýrt nánar hvers vegna ofangreind málsástæða yðar þarfnaðist að hennar mati ekki frekari umfjöllunar.

 

IV

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að ekki sé tilefni til athugasemda við að úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafi ekki tekið sérstaklega til umfjöllunar ábendingar yðar um mögulegan ágalla á heimasíðu Póst- og fjarskiptastofnunar og lýk ég því umfjöllun minni um málið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.