Orkumál. Samningar.

(Mál nr. 9972/2019)

A kvartaði yfir synjun Orkustofnunar um breytingu á samningi vegna orkunýtingar við hitun á íbúðarhúsi A sem gerður var í desember 2010.

Við eftirgrennslan umboðsmanns greindi A frá því að um þremur árum eftir að samningurinn var gerður, hefði verið leitað eftir því símleiðis við Orkustofnun að fá honum rift en stofnunin ekki fallist á það. Í bréfi umboðsmanns til A er bent á að kvörtun skuli bera fram innan eins árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræði, hafi verið til lykta leiddur. Ekki yrði séð að að því skilyrði væri fullnægt. Benti umboðsmaður A á þann möguleika að freista þess að taka málið upp að nýju við Orkustofnun og þá með skriflegu erindi sem óskað yrði eftir að fá skriflegt svar við.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til erindis yðar frá 5. febrúar sl. þar sem þér kvartið yfir synjun Orkustofnunar um breytingu á samningi vegna orkunýtingar við hitun á íbúðarhúsi yðar. Um er að ræða samning frá 16. desember 2010 með yfirskriftinni „Samningur um eingreiðslu vegna aðgerða sem leiða til betri orkunýtingar við húshitun“ og meðal ákvæða hans er að „við eigendaskipti verði nýjum eiganda tilkynnt um samning þennan.“

Í símtali sem starfsmaður minn átti við yður 7. febrúar sl. vegna kvörtunarinnar kom fram að þér hefðuð óskað eftir því við Orkustofnun að samningnum yrði rift en á það hefði ekki verið fallist. Það hefði í för með sér að yður og eiginmanni yðar væri gert ókleift að selja húseignina án þess að nýr eigandi gengi inn í umræddan samning og þar með hefði hann ekki óbundnar hendur um kaup á raforku. Búið væri að efna samninginn að öðru leyti þannig að í raun stæði hið tilvitnaða ákvæði eitt eftir, sem væri íþyngjandi kvöð. Í símtalinu upplýstuð þér að samskiptin við Orkustofnun varðandi mögulega riftun eða breytingu á samningnum hefðu verið símleiðis og hefðu átt sér stað um það bil þremur árum eftir að samningurinn var gerður.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Í máli þessu liggja ekki fyrir skrifleg gögn um synjun Orkustofnunar á beiðni yðar en leggja verður til grundvallar að ákvörðun þar um hafi verið tekin eigi síðar en á árinu 2014. Því verður ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt þar sem liðið er meira en eitt ár frá því að ákvörðunin var tekin.

Af þessu tilefni tel ég þó rétt að benda yður á þann möguleika að freista þess að taka málið upp að nýju við Orkustofnun og þá með skriflegu erindi sem þér óskið þess að fá skriflegt svar við. Ég tek fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvernig Orkustofnun ætti að afgreiða erindi yðar. 

Með vísan til framangreinds eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég taki erindi yðar til frekari meðferðar og lýkur þar með athugun minni á máli þessu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.