Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Almannatryggingar.

(Mál nr. 9973/2019)

A kvartaði yfir að Tryggingastofnun hefði ekki svarað bréfi, dags. 15. nóvember 2018, og erindið hefði verið ítrekað símleiðis 23. janúar 2019. Í erindinu fólst krafa um endurupptöku á ákvörðun um búsetuhlutfall, leiðréttingu á búsetuhlutfalli og bótarétti og vangoldnar bætur aftur í tímann með vísan til álits umboðsmanns frá 20. júní 2018.

Að fengnum upplýsingum frá Tryggingastofnun benti umboðsmaður A á ekki yrði annað ráðið en að ástæða þess að erindi A hefði ekki enn hlotið afgreiðslu væri ekki vegna tafa á því máli sérstaklega heldur væri unnið almennt að framkvæmd málsins. Í ljósi þess og þeirra almennu tilkynninga sem stofnunin hefði birt teldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast í tilefni af kvörtun yðar, a.m.k. að sinni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín frá 6. febrúar sl. yfir því að Tryggingastofnun hafi ekki svarað bréfi yðar, dags. 15. nóvember sl. Afrit af bréfinu fylgdi ekki með kvörtuninni en í henni kemur fram að þér hafið ítrekað erindið sem í því fólst símleiðis 23. janúar sl.

Stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa og taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort tafir á svörum eða afgreiðslu máls séu óhæfilegar er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessum efnum.

Þar sem málshraðareglur stjórnsýsluréttarins eru ekki skýrt afmarkaðar um afgreiðslutíma, hefur efni og eðli erindis sem borgari beinir til stjórnvalds m.a. þýðingu fyrir mat umboðsmanns á því hvort tilefni er til að óska upplýsinga frá stjórnvaldinu um hvað líði meðferð og afgreiðslu þess. Þess var því óskað 22. febrúar sl. að þér senduð mér afrit af bréfi yðar til Tryggingastofnunar. Það barst með tölvupósti sama dag og af því er ljóst að í því felst krafa yðar um endurupptöku á ákvörðun um búsetuhlutfall, leiðréttingu á búsetuhlutfalli og bótarétti og vangoldnar bætur aftur í tímann með vísan til álits míns frá 20. júní 2018 í máli nr. 8955/2016. Í álitinu komst ég að þeirri niðurstöðu að sú aðferð sem beitt var við ákvörðun á hlutfalli búsetutíma umsækjanda um örorkulífeyri hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umrætt málefni hefur verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum og hefur m.a. komið fram að það hafi verið til umfjöllunar hjá velferðarnefnd Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og velferðarráðuneytinu. Fyrir liggur að Tryggingastofnun hyggst fara yfir fyrri ákvarðanir sínar og eftir atvikum endurgreiða þeim sem hafa fengið skertar greiðslur vegna búsetu í löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði frá Tryggingastofnun sendi stofnunin þeim sem sendu inn erindi og óskuðu endurupptöku á máli sínu í kjölfar niðurstöðu minnar staðlað svarbréf þar sem m.a. kom fram, að stofnunin hefði óskað eftir aðkomu velferðarráðuneytisins um framkvæmd og þær breytingar sem ráðuneytið teldi þurfa að eiga sér stað. Jafnframt var tekið fram að málefnið væri flókið og viðamikið og að mörg álitamál þyrfti að taka til athugunar við vinnslu þess. Bréfin munu hafa verið send á tímabilinu október til desember 2018.

Hinn 7. janúar sl. birtist tilkynning á vefsíðu stofnunarinnar þar sem fram kemur að unnið sé að því að útfæra leiðir til að bregðast við álitinu, stefnt sé að því að niðurstaða liggi fyrir í lok janúar og breytt framkvæmd þá kynnt en í framhaldi verði hvert mál unnið fyrir sig.

Í tilkynningu sem var birt á vefsíðu Tryggingastofnunar 15. febrúar sl. kemur síðan fram að unnið sé að úrlausn málsins með félagsmálaráðuneytinu, að því hafi verið send aðgerðaráætlun vegna málsins og að beðið sé fjárheimilda.

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að ástæða þess að erindi yðar hafi ekki enn hlotið afgreiðslu sé ekki vegna tafa á máli yðar sérstaklega heldur sé unnið almennt að framkvæmd málsins. Í ljósi þess og þeirra almennu tilkynninga sem stofnunin hefur birt tel ég ekki tilefni til að aðhafast í tilefni af kvörtun yðar, a.m.k. að sinni. Ég tek fram að í ljósi þess sem upplýst hefur verið um gang þeirra mála sem erindi yðar tengist tel ég á þessu stigi ekki tilefni til að fjalla um hvort stofnuninni hafi borið senda þeim sem óskað hafa endurupptöku á máli sínu hjá stofnuninni tilkynningu um tafir á grundvelli 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Ég tek fram að ef þér teljið síðar að tafir verði á úrlausn Tryggingastofnunar á umræddu máli yðar og þá þrátt fyrir almennar tilkynningar og ítrekanir yðar á erindinu bendi ég yður á að  samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt ef afgreiðsla máls dregst óhæfilega að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til sem í þessu tilviki er úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá getið þér einnig leitað til mín að nýju ef þér eruð ósáttar við afgreiðslu stjórnvalda, þ.m.t. úrskurðarnefndarinnar, á erindum yðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég því meðferð minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.