Samgöngumál. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9977/2019)

A kvartaði yfir vegi og jarðgöngum sem Vegagerðin lagði fyrir stóriðju á Bakka við Húsavík og óskaði eftir að fá að vita hvort það samrýmdist lögum að leggja vegi í þágu einkarekinnar stóriðju.

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Ráðherra, f.h. ríkissjóðs, var með lögum veitt heimild til að semja við Vegagerðina um gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Greiðsla á kostnaði hefur því byggst á settum lögum og fjárveitingum Alþingis og fellur utan starfssviðs umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 8. febrúar sl., yfir vegi og jarðgöngum sem Vegagerðin lagði fyrir stóriðju á Bakka við Húsavík. Þér óskið eftir því að fá að vita hvort það samrýmist lögum að leggja vegi í þágu einkarekinnar stóriðju.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Hann skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilteknar siðareglur sem settar eru á grundvelli laga. Í lögunum er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Starfssvið umboðsmanns tekur hins vegar ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna. Ástæða þess að ég tek þetta fram er að með lögum nr. 41/2013 var ráðherra f.h. ríkissjóðs veitt heimild, að fengnum heimildum í fjárlögum, að semja við Vegagerðina um gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Greiðsla á kostnaði vegna vega- og jarðgangaframkvæmda hefur því byggst á settum lögum og fjárveitingum Alþingis og fellur utan starfssviðs míns að fjalla um það, sbr. það sem að framan greinir.

Að því marki sem kvörtun yðar snýr að handhöfum framkvæmdarvalds bendi ég á að í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 er tekið fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Í kvörtun yðar óskið þér því að ég svari almennri spurningu um hvort framkvæmd Vegagerðarinnar við lagningu vega og jarðganga samrýmist lögum. Með vísan til þessa og ofangreindrar meginreglu 2. mgr. 4. gr. laga um umboðsmann Alþingis tel ég að ekki séu að lögum skilyrði til þess að ég taki erindi yðar til nánari athugunar að því leyti.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.