Skaðabætur. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 9978/2019)

A kvartaði annars vegar yfir að greiðsla sanngirnisbóta hefði ekki borist sér og hins vegar yfir framgöngu og starfsháttum tiltekins starfsmanns á sýsluskrifstofunni á Siglufirði.

Við eftirgrennslan kom í ljós að dómsmálaráðuneytið hefði svarað erindi A og því ekki ástæða fyrir umboðsmann að aðhafast frekar að svo stöddu. Þá var A bent á að koma kvörtunum vegna framkomu starfsmannsins á framfæri við sýslumanninn á Norðurlandi eystra. Ef A yrði ósáttur við viðbrögð sýslumannsins gæti hann freistað þess að leita til dómsmálaráðuneytisins sem færi með yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart embættinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 11. febrúar sl. þar sem þér kvartið annars vegar yfir því að greiðsla sanngirnisbóta hafi ekki borist yður og hins vegar yfir framgöngu og starfsháttum tiltekins starfsmanns á sýslu­skrifstofunni á Siglufirði.

Af gögnum málsins fæ ég ráðið að þér hafið lagt inn umsókn um sanngirnis­bætur hinn 18. júlí sl. en þér voruð nemandi við X á árunum [...] Í nóvemberlok 2018 var yður sent skriflegt sáttatilboð á lögheimili yðar [...] á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Þér samþykktuð tilboðið og var það undirritað og sent [...] hinn 17. desember sl. Hinn 23. janúar sl. rituðuð þér dómsmálaráðuneytinu bréf þar sem fyrsta greiðsla bótanna hafði ekki borist yður og erindum yðar til sýsluskrifstofunnar á Siglufirði hafði ekki verið svarað. Af gögnum málsins fæ ég ekki betur séð en að ráðuneytið hafi kannað stöðu málsins hjá sýsluskrifstofunni á Siglufirði. Þá kemur fram í svari ráðuneytisins til yðar hinn 11. febrúar sl. að greiðsla bótanna gæti tekið tvær til þrjár vikur. Í ljósi þess að ráðuneytið hefur svarað erindi yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar að svo stöddu. Ég tek þó fram að þér getið leitað til mín á nýjan leik hafi greiðsla ekki borist yður um miðjan marsmánuð.

Að því marki sem kvörtun yðar lýtur að framkomu tiltekins starfsmanns á sýsluskrifstofunni á Siglufirði bendi ég yður á að koma þeim á framfæri við sýslumanninn á Norðurlandi eystra, sem fer með aga- og boðvald gagnvart starfsmönnum sýsluskrifstofunnar, og tilgreina þá nánar í hverju framkoman fólst. Ef þér verðið ósáttir við viðbrögð sýslumannsins á Norðurlandi eystra getið þér freistað þess að leita til dómsmála­ráðuneytisins sem fer með yfirstjórnunar og eftirlitsheimildir gagnvart embættinu.

Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.