Starfsleyfi. Stjórnvaldsfyrirmæli.

(Mál nr. 9981/2019)

A, B, C, D, E og F kvörtuðu  yfir að hafa ekki fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að við undirbúning að setningu reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur heyrnarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að hagsmunaðilum hefði nú verið gefinn kostur á að veita umsögn um reglugerðina. Taldi umboðsmaður því ekki tilefni til að taka málið til nánari athugunar að svo stöddu. 

   

Umboðsmaður lauk því málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til erindis yðar, B, C, D, E og F sem barst mér 6. febrúar sl. Þar kemur fram að þér starfið hjá X og séuð ósáttar við að hafa ekki fengið tækifæri til að koma að sjónarmiðum yðar við undirbúning að setningu reglugerðar nr. 630/2018, um menntun, réttindi og skyldur heyrnarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Þér kvartið yfir meðferð velferðarráðuneytisins á erindi yðar til heilbrigðisráðherra frá 12. september 2018 um löggildingu heyrnarfræðinga sem ráðuneytið svaraði með bréfi 30. október 2018, einkum því að ráðuneytið hafi vísað til þess að X og fleiri hagsmunaaðilum hafi verið sendur tölvupóstur og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þau samskipti hafi ekki fundist hjá X. Með kvörtuninni fylgdi m.a. afrit af bréfi yðar til ráðuneytisins, dags. 1. febrúar sl., þar sem óskað var upplýsinga um hvenær tölvupósturinn var sendur.

Starfsmaður minn aflaði nánari upplýsinga hjá yður með símtali 22. febrúar sl. Þér upplýstuð um að X hefði nýlega borist bréf frá ráðuneytinu þar sem stofnuninni hefði ásamt fleiri hagsmunaðilum verið gefinn kostur á að veita umsögn um reglugerðina. Vegna tæknilegra mistaka í kerfi samráðsgáttar stjórnvalda hefði tölvupóstur með umsagnar­beiðni um drög að henni ekki verið sendur hagsmunaaðilum. Ráðuneytið myndi í kjölfarið taka umsagnirnar til skoðunar og breyta reglugerð nr. 630/2018 teldi það tilefni til. Fram kom í samtalinu að þér teljið að yður gefist að svo komnu nægilegt tækifæri til að koma sjónarmiðum yðar að vegna málsins. Afrits af umræddu bréfi ráðuneytisins, dags. 7. febrúar sl., hefur verið aflað frá ráðuneytinu. 

Þar sem kvörtun yðar laut einkum að því að yður hafði ekki verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum yðar við undirbúning setningar reglugerðar nr. 630/2018 og opnað hefur verið fyrir samráð að nýju vegna hennar tel ég ekki tilefni til að taka mál yðar til nánari athugunar að svo stöddu. Ég tek þó fram að þar sem óskað hefur verið eftir umsögn frá X sem stofnun en þér hafið kvartað til mín sem einstaklingar vegna hagsmuna yðar getið þér jafnframt freistað þess að koma að athugasemdum yðar til ráðuneytisins í yðar nafni.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég þar með athugun minni á málinu.