Fjármála- og tryggingastarfsemi. Almannaskráning. Starfssvið umboðsmanns og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9984/2019)

A kvartaði yfir að banki hefði boðað eiginmann hennar með syni hennar í fjármálaráðgjöf í tilefni af 18 ára afmæli sonarins en eiginmaðurinn er ekki faðir hans. Var hún einkum ósátt við að hvorugum foreldrum sonarins væri boðið á fundinn. Ástæða þess er að bankinn styðst við þá reglu að senda boð á þann sem er elstur á heimilinu samkvæmt lögheimilisskráningu í Þjóðskrá Íslands.

Starfssvið umboðsmanns nær einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu stjórnsýslulaga. Starfsemi [X] fellur ekki undir þetta og því ekki lagaskilyrði til þess að umboðsmaður tæki erindið til frekari meðferðar.

Var A bent á að leita til umboðsmanns viðskiptavina sem starfi hjá X og hafi m.a. það hlutverk að gæta þess að sanngirni og hlutlægni sé beitt við úrlausn mála og að ferli þeirra sé gegnsætt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 15. febrúar sl., yfir því að X hafi boðað eiginmann yðar með syni yðar í fjármálaráðgjöf í tilefni af átján ára afmæli hans en eiginmaður yðar er ekki faðir hans. Þér eruð einkum ósáttar við að hvorugum foreldrum sonar yðar var boðið á fundinn. Ástæða þess er sú að bankinn styðst við þá reglu að senda boð á þann sem er elstur á heimilinu samkvæmt lögheimilisskráningu í Þjóðskrá Íslands.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað í 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tiltekinna stofnana og heimila þegar hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997. Starfssvið umboðsmanns tekur hins vegar hvorki til starfsemi einkaaðila að öðru leyti né til dómstóla. X er hlutafélag og fjármálafyrirtæki sem starfar á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og telst því einkaréttarlegur aðili. Samkvæmt þessu fellur starfsemi X ekki undir starfssvið mitt samkvæmt lögum nr. 85/1997 og bresta því lagaskilyrði til þess að ég geti tekið erindi yðar til frekari meðferðar. Hvað efni kvörtunar yðar varðar er vert að nefna að hjá X starfar umboðsmaður viðskiptavina sem heyrir beint undir bankastjóra. Hlutverk umboðsmanns viðskiptavina er m.a. að gæta þess að sanngirni og hlutlægni sé beitt við úrlausn mála og að ferli mála sé gegnsætt. Í ljósi þess að umboðsmaður viðskiptavina skoðar einstök mál að beiðni viðskiptavina getið þér freistað þess að leita með mál yðar til hans.

Með hliðsjón af þeim þætti kvörtunar yðar sem snýr reglu bankans um að senda tilkynningar af þessu tagi á þann sem er skráður elstur á heimilinu er vert að taka fram að fyrir nokkru síðan hafði ég til skoðunar hvort tilefni væri til að taka fyrirkomulag skráningar fjölskylduvensla í þjóðskrá til athugunar að eigin frumkvæði. Þar hafði ég einkum í huga hagsmuni borgaranna af því að opinberar upplýsingar um þá væru réttar og ekki fallnar til að valda misskilningi um stöðu þeirra að lögum hjá sem nota upplýsingarnar, með tilheyrandi óhagræði fyrir hina skráðu. Samkvæmt upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands veitti mér af þessu tilefni árið 2015 eru kennitölur notaðar sem fjölskyldunúmer einstaklinga í þjóðskrá en stofnunin veitir ekki upplýsingar um hverjir eru foreldrar barns eða forsjáraðilar. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu árið 2017 var þá unnið að frumvarpi til laga um þjóðskrá þar sem gert var ráð fyrir að í gagnasafni þjóðskrár yrðu vensl skráð. Yrði frumvarpið lagt fram á Alþingi yrði ráðist í kostnaðargreiningu vegna nauðsynlegra breytinga á tölvukerfi Þjóðskrár. Í ljósi þessara upplýsinga ákvað ég að beita ekki heimild minni til að taka málið til formlegrar frumkvæðisathugunar en hef fylgst áfram með stöðu mála. Drög að frumvarpi til laga um skráningu einstaklinga, sem á að koma í stað gildandi laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, var birt í samráðsgátt 19. janúar sl. Þar er m.a. gert ráð fyrir að upplýsingar um vensl verði skráð í þjóðskrá, sbr. 6. gr. frumvarpsdraganna.   

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis læt ég umfjöllun minni um erindi yðar lokið.