Atvinnuleysistryggingar.

(Mál nr. 9987/2019)

A kvartaði yfir svari frá Vinnumálastofnun. Af kvörtuninni varð ráðið að stofnunin þyrfti að fá vottorð og önnur gögn frá viðkomandi ella yrði umsókn um atvinnuleysisbætur synjað.

Kvörtunin bar með sér að Vinnumálastofnun hefði ekki afgreitt endanlega umsókn A. Þar af leiðandi hefði kæruleið ekki verið tæmd og því ekki forsendur til að umboðsmaður tæki kvörtunina til athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. febrúar 2019, sem hljóðar svo:

  

Ég vísa til erindis yðar frá 18. febrúar sl. þar sem þér kvartið yfir svari sem þér fenguð nýlega frá Vinnumálastofnun.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar og að í svari hennar komi fram að stofnunin þurfi vottorð eða önnur gögn um að þér hafið verið í vinnu hluta af síðasta 12 mánaða tímabili, annars verði umsókninni synjað. Þetta er í samræmi lög nr. 54/2006 sem kveða meðal annars á um að forsenda þess að njóta atvinnuleysisbóta sé að hafa verið í vinnu  upp að vissu marki á síðustu 12 mánuðum.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að umsókn yðar um atvinnuleysisbætur hefur enn ekki verið afgreidd endanlega af hálfu Vinnumálastofnunar. Ef yður finnst Vinnumálastofnun ekki ætla yður nægan tíma til að afla þeirra gagna sem hún óskar eftir bendi ég á þann möguleika að óska eftir viðbótarfresti hjá stofnuninni. Fari svo að þér verðið ósáttir við ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi atvinnuleysisbætur þegar hún liggur fyrir bendi ég á að mögulegt er að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála. Slík kæra er enn fremur forsenda þess að ég taki kvörtun yðar til athugunar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en þar kemur meðal annars fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Ef þér þarfnist frekari upplýsinga eða skýringa á þessari niðurstöðu er yður velkomið að hafa samband við skrifstofu mína í síma 510-6700 milli 9 og 15 alla virka daga og ræða við lögfræðing.