Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Rannsóknarreglan. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Rökstuðningur. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 9837/2018)

A kvartaði yfir ráðningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) í starf.

Af gögnum málsins varð ekki annað séð en lagt hefði verið mat á alla umsækjendur um starfið á grundvelli umsókna og fyrirfram ákveðinna matsþátta. Kvörtun A varð umboðsmanni þó tilefni til að rita ÁTVR bréf og gera tilteknar athugasemdir við hvernig staðið hafði verið að ráðningarferlinu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. mars 2019, sem hljóðar svo:

 

I

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar yðar frá 17. september sl. sem varðar ráðningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) í starf á vörusviði. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið að rökstuðningi sem þér fenguð hafi verið ábótavant og að hann beri með sér að ráðningin hafi ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Jafnframt gerið þér athugasemdir við að það hafi tekið stofnunina sjö vikur að svara beiðni yðar um rökstuðning. Í tilefni af kvörtun yðar ritaði ég ÁTVR bréf 18. september og 21. nóvember sl. sem stofnunin svaraði með bréfum 22. október og 19. desember sl.

 

II

1

Þegar stjórnvöld ráða í opinber störf ber þeim að fylgja stjórn­sýslulögum, nr. 37/1993, og almennum grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning ráðningar í starf og mat á hæfni umsækjenda. Í íslenskum rétti hafa ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um að veita opinbert starf þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Megin­reglan er því sú að stjórnvaldið ákveður sjálft á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýslu­réttar þurfa þau sjónarmið að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið hefur ákveðið að byggja á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu um hvern skuli ráða þarf að meta þau innbyrðis. Almennt hefur stjórnvaldið þá svigrúm til þess að ákveða á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvalds­fyrirmælum.

Stjórnvaldið er þó almennt bundið af þeirri meginreglu að velja skuli hæfasta umsækjandann í starfið og í samræmi við þá reglu hefur verið talið að það verði að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geti varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem hafa verið lögð til grundvallar. Hafi stjórnvald uppfyllt þessar skyldur hef ég talið það njóta töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur til að gegna starfi.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þá segir m.a. að umboðsmaður skuli gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýslu­hætti. Við það eftirlit sem ég hef með höndum samkvæmt þessu er ég ekki í sömu stöðu og sá sem tekur ákvörðun um ráðningu í opinbert starf. Þannig leiðir af eðli eftirlitsins að það er ekki hlutverk mitt að endurmeta sjálfstætt hvern hefði átt að boða í atvinnuviðtal eða ráða í tiltekið starf heldur að leggja mat á hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög. Athugun umboðs­manns lýtur þannig m.a. að því hvort stjórnvaldið hafi lagt mál­­efnaleg sjónarmið til grundvallar ákvörðun sinni og þeim ályktunum sem stjórn­­valdið dregur af gögnum málsins og því mati sem það leggur á þau.

2

Starf á vörusviði ÁTVR var auglýst laust til umsóknar 3. og 5. maí 2018. Í auglýsingunni var helstu verkefnum lýst með þeim hætti að í þeim fælist móttaka og skráning umsókna frá birgjum, almenn samskipti við birgja og upplýsingagjöf á birgjavef, svör við fyrirspurnum og fræðsla til birgja, umsjón með stofnsamningum við birgja, verkefni sem snúi að umsjón með vöruspjaldi og skráningu og upplýsingagjöf og samskipti innanhúss vegna vöruflæðis. Hæfniskröfur samkvæmt auglýsingunni voru: 1) háskólamenntun sem nýtist í starfi, 2) gott viðmót og hæfni í mannlegum samskiptum, 3) rík þjónustulund, 4) nákvæmni og samviskusemi í vinnubrögðum, 5) góð almenn tölvukunnátta auk þess sem fram kom að þekking á vörum og vöruflæði innan Vínbúðanna væri kostur. Ég tel mig ekki hafa forsendur til að gera athuga­semdir við þær hæfniskröfur og sjónarmið sem fram komu í aug­lýsingunni þegar litið er til eðlis starfsins eins og því er lýst í aug­lýsingu.

Alls bárust 62 umsóknir um starfið. Samkvæmt því sem kemur fram í skýringum ÁTVR og þeim gögnum málsins sem ég fékk afhent fór fram grunnmat á öllum umsóknum sem var byggt á fjórum matsþáttum sem höfðu mismunandi vægi, þ.e. menntun, nákvæmni, tölvukunnáttu og staðfestu í starfi. Að loknu grunnmati var fjórum umsækjendum boðið í starfsviðtal þar sem fram fór mat á þremur þáttum til viðbótar, þ.e. þjónustulund, jákvæðni í samskiptum og viðmót/hæfni í samskiptum. Að því loknu var B boðið starfið.

3

Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við efnislegt mat á umsóknum yðar og B, þó með þeim fyrirvara að rökstuðningur ÁTVR fyrir ákvörðuninni sé takmarkaður. M.a. kemur fram að þér teljið að [...]­menntun yðar hljóti að nýtast betur í umrætt starf en [...]menntun B, auk þess sem þér vísið til þess að þér hafið aukið við yður þekkingu. Þá vísið þér til starfsreynslu yðar og tölvu­kunnáttu en takið í því sambandi fram að vegna annmarka á rökstuðningi sé yður gert ókleift að færa rök fyrir því hvort og þá hvernig þér hafið tölvukunnáttu umfram B.

     Fyrir liggur að þér voruð ekki á meðal þeirra fjögurra umsækjenda sem var boðið í starfsviðtal. Athugun mín á efnislegu mati í málinu hefur því einkum lotið að því með hvaða hætti var staðið að því að velja umsækjendur sem komu til frekara mats í ráðningarferlinu, en þó verður vikið að tilteknum athugasemdum yðar sem varða umsækjandann sem ráðinn var hér á eftir.

Það hefur ekki verið talið leiða af reglum stjórnsýsluréttar að stjórn­völdum sé ávallt skylt að gefa hæfum um­sækjendum kost á að gera nánari grein fyrir sjálfum sér í starfs­við­tölum eða afla á annan hátt frekari upplýsinga um starfshæfni þeirra. Hvort þörf er á slíkum viðtölum eða frekari upplýsingum ræðst af því hvaða upplýsinga er talið nauðsynlegt að afla til að málið sé nægjanlega upp­lýst með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ákveðið hefur verið að byggja á við val á milli umsækjenda. Að þessu leyti er því munur á hvort við val á milli umsækjenda sé byggt á sjónarmiðum eins og menntun og starf­sreynslu eða persónulegum eiginleikum umsækjenda. Almennt hef ég ekki talið mig hafa forsendur til að gera athugasemdir við það fyrirkomulag að leggja mat á umsóknargögn á grundvelli fyrir ­fram skilgreindra hlutlægra viðmiða, sem fram koma í auglýsingu.

Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að lagt hafi verið mat á alla umsækjendur um umrætt starf á grundvelli umsókna og fyrir fram ákveðinna matsþátta. Þá verður ekki annað ráðið en að umrætt mat hafi farið fram áður en tekin var ákvörðun um að þrengja umsækjenda­hópinn með þeim hætti að tilteknum aðilum var veittur kostur á að koma í starfs­viðtal þar sem frekara mat var lagt á tiltekna huglæga þætti. Eins og gerð var grein fyrir í fyrir­spurnar­bréfi mínu til ÁTVR, dags. 21. nóvember sl., virtist samanlögð stigagjöf fyrir matsþætti í grunnmati hins vegar ekki hafa verið ráðandi við ákvörðun um hvaða umsækjendur voru boðaðir í viðtöl og óskaði ég því eftir nánari skýringum á því. Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn málsins með hliðsjón af skýringum ÁTVR tel ég tilefni til að gera tilteknar athugasemdir við hvernig staðið var að ráðningarferlinu að þessu leyti. Bréf þess efnis fylgir hjálagt í ljósriti yður til upplýsingar. Hvað varðar aðrar athugasemdir sem þér gerið varðandi efnislegt mat á hæfni yðar og umsækjandans sem hlaut starfið tek ég eftirfarandi fram.

Ég fæ ekki séð að í lögum sé mælt fyrir um sérstök hæfisskilyrði, svo sem um tiltekna menntun, til þess að gegna hinu auglýsta starfi. Í umræddri starfsauglýsingu var sett fram almennt orðuð krafa til umsækjenda um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Þrátt fyrir að við slíkar aðstæður geti komið til þess að menntun umfram lágmarkskröfur eða veruleg starfsreynsla af sambærilegum viðfangsefnum og starfið lýtur að hafi vægi við hæfnismat hafa stjórnvöld ríkt svigrúm við túlkun þeirra krafna sem það telur nauðsynlegt að gera til hæfni um­sækjenda. Í skýringum ÁTVR til mín kemur m.a. fram að stofnunin telji [tiltekna menntun] og reynslu dæmi um ágætan bakgrunn fyrir starfið, þótt sama gildi um ýmsa aðra menntun, en slíkt starf feli að jafnaði í sér almenna og víðtæka þekkingu og ögun og reynslu í mannlegum samskiptum og skipulögðum vinnubrögðum. Að virtu því svigrúmi sem stjórnvald hefur til mats við ákvörðun um ráðningu í starf og í ljósi þeirrar lýsingar á inn­taki starfsins sem kemur fram í starfsauglýsingu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við framangreind sjónarmið eða mat ÁTVR á því hvernig menntun B nýtist í starfi, enda tel ég þau málefnaleg. Þar hef ég jafnframt í huga að samkvæmt þeim gögnum sem ég hef undir höndum fenguð þér og B bæði hámarksfjölda stiga fyrir matsþáttinn „menntun“ og var því ekki gert upp á milli yðar að því leyti. Jafnframt fenguð þér bæði hámarksfjölda stiga fyrir matsþættina „nákvæmni“ og „tölvukunnátta“ en bæði lýstuð þér tölvu­kunnáttu yðar með svipuðum, nokkuð almennum hætti í umsóknum. Reynsla af viðfangsefnum eða störfum, sambærilegum við hið auglýsta starf, var ekki meðal þeirra þátta sem komu til mats við val á umsækjendum í starfs­viðtöl.

Í ljósi framangreinds, og eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, tel ég ólíklegt að frekari athugun á kvörtun yðar geti leitt til þess að ég hafi forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðningarmálsins. Þar hef ég m.a. í huga að af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að umsækjandinn sem hlaut starfið hafi ekki verið einn af þeim umsækjendum um starfið sem ÁTVR boðaði í atvinnuviðtal með vísan til „almennra kurteisisreglna“. Þá vek ég athygli yðar á að ég hef nú mál til meðferðar að eigin frumkvæði, sbr. heimild 5. gr. laga um umboðsmann Alþingis, sem lýtur að því hvernig stjórnvöld nota stigagjöf við meðferð ráðningarmála. Þau atvik sem búa að baki kvörtun yðar og varða það hvernig ÁTVR gaf umsækjendum um starfið stig og nýtti niðurstöður þeirrar stigagjafar við meðferð málsins kunna því að verða höfð til hliðsjónar við meðferð frumkvæðismálsins hjá mér.

 

III

Af framangreindum sökum hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég árétta þó að kvörtun yðar hefur orðið mér tilefni til þess að rita ÁTVR bréf það sem hér fylgir í ljósriti. Þær athugasemdir sem þar koma fram eru þó ekki þess eðlis að þær breyti niðurstöðu minni hér að framan.


 

 

Bréf umboðsmanns til forstjóra ÁTVR, dags. 7. mars 2019, hljóðar svo:

 

I

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A sem varðar ráðningu í starf á vörusviði Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR).

Eins og kemur fram í bréfi mínu til A, sem fylgir hér í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um kvörtun hans, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri og þá með það í huga að umrædd atriði verði framvegis höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála hjá ÁTVR.

   

II

1

Kvörtun A lýtur m.a. að því að rökstuðningur sem honum var veittur fyrir ákvörðun ÁTVR um að ráða tiltekinn umsækjanda í starf á vörusviði stofnunarinnar beri með sér að hún hafi ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Af kvörtuninni verður jafnframt ráðið að hann telji sig hafa verið hæfari í starfið en umsækjandinn sem það hlaut.

Í skýringum yðar til mín, dags. 22. október sl., segir eftirfarandi um mat ÁTVR á þeim umsóknum sem bárust:

 „Alls bárust sextíu og tvær umsóknir um starfið í kjölfar auglýsingarinnar. Fjórir þættir voru metnir út frá efni umsókna: 1) Menntun 2) Nákvæmni 3) Tölvukunnátta og 4) Staðfesta í starfi. Einkunnir fyrir framangreinda þætti voru gefnar á skalanum 0-10. Niðurstöður matsins á öllum umsækjendum má sjá í greiningu á hæfni þeirra sem fylgir hjálagt. Eins og þar má sjá fær sú sem var ráðin afgerandi hæst skor, eða samtals 40 stig. Niðurstaðan var sannreynd síðar í ráðningarferlinu, m.a. í viðtali við umsækjandann.

Fjórir umsækjendur voru boðaðir í viðtal á grundvelli framangreinds mats og vísast um það til greiningarskjalsins, en þar eru þeir sérstaklega merktir ásamt kvartanda.“

Af umræddu skjali, sem fylgdi skýringum yðar, verður ráðið að til grundvallar ákvörðun um hvaða umsækjendur skyldi boða í atvinnuviðtöl hafi verið framangreindir fjórir matsþættir. Af skjalinu verður jafnframt ráðið, eins og ég fjallaði nánar um í bréfi 21. nóvember sl., að samanlögð stigagjöf fyrir þessa matsþætti, að teknu tilliti til mismunandi vægis þeirra, hafi ekki verið ráðandi þegar ákveðið var hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í viðtöl. Óskaði ég því nánari upplýsinga og skýringa um hvernig ÁTVR lagði mat á hvaða umsækjendur skyldi boða í atvinnu­viðtöl. Í sama bréfi óskaði ég nánari skýringa á því hvað hefði falist í matsþættinum „staðfesta í starfi“ og að upplýst yrði hvernig mat á honum hefði farið fram.

Í bréfi rituðu af lögmanni fyrir hönd ÁTVR, dags. 19. desember sl., kemur eftirfarandi fram í þessu samhengi:

„Þeir aðilar sem boðaðir voru í viðtal og voru með færri stig en þeir stigahæstu eru núverandi eða fyrrverandi starfsfólk ÁTVR, en eðlilegt þótti með vísan í almennar kurteisisreglur að við þá væri rætt vegna tengsla við fyrirtækið. Að öðru leyti er reynt að leggja mat á svokallaða staðfestu í starfi, en með því er átt við að umbjóðandi minn skoðar hversu líklegt er að viðkomandi umsækjandi ílendist í starfi, sem er stór ákvörðunarástæða í þessu tilviki. Hér er verið að skoða starfsaldur umsækjenda, hvort umsækjandi stoppi stutt á hverjum stað, hafi verið lengi í starfi eða skipt oft um starfsvettvang. Langur starfsaldur er í þessu sambandi almennt hátt metinn. Mat á þessum þætti er mestan part huglægt þar sem ekki er hægt að bregða á það neinum algildum kvarða, en matið byggir þó að sjálfsögðu á fyrirliggjandi upplýsingum. Telji umbjóðandi minn „staðfestu“ í þessum skilningi vera ábótavant er vandséð að bætt yrði úr því í starfsviðtali.“

Við athugun mína á málinu hef ég staðnæmst við það hvernig ÁTVR lagði mat á hæfni umsækjenda til þess að gegna hinu auglýsta starfi, eins og sú tilhögun er útskýrð í framangreindum bréfum til mín. Af þessum sökum tel ég ástæðu til þess að minna á þá óskráðu meginreglu að ákvörðun um að ráða í opinbert starf verði að vera reist á því að velja skuli hæfasta umsækjandann og jafnframt verður niðurstaða stjórnvalds að þessu leyti að vera reist á fullnægjandi grundvelli.

2

Við athugun á þessu máli hef ég staðnæmst við það hvernig ÁTVR lagði mat á „staðfestu í starfi“ í ljósi þess vægis sem matsþátturinn hafði þegar ákveðið var hvaða umsækjendur skyldi boða í atvinnuviðtöl og hvern skyldi ráða.

Meðal annars þar sem ekki voru skráðar upplýsingar um hvernig mat á þessum þætti fór fram, sbr. 27. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, fæ ég ekki annað ráðið en að ÁTVR hafi einfaldlega lagt til grundvallar upplýsingar í gögnum frá umsækjendum um „starfsaldur umsækjenda, hvort umsækjandi stoppi stutt á hverjum stað, hafi verið lengi í starfi eða skipt oft um starfsvettvang“ og metið þannig hversu líklegt væri að „viðkomandi umsækjandi ílendist í starfi“, eins og kemur fram í bréfi lögmanns fyrir hönd stofnunarinnar 19. desember sl.

Þrátt fyrir að gera verði ráð fyrir að almennt geti verið málefnalegt að líta til þess hvort líklegt eða ólíklegt sé að umsækjandi um opinbert starf muni stoppa stutt eða lengi við í því starfi verður mat stjórnvalds að því leyti að byggja á fullnægjandi grundvelli, en kröfur þar um geta eftir atvikum ráðist af því hversu mikið vægi matsþátturinn hefur við ákvörðun um ráðningu og hversu íþyngjandi áhrif hann hefur gagnvart umsækjendum þegar honum er beitt. Stjórnvald kann jafnframt að þurfa að taka tillit til þess að margvíslegar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur hafi áður skipt um starf eða hafi ekki langan starfsaldur án þess að það dragi úr því hversu líklegt er að viðkomandi „ílendist“ í auglýstu starfi. Í ljósi þess hversu mikið vægi matsþátturinn „staðfesta í starfi“ hafði við meðferð ráðningarmálsins, hversu fáir umsækjendur voru boðaðir í viðtöl miðað við fjölda umsækjenda og hvernig mat á þessum þætti fór fram tel ég líkur á að athugun ÁTVR á þessum matsþætti hafi ekki verið fallin til þess að veita stofnuninni fullnægjandi forsendur til að draga ályktanir um þessa eiginleika í fari umsækjenda.

3

Það hefur jafnframt vakið athygli mína að í skýringum lögmanns fyrir hönd stofnunarinnar 19. desember sl. kemur fram að núverandi eða fyrrverandi starfsfólk stofnunarinnar hafi verið boðað í atvinnuviðtöl vegna tengsla þeirra við hana „með vísan í almennar kurteisisreglur“. Af þessum skýringum verður ekki annað ráðið en að umræddir einstaklingar hafi ekki verið boðaðir í atvinnuviðtöl vegna þess að þeir hafi verið metnir meðal fjögurra hæfustu umsækjenda, s.s. vegna þess að þekking á vörum og vöruflæði innan Vínbúðanna var tilgreint sem kostur í starfs­auglýsingu. Þrátt fyrir að stjórnvöld séu vitaskuld ekki bundin við niðurstöður stigagjafar, þegar þau styðjast við þá aðferð í ráðningar­málum, þegar þau ákveða hvaða umsækjendur eigi að boða í viðtöl eða hvaða umsækjanda eigi að ráða verða þessar ákvarðanir þeirra, eftir sem áður, að byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Þrátt fyrir að umsækjandi hafi tengsl við stofnun, sem núverandi eða fyrrverandi starfsmaður, er það í andstöðu við þau sjónarmið sem stjórnvöld verða að fylgja við meðferð ráðningarmála, og ég fjalla um að hluta í bréfi mínu til A, að boða viðkomandi í atvinnuviðtal eða ráða hann í starf á grundvelli „almennra kurteisisreglna“ ef það er óháð hæfni viðkomandi.

4

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á meðferð ráðningarmálsins hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á kvörtun A. Eins og ég geri grein fyrir í bréfi mínu til hans er sú ákvörðun m.a. byggð á því að um þessar mundir hef ég til meðferðar mál að eigin frumkvæði, sbr. heimild 5. gr. laga nr. 85/1997, þar sem til athugunar er af minni hálfu hvernig stjórnvöld beita stigagjöf við meðferð ráðningarmála. Þar sem þau atriði, sem ég hef fjallað um að framan, eru að hluta til jafnframt til athugunar í umræddu frumkvæðismáli vek ég athygli á að ég mun hafa atvik þessa máls til hliðsjónar við þá athugun.

   

III

1

Eins og ég rakti m.a. í bréfi mínu til yðar 18. september sl. hefur almennt verið lagt til grundvallar, í rökstuðningi fyrir ráðningu í opinbert starf, að stjórnvaldi beri að lýsa í stuttu máli helstu upplýsingum um þann umsækjanda sem varð fyrir valinu er skiptu mestu máli við matið, sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Á þannig að liggja ljóst fyrir hvaða meginsjónarmið réðu því að starfið var veitt þeim umsækjanda. Lagt hefur verið til grundvallar að viðtakandi rökstuðningsins verði að geta gert sér grein fyrir því með raunhæfum hætti á hvaða sjónarmiðum veitingarvaldshafi byggði ákvörðun sína og eftir atvikum hvert vægi þeirra hafi verið. Því hefur verið lýst í álitum umboðsmanns Alþingis að þetta mætti orða svo að því verði best náð fram með því að í rökstuðningi komi fram lýsing á því hvers konar starfsmanni veitingarvaldshafi var að leita að og hvernig sá umsækjandi sem valinn var féll að þeirri lýsingu, sjá t.d. álit mitt frá 24. september 2010 í máli nr. 5893/2010.

Af rökstuðningi yðar, dags. 25. júlí sl., verður ráðið að það hafi verið mat ÁTVR að sá umsækjandi sem var ráðinn hafi uppfyllt hæfniskröfur í starfsauglýsingu vel og verið hæfastur umsækjenda. Hins vegar er rökstuðningurinn að nokkru leyti því marki brenndur að lýst er með sama orðalagi og í auglýsingu að umsækjandinn hafi tiltekna hæfni, án þess að þar komi fram af hverju ÁTVR taldi viðkomandi búa yfir henni. Af þessum sökum tel ég að rökstuðningur ÁTVR, dags. 25. júlí sl., hafi ekki samrýmst 22. gr. stjórnsýslulaga.

2

Í bréfi yðar 22. október sl. eru veittar tilteknar skýringar á því af hverju hafi dregist að svara beiðni A um rökstuðning umfram tímamörk 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Af þeim sökum og í ljósi þess tíma sem leið þar til A var veittur umbeðinn rökstuðningur tel ég tilefni til þess að minna á mikilvægi þess að starfsemi stjórnvalda sé skipulögð þannig að unnt sé að virða lögmælta fresti, sbr. til hliðsjónar t.d. álit mitt frá 26. nóvember 2002 í máli nr. 3508/2002. Þá minni ég jafnframt á að meðal þeirra röksemda sem búa að baki fresti 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga eru að rökstuðningur á að vera skrifleg greinargerð um þau sjónarmið, sem raunverulega voru ráðandi við úrlausn máls þegar ákvörðun er tekin og því ljóst að ekki má líða mjög langur tími frá því að ákvörðun var tekin og þar til rök eru færð fyrir henni.