Skipulags- og byggingarmál. Framkvæmdaleyfi. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Leiðbeiningarskylda.

(Mál nr. 9898/2018)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Laut kvörtunin einkum að því að í úrskurði nefndarinnar hefði ekki verið tekin afstaða til kæruefnis vegna framkvæmdaleyfis fyrir byggingu gervigrasvallar en kröfu um stöðvun á framkvæmdunum til bráðabirgða hafði verið hafnað á fyrri stigum. Einnig var kvartað yfir löngum afgreiðslutíma nefndarinnar og að leiðbeiningum hennar hefði verið ábótavant.

Með hliðsjón af gögnum málsins taldi umboðsmaður að nefndin hefði tekið efnislega afstöðu til álitaefnisins. Einnig að lagt hefði verið mat á hvort þau atriði deiliskipulags sem lutu að framkvæmdinni hefðu verið í samræmi við aðalskipulag og þar með að framkvæmdin sem A kærði samrýmdist skipulaginu. Þá taldi umboðsmaður með hliðsjón af gögnum málsins hvorki ástæðu til að gera athugasemdir við afgreiðslutíma nefndarinnar þar sem úrskurður var kveðinn upp áður en ýtrasti frestur var liðinn né að A hefði ekki verið leiðbeint sérstaklega um möguleika á að óska eftir endurupptöku málsins.

 

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2019, sem hljóðar svo:

 

I

Ég vísa til erindis yðar frá 16. nóvember sl. þar sem þér kvartið yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli nr. 58/2017. Úrskurðurinn var kveðinn upp 14. desember 2017 eftir að mál yðar hafði verið sameinað öðru kærumáli, nr. 39/2017, sem úrskurðarnefndin hafði til úrlausnar.

Kvörtun yðar lýtur einkum að því að í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 39/2017 sé ekki tekin afstaða til kæruefnis í máli nr. 58/2017. Þar var um að ræða kæru vegna framkvæmda­leyfis fyrir byggingu gervigras­vallar og krafist var stöðvunar á framkvæmdum til bráðabirgða en þeirri kröfu hafnaði úrskurðarnefndin með bráðabirgðaúrskurði 22. júní 2017. Kæran  byggðist á að umrædd framkvæmd færi í bága við gildandi aðal­skipulag og deili­skipulag. Enn fremur kvörtuð þér yfir löngum  afgreiðslutíma nefndarinnar og að leiðbeiningum hennar hefði verið ábótavant.

Í tilefni af kvörtun yðar var úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ritað bréf 18. desember sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort og þá með hvaða hætti nefndin teldi sig hafa leyst úr kæruefni yðar í úrskurði máls nr. 39/2017 frá 14. desember 2017. Úrskurðarnefndin svaraði með bréfi dagsettu 15. janúar sl. sem þér fenguð afrit af. Athugasemdir yðar við svör nefndarinnar bárust mér með bréfi 31. janúar sl. 

   

II

1

Í bréfi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 15. janúar sl. kemur fram að niðurstaða úrskurðarins hefði mátt vera skýrari varðandi hið kærða framkvæmdaleyfi. Engu að síður hefði nefndin kannað sérstaklega efnislegt samræmi leyfisins við skipulag með samanburði á gögnum um efni framkvæmaleyfisins við heimildir gildandi skipulags og gengið úr skugga um að ekki hefðu verið annmarkar á málsmeðferðinni; enga annmarka hafi verið að sjá á málsmeðferð við leyfisveitinguna. Þar segir einnig:

„Deiliskipulag [X] hélt gildi sínu og var það niðurstaða nefndarinnar að efnisinnihald framkvæmdaleyfisins væri í samræmi við það fyrir utan girðingarframkvæmdir. Sú niðurstaða studdist við fyrirliggjandi gögn málsins sem fylgja bréfi þessu.“

Í skýringum nefndarinnar er í kjölfarið vikið að tilteknum atriðum sem höfðu þýðingu í þessum efnum, m.a. hvað varðar staðsetningu, umfang og landnotkun. Þar er t.a.m. bent á að heildarflötur boltavallar með hliðsjón af deiliskipulagi um leyfilega stærð vallarins hafi verið innan marka auk þess sem jarðvinna, yfirborðsfrágangur og gerð lagna hafi verið innan marka deiliskipulags. Með þessu tel ég ótvíræða þá afstöðu úrskurðar­nefndarinnar að í niðurstöðu hennar felist að umrætt framkvæmda­­leyfi, að því leyti sem það hélt gildi sínu, samrýmist gildandi deiliskipulagi á framkvæmda­svæðinu og nefndin hafi þar með tekið efnislega afstöðu til þess álitaefnis.

Í kæru yðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var byggt á að hið kærða framkvæmdaleyfi samrýmdist hvorki gildandi aðalskipulagi né deiliskipulagi. Var þar meðal annars tiltekið að framkvæmdin bryti gegn „því ákvæði aðalskipulags að ekki skuli reisa mannvirki á þeim grænu geirum sem bæjargarður á að verða hluti af.“ Í ljósi þess orðalags úrskurðarnefndarinnar að hún hafi kannað sérstaklega „efnislegt samræmi leyfisins við skipulag“ verður að miða við að hún hafi, auk annars, lagt mat á hvort þau atriði deiliskipulags sem lutu að framkvæmdinni hafi verið í samræmi við aðalskipulag, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og þar með að framkvæmdin sem þér kærðuð samrýmdist skipulaginu.    

Í bréfi yðar frá 31. janúar sl. gerið þér athugasemdir við að úrskurðar­nefndin fullyrði að tiltekin ljósamöstur séu „ekki hluti af hinni kærðu ákvörðun“ yðar og vísið til ítrekaðrar umfjöllunar um ljósamöstrin í sjálfri kærunni. Í því sambandi skal tekið fram að ákvörðunin sem um ræðir var veiting leyfis til þar tilgreindra framkvæmda. Þótt ljósamöstrin hafi vissulega verið á dagskrá í undirbúningsferlinu kemur fram í gögnum málsins að framkvæmdaleyfið náði ekki til þeirra. Að því virtu tel ég ekki ástæðu til athugasemda við framangreint orðalag nefndarinnar. Það kann hins vegar að vera sjálfstætt úrlausnarefni hvort síðari tíma áætlun um framkvæmd sem felur í sér nánar tilgreind ljósamöstur muni samrýmast gildandi deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi þar að lútandi myndi sæta kæru til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Í því sambandi tek ég jafnframt fram að að því marki sem gert er ráð fyrir ljósamöstrum í umræddu deiliskipulagi hefðu athugasemdir við það þurft að berast sveitarstjórn þegar tillaga að skipulaginu var auglýst, sbr. 41. gr. laga nr. 123/2010.

Í umræddu bréfi bendið þér einnig á að úrskurðarnefndin víki í engu að umferðarmálum en í kæru yðar hafi verið lýst hættu vegna umferðar­aukningar og þess krafist að [Y] brygðist við henni í tengslum við framkvæmdaleyfið. Vegna þessa bendi ég á að ekki verður séð að í skipulagslögum nr. 123/2010 eða reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 séu ákvæði þess efnis að útgáfa framkvæmdaleyfis sé háð sérstöku mati á umferðarmálum þar að lútandi umfram það sem felst í áðurnefndri 4. mgr. 13. gr. laganna um samræmi við skipulagsáætlanir.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og í ljósi þess hvernig framkvæmdaleyfið, sem hin kærða ákvörðun lýtur að, var afmarkað fæ ég ekki séð að grundvöllur sé til athugasemda af minni hálfu við niðurstöðu úrskurðar­­nefndarinnar í máli nr. 39/2017 frá 14. desember 2017 um þau atriði sem kvörtun yðar til mín fjallar um að teknu tilliti til nánari skýringa nefndarinnar frá 15. janúar sl.

2

Í kvörtun yðar er tiltekið að það hafi tekið úrskurðarnefndina sex og hálfan mánuð að afgreiða umrætt kærumál og með því hafi verið farið fram úr lögboðnum afgreiðslufresti sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er í 6. mgr. kveðið á um að úrskurðir skuli jafnan kveðnir upp innan þriggja mánaða eftir að málsgögn bárust frá stjórnvaldi og innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið. Í úrskurðinum kemur fram að gögn frá Garðabæ hafi borist nefndinni 15. og 26. júní 2017.

Af þessu tilefni tek ég fram að undanfarin ár hafa mér öðru hverju borist kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auð­linda­mála. Ég hef því til skoðunar að taka til nánari athugunar þann vanda sem til staðar er hjá nefndinni að eigin frum­kvæði. Að þessu sögðu og með hlið­sjón af því að úrskurður í máli yðar var kveðinn upp áður en ýtrasti frestur var liðinn tel ég ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna þessa atriðis í kvörtun yðar.

Þá er í kvörtun yðar vikið að því úrskurðarnefndin hafi látið hjá líða að leiðbeina yður um möguleika á endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því tilefni vek ég athygli á að þær leiðbeiningar sem stjórnvaldi ber að veita við birtingu ákvörðunar eru tilgreindar í 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Möguleiki á endur­upptöku máls er ekki á meðal atriða sem þar eru tilgreind. Skylda stjórnvalds til að leiðbeina að eigin frumkvæði um slíka möguleika verður því fremur byggð á almennri leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram kemur að stjórnvaldi skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Skylda stjórnvalds til að veita leiðbeiningar, s.s. um gildandi réttarreglur, að eigin frumkvæði en ekki samkvæmt sérstakri beiðni málsaðila, virkjast þegar stjórnvaldinu má vera ljóst að honum sé þörf á leiðbeiningunum. Endurupptaka máls á grundvelli 24. gr. er bundin því skilyrði að annaðhvort hafi ákvörðun stjórnvalds byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun þess um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Með hliðsjón af því og fyrirliggjandi gögnum málsins tel ég ekki ástæðu til athugasemda við að yður hafi ekki verið leiðbeint sérstaklega um möguleika á að óska eftir endurupptöku málsins.

   

III

Með vísan til þess sem að framan greinir og a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.