Húsnæðismál. Endurupptaka stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 9946/2018)

A kvartaði yfir úrskurði kærunefndar húsamála.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að A hafði ekki lagt tiltekinn tölvupóst fram hjá nefndinni. Var A bent á að bera málið aftur undir nefndina.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til erindis yðar til mín frá 8. janúar sl. þar sem þér kvartið yfir úrskurði kærunefndar húsamála frá 18. desember sl. í máli nr. 100/2018 þar sem nefndin hafnaði kröfu yðar um afslátt af leiguverði vegna fasteignarinnar að [...] vegna hávaða sem stafaði frá fram­­kvæmdum á leigutímanum. Þá var kröfu yðar um að viðurkennt yrði, af hálfu nefndarinnar, að forsendur til riftunar leigusamningsins væru til staðar á grundvelli 1. og 4. tölul. 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, með tilliti til bótakröfu samkvæmt 4. mgr. sömu laga vísað frá.

Í tilefni af kvörtun yðar ritaði ég kærunefnd húsamála bréf, dags. 22. febrúar sl., þar sem ég óskaði eftir nánari skýringum. Ég tel óþarft að gera nánari grein fyrir því hér þar sem þér fenguð afrit bréfsins. Mér hefur nú borist svar frá kærunefnd húsamála, dags. 26. mars sl. Þar kemur m.a. fram að nefndin hafi ekki haft tölvupóst yðar frá 15. mars 2018 til X undir höndum við meðferð málsins þar sem þér hefðuð ekki lagt hann fram hjá nefndinni. Vegna þessa tók nefndin fram að þér gætuð farið fram á að málið yrði endurupptekið „á grundvelli nýs gagns, þ.e. téðs tölvupósts“. Þá tók nefndin einnig fram að ef þér mynduð óska eftir endurupptöku málsins og leggja fram umræddan tölvupóst myndi nefndin fallast á beiðni yðar um endurupptöku.

Með vísan til framangreinds tel ég rétt, ef þér teljið tilefni til, að þér freistið þess að bera málið aftur undir kærunefnd húsamála áður en ég tek það til frekari athugunar enda gætu tilmæli mín til nefndar­innar, teldi ég afgreiðslu hennar á erindi yðar ekki samrýmast lögum, fyrst og fremst lotið að því að taka það til endurskoðunar.

Með vísan til framangreinds tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar að svo stöddu og læt athugun minni á málinu lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér farið þá leið að leita til nefndarinnar að nýju og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni nýrri niður­stöðu hennar getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.