Starfshættir stjórnsýslunnar. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 9957/2018)

A kvartaði yfir samskiptum við velferðarráðuneytið og að erindum bæði til þess og forsætisráðuneytisins væri ekki svarað eða ekki svarað með fullnægjandi hætti. Einnig laut kvörtunin að ójafnræði sem A taldi fyrirtækið sem hann starfaði fyrir sæta gagnvart öðrum aðilum á tilteknum markaði.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að erindunum hafði verið svarað og því ekki ástæða til að aðhafast frekar í tilefni af því. Hvað meint ójafnræði snerti benti umboðsmaður á að ekki yrði  annað séð af gögnum málsins en sá þáttur væri til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu. Því væru ekki forsendur til frekari athugunar þessa af hans hálfu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2019, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til kvörtunar yðar frá 14. janúar sl. þar sem þér kvartið yfir samskiptum yðar við velferðarráðuneytið og að erindum yðar til velferðar­ráðuneytisins annars vegar og forsætisráðuneytisins hins vegar sé ekki svarað eða ekki svarað með fullnægjandi hætti. Þá lýtur kvörtun yðar einnig að ójafnræði sem þér teljið að X hafi sætt gagnvart öðrum aðilum á Y markaði. Meðfylgjandi kvörtun yðar var m.a. bréf X til Samkeppniseftirlitsins frá 16. janúar sl. þar sem óskað var eftir því að Samkeppniseftirlitið myndi taka athafnir og athafnaleysi velferðar­ráðuneytisins í samskiptum við X til rannsóknar.

 

II

Í tilefni af kvörtun yðar var forsætisráðuneytinu ritað bréf, dags. 14. febrúar sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið upplýsti hvort erindi X væri til meðferðar hjá ráðuneytinu. Þá var jafnframt óskað eftir því að ráðuneytið upplýsti hvort það hefði í því sambandi óskað eftir eða fengið framsend öll fyrirliggjandi gögn sem til hafi orðið hjá velferðarráðuneytinu vegna erinda X og hvort og þá hvenær ráðuneytið hygðist svara þeim fyrirspurnum sem X teldi sig ekki hafa fengið viðbrögð við af hálfu velferðarráðuneytisins.

Í svari ráðuneytisins frá 28. febrúar sl. kemur fram að þau gögn sem til hafi orðið hjá velferðarráðuneytinu vegna erinda X hafi verið framsend forsætisráðuneytinu í tengslum við flutning á stjórnarmálefnum jafnréttismála frá velferðarráðuneytinu til forsætis­ráðuneytisins hinn 1. janúar sl. Þá var tekið fram að ráðuneytið vænti þess að unnt yrði að svara erindi yðar, þar sem meðal annars var óskað svara við fyrri erindum X til velferðarráðuneytisins, eigi síðar en 15. mars.

Mér hefur nú borist afrit af svarbréfi forsætisráðuneytisins til yðar, dags. 15. mars. sl., auk þess sem þér hafið sent mér samskipti yðar við starfsmenn ráðuneytisins laugardaginn 16. mars sl. og viðbrögð yðar við svarbréfi ráðuneytisins sem þér senduð með tölvupósti 19. mars sl.

Þar sem þér hafið nú fengið svar ráðuneytisins frá 15. mars sl. tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Í störfum mínum sem umboðsmaður hef ég fylgt þeirri starfsvenju að leiðbeina aðilum um að þeir geti leitað til mín á nýjan leik með sérstaka kvörtun telji þeir sig beitta rangsleitni með svörum stjórnvalda, s.s. ef viðkomandi telur stjórnvald ekki hafa sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Í bréfi forsætisráðuneytisins til X, dags. 15. mars sl., kemur hins vegar fram að telji félagið enn einhverjum spurningum ósvarað úr fyrri erindum þess til velferðarráðuneytisins sé unnt að beina nýrri fyrirspurn til ráðuneytisins þar að lútandi. Fyrir liggur að þér hyggist ekki gera það.

Þar sem kvörtun yðar lýtur m.a. að því að erindi X hafi ekki verið svarað og þar sem það hefur nú verið gert tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af þessu atriði í kvörtun yðar. Lýk ég því meðferð minni á þessum hluta málsins með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

 

III

Kvörtun yðar lýtur einnig að því að þér teljið að X hafi sætt ójafnræði gagnvart öðrum aðilum á Y markaði. Fyrir liggur að X hefur leitað til Samkeppniseftirlitsins með erindi þar sem þess er óskað að Samkeppniseftirlitið taki athafnir og athafnaleysi stjórnvalda til rannsóknar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. c-lið 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Það verður því ekki annað séð en að þessi þáttur málsins sé til meðferðar hjá því sérhæfða stjórnvaldi sem fer með eftirlit með lögum nr. 44/2005. Að fenginni niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins kann ákvörðun þess síðan að vera kæranleg til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. 9. gr. laga nr. 44/2005.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni á málinu að þessu leyti lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef X telur sig enn beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu Samkeppnis­eftirlitsins, og eftir atvikum að undangenginni kæru til áfrýjunar­nefndar samkeppnismála og úrlausnar nefndarinnar, getur félagið leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.