Opinberir starfsmenn. Kirkjumál og trúfélög. Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9959/2018)

A kvartaði yfir ákvörðun biskups Íslands vegna skiptingar starfa í tilteknu prestakalli og fyrri samskipta vegna hennar.

Ekki varð annað ráðið af gögnum málsins en erindið væri enn til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu og afstaða þess lægi þar af leiðandi ekki fyrir. Á meðan svo væri kæmi erindið ekki til skoðunar hjá umboðsmanni.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. mars 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 16. janúar sl., yfir ákvörðun biskups Íslands um skiptingu starfa í X prestakalli og fyrri bréfaskipta vegna hennar. 

Um er að ræða sama mál og þér hafið áður leitað með til umboðsmanns Alþingis, í málum nr. 6428/2011, 6621/2011 og 7935/2014 sem lokið var með bréfum, dags. 27. júní, 14. september 2011 og 30. maí 2014. Í síðastnefnda bréfinu tók settur umboðsmaður m.a. fram að ekki væri að öllu leyti skýrt hvort og þá í hvaða mæli málefni sem lytu að innri stjórnsýslu þjóðkirkjunnar féllu innan starfssviðs umboðsmanns. Hann taldi jafnframt rétt að þér leituðuð eftir afstöðu innanríkisráðuneytisins til þess hvort mál yðar heyrði undir eftirlit þess, en ekki varð séð að það hefði verið gert. Í því samhengi vísaði hann til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og tók fram að málið gæti ekki komið til skoðunar af hálfu umboðsmanns Alþingis á meðan afstaða ráðuneytisins lægi ekki fyrir.

Í tilefni af kvörtun yðar nú var yður ritað bréf, dags. 23. janúar sl., þar sem þess var óskað að þér senduð umboðsmanni þau gögn sem lægju fyrir um niðurstöðu í máli yðar að hálfu innanríkisráðuneytisins eða eftir atvikum dómsmálaráðuneytisins til að umboðsmaður gæti lagt mat á hvort unnt væri að taka kvörtun yðar til meðferðar. Bent var á að til að kvörtun uppfylli þau skilyrði sem fram koma í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þarf að liggja fyrir niðurstaða í máli af hálfu stjórnvalds eða annars aðila sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, sbr. 3. gr. laganna og lokið hefur innan ársfrests sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra. Þess var óskað að umbeðin gögn bærust umboðsmanni ekki síðar en 6. febrúar sl. og tekið fram að bærist ekki svar innan þess frests yrði litið svo á að þér hefðuð kosið að fylgja kvörtun yðar ekki frekar eftir. Þér óskuðuð eftir fresti með tölvubréfi 11. febrúar og var hann veittur.

Mér barst tölvubréf frá yður 17. febrúar sl. með upplýsingum um að þér hefðuð sent erindi til dómsmálaráðuneytisins. Þar kom jafnframt fram að þér hygðust senda mér frekari gögn sem stafa frá nefndum innan þjóðkirkjunnar. Ég fæ því ekki annað ráðið en að erindi yðar sé enn til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu. Með tölvupósti starfsmanns míns 28. febrúar sl. var óskað eftir að þér létuð vita hvort von væri á frekari upplýsingum eða gögnum en svör hafa ekki borist. 

Eins og fyrr segir getur málið ekki komið til skoðunar hjá mér á meðan afstaða dómsmálaráðuneytisins liggur ekki fyrir, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Með vísan til þess og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er umfjöllun minni um kvörtun yðar þar með lokið. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fengnum svörum dómsmála­ráðuneytisins getið þér leitað til mín að nýju og mun ég þá taka afstöðu til þess hvort umkvörtunarefni yðar falli innan starfssviðs míns eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið með lögum um samband ríkis og þjóð­kirkjunnar eftir að lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis voru sett. Hef ég þá í huga að starfssvið umboðsmanns tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.