Skattar og gjöld. Barnabætur. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 2785/1999)

Umboðsmaður tók til athugunar að eigin frumkvæði hvort skattframkvæmd er lyti að skiptingu barnabóta milli hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist væri í samræmi við lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hafði umboðsmaður orðið þess var að leiðbeiningar á vefsíðu ríkisskattstjóra bæru með sér að fyrirmælum um skiptingu barnabóta í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 væri ekki fylgt í þeim tilvikum þegar skilyrði svonefndrar hjónasköttunar skv. 63. gr. laganna væru aðeins uppfyllt hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu, slita á samvistum eða andláts maka.

Í bréfi sem umboðsmaður ritaði ríkisskattstjóra af þessu tilefni kom fram að í 1. mgr. A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 væri kveðið á um að barnabætur greiddust framfæranda barns, en samkvæmt ákvæðinu væri framfærandi sá aðili sem hefði barn hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuárs. Samkvæmt 4. málslið ákvæðisins skyldu hjón, sem væru skattlögð skv. 63. gr. laganna, bæði teljast framfærendur og barnabætur skiptast milli þeirra til helminga. Hið sama gilti um sambúðarfólk sem uppfyllti í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr. laganna, enda þótt það óskaði ekki eftir því að vera skattlagt samkvæmt téðri lagagrein. Að því er snerti einstaklinga í staðfestri samvist kæmi fram í 4. mgr. 63. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 137/1996, að einstaklingar í staðfestri samvist skyldu telja fram og vera skattlagðir sem hjón. Umboðsmaður benti á að í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 væri sérregla um skiptinga barnabóta í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar skv. 63. gr. laganna væru aðeins uppfyllt hluta úr ári, en þar segði að barnabætur skv. A-lið 69. gr. skyldu skiptast milli þeirra aðila sem um ræddi í 1. mgr. 64. gr. og miðast við tímabil framfærsluskyldu. Að því búnu rakti umboðsmaður nokkra úrskurði ríkisskattanefndar um skýringu á ofangreindu ákvæði og óskaði eftir afstöðu ríkisskattstjóra til gildis þeirrar reglu, sem fram kæmi í úrskurðunum, um skiptingu barnabóta vegna breytinga á sifjaréttarlegri stöðu.

Í svari ríkisskattstjóra kom fram að eftir að gerðar hefðu verið breytingar á reglum um barnabætur með lögum nr. 65/1997 hefðu áðurnefndir úrskurðir ríkisskattanefndar ekki lengur fordæmisgildi við túlkun umræddra reglna. Þá kom fram að ákvæði 3. mgr. 64. gr. og A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 væru ósamrýmanleg í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar skv. 63. gr. sömu laga væru aðeins uppfyllt hluta úr ári. Taldi ríkisskattstjóri að við setningu laga nr. 65/1997 hefði láðst að breyta 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 til samræmis við þær breytingar sem að öðru leyti hefðu verið gerðar á ákvæðum um barnabætur í síðarnefndu lögunum. Skattyfirvöld hefðu litið svo á að síðastnefnt ákvæði ætti ekki lengur við þar sem það væri ekki lengur samþýðanlegt núgildandi ákvæðum A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981.

Í áliti sínu tók umboðsmaður fram að ríkisskattstjóri hefði staðfest að núverandi skattframkvæmd væri rétt lýst í leiðbeiningum á vefsíðu embættisins. Þá væri afstaða ríkisskattstjóra sú að með lögum nr. 65/1997 hefði í reynd verði afnumin sú sérregla um skiptingu barnabóta sem fram kæmi í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981. Aftur á móti hefði láðst að fella niður umrætt ákvæði til samræmis við þær breytingar sem hefðu að öðru leyti verið gerðar á reglum um barnabætur í síðastnefndum lögum. Umboðsmaður benti á að fyrir Alþingi lægi nú frumvarp fjármálaráðherra þar sem lagt væri til að ákvæði 3. mgr. 64. gr. yrði fellt brott og að í athugasemdum með frumvarpinu væri vísað til þess að við setningu laga nr. 65/1997 hefði láðst að fella ákvæðið niður. Samkvæmt því myndi löggjafinn fyrirsjáanlega taka afstöðu til þess innan tíðar hvort fella bæri ákvæðið brott úr lögum og þar með hvernig reglum um skiptingu barnabóta verði háttað þegar breyting verði á hjúskapar- eða sambúðarháttum framfærenda innan þess árs sem barnabætur væru greiddar vegna. Væri og ljóst að afdrif umræddrar lagabreytingartillögu kynnu að öðru leyti að hafa þýðingu við úrlausn á því lögfræðilega álitaefni hvort núverandi skattframkvæmd yrði að óbreyttu talin standast lög. Af þessum sökum taldi umboðsmaður að svo stöddu ekki rétt að fjalla frekar um framangreint álitaefni né afstöðu ríkisskattstjóra til þess. Þar sem sú afstaða fæli á hinn bóginn í sér að ósamræmi væri í skráðum lögum vegna mistaka við lagasetningu væri brýnt að slíku ósamræmi yrði eytt og þar með réttaróvissu sem það hefði í för með sér.

I.

Á grundvelli heimildar í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ákvað ég að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort skattframkvæmd er snýr að skiptingu barnabóta milli hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist væri í samræmi við gildandi lög um það efni.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 5. desember 2000.

II.

Í tilefni af ofangreindri athugun minni ritaði ég ríkisskattstjóra bréf hinn 6. júlí 1999. Í bréfinu reifaði ég ákvæði um barnabætur í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og gat þess að í 3. mgr. 64. gr. þeirra laga væri sérregla um skiptingu barnabóta í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar samkvæmt 63. gr. sömu laga, þ.e. svonefndrar hjónasköttunar, væru aðeins uppfyllt hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu, slita á samvistum eða andláts maka. Tilvitnuð sérregla mælti fyrir um að barnabætur samkvæmt A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981 skyldu skiptast milli þeirra aðila sem um ræddi í 1. mgr. 64. gr. laganna, þ.e. skattaðila sem uppfylltu skilyrði 63. gr. aðeins hluta úr ári, „og miðast við tímabil framfærsluskyldu“, eins og þar segir. Þá gerði ég grein fyrir úrskurðum ríkisskattanefndar sem gengið hefðu um skýringu á ofangreindu ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981. Vísaði ég að svo búnu til þess að á vefsíðu ríkisskattstjóraembættisins (www.rsk.is), þar sem væri að finna upplýsingar um greiðslu barnabóta á árinu 1999, kæmi fram að við ákvörðun barnabóta umrætt ár væri miðað við fjölskyldustöðu eins og hún væri í þjóðskrá Hagstofu Íslands 31. desember 1998 og að breytingar sem hefðu átt sér stað innan ársins 1998 hefðu ekki áhrif. Væri tekið fram að sá sem hefði barnið hjá sér í árslok 1998 fengi barnabæturnar og skipti þá ekki máli hvort barnið hefði verið á framfæri hans allt árið eða hluta úr ári. Í niðurlagi bréfs míns til ríkisskattstjóra sagði svo:

„Af ofangreindu tilefni er þess óskað, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ríkisskattstjóri geri grein fyrir þeim reglum sem fylgt er um skiptingu barnabóta milli hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar samkvæmt 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru aðeins uppfyllt hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu eða slita á samvistum. Í ljósi þeirra upplýsinga um skiptingu barnabóta, sem fram koma á vefsíðu ríkisskattstjóraembættisins og að framan eru raktar, er þess sérstaklega óskað að ríkisskattstjóri geri grein fyrir hvort sú regla um skiptingu barnabóta í tilefni breytinga á sifjaréttarlegri stöðu, sem fram kemur í fyrrgreindum úrskurðum ríkisskattanefndar [...], sé nú ekki talin gilda. Sé það skoðun ríkisskattstjóra að sú niðurstaða um skiptingu barnabóta, sem uppi er á teningnum í umræddum úrskurðum, heyri sögunni til vegna lagabreytinga eða af öðrum ástæðum óska ég eftir rökstuðningi ríkisskattstjóra fyrir þeirri afstöðu, m.a. með tilliti til ákvæðis 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 sem áður er getið og liggur niðurstöðu ríkisskattanefndar í áðurgreindum úrskurðum til grundvallar.“

Með bréfum til ríkisskattstjóra, dags. 17. september, 21. október, 19. nóvember og 21. desember 1999, ítrekaði ég framangreind tilmæli mín. Svarbréf ríkisskattstjóra, dags. 27. janúar 2000, barst mér 28. janúar s.á. Þar segir m.a. svo:

„Það skal tekið fram að sú umfjöllun á vefsíðu ríkisskattstjóra sem þér vísið til varðandi ákvörðun barnabóta er rétt lýsing á núverandi skattframkvæmd og það skal og tekið fram að ríkisskattstjóri lítur svo á að þeir úrskurðir ríkisskattanefndar sem þér vísið til geti eigi verið fordæmi við skýringu á gildandi ákvæði A-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem þeir eiga við um bætur sem ekki eru lengur til í lögum. Þetta álit embættisins og framangreind framkvæmd gefur tilefni til útskýringa eins og farið er fram á í bréfi yðar og þykir af því tilefni rétt að rifja upp sögu bóta tengdum börnum í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem sú réttarþróun sem átt hefur sér stað skýrir að mati ríkisskattstjóra gildandi framkvæmd.

Það má segja að vísir að barnabótum hafi komið í lög með lögum nr. 10/1974, um skattkerfisbreytingu, þar sem m.a. var breytt ákvæðum þágildandi laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Með 4. gr. þessara laga var sett inn í 25. gr. laganna nr. 68/1971 ákvæði um skattafslátt til handa foreldrum barna sem eigi voru orðin 16 ára í byrjun álagningarárs. Tekið var fram að ef skattafsláttur þessi væri hærri en sem næmi álögðum skatti þá kæmu eftirstöðvar hans til útborgunar. Þessi útborgunarregla fól það í reynd í sér að hér var í reynd um að ræða bætur fremur en hreinan skattafslátt.

Í lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, voru síðan í 69. gr. ákvæði um barnabætur. Samkvæmt þessu ákvæði skyldi greiða barnabætur með börnum sem væru innan 16 ára aldurs á tekjuárinu. Barnabætur þessar skyldu greiddar til framfæranda barnsins, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Tekið var fram í 1. mgr. að barnabætur greiddust ekki á fæðingarári barns en greiddust aftur á móti til loka þess árs þegar barn næði 16 ára aldri. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar taldist framfærandi barns vera sá aðili sem hefði barnið hjá sér og annaðist framfærslu þess. Ekki var í því sambandi vísað til loka tekjuárs. Barnabætur voru óháðar tekjum og miðaði fjárhæð þeirra við fjölda barna og aldur þeirra.

Ákvæði núgildandi 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kom fyrst í lög með framangreindum lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. (En lög nr. 75/1981 er endurútgáfa laganna nr. 40/1978, þar sem felldar voru inn í meginmál þeirra þær breytingar sem orðið höfðu á lögunum).

Á árinu 1984 verður ákveðin grundvallarbreyting á bótum til barnafólks. Þá voru sett lög nr. 128/1984, um sérstakan barnabótaauka. Barnabótaauki var nokkuð annars eðlis en barnabæturnar, því þar var um tekju- og eignatengdar bætur að ræða. Bæturnar voru sem sagt föst fjárhæð sem var látin skerðast í hlutfalli við tekjur og eignir bótaþega. Bæturnar skyldu greiddar á árinu 1985 vegna barna sem voru innan 16 ára aldurs á árinu 1984. Í 2. gr. laga þessara var talað um bætur vegna barna á framfæri, en ekki var sérstaklega rætt um ákveðinn tímapunkt í því sambandi. Lög þessi voru tímabundin en sams konar lög voru sett árið á eftir þ.e. lög nr. [112/1985], um sérstakan barnabótaauka. Ákvæði þessara laga nr. 112/1985 voru síðan árið eftir felld inn í ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var það gert með 6. gr. laga nr. 72/1986, þar sem við lögin nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var bætt nýju ákvæði 69. gr. A. Þannig voru í 69. gr. ákvæði um barnabætur og í 69. gr. A ákvæði um barnabótaauka.

Í tengslum við þá skattkerfisbreytingu sem varð við lögtöku staðgreiðslukerfis skatta á árinu 1987 var með 9. gr. laga nr. 92/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, gerð breyting á 69. gr. síðarnefndu laganna. Þannig voru ákvæðin um barnabætur í staflið A í 69. gr. undir fyrirsögninni Barnabætur og ákvæðin um barnabótaauka í staflið B undir fyrirsögninni barnabótaauki. Það er með þessum lögum sem verður önnur af tveimur meginbreytingum á löggjöf sem hvað mesta þýðingu hefur við skýringu á núverandi réttarframkvæmd. Í ákvæðinu um barnabótaauka (B-lið 69. gr.) var það nýmæli að framfærandi taldist vera sá sem barnið hafði hjá sér og annaðist framfærslu þess í lok tekjuársins. Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að benda á að með 4. gr. framangreindra laga nr. 92/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var gerð sú breyting á 3. mgr. 64. gr. að ákvæðið var látið vísa til A-liðar 69. gr., þ.e. ákvæðisins um barnabætur, en aftur á móti vísaði það ekki til barnabótaaukans, enda regla 3. mgr. 64. gr. ekki vel samþýðanleg reglunum sem nú giltu um barnabótaauka. Fyrir utan þann grundvallarmun á bótunum sem felst í tekju- [og] eignatengingu barnabótaaukans, má og benda á að barnabætur voru í reynd samtímagreiðsla, þannig að byrjað var að borga þær strax frá fyrsta ársfjórðungi eftir fæðingu barns. Barnabótaauki var aftur á móti aldrei greiddur á fæðingarári heldur fyrst á árinu á eftir og þá til þess eða þeirra sem voru framfærendur í lok tekjuárs. Þannig ef barn fæddist í janúar kom ekki til greiðslu barnabótaauka fyrr en næsta ári á eftir og þá til framfæranda í lok tekjuárs. Á móti var barnabótaauki greiddur fyrir það ár sem barn varð 16 ára á og þannig má segja að heildartímabil greiðslu hafi verið það sama fyrir öll börn. Þetta endurspeglar þær nokkuð ólíku reglur sem giltu um barnabætur annars vegar og barnabótaauka hins vegar.

Hin meginbreytingin sem hér skiptir máli verður síðan með lögum nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Breytingin fólst í því að hinar ótekjutengdu barnabætur voru aflagðar. Aftur á móti héldu ákvæðin um barnabótaauka gildi sínu og voru þær bætur hækkaðar nokkuð með hliðsjón af því að ákvæðið um barnabætur var fellt niður. Eðli máls samkvæmt þótti órökrétt að halda áfram að nota heitið barnabótaauki þar sem ákvæðin um barnabætur voru felld brott. Nafni barnabótaaukans var því breytt í barnabætur og ákvæði 69. gr. breytt þannig að í A-lið var kveðið á um hinar nýju barnabætur og í B-lið um vaxtabætur sem áður höfðu verið í C-lið ákvæðisins. Við þessa lagabreytingu láðist aftur á móti að breyta 3. mgr. 64. gr. laganna til samræmis, en það ákvæði hafði, eins og áður greinir, aldrei gilt um barnabótaaukann og verður ekki séð að neinar breytingar að því leyti hafi verið ráðgerðar af hálfu löggjafans við setningu framangreindra laga.

Hér að framan hafa verið raktar forsendurnar fyrir gildandi framkvæmd. Það má segja að skattyfirvöld líti svo á að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi ekki lengur við, þar sem það sé ekki samþýðanlegt ákvæði núgildandi [...] A-liðar 69. gr. laganna. Mun ríkisskattstjóri benda fjármálaráðuneytinu á þetta og fara þess á leit að hlutast verði til um lagabreytingar að þessu leyti.“

III.

1.

Um barnabætur er fjallað í A-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. þessa stafliðar 69. gr. greiðast barnabætur framfæranda barns. Framfærandi telst samkvæmt ákvæðinu sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Tekið er fram að sá er greiði meðlag með barni teljist ekki framfærandi í þessu sambandi. Samkvæmt 4. málslið ákvæðisins skulu hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 63. gr. laganna, bæði teljast framfærendur og skiptast barnabætur milli þeirra til helminga. Hið sama gildir um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 63. gr., enda þótt það óski ekki að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Í tilvitnaðri 63. gr. laga nr. 75/1981 eru sérstök ákvæði um skattlagningu hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist. Að því er þá síðastnefndu varðar kemur fram í 4. mgr. þessarar greinar laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 137/1996, um breyting á þeim, að einstaklingar í staðfestri samvist skuli telja fram og vera skattlagðir eins og hjón.

Í 64. gr. laga nr. 75/1981 eru sérstakar reglur um skattskil í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar samkvæmt 63. gr. laganna eru aðeins uppfyllt hluta úr ári, t.d. vegna stofnunar eða slita hjúskapar á árinu, slita á samvistum eða andláts maka. Í 3. mgr. 64. gr. laganna er sérregla um skiptingu barnabóta í slíkum tilvikum. Ákvæði fyrri málsliðar 3. mgr. 64. gr. er svohljóðandi, sbr. 4. gr. laga nr. 92/1987:

„Barnabætur skv. 69. gr. A skulu skiptast milli þeirra aðila sem um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar og miðast við tímabil framfærsluskyldu.“

Um skýringu á ofangreindu ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 liggja fyrir nokkrir úrskurðir ríkisskattanefndar, sem birtir hafa verið. Má í því sambandi benda á úrskurð nr. 175 frá árinu 1983, sem birtur er á bls. 88-89 í úrskurðasafni ríkisskattanefndar fyrir árin 1983, 1984 og 1985, sem út kom árið 1986. Í máli þessu var fjallað um ákvörðun barnabóta til aðila sem gengið hafði í hjúskap hinn 18. desember 1981. Í forsendum úrskurðar ríkisskattanefndar segir m.a. svo, sbr. bls. 89 í úrskurðasafninu:

„Eigi ræðst það af uppgjörsaðferðum 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 hversu barnabótum samkvæmt 69. gr. laganna skuli skipt, þegar þær breytingar verða á sifjaréttarlegri stöðu, sem um getur í fyrrnefndu lagagreininni, en samkvæmt henni skal miðað við tímabil framfærsluskyldu. Kærandi var framfærsluskyld til giftingardags þann 18. desember 1981 vegna barns þess, sem í málinu greinir, sem eigi var barn eiginmanns, og verður eigi séð að til framfærsluskyldu eiginmanns hafi komið, fyrr en þá. Eigi verður séð, að þau skilyrði hafi verið uppfyllt, sem greinir í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, þannig að barnabótum verði skipt frá og með fyrra tímamarki en giftingardegi, sbr. 5. mgr. 69. gr. sömu laga. Bera kæranda því barnabætur með téðu barni að öllu leyti til giftingardags. Þá þykir bera að ákvarða kæranda barnabætur fyrir þetta tímabil sem einstæðu foreldri, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna, enda er ekkert fyrirliggjandi um að um aðrar aðstæður hafi verið að ræða fyrir það tímamark. Barnabætur frá giftingardegi og til ársloka 1981 skiptast til helminga milli kæranda og eiginmanns, sbr. 5. mgr. 69. gr. og fjárhæð ákveðst eftir reglum 2. ml. 1. mgr. greinar þessarar.“

Auk ofangreinds úrskurðar má hér benda á úrskurð ríkisskattanefndar nr. 163 frá árinu 1981, sem birtur er á bls. 58-60 í úrskurðasafni nefndarinnar fyrir árin 1981 og 1982, sem út kom árið 1984, en sá úrskurður varðaði hliðstætt ákvæði í eldri lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 40/1978.

Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra með skattframtali einstaklinga árið 1999 (eyðublað RSK 8.01) er m.a. fjallað um útreikning barnabóta á bls. 39. Um ákvörðun barnabóta kemur eftirfarandi fram í leiðbeiningunum:

„Við ákvörðun barnabóta 1999 er miðað við fjölskyldustöðu eins og hún er í Þjóðskrá 31. desember 1998 en breytingar sem hafa átt sér stað innan ársins 1998 hafa ekki áhrif. Þannig fær sá sem hefur barnið hjá sér í árslok 1998 barnabæturnar og skiptir þá ekki máli hvort barnið hafi verið á framfæri hans allt árið eða hluta úr ári.”

Eins og rakið er í kafla II í áliti þessu óskaði ég eftir því við ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 6. júlí 1999, í tilefni af sambærilegum leiðbeiningum og að framan greinir á vefsíðu ríkisskattstjóraembættisins (www.rsk.is), að ríkisskattstjóri gerði grein fyrir því hvort sú regla um skiptingu barnabóta vegna breytinga á sifjaréttarlegri stöðu, sem fram kemur í áðurgreindum úrskurðum ríkisskattanefndar frá árunum 1981 og 1983, væri nú ekki talin gilda. Tók ég fram að væri það skoðun ríkisskattstjóra að umrædd regla heyrði sögunni til vegna lagabreytinga eða af öðrum ástæðum óskaði ég eftir rökstuðningi ríkisskattstjóra fyrir þeirri afstöðu, m.a. með tilliti til ákvæðis 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 sem áður er getið og liggur niðurstöðu ríkisskattanefndar í áðurgreindum úrskurðum til grundvallar. Í svarbréfi ríkisskattstjóra til mín, dags. 27. janúar 2000, er lýst þeirri skoðun ríkisskattstjóra að eftir breytingar á reglum um barnabætur með lögum nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, hafi margnefndir ríkisskattanefndarúrskurðir ekki lengur fordæmisgildi við túlkun þeirra reglna. Telur ríkisskattstjóri að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 og ákvæði núgildandi A-liðar 69. gr. sömu laga séu ósamrýmanleg í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar samkvæmt 63. gr. laganna eru aðeins uppfyllt hluta úr ári, svo sem nánar er rökstutt í bréfi ríkisskattstjóra til mín. Þá kemur fram í bréfi ríkisskattstjóra að við setningu umræddra laga nr. 65/1997 hafi láðst að breyta 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 til samræmis við þær breytingar sem að öðru leyti voru gerðar á barnabótaákvæðum hinna síðarnefndu laga með lögum nr. 65/1997. Þá segir svo í niðurlagi bréfs ríkisskattstjóra:

„Hér að framan hafa verið raktar forsendurnar fyrir gildandi framkvæmd. Það má segja að skattyfirvöld líti svo á að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi ekki lengur við, þar sem það sé ekki samþýðanlegt ákvæði núgildandi [...] A-liðar 69. gr. laganna. Mun ríkisskattstjóri benda fjármálaráðuneytinu á þetta og fara þess á leit að hlutast verði til um lagabreytingar að þessu leyti.“

Hinn 16. nóvember sl. lagði fjármálaráðherra fram á Alþingi á þingskjali 292 frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. 264. mál á 126. löggjafarþingi 2000-2001. Í 8. gr. þessa frumvarps er gerð tillaga um að fella brott 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins segir eftirfarandi:

„Hér er lagt til að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laganna verði fellt brott. Ástæðan er sú að ákvæðið stangast á við 1. mgr. A-liðar 69. gr. laganna um barnabætur.

Með lögum nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru barnabætur aflagðar. Jafnframt var heiti barnabótaauka breytt í barnabætur. Við þessar lagabreytingar láðist að fella brott 3. mgr. 64. gr. laganna, sem vísar til barnabóta í því kerfi sem var við lýði fyrir gildistöku laga nr. 65/1997, þ.e. annars vegar ótekjutengdar barnabætur og hins vegar tekju- og eignatengdur barnabótaauki er greiddist þeim sem skráður var framfærandi í árslok.“

2.

Tilefni þess að ég ákvað að taka til athugunar að eigin frumkvæði skattframkvæmd er snýr að skiptingu barnabóta milli hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist var að fyrirliggjandi leiðbeiningar á vefsíðu ríkisskattstjóraembættisins báru með sér að annarri reglu væri fylgt um skiptingu barnabóta í þeim tilvikum þegar skilyrði skattlagningar samkvæmt 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru aðeins uppfyllt hluta úr ári, en reglu þeirri sem fram kemur í ákvæði 3. mgr. 64. gr. sömu laga. Þar er kveðið á um að barnabótum skuli í slíkum tilvikum skipta milli aðila og miðast við tímabil framfærsluskyldu. Ríkisskattstjóri hefur nú staðfest að með téðum leiðbeiningum embættisins sé núverandi skattframkvæmd rétt lýst og er afstaða ríkisskattstjóra sú að með lögum nr. 65/1997, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þar sem lagareglur um barnabætur voru að öllu verulegu leyti færðar til þess horfs sem áður gilti um svokallaðan barnabótaauka, hafi í reynd verið afnumin sú sérregla um skiptingu barnabóta sem fram kemur í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981. Aftur á móti hafi láðst að fella síðastnefnt ákvæði brott til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru að öðru leyti á barnabótareglunum með nefndum lögum nr. 65/1997. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp fjármálaráðherra til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem lagt er til að ákvæði 3. mgr. 64. gr. laganna verði fellt brott og er vísað til þess í athugasemdum með frumvarpinu að við setningu laga nr. 65/1997 hafi láðst að fella ákvæðið niður.

Samkvæmt framansögðu mun löggjafinn fyrirsjáanlega taka afstöðu til þess innan tíðar hvort fella beri brott úr lögum þá sérreglu um skiptingu barnabóta milli hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist sem greinir í 3. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og þar með hvernig lagareglum um skiptingu barnabóta verður háttað þegar breyting verður á hjúskapar- eða sambúðarháttum framfærenda innan þess árs sem sem barnabætur eru greiddar vegna. Er og ljóst að afdrif umræddrar lagabreytingartillögu fyrir Alþingi kunna að öðru leyti að hafa þýðingu við úrlausn á því lögfræðilega álitaefni hvort núverandi skattframkvæmd um þetta efni verður að óbreyttu talin standast lög. Af þessum sökum tel ég að svo stöddu ekki rétt að fjalla frekar um framangreint álitaefni né þá afstöðu ríkisskattstjóra til þess sem fyrr greinir. Þar sem sú afstaða felur á hinn bóginn í sér að ósamræmi sé í skráðum lögum um þetta efni vegna mistaka við lagasetningu er þó ástæða til að taka fram að brýnt er að slíku ósamræmi sé eytt og þar með þeirri réttaróvissu sem það óhjákvæmilega hefur í för með sér. Á það sérstaklega við þegar um er að ræða lagareglur á borð við þær sem hér um ræðir, þ.e. reglur um barnabætur sem taka með almennum hætti til mikils fjölda manna. Tel ég ástæðu til að vekja athygli Alþingis á því áliti mínu, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

IV.

Í samræmi við framanritað tel ég brýnt að því ósamræmi í lögum, sem lýst er í bréfi ríkisskattstjóra til mín frá 27. janúar 2000 og varðar barnabótareglur laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, verði eytt. Er athygli Alþingis vakin á því áliti mínu, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Að öðru leyti tel ég að svo stöddu ekki tilefni til efnislegrar umfjöllunar af minni hálfu um hvort skattframkvæmd er snýr að skiptingu barnabóta milli hjóna, sambýlisfólks og einstaklinga í staðfestri samvist sé í samræmi við gildandi lög um það efni.

V.

Með 10. gr. laga nr. 149/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum var 3. mgr. 64. gr. laganna felld brott.