Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 9966/2018)

A kvartaði yfir töfum á meðferð kærumáls í kjölfar endurupptöku á úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem ráðuneytið staðfesti ákvarðanir Samgöngustofu um að A og fleiri ættu ekki rétt til bóta vegna seinkunar á flugi.

Við eftirgrennslan umboðsmanns kom í ljós að málið var til meðferðar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og fyrirhugað að ljúka því innan skamms. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. mars 2019, sem hljóðar svo:

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín sem barst mér 25. janúar sl. og lýtur að töfum á meðferð kærumáls yðar og umbjóðenda yðar í kjölfar endur­upptöku á úrskurði innanríkisráðuneytisins frá 20. desember 2016 þar sem ráðuneytið staðfesti ákvarðanir Samgöngustofu um að þér og fleiri ættuð ekki rétt til bóta vegna seinkunar á flugi.

Í tilefni af kvörtun yðar var samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðuneytinu ritað bréf, dags. 28. janúar sl., þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Erindið var ítrekað með bréfi, dags. 19. febrúar sl.

Mér hefur nú borist bréf samgöngu- og sveitarstjórnar­ráðuneytisins, dags. 1. mars sl., ásamt afriti af bréfi þess til yðar, dagsett sama dag, þar sem upplýst er um ástæður þess að uppkvaðning úrskurðar hefur tafist og að stefnt sé að því að ljúka málinu ekki síðar en 15. mars nk. 

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á meðferð málsins og ráðuneytið hefur upplýst yður um fyrirætlanir um að ljúka því í næstu viku tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna hennar. Ég tek þó fram að ef framangreindar áætlanir ráðuneytisins ganga ekki eftir getið þér leitað til mín að nýju. 

Með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég þar með athugun minni á málinu.