Húsnæðismál. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9990/2018)

A kvartaði yfir því að Íbúðalánasjóður krefðist sérstaks uppgreiðslugjalds á láni ef A ákvæði að greiða lánið upp að fullu.

Umboðsmaður benti A á að unnt væri að skjóta ákvörðunum Íbúðalánasjóðs ýmist til úrskurðarnefndar velferðarmála eða úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þar sem kæruleið væri ekki tæmd væri ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. mars 2019, sem hljóðar svo:

     

I

Ég vísa til erindis yðar frá 22. febrúar sl. þar sem þér kvartið yfir því að Íbúðalánasjóður krefjist sérstaks uppgreiðslugjalds á láni yðar ef þér ákvæðuð að greiða upp lánið að fullu. Samkvæmt yfirliti um lánið, dagsett 25. febrúar sl., var það tekið árið 2008, vextir eru 5,05%, eftirstöðvarnar liðlega 21,9 millj. kr. og „uppgreiðslu­þóknun“ rúmlega 2,2 millj. kr.

 

II

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðs­manns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórn­völd skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsan­lega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til með­ferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.

Íbúðalánasjóður starfar á grundvelli laga um húsnæðismál nr. 44/1998. Árið 2004 bættist ný málsgrein við 23. grein laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 120/2004, sem kveður á um að ráðherra geti

„...heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð, í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma, að bjóða skuldurum ÍLS- veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða án þóknunar upp lán eða greiða aukaafborganir, gegn lægra vaxtaálagi. Jafnframt skal í reglugerðinni kveðið á um hlutfall þóknunar sem Íbúða­lánasjóður getur áskilið sér ef lántaki, sem afsalar sér umræddum rétti, hyggst greiða upp lán fyrir lok lánstíma. Slík þóknun skal aldrei nema hærri fjárhæð en nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns.“

Í 13. gr. reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf nr. 970/2016 eru ákvæði um aukaafborganir og uppgreiðslu og þar segir í 1. og 2. mgr.:

„Skuldurum ÍLS-veðbréfa er heimilt að greiða auka­af­borganir af skuldabréfum sínum eða endur­greiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ráðherra heimilt, við sér­stakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalána­sjóðs, að ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa verði aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðs­kjörum sambærilegs íbúðabréfs. Geta skal um þessa heimild í skil­málum ÍLS-veðbréfa en um beitingu hennar gilda ákvæði reglu­gerðar um áhættustýringu Íbúðalánasjóðs.“

Fyrir gildistöku reglugerðar nr. 970/2006 voru samhljóða ákvæði í eldri reglugerð, nr. 522/2004. Nánari útfærslu á útreikningi upp­greiðslu­þóknunarinnar er að finna í 7. gr. reglugerðar um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs nr. 1016/2005, sem byggir á heimild í 49. og 50. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 með síðari breytingum, en þar segir:

„Þóknun vegna uppgreiðslu lána og aukaafborgana reiknast af mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og markaðsvaxta sam­bærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá upp­greiðslu­degi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að Íbúðalánasjóði er heimilt að krefja skuldara um þóknun við uppgreiðslu láns að vissum skilyrðum upp­fylltum og að upplýsingar þar um eiga að koma fram á tilheyrandi veð­bréfi. Kvörtun yðar fylgdi yfirlit um lán yðar þar sem kemur fram almennur fyrirvari um að upplýsingar kunni að vera rangar og að þær séu breytingum háðar. Af henni verður hins vegar ekki ráðið hvort fyrir liggi formleg afstaða Íbúðalánasjóðs í máli yðar. Í því sambandi tek ég fram að ekki verður litið svo á að tilgreining upp­greiðslu­þóknunar á lánayfirliti feli ein og sér í sér ákvörðun Íbúðalánasjóðs þar um í skilningi 2. mgr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Liggi afstaða Íbúðalánasjóðs ekki fyrir með formlegri hætti en í fyrrnefndu yfirliti bendi ég yður á, ef þér teljið tilefni til, að beina til hans skriflegu erindi með ósk um skriflegt svar, s.s. um niðurfellingu upp­greiðslu­þóknunarinnar. Jafnframt bendi ég á að samkvæmt 42. gr. laga nr. 44/1998 er unnt að skjóta ákvörðun Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Það á þó ekki við ef ágreiningurinn heyrir undir úr­skurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum um fasteignalán til neytenda eða lögum um neytendalán, sbr. 64. gr. laga nr. 119/2016, um fasteignalán til neytenda. Til frekari upplýsingar skal þess getið að úrskurðarnefnd velferðarmála hefur tekið mál sem varða uppgreiðsluþóknun til umfjöllunar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 117/2017, þar sem nefndin staðfesti synjun Íbúðalánasjóðs á beiðni kæranda um niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar. Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hefur hins vegar einnig fjallað um slík mál, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 5/2018, þar sem nefndin hafnaði kröfu um niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar hjá lántaka sem yfirtók fasteignalán og taldi sig ekki hafa verið réttilega upplýstan um ákvæði í veðbréfi.

Með tilliti til framangreindra lagaákvæða og þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég að ekki séu skil­yrði til að fjalla um kvörtun yðar að svo stöddu. Þér getið aftur á móti, að fenginni formlegri ákvörðun Íbúðalánasjóðs, freistað þess að fá hana endurskoðaða hjá úrskurðarnefnd velferðarmála eða eftir atvikum úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Tekið skal fram að einstaklingur sem leitar til síðarnefndu úrskurðarnefndarinnar þarf að greiða málskotsgjald, kr. 5000, en það fæst endurgreitt verði krafa tekin til greina að hluta eða öllu leyti. 

Ég tek fram að með þessum ábendingum hef ég enga afstöðu tekið til þess hvernig viðkomandi úrskurðarnefnd bæri að afgreiða erindi yðar. Enn fremur bendi ég á að fari svo að þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðanefndar velferðarmála getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

   

III

Í ljósi framangreinds eru ekki skilyrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Lýkur þar með athugun minni á máli þessu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.