A kvartaði yfir því því hvernig staðið var að ráðningu í stöðu frétta- og dagskrárgerðarmanns hjá Ríkisútvarpinu ohf. á Akureyri.
Umboðsmaður benti á að ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag og starfaði því á sviði einkaréttar þótt það væri að öllu leyti í eigu ríkisins. Þar sem kvörtunin sneri að einkaréttarlegum aðila félli það utan starfssviðs umboðsmanns.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. mars 2019, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar til mín 28. febrúar sl. yfir því hvernig staðið var að ráðningu í stöðu frétta- og dagskrárgerðarmanns hjá Ríkisútvarpinu ohf. á Akureyri. Þér teljið að Ríkisútvarpið ohf. hafi ekki fylgt stjórnsýslulögum í ráðningarferlinu m.a. með því að hygla umsækjendum búsettum á Akureyri og í nágrenni á kostnað umsækjenda búsettum annars staðar á landinu þegar boðað var til prófs með stuttum fyrirvara.
Vegna kvörtunar yðar tek ég fram að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfsvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Alþingi hefur sett sérstök lög um Ríkisútvarpið, lög nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að Ríkisútvarpið ohf. sé „sjálfstætt opinbert hlutafélag“ í eigu íslenska ríkisins. Í 1. mgr. 18. gr. laganna er kveðið á um að að öðru leyti en fram komi í lögunum gildi um Ríkisútvarpið ohf. „lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum“, auk laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Af þessu er ljóst að Ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag. Félagið starfar því á sviði einkaréttar þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkisins, sbr. ákvæði fyrri málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013. Í ljósi þess að kvörtun yðar snýr að einkaréttarlegum aðila fellur utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í áðurgreindum ákvæðum laga nr. 85/1997, að fjalla frekar um kvörtunarefni yðar.
Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.