Opinberir starfsmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 9995/2018)

A kvartaði yfir því því hvernig staðið var að ráðningu í stöðu frétta- og dagskrárgerðarmanns hjá Ríkisútvarpinu ohf. á Akureyri.

Umboðsmaður benti á að ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag og starfaði því á sviði einkaréttar þótt það væri að öllu leyti í eigu ríkisins. Þar sem kvörtunin sneri að einkaréttarlegum aðila félli það utan starfssviðs umboðsmanns.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. mars 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín 28. febrúar sl. yfir því hvernig staðið var að ráðningu í stöðu frétta- og dagskrárgerðarmanns hjá Ríkisútvarpinu ohf. á Akureyri. Þér teljið að Ríkisútvarpið ohf. hafi ekki fylgt stjórnsýslulögum í ráðningarferlinu m.a. með því að hygla umsækjendum búsettum á Akureyri og í nágrenni á kostnað umsækjenda búsettum annars staðar á landinu þegar boðað var til prófs með stuttum fyrirvara.

Vegna kvörtunar yðar tek ég fram að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftir­­lit með stjórn­sýslu ríkis og sveitar­félaga og tryggja rétt borgaranna gagn­vart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna nær starfsvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem hafa að lögum fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Alþingi hefur sett sérstök lög um Ríkisútvarpið, lög nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að Ríkisútvarpið ohf. sé „sjálfstætt opinbert hlutafélag“ í eigu íslenska ríkisins. Í 1. mgr. 18. gr. laganna er kveðið á um að að öðru leyti en fram komi í lögunum gildi um Ríkis­útvarpið ohf. „lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum“, auk laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Af þessu er ljóst að Ríkisútvarpið er opinbert hluta­félag. Félagið starfar því á sviði einkaréttar þótt það sé að öllu leyti í eigu ríkisins, sbr. ákvæði fyrri málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013. Í ljósi þess að kvörtun yðar snýr að einkaréttarlegum aðila fellur utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í áður­greindum ákvæðum laga nr. 85/1997, að fjalla frekar um kvörtunarefni yðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um um­boðsmann Alþingis.