Almannatryggingar. Lífeyrismál. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 9996/2018)

A kvartaði yfir ákvörðun Tryggingastofnunar um málsmeðferð og samskiptum sínum við hana vegna mögulegrar skerðingar á ellilífeyri.

Af kvörtuninni mátti ráða að málið væri til meðferðar hjá Tryggingastofnun og að ekki lægi fyrir stjórnvaldsákvörðun stofnunarinnar um ellilífeyrisréttindi A. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín 1. mars sl. sem beinist að Tryggingastofnun vegna mögulegrar skerðingar á ellilífeyri yðar. Í kvörtuninni kemur fram að þér hafið áunnið yður réttindi til elli­lífeyris á Spáni, Þýskalandi og Sviss ásamt Íslandi. Í kvörtuninni kemur fram að Tryggingastofnun hafi óskað eftir upplýsingum um þær greiðslur sem þér munið hljóta frá hinum löndunum þremur. Þegar þér óskuðuð eftir því að vita hvers vegna stofnunin væri að óska eftir ofangreindum upplýsingum fenguð þér óljóst svar þess efnis að Tryggingastofnun hygðist draga greiðslur landanna þriggja frá greiðslum stofnunarinnar til yðar. Þér teljið mismunun felast í slíkri skerðingu m.a. fyrir þær hluta sakir að ef þér hefðuð ekki unnið yður inn réttindi í öðru landi en Íslandi yrði lífeyrir yðar hér á landi óskertur. Þá teljið þér jafnframt að skerðing á ellilífeyrisgreiðslum feli í sér brot á reglugerð Evrópusambandsins nr. 883/2004 sem hefur það að markmiði að tryggja samræmda og samfellda beitingu mismunandi löggjafar aðildarríkjanna á sviði almannatrygginga. Þér eruð einnig ósáttir við hversu mörg ár Tryggingastofnun telur þig hafa haft búsetu hér á landi, en þér teljið búsetu yðar vera 3,1 ári lengur ef miðað er við upplýsingar frá þjóðskrá.

Mælt er fyrir um fjárhæð ellilífeyris í 23. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Af ákvæðinu leiðir að við útreikning ellilífeyris skal litið til þeirra tekna sem tilgreindar eru í 16. gr. laganna. Í 38. gr. laganna kemur fram að Tryggingastofnun skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin og í 39. gr. kemur fram að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Í 41. gr. laganna kemur fram að ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans sé Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt. Ákvörðun um að óska eftir tilteknum gögnum eða upplýsingum til þess að unnt sé að taka ákvörðun í stjórnsýslumáli er liður í rannsókn þess og málsmeðferð. Slík ákvörðun bindur hins vegar ekki enda á málið.

Ástæða þess að ég rek framangreint er að í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er tekið fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í samræmi við þetta er það almennt skilyrði fyrir því að aðili geti kvartað til umboðsmanns að kvörtunin varði tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem beinist að eða hafi að öðru leyti áhrif á hagsmuni þess sem kvartar. Þá er rétt að vekja athygli yðar á því að í 6. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um frekari skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli á grundvelli kvörtunar fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra sett stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar má ráða að hún beinist að ákvörðun Trygginga­stofnunar um málsmeðferð í máli sem er til meðferðar hjá stofnuninni og svari stofnunarinnar við fyrirspurn um forsendur þeirrar ákvörðunar. Hins vegar verður ekki ráðið af kvörtuninni að fyrir liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun Tryggingastofnunar um ellilífeyrisréttindi yðar. Því er ljóst að ofangreind skilyrði laganna er ekki enn uppfyllt. Í ljósi framangreinds eru því ekki skilyrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ég bendi yður hins vegar á að ef til þess kemur að þér sækið um ellilífeyri og fáið tilkynningu um ákvörðun Trygginga­stofnunar er heimilt að kæra hana til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007, um almanna­tryggingar. Ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar getið þér leitað til mín með kvörtun þar að lútandi. Við athugun á slíkri kvörtun gæti eftir atvikum komið til þess að ég tæki afstöðu til þeirra atriða sem þér tilgreinið í kvörtun yðar.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.