A kvartaði yfir innheimtufyrirkomulagi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og var ósáttur við hversu skammur tími er á milli þess að greiðsluseðill birtist í heimabanka og gjalddaga kröfunnar.
Af kvörtuninni varð ekki ráðið að fyrir lægi formleg ákvörðun eða afstaða stjórnar LÍN til málsins og var A bent á að leita eftir henni teldi hann tilefni til. Í kjölfarið gæti hann svo á ný leitað til umboðsmanns teldi hann sig beittan rangsleitni.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. mars 2019, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar til mín 3. mars sl. sem beinist að innheimtufyrirkomulagi Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þér eruð ósáttir við hversu skammur tími er á milli þess að greiðsluseðill birtist í heimabanka og gjalddaga kröfunnar. Þá eruð þér jafnframt ósáttir við að gjalddagi og eindagi kröfunnar sé sá sami en slíkt fyrirkomulag geti haft það í för með sér að þér náið ekki að standa skil á greiðslum. Enn fremur eruð þér ósáttir við að LÍN hafi ekki svarað erindum yðar, dags. 23. og 26. febrúar sl., þar sem þér gerið athugasemdir við innheimtufyrirkomulagið efnislega heldur einungis sent yður með tölvupósti ódagsettan greiðsluseðilinn.
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar stjórn sjóðsins. Fjallað er um hlutverk stjórnar í 5. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. M.a. fer stjórnin með fjármál sjóðsins, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. og er heimilt að fela bankastofnunum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu, sbr. 3. mgr. 5. gr.
Ástæða þess að ég rek framangreind lagaákvæði er að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru sett nánari skilyrði fyrir kvörtun til umboðsmanns. Í 3. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.
Af kvörtuninni verður ekki ráðið að liggi formleg ákvörðun eða afstaða stjórnar LÍN til málsins. Í ljósi þess að athugasemdir yðar beinast að almennum starfsháttum sjóðsins tel ég því rétt, ef þér teljið tilefni til, að þér leitið eftir afstöðu stjórnarinnar til athugasemda yðar áður en þér leitið til mín með kvörtun. Fari svo að stjórn LÍN taki formlega ákvörðun í málinu getið þér eftir atvikum borið hana undir málskotsnefnd LÍN í samræmi við ákvæði 5. gr. a í lögum nr. 21/1992. Að því loknu getið þér leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar.
Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.