Opinberir starfsmenn. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Leiðbeiningarskylda. Rökstuðningur. Andmælaréttur.

(Mál nr. 2784/1999)

A kvartaði yfir ráðningu í opinbert starf hjá ríkisstofnuninni X. Óskaði hann eftir því að umboðsmaður Alþingis athugaði hvort eðlilega hefði verið staðið að veitingu starfsins.

Eftir að hafa kynnt sér þau lagaákvæði og stjórnvaldsfyrirmæli er við áttu komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að engin almenn hæfisskilyrði giltu um starfið önnur en fyrirmæli 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá rakti hann óskráðar meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar er giltu um veitingu opinberra starfa og vísaði þar til eldri álita umboðsmanns Alþingis. Komst hann að þeirri niðurstöðu að þau sjónarmið er forstöðumaður stofnunarinnar lagði til grundvallar hefðu verið til þess fallin að varpa ljósi á hugsanlega frammistöðu umsækjenda í því starfi sem um var að tefla og taldi því ekki ástæðu til athugasemda við beitingu þeirra eða hvernig innbyrðis vægi þeirra var háttað.

Umboðsmaður gerði athugasemd við það að í tilkynningu til A um lyktir málsins hafi ekki verið veittar leiðbeiningar um rétt hans til að fá ákvörðunina rökstudda. Fram kom að rétt hafi verið að líta á ósk C fyrir hönd A um skýringar á ráðningunni sem ósk um rökstuðning samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi stofnunarinnar kom fram að fallist hafi verið á tillögu starfsmanna hennar um að ráða B „enda væri hún hæfari en hinn umsækjandinn“. Féllst umboðsmaður ekki á að í rökstuðningnum hefði verið gerð viðhlítandi grein fyrir þeim meginsjónarmiðum er réðu niðurstöðu um starfshæfni umsækjenda, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi hann að nauðsynlegt hefði verið að gera nokkra grein fyrir helstu atriðum sem skiptu máli varðandi starfshæfni þess sem fékk starfið með hliðsjón af 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því rökstuðninginn ekki fullnægjandi.

Í álitinu kom fram að nauðsynlegt hefði verið að skrá niður þær munnlegu upplýsingar sem aflað var við úrlausn málsins samkvæmt 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, en þess hafði ekki verið gætt. Af þeim skýringum sem umboðsmanni voru veittar mátti ráða að upplýsingar um áfengisvandamál A hafi skipt sköpum við mat á reglusemi, stöðugleika og framkomu hans. Kom þar fram að starfsmaður X hafi átt við hann samtal vegna fyrirhugaðrar ráðningar er staðfesti að hans áliti orðróm um áfengisvandamál hans. A neitaði hins vegar að hafa átt við áfengisvandamál að stríða og kannaðist ekki við að þau mál hafi borið á góma í samtalinu við starfsmanninn. Umboðsmaður rakti ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt aðila máls. Vitnaði hann til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga og dró þá ályktun að almennt bæri handhafa veitingarvalds að gefa umsækjanda um opinbert starf kost á því að kynna sér nýjar upplýsingar, sem stjórnvaldið hefur aflað og umsækjanda er ekki kunnugt um, hafi þær verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og eru honum í óhag. Kom fram að almennt væri ekki talið að stjórnvald yrði skriflega að gefa aðila máls færi á að koma að athugasemdum sínum. Kynni að vera fullnægjandi að slíkt væri gert munnlega. Taldi umboðsmaður að eins og atvikum væri lýst af hálfu stofnunarinnar X hafi A átt að vera ljóst að við ráðningu í starfið yrði byggt á upplýsingum um áfengisvandamál hans. Þar sem ágreiningur væri um þetta atriði taldi umboðsmaður ekki rétt að hann legði á það sérstakt mat hvernig atvikum var háttað að þessu leyti. Af þeim sökum fjallaði hann ekki frekar um það hvort málsmeðferði X hafi samrýmst 13. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til X að það tæki mið af þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu við veitingu opinberra starfa í framtíðinni.