Sjávarútvegsmál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10003/2018)

A kvartaði yfir fyrirhuguðum breytingum á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, sem m.a. heimila Samgöngustofu að leggja á stjórnvaldssektir.

Umboðsmaður benti A á að frumvarpið væri til meðferðar á Alþingi og starfssvið sitt tæki ekki til starfa þess.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. mars 2019, sem hljóðar svo:

  

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 7. mars sl., yfir fyrirhuguðum breytingum á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, sem m.a. heimila Samgöngustofu að leggja á stjórnvaldssektir. Þér teljið að með ofangreindri breytingu sé verið að setja Samgöngustofu í sömu stöðu og Seðlabanka Íslands, þ.e. að stofnunin fái heimild til að setja reglur, rannsaka brot og heimild til að sekta fyrirtæki og borgara fyrir brotin.

Fyrir liggur að umrætt lagafrumvarp (þskj. 193 á 149. löggjafarþingi 2018-2019) er til meðferðar á Alþingi og gekk til umhverfis- og samgöngunefndar 11. október sl. Í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur m.a. fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett eða lagafrumvarp sem eru til meðferðar í þinginu. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvalds­fyrirmælum í störfum sínum. Í lögunum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slíkt atriði, heldur  getur hann að eigin frumkvæði ákveðið að nota þá heimild sem honum er þar veitt. Ef ákveðið er að taka til athugunar mál í tilefni af ábendingu um meinbugi á lögum er viðkomandi einstaklingi ekki tilkynnt um það sérstaklega heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Þar sem starfssvið mitt tekur ekki til starfa Alþingis og þar sem kvörtun yðar beinist að frumvarpi sem er þar til meðferðar eru ekki skilyrði til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar og lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég vil þó taka fram að þér getið freistað þess að koma sjónarmiðum yðar á framfæri við umhverfis- og samgöngunefnd sem hefur málið til meðferðar. Öllum er frjálst að senda nefnd skriflega umsögn um þingmál að eigin frumkvæði. Það er hægt að senda umsagnir og athugasemdir um þingmál á netfangið nefndasvid@althingi.is