Almannatryggingar. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 10004/2018)

A kvartaði yfir synjun Trygginga­stofnunar á umsókn um mæðralaun.

Ekki varð ráðið af kvörtuninni hvort synjun Tryggingastofnunar hefði verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um hana að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. mars 2019, sem hljóðar svo:

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 8. mars sl., yfir synjun Trygginga­stofnunar á umsókn yðar um mæðralaun, dags. 28. febrúar sl. Umsókn yðar var synjað á þeim grundvelli að skilgreining 2. gr. reglugerðar nr. 540/2002, um mæðra- og feðralaun, á einstæðu foreldri næði ekki yfir fósturforeldra. Þér óskið eftir því að fá að vita hvort sömu reglur eigi ekki að gilda um fósturforeldra og einstæða foreldra.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns verður hún að upp­fylla ákveðin lagaskilyrði sem kveðið er á um í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðs­manns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggir á því sjónarmiði að afstaða stjórnvalda til erindis verði að liggja fyrir og stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007, um  almannatryggingar, er kveðið á um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála en kærurétturinn gildir einnig um synjun á grundvelli laga um félagslega aðstoð, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu er heimilt að kæra synjun á umsókn yðar um mæðralaun til úrskurðarnefndar velferðarmála en samkvæmt 2. mgr. 13. gr. almannatryggingalaga skal kæra til úrskurðarnefndarinnar vera skrifleg og berast innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið hvort þér hafið kært synjun Trygginga­stofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Af þeim sökum eru ekki skilyrði til að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að svo stöddu og lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek þó fram að ef þér teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála getið þér leitað til mín að nýju með sér­staka kvörtun þar að lútandi.