A kvartaði yfir misrétti sem A taldi leiða af lagaákvæðum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Umboðsmaður benti A á að starfssvið sitt tæki ekki til starfa Alþingis.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2019, sem hljóðar svo:
Ég vísa til erindis yðar frá 11. mars sl. þar sem þér kvartið yfir misrétti sem þér teljið leiða af lagaákvæðum um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Ég skil erindi yðar svo að það beinist fyrst og fremst að viðmiðunartímabili útreiknings samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, en þar er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna, í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Í kvörtun yðar er vísað til þess að þetta geti leitt til þess að mikill munur geti verið á greiðslum til einstaklinga sem eru með svipuð laun þegar þeir hefja töku fæðingarorlofs.
Starfssvið umboðsmanns, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni Alþingis þó veitt heimild til að kynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri ábendingum um slík atriði, heldur eru slík mál tekin til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Ef ákveðið er að taka til athugunar mál í tilefni af ábendingu um meinbugi á lögum er viðkomandi einstaklingi ekki tilkynnt um það sérstaklega heldur er upplýst um það á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.
Samkvæmt framansögðu lýk ég afskiptum mínum af máli yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþings.