Lífeyrismál. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun.

(Mál nr. 10009/2018)

A kvartaði yfir útreikningi lífeyrisgreiðslna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Af gögnum málsins varð ekki séð að A hefði óskað eftir því við stjórn lífeyrissjóðsins að hún tæki erindið til umfjöllunar. Með vísan til þess yrði ekki séð að skil­yrði væru uppfyllt til þess að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. mars 2019, sem hljóðar svo:

    

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín, dags. 12. mars sl., sem lýtur að útreikningi lífeyrisgreiðslna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í kvörtuninni kemur fram að lífeyrissjóðurinn hafi nýlega upplýst að lífeyris­greiðslur til yðar úr B-deild sjóðsins miðuðust við þau laun yðar, án verðtryggingar, sem síðast var greitt af til sjóðsins en það var árið 1978. Byggðist þetta á að samkvæmt lögum væri forsenda verðtryggð réttar í B-deild að hafa greitt í að minnsta kosti þrjú ár til sjóðsins en í yðar tilfelli hefði verið greitt til hans í 1,793 ár sem þýddi að ekki væri um verðtryggingu réttinda að ræða. 

Af kvörtuninni verður ráðið að þér séuð ósáttar við að við útreikning lífeyrisgreiðslna sé gerður greinarmunur á þeim sjóðsfélögum sem greitt hafa í sjóðinn í þrjú ár eða lengur og þeim sem greitt hafa skemur en þrjú ár og að þér teljið þá aðferð jafngilda eignaupptöku og efist um að hún standist stjórnarskrá og önnur lög.

Um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins gilda lög nr. 1/1997. Sjóðurinn starfar í þremur deildum, A-deild, séreignardeild og B-deild. Í 7. gr. laga nr. 1/1997, segir að stjórn sjóðsins fari með yfirstjórn hans og að hún fjalli um allar meiri háttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Í 33. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en þau lög taka til allra lífeyrissjóða nema þeir séu sérstaklega undanþegnir fyrirmælum laganna, er gert ráð fyrir því að sjóðfélagi geti skotið máli sínu til sjóðstjórnar til úrskurðar.

Í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á því byggt að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds eftir að málinu hefur verið skotið til þess í samræmi við almennar reglur, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Með vísan til þessa sjónarmiðs og framangreindra ákvæða er gilda um stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hef ég talið rétt að mál varðandi lífeyri frá sjóðnum séu borin undir stjórn sjóðsins áður en ég tek þau til athugunar.

Af gögnum málsins verður ekki séð að þér hafið óskað eftir því við stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að hún taki erindi yðar til umfjöllunar. Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki séð að skil­yrði séu uppfyllt til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að svo stöddu. Ég bendi yður því á að þér getið freistað þess að bera erindi yðar formlega undir stjórn sjóðsins. Ég tek jafnframt fram að það hefur verið afstaða stjórnar lífeyrissjóðsins að sjóðurinn falli ekki undir starfssvið umboðs­manns Alþingis. Af hálfu umboðsmanns hefur ekki verið fallist á þessa afstöðu fram til þessa en nýlegir dómar Hæstaréttar og laga­breytingar kunna að gefa tilefni til þess að ég taki á ný afstöðu til þessa álitaefnis, m.a. voru gerðar verulegar breytingar á A-deild sjóðsins með samþykkt laga nr. 127/2016.

Með vísan til framangreinds lýk ég hér með meðferð minni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Farið þér hins vegar þá leið að bera mál yðar undir stjórn Líf­eyrissjóðs starfsmanna ríkisins og teljið yður enn órétti beitta, að fenginni niðurstöðu stjórnarinnar, getið þér leitað til mín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvernig umkvörtunarefnið horfir að öðru leyti við starfssviði mínu.