Skaðabætur. Sanngirnisbætur.

(Mál nr. 10010/2018)

A kvartaði yfir að sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hefði ekki fallist á kröfu um greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, vegna dvalar A á einkaheimili.

Umboðsmaður benti á að í lögum væri skilyrði þess að krafa um sanngirnisbætur væri tekin til meðferðar að fyrir lægi skýrsla vistheimilanefndar eða önnur skýrsla sem ráðherra hefði, að fenginni umsögn vistheimilanefndar, ákveðið að yrði lögð til grundvallar því að slík krafa yrði tekin til meðferðar. Í þessu tilfelli væri hvorugt skilyrðið uppfyllt og því ekki forsendur til að líta svo á að synjun sýslumannsins á því að taka kröfur A til meðferðar hefði ekki verið í samræmi við lög.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. mars 2019, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til erindis yðar frá 13. mars sl. Af erindi yðar fæ ég ráðið að þér séuð ósáttar við að sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hafi ekki fallist á kröfu yðar um greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007, vegna dvalar yðar að [...].

Meðfylgjandi erindi yðar var bréf sýslumannsins á Norðurlandi eystra til yðar frá 17. ágúst sl. Þar kemur m.a. fram að hvorki liggi fyrir skýrsla vistheimilanefndar né önnur skýrsla um það heimili sem umsókn yðar varðaði. Þar sem slík skýrsla er ekki fyrir hendi taldi sýslumaður að ekki væru forsendur til þess að taka til meðferðar kröfu yðar um sanngirnisbætur samkvæmt lögum nr. 47/2010. Í svari sýslumanns kemur einnig fram að engin sveitaheimili hafi verið könnuð og því engar lagaheimildir til að greiða bætur vegna þeirra og að öllum umsóknum vegna þess hafi verið synjað. Þá var einnig tekið fram að nokkrar þeirra hafi verið bornar undir úrskurðarnefnd sanngirnisbóta en að nefndin hafi ávallt komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru lagaheimildir til greiðslu bóta í þeim tilvikum sem bótakrefjandi var vistaður á öðrum stað en þeim stofnunum sem vistheimilanefnd hefði kannað.

   

II

Ég hef áður haft sambærilegt mál og yðar til meðferðar. Af því tilefni ritaði ég dómsmálaráðuneytinu bréf í ágúst sl. í þeim tilgangi að fá upplýsingar um hvort kröfur um sanngirnisbætur, eins og þær sem þér gerðuð, hefðu orðið til þess að ráðuneytið legði mat á hvort gera ætti skýrslur vegna annarra heimila og jafnframt hvaða málsmeðferð væri almennt viðhöfð þegar slíkar kröfur bærust, svo sem hvort ráðuneytið mæti eða athugaði hvort tilefni væri til að kanna nánar staðhæfingar sem kæmu fram í slíkum erindum. Í samhengi við framangreint hafði ég einkum í huga að í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við framangreind lög nr. 47/2010 kemur fram að þrátt fyrir ákvæði laganna sé ráðherra heimilt, að fenginni umsögn nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, að ákveða að aðrar skýrslur en skýrslur vistheimilanefndar verði lagðar til grundvallar því að krafa um sanngirnisbætur verði tekin til meðferðar.

Dómsmálaráðuneytið svaraði fyrirspurn minni í desember sl. Þar var mér tjáð að erindum þeirra einstaklinga sem óskað höfðu eftir greiðslu sanngirnisbóta þegar skýrsla um viðkomandi heimili hefði ekki legið fyrir hefði ekki orðið til þess að mat yrði lagt á það á hvort gera ætti skýrslur um þau heimili og að þeim erindum hefði öllum verið svarað með sambærilegum hætti.

   

III

Í lögum nr. 26/2007, um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, kemur fram að dómsmálaráðherra sé heimilt að setja á fót nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í 5. gr. sömu laga kemur fram að dómsmálaráðherra ákveði skipan nefndarinnar, skipunartíma og þóknun og setji henni erindisbréf þar sem nánar er mælt fyrir um verkefni nefndarinnar. Skal þar einkum kveðið á um það til hvaða starfsemi könnun nefndarinnar taki og það tímabil sem könnunin beinist að.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 47/2010 mæla lögin fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007. Samkvæmt lögum nr. 47/2010 er það skilyrði að hægt sé að krefjast sanngirnisbóta samkvæmt lögunum að annaðhvort liggi fyrir skýrsla vistheimilanefndar, sbr. 2. gr., eða að ráðherra ákveði, að fenginni umsögn vistheimilanefndar, að önnur skýrsla en skýrsla vistheimilanefndar verði lögð til grundvallar því að krafa um sanngirnisbætur verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 47/2010.

Það var ákvörðun Alþingis að koma á fót því fyrirkomulagi sem er mælt fyrir um í lögum nr. 26/2007 og 47/2010. Í kjölfarið hefur ráðherra þurft að taka sérstakar ákvarðanir til þess að íslenska ríkinu væri á grundvelli laga nr. 47/2010 skylt að greiða einstaklingi sem vistaður var á stofnun eða heimili sanngirnisbætur, að undangenginni viðeigandi málsmeðferð. Þær ákvarðanir ráðherra hafa annaðhvort lotið að því að vistheimilanefnd skyldi kanna starfsemi tiltekinnar stofnunar eða heimilis eða leggja skyldi aðra skýrslu en skýrslu vistheimilanefndar til grundvallar kröfu um sanngirnisbætur.

Fyrir liggur að dómsmálaráðherra hefur hvorki tekið ákvörðun um að vistheimilanefnd skuli gera skýrslu um það heimili sem krafa yður um sanngirnisbætur varðar né að aðra skýrslu um heimilið skuli leggja til grundvallar því að kröfur um sanngirnisbætur verði teknar til meðferðar. Frá því að ég ritaði dómsmálaráðherra framangreint bréf í ágúst sl. hefur það enn fremur gerst að stjórnvöld hafa gefið út skýrslu um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, dags. 14. desember 2018. Í máli forsætisráðherra í fréttum af því tilefni kom m.a. fram að því verkefni, sem komið hefði verið á fót með lögum nr. 47/2010, væri lokið og að til nýrrar ákvörðunar löggjafans yrði að koma ef það ætti að greiða fleiri einstaklingum, sem hefðu verið vistaðir á öðrum stofnunum eða heimilum en þegar væri búið að gera skýrslu um, sanngirnisbætur.

Í skýrslunni frá 14. desember sl. kemur jafnframt fram að könnun á sveitaheimilum um landið yrði miklum annmörkum háð. Um væri að ræða atburði sem hefðu átt sér stað fyrir áratugum og að fáir væru til frásagnar um þá, enda margir þeirra sem í hlut ættu látnir. Þá væri um að ræða einkaheimili en ekki stofnanir í þeim skilningi sem hefðu reynt á með lögum um sanngirnisbætur. Einkaheimili væru eðli málsins samkvæmt varin af reglum um friðhelgi einkalífsins og veruleg hætta væri á að könnun á tilvikum þar sem að börn hefðu verið vistuð á einkaheimilum og vist þeirra þar væri næsta ófær. Að frágengnu því verkefni sem væri efni þessarar skýrslu yrði að líta svo á að greiðsla vegna vistheimila og stofnana sem vistuðu börn væri lokið. (Sjá skýrslu um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47/2010, dags. 14. desember 2018, bls. 49-50.)

Samkvæmt lögum nr. 26/2007 og 47/2010 hefur ráðherra svigrúm til þess að ákveða að vistun á stofnun eða heimili geti verið grundvöllur þess að einstaklingi verði greiddar sanngirnisbætur, að undangenginni viðeigandi málsmeðferð samkvæmt lögum. Eins og við rækslu annarra stjórnsýsluverkefna sinna verður ráðherra að byggja slíkar ákvarðanir sínar á málefnalegum grunni auk þess sem hann verður að gæta sjónarmiða um jafnræði. Starfi ráðherra í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar hefur hann samkvæmt lögum Alþingis verulegt svigrúm til ákvörðunar að þessu leyti. Í fyrrgreindu bréfi sýslumannsins á Norðurlandi eystra til yðar frá 17. ágúst sl. kemur ekki fram hvaða sjónarmið liggi því til grundvallar að ekki hafi verið gerð skýrsla um sveitarheimili, þ.m.t. það heimili sem umsókn yðar varðar. Aðeins er vísað til þess að slíkar skýrslur hafi ekki verið gerðar og því séu ekki lagaskilyrði til þess að taka kröfu yðar til meðferðar.

Sem fyrr segir er það gert að skilyrði þess í lögum að krafa um sanngirnisbætur verði tekin til meðferðar að fyrir liggi skýrsla vistheimilanefndar eða önnur skýrsla sem ráðherra hefur, að fenginni umsögn vistheimilanefndar, ákveðið að verði lögð til grundvallar því að slík krafa verði tekin til meðferðar. Hvorugt skilyrðið er uppfyllt um það heimili sem kröfur yðar um sanngirnisbætur varðar. Af þeim sökum hef ég ekki forsendur til þess að líta svo á að synjun sýslumannsins á Norðurlandi eystra á því að taka kröfur yðar til meðferðar hafi ekki verið í samræmi við lög.

   

IV

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.