Lögreglu- og sakamál. Tafir á málsmeðferð. Fyrning sakar. Fundarbeiðni.

(Mál nr. 10818/2020)

A kvartaði annars vegar yfir málsmeðferð lögreglustjórans á Suðurnesjum í kjölfar kæru til embættisins sem og afstöðu ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun lögreglustjórans að fella mál viðkomandi niður. Hins vegar var kvartað yfir að beiðni um fund sem beint var til ritara dómsmálaráðherra hefði ekki verið svarað.

Settur umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu ríkissaksóknara að brotið hefði fyrnst í meðförum lögreglu. Með hliðsjón af aðfinnslum ríkissaksóknara við meðferð málsins hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum og breytingum sem lögreglustjórinn hefði gert á starfsemi sinni í kjölfar málsins taldi settur umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins. Tilmæli hans gætu heldur ekki orðið önnur en að gerðar yrðu umbætur á verklagi.

Hvað laut svarleysi dómsmálaráðuneytisins vegna óskar um fund benti settur umboðsmaður á að almennt ætti fólk ekki fortakslausan rétt til að velja sér við hvaða starfsmenn eða embættismenn, þ. á m. ráðherra, það ætti samskipti við vegna umleitana sinna. Aftur á móti bæri að svara skriflegum erindum nema erindið bæri með sér að ekki væri vænst svara. Það fæli ekki í sér að sá sem bæri upp erindið ætti rétt á sérhverjum þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskaði eftir, heldur réðist réttur að því leyti af öðrum reglum stjórnsýsluréttarins.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. janúar 2021, sem hljóðar svo:

   

I

Ég vísa til erindis yðar, dags. 19. nóvember sl., en af því má leiða að þér kvartið annars vegar yfir málsmeðferð lögreglustjórans á Suðurnesjum í kjölfar kæru yðar til embættisins árið 2015 sem og afstöðu ríkissaksóknara, dags. 12. ágúst sl., þar sem ákvörðun lögreglustjórans, dags. 27. apríl sl., um að fella niður mál nr. [...] með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, var staðfest. Hins vegar kvartið þér yfir því að beiðni yðar um fund með ritara dómsmálaráðherra hinn 28. október sl. hafi ekki verið svarað.

Af gögnum málsins má ráða að þér lögðuð fram kæru á hendur B vegna gruns um [...] hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum árið 2015. Rannsókn málsins hafi beinst að brotum gegn [...] almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hér eftir hgl.). Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi með bréfi, dags. 27. apríl sl., fellt málið niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008. Ætluð brot B gegn [...] gr. hgl. hafi ekki talist nægileg eða líkleg til sakfellis. Þá hafi meint brot B gegn [...] gr. hgl. verið talin fyrnd samkvæmt 80. gr., sbr. 81. og 82. gr. hgl. Lögmaður yðar hafi í kjölfarið kært ákvörðun lögreglustjórans til ríkissaksóknara með tölvupósti, dags. 13. maí sl., sem staðfesti niðurstöðu lögreglustjórans eins og áður greinir. Ríkissaksóknari hafi tekið undir mat lögreglustjóra um fyrningu meintra brota B gegn [...] hgl. sem og heimfærslu og sönnunarstöðu að því er varðar meint brot B gegn [...] gr. hgl.

Í kjölfar kvörtunar yðar var ríkissaksóknara ritað bréf, dags. 4. desember sl. Yður var sent afrit bréfsins og tel ég því ekki tilefni til að rekja efni þess nánar hér. Svör ríkissaksóknara bárust mér hinn 17. desember sl. Í þeim kemur fram að ekki hafi verið óskað frekari skýringa frá lögreglustjóranum eftir að afstaða ríkissaksóknara lá fyrir í málinu. Í henni hafi ríkissaksóknari tekið fram að hann teldi ámælisvert að sök í málum fyrndist í meðförum lögreglu og að embættið hafi með því komið ákveðnum skilaboðum á framfæri við lögreglustjórann. Í kjölfar bréfsins frá 4. desember sl. hafi ríkissaksóknari þó sent lögreglustjóranum fyrirspurn, dags. 11. desember sl., og m.a. óskað eftir upplýsingum um hvers vegna meðferð málsins hafi stöðvast og hvað hafi valdið því að málið fyrndist í meðförum lögreglustjórans.

Í bréfi lögreglustjórans til ríkissaksóknara, dags. 15. desember sl., er því m.a. lýst að mikið álag hafi verið á embættinu á árunum 2017-2019. Embættið hafi t.a.m. haldlagt mikið magn af „hörðum“ fíkniefnum sem hafi krafist mikils af rannsóknardeild embættisins árið 2017. Árið 2018 hafi komið upp nokkur stór sakamál samhliða stórfelldum fíkniefnabrotum og útlendingamálum í kringum Keflavíkurflugvöll sem embættið hafi þurft að setja í forgang. Árið 2019 hafi síðan verið fordæmalaust ár í sögu embættisins varðandi innflutning á fíkniefnum sem og margir sætt gæsluvarðhaldi. Fjármunabrot hafi á þessum tíma ekki fengið forgang fram yfir mál þar sem aðilar sættu íþyngjandi þvingunarráðstöfunum, stórfelld fíkniefnalagabrot og ofbeldisbrot.

Embættið harmi að það hafi þurft að forgangsraða málum þannig að rannsókn máls nr. [...] hafi stöðvast með áðurnefndum afleiðingum. Embættið hafi lagt kapp á að styrkja rannsóknardeild embættisins og breyta verklagi með hliðsjón af auknu álagi sem og til að auka fagmennsku. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hafi t.a.m. verið ráðinn til þess að stýra sviðinu í febrúar sl. og hafa eftirlit með daglegum störfum þess sem og sérfræðingur til þess að stuðla að því að rannsóknir á fjármunabrotum verði faglegri og þær unnar með markvissari og skjótari hætti. Framangreint hafi m.a. verið gert til þess að koma í veg fyrir að atvik eins og þau sem áttu sér stað í máli yðar komi upp aftur.

    

II

1

Í XXII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fjallað um saksókn. Í 145. gr. laganna kemur fram að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið við rannsókn málsins ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi. Telji ákærandi á þessu stigi að rannsaka þurfi mál frekar áður en ákvörðun um saksókn verði tekin getur hann mælt fyrir um frekari rannsóknaraðgerðir af hálfu lögreglu, sbr. 2. mgr. 57. gr.

Með framangreindu ákvæði laga nr. 88/2008 hefur Alþingi falið handhöfum ákæruvalds, þ. á m. ríkissaksóknara, að leggja mat á það í ljósi þeirra upplýsinga og gagna sem aflað hefur verið við rannsókn sakamáls hvort mál teljist fullrannsakað og þá hvort efni séu til að gefa út ákæru á hendur sakborningi. Vegna þess svigrúms sem handhöfum ákæruvalds er samkvæmt framangreindu fengið í lögum nr. 88/2008 við mat á því hvort höfða beri sakamál í kjölfar rannsóknar eða fella mál niður beinist athugun umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, einkum að því að kanna hvort niðurstaða í máli sé reist á málefnalegum sjónarmiðum og mat á gögnum máls sé ekki bersýnilega óforsvaranlegt.

Umboðsmaður Alþingis er hins vegar almennt ekki í aðstöðu til að leggja sjálfstætt mat á hvort efni séu til að ákæra sakborning í máli. Í því sambandi hefur einnig þýðingu að heimildir lögreglu og handhafa ákæruvalds til að taka sakamál sem fellt hefur verið  niður til meðferðar að nýju sæta verulegum takmörkunum vegna hagsmuna sakbornings. Eru því almennt ekki skilyrði til að umboðsmaður geti beint tilmælum þar að lútandi til handhafa ákæruvalds.

Í þessu sambandi hefur umboðsmaður jafnframt litið til þess að almennt er viðurkennt að ríkissaksóknari og aðrir handhafar ákæruvalds hafi töluvert svigrúm til að meta hvort það sem fram hefur komið við rannsókn máls sé nægilegt eða líklegt til sakfellis, m.a. með hliðsjón af því að í sakamálum hvílir sönnunarbyrðin um málsatvik og refsiábyrgð á ákæruvaldinu. Ef mat ákæranda um að ekki sé tilefni til að gefa út ákæru er ekki bersýnilega óforsvaranlegt eða ómálefnalegt að virtum gögnum málsins og gætt hefur verið réttra málsmeðferðarreglna, eru að jafnaði ekki forsendur til að umboðsmaður Alþingis aðhafist frekar í tilefni af slíkum kvörtunum.

Hvað varðar fyrningu sakar er um hana fjallað í kafla IX. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sakir fyrnast samkvæmt ákvæðum 81. og 82. gr., sbr. 80. gr. laganna. Upphaf fyrningarfrests telst frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk, sbr.  1. mgr. 82. gr. Fyrningarfrestur getur aftur á móti rofnað þegar rannsókn sakamáls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi, sbr. 4. mgr. 82. gr. Rannsókn samkvæmt ákvæðinu rýfur þó ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir rannsókninni, ákærandi ákveður að höfða ekki sakamál gegn sakborningi eða ákærandi afturkallar ákæru. Stöðvist rannsókn máls um óákveðinn tíma rýfur rannsóknin heldur ekki fyrningarfrest, sbr. 5. mgr. 82. gr.

Fyrning sakar er svokölluð refsilokaástæða sem leiðir til sýknu, ef mál er höfðað. Í fyrningu sakar felst m.ö.o. að réttur ríkisvaldsins til að koma fram refsingu vegna brota á lögum fellur niður að ákveðnum tímafresti liðnum.

2

Kvörtun yðar beinist sem fyrr segir að málsmeðferð málsins og afstöðu ríkissaksóknara frá 12. ágúst sl. þar sem ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um að fella mál nr. [...] niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, var staðfest.

Af gögnum málsins má ráða að það hafi verið mat ákæruvaldsins að þau atvik sem unnt hafi verið að heimfæra undir [...] gr. hgl. hafi verið framin á árunum 2012 og 2013. Samkvæmt [...] gr. hgl. varða brot gegn ákvæðinu fangelsi allt að 2 árum. Í slíkum tilvikum fyrnist sök á 5 árum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 81. gr. hgl., eða í þessu tilviki í síðasta lagi árið 2018. Til álita hafi þó komið að skýrslutaka af B, sem átti sér stað [...], hafi rofið fyrningu. Í ljósi þess að engar rannsóknaraðgerðir áttu sér stað á milli júní 2017 og janúar 2020 hafi ákvörðun verið tekin um að fella málið niður að þessu leyti í ljósi þess að rannsókn stöðvaðist um óákveðinn tíma samkvæmt 5. mgr. 82. gr. hgl. Ekki hafi því verið unnt að líta svo á að framangreind skýrslutaka hafi rofið fyrningarfrest.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins sem og dómaframkvæmd er varðar m.a. 5. mgr. 82. gr. hgl. tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat ákæruvaldsins að skýrslutaka yfir B hafi ekki rofið fyrningarfrest vegna meintra brota B gegn [...] gr. hgl. og að þau hafi þar með verið talin fyrnd. Ég tel því ekki tilefni til að gera athugasemdir við niðurstöðu ríkissaksóknara að þessu leyti.

Með hliðsjón af gögnum málsins, atvikum þess og því svigrúmi sem játa verður handhöfum ákæruvalds tel ég mig heldur ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við afstöðu ríkissaksóknara í tengslum við [...] gr. hgl. Hef ég þá í huga að ekki verður annað séð en að gætt hafi verið réttra málsmeðferðarreglna og að ríkissaksóknari hafi byggt á málefnalegum sjónarmiðum við úrlausn málsins. Enn fremur tel ég ekki forsendur til að fullyrða af minni hálfu að mat ríkissaksóknara á gögnum málsins hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt. Í þessum efnum hef ég einkum hliðsjón af þeirri meginreglu sem fram kemur í 108. gr. laga nr. 88/2008 um að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu.

Hvað málsmeðferð lögreglustjórans á Suðurnesjum varðar liggur fyrir að ríkissaksóknari hafi í niðurstöðu sinni komið afstöðu sinni til hennar á framfæri við lögreglustjórann með því að benda á að aðfinnsluvert sé að hluti málsins sem talin hafi verið nægilegur eða líklegur til sakfellis hafi fyrnst í meðförum lögreglu. Þá liggur enn fremur fyrir að lögreglustjórinn hafi í kjölfar málsins gert breytingar á starfsemi sinni, svo sem með því að styrkja rannsóknardeild embættisins, ráða nýja starfsmenn og breyta verklagi í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir að sams konar atvik endurtaki sig hjá embættinu. Með framangreint í huga tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins enda gætu tilmæli mín til hlutaðeigandi stjórnvalda ekki orðið önnur en að gerðar yrðu umbætur á verklagi.

3

Að endingu vík ég að þeim hluta kvörtunar yðar sem lýtur að svarleysi dómsmálaráðuneytisins vegna erindis sem þér senduð ritara dómsmálaráðherra 28. október sl. þar sem þér óskuðuð eftir fundi. 

Í tilefni af kvörtun yðar að þessu leyti tel ég rétt að benda yður á að af reglum stjórnsýsluréttarins leiðir almennt ekki að einstaklingar eða lögaðilar eigi fortakslausan rétt til að velja sér við hvaða starfsmenn eða embættismenn, þ. á m. ráðherra, þeir eiga samskipti við vegna umleitana sinna. Stjórnvaldi er þannig að öllu jöfnu í sjálfsvald sett hvort orðið er við ósk um aðstoð tiltekins starfsmanns eða ráðherra, að því tilskildu að leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fullnægt, ef hún á við, og starfsmaðurinn sem veitir leiðbeiningar eða aðstoð búi yfir fullnægjandi þekkingu til að leysa það verkefni réttilega af hendi. Almennt er það ráðherra að meta hvort hann veitir sjálfur viðtal vegna máls eða erindis sem er til meðferðar í ráðuneyti hans eða felur starfsmanni sínum að annast það

Á hinn bóginn gildir sú óskráða meginregla í stjórnsýslurétti að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst á þó ekki að sá sem ber upp erindi eigi rétt á sérhverjum þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir heldur ræðst réttur hans að því leyti af öðrum reglum stjórnsýsluréttarins.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir er lúta að drætti á svörum frá stjórnvöldum við erindum viðkomandi hefur hann ekki talið rétt að óska eftir upplýsingum frá viðkomandi stjórnvaldi um hvað líði meðferð málanna og afgreiðslu fyrr en nokkur tími er liðinn frá því að erindið var sent. Jafnframt hefur hann almennt talið rétt að þeir sem telja tafir vera orðnar á meðferð á erindum sem þeir hafa lagt fyrir stjórnvöld gangi í fyrsta kastið sjálfir eftir viðbrögðum stjórnvalda með ítrekun áður en umboðsmaður tekur málið til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Meðal gagna málsins er ekki að finna frekari gögn er varða þennan þátt kvörtunar yðar, þ. á m. hvort þér hafið ítrekað erindi yðar, en þegar þér kvörtuðuð til mín voru liðnar rúmlega tvær vikur frá því að þér senduð erindi yðar til ráðuneytisins. Ég tel því ekki tímabært að svo stöddu til viðbragða af minni hálfu. Ég tek þó fram að dragist úr hófi að svara fyrirspurn yðar í kjölfar ítrekunar þar um getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi. Þeirri kvörtun skal fylgja upphaflegt erindi yðar til ráðuneytisins sem og gögn um ítrekanir yðar.

   

III

Í ljósi þess sem að framan er rakið er umfjöllun minni um mál yðar hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

 

  

Kjartan Bjarni Björgvinsson